Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Innsetning
  • Fjármögnunarleiga


                                                                                              

Mánudaginn 5. maí 2014.

Nr. 246/2014.

Ingileifur Jónsson ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Aðför. Innsetning. Fjármögnunarleiga.

L hf. krafðist þess að félaginu yrði með beinni aðfarargerð afhentir nánar tilgreindir munir sem I ehf. hafði í sínum vörslum samkvæmt fjármögnunarleigusamningum aðila. Ágreiningur aðilanna laut öðrum þræði að því hvort samningarnir teldust hafa verið um leigu eða lán og þar með háðir banni 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og vexti og verðtryggingu við því að fjárhæð láns í íslenskum krónum verði bundin við gengi erlends gjaldmiðils. Talið var að þeir  fjármögnunarleigusamningar, sem um væri deilt í málinu, væru sambærilegir þeim samningum sem fjallað hefði verið um í ákveðnum dómum Hæstaréttar og af þeim yrði ráðið að um leigusamninga væri að ræða en ekki lánssamninga. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 stæðu því þannig ekki í vegi að aðilunum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Þá lægi fyrir að sóknaraðili hefði verið í slíkum vanskilum að varnaraðila hefði verið heimilt að rifta samningunum. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um heimild L hf. til að fá munina tekna úr vörslum I ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2014 þar sem varnaraðila var heimilað að fá nánar tilgreind tæki tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengin sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum varnaraðila um beina aðför. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði tekur mál þetta til 17 fjármögnunarleigusamninga í ýmsum myntum en þeir eru sambærilegir þeim samningum sem fjallað var um í dómum Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013 og 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013. Því girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla, en 14 af samningunum voru með þeim kjörum. Að þessu gættu og að virtum gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðili var í slíkum vanskilum við varnaraðila að honum var heimilt 4. október 2012 að rifta samningunum eftir skilmálum þeirra. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ingileifur Jónsson ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2014.

Þetta mál var þingfest 23. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. janúar sl.

Sóknaraðili er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík, en varnaraðili er Ingileifur Jónsson ehf., Funahöfða 6, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila:

-          Man H29, fastanr. EG 179, árg. 2004.

-          Mercedes Benz Sprinter ásamt álpalli, fastanr. VJ 864, árg. 2006.

-          Hitachi ZX 280 beltagrafa, skráningarnr. EB 0917, forskr. 2005.

-          Hitachi ZX 460 LC beltagrafa, skráningarnr. EB 0883, forskr. 2005.

-          Fleygur F70LN, serialnr. 1129.

-          Liebherr PR 724, jarðýta, skráningarnr. GB 0629, forskr. 2006.

-          Fleygur F100LN serialnr. 1034.

-          Man H29, fastanr. DT 588, árg. 2006.

-          Undirtönn Lumex AT-200, raðnúmer 1077.

-          Caterpillar D8T, skráningarnr. GB 0616, forskr. 2005.

-          Volvo A35D, fastanr. TL 581, árg. 2007.

-          Komatsu PC 350LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1364, forskr. 2007.

-          Miller Mill-PC340-BUG, hraðtengi, verksmiðjunr. 111110.

-          Miller Mill-PC340-MB600S skófla, verksmiðjunr. 113879.

-          Volvo A35D, fastanr. VV 190, árg. 2007.

-          Volvo A35D, fastanr. RO B59, árg. 2007.

-          Volvo A35D, fastanr. BG J39, árg. 2007.

-          Komatsu PC210LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1563, forskr. 2008.

-          Hitachi ZX 210 beltagrafa, skráningarnr. EB 1428, forskr. 2007 ásamt hraðtengi, skóflu og smurkerfi.

-          Toyota Hilux, fastanr. VX 559, forskr. 2006.

-          Man H72, fastanr. OG 167, árg. 2006 ásamt undirtönn, kastplóg, palli og fylgihlutum.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Verði kröfur sóknaraðila að einhverju eða öllu leyti teknar til greina krefst varnaraðili þess til vara að réttaráhrifum úrskurðar í þessu máli verði frestað þar til að gengnum dómi Hæstaréttar Íslands, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og að málskostnaður falli niður.

Málavextir

Aðilar málsins gerðu með sér 17 samninga á tímabilinu 24. september 2004 til 9. febrúar 2010, og er þeim lýst á eftirfarandi hátt af sóknaraðila:

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 114853-54, dags. 24. september 2004.

Leigumunur: Man H29, fastanr. EG 179, árg. 2004.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: ISK 100% - Verðtryggður samningur tengdur vísitölu neysluverðs.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 152960, dags. 11. maí 2009. Þessi samningur er að sögn sóknaraðila viðbót við fjármögnunarleigusamning nr. 114853-54.

Leigumunur: Mercedes Benz Sprinter ásamt álpalli, fastanr. VJ 864, árg. 2006.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: ISK 100% - Verðtryggður samningur tengdur vísitölu neysluverðs.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 118714, dags. 5. ágúst 2005.

Leigumunur: Hitachi ZX 280 beltagrafa, skráningarnr. EB 0917, forskr. 2005.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 100%.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 134049-046, dags. 20. júní 2006.

Leigumunur: Hitachi ZX 460 LC beltagrafa, skráningarnr. EB 0883, forskr. 2005 og fleygur F70LN, serialnr. 1129.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

Að sögn sóknaraðila voru þau mistök gerð við sölu á tækinu að rangt skráningarnúmer var tilgreint á reikningi seljanda, þau mistök voru leiðrétt síðar.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 136331-334, dags. 2. október 2006.

Leigumunur: Liebherr PR 724, jarðýta, skráningarnr. GB 0629, forskr. 2006.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 136487-490, dags. 2. október 2006.

Leigumunur: Fleygur F100LN serialnr. 1034.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 137496-497, dags. 9. september 2006.

Leigumunir: Man H29, fastanr. DT 588, árg. 2006.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50% - gengistryggður samningur.

Gerðarþoli tók yfir samninginn með samkomulagi um yfirtöku á fjármögnunarleigusamningi dags. 25. september 2009.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr.153572, dags. 20.október 2009. Þessi samningur er að sögn sóknaraðila viðbót við fjármögnunarleigusamning nr. 137496-497.

Leigumunur: Undirtönn Lumex AT-200, raðnúmer 1077.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 100% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 140600-603, dags. 21. ágúst 2007.

Leigumunur: Caterpillar D8T, skráningarnr. GB 0616, forskr. 2005.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 141076-079, dags. 21. ágúst 2007.

Leigumunur: Volvo A35D, fastanr. TL 581, árg. 2007.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 141851-859, dags. 22. júní 2006.

Leigumunur: Komatsu PC 350LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1364, forskr. 2007, Miller Mill-PC340-BUG, hraðtengi, verksmiðjunr. 111110 og Miller Mill-PC340-MB600S skófla, verksmiðjunr. 113879.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 20%, JPY 20% og CHF 60% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 142424-427, dags. 21. ágúst 2007.

Leigumunur: Volvo A35D, fastanr. VV 190, árg. 2007.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 40%, USD 25%, JPY 20% og CHF 15% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 143411-414, dags. 14. september 2007.

Leigumunir: Volvo A35D, fastanr. RO B59, árg. 2007 og Volvo A35D, fastanr. BG J39, árg. 2007.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: JPY 50% og CHF 50% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 149200-201, dags. 9. desember 2008.

Leigumunir: Komatsu PC210LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1563, forskr. 2008.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 100% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 152958-959, dags. 11. mars 2009.

Leigumunir: Hitachi ZX 210 beltagrafa, skráningarnr. EB 1428, forskr. 2007 ásamt hraðtengi, skóflu og smurkerfi og Toyota Hilux, fastanr. VX 559, forskr. 2006.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 100% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 153705-707, dags. 2. febrúar 2010.

Leigumunir: Man H72, fastanr. OG 167, árg. 2006 ásamt undirtönn og kastplóg.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: EUR 39%, JPY 32% og CHF30% - gengistryggður samningur.

-        Fjármögnunarleigusamningur nr. 153724, dags. 9. febrúar 2010.

Leigumunir: Pallur og fylgihlutir með vörubifreiðinni Man H72 með fastanr. OG 167.

Hlutfallsleg skipting leigugrunns eftir myntum: ISK 100% - óverðtryggður samningur.

Allir samningarnir, nema nr. 114863-54 og 118714 bera með sér að vera á stöðluðu samningsformi þar sem efni samninganna er sett fram í 35 greinum, efni fyrstu tíu greinanna er fyllt út, eftir því sem við á, en aðrar greinar eru staðlaðar og samhljóða. Efni samninga nr. 114863-54 og 118714 er einnig sett fram í 35 greinum og efni fyrstu tíu greinanna er fyllt út, eftir því sem við á, en aðrar greinar eru staðlaðar og samhljóða. Fyrir utan 22. gr. bera allar greinar allra 17 samninganna sömu fyrirsagnir og eru settar fram í sömu röð eftir efni sínu.

Í 1. gr. samninganna er því lýst hvað ,,hið leigða“ sé. Í 15. gr. kemur fram að sóknaraðili sé eigandi hins leigða. Samkvæmt 2. gr. er ,,leigugrunnur“ sagður vera tiltekin fjárhæð. Í flestum samninganna er leigugrunnurinn sagður skiptast í leigugrunn og virðisaukaskatt og ,,skipting leigugr.“ er ákveðin í sömu grein þeirra samninga. Í samningum nr. 152960, 153572, 152958-959, 153705-707 og 153724 er í 2. gr. ,,leigugrunnur“ sagður skiptast í ,,kaupverð án vsk“ og leigu greidda við undirritun. Í 3. gr. samninganna er seljandi tilgreindur. Í 4. og 5. gr. kveðið á um að ,,grunnleigutími“ sé tiltekið tímabil, hvenær greiða eigi fyrstu leigugreiðslu og hver sé fjöldi greiðslna og upphæð hverrar greiðslu án virðisaukaskatts. Fram kemur í 6. gr. að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokun grunnleigutíma og því lýst hver sé upphæð hverrar greiðslu án virðisaukaskatts. Allar fjárhæðir eru tilgreindar í íslenskum krónum. Í 10. gr. allra samninganna, nema nr. 114853-54, 152960 og 153724 er m.a. tekið fram að LIBOR-vextir á samningsdegi séu tiltekin prósenta auk álags sem nemi tiltekinni prósentu. Í 12. gr. segir m.a. að leigutaki geti ekki sagt samningnum upp á grunnleigutíma. Að grunnleigutíma loknum framlengist hann ótímabundið, sbr. 6. gr. Leigutaki geti sagt upp hinum framlengda leigusamningi skriflega með eins mánaðar fyrirvara. Fram kemur m.a. í 28. gr. að sóknaraðila sé heimilt að rifta samningi án fyrirvara vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins. Sknaraðila og leigutaka gjaldfelld.iga greinilega að vera að koma með tæki til skoðunar, d)íðan eru talin upp í nokkrum stafliðum tilvik sem eiga að vera í dæmaskyni, m.a. ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur eða sóknaraðili hefur þurft að greiða bætur, gjöld eða sektir sem skráður eigandi sé ábyrgur fyrir gagnvart þriðja aðila (a-liður), ef leigutaki vanrækir að koma með tæki til skoðunar (b-liður), ef riftunarákvæði á við aðra eignaleigusamninga eða lán milli sóknaraðila og leigutaka (d-liður).

Ekki er um það deilt að samningar nr. 114853-54 og 152960 eru í íslenskum krónum og verðtryggðir miðað við vísitölu neysluverðs og að samningur nr. 153724 er í íslenskum krónum og óverðtryggður. Ágreiningslaust er að aðrir samningar aðila eru í íslenskum krónum og gengistryggðir miðað við gengi þeirra erlendu mynta sem taldar eru upp í hverjum samningi og í þeim hlutföllum sem þar greinir.

Ekki er um það deilt að varnaraðili átti frumkvæði að gerð þessara samninga. Varnaraðili lýsir viðskiptasambandi sínu við sóknaraðila þannig að varnaraðili sé verktakafyrirtæki, sem stofnað var árið 1998. Forsvarsmaður varnaraðila, Ingileifur Jónsson, hafi átt í eignar- og eignaleigusamningsviðskiptum við sóknaraðila allt aftur til 1994. Fyrst hafi Ingileifur gert samninga í eigin nafni og síðar varnaraðili. Samtals hafi tugir eignar- og eignaleigusamninga verið gerðir við sóknaraðila á þessu tímabili. Flestum, ef ekki öllum, eignar- og eignaleigusamningum málsaðila fyrir hrun 2008 hafi lokið með þeim hætti að varnaraðili hafi ýmist greitt þá upp og fengið afsal frá sóknaraðila fyrir andlagi þeirra, eða nýir eignar- eða eignaleigusamningar hafi verið gerðir um nýtt lausafé, og hið eldra hafi gengið upp í kaupverðið. Oft hafi samningarnir verið greiddir upp áður en hinum svokallaða leigutíma hafi lokið og varnaraðila afhent afsal eða eigendaskipti skráð. Eftir hrun hafi varnaraðili og sóknaraðili gengið frá uppgjöri sín á milli, m.a. með því að varnaraðili hafi selt tæki og látið söluandvirðið að langmestu leyti renna til sóknaraðila. Þetta hafi verið gert á grundvelli samkomulags við sóknaraðila um sölu tækja, sem fjármögnunarleigusamningar hafa tekið til, til erlendra aðila.

Óumdeilt er að varnaraðili hefur ekki greitt greiðsluseðla sem sóknaraðili hefur sent honum á grundvelli fyrrnefndra samninga og kveður sóknaraðili að elstu vanskil nái aftur til júlí 2010. Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi enn fremur vanrækt að greiða bifreiðagjöld og þungaskatt af bifreiðunum OG-167, DT-588 og VX-559 og hafi kostnaður vegna þessa fallið á sóknaraðila. Enn fremur hafi varnaraðili vanrækt að fara með bifreiðina TL-581 til skoðunar á réttum tíma árið 2012 og kostnaður vegna vanrækslugjalda hafi því fallið á sóknaraðila. Hinn 4. október rifti sóknaraðili samningum aðila með skeyti til varnaraðila og byggði riftunina á 28. gr. samninganna.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi leigt varnaraðila tæki með 17 samningum, sem séu gerðir á árunum 2004 til 2010. Einn þessara samninga, nr. 153724, sé óverðtryggður en tveir þeirra, nr. 114853-54 og 152960, séu verðtryggðir. Hinir 14 samningarnir séu gengistryggðir. Samkvæmt samningunum hafi varnaraðili átt að greiða sóknaraðila tiltekið leigugjald út grunnleigutíma samningsins, sbr. 4. og 5. gr. samninganna. Að þeim tíma loknum hafi varnaraðila borið að greiða sóknaraðila tiltekið framhaldsleigugjald, sbr. 6. gr. samninganna. Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi leigugrunnar flestra samninganna verið settir saman úr myntkörfum og hafi fjárhæðir samninganna verið bundnar erlendum myntum í þeim hlutföllum sem þar greini. Varnaraðila hafi einnig borið að greiða ýmis gjöld vegna viðkomandi tækja.

                Leigugreiðslur samkvæmt samningunum séu í vanskilum allt frá júlí 2010. Þá hefur varnaraðili vanrækt að greiða bifreiðagjöld og þungaskatt af bifreiðunum OG-167, DT-588 og VX-559 og kostnaður vegna þessa hafi fallið á sóknaraðila. Enn fremur hafði varnaraðili vanrækt að fara með bifreiðina TL-581 til skoðunar á réttum tíma árið 2012 og því hafi kostnaður vegna vanrækslugjalda fallið á sóknaraðila. Varnaraðili hafi ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna. Sóknaraðili hafi af þeirri ástæðu rift samningnum 4. október 2012 samkvæmt heimild í 28. gr. samninganna. Hinn 19. apríl 2013 hafi heildarvanskil varnaraðila vegna áðurnefndra samninga numið 88.007.379 krónum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði en án lögfræðikostnaðar.

                Þar sem varnaraðili hafi ekki staðið í skilum samkvæmt samningunum og hafi neitað að afhenda varnaraðila eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður sóknaraðila að réttur sóknaraðila væri skýr. Eignarréttur sóknaraðila og vanskil varnaraðila séu óumdeild. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 jafngildi skráning í bifreiðaskrá þinglýsingu. Sóknaraðili sé skráður eigandi umræddra tækja.

Samkvæmt a-lið 28. gr. samninganna sé heimilt að rifta samningi inni leigutaki ekki af hendi tilskildar greiðslur eða sóknaraðili hafi þurft að greiða bætur, gjöld eða sektir sem skráður eigandi sé ábyrgur fyrir gagnvart þriðja aðila. Samkvæmt d-lið sömu greinar sé og heimilt að rifta samningi ef aðrir eignaleigusamningar eða lán milli sóknaraðila og leigutaka eru gjaldfelldir og/eða rift. Í 22. gr. samninganna sé tekið fram að á meðan samningur sé í gildi beri leigutaki ábyrgð á því tjóni sem hið leigða kunni að valda með beinum eða óbeinum hætti. Verði sóknaraðila gert að greiða bætur fyrir slíkt tjón eigi félagið endurkröfurétt á hendur leigutaka. Fram komi í 26. gr. samninganna að leigutaka beri að greiða alla skatta og gjöld sem kunni að verða hækkuð eða lögð á, þar með talið m.a. bifreiðagjöld og þungaskatt. Orðalag ákvæða elstu samninganna, nr. 114853-54 og 118714, séu aðeins frábrugðið orðalagi ákvæða annarra samninga, en efnislega séu ákvæðin eins. Vanræksla á því að greiða opinber gjöld og að fara með ökutæki til skoðunar séu riftunarástæður.

                Ósannað sé að varnaraðili hafi sýnt greiðsluvilja síðan vanskil hófust. Gagnkrafa varnaraðila sé órökstudd og útreikningur hennar sé ekki lagður fram og ekki kynntur sóknaraðila. Sóknaraðili hafni því að samningar aðila séu um kaup en ekki leigu. Samkvæmt 34. gr. samninganna verði þeim aðeins breytt skriflega. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé fjallað um eignaleigufyrirtæki. Eignaleiga sé nú skilgreind í 3. gr. þeirra laga og teljist ekki vera lán. Sóknaraðili sé eignaleigufyrirtæki. Sóknaraðili mótmælir því að hann hafi ekki kynnt varnaraðila mun á mismunandi samningsformum. Varnaraðili hafi engar athugasemdir gert við samningana.

                Sóknaraðili byggir á því að samningar aðila séu leigusamningar í skilningi IAS 17 – Alþjóðlegs reikningsskilastaðals sem hafi lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að hann færði fjármögnungarleigusamninga í samræmi við staðalinn. Virðisaukaskattur sé lagður á fjármögnunarleigu en ekki á lán. Sóknaraðili hafi greitt virðisaukaskatt til seljenda og innheimt af varnaraðila á leigutíma tækjanna. Eldri samningar aðila séu ekki til umfjöllunar í þessu máli.

                Samkomulag aðila um sölu á tækjum, dags. 21. nóvember 2011, staðfesti að sóknaraðili sé eigandi umræddra tækja. Sérstakir samningar hafi verið gerðir hverju sinni, hafi tæki verið seld eða leigð áfram.

Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, um bann við gengistryggingu, stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 40. gr. hans, um frjálst flæði fjármagns.

                Með dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, þar sem fjallað hafi verið um sambærilegan samning, hafi rétturinn staðfest að umþrættur samningur væri leigusamningur eins og heiti hans benti til. Því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki þótt girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Lögmaðurinn sagði við munnlegan flutning málsins að samningur aðila væri á sama samningsformi. Dómur réttarins í máli nr. 282/2011 hafi ekki fordæmisgildi, enda hafi þar reynt á samning annars fjármálafyrirtækis.

                Sóknaraðili hafnar því að endurreikna eigi samninga aðila enda séu þeir ekki um lán. Loks hafi varnaraðila verið í lófa lagið að gera sóknaraðila grein fyrir því hvað hann teldi vera réttar greiðslur.

Loks mótmælir sóknaraðili varakröfu varnaraðila þar sem ákvæði 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 eigi bara við ef tjón af aðfarargerð er ófjárhagslegt.

Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að réttur sóknaraðila sé svo óljós, að mati sóknaraðila sjálfs, að úr honum verði ekki skorið með þeim sönnunargögnum, sem byggt verði á í málum sem séu rekin eftir 12. og 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Til þess að fá skorið úr um réttarstöðu sóknaraðila virðist í dag þurfa að leita álits EFTA-dómstólsins á því hvort 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu standist ákvæði samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Séu þessi lagaákvæði andstæð skuldbindingum Íslands samkvæmt samningum um hið Evrópska efnahagssvæði skipti engu máli hvort þeir eignaleigusamningar, sem sóknaraðili kalli fjármögnunarleigusamninga, séu lána- eða leigusamningar, þar sem gengistrygging allra tegunda eignaleigusamninga hefði þá ávallt átt að vera heimil.

                Í öðru lagi telur varnaraðili að hafna beri innsetningu þar sem þeir eignaleigusamningar sem sóknaraðili byggir rétt sinn á séu leigusamningar sérstaks eðlis og í raun lánasamningar en ekki hefðbundnir leigusamningar, sem merki afnot gegn endurgjaldi, þar sem eignarréttur og aðrar skyldur tengdar honum haldist hjá leigusala. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um eignarleigustarfsemi, sem lagt var fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988, sé fjallað ítarlega um hið sérstaka eðli þess sem þá hét eignarleigusamningar. Í athugasemdunum segi m.a. að hugtakið eignarleiga sé nýtt hugtak í íslensku lagamáli. Hugtakið sé þýðing á ensk-ameríska orðinu ,,leasing“. Hugtakið verði ekki lagt að jöfnu við orðið leigu í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur verði að afmarka eignarleigu frá leigu í sérstakri löggjöf. Sú löggjöf hafi verið sett vegna þess að umsvif eignarleigufyrirtækja hefðu vaxið mjög og því hafi þótt nauðsynlegt og rétt að binda starfsemi þeirra í lög til þess að efla eftirlit með þessari starfsemi fjármagnsmarkaðarins.

                Lög nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi hafi tekið gildi 4. apríl það ár og hafi verið fyrstu lög hér á landi um starfsemi eigarleigufyrirtækja. Nokkur slík fyrirtæki hefðu þá hafið starfsemi sína hér á landi nokkrum árum áður, einkum að danskri og norskri fyrirmynd, m.a. sóknaraðili. Í 1. gr. laganna hafi hugtökin eignarleiga, fjármögnunarleiga, kaupleiga og rekstrarleiga verið skilgreind. Eignarleiga hafi verið samheiti allrar þeirrar lánastarfsemi sem samningssamböndin fjármögnunarleiga, kaupleiga og rekstrarleiga hafi falið í sér. Í 2. gr. laganna hafi eignarleigustarfsemi verið skilgreind sem sú starfsemi að veita, hafa milligögnu um eða bjóða fram lánveitingar og ábyrgðir á skuldum vegna fjármögnunar annarra aðila. Eignarleigufyrirtæki hafi þannig í upphafi verið skilgreind sem lánafyrirtæki. Í dag séu eignarleigufyrirtæki skilgreind sem fjármálafyrirtæki. Eignarleigufyrirtækjum hafi borið að haga starfsemi sinni á þann veg að viðskiptamenn þeirra nytu jafnræðis um upplýsingar um verð og önnur viðskiptakjör. Eignarleigufyrirtækin hafi einnig, að teknu tilliti til hags og þekkingar viðskiptamanna, átt að kappkosta að veita greinargóðar upplýsingar um þá kosti og kjör sem þeim stæðu til boða, sbr. 7. gr. laganna. Þau hafi átt að þekkja viðskiptavini sína. Starfsemi eignarleigufyrirtækja hafi verið bundin leyfi og háð eftirliti Bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

                Lög nr. 19/1989 hafi verið afnumin með lögum nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og starfsemi eignarleigufyrirtækja sett undir hin nýju lög. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 123/1993 hafi verið haldið við þá skipan að eignarleigufyrirtæki væru  lánafyrirtæki, þ.e. félög eða stofnanir sem hefðu það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Eignarleigufyrirtækin hefðu hins vegar samkvæmt 9. gr. laga nr. 123/1993 haft rýmri heimild en aðrar lánastofnanir til að afla sér fjár til endurlána. Sóknaraðili hafi m.a. sótt mikið fé til þýskra banka, sem hann hafi ekki endurlánað til viðskiptavina sinna, heldur selt fyrir íslenskar krónur, sem hann hafi lánað viðskiptavinum sínum með gengistryggingu. Engar þeirra lánastofnana, sem lög nr. 123/1993 tóku til, hafi mátt taka við innstæðum. Hugtakið eignarleiga hafi í nýju lögunum verið skilgreint með sama hætti og í hinum eldri. Hins vegar hafi ekki verið talin þörf á að skilgreina hina ýmsu flokka eignarleigulánasamninga, þar sem starfsemi lánafyrirtækjanna hefði fest sig í sessi að því leyti.

                Lög nr. 123/1993 hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 1. janúar 2003, og starfsemi eignarleigufyrirtækja færð undir þau lög, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í tilvitnuðu ákvæði er að finna skilgreiningu á eignaleigu. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna segi efnislega m.a., að lagt sé til að eignaleiga verði áfram starfsleyfisskyld starfsemi og fyrirtæki sem stundi eignaleigu verði að uppfylla starfsleyfiskröfur um viðskiptabanka, sparisjóði eða lánafyrirtæki. Síðan segi í athugasemdunum  Útlán eignaleigufyrirtækja eru að jafnaði talin áhættumeiri en útlán banka og sparisjóða. Ástæðan fyrir þessu er að tryggingin fyrir fjármögnun hjá eignaleigufyrirtækjunum er oft í tækjum sem hafa skamman líftíma og stundum óvissan eftirmarkað ef á reynir. Einnig getur fjármögnunarhlutfall verið allt að 100% af kaupverði. [...] Þrjú fyrirtæki skilgreina sig sem eignaleigufyrirtæki hér á landi. Þau veita einnig hefðbundin lán í miklum mæli. Um er að ræða bílalán og tækjalán með veði í viðkomandi eign. Þessi fyrirtæki skilgreina starfsemi sína nú sem eignafjármögnunarstarfsemi (e. asset based financing). [...] Úr skilgreiningunni á eignalegu er fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarkstíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skal skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu er gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu helst eignarréttur hjá leigusala. Í kaupleigu er leigutaka veittur réttur til að eignast hið leigða í lok leigutíma. Rekstrarleiga er eignaleiga sem hvorki telst til fjármögnunarleigu eða kaupleigu. [...] Hér er lagt til að starfsemin nefnist eignaleiga í stað eignarleiga. Eignarleiga er ekki réttnefni fyrir þá starfsemi sem orðið á að lýsa. Eignarleiga merki leigu á einhverju sem leigutaki eignast síðan. Eignaleiga merkir hins vegar leigu á eign, óháð því hvort leigutaki eignast hið leigða í lok samningstímans. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002 hafi sóknaraðila borið að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

                Samkvæmt þessu hafi löggjafinn allt frá 1989 til dagsins í dag litið á eignar- og síðar eignaleigufyrirtæki sem fjármálafyrirtæki sem veiti sérstök og mjög áhættusöm lán, auk annarra og hefðbundinna lána, svo sem bíla- og tækjalána með veði. Löggjafinn hafi líka litið á samninga, eins og samninga málsaðila, sem lánasamninga sérstaks eðlis. Hafi eignar- og síðar eignaleigufyrirtæki litið á samningsform sín með mismunandi hætti eftir heiti þeirra, annars vegar sem lánasamninga og hins vegar sem leigusamninga, hafi þeim borið að upplýsa viðskiptavini sína sérstaklega um muninn og hvaða afleiðingar það gæti haft að velja fjármögnunarleigu í stað kaupleigu eða öfugt. Slíkt hafi aldrei verið gert. Þvert á móti hafi því verið haldið að viðskiptavinum sóknaraðila, þar á meðal varnaraðila, að enginn eðlismunur væri á kaupleigusamningum og fjármögnunarleigusamningum, hvoru tveggja væri lán og samningarnir hafi án tillits til heitis verið færð í bókhaldi sóknaraðila sem lán. Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður varnaraðila til þess að sóknaraðili hefði auglýst fjármögnunarleigu til ársins 2010 þannig að leigutakar gætu valið á milli kaupa við lok leigutíma eða áframhaldandi leigu.

Um hina reikningsskilalegu meðferð fjármögnunarleigusamninga megi vísa til IAS 17 – Alþjóðlegs reikningsskilastaðals. Í 36. gr. staðalsins segi m.a. annars um upphafsfærslu fjármögnunarleigu hjá leigusala: Leigusalar skulu færa eignir, sem þeir hafa í útleigu samkvæmt fjármögnunarleigu, í efnahagsreikning sinn og tilgreina þær sem kröfur með fjárhæð sem er jafnvirði hreinnar fjárfestingar í leigusamningnum. Samkvæmt þessu skipti andlag samningsins, ,,hið leigða“, engu fyrir efnahag leigusala, heldur aðeins það fé sem í andlaginu var fest og tengja megi öflun þess. Í 37. gr. segir svo: ,Samkvæmt fjármögnunarleigu afsalar leigusali sér að verulegu leyti allri áhættu og ávinningi sem kann að fylgja lagalegu eignarhaldi og þess vegna fer leigusali með leigukröfuna eins og endurgreiðslu á höfuðstól og fjármagnstekjur sem hann fær sem endurgreiðslu og ávinning fyrir fjárfestingu sína og þjónustu.

Sóknaraðila hafi verið óheimilt að gengistryggja eignaleigusamninga, eins og Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað dæmt, með vísan til ákvæða VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fjórtán af þeim sautján eignaleigusamningum, sem sóknaraðili byggi á, séu gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar. Sóknaraðili hafi aldrei ljáð máls á því að endurreikna þessa samninga né aðra fjármögnunarleigusamninga, sem hann gerði við varnaraðila og séu uppgerðir. Sóknaraðila hafi borið að endurreikna samningana strax eftir gildistöku laga nr. 151/2010 í desember 2010 sem hafi verið sett vegna þeirrar óvissu sem skapaðist í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010. Sama niðurstaða hafi verið uppi í hæstaréttarmáli nr. 282/2011, sem varði eignaleigustarfsemi Íslandsbanka hf.

Þegar meta eigi eðli þeirra samninga, sem sóknaraðili byggi á, verði að horfa á efni samninganna annars vegar og hins vegar stöðu, hlutverk og heimildir sóknaraðila sem fjármálafyrirtækis. Hið síðargreinda hljóti að vega þyngra en form samninga sem sóknaraðili hafi einhliða samið og varð að samrýmast heimildum hans. Sóknaraðili hafi allt frá 1989 haft víðtækari heimildir en aðrar lánastofnanir til þess að afla sér fjár til að endurlána með mikilli áhættutöku. Sóknaraðili sé ekki leigusali lausafjár eða fasteigna í neinum skilningi þess orðs, heldur lánveitandi, sem færi kröfur samkvæmt eignaleigusamningum sem lán í bækur sínar. Sóknaraðili hafi vitað eða mátti vita að lán megi ekki gengistryggja samkvæmt lögum nr. 38/2001 þegar hann bjó til hina umdeildu samninga en kosið að skauta fram hjá því. Sóknaraðili verði að bera halla af allri ólögmætri starfsemi sinni. Varnaraðili hafi í góðri trú farið að ráðum sóknaraðila um val á lánaformi í lánaviðskiptum þeirra. Sóknaraðili sé ýmist fjármálafyrirtæki eða tækjaleiga, allt eftir því hvaða samningsform hann beri fyrir sig hverju sinni. Væri sóknaraðili tækjaleiga í raun þyrfti hann ekki sérstakt starfsleyfi og lyti ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi ekkert fordæmisgildi fyrir úrlausn þessa máls. Eignar- og eignaleiga sé og hafi ávallt verið lánastarfsemi að íslenskum rétti. Engu breyti þar um þótt notuð séu hugtökin leigutaki og leigusali um samningsaðila. Þessi hugtök séu bein þýðing úr ensk-amerísku lagamáli á orðunum lessor og lessee, sem eigi ekkert sameiginlegt við hugtökin leigusali og leigutaki samkvæmt íslenskum leigurétti. Þau íslensku lagahugtök eigi m.a. samsvörun í ensku lagahugtökunum landlord og tenant þegar um húsaleigu sé að ræða.

Samningar aðila séu á stöðluðum formum sem starfsmenn sóknaraðila hafi samið. Við skýringu samninganna verði að horfa til þess að sóknaraðili sé stórfyrirtæki með fjölda sérfræðinga í vinnu, m.a. lögfræðinga. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi kosið að hafa samninga sína við varnaraðila gengistryggða. Við samningsgerðina hafi sóknaraðili gert greiðsluáætlun fyrir hvern samning. Hún geymi spá sóknaraðila um þróun hinna gengistryggðu lána á lánstímanum og greiðslubyrði varnaraðila.

Varnaraðili byggi enn fremur á því að sóknaraðili hvorki eigi né hafi nokkru sinni átt kröfu til þess að varnaraðili greiddi þá hækkun afborgana, sem hafi leitt af gengistryggingu lánasamninga aðila og sóknaraðili hafi krafið varnaraðila um. Varnaraðili hafi alltaf verið fús til að leysa málin og hann hafi innt af hendi síðustu greiðslu vegna sölu á tveimur vinnuvélum í júlí 2012. Auk þess hafi varnaraðili gert upp ýmsa aðra lánasamninga við sóknaraðila, þar sem sóknaraðili hafi krafist greiðslna á gengistryggðum höfuðstól. Varnaraðili eigi því fé inni hjá sóknaraðila vegna oftekinna greiðslna. Samkvæmt útreikningum KPMG fyrir varnaraðila nemi skuld sóknaraðila 28.141.994 krónum. Meðan endurútreikningur sóknaraðila á kröfum hans á hendur varnaraðila liggi ekki fyrir eigi sóknaraðili enga kröfu á hendur varnaraðila, sem geti orðið grundvöllur riftunar lánasamninga þeirra. Skilyrði riftunar samkvæmt 28. gr. samninganna hafi því ekki verið til staðar þegar sóknaraðili lýsti yfir riftun.

Sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn sem sanni að varnaraðili sé eða hafi verið í vanskilum með lögmætar afborganir lána sóknaraðila. Skuldin sem sóknaraðili tilgreini í aðfarabeiðni sé byggð á því að gengistrygging lánasamninga sóknaraðila við varnaraðila sé lögmæt.

Varnaraðili aftri ekki sóknaraðila með ólögmætum hætti að neyta þess réttar sem hann eigi samkvæmt lánasamningum sínum. Allt sé á huldu um hver réttur sóknaraðila á hendur varnaraðila sé. Hafna beri kröfu um innsetningu verði talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla í innsetningarmálum. Samningar aðila séu ólögmætir að efni til og hafi verið dæmdir svo af Hæstarétti. Varnaraðili eigi kröfu á hendur sóknaraðila um endurgreiðslu ofgreiðslu, bæði af þeim samningum sem hér sé deilt um og eins öðrum uppgerðum samningum. Þá kröfu megi varnaraðili nota til skuldajöfnuðar við kröfu sóknaraðila. Í öllum lánasamningum sóknaraðila sé sérstakt uppgjörsákvæði í 30. gr., sem sóknaraðili hljóti að verða að fara eftir. Verði sóknaraðila heimiluð innsetningargerð verði varnaraðili verr settur gagnvart sóknaraðila og geti þurft að höfða mál til endurheimtu oftekinna greiðslna, sem algjör óvissa sé um að sóknaraðili geti nokkru sinni greitt vegna bágrar fjárhagstöðu sinnar.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er manni, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, heimilað að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis sem getur í 72. eða 73. gr. laganna verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Í þessu máli verður þar af leiðandi einungis leyst úr því hvort réttur sóknaraðila til umráða yfir þeim tækjum sem krafa sóknaraðila lýtur að sé nægilega skýr til þess að krafa hans verði tekin til greina, en ekki verður tekin afstaða til réttarsambands aðila að öðru leyti.

Aðilar málsins gerðu samtals 17 samninga um þau tæki sem krafa sóknaraðila snýst um. Ekki er um það deilt að varnaraðili átti frumkvæði að gerð samningsins, valdi umrædd tæki og leitaði til sóknaraðila um fjármögnun þeirra. Aðilar málsins eru einnig sammála um að þar af voru 14 samningar gengistryggðir og allar fjárhæðir hvers samnings bundnar við gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í hverjum samningi. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort um leigusamninga er að ræða, eins og sóknaraðili byggir á, eða lánssamninga sem sóknaraðili hafi kosið að klæða í búning leigusamninga, eins og varnaraðili heldur fram. Samningar nr. 114853-54 og 152960 eru í íslenskum krónum og verðtryggðir miðað við vísitölu neysluverðs og samningur nr. 153724 er í íslenskum krónum og óverðtryggður. Samkvæmt útprentum úr ökutækjaskrá er sóknaraðili skráður eigandi ökutækjanna EG-179, VJ-864, DT-588, TL-581, VV-190, RO-B59, BG-J39, VX-559 og OG-167, en varnaraðili er skráður umráðamaður þeirra. Samkvæmt útprentum úr vinnuvélaskrá er sóknaraðili skráður eigandi vinnuvélanna EB-0917, EB-0883, GB-0629, GB-0616, EB-1364, EB-1563 og EB-1428. Fram kemur í samningum aðila að sóknaraðili sé leigusali annarra tækja sem krafa hans tekur til.

Í 3. tl. 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er eignaleiga skilgreind þannig að átt sé við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 161/2002 segir m.a. um þennan tölulið að úr skilgreiningu á eignaleigu sé fellt brott ákvæði um skilmála um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleigu skuli skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu sé gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala. Lagt sé til að starfsemin nefnist eignaleiga í stað eignarleigu. Eignarleiga sé ekki réttnefni fyrir þá starfsemi sem orðið á að lýsa. Eignarleiga merki leigu á einhverju sem leigutaki eignist síðan. Eignaleiga merki hins vegar leigu á eign, óháð því hvort leigutaki eignist hið leigða í lok samningstíma.

Í dómi Hæstaréttar Íslands 20. október 2011 í máli nr. 282/2011 var leyst úr ágreiningi aðila um það hvort samningur þeirra, sem bar yfirskriftina fjármögnunarleigusamningur, væri lánssamningur eða leigusamningur. Rétturinn taldi að þegar ákvæði sérstakra og almennra skilmála samningsins væru virt í heild yrði að telja að þótt samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Yrði að líta svo á að í raun hefði verið veitt lán til kaupa á vinnuvél, sem lánveitandi hefði kosið að klæða í búning leigusamnings.

Í dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 var sömuleiðis leyst úr ágreiningi um það hvort fjármögnunarleigusamningur sem sóknaraðili, sem var áfrýjandi málsins, hafði gert við stefnda þess máls, væri lánssamningur eða leigusamningur. Í dómi Hæstaréttar er því slegið föstu að samningurinn sé í ýmsum atriðum frábrugðinn þeim samningi, sem fjallað var um í dómi réttarins í máli nr. 282/2011. Í dóminum segir að stöðluð ákvæði samningsins í því máli séu skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þá sé í samningnum fjallað um leigu og sé áfrýjandi málsins þar ítrekað nefndur leigusali. Nokkur ákvæði í samningnum séu þó hliðstæð samningnum sem dómur í máli nr. 282/2011 tók til. Milli þessara tilvika skilji þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, sé ósannað í þessu máli að samið hafi verið um að stefndi málsins myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda sé heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða. Sé því ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu. Af þeim sökum girði ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.

Afrit samningsins, sem deilt var um í síðarnefndum dómi Hæstaréttar, er meðal gagna málsins. Sá samningur er greinilega á sama staðlaða samningsformi og þeir samningar sem aðilar þessa máls gerðu, fyrir utan samninga nr. 114863-54 og 118714. Fyrstu tíu greinar samningsins sem deilt var um í síðarnefndum dómi Hæstaréttar bera sömu fyrirsagnir og eru fylltar út með sambærilegum hætti. Þá eru greinar 11 til 35 þess samnings samhljóða þessum samningum málsaðila. Að mati dómsins hefur umræddur dómur Hæstaréttar ótvírætt fordæmisgildi um úrlausn þessa máls, hvað varðar aðra samninga en nr. 114863-54 og 118714. Verður því ekki á það fallist með varnaraðila að ákvæði samninga aðila, annarra en nr. 114863-54 og 118714, ein og sér bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða sem sóknaraðili hafi kosið að klæða í búning leigusamninga.

Þessi ályktun fær einnig skýra stoð í fyrrnefndum 3. tl. 1. gr. laga nr. 161/2002 og áður tilvitnuðum athugasemdum við það ákvæði, þar sem skýrlega kemur fram að með eignaleigu sé átt við tiltekna tegund leigustarfsemi.

Varnaraðili hefur að eigin sögn gert eignaleigusamninga við sóknaraðila frá því félagið var stofnað 1998, og þar áður fyrirsvarsmaður hans frá árinu 1994. Varnaraðili segir að þessir samningar nemi tugum. Verður ekki annað ráðið af þessari lýsingu varnaraðila en að hann sé þaulvanur gerð samninga sömu gerðar og þeirra samninga sem um er deilt í þessu máli. Tilvísun varnaraðila til munar á stöðu aðila getur því ekki hnekkt þeirri ályktun að ákvæði samninga aðila, annarra en nr. 114863-54 og 118714, ein og sér bendi til þess að um leigusamninga sé að ræða.

Samkvæmt 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga er með alþjóðlegum reikningsskilastaðli átt við reikningsskilastaðla (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt samkvæmt 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Fram kemur í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 að félög samkvæmt 1. gr. laganna skuli semja ársreikning í samræmi við lögin, reglugerðir og settar reikningsskilareglur eftir því sem við eigi, og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal ársreikningur gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé. Í 1. mgr. 88. gr. laganna segir að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin sé lögfest. Í 90. til 92. gr. er fjallað um skyldu og heimild félaga til þess að beita  alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureiknings og ársreiknings.

Markmið alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 17 kemur fram í 1. lið og er ,,að mæla fyrir um viðeigandi reikningsskilaaðferðir sem skal beita og upplýsingagjöf í reikningsskilum leigutaka og leigusala vegna leigusamnings“. Í 20. lið staðalsins segir m.a. að í upphafi leigutíma skuli ,,leigutakar færa fjármögnunarleigusamninga sem eignir og skuldir í efnahagsreikningi sínum með fjárhæðum sem eru jafnvirði gangvirðis leigðu eignarinnar eða, ef þær eru lægri, með lágmarksleigugreiðslum á núvirði, sem hver um sig er ákvörðuð þegar leigusamningurinn er gerður“. Í 21. lið staðalsins, sem er í kafla um leigusamninga í reikningsskilum leigutaka, er hins vegar tekið fram að ,,Viðskipti og aðrir atburðir eru færðir og settir fram í samræmi við efni þeirra og efnahagslegan veruleika en ekki eingöngu í samræmi við lagalegt form þeirra. Þó að lagalegt form leigusamnings geti verið með þeim hætti að leigutaki öðlist ekki eignarrétt yfir leigðu eigninni er efnið og efnahagslegur raunveruleiki með þeim hætti, þegar um er að ræða fjármögnunarleigu, að leigutakinn fær efnahagslega ávinninginn af notkun leigðu eignarinnar megnið af hagrænum endingartíma hennar gegn því að skuldbinda sig til að greiða fyrir þennan rétt fjárhæð sem svarar, þegar leigusamningurinn er gerður, u.þ.b. til gangvirðis eignarinnar og tengds fjármagnskostnaðar.“ Af þessu leiðir ljóslega að ekki þarf að vera samræmi á milli þess hvernig samningur er færður í reikningsskilum leigutaka samkvæmt staðlinum og þess hvort viðkomandi samningur telst að lögum vera leigusamningur eða kaupsamningur. Geta ákvæði staðalsins því ekki komið til skoðunar við mat á því hvort samningar aðila, aðrir en nr. 114863-54 og 118714, teljist leigusamningar eða kaupsamningar.

Sú málsástæða varnaraðila að því hafi verið haldið að viðskiptavinum sóknaraðila, þar á meðal varnaraðila, að bæði kaupleigusamningar og fjármögnunarleigusamningar væru lán, er ekki studd gögnum og gegn mótmælum sóknaraðila er hún ósönnuð. Hið sama á við um þá málsástæðu varnaraðila að samningar aðila hafi án tillits til heitis verið færðir í bókhaldi sóknaraðila sem lán. Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður sóknaraðila þeirri fullyrðingu lögmanns varnaraðila að sóknaraðili hefði auglýst fjármögnunarleigu til ársins 2010 þannig að leigutakar gætu valið á milli kaupa við lok leigutíma eða áframhaldandi leigu, sem nýrri málsástæðu. Þessi málsástæða kemur ekki fram í greinargerð varnaraðila og er hún því of seint fram komin. Verður því ekki á henni byggt.

Þegar litið er til efnis samninga aðila er það niðurstaða dómsins að samningar aðila, aðrir en nr. 114863-54 og 118714, teljist vera leigusamningar en ekki kaupsamningar, sem klæddir hafi verið í búning leigusamninga. Málsástæður varnaraðila sem að framan eru reifaðar geta ekki breytt þeirri niðurstöðu. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 girða þar af leiðandi ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.

Samkvæmt gögnum málsins féllu umkrafðar leigugreiðslur fyrst í vanskil í júlí 2010. Í a-lið 28. gr. allra samninga aðila er mælt fyrir um að sóknaraðila sé heimilt án fyrirvara að rifta samningi ef leigutaki m.a. innir ekki af hendi tilskildar greiðslur á umsömdum gjalddögum og vanskil vara lengur en 15 daga. Þá er í d-lið sömu greinar mælt fyrir um að sóknaraðila sé heimilt að rifta samningi ef m.a. öðrum eignaleigusamningum milli sóknaraðila og leigutaka er rift. Riftun sóknaraðila á þessum samningum 4. október 2012 var því lögmæt og umráðaréttur varnaraðila yfir þeim tækjum sem krafa sóknaraðila tekur til því niður fallinn. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eru þar af leiðandi uppfyllt. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.

Ákvæði 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 hefur í réttarframkvæmd verið túlkað til samræmis við þau ummæli sem fram koma í athugasemdum við 84. gr. frumvarps sem varð að þeim lögum, á þann veg að sú regla eigi við tilvik þar sem hagsmunir gerðarþola af málefni eru ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, ef gerðin yrði framkvæmd í kjölfar úrskurðar og æðri dómur kæmist síðar að gagnstæðri niðurstöðu við héraðsdómara. Þeir hagsmunir sem varnaraðili hefur af því að gerðinni verði frestað þar til Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu í málinu eru einvörðungu fjárhagslegs eðlis. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á varakröfu varnaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sóknaraðila, Lýsingu hf., er heimilt að fá eftirtalin tæki tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Ingileifs Jónssonar ehf., og fengin sóknaraðila:

-          Man H29, fastanr. EG 179, árg. 2004.

-          Mercedes Benz Sprinter ásamt álpalli, fastanr. VJ 864, árg. 2006.

-          Hitachi ZX 280 beltagrafa, skráningarnr. EB 0917, forskr. 2005.

-          Hitachi ZX 460 LC beltagrafa, skráningarnr. EB 0883, forskr. 2005.

-          Fleygur F70LN, serialnr. 1129.

-          Liebherr PR 724, jarðýta, skráningarnr. GB 0629, forskr. 2006.

-          Fleygur F100LN serialnr. 1034.

-          Man H29, fastanr. DT 588, árg. 2006.

-          Undirtönn Lumex AT-200, raðnúmer 1077.

-          Caterpillar D8T, skráningarnr. GB 0616, forskr. 2005.

-          Volvo A35D, fastanr. TL 581, árg. 2007.

-          Komatsu PC 350LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1364, forskr. 2007.

-          Miller Mill-PC340-BUG, hraðtengi, verksmiðjunr. 111110.

-          Miller Mill-PC340-MB600S skófla, verksmiðjunr. 113879.

-          Volvo A35D, fastanr. VV 190, árg. 2007.

-          Volvo A35D, fastanr. RO B59, árg. 2007.

-          Volvo A35D, fastanr. BG J39, árg. 2007.

-          Komatsu PC210LC-8 beltagrafa, skráningarnr. EB 1563, forskr. 2008.

-          Hitachi ZX 210 beltagrafa, skráningarnr. EB 1428, forskr. 2007 ásamt hraðtengi, skóflu og smurkerfi.

-          Toyota Hilux, fastanr. VX 559, forskr. 2006.

-          Man H72, fastanr. OG 167, árg. 2006 ásamt undirtönn, kastplóg, palli og fylgihlutum.

Málskot til æðra dóms frestar ekki aðför samkvæmt þessum úrskurði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.