Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Gjaldþrotaskipti
  • Res Judicata


Mánudaginn 17

 

Mánudaginn 17. desember 2001.

Nr. 419/2001.

 

þrotabú Icemex ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf.

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

 

Kærumál. Kyrrsetning. Gjaldþrotaskipti. Res judicata.

 

Að beiðni þrotabús J fór fram kyrrsetningargerð í eignum I. Í máli sem þrotabú J höfðaði til staðfestingar gerðinni var I sýknað að verulegum hluta af kröfum J. I höfðaði mál á hendur þrotabúi J til greiðslu skaðabóta vegna tjóns er I hefði orðið fyrir vegna kyrrsetningarinnar. Talið var að þar sem I hafði verið sýknað að verulegu leyti af kröfum þrotabús J hafi kyrrsetningargerðin fallið niður að því marki sem tildæmdar kröfur voru lægri en verðmæti hinna kyrrsettu eigna. Skilyrði bóta samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 voru því fyrir hendi. Þá var ekki talið að ákvæði 2. mgr. sömu greinar stæðu bótaskyldu í vegi. Ekki var talið sannað að kyrrsetningin hefði orsakað vanskil við erlenda birgja I og rýrnun á lánstrausti I gagnvart þeim. Í ljósi fjárhagsstöðu I og rekstrarhæfi félagsins almennt var talið ósannað orsakasamband milli umræddrar gerðar og tjóns I vegna missis á erlendum umboðum og glataðra innlendra viðskipta. Samkvæmt framlagðri matsgerð var tjón I vegna aukins fjármagnskostnaðar og annarra smærri liða samtals um 965.000 kr. og hafði því mati ekki verið hrundið. Þar sem I hafði samkvæmt óáfrýjuðum héraðsdómi verið sýknað að nokkru leyti en ekki öllu af kröfum J í fyrrgreindu staðfestingarmáli þótti hæfilegt með vísan til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 að áætla það tjón sem hlaust af því að gerðin var umfangsmeiri en efni voru til, 400.000 krónur. Í samræmi við kröfugerð þrotabús I var þessi krafa þess í þrotabú J viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 er nam þeirri fjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2001, þar sem staðfest var sú afstaða skiptastjóra varnaraðila að hafna kröfu Icemex ehf. um bætur samkvæmt kröfulýsingu í þrotabúið. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði bótakrafa hans á hendur varnaraðila, að fjárhæð 10.033.520 krónur, auk málskostnaðar og dráttarvaxta, samtals 12.370.644 krónur, sem hafi stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili einnig kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað, en til vara að krafa sóknaraðila verði verulega lækkuð og að málskostnaður á báðum dómstigum verði í því tilviki felldur niður.

Eftir að málinu var skotið með kæru til Hæstaréttar var bú Icemex ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2001. Hefur sóknaraðili tekið við aðild málsins.

I.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi 1. maí 1998 seldi Júlíus P. Guðjónsson ehf. Icemex ehf. allar eignir sínar og rekstur en Icemex ehf. hafði verið stofnað í febrúar þess árs af Gunnari Júlíussyni, þáverandi framkvæmdastjóra Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. og öðrum nafngreindum manni. Hið selda var annars vegar allar eignir og rekstur seljanda, sem nánar voru tilgreindar í 1. tölulið kaupsamningsins og hins vegar vörubirgðir seljanda, sem nánar voru tilgreindar í 3. töluliðlið samningsins. Var kaupverð þeirra eigna, sem tilgreindar voru í 1. tölulið samningsins, samtals 28.120.000 krónur og var það sundurliðað þannig að fasteign seljanda að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, var seld fyrir 10.500.000 krónur, tvær tilgreindar bifreiðir og lyftari samtals fyrir 2.150.000 krónur, lagerhillur, skrifstofuhúsgögn og skrifstofutæki samtals fyrir 3.270.000 krónur og viðskiptasambönd fyrir 12.200.000 krónur. Kaupverð þessara eigna skyldi samkvæmt 2. tölulið samningsins annars vegar greitt með yfirtöku nánar tilgreindra lána, er hvíldu á hinum seldu eignum, en hins vegar með útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 15.824.216 krónur. Vörubirgðirnar samkvæmt 3. tölulið samningsins voru seldar á 20.913.388 krónur og skyldi kaupandi samkvæmt sama tölulið greiða fyrir þær annars vegar með greiðslu á yfirdráttarskuld seljanda við Búnaðarbanka Íslands hf. að fjárhæð um 5.000.000 krónur en hins vegar með tveimur jafnháum víxlum, öðrum með gjalddaga 1. nóvember 1998 en hinum með gjalddaga 1. maí 1999. Skyldi kaupandi samkvæmt samningnum yfirtaka rekstur seljanda frá samningsdegi.

 Áðurnefnd félög gerðu viðauka við framangreindan kaupsamning 1. júní 1998. Samkvæmt honum skyldi kaupandi yfirtaka nánar tilgreint skuldabréf að fjárhæð 2.000.050 krónur og áfallnar verðbætur að fjárhæð 404.513 krónur af veðskuld við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sem við fyrri samningsgerð hefðu verið vanmetnar, en veðskuld þessi hvíldi á Smiðjuvegi 2. Í viðbótarsamningnum var tekið fram að þetta væri eitt þeirra lána, sem kaupandi hafði tekið að sér að greiða samkvæmt kaupsamningnum 1. maí 1998, en láðst hefði að geta lánsins berlega við fyrri samningsgerð. Þá voru aðilar sammála um að viðskiptavild hefði verið ofmetin í fyrri samningi, en þar var hún nefnd viðskiptasambönd, og skyldi umsamið kaupverð hennar lækka um helming eða í 6.100.000 krónur. Allar þessar breytingar skyldu koma til lækkunar á víxlum þeim, sem kaupandi átti að gefa út samkvæmt 3. tölulið kaupsamningsins 1. maí 1998.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 1998 var bú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili óskaði eftir því með kyrrsetningarbeiðni 8. janúar 1999 að sýslumaðurinn í Kópavogi kyrrsetti eignir Icemex ehf., sem nægðu til tryggingar fullnustu á kröfum varnaraðilaðila að fjárhæð 53.781.636 krónur. Þær kröfur sem óskað var tryggingar fyrir voru í beiðninni tilgreindar í fimm liðum. Í fyrsta lagi framangreind veðskuld við Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf., að eftirstöðvum 9.340.335 krónur, sem Icemex ehf. hefði með áðurgreindum kaupsamningi tekið að sér að greiða, en hvíldi þó enn á þotabúinu þar sem skuldskeyting hefði ekki orðið. Í öðru lagi skuld við Búnaðarbanka Íslands hf. vegna ljósritunarvélar, sem Icemex ehf. hefði með framangreindum kaupsamningi tekið að sér að greiða, en hvíldi þó enn á þrotabúinu að eftirstöðvum að fjárhæð 60.261 króna. Í þriðja lagi skuldabréf, sem Icemex ehf. hefði gefið út samkvæmt 2. tölulið framangreinds kaupsamnings, sem hefði verið gjaldfellt vegna vanskila að fjárhæð 15.824.216 krónur. Í fjórða lagi 15.913.388 krónu krafa vegna þeirra tveggja víxla, sem út skyldu gefnir samkvæmt 3. tölulið framangreinds kaupsamnings, en í fórum þrotabúsins hefðu fundist tvö víxileyðublöð útfyllt að hluta að fjárhæð 7.956.694 krónur hvort, sem hvorki væru samþykkt eða árituð um útgáfu. Var í beiðninni sérstaklega tekið fram að ekki væri varðandi þennan kröfulið tekið tillit til framangreinds viðbótarsamnings 1. júní 1998 um lækkun skuldarinnar að öðru leyti en varðaði verðbætur að fjárhæð 404.513 krónur. Í fimmta lagi viðskiptaskuld Icemex ehf. við varnaraðila að fjárhæð 9.057.350 krónur, sem byggðist á viðskiptareikningi þrotamanns við Icemex ehf. að teknu tilliti til bakfærslna og leiðréttinga, sem endurskoðandi búsins hefði gert á honum. Samtals væri höfuðstóll þeirra krafna, sem óskað væri kyrrsetningar til trygginga á 50.195.550 krónur.

Sýslumaðurinn í Kópavogi hóf kyrrsetningargerð vegna ofangreindrar beiðni 8. janúar 1999. Gerðinni var frestað, en fram haldið 11. sama mánaðar. Fyrir sýslumann munu hafa verið lögð skjöl varðandi samþykki Fjárfestingarbanka atvinnulísins hf. fyrir skuldskeytingu til Icemex ehf. á veðskuld samkvæmt fyrsta lið kyrrsetningarbeiðnarinnar og samþykki Búnaðarbanka Íslands hf. á skuldskeytingu til sama félags vegna láns samkvæmt öðrum lið beiðninnar. Taldi sýslumaður rétt að lækka kröfu varnaraðila sem þessu næmi en lýsti yfir kyrrsetningu til tryggingar öðrum kröfum varnaraðila í eftirtöldum eignum sóknaraðila: Eignarhluta Icemex ehf. í Smiðjuvegi 2, tveimur tilgreindum bifreiðum, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum samkvæmt framlögðum lista, áfengisbirgðum á lager samkvæmt framlögðum lista og áfengisbirgðum í eigu sóknaraðila í tollvörugeymslu. Ekki fór fram virðing á hinum kyrrsettu eignum.

Sýslumaðirinn í Kópavogi tók 13. janúar 1999 fyrir beiðni sóknaraðila um endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar. Lýsti sýslumaður yfir að sá hluti áfengisbirgða sóknaraðila í tollvörugeymslu, sem sett yrði trygging fyrir væri leystur undan veðböndum kyrrsetningar. Skyldi tryggingin vera í formi innlagnar jafnhárri cif verði útleystra áfengisbirgða á bankabók í vörslu lögmanns tollvörugeymslunnar. Við þessa endurupptöku gerðarinnar bauð sóknaraðili fram greiðslu á gjaldföllnum afborgunum skuldabréfs þess, sem greindi í þriðja lið kyrrsetningarbeiðninnar, að fjárhæð 954.147 krónur. Veitti umboðsmaður varnaraðila greiðslunni viðtöku með fyrirvörum, er lutu að hugsanlegu riftunarmáli varnaraðila á grundvelli laga nr. 21/1991 og uppreikningi gjalddaga skuldarinnar.

 Með bréfi 14. janúar 1999 óskaði Icemex ehf. enn eftir endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar og krafðist þess aðallega að hún yrði niður felld að öllu leyti en til vara að hluta til, enda hefði krafan samkvæmt skuldabréfinu fallið niður með því að bréfinu hefði verið komið í skil og aðrar kröfur varnaraðila væru vafasamar. Sýslumaðurinn í Kópavogi tók beiðnina fyrir 15. janúar 1999. Í endurriti úr gerðarbók sýslumanns kemur fram að samkvæmt upplýsingum aðila væri áætlað nettó andvirði kyrrsettra eigna sóknaraðila 30.500.000 krónur en eftir stæði af kröfum varnaraðila 41.412.757 krónur. Varnaraðili taldi kröfur sínar ekki niður fallnar að undanskilinni framangreindri greiðslu Icemex ehf. 13. janúar að fjárhæð 954.147 krónur og mótmælti því að gerðin yrði endurupptekin. Varð sýslumaður ekki við kröfu Icemex ehf. um endurupptöku gerðarinnar.

Varnaraðili höfðaði mál á hendur Icemex ehf. 20. janúar 1999 og krafðist greiðslu á 40.838.166 krónum auk nánar tilgreindra dráttarvaxta en að frádreginni áðurnefndri afborgun að fjárhæð 954.147 krónur. Þá krafðist hann staðfestingar á framangreindri kyrrsetningargerð 11. janúar 1999, sem endurupptekin var að hluta 13. sama mánaðar. Í málinu voru lögð fram möt varðandi verðmæti þeirra eigna, sem seldar voru með 1. tölulið kaupsamningsins 1. maí 1998. Þar á meðal er mat tveggja dómkvaddra manna á viðskiptavild Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. Í niðurstöðukafla matsgerðar þeirra segir meðal annars: „Hafa verður í huga í þessu samhengi að verið var að selja eignir og viðskiptavild gjaldþrota fyrirtækis. Fyrirtækið hafði misst helstu umboð sín skömmu áður en sala þessi átti sér stað og virtist sá skaði endanlega gera út um rekstrarhæfi þess. Ekki verður séð að þau umboð sem eftir stóðu hafi getað staðið undir áframhaldandi rekstri ein og sér. Það má því spyrja hversu mikils virði viðskiptavild félags sé við slíkar aðstæður. Það er því niðurstaða undirritaðra að verð það sem greitt var fyrir viðskiptavild Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., samtals 6.100.000, sbr. viðauka við kaupsamning dagsettann 1. júní 1998, hafi ekki verið of hátt.“ Meðan á meðferð málsins stóð lækkaði varnaraðili kröfu sína niður í 34.333.653 krónur að frádreginni framangreindri afborgun. Með því féllst varnaraðili á að taka tillit til lækkunar á fyrrgreindum víxlum samkvæmt þriðja tölulið kaupsamnings 1. maí 1998 í samræmi við það sem kveðið var á um í viðbótarsamningi 1. júní 1998, þar á meðal vegna lækkunar á söluverði viðskiptavildar seljanda.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu var kveðinn upp 28. maí 1999. Er í niðurstöðu hans talið að enda þótt óumdeilt væri með aðilum að skuldabréfið, sem Icemex ehf. gaf út samkvæmt 2. tölulið kaupsamningsins 1. maí 1998, hafi verið gjaldfellt samkvæmt heimild í bréfinu sjálfu, hafi því verið komið í skil með móttöku varnaraðila á framangreindri greiðslu 13. janúar 1999 og sé gjaldfelling þess þar með úr sögunni. Var Icemex ehf. því ekki dæmt til greiðslu andvirðis bréfsins. Þá taldi dómurinn að eðlilegt hefði verið að endurskoðandi þrotabúsins gerði þær leiðréttingar, sem raun bar vitni, á viðskiptareikningi Icemex ehf. hjá Júlíusi P. Guðjónssyni ehf.  miðað við gögn, sem fyrir lágu í skjölum búsins á þeim tíma. Síðar hafi hins vegar komið fram gögn, sem geri það að verkum að taka verði skýringar Icemex ehf. til greina. Samkvæmt því hafi Júlíus P. Guðjónsson ehf. staðið í viðskiptaskuld við félagið að fjárhæð 3.392.650 krónur og var Icemex ehf. því sýknað af þeim kröfulið, sem laut að viðskiptaskuld við varnaraðila að fjárhæð 9.057.650 krónur. Þá taldi dómurinn að Icemex ehf. skuldaði enn 7.912.320 krónur vegna víxlanna, sem um var fjallað í 3. tölulið kaupsamningsins 1. maí 1998, eftir að tekið hefði verið að fullt tillit til viðbótarsamnings aðila frá 1. júní 1998. Að teknu tilliti til skuldajafnaðarkröfu Icemex ehf. var félagið dæmt til að greiða varnaraðila 4.519.670 krónur að viðbættum nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Staðfesti dómurinn kyrrsetningargerðina 11. janúar með þeim breytingum er leiddu af endurupptöku hennar 13. sama mánaðar en þó að teknu tilliti til framangreindrar úrslausnar dómsins um fjárkröfur varnaraðila. Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu Icemex ehf., en var með dómi réttarins 23. mars 2000 vísað frá Hæstarétti.

Með kröfulýsingu 26. október 2000 lýsti Icemex ehf. bótakröfu í þrotabúið að fjárhæð 7.000.122 krónum að höfuðstól en 7.944.151 krónu að meðtöldum dráttarvöxtum og málskostnaði. Var kröfunni lýst sem forgangskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Með símbréfi sama dag hafnaði skiptastjóri kröfunni. Var jafnframt boðað til skiptafundar 2. nóvember 2000 samkvæmt 120. gr. laga nr. 21/1991 um afstöðu skiptastjóra til kröfunnar. Með bréfi 2. nóvember mótmælti Icemex ehf. afstöðu skiptastjóra til kröfunnar og fór þess á leit að ágreiningi vegna hennar yrði vísað til úrlausnar héraðsdóms. Á skiptafundi í búinu sama dag var bókað að ágreiningi um kröfuna yrði vísað til Héraðsdóms Reykjaness til úrlausnar. Með bréfi skiptastjóra 10. nóvember 2000 mun hafa verið krafist úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ágreining aðila með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Icemex ehf. beiddist dómkvaðningar matsmanns með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2000 til að meta tjón það, sem félagið hafi orðið fyrir, vegna framangreindrar kyrrsetningar. Var þess farið á leit að hinn dómkvaddi maður mæti eftirtalda tjónsþætti: Skaðaða viðskiptavild vegna greiðsludráttar við erlenda birgja, kostnað vegna spjalla á lánstrausti, beinan kostnað vegna kyrrsetningarinnar og loks annað tjón. Var matsmaður dómkvaddur 15. desember 2000 í samræmi við matsbeiðni. Matsfundur haldinn 25. janúar 2001. Þann 29. janúar barst matsmanni kröfugerð frá endurskoðanda matsbeiðanda, þar sem í einstökum liðum var lagt mat á hinn fjárhagslega skaða hans. Á öðrum matsfundi 13. febrúar 2001 lagði varnaraðili fram greinargerð þar sem þeirri kröfugerð var mótmælt.

Matsgerð var dagsett 23. febrúar 2001. Samkvæmt 1. lið  hennar var ekki lagt mat á skaðaða viðskiptavild Icemex ehf. þar sem mat væri lagt á tjónið út frá öðrum forsendum í 4. lið hennar. Í 2. lið matsgerðarinnar var lagt mat á spjöll á lánstrausti Icemex ehf. vegna missis á greiðslufresti við erlenda birgja annars vegar og aukins fjármagnskostnaðar vegna kyrrsetningarinnar hins vegar. Varðandi fyrri liðinn taldi matsmaður að breyting hefði orðið á greiðslufresti þriggja nafngreindra erlendra birgja Icemex ehf. á síðari hluta ársins 1999. Þótti matsmanni hæfilegt að meta tjón vegna þessa „á um 475.000 kr., hafi kyrrsetningin leitt til þess.“ Varðandi síðari liðinn var niðurstaða matsmanns að hækkun fjármagnskostnaðar sóknaraðila á árinu 1999 mætti fyrst og fremst rekja til skuldastöðu félagsins fyrir kyrrsetninguna enda hefði athugun matsmanns leitt í ljós að eiginfjárstaða Icemex ehf. hafi verið neikvæð um 2.700.000 krónur skömmu eftir gjaldþrot Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. Þó hafi innlagnir á geymslureikning í vörslu lögmanns tollvörugeymslunnar vegna útleystra kyrrsettra áfengisbirgða aukið lánsfjárþörf Icemex ehf. Á kyrrsetningartímabilinu hafi verið lagðar 6.700.000 krónur á geymslureikninginn og þótti matsmanni hæfilegt að áætla aukinn fjármagnskostnað vegna þess 600.000 krónur. Í þriðja lið matsgerðarinnar er lagt mat á beinan kostnað vegna kyrrsetningargerðarinnar. Er kostnaðurinn samtals talinn nema 3.381.000 krónum. Eru stærstu liðirnir kostnaður vegna lögmanns á árinu 1999 1.165.104 krónur, dæmdur málskostnaður í fyrrgreindu máli til staðfestingar lögbannsgerðinni 850.000 krónur og lögmannsþóknun, sem enn hefði ekki verið gerður reikningur fyrir að fjárhæð 855.255 krónur. Aðrir smærri liðir eru þýðingarkostnaður 50.000 krónur, lögfræðikostnaður vegna tollvörugeymslu 145.198 krónur, kostnaður endurskoðanda 170.443 krónur og vinna dómkvadds matsmanns 145.000 krónur. Í fjórða lið matsgerðarinnar, sem nefndist annað tjón, er annars vegar metið tjón vegna missis á erlendum umboðum og hins vegar tjón vegna glataðra innlendra viðskipta. Endurskoðandi matsbeiðanda hélt því fram í kröfugerð til matsmanns að missi fimm vínumboða mætti rekja til vanskila við hina erlendu birgja. Um þetta sagði í matsgerðinni: „Hafi matsbeiðandi misst framangreind vínumboð vegna kyrrsetningar á eignum og rekstri hans, sem leitt hafi til vanskila við birgjana þykir matsmanni rétt að meta það fjárhagstjón.“ Lagði matsmaður síðan mat á tapaða álagningu vegna sölu áfengis frá þessum birgjum á þriggja ára tímabili að gefnum nánar tilgreindum forsendum og var niðurstaða hans að tjónið næmi 6.030.000 krónum. Varðandi tjón vegna glataðra innlendra viðskipta tók matsmaður fram að í kröfugerð endurskoðanda matsbeiðanda til matsmanns sé tilgreint tjón, sem hann telji sig hafa orðið fyrir vegna glataðra viðskipta við þrjú nafngreind innlend veitingahús. Síðan sagði í matsgerðinni: „Þykir matsmanni rétt að meta það fjárhagstjón sem matsbeiðandi gerir kröfur um.“ Síðar í matsgerðinni sagði: „Hafi matsbeiðandi misst framangreind viðskipti vegna kyrrsetningar, sem leitt hafi til skorts á vöruflæði til framangreindra veitingahúsa, þykir matsmanni rétt að meta það tjón.“ Var niðurstaða matsmanns að tjón vegna missis þessara viðskipta hafi að nánar gefnum forsendum, sem byggðu á tapaðri álagningu, numið 1.750.000 krónum. Var niðurstaða matsgerðarinnar að tjón það, sem matsbeiðandi hafi orðið fyrir hafi numið samtals 12.236.000 krónum. Með bréfi 9. mars 2001 lagði Icemex ehf. fram nýja kröfulýsingu í þrotabú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. byggða á niðurstöðu framangreinds mats og dró jafnframt til baka fyrri kröfulýsingu 26. október 2000.

II.

Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. skal gerðarbeiðandi bæta það tjón, sem ætla má að hlotist hafi af því að kyrrsetningargerð hafi verið umfangsmeiri en efni voru til, ef sýknað er að nokkru en ekki öllu af kröfu gerðarbeiðanda og gerðin fellur niður að því marki. Endanleg kröfugerð varnaraðila í máli til staðfestingar kyrrsetningargerð þeirri, sem fram fór í eignum Icemex ehf. 11. janúar 1999, var um greiðslu 34.333.653 króna. Icemex ehf. var með dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 1999 dæmt til að greiða varnaraðila 4.519.678 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Félagið var því sýknað að verulegum hluta af kröfum varnaraðila. Eins og að framan er rakið fór ekki fram virðing á hinum kyrrsettu eignum við kyrrsetningargerðina 11. janúar 1999. Við fyrirtöku sýslumannsins í Kópavogi  á endurupptökubeiðni Icemex ehf. á kyrrsetningargerðinni 15. þess mánaðar var hins vegar bókað í gerðabók sýslumanns að samkvæmt upplýsingum aðila væri áætlað nettó andvirði kyrrsettra eigna 30.500.000 krónur. Með fyrrgreindum dómi féll kyrrsetningargerðin í eignum sóknaraðila niður í merkingu 3. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 að því marki, sem verðmæti kyrrsettra eigna Icemex ehf. var umfram tildæmda kröfu varnaraðila. Skilyrði bótaskyldu varnaraðila samkvæmt 3. mgr 42. gr. ofangreindra laga eru því fyrir hendi enda standi önnur atriði því ekki í vegi.

 Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 skulu bætur vegna kyrrsetningar þó aðeins dæmdar ef sýknað er vegna atvika, sem fyrst urðu eftir lok gerðar, ef ætla má að gerðarbeiðandi hafi ekki átt þá kröfu, sem gerðin átti að tryggja. Niðurstaða fyrrgreinds dóms Héraðsdóms Reykjaness var á því reist varðandi þann lið kröfu varnaraðila, er laut að viðskiptaskuld Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. og var að fjárhæð 9.057.650 krónur, að varnaraðila hafi á grundvelli fyrirliggjandi gagna í skjölum búsins verið rétt að gera þær leiðréttingar á viðskiptareikningi Icemex ehf., sem leiddu til þessarar kröfugerðar. Sýknu byggði héraðsdómur hins vegar á því að síðar hafi komið fram gögn, sem gerðu það að verkum að taka yrði skýringar Icemex ehf. til greina. Samkvæmt þessu reisti héraðsdómur niðurstöðu sína varðandi þennan lið á því að varnaraðili hafi ekki átt þessa kröfu og telst bótaskilyrðum 2. mgr. 42. gr. því fullnægt varðandi þennan kröfulið. Sýknu af þeim kröfulið varnaraðila, sem laut að skuld samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 15.824.216 krónur að frádreginni afborgun að fjárhæð 954.147 krónur reisti héraðsdómur hins vegar á því að skuldabréfinu, sem réttilega hefði verið gjaldfellt vegna vanskila, hefði verið komið í skil á ný með móttöku fyrrgreindrar afborgunar 13. janúar 1999 og væri gjaldfelling þess þar með úr sögunni. Þessi héraðsdómur sætti ekki endurskoðun og hefur því réttaráhrif samkvæmt 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt þessari niðurstöðu héraðsdóms átti varnaraðili gjaldfallna kröfu samkvæmt skuldabréfinu þegar kyrrsetningargerðin fór fram 11. janúar 1999 og er skilyrðum 2. mgr. 42. gr. laga 31/1990 til greiðslu bóta því ekki fullnægt varðandi þennan kröfulið samkvæmt orðanna hljóðan. Varðandi þennan kröfulið ber hins vegar til þess að líta að varnaraðili taldi við fyrirtöku sýslumanns á endurupptökubeiðni Icemex ehf. 15. janúar 1999 að kröfur sínar væru ekki niður fallnar þrátt fyrir greiðslu fyrrnefndrar afborgunar og mótmælti því að gerðin yrði endurupptekin. Hafnaði sýslumaður endurupptöku að því búnu. Héraðsdómur komst samkvæmt framansögðu að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi hinn 13. janúar 1999 ekki lengur átt gjaldfallna kröfu samkvæmt þessum lið sem réttlætti kyrrsetningu. Samkvæmt því stóðst ekki sú afstaða varnaraðila að halda kröfu sinni um kyrrsetningu til streitu við endurupptöku gerðarinnar 15. janúar 1999. Verður að þessu virtu ekki talið að 2. mgr 42. gr. laga nr. 31/1990 standi bótaskyldu varnaraðila í vegi að því er þennan kröfulið varðar.

Bótakröfu sína reisir varnaraðili á framangreindri matsgerð dómkvadds manns 23. febrúar 2001, þó þannig að hann lækkar kröfu sína frá niðurstöðu matsins um sama hlutfall og nam hlutfalli þeirrar fjárhæðar, sem varnaraðila var dæmd með fyrrnefndum dómi héraðsdóms, af verðmæti kyrrsettra eigna Icemex ehf. Í fyrri þætti 2. liðs matsgerðarinnar er, eins og að framan er rakið, lagt mat á tjón Icemex ehf. vegna missis á greiðslufresti við erlenda birgja. Af áður tilvitnuðu orðalagi matsgerðarinnar verður ráðið að matsmaður hafi ekki tekið afstöðu til samhengis milli kyrrsetningarinnar og aukins kostnaðar Icemex ehf. við það að breyting varð á greiðslufresti hinna erlendu birgja á síðari hluta ársins 1995. Staðfesti matsmaður það í framburði sínum fyrir héraðsdómi. Þegar til þessa er litið og að eiginfjárstaða Icemex ehf. var samkvæmt athugun matsmanns neikvæð um 2.700.000 krónur skömmu eftir gjaldþrot Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. og þeirrar niðurstöðu fyrrgreinds mats á viðskiptavild Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. að missir helstu umboða skömmu fyrir gjaldþrot félagsins hafi endanlega gert út um rekstrarhæfi þess verður fráleitt talið sannað að kyrrsetningin hafi orsakað vanskil við hina erlendu birgja og rýrnun á lánstrausti sóknaraðila gagnvart þeim.

 Það sama á við varðandi niðurstöður matsmanns um annað tjón í 4. lið matsgerðarinnar. Þar er lagt mat annars vegar á tjón Icemex ehf. vegna missis á erlendum umboðum og hins vegar á tjón félagsins vegna glataðra innlendra viðskipta. Ekki verður séð að matsmaður hafi tekið afstöðu til samhengis kyrrsetningargerðarinnar og tjóns Icemex ehf. vegna framangreindra atvika. Verður í ljósi þessa sem og fjárhagsstöðu Icemex ehf. og rekstrarhæfi félagsins að telja ósannað að orsakasamband sé milli kyrrsetningargerðarinnar og tjóns þess, sem 4. liður matsgerðarinnar tekur til.

 Samkvæmt síðari þætti 2. liðs matsgerðarinnar áætlar matsmaður að aukinn fjármagnskostnaður Icemex ehf. vegna kyrrsetningarinnar hafi numið um 600.000 krónum. Er þá einungis áætlaður fjármagnskostnaður við fjárbindingu vegna innlagna Icemex ehf. á geymslureikning til að leysa út kyrrsettar birgðir úr tollvörugeymslu. Hefur þessari niðurstöðu matsmanns ekki verið hrundið. Í 3. lið matsgerðarinnar er lagt mat á beinan kostnað vegna kyrrsetningarinnar. Stærstu þættirnir eru dæmdur málskostnaður og lögmannskostnaður Icemex ehf. Þetta eru kostnaðarliðir, sem ýmist hefur fallið endanlegur dómur um að Icemex ehf. skuli bera, eða eru til úrlausnar við ákvörðun málskostnaðar í þessu máli. Hið sama á við varðandi kostnaðarlið vegna vinnu dómkvadds matsmanns. Verður því ekki tekið tillit til þeirra við ákvörðum bóta vegna kyrrsetningarinnar. Standa þá eftir þrír smærri liðir samtals að fjárhæð 365.641 króna, sem ekki hefur verið hrundið. Samkvæmt þessu er tjón sóknaraðila vegna þeirra þátta matsgerðarinnar, sem eftir standa, samtals um 965.000 krónur.

 Þar sem Icemex ehf. var samkvæmt framansögðu sýknað að nokkru leyti en ekki öllu af kröfum varnaraðila með dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 1999 í máli til staðfestingar kyrrsetningar á eignum félagsins þykir hæfilegt með vísan til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 að áætla það tjón, sem hlaust af því að gerðin var umfangsmeiri en efni voru til, 400.000 krónur. Verður því viðurkennd krafa sóknaraðila í þrotabú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. sem forgangskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 400.000 krónur. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er forgangskrafa sóknaraðila, þrotabús Icemex ehf., samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 400.000 krónur, við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Júlíusar P. Guðjónssonar ehf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2001.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 1. desember 2000. 

Sóknaraðili er Icemex ehf. kt. 450298-2399, Smiðjuvegi 2, Kópavogi.

Varnaraðili er þrotabú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. kt. 480388-1439.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að staðfest verði krafa sóknaraðila sem lýst var í þrotabúið sem forgangskröfu samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 10.033.520 kr. auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þá er þess krafist að bæði sé tekin afstaða til bótafjárhæðarinnar og bótaskyldunnar gagnvart sóknaraðila. Sé fallist á bótaskyldu en ekki bótafjárhæðina, þá sé lægri fjárhæð tiltekin.

Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega að sýknað verði af kröfum sóknaraðila.  Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila sæti verulegri lækkun að mati dómsins.

Í aðalkröfu krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins en í varakröfu krefst varnaraðili þess að málskostnaður verði felldur niður.

Þann 13. júlí sl. var kveðinn upp úrskurður um frávísunarkröfu varnaraðila þar sem þeirri kröfu hans var hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 12. september sl.

I

Málsatvik:

Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 12. október 1998 var bú Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Við skiptameðferðina kom fram að allar eignir fyrirtækisins höfðu verið seldar sóknaraðila með kaupsamningi dags. 1. maí 1998 og viðauka við þann samning dags. 1. júní s.á.

Af hálfu þrotabúsins var lögð fram kyrrsetningarbeiðni á hendur sóknaraðila 8. janúar 1999 hjá sýslumanninum í Kópavogi fyrir kröfu að fjárhæð 53.781.636 kr. Þann 11. janúar 1999 lýsti sýslumaðurinn í Kópavogi yfir kyrrsetningu í eignum sóknaraðila til tryggingar ofangreindri kröfu. Til tryggingar greiðslu skaðabóta vegna hugsanlegs tjóns af völdum kyrrsetningarinnar lagði þrotabúið fram ábyrgðaryfirlýsingu tollstjórans í Reykjavík, dags. 11. janúar 1999.

Þann 13. janúar 1999 var kyrrsetningin endurupptekin þ.e. aflétt var kyrrsetningu af hluta birgða og bankabók kyrrsett í stað þeirra. Þann 15. janúar 1999 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Kópavogi endurupptökubeiðni kröfuhafa þar sem krafist var afléttingar kyrrsetningar að öllu leyti eða að hluta en ekki var á þá beiðni fallist.

Mál til staðfestingar kyrrsetningargerðinni og til greiðslu 40.838.166 kr. var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 27. janúar 1999.  Dómur í málinu var kveðinn upp 28. maí 1999 og var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 4.519.670 krónur með dráttarvöxtum frá 1. maí 1998 til greiðsludags.  Þá var kyrrsetning staðfest í eftirtöldum eignum sóknaraðila:  Fasteigninni að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, eignarhluta gerðarþola samkvæmt kaupsamningi dags. 1. maí 1998, bifreiðunum YJ-803 og RT-719, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum, áfengisbirgðum á lager stefnda og áfengisbirgðum stefnda í Tollvörugeymslunni Zimsen ehf., samkvæmt uppskrift þann 11. janúar 1999, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hafði sætt með dóminum.  Sóknaraðili áfrýjaði þeim dómi, en málinu var vísað frá Hæstarétti með dómi réttarins uppkveðnum 23. mars 2000.

Með kröfulýsingu dags. 26. október 2000, móttekinni af skiptastjóra sama dag, var lýst bótakröfu sóknaraðila, sem forgangskröfu skv. 3. tl. 2. mgr. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, í þrotabúið. Krafa um skaðabætur er byggð á því að sóknaraðili hafi orðið fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni og að kyrrsetningargerð sú sem þrotabúið fékk fram hafi verið mun meiri en tilefni hafi verið til.

Með símbréfi til lögmanns sóknaraðila, einnig dags. sama dag, hafnaði skiptastjóri kröfunni og boðaði til sérstaks skiptafundar samkvæmt 120. gr. laga nr. 21/1991 til að fjalla um afstöðu skiptastjóra.

Með símbréfi dags. 2. nóvember 2000 bárust skiptastjóra mótmæli lögmanns sóknaraðila við afstöðu skiptastjóra til kröfunnar og jafnframt ósk lögmannsins um að skiptastjóri vísaði ágreiningnum til héraðsdóms til úrlausnar. Á skiptafundi í búinu sama dag var bókað að ágreiningi um framangreinda kröfu yrði vísað til úrlausnar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Með bréfi skiptastjóra dags. 10. nóvember 2000 var krafist úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ágreining aðila með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfugerð sína á því að lagaskilyrði fyrir bótakröfu hans á hendur varnaraðila komi fram í 42. gr. 1. nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann. Í 3. mgr. þeirrar greinar komi fram að sé sýknað að nokkru leyti en ekki öllu af kröfu gerðarbeiðanda í staðfestingarmáli og gerðin falli niður að því marki, skuli gerðarbeiðandi bæta það tjón sem ætla má að hlotist hafi af því að gerðin hafi verið umfangsmeiri en efni stóðu til.

Ljóst sé af niðurstöðu staðfestingarmáls þess er varnaraðili höfðaði að sóknaraðili hafi verið  sýknaður að nokkru leyti, enda höfuðstóll hinnar dæmdu kröfu rétt liðlega einn tíundi af stefnufjárhæð, sem þó hafði tekið um 10 milljón króna lækkun frá kyrrsetningarbeiðni.  Að sama skapi hafi kyrrsetning verið felld niður að þessu marki, sbr. dómsorð í máli nr. E 59/1999 frá 28. maí 1999: "Kyrrsetningargerðin...........er staðfest, en þó að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum."

Sóknaraðili kveður kröfugerð varnaraðila í tengslum við kyrrsetninguna hafa lækkað stöðugt frá því að kyrrsetningaraðgerðir hans hófust.  Upphafleg krafa sem kyrrsetningarbeiðninni hafi verið ætlað að tryggja hafi verið 53.781.636,- kr.

Krafan hafi verið sundurliðuð þannig:

- Veðkrafa FBA sem hafi ekki verið skuldskeytt lýst í þrb.

kr.   9.340.335,-

- Krafa BÍ vegna láns sem kyrrsetningarþoli hafi átt að yfirtaka

kr.        60.261,­-

- Skuldabréf gjaldfallið

kr. 15.824.216,­-

- Vangoldnar víxilfjárhæðir

kr. 15.913.388,­-

- Viðskiptaskuld kyrrsetningarþola við þrotabúið

kr.   9.057.350,­-

- Dráttarvextir

kr.   2.401.701,­-

- Innheimtukostnaður

kr.   1.172.885,­-

    Skuldskeytingar FBA og BÍ.

Strax við fyrstu fyrirtöku þann 8. janúar 1999 hafi kyrrsetningarþoli lagt fram gögn um skuldskeytingu FBA og BÍ. Hafi kyrrsetningarbeiðandi hafnað að taka tillit til þessara gagna við þá fyrirtöku, þrátt fyrir að þau væru sönnun um það að skuldskeyting hefði átt sér stað þvert á það sem haldið var fram í kyrrsetningarbeiðninni. Við framhald gerðarinnar á fyrsta virka degi eftir upphaf gerðarinnar þann 11. janúar 1999 hafi kyrrsetningarþoli lagt fram yfirlýsingar frá FBA og BÍ þar sem kröfulýsingar í þrotabúið voru afturkallaðar. Enn hafi kyrrsetningarbeiðandi neitað að lækka kröfu sína, "þær kröfur hafi ekki verið afturkallaðar þegar kröfuskrá hafi verið samin 5. janúar sl. og skiptastjóra hafi ekki enn borist afturköllun þessara kröfuhafa" hafi verið bókað eftir honum.  Sýslumaður hafi hins vegar tekið þessi mótmæli til greina og lækkað kröfu kyrrsetningarbeiðanda um þessar fjárhæðir. Afstaða kyrrsetningarbeiðanda lýsi vel því offorsi sem hafi verið í öllum málatilbúnaði hans.

Krafa vegna gjaldfallins skuldabréfs.

Vegna þessarar kröfu hafi kyrrsetningarþoli bent á við fyrstu fyrirtöku að óhægt væri um vik vegna greiðslna á þessu skuldabréfi þar sem skiptastjóri hefði lýst því yfir, m.a. við skýrslutöku þann 26. október 1998, að til stæði að höfða riftunarmál, sem síðar varð raunin. Við framhald þeirrar fyrirtöku þann 11. janúar hafi komið fram að skattrannsóknarstjóri hafði nokkru fyrr tekið skuldabréfið í sína vörslu auk þess sem á það var bent að þrotabúið hefði ekki haft uppi neina tilburði til að innheimta bréfið. Skiptastjóri hafi hafnað þessum mótbárum, en dregið síðan í land tveimur dögum síðar, eða þann 13. janúar 1999, þegar málið hafi verið tekið fyrir að beiðni gerðarþola, en þá hafi fulltrúi kyrrsetningarbeiðanda tekið við greiðslu af skuldabréfinu og fallist á að því væri komið í skil.  Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki fallist á að aflétta kyrrsetningu fyrir eftirstöðvum skuldabréfsins sem komið var í skil.

Vangoldnar víxilfjárhæðir.

Sóknaraðili kveður kröfu um hina vangoldnu víxla hafa verið mótmælt á sömu forsendu og skuldabréfakröfunni; yfirlýsingar skiptastjóra um riftun hafi sett allt í stopp, auk þess sem skattrannsóknarstjóri hafi tekið umrædda víxla í sínar hendur og á það hafi verið bent að skiptastjóri hefði enga tilraun gert til að innheimta víxlana.  Við fyrirtökuna þann 11. janúar hafi verið bent á að fyrri víxillinn, sem hafi átt að vera gjaldfallinn, væri fallinn þar sem kaupverðið hafi verið lækkað með sérstökum viðaukasamningi við kaupsamning Icemex ehf.

og Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., sem og hefði síðari víxillinn lækkað af sömu ástæðu og vegna yfirtöku á verðbótum að fjárhæð kr. 400.000,- og skuldskeytingar við BÍ að fjárhæð 1,5 milljón kr.  Kyrrsetningarþoli hafi einnig bent á að téðum viðaukasamningi hafi ekki verið rift.  Ekki hafi kyrrsetningarbeiðandi fallist á afléttingu kyrrsetningar að hluta að þessu marki. Það hafi síðan ekki verið fyrr en dómkvaddir matsmenn hafi metið verðmæti hinnar keyptu viðskiptavildar Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. síst of lága miðað við það sem gert hafi verið í viðaukasamningnum, að kyrrsetningarbeiðandi hafi gefið sig.  Hafi hann lækkaði kröfugerðina í staðfestingarmálinu sem þessu nam.

Viðskiptaskuld Icemex við þrotabúið.

Sóknaraðili kveður á því byggt í kyrrsetningarbeiðni og síðan í öllum málatilbúnaði að viðskiptaskuld Icemex við þrotabúið hafi verið rúmlega 9 milljónir kr. og að lagt hafi verið til grundvallar að vörukaupareikningur Icemex á hendur Júlíusi P. Guðjónssyni ehf. að fjárhæð 10 milljónir kr. væri markleysa.  Kyrrsetningarþoli hafi strax mótmælt við fyrstu fyrirtöku niðurstöðu endurskoðanda þrotabúsins og hafi þann 11. og 13. janúar lagt fram skýringar endurskoðanda Icemex og Júlíusar P. Guðjónssonar ehf.  Hafi skiptastjóri haldið þessu til streitu allt þar til dómari hafi hafnað þessari kröfu.  Kyrrsetningarhafa hafi verið í lófa lagið, tveimur dögum eftir kyrrsetninguna, þegar hann fékk örugg gögn frá endurskoðanda kyrrsetningarþola og hins gjaldþrota félags, um að ekki væri viðskiptaskuld til að dreifa, að fella niður kyrrsetninguna að hluta.  Hafi hann með því getað lágmarkað tjón sóknaraðila.

Eftirmál staðfestingar.

Sóknaraðili kveðst telja sérstaka ástæðu til vekja athygli á eftirmálum staðfestingarmálsins. Í kjölfar dómsins hafi þess verið farið á leit við skiptastjóra að hann aflétti strax hluta kyrrsetningarinnar, enda tildæmdar kröfur miklum mun lægri en verðmæti hinna kyrrsettu eigna.  Skiptastjóri hafi hafnað þessu og því hafi endurupptökubeiðni verið send sýslumanninum í Kópavogi.  Hann hafi hins vegar hafnað endurupptöku málsins, þar sem lagaheimildir hafi skort.  Þessi ákvörðun hafi verið kærð til Héraðsdóms Reykjaness en síðan fallið frá þessari kæru eftir að gengið hafi verið frá samkomulagi við skiptastjóra.  Með þessari makalausu stífni hafi skiptastjóri haldið áfram að auka við tjón kyrrsetningarþola.

Bótaábyrgð.

Sóknaraðili kveðst hafa sýnt fram á það með mati dómkvadds matsmanns hvert tjón sóknaraðila hafi verið í heildina.  Niðurstaða hans hafi verið talsvert hærri en ráð hafi verið fyrir gert í þeirri kröfulýsingu sem skiptastjóri hafnaði.  Vegna þessa hafi sóknaraðili sent nýja kröfulýsingu í samræmi við niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns.  Varnaraðili hafi kyrrsett eignir fyrir 30.000.000,- kr. en hafi einungis fengið dóm fyrir 5.500.000,- kr.  Kyrrsetning eigna sóknaraðila hafi valdið því tjóni sem rakið sé í matsgerð hins dómkvadda matsmanns.  Stórum hluta þessa tjóns hafi varnaraðili getað forðað með því að falla frá þeim kröfum sem síðar voru felldar niður eða sýknað vegna í staðfestingarmálinu.  Málatilbúnaðurinn hafi þannig verið með þeim hætti hjá varnaraðila að kyrrsetningargerðin hafi verið mun umfangsmeiri en efni hafi staðið til.  Skilyrði 3. mgr. 42. gr. kyrrsetningarlaga séu því skilyrðislaust fyrir hendi.  Varnaraðila hafi dugað að kyrrsetja eignir fyrir 5.500.000,­kr. og hafi þannig getað sleppt því að kyrrsetja áfengisbirgðir, en það hafi umfram allt verið sú kyrrsetning sem hafi valdið tjóninu hjá sóknaraðila.

Dómkrafan sé ekki nema 18% af verðmæti eigna sóknaraðila sem kyrrsettar hafi verið og umfang kyrrsetningarinnar hafi því verið rúmlega fimmfalt of mikið.  Heildartjón sóknaraðila vegna kyrrsetningarinnar hafi verið 12.236.000,- kr.  Ekki sé rökrétt að kyrrsetningarþoli beri meira en tæplega fimmtung tjónsins.  Það sem út af standi krefjist sóknaraðili að varnaraðili beri, eða 10.033.520,- kr.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína um sýknu á því að skilyrði bótaskyldu varnaraðila geti ekki verið fyrir hendi, þar sem lögmæti kyrrsetningargerðarinnar hafi verið staðfest.  Héraðsdómur hafi í staðfestingarmálinu metið það svo að kyrrsetning í eignum sóknaraðia hafi ekki verið of umfangsmikil miðað við endanlega niðurstöðu um kröfufjárhæð varnaraðila.  Þetta sé berum orðum tekið fram í forsendum dómsins, eins og áður sé vitnað til:  "Ber því að staðfesta kyrrsetningargerðina ... að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa stefnanda hefur sætt með dómi þessum..."

Varnaraðili hafni því þannig að sóknaraðila sé unnt eins og hagar til í máli þessu að byggja bótakröfu sína á 42. gr. kyrrsetningarlaga nr. 31/1990, þar sem ekki sé hægt að beita ákvæðinu um bótakröfu fyrir tjón af kyrrsetningargerð sem fyrir liggi dómsúrlausn um að hafi ekki verið of víðtæk miðað við þá fjárkröfu sem henni hafi verið ætlað að tryggja og sem staðfest hafi verið með dómi.  Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð að sýknað hafi verið af kyrrsetningargerðinni að verulegu leyti með dómi í staðfestingarmálinu.  Þessu hafni varnaraðili sem rangtúlkun á niðurstöðunni af hálfu sóknaraðila.  Niðurstaða staðfestingarmálsins sé skýr að þessu leyti; kyrrsetningargerðin hafi verið staðfest.

Þá byggir varnaraðili sýknukröfu á ástæðum er varða framlagða matsgerð Stefáns H. Hilmarssonar, sem dómkvaddur hafi verið til að meta meint tjón sóknaraðila.

Varnaraðili telur að verulegur munur sé á forsendum umbeðins mats eins og þær séu settar fram í matsbeiðni sóknaraðila annars vegar og forsendum þeim sem farið hafi verið eftir við matið af hálfu matsmanns hins vegar. Þannig sé í matsgerðinni ekki lagt mat á "skaðaða viðskiptavild", eins og þó hafi verið kjarninn í forsendum matsbeiðnar, heldur metið margþætt annað tjón, samkvæmt skilgreiningum í "greinargerð" endurskoðanda sóknaraðila, tjón sem sóknaraðili nefndi í matsbeiðni "annað tjón", en sem hafi verið með öllu óskilgreint í matsbeiðninni.  Varnaraðili hafi mótmælt "greinargerð" endurskoðandans í heild við matsmanninn, auk þess að gera athugasemdir við efnisatriði hennar, en matsmaður virðist þó að nokkru leyti hafa farið eftir athugasemdum varnaraðila við matið.

Varnaraðili kveður framangreint misræmi í forsendum leiða til þeirrar niðurstöðu að ný kröfulýsing sóknaraðila sprengi af sér þann ramma sem matsbeiðnin hafi verið sett fram í og endanleg kröfugerð sóknaraðila verði tvöföld sú fjárhæð sem viðskiptavild sóknaraðila hafi verið metin á með matsgerð Birgis Finnbogasonar og Þorsteins Víglundssonar.  Á þeirri matsgerð, þar sem viðskiptavild sóknaraðila var metin þannig að verð hennar samkvæmt kaupsamningi hafi "...alls ekki verið of lágt..." byggi sóknaraðili upphaflega kröfulýsingu sína og hljóti því að vera við það bundinn.

Varnaraðili mótmælir því að byggt verði á matsgerðinni eins og hún er úr garði gerð samkvæmt framansögðu þar sem hún sé úr öllu samræmi við matsbeiðni og forsendur hennar.  Varnaraðili álíti tjón sóknaraðila því enn jafn ósannað og fyrr, sem varnaraðili telji að leiða hljóti til sýknu varnaraðila af kröfum hans.

Að öðru leyti byggi varnaraðili sýknukröfu sína á því að sóknaraðili hafi engin gögn lagt fram um samhengi milli kyrrsetningargerðarinnar og tjóns síns eins og það sé sundurliðað í kröfulýsingu hans og greinargerð, en bæði skjölin byggi á matsgerð dómkvadds matsmanns, Stefáns H. Hilmarssonar.  Í matsgerðinni, sem nánar verði vikið að síðar, sé þannig engin afstaða tekin til samhengis kyrrsetningargerðarinnar og tjóns sóknaraðila eins og það sé þar metið.  Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á orsakasamband milli tjóns síns og kyrrsetningargerðarinnar sem þar með verði að teljast ósannað. Vísar varnaraðili til umfjöllunar um varakröfu hér á eftir um aðrar mögulegar ástæður þess að sóknaraðili kunni að hafa orðið yrir skakkaföllum í rekstri sínum.

Fallist dómurinn ekki á framangreind sjónarmið varnaraðila varðandi forsendur matsgerðarinnar kveðst varnaraðili byggja varakröfu um lækkun krafna sóknaraðila á tilvitnaðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, Birgis Finnbogasonar og Þorsteins Víglundssonar.  Í niðurstöðum matsgerðarinnar um sölu viðskiptavildar Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. til sóknaraðila, komi fram að um hafi verið að ræða "viðskiptavild gjaldþrota fyrirtækis... " sem "...hafði misst helstu umboð sín skömmu áður en sala þess átti sér stað...", "...virtist sá skaði endanlega gera út um rekstrarhæfi þess..." og að spyrja megi "...hvers virði viðskiptavild fyrirtækis sé við slíkar aðstæður..." og loks að "Þetta þýði með öðrum orðum að virði viðskiptavildar félagsins sé ekkert..."  Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila sé ekki tækt að krefjast bóta fyrir skaða á einskis verðri viðskiptavild.  Slík kröfugerð gangi gegn öllum viðteknum sjónarmiðum skaðabótaréttarins og krefst varnaraðili á þeim grundvelli lækkunar á kröfu sóknaraðila sem nemi tjóni sem heimfært yrði undir "skaðaða viðskiptavild" sóknaraðila.  Varnaraðili byggir á því að "spillt lánstraust", "missir greiðslufrests", "missir umboða" og "töpuð viðskipti" séu allt þættir í því sem sóknaraðili nefni einu nafni "skaðaða viðskiptavild."

Varnaraðili kveður að hvergi sé í forsendum matsbeiðnar né mati dómkvadds matsmanns vikið að kostnaði sem hafi sparast sóknaraðila við öflun þeirra tekna sem sóknaraðili byggi á að hafi farið á mis vegna kyrrsetningargerðarinnar. Þess í stað sé byggt á hráum álagningarprósentum og þeim jafnað til brostinna hagnaðarvæntinga.  Þeir sem lágmarksþekkingu hafi á verslunarrekstri, hvort sem það sé innflutnings- og heildverslun eða smásöluverslun, viti að kostnaður greiðist af álagningu og engar tölur eða gögn hafi verið lögð fram af hálfu sóknaraðila sem geri grein fyrir þeim þætti.  Varnaraðili rökstyður því kröfur um lækkun krafna sóknaraðila einnig við þessa misfellu í málatilbúnaði sóknaraðila.

Að öðru leyti byggir varnaraðili á að viðskiptavild sé háð fjölmörgum ytri og innri aðstæðum í rekstri fyrirtækis og að því beri að líta til fleiri þátta en kyrrsetningargerðarinnar eingöngu, varðandi mat á afkomu sóknaraðila eftir kyrrsetningargerðina, þ.m.t. auk annars, gjaldþrots varnaraðila og þess að viðskiptamönnum sóknaraðila hafi hlotið að vera ljós innbyrðis tengsl fyrirtækjanna, en annar stofnenda sóknaraðila, Gunnar Júlíusson, hafi á þeim tíma sem salan átti sér stað, verið framkvæmdastjóri Júlíusar P. Guðjónssonar ehf.

Varnaraðili mótmæli sérstaklega þeim þáttum matsgerðarinnar þar sem fjallað sé um tjón sóknaraðila af missi greiðslufrests og umboða. Í gögnum sem endurskoðandi sóknaraðila hafi lagt fyrir dómkvaddan matsmann sé að finna staðfestingu á hinu gagnstæða, þ.e. að aðeins hvað varðar einn þeirra liggi fyrir að greiðslufrestur hafi raunverulega glatast. Varðandi annan liggi ekkert fyrir um hver greiðslufrestur hafi verið fyrir kyrrsetningargerðina né eftir hana og varðandi þann þriðja liggi fyrir að greiðslufrestur hafi ekki glatast.  Sóknaraðili hafi heldur ekki sýnt fram á orsakarsamhengi hér, þ.e. að jafnvel þótt þessi greiðslukjör hafi verið fyrir hendi og sóknaraðili misst þau, hafi kyrrsetningargerðin valdið því að hann hafi misst þau.

Þá liggi ekkert fyrir um hlut viðskipta sóknaraðila við þessa tilteknu viðskiptamenn, sem hlutfall af heildarveltu sóknaraðila, en varnaraðili telur að það hljóti að skipta máli við mat á viðskiptavild sóknaraðila, þ.e. sóknaraðili hljóti að eiga viðskipti við fleiri aðila og viðskiptavild í þeim viðskiptum hljóti að bera að skoða sem hluta af viðskiptavild sóknaraðila í heild.

Varðandi þann þátt matsgerðar sem taki á missi viðskipta sé hið sama uppi og fyrr greini, að engin gögn liggi fyrir um samhengi kyrrsetningargerðar og missis viðskipta og enn sé gengið út frá tapaðri álagningu sem staðreynd um tapaðan hagnað án tillits til kostnaðar.

Undir þeim lið matsgerðarinnar sem taki á auknum fjármagnskostnaði sóknaraðila, þyki varnaraðila gæta nokkurs misræmis hjá matsmanni.  Matsmaðurinn hafi þannig komist að þeirri niðurstöðu að hækkun á fjármagnskostnaði sóknaraðila árið 1999 megi að mestu rekja til skuldastöðu félagsins fyrir kyrrsetninguna, en áætlar engu að síður aukinn fjármagnskostnað vegna hennar 600.000 kr.  Varnaraðili mótmælir réttmæti þessarar niðurstöðu matsmanns.  Varnaraðili byggir enn fremur á því að þar sem fyrir liggi að einkahlutafélag sóknaraðila hafi verið stofnað í febrúar 1998 og ekki hafið starfsemi að marki fyrr en um mitt það ár, þegar það keypti eignir og rekstur Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. hljóti að vera raunhæfara að bera þennan kostnað saman við vanskilakostnað Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., áður en það félag var tekið til gjaldþrotaskipta.

Varðandi niðurstöðu matsgerðar um beinan kostnað sóknaraðila af kyrrsetningargerð bendi varnaraðili enn og aftur á að kyrrsetningin hafi verið staðfest með dómi og að 850.000,00 kr. af lögfræðikostnaði sóknaraðila sé dæmdur málskostnaður í staðfestingarmáli vegna kyrrsetningar.  Í héraði hafi þessi málskostnaður numið 600.000,00 kr. og fyrir Hæstarétti 250.000,00 kr.; hvort tveggja málskostnaður sem sóknaraðili hafi verið dæmdur til að greiða á forsendum endanlegrar niðurstöðu í staðfestingarmálinu, þ.e. hér sé ekki um að ræða kostnað sem byggist á upphaflegri kröfugerð matsþola.  Kostnaður TVG sé á sama hátt kostnaður sem hafi fallið til af kyrrsetningu áfengisbirgða matsbeiðanda í Tollvörugeymslu, en kyrrsetning í þessum birgðum hafi verið staðfest með dómi.  Þóknun til lögmanns sóknaraðila, sem nemi samkvæmt matsgerðinni tvöfalt hærri fjárhæð en þessar fjárhæðir lagðar saman, hljóti að vera til komin að verulegu leyti vegna reksturs kyrrsetningarmálsins hjá sýslumanni, í héraði og fyrir Hæstarétti og byggir varnaraðili á því að hið sama eigi við um hana og dæmdan málskostnað, að sóknaraðili verði að bera þennan kostnað sjálfur samkvæmt úrslitum kyrrsetningarmálsins.

Varnaraðili kveðst telja að öðru leyti ástæðu til að vekja enn athygli dómsins á að í matsgerð virðist að takmörkuðu leyti tekið mið af því sem varnaraðili telji að skipti mestu um versnandi afkomu matsþola, þ.e. þeim aðstæðum sem sköpuðust við gjaldþrot Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., en missir á helstu umboðum þess félags áður en til gjaldþrots kom, sé í fyrirliggjandi matsgerð Birgis Finnbogasonar og Þorsteins Víglundssonar, talin meginskýring þess að rekstrargrundvöllur þess félags brast og félagið varð gjaldþrota. 

Það sé álit varnaraðila að mat á afkomu sóknaraðila eftir kyrrsetningargerðina verði aldrei raunhæft án samanburðar við afkomu Júlíusar P. Guðjónssonar ehf. fram að gjaldþroti þess félags.

Í varakröfu mótmælir varnaraðili því að bætur verði dæmdar með tilliti til reikningslegs hlutfalls milli verðmætis kyrrsettra eigna í kyrrsetningarmálinu og niðurstöðufjárhæðar kyrrsetningarmálsins.  Engin dæmi munu þess að slík vinnubrögð hafi hlotið náð fyrir augum íslenskra dómstóla, auk þess sem varnaraðili geti þess að niðurstaða kyrrsetningarmálsins segi ekki alla sögu um skuldastöðu sóknaraðila við varnaraðila þar sem nú sé rekið milli aðilanna mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness, um verulegan hluta þeirra krafna sem fjallað hafi verið um í staðfestingarmálinu. þ.e. skuldabréf að nafnverði 15.824.216,00 kr.  Þá liggi og fyrir að endanlegt söluverð fasteignarinnar að Smiðjuvegi 2, Kópavogi hafi verið 10.500.000 kr., sbr. afsal og samkomulag, en ekki 16.000.000 kr. eins og sóknaraðili hafi gengið út frá við tilgreiningu á verðmæti kyrrsettra eigna og muni þar því 5.500.000 kr.

Loks byggir varnaraðili á því, komi til þess að stefnanda verði ákvarðaðar bætur að álitum í máli þessu, að allar aðgerðir varnaraðila til að ná fram tryggingu fyrir kröfum sínum á hendur sóknaraðila með kyrrsetningu sem og í öðru tilliti, hafi verið sjálfsagðar miðað við fyrirliggjandi gögn á hverjum tíma og eðlilega og löglega að þeim staðið á allan hátt og að tekið verði tillit til þessa við ákvörðun á bótafjárhæð.

IV

Niðurstaða

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-59/1999 uppkveðnum 28. maí 1999 var kyrrsetning staðfest í eftirtöldum eignum sóknaraðila: Fasteigninni að Smiðjuvegi 2, Kópavogi, eignarhluta gerðarþola samkvæmt kaupsamningi dags. 1. maí 1998, bifreiðunum YJ-803 og RT-719, lagerhillum, skrifstofuhúsgögnum og skrifstofutækjum, áfengisbirgðum á lager stefnda og áfengisbirgðum stefnda í Tollvörugeymslunni Zimsen ehf., samkvæmt uppskrift þann 11. janúar 1999 og endurupptöku gerðarinnar þann 13. janúar 1999.

Sóknaraðili byggir bótakröfu sín á hendur varnaraðila á 3. mgr. 42. gr. laga 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.  Þar segir að sé sýknað að nokkru leyti en ekki öllu af kröfu gerðarbeiðanda og gerðin falli niður að því marki, skuli gerðarbeiðandi bæta það tjón, sem ætla megi að hlotist hafi af því, að gerðin hafi verið umfangsmeiri en efni stóðu til.   

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness í framangreindu staðfestingarmáli var sú að dómkröfur varnaraðila máls þessa voru lækkaðar til mikilla muna, eða úr 34.333.653.- kr. í 4.519.670.- kr.  Taldi dómurinn að skilyrði hefðu verið fyrir kyrrsetningunni á þeim tíma sem hún var framkvæmd og miðað við þau gögn sem þá voru til staðar.  Var því kyrrsetningargerðin staðfest í framangreindum eignum stefnda, að teknu tilliti til þeirrar úrlausnar sem fjárkrafa varnaraðila hafði sætt með dóminum.  Þar sem kyrrsetningin var staðfest með framangreindum dómi í öllum þeim eignum sóknaraðila sem kyrrsettar höfðu verið er ekki uppfyllt það skilyrði 3. mgr. 42. gr. laganna að gerðin hafi fallið niður að því marki sem sýknað hafi verið af kröfu gerðarbeiðanda og er því ekki grundvöllur til að fallast á kröfu sóknaraðila um bætur samkvæmt kröfulýsingu í þrotabú varnaraðila.  Ber því að hafna þeirri kröfu hans um bætur. 

Þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 kr. í málskostnað.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila um bætur samkvæmt kröfulýsingu í þrotabú varnaraðila.

Sóknaraðili, Icemex ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi Júlíusar P. Guðjónssonar ehf., 100.000 kr. í málskostnað.