Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Miðvikudaginn 10. mars 2010.

Nr. 125/2010.

Gunnar Örn Jónsson                          

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

gegn

Magnúsi Þorsteinssyni

(enginn)

Kærumál. Vitni.

G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að leiða vitni fyrir dóm til að gefa skýrslu einslega fyrir dómara og votti í máli M á hendur honum og án þess að nafn vitnisins yrði tilgreint í dómi eða gefið upp öðrum en dómara og votti. Talið var að krafa G ætti sér ekki stoð í lögum. Ekki var talið að lögjöfnun frá 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 yrði beitt. Þótt ráðgert væri í því lagaákvæði að gætt væri í undantekningartilvikum nafnleyndar um vitni, sem komi fyrir dóm, sé til þess að líta að sú heimild sé því háð að dómari fallist á með málsaðila eða vitninu að lífi, heilbrigði eða frelsi þess eða náins vandamanns þess yrði stefnt í hættu ef það yrði gert uppskátt hvert vitnið væri. Því hafi ekki verið borið við í málinu að atvik væru með þeim hætti. Þá fæli krafan í sér útilokun annarra en G sjálfs til að spyrja vitnið um nokkuð sem máli geti skipt. Ef fallist væri á hana væri aðilum málsins verulega mismunað og þannig brotið gegn rétti M til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fá að leiða vitni fyrir dóm til að gefa skýrslu einslega fyrir dómara og votti í máli varnaraðila á hendur honum og án þess að nafn vitnisins yrði tilgreint í dómi eða gefið upp öðrum en dómara og votti. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 4. september 2009 til ómerkingar nánar tilgreindra ummæla, sem sóknaraðili viðhafði á sjónvarpstöðinni Stöð 2 dagana 27. og 28. júlí sama ár, auk þess sem varnaraðili krafðist þess að sóknaraðili yrði dæmdur til refsingar og greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í miskabætur og til að standa straum af kostnaði af birtingu dóms í málinu. Sóknaraðili ber því við að þessi ummæli hans séu sannleikanum samkvæm og hafi verið studd við frásögn heimildarmanns, en sem fréttamaður megi sóknaraðili hvorki nafngreina heimildarmanninn né vilji hann gera það. Hann krefst þess á hinn bóginn að fá að leiða þennan heimildarmann fyrir dóm til skýrslugjafar með þeim hætti, sem að framan greinir, en þá kröfu telur sóknaraðili eiga sér stoð í lögjöfnun frá 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þótt ráðgert sé í því lagaákvæði að gætt verði í undantekningartilvikum nafnleyndar um vitni, sem kemur fyrir dóm, er til þess að líta að sú heimild er því háð að dómari fallist á með málsaðila eða vitninu að lífi, heilbrigði eða frelsi þess eða náins vandamanns þess yrði stefnt í hættu ef það yrði gert uppskátt hvert vitnið sé. Því hefur ekki verið borið við í málinu að atvik séu hér með þeim hætti og verður fyrrgreindri réttarheimild þegar af þeirri ástæðu ekki beitt til stuðnings kröfu sóknaraðila. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2010.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar  28. janúar sl., er  höfðað af Magnúsi Þorsteinssyni, til heimilis í St. Petersburg í Rússlandi, með stefnu, birtri 8. september 2009, á hendur Gunnari Erni Jónssyni, Rjúpufelli 5, Reykjavík, til refsingar vegna meiðyrða, til ómerkingar ummæla, sem stefndi flutti í fréttatíma Stöðvar 2, mánudaginn 27. júlí 2009, til greiðslu miskabóta, til greiðslu kostnaðar vegna birtingar á dómi og til greiðslu málskostnaðar.

Stefndi hefur krafist sýknu af kröfum stefnanda.

Við fyrirtöku málsins 12. janúar sl., lagði lögmaður stefnda fram eftirfarandi bókun:

1. Af hálfu stefnda er þess krafist að hann fái að leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar vitni sem gefa muni skýrslu (a) einslega fyrir dómara í málinu og votti og (b) án þess að nafn vitnisins verði tilgreint í dómi eða gefið upp öðrum en dómara í málinu og votti.

2. Af hálfu stefnda er skorað á stefnanda að gefa skýrslu fyrir dómi og upplýsa um fjármunaflutninga sína haustið 2008 og önnur atriði er málinu tengjast.

Lögmaður stefnanda mótmælti kröfu stefndu samkvæmt 1. lið bókunar, en kvað stefnanda myndu gefa skýrslu fyrir dómi, sbr. 2. lið bókunar lögmanns stefnda.

Var krafist úrskurðar dómara um framkomna kröfu samkvæmt fyrri lið bókunar stefnda. Var lögmönnum gefinn kostur á að reifa sjónarmið sín og lagarök varðandi kröfu þessa í þinghaldi 28. janúar sl. og krafan að því búnu tekin til úrskurðar.

II

Lögmaður stefnda kveður að þau ummæli sem krafist er ómerkingar á, hafi stefndi byggt á upplýsingum frá heimildarmanni. Stefndi eigi afar brýna hagsmuni af því að heimildarmaður þessi gefi skýrslu um málsatvik fyrir dóminum, en hann hafi tjáð stefnda að hann muni ekki gefa skýrslu fyrir dóminum, nema slík skýrslugjöf fari fram einslega fyrir dómara og þá án þess að nafn vitnisins verði tilgreint í dómi eða gefið upp öðrum en dómara og votti. Telji heimildarmaðurinn að fjárhagslegum hagsmunum hans, félagslegum sem og hagsmunum sem tengist atvinnufrelsi verði stefnt í hættu ef hann gefi skýrslu í heyranda hljóði fyrir dóminum. Kveður stefndi kröfu þessa eiga sér stoð í ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sem beitt verði um málsefnið með lögjöfnun, einkum í ljósi þess að málið sé m.a. höfðað til refsingar á hendur stefnda. Vísi stefndi í sambandi einkum til 107. og 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008, sem og undirstöðuraka XVIII. kafla laganna.

Telji stefndi sig ekki geta haldið uppi fullnægjandi vörnum í málinu verði krafa hans ekki tekin til greina og að með því væri vegið að brýnum hagsmunum hans, sem verndaðir eru með ákvæðum 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr.62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefnandi kveður að framkomin krafa stefnda eigi sér enga stoð í lögum, en hún brjóti hins vegar gegn mörgum ákvæðum íslenskra laga, sem og Evrópusamþykkta.

Þá bendir hann á að samkvæmt 8.gr. laga um meðferð einkamála skuli þinghöld háð í heyranda hljóði. Ef fallist yrði á framkomna kröfu stefnda yrði brotið gegn ákvæðum. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveði á um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Jafnframt bendir stefnandi á að réttur stefnda verði ekki fyrir borð borinn, þótt ekki yrði fallist á framkomna kröfu og dómari geti ákveðið að loka þinghaldi til hlífðar vitni, sbr. 8.gr. laga um meðferð einkamála. Þá séu einnig í 2. mgr. 9. gr. laganna ákvæði um að óheimilt sé að greina frá því sem fram komi í lokuðu þinghaldi, nema með samþykki dómara.

III

Stefndi hefur krafist þess að fá að leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar vitni sem muni gefa skýrslu einslega fyrir dóminum án þess að nafn vitnisins verði tilgreint í dómi, eða gefið upp öðrum en dómara og votti.

Fallist er á með lögmanni stefnanda að ekki verði séð að krafa þessi eigi sér nokkra stoð í lögum, en tilvitnuðum ákvæðum sakamálalaga nr. 88/2008 verður ekki beitt með lögjöfnun í málinu.

Krafan felur í raun í sér útilokun annarra en stefnda sjálfs til að spyrja vitni nokkurs sem máli getur skipt, enda er vitneskja aðila um nafn vitnis og tengsl þess við sakarefnið nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að fá fram og staðreyna upplýsingar sem máli geta skipt fyrir málstað aðilans.

Ef fallist yrði á kröfuna væri aðilum máls þessa verulega mismunað og þannig brotið gegn rétti stefnanda til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfunni er samkvæmt framangreindu hafnað.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnda um að hann fái að leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar vitni sem gefa muni skýrslu (a) einslega fyrir dómara í málinu og votti og (b) án þess að nafn vitnisins verði tilgreint í dómi eða gefið upp öðrum en dómara í málinu og votti, er hafnað.