Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


           

Mánudaginn 25. október 1999.

Nr. 415/1999.

Eggert Arnórsson

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Héraðsdómari ákvað að fella niður mál, sem E höfðaði gegn Í, með vísan til 6. mgr. 17. gr. og b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem E  varð ekki við tilmælum dómara um að ráða sér hæfan umboðsmann. Talið var að héraðsdómaranum hefði verið þetta heimilt án þess að úrskurður yrði kveðinn upp, en að ákvörðun dómarans sætti ekki kæru og var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 1999 um að fella niður mál sóknaraðila á hendur varnaraðila. Skilja verður kæru sóknaraðila svo að hann krefjist að ákvörðun þessi verði felld úr gildi og málið tekið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til 6. mgr. 17. gr. og b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála felldi héraðsdómari niður mál sóknaraðila gegn varnaraðila með hinni kærðu ákvörðun. Var þetta heimilt samkvæmt 3. mgr. 105. gr. sömu laga án þess að úrskurður yrði upp kveðinn, enda verður ekki ráðið af bókun um þetta efni í þingbók að ágreiningur hafi staðið um ákvörðunina og gerði varnaraðili ekki kröfu um málskostnað. Samkvæmt 143. gr. laga nr. 91/1991 sæta ekki kæru til Hæstaréttar annað en úrskurðir í einkamáli um nánar tiltekin atriði, sem þar eru tæmandi talin. Ákvörðun héraðsdómara um atriði varðandi einkamál getur hins vegar aldrei ein út af fyrir sig sætt kæru. Brestur þannig kæruheimild í málinu og er því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Héraðsdómur Reykjavíkur 29. september 1999.                         

                Ár 1999, miðvikudaginn 29. september, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara. Fyrir er tekið: Málið nr.  E-170/1999 Eggert Arnórsson gegn fjármálaráðuneyti.

Skjöl málsins nr. 1- 25 liggja frammi.

                Stefnandi sækir sjálfur þing.

                Af hálfu stefnda sækir þing Jón G. Tómasson hrl.

                Dómarinn innti stefnanda eftir því hvort hann hefði fengið lögmann til að fara með málið fyrir sig.  Stefnandi kveðst hafa leitað til nokkra lögmanna og sýnir dómaranum bréf lögfræðing sem ekki hefur getað tekið málið að sér.         

                Dómarinn gætti leiðbeiningaskyldu sinnar gagnvart stefnanda sem er ólöglærður.

                Með vísan til 6. mgr. 17. gr. og b liðar 1. mgr. 105. gr. laga um meðferð einkamála er mál þetta fellt niður.