Hæstiréttur íslands
Mál nr. 411/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Réttargæsla
|
|
Mánudaginn 28. júní 2010. |
|
Nr. 411/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn A (Hjálmar Blöndal Guðjónsson hdl.) |
Kærumál. Réttargæsla.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu A um skipun réttargæslumanns vegna rannsóknar lögreglumáls.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um skipun réttargæslumanns vegna rannsóknar lögreglumálsins nr. 007-2010-10507. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka fyrrgreinda kröfu hans til greina.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2010.
Með bréfi, dagsettu 17. apríl 2010, hefur Hjálmar Blöndal hdl. f.h. sóknaraðila, A, kt. [...], krafist þess að sóknaraðila verði, skv. 2. mgr. 42. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, skipaður réttargæslumaður til að gæta hagsmuna hans og veita honum aðstoð vegna rannsóknar lögreglumálsins nr. [...]. Þá krefst lögmaður sóknaraðila þóknunar sér til handa.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í kröfu sóknaraðila er rakið að 15. febrúar sl. hafi hann komið í höfuðstöðvar fjölmiðlafyrirtækisins [...] við [...] í Reykjavík, en til stóð að átt yrði við hann viðtal í útvarpsþætti. Þegar hann gekk inn í húsið hefði ráðist að honum maður, vopnaður hnífi. Árásarmaðurinn, X, hefði sveiflað hnífnum í átt að honum og munað minnstu að sóknaraðili „hefði orðið fyrir lífshættulegu tjóni eða þaðan af verra“. Hefði sóknaraðili varist árásinni með skúringamoppu, en viðstaddir síðan náð að stöðva árásarmanninn. Sóknaraðili hefði samdægurs kært málið til lögreglustjórans á höfuðborgsvæðinu. Þann 5. mars sl. hefði honum borist tölvubréf lögreglu þar sem hafnað var beiðni um að honum yrði tilnefndur réttargæslumaður. Sóknaraðili telji að lögreglu sé skylt að verða við ósk hans um að tilnefna honum réttargæslumann, en rannsókn beinist að broti gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ljóst sé að árásin sem hann varð fyrir var fólskuleg og mildi að ekki hlaust verra af. Ef komi til ákæru geti háttsemi árásarmannsins talist tilraun til manndráps, skv. 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi sóknaraðili hlotið verulegt tjón á andlegu heilbrigði, eins og komi fram í vottorði Áfallasmiðstöðvar Landspítala-háskólasjúkrahúss. Sé það mat sóknaraðila að mál hans falli augljóslega undir 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála og sé ámælisvert af lögreglu að verða ekki við beiðni hans um tilnefningu réttargæslumanns.
Í vottorði Margrétar Blöndal, starfsmanns Áfallasmiðstöðvar Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsettu 17. mars 2010, kemur fram að sóknaraðili hafi fengið áfallahjálp eftir atvikið. Sóknaraðili hafi greinileg merki um áfallastreituviðbrögð, sem lýsi sér í andlegri vanlíðan, ofurárvekni og ofurviðbrögðum við áreiti, sem minni á atburðinn.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að beiðni sóknaraðila um skipun réttargæslumanns verði hafnað, enda sé ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála. Í máli því sem lögregla hafi til rannsóknar hafi kærði verið borinn sökum um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga. Hins vegar verði ekki ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði og ljóst sé að ekki hafi verið brotið gegn honum af einhverjum nákomnum, svo sem áskilið sé í nefndu lagaákvæði. Ekki hafi enn verið aflað vottorðs slysa- og bráðamóttöku vegna komu sóknaraðila þangað, en komið hafi fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi verið ómeiddur eftir árásina. Vottorð Áfallamiðstöðvar Landspítala-háskólasjúkrahúss um að sóknaraðili beri greinileg merki um áfallastreituröskun gefi tilefni til frekari rannsóknar á hugsanlegum andlegum afleiðingum hins meinta brots, en af því verði ekki ráðið að sóknaraðili hafi orðið fyrir verulegu tjóni á andlegu heilbrigði, eða að um varanlegt tjón sé að ræða. Sé því að mati varnaraðila rétt að hafna beiðni sóknaraðila um skipun réttargæslumanns að svo stöddu.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er lögreglu skylt eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.-253. gr. sömu laga og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn. Ef lögregla neitar eða lætur hjá líða að tilnefna brotaþola réttargæslumann skv. 41. gr. getur hann leitað atbeina dómara og óskað eftir því að sér verði skipaður réttargæslumaður, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um meðferð sakamála.
Fyrir liggur að rannsókn í máli því sem hér um ræðir beinist að meintu broti á XXIII. kafla almennra hegningarlaga. Kemur því til skoðunar hvort uppfyllt eru önnur skilyrði 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála til tilnefningar réttargæslumanns. Óumdeilt er að meint brot var ekki framið af einhverjum sem er sóknaraðila nákominn. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi hlotið líkamstjón af völdum hins meinta brots. Svo sem rakið hefur verið bera fyrirliggjandi gögn með sér að sóknaraðili beri ákveðin merki um áfallastreituröskun. Að mati dómsins verður þó ekki ráðið af þeim gögnum að sóknaraðili hafi hlotið verulegt tjón af völdum hins meinta brots svo sem áskilið er í greindu lagaákvæði. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála til tilnefningar réttargæslumanns. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um skipun réttargæslumanns skv. 2. mgr. 42. gr. sömu laga.
Ákvörðun um málskostnað, þ.m.t. þóknun lögmanns sóknaraðila, bíður lokaniðurstöðu málsins.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um skipun réttargæslumanns vegna rannsóknar lögreglumálsins nr. [...].