Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
|
|
Mánudaginn 22. maí 2006. |
|
Nr. 254/2006. |
K(Óskar Sigurðsson hrl.) gegn M (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um umgengnisrétt á meðan forsjárdeila aðila væri til meðferðar fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl 2006, þar sem hafnað var kröfu beggja málsaðila um að mælt yrði fyrir um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða, en kveðið á um að stúlkan skyldi eiga lögheimili hjá sóknaraðila, varnaraðili greiddi með henni tiltekið meðlag og að umgengni varnaraðila við barnið skyldi vera aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla til sunnudagssíðdegis, annan hvern laugardag og miðvikudagseftirmiðdag í vikunni eftir helgarumgengni. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að í brott verði felld umgengni varnaraðila við barnið annan hvern laugardag, en að öðru leyti verði úrskurðurinn staðfestur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti og verður henni því ekki dæmdur gjafsóknarkostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykir mega staðfesta þá tilhögun um umgengni til bráðabirgða sem þar er ákveðin.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 30. mars sl., var þingfest 21. febrúar sl. en það barst dóminum með bréfi sóknaraðila þann 13. janúar sl. Fyrir dóminum er nú rekið ágreiningsmál aðila um forsjá barnsins og var það þingfest 15. febrúar 2006.
Krafa sóknaraðila, M, [kt. og heimilisfang], er að honum verði ákvörðuð forsjá barnsins, A, [kt.], til bráðabirgða, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, á meðan leyst verði úr forsjármáli sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila. Í því máli gerir sóknaraðili kröfu um að honum verði falin forsjá barnsins, umgengni varnaraðila við barnið verði ákvörðuð og kveðið á um meðlagsgreiðslur úr hendi varnaraðila með barninu. Við munnlegan flutning málsins gerði sóknaraðili varakröfu þess efnis að ef sóknaraðila verði ekki falin forsjá barnsins til bráðabirgða ákveði dómari umgengni barnsins við sóknaraðila, þannig að barnið verði hjá sóknaraðila um helgar, til skiptis frá fimmtudegi til sunnudags og frá laugardegi til sunnudags. Verði annað fyrirkomulag ákveðið varðandi umgengni þá verði hún aldrei minni en tíu daga í mánuði. Þá gerði sóknaraðili kröfu um að varnaraðila yrði gert að greiða honum meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili, K, [kt. og heimilisfang], lagði ekki fram sérstaka greinargerð í málinu, en við þingfestingu málsins var lögð fram greinargerð úr forsjármálinu sem rekið er fyrir dóminum. Í greinargerðinni er gerð krafa um að varnaraðila verði falin forsjá barnsins og jafnframt að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að honum verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða. Við munnlegan flutning málsins krafðist varnaraðili þess að sér yrði falin forsjá barnsins til bráðabirgða. Þess var krafist að kveðið yrði á um inntak umgengni sóknaraðila við barnið. Tekið var fram að varnaraðili væri samþykkur því að sóknaraðili fengi umgengni við barnið aðra hverja helgi og einn eftirmiðdag í vikunni eftir helgarumgengni. Þá var gerð krafa um að sóknaraðila yrði gert að greiða varnaraðila einfalt meðlag frá 10. mars sl. eða frá uppkvaðningu úrskurðar þessa. Þess var krafist að ákvörðun málskostnaðar yrði látin bíða dóms í forsjármáli aðila.
I.
Málsaðilar bjuggu saman í 4 ár og eignuðust á sambúðartímanum dótturina A, fædda [...] 2003. Fyrir átti sóknaraðili soninn B, fæddan 1994, sem býr hjá móður. Varnaraðili átti fyrir börnin C, fæddan 1992, D, fædda 1993 og E fæddan 1994, með F, og bjó C hjá varnaraðila en D og E hjá föður sínum. Þá átti varnaraðili fyrir soninn G, fæddan 2000, og bjó hann hjá varnaraðila. Síðasta sameiginlegt heimili aðila var að [...].
Upp úr sambúð aðila slitnaði 6. janúar sl. og hafði varnaraðili íbúð þá sem þau höfðu búið í til umráða fyrstu dagana eftir sambúðarslitin.
[...]
Varnaraðili dvaldi á heimili systur sinnar þar sem börnin voru vistuð frá því að hún var útskrifuð af sjúkrahúsi þar til hún fékk íbúð á leigu á [...]. Sóknaraðili býr nú á fyrra heimili aðila í [...]. Á meðan barnið var vistað utan heimilis á vegum félagsmálanefndar naut sóknaraðili umgengni við barnið aðra hverja helgi og að auki hvern laugardag. Frá því að félagsmálanefnd fól varnaraðila umsjá barnsins hefur sóknaraðili notið umgengni við barnið hálfsmánaðarlega frá föstudegi til sunnudags.
II.
Sóknaraðili kveður það vera barninu fyrir bestu að hann fari með forsjá þess til bráðabirgða. Hann byggir á því að barnið hafi góð tengsl við hann, það sé vant hans umönnun og auk þess búi hann á því heimili sem barnið þekki. Það valdi því minnstri röskun fyrir barnið að fela sóknaraðila bráðabirgðaforsjá á meðan málið er til meðferðar fyrir dómi. Þá geti barnið sótt leikskóla áfram í [...] á meðan það búi hjá honum. Sonur sóknaraðila komi reglulega til hans í umgengni og muni barnið því halda tengslum við hann, verði sóknaraðila falin forsjá til bráðabirgða.
Þá kveður sóknaraðili varnaraðila ekki hæfa til að fara með forsjá barnsins vegna langrar drykkjusögu og ítrekaðra sjálfsvígstilrauna. [...] Varnaraðili geti því ekki farið ein með forsjá barns aðila. Þá sé álag á varnaraðila þar sem hún þurfi að hugsa um önnur börn sín.
Sóknaraðili kveðst vinna hjá [...] og hafa verið þar í starfi frá 1989 og standa sig vel. Hann hafi nokkrar tekjur af vefþjónustufyrirtæki sem hann reki. Hann búi í 140 fermetra íbúð sem hann eigi. Sóknaraðili kveður aðila hafa notið góðrar aðstoðar fjölskyldu sinnar á sambúðartímanum, einkum móður hans, sem hafi búið inni á heimilinu til að aðstoða með börnin og sé hún tilbúin að flytja til sóknaraðila tímabundið til að aðstoða hann með barnið.
Sóknaraðili heldur því fram að enginn stöðugleiki felist í búsetufyrirkomulagi varnaraðila nú. Varnaraðili sé örorkulífeyrisþegi og hafi ekki unnið úti í lengri tíma, hún hafi átt við þunglyndi að stríða og sé með vefja- og slitgigt. Hún hafi búið inni á heimili systur sinnar en auk þess verið vistuð á geðdeild í janúarmánuði.
Sóknaraðili gerir kröfu um að njóta umgengni við barnið hverja helgi, verði honum ekki falin forsjá barnsins til bráðabirgða. Aðra hverja helgi verði umgengni frá fimmtudegi til sunnudags og hina helgina frá laugardegi til sunnudags. Sóknaraðili telur svo rúma umgengni nauðsynlega sökum aldurs barnsins og bendir að auki á að þau séu mjög tengd og hann telji nauðsynlegt að viðhalda þeim tengslum.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um bráðabirgðaforsjá á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Nauðsynlegt sé barnsins vegna að skera úr um hver eigi að hafa forsjá á meðan beðið sé endanlegrar ákvörðunar um skipan forsjár. Óvissa um búsetu og áframhaldandi deilur foreldra, ásamt fyrirliggjandi vanhæfni varnaraðila, sé til þess fallið að koma niður á barninu og leiða til frekari átaka. Nauðsynlegt sé að ákveða forsjá til bráðabirgða, jafnvel þó barnaverndarnefnd hafi tímabundið afskipti af máli barnsins, þar sem þau afskipti hafi aðallega komið til vegna vanhæfis móður. Byggir sóknaraðili á því að hann sé vel hæfur til að annast barnið, enda hafi hann góða félagslega- og atvinnusögu. Hann eigi ekki við áfengisvanda að stríða eins og varnaraðili, hann eigi aftur við meðvirkni að stríða og hafi leitað sér aðstoðar vegna þess hjá Al-Anon samtökunum, auk þess sem hann hafi góðan stuðning frá foreldrum sínum og bróður.
III.
Varnaraðili kveðst á þeim tíma sem liðinn sé frá sambúðarslitum hafa tekið á sínum vandamálum, sæki AA-fundi og sé í huglægri atferlismeðferð hjá Sjöfn Ágústsdóttur, sálfræðingi. Gangi það mjög vel hjá henni og hafi hún náð góðum tökum á lífi sínu að nýju. Þá hafi hún farið í forsjárhæfnismat á vegum barnaverndarnefndar [...].
Varnaraðili heldur því fram að málsatvikalýsing í stefnu sé röng í meginatriðum, einkum hvað varðar lýsingu á háttsemi sóknaraðila sjálfs sem og varnaraðila. Hafi sóknaraðili ítrekað lagt hendur á varnaraðila, m.a. að börnunum ásjáandi, þá hafi varnaraðili ekki fengið stuðning frá sóknaraðila er hún var að vinna í sínum vandamálum. Varnaraðili hafi lagt fram kæru hjá lögreglu á hendur sóknaraðila vegna líkamsárásar. Varnaraðili mótmælir því að óvissa sé um framtíðaráform sín. Hún sé komin með íbúð á langtímaleigu að [...]. Varnaraðili hafi góðar tekjur og reki einnig föndurverslun á netinu. Hún geti séð vel fyrir börnum sínum, hún hafi ákveðið að vinna í og bæta sínar aðstæður og stundi hún fundi hjá AA samtökunum. Þá hafi hún mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni og vinum.
Varnaraðili segir sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að hann geti búið barninu betra heimili, né að hún sé vanhæfur uppalandi svo sem hann hafi haldið fram. Varnaraðili byggir á því að hagsmunir barnsins séu betur tryggðir með því að staðfest verði að hún fari ein með forsjá barnsins. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að réttmætt sé að fela sóknaraðila forsjá barnsins og raska þannig sambandi og samskiptum systkinanna A og G. Varnaraðili kveðst geta tryggt sem best stöðugleika og öryggi fyrir barnið, sem þjóni óneitanlega hagsmunum þess. Hún muni að sjálfsögðu heimila og stuðla að umgengni sóknaraðila við dóttur sína. Félagsleg tengsl hennar við barnið séu með þeim hætti að það þjóni hagsmunum þess betur að forræði sé á hennar hendi. Hún sinni börnunum vel og sýni þeim umhyggju og ástúð. Hún sé fullfær um að ala önn fyrir börnunum og hugsa um þau.
Varnaraðili vísar til þess að hún búi við gott félagslegt tengslanet við fjölskyldu sína. Hafa verði í huga að G og A hafi alist upp saman. Lítill aldursmunur sé á þeim og því fylgi meiri stöðugleiki fyrir þau að alast upp saman. Varnaraðili segir breytingu hafa orðið á sínum högum frá því að félagsmálanefnd [...] tók ákvörðun um tímabundna vistun barnanna utan heimilis og hafi það því minni röskun í för með sér fyrir börnin að þau búi hjá móður. Varnaraðili telur að fara verði varlega í að breyta því fyrirkomulagi sem komið sé á, og telur eftirlit af hálfu félagsmálanefndar sem ákveðið var 10. mars sl. vera sjálfsagt miðað við það sem verið sé að vinna í. Varnaraðili telur sameiginlega forsjá ekki mögulega vegna þess ofbeldis sem sóknaraðili hafi beitt hana.
Varnaraðili vísar til almennra meginreglna barnaréttar.
IV.
Í tengslum við meðferð félagsmálanefndar [...] á barnaverndarmáli aðila óskaði nefndin eftir því að Ágústa Gunnarsdóttir, sálfræðingur, mæti hæfni aðila sem foreldra. Í matsgerð sálfræðingsins kemur fram að aðilar hafi mætt til viðtala og gengist undir sálfræðileg próf. Meðal annars var framkvæmt greindar- og persónuleikamat sem liður í mati á foreldrahæfni aðila.
Í matsgerðinni segir að varnaraðili hafi svarað persónuleikaprófi af hreinskilni og ekki reynt að draga upp fegraða mynd af sér. Hún hafi persónuleikaeinkenni fíkils og undir áhrifum eigi hún auðvelt með að missa stjórna á skapi sínu. Hún sé kvíðin og hafi orðið fyrir áföllum sem ýti undir kvíða hennar. Hún hafi gott bakland og stuðning fjölskyldu sinnar og lýsi jákvæðum viðhorfum gagnvart persónulegum breytingum og meðferð og niðurstöður bendi til þess að hún nýti sér meðferð mjög vel og horfurnar séu góðar.
Niðurstöður persónuleikaprófs bendi til þess að sóknaraðili hafi tilhneigingu til að fegra sjálfan sig töluvert með því að draga upp mjög svo jákvæða mynd af sjálfum sér og þannig viðurkenna ekki almenna veikleika sem flestar manneskju hafi. Ekki séu nein merki um geðræn vandamál. Hann hafi gott bakland og stuðning þegar hann þarfnist þess.
Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir að bæði eigi við áfengisvandamál að stríða, varnaraðili viðurkenni veikleika sína og hafi sótt meðferð og horfur á árangri séu góðar. Um sé að ræða þriðju meðferð hennar, hún hafi fyrst farið í meðferð þegar hún var tvítug og verið edrú í ellefu ár. Varnaraðili axli ábyrgð á hegðun sinni og drykkju en sóknaraðili kenni henni um að hann drekki. Hann segist vera meðvirkur og sæki fundi hjá Al Anon einu sinni í viku til að vinna í meðvirkni sinni. Þess beri að geta að hann hafi séð um öll innkaup á áfengi á meðan þau bjuggu saman. Hann axli ekki ábyrgð á drykkju sinni og finni sér blóraböggul.
Þá segir að bæði hafi annast dóttur sína og geri sér grein fyrir þörfum hennar á hinum ýmsu þroskastigum. Sóknaraðili hafi ekki áhyggjur af dótturinni í umsjá varnaraðila sé hún edrú. Varnaraðili segir sóknaraðila vera mjög góðan þegar hann sé edrú, sé rólegur og góður við börnin en breytist mikið þegar hann drekki. Lokaniðurstaða matsgerðarinnar er að bæði séu hæf til að annast barnið svo fremi að þau haldi sig frá áfengi og annarri neyslu.
V.
Fyrir dóminn kom, auk aðila málsins, móðir sóknaraðila. Taldi hún barnið tengdara sóknaraðila og að hann hafi séð um daglega umönnun þess eftir vinnu fram að háttatíma þess. Móðir sóknaraðila kvaðst vera búsett hjá honum til að veita honum stuðning á meðan á forsjármálinu stæði.
VI.
Niðurstaða.
Eins og fyrr hefur verið rakið slitu aðilar sambúð í byrjun þessa árs og var dóttir aðila fyrst um sinn vistuð utan heimilisins af félagsmálanefnd [...] á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Félagsmálanefnd fól varnaraðila umsjá barnsins með tilteknum skilyrðum eftir að vistun þess utan heimilis lauk þann 10. mars sl.
Af sjálfu leiðir að sambúðarslit hafa yfirleitt einhverja röskun í för með sér, bæði fyrir aðilana sjálfa og börn þeirra. Fyrir liggur í máli þessu að röskun á högum barnsins er nú þegar orðin nokkur. Varnaraðili var innrituð á sjúkrahús fljótlega eftir sambúðarslitin og flutti í framhaldi af því á heimili systur sinnar þar sem þrjú barna hennar, þar á meðal A, voru vistuð. Varnaraðili hefur nú fengið íbúð á langtímaleigu á [...] og dvelur dóttir aðila nú hjá henni, ásamt börnunum G og C. Sóknaraðili flutti af heimili aðila við sambúðarslitin en flutti þangað aftur eftir að varnaraðili var innrituð á sjúkrahús. Dóttir aðila sækir nú leikskóla í [...] líkt og hún gerði fyrir sambúðarslit aðila málsins, en er á biðlista eftir leikskólaplássi á [...]. Sóknaraðili er í fastri vinnu hjá [...] í Reykjavík. Varnaraðili starfar ekki utan heimilis sökum örorku og fær greiddar bætur í samræmi við það.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild í máli um forsjá til að úrskurða til bráðabirgða, að kröfu aðila, hvernig fara skuli um forsjá barns eftir því sem barninu er fyrir bestu. Í sama úrskurði getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Þá er kveðið á um að hafni dómari kröfu um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi geti hann eigi að síður kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlagsgreiðslur til bráðabirgða. Heimild dómara til að hafna því að sameiginleg forsjá falli niður meðan ágreiningsmál er til meðferðar er bundin við þau tilvik þegar forsjáin er sameiginleg þegar leitað er til dómstóla með forsjárkröfu og segir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnalögum að almennt megi líta svo á að æskilegt teljist að forsjá haldist sameiginleg á meðan máli sé ráðið til lykta.
Aðilar máls þessa voru í sambúð og hafa því farið sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, A, samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili hefur með stefnu, sem þingfest var þann 15. febrúar sl., höfðað mál gegn varnaraðila þar sem gerð er krafa um forsjá barnsins í tilefni af sambúðarslitum þeirra sem urðu í byrjun janúar sl. Varnaraðili krefst þess í forsjármálinu að henni verði falin forsjá barnsins.
Í forsjármáli aðila mun væntanlega fara fram frekari rannsókn á högum málsaðila og barnsins. Í máli þessu liggur ekki annað fyrir en að báðir aðilar séu færir um að annast barnið og fara með forsjá þess, svo fremi að bæði haldi sig frá neyslu áfengis. Er það mat dómsins að breytingar á forsjá barnsins nú geti leitt til röskunar á högum þess sem vart sé æskileg nema bersýnilegt sé að öðrum aðilanna verði ekki treyst fyrir forsjá þess. Eins og fyrr segir þykja hvorki framlögð gögn í málinu né framburðir aðila og vitnis fyrir dómi staðfesta að brýn þörf sé á slíkum breytingum á meðan forsjárdeilan er til lykta leidd í aðalmálinu. Fyrir liggur að sambúð aðila var stormasöm og nokkrum sinnum þurfti að kalla til lögreglu vegna ölvunar og átaka milli aðila máls þessa. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að aðilar hafi ekki getað haft nauðsynleg samskipti sín á milli um málefni barnsins eftir sambúðarslitin, þannig hefur sóknaraðili til dæmis komið á heimili varnaraðila til að sækja barnið og skila því eftir umgengni. Skulu málsaðilar því fara áfram sameiginlega með forsjá barnsins.
Sóknaraðili býr einn í rúmgóðu húsnæði í [...], þar sem barnið sækir leikskóla. Varnaraðili býr ásamt A og tveimur öðrum börnum sínum í íbúð á [...] sem hún hefur á langtímaleigu og eru þrjú svefnherbergi í íbúðinni. Varnaraðili ekur barninu og syni sínum G til og frá leikskóla í [...]. Aðilar hafa báðir börn sín frá fyrri samböndum í reglulegri umgengni. Varnaraðili hefur allt frá fæðingu barnsins verið heimavinnandi. Á sambúðartímanum sá sóknaraðili um að fara með barnið á leikskóla að morgni dags og tók þátt í umönnun þess utan vinnutíma. Barnið hefur nú dvalið hjá varnaraðila í tæpan mánuð ásamt tveimur hálfbræðrum sínum. Áður dvaldi það í nærri tvo mánuði á heimili systur varnaraðila, ásamt hálfbróður sínum G, og dvaldist varnaraðili þar einnig meiri hluta tímans. Ekki þykir rétt að raska högum barnsins frekar en orðið er og með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga þykir rétt að ákveða að barnið hafi lögheimili hjá varnaraðila. Verður þá einnig fallist á þá kröfu varnaraðila að sóknaraðili greiði varnaraðila meðlag með barninu sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma. Meðlagið greiðist frá 10. mars sl. enda hefur barnið búið hjá varnaraðila frá þeim tíma samkvæmt ákvörðun félagsmálanefndar, sem telst lögmæt skipan í skilningi 56. gr. barnalaga.
Nauðsynlegt er að stuðla að því að barnið haldi góðum tengslum við báða foreldra meðan forsjármál þeirra er til meðferðar. Tengsl barns og foreldris eru mikilvægur þáttur við mat á því hvað barni sé fyrir bestu við ákvörðun forsjár. Brýnt er því að umgengni barnsins við sóknaraðila sé rúm á meðan ágreiningur um forsjá er til lykta leiddur. Sóknaraðili gerir kröfu um umgengni um hverja helgi, til skiptis frá fimmtudegi til sunnudags og frá laugardegi til sunnudags, eða að öðrum kosti ekki minna en tíu daga í mánuði. Varnaraðili krefst þess að umgengni verði ákvörðuð aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags og einn eftirmiðdag í vikunni eftir helgarumgengni. Umgengni aðra hverja helgi er lágmarksumgengni. Þykir í máli þessu verða að kveða á um rýmri umgengni en lágmarksumgengni. Rétt þykir að sóknaraðili njóti umgengni við barnið aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla til síðdegis á sunnudegi. Þær vikur sem helgarumgengni fer ekki fram njóti sóknaraðili umgengni við barnið á laugardögum. Að auki njóti sóknaraðili umgengni við barnið eftir leikskóla á miðvikudegi í vikunni eftir helgarumgengni.
Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í málinu.
Ásta Stefánsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfum aðila, hvors um sig, um að fá forsjá dóttur sinnar, A, til bráðabirgða er hafnað.
A skal eiga lögheimili hjá varnaraðila, K.
Sóknaraðili, M, skal greiða varnaraðila meðlag með barninu frá 10. mars sl. sem sé jafnt barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og hann ákvarðast á hverjum tíma.
Umgengni sóknaraðila við barnið skal framvegis vera aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla til sunnudagssíðdegis, annan hvern laugardag og miðvikudagseftirmiðdag í vikunni eftir helgarumgengni.
Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í forsjármáli aðila.