Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 15. mars 2005. |
|
Nr. 88/2005. |
Jón Elías Gunnlaugsson(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Lyfjastofnun (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
J gerði dómkröfur í sex liðum, þar sem hann krafðist í fimm liðum viðurkenningar á því að L hafi verið óheimil nánar tilgreind afskipti af markaðssetningu hans á tilteknum vörutegundum. Í sjötta lið gerði J síðan kröfu um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda L vegna fjártjóns, sem J hefði beðið vegna þessara afskipta. Talið var, að til þess að leysa að efni til úr kröfu J um viðurkenningu á rétti til skaðabóta yrði að taka afstöðu til þeirra málsástæðna hans að L hafi brotið á honum rétt með þeim gerðum sínum, sem um ræddi í fimm fyrstu kröfuliðunum. Því hafi engin efni verið til að halda þeim atriðum fram sem sjálfstæðum dómkröfum. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur um frávísun fimm fyrstu kröfuliðanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili í héraðsdómsstefnu dómkröfur í sex liðum auk kröfu um málskostnað. Í fimm fyrstu liðunum krafðist hann viðurkenningar á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að leggja bann við því að sóknaraðili setti á markað og seldi þrjár nánar tilgreindar vörutegundir, gera kröfu um tilteknar breytingar á texta á umbúðum einnar vörutegundar og krefja sóknaraðila um frekari upplýsingar um magn tiltekins efnis í einni vörutegund. Í sjötta lið dómkrafna gerði sóknaraðili síðan kröfu um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda varnaraðila vegna fjártjóns, sem sóknaraðili hafi beðið vegna þess, sem um ræddi í fyrstu kröfuliðunum fimm. Með hinum kærða úrskurði var þessum fimm kröfuliðum vísað frá dómi, en hafnað kröfu varnaraðila um frávísun að því er þann sjötta varðar.
Til þess að leysa að efni til úr kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti til skaðabóta, sem eftir stendur í málinu, verður að taka afstöðu til þeirra málsástæðna hans að varnaraðili hafi brotið á honum rétt með þeim gerðum sínum, sem um ræddi í fimm fyrstu kröfuliðum hans samkvæmt héraðsdómsstefnu. Voru því engin efni til að halda þeim atriðum fram sem sjálfstæðum dómkröfum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila, sem að réttu lagi ætti að vera íslenska ríkið, kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jón Elías Gunnlaugsson, greiði varnaraðila, Lyfjastofnun, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2005.
Mál þetta höfðaði Jón Elías Gunnlaugsson, kt. 200971-5159, Laufskógum 25, Hveragerði, á hendur Lyfjastofnun, kt. 670900-2740, Eiðistorgi 13-15, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 28. júní 2004.
Þessar eru kröfur stefnanda í málinu:
1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að synja stefnanda um sölu á burnirót, sbr. erindi stefnda til stefnanda dags. 18. janúar 2002.
2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að banna að svo stöddu markaðssetningu og sölu hylkja sem innihalda annarsvegar túnfífil og hinsvegar ætihvönn, sbr. erindi stefnda til stefnanda dags. 29. janúar 2004.
3. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að gera þá kröfu til stefnanda að hann breyti texta á glösum sem innihalda túnfífilshylki þannig að þar standi "Notist ekki á meðgöngu", sbr. erindi stefnda til stefhanda dags. 29. janúar 2004.
4. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að gera þá kröfu til stefnanda að hann upplýsi um magn fumarókúmaríns í ætihvönn, sbr. erindi stefnda til stefnanda dags. 29. janúar 2004.
5. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að banna markaðssetningu og sölu hylkja sem innihalda mjaðjurt, sbr. erindi stefnda til stefnanda dags. 29. janúar 2004.
6. Að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna fjártjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna réttarbrota stefnda skv. 1. - 5. tl. dómkrafna stefnanda.
7. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Í þessum úrskurði skal leyst úr kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Um efni málsins ef til kemur krefst stefndi sýknu.
Stefnandi kveðst um nokkurra ára skeið hafa unnið að því að koma ýmsum íslenskum jurtum í neysluhæft og neytendavænt form. Hafi hann ýmist komið jurtunum í hylki eða framleitt úr þeim te og selt undir heitinu Ísplöntur, en það heiti hafi hann skráð undir eigin kennitölu í firmaskrá.
Lyfjastofnun starfar samkvæmt lyfjalögum nr. 93/1994. Helsta hlutverk hennar er að annast stjórnsýslu og eftirlit á sviði lyfjamála og að meta gæði, öryggi og verkun lyfja. Um hlutverk stofnunarinnar eru ítarleg ákvæði í 3. gr. laganna, en heimildir hennar til eftirlits og framkvæmdar er að finna í 47. gr. laganna.
Fyrsti liður í kröfugerð stefnanda lýtur að því að honum var tilkynnt að bannað væri að selja jurtina burnirót. Var það gert með bréfi stefnda 18. janúar 2002, sem var svar við fyrirspurn stefnanda frá 23. nóvember 2001 um merkingar á jurtatei. Í bréfi stefnda voru jurtir þær sem stefnandi selur flokkaðar og var ekki gerð athugasemd við sölu nokkurra tegunda. Hins vegar var sagt að jurtirnar burnirót og hjartaarfi væru lyf (náttúrulyf) og að sala þeirra væri óheimil. Þá voru í bréfi þessu gerðar athugasemdir við upplýsingar og fullyrðingar á umbúðum stefnanda.
Stefnandi gerði athugasemd við þessa niðurstöðu stefnda með bréfi 18. janúar 2002. Var athugasemd hans svarað með erindi dags. 4. apríl 2002. Í janúar 2004 breytti stefndi afstöðu sinni til burnirótar og flokkar hana nú sem almenna vöru. Bann við sölu hannar var því fellt niður.
Liðir 2, 3, 4 og 5 í kröfugerð stefnanda lúta að bréfi stefnda, dags. 29. janúar 2004. Í bréfinu vísar stefndi til erindis frá stefnanda er hann fékk í hendur 7. janúar 2004. Um túnfífil og ætihvönn (2. liður) segir í bréfinu: „Upplýsingar um innihaldsefni eða ráðlagða notkun eru ófullnægjandi. Markaðssetning og sala vörunnar er því óheimil að svo stöddu.” Um túnfífil (3. liður) var í bréfinu einnig gerð sú krafa í bréfinu að breytt yrði texta á umbúðum þannig að í stað ábendingarinnar „Notist ekki á meðgöngu nema í smáum stíl”, yrði sagt: „Notist ekki á meðgöngu.” Um ætihvönn (4. liður) er sagt að hún sé unnin úr hvannafræjum sem innihaldi fúmarókúmarín. Segir síðan: „Upplýsingar óskast um magn fúmarókúmarína magn/g í þurrefni og tilbúnu tei.” Um mjaðjurt (5. liður) segir í bréfinu: „Áletrun á umbúðum gefur til kynna að varan hafi lækningamátt. Markaðssetning og sala vörunnar er því óheimil.”
Þá er í 6. lið eins og áður getur krafist viðurkenningar bótaskyldu vegna fjártjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna réttarbrota stefnda samkvæmt liðum 1-5.
Til stuðnings frávísunarkröfu byggir stefndi á því að stefnandi geti ekki leitað viðurkenningardóms um bótaskyldu í máli þessu án fjárhæðar. Slík dómkrafa sé ekki í samræmi við d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Atvik máls þessa séu ekki með þeim hætti að fullnægt sé áskilnaði greinarinnar. Stefndi byggir einnig á því að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu án fjárhæðar sé í raun beiðni um lögfræðilegt álit sem sé andstætt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og hinu sama gegni þar með um aðrar dómkröfur stefnanda.
Þá byggir stefndi sérstaklega á að í 1. tl. dómkrafna felist beiðni til dómsins um lögfræðilegt álit sem sé andstætt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir liggi að stefndi heimilaði sölu á burnirót í upphafi árs. Stefnandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni skv. 2. mgr. 25. gr. sömu laga af því að fá viðurkenningu með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að synja stefnanda um sölu á burnirót.
Stefndi byggir einnig á því að í dómkröfum 1.-5. tl. felist ósk um viðurkenningu á tilteknum réttindum án þess að nákvæmlega sé skilgreint í stefnu hver réttindin eru og þau því svo almenn og óafmörkuð að viðurkenningardómur myndi veita stefnanda takmarkalausan rétt til hvers kyns markaðssetningar og sölu þeirrar vöru er mál þetta snýst um án tillits til sérstakra lögbundinna takmarkana, framþróunar vísinda og þekkingar hvort heldur er varði upplýsingar um skaðleysi eða skaðsemi vöru, markaðssetningar vöru sem um lyf væri að ræða o.fl. Er kröfugerð að þessu leyti svo óákveðin og óljós að uppfyllir ekki d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 sbr. hér einnig 4. mgr. 114. gr. sömu laga.
Stefnandi andmælir frávísunarkröfu. Hann kveðst hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfu sína samkvæmt 1. lið, enda byggi hann á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna bannsins og að stefndi sé bótaskyldur. Þá segir stefnandi að sér sé nauðsynlegt að fá viðurkenningu á því að stefnda sé óheimilt að gera tilgreindar kröfur til hans og banna sölu tiltekinna framleiðsluvara.
Stefnandi vísar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um heimild til að höfða mál til viðurkenningar bótaskyldu, án þess að krefja um ákveðna bótafjárhæð. Telur hann sýnt að hann hafi orðið fyrir tjóni og vísar til yfirlýsingar endurskoðanda síns því til stuðnings.
Forsendur og niðurstaða.
Heimilt er að höfða mál til viðurkenningar á bótaskyldu, án þess að jafnframt sé gerð krafa um tiltekna peningagreiðslu. Styðst þetta við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og skýrt fordæmi í dómi Hæstaréttar 7. október 1999 í máli nr. 166/1999. Af öðrum dómi réttarins, í máli nr. 146/2001 (uppkveðinn 4. maí 2001), verður þó ráðið að sýna verður fram á að tjón hafi orðið, sem krafist er viðurkenningar bótaskyldu fyrir.
Skaðabótakröfu hefur stefnandi fært í þann búning að tengja hana við fimm tiltekin bönn eða fyrirmæli sem honum voru sett af hálfu stefnda. Þessi fyrirmæli settu starfsemi stefnanda skorður. Eru því fram komnar nægar líkur til þess að af aðgerðum stefnda hafi hlotist fjárhagslegt tjón. Þegar skaðabótakrafan er lesin með hverjum hinna fyrri töluliða í kröfugerð stefnanda er fram komin skýr og afmörkuð krafa um viðurkenningu bótaskyldu vegna tiltekins banns eða fyrirmæla. Verður skaðabótakröfu stefnanda því ekki vísað frá dómi.
Í kröfuliðum 2-5 krefst stefnandi sjálfstætt viðurkenningar á því að tilteknar aðgerðir séu stefnda óheimilar. Hann krefst hins vegar ekki ógildingar þeirra ákvarðana sem um ræðir. Í þessum kröfum hans felst ósk um lögfræðilega álitsgerð, sem er nauðsynleg til að leysa úr um kröfu hans um viðurkenningu bótaskyldu. Hins vegar er ekki unnt að veita sérstaka viðurkenningu á því að aðgerðirnar séu almennt óheimilar. Á sama hátt er óþarft að leysa sérstaklega með viðurkenningardómi úr því hvort bann samkvæmt 1. lið kröfugerðar stefnanda hafi verið ólögmætt, en úr því verður leyst er fjallað verður um skaðabótakröfu stefnanda.
Samkvæmt þessu ber að vísa frá dómi viðurkenningarkröfum stefnanda í 1. 5. tölulið. Hins vegar ber að leysa úr kröfu hans samkvæmt 6. tölulið um viðurkenningu bótaskyldu vegna þeirra atvika er greind eru í fyrri töluliðum.
Málskostnaður verður ákveðinn með efnisdómi í málinu.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Viðurkenningarkröfum stefnanda samkvæmt 1.-5. tölulið í stefnu er vísað frá dómi. Hafnað er frávísun á kröfu hans um viðurkenningu bótaskyldu samkvæmt 6. tölulið í stefnu.