Hæstiréttur íslands
Mál nr. 89/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
- Börn
- Kynferðisbrot
|
|
Föstudaginn 14. mars 2003. |
|
Nr. 89/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf. Börn. Kynferðisbrot.
Héraðsdómari hafnaði kröfu tilnefnds réttargæslumanns A um að skýrsla sem lögreglan hafði krafist að A gæfi sem brotaþoli við rannsókn máls, yrði tekin í Barnahúsi og að dómari kveddi sér til aðstoðar við skýrslutökuna konu með sérþekkingu á sálarfræði. Með hinum kærða úrskurði hafði héraðsdómari látið í ljós að hann teldi húsnæði í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafi sérstaklega verið útbúið til að taka skýrslur af börnum, á allan hátt fullnægjandi og það þjónaði markmiðum rannsóknar málsins að láta skýrslutökuna fara þar fram. Þá hafði dómari metið það svo að sá kunnáttumaður, sem hann hafði ákveðið að kveðja sér til aðstoðar, hefði þá kosti sem til þyrfti til að annast þá skýrslutöku sem um ræddi. Voru ekki efni til að hnekkja þessu mati héraðsdómara og breyttu gögn, sem kærandi hafði lagt fyrir Hæstarétt, engu um þá niðurstöðu. Var úrskurður héraðsdómara staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Tilnefndur réttargæslumaður A skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2003, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að dómþing til að taka skýrslu, sem sóknaraðili hefur krafist að kærandi gefi sem brotaþoli við rannsókn máls, verði háð í Barnahúsi og að dómari kveðji sér til aðstoðar við skýrslutökuna konu með sérþekkingu á sálarfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að kveðja sér til aðstoðar við skýrslutöku af kæranda konu með sérþekkingu á sálarfræði og sérstaka reynslu af því að yfirheyra börn og verði dómþing til skýrslutökunnar háð í Barnahúsi. Þess er jafnframt krafist að ekki séu aðrir í yfirheyrsluherberginu en brotaþoli og tilkvaddur kunnáttumaður.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Kærandi hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Eru það tölvusamskipti héraðsdómara og réttargæslumanns kæranda 27. og 28. febrúar 2003, bréf réttargæslumannsins til Steingerðar Sigurbjörnsdóttur barnalæknis 3. mars 2003, bréf læknisins til réttargæslumannsins 5. mars 2003 og símbréf starfsmanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur til réttargæslumannsins 11. mars 2003.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði krefst réttargæslumaður kæranda þess að sérstaklega útbúin aðstaða í Barnahúsi verði nýtt við skýrslutöku fyrir dómi af kæranda, sem er sjö ára að aldri, en hún tengist rannsókn á ætluðu broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst hún þess að sá kunnáttumaður, sem dómari kveðji sér til aðstoðar samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999 sé kvenkyns og með sérþekkingu á sálarfræði. Með hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari látið í ljós að hann telji húsnæði í dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafi sérstaklega verið útbúið til að taka skýrslur af börnum, á allan hátt fullnægjandi og það þjóni markmiðum rannsóknar málsins að láta skýrslutökuna fara þar fram. Þá hefur dómari metið það svo að sá kunnáttumaður, sem hann hefur ákveðið að kveðja sér til aðstoðar, hafi þá kosti sem til þarf til að annast þá skýrslutöku, sem hér um ræðir. Eru ekki efni til að hnekkja þessu mati héraðsdómara og breyta framangreind gögn, sem kærandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, engu um þá niðurstöðu. Í hinum kærða úrskurði kemur glöggt fram að héraðsdómari gengur út frá því að ekki verði aðrir inni í yfirheyrsluherbergi en brotaþoli og tilkvaddur kunnáttumaður. Samkvæmt öllu framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2003.
Með beiðni lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 25. febrúar sl., var þess farið á leit við dóminn með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að tekin verði skýrsla fyrir dómi af A, sem er fædd [...] 1995, vegna ætlaðs kynferðisbrots X, kt. [...]. Ágreiningur er um tiltekin atriði varðandi tilhögun skýrslutökunnar. Úrskurðurinn er kveðinn upp af því tilefni en ágreiningurinn var tekinn til úrskurðar 6. mars síðast liðinn.
I.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 26. febrúar sl., en dómarinn fékk málið til meðferðar 27. febrúar sl. Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins ákvað dómarinn að kalla Kristján Inga Kristjánsson rannsóknarlögreglumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna samkvæmt heimild í 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999, og 1. mgr. 9. gr. reglugerðar um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára nr. 321/1999. Samdægurs hafði dómarinn samband við fulltrúa lögreglustjóra og tilkynnti um fyrirhugað þinghald og væntanlegt fyrirkomulag skýrslutökunnar í samræmi við fyrirmæli í 2. mgr. 74. gr. a sömu laga, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 321/1999. Einnig tilkynnti dómari réttargæslumanni ætlaðs brotaþola, Sif Konráðsdóttur hrl., og Brynjólfi Eyvindssyni hdl., sem kærði hafði óskað eftir að skipaður yrði verjandi sinn, um þinghaldið og fyrirkomulag þess samkvæmt sama laga- og reglugerðarákvæði. Skýrslutakan var fyrirhuguð mánudaginn 3. mars sl. kl. 13.00 í sérútbúnu skýrslutökuherbergi hér í Dómhúsinu en þar geta þeir sem rétt eiga á að vera viðstaddir skýrslutökuna fylgst með henni jafnóðum í gegnum gler, á sjónvarpsskjá og með hljóðkerfi um leið og hún fer fram. Þeir geta einnig komið að spurningum sem dómari sér til að verði lagðar fyrir brotaþola.
Réttargæslumaður ætlaðs brotaþola óskaði eftir því að skýrslutakan færi fram í Barnahúsi og yrði framkvæmd af þeim sem þar starfa. Dómarinn féllst ekki á það. Réttargæslumaðurinn sendi dóminum þá formlega beiðni þar sem þess var krafist að skýrslutaka af ætluðum brotaþola færi fram með aðstoð kunnáttumanns, sem sé kona með sérþekkingu á sálarfræði og sérstaka reynslu af því að yfirheyra börn. Enn fremur að skýrslutakan fari fram í sérútbúinni aðstöðu í Barnahúsi að Sólheimum 17 og að ekki séu aðrir í yfirheyrsluherbergi þar en ætlaður brotaþoli og umræddur kunnáttumaður.
II.
Réttargæslumaður vísar til efnisraka að baki sérreglum réttarfarslaga um skýrslutökur af börnum svo og þess að dómari skuli eftir atvikum ráðgast við lögmenn áður en skýrslutaka hefst en réttargæslumanni sé að lögum falið að gæta hagsmuna barns. Vísað er til dóms Hæstaréttar frá árinu 2000, bls. 63 í dómasafni réttarins. Í því máli hafi verið fallist á að kunnáttumaður með sérþekkingu í sálarfræði yrði kvaddur til aðstoðar við skýrslutöku. Vísað er og til þeirrar vinnureglu lögreglu að við rannsókn kynferðisbrota sé reynt að verða við óskum um að kona yfirheyri brotaþola. Þá er vísað til jafnræðisreglu og sjónarmiða um samræmi við framkvæmd skýrslutöku og til 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar dómstólar m.a. geri ráðstafanir eru varði börn.
Stúlkan sem um ræði sé aðeins sjö ára gömul. Hún hafi verið greind með athyglisbrest og taki hún þess vegna lyfið Ritalin. Rannsóknin beindist að afar erfiðum málum er snerti stúlkuna djúpt. Gera megi ráð fyrir að ævinlega sé örðugt fyrir börn að segja frá kynferðisbrotum, ekki síst nákominna. Vegna sérstakra verndarhagsmuna barns og vegna reglunnar um að leitast skuli við að leiða hið sanna í ljós hnígi rök að því að nota bestu aðstæður til skýrslutökunnar. Mat réttargæslumanns sé að það verði best tryggt með ofangreindum hætti. Móðir stúlkunnar hafi þegar rætt fyrirhugaða skýrslutöku við hana og hafi hún sagt stúlkunni að kona myndi tala við hana. Móðirin segi stúlkuna vera reiða, uppstökka og hortuga eftir þann atburð sem sé tilefni rannsóknarinnar. Sé óráðlegt að bregðast trausti barnsins að þessu leyti. Réttargæslumaður hafi rætt við barnalækni, sem hafi annast stúlkuna, og hafi hann verið sammála réttargæslumanni um mat á hagsmunum barnsins.
Þá er vísað til þeirra röksemda að fyrirhugað sé að læknisskoðun verði í Barnahúsi næstkomandi miðvikudag, verði skýrslutakan þá um garð gengin, en í tilkynningu Dómstólaráðs frá 28. september 2000 segi að dómari geti t.d. ákveðið að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi ef fyrir liggi að barn þurfi að gangast undir læknisrannsókn sem fram geti farið þar.
Loks er vísað til tæknilegra ástæðna en óumdeilt sé að búnaður til myndbandsupptöku sé fullkomnari í Barnahúsi en í Dómhúsinu, svo sem vegna þess að á fyrrnefnda staðnum sé búnaður með aðdráttarlinsu. Stuðli það þannig að betri sönnunargögnum. Umhverfi þar sé einnig ótvírætt þægilegra og meira sniðið að þörfum svo ungs barns.
III.
Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík er þess krafist að hafnað verði fram kominni beiðni réttargæslumanns um skýrslutöku í Barnahúsi. Krafist er að skýrslutakan fari fram eins fljótt og unnt er og með þeim hætti sem dómari hafi ákveðið.
Dómari hafi þegar ákveðið að nota séraðstöðu í Dómhúsinu og að kalla til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutökuna. Þótt lögreglan hafi í upphafi verið hlutlaus í afstöðu til þess hvar skýrslutakan færi fram telji hún rétt, úr því sem komið er, að skýrslutakan fari fram eins og dómari hafi þegar ákveðið en brýnt sé að það verði án frekari tafa. Með því að fallast á sjónarmið réttargæslumanns væri dómari að ganga lengra en lög og reglugerð mæltu fyrir um varðandi aðstæður við skýrslutöku. Með fyrirkomulaginu sem dómari hefði ákveðið væru hagsmunir barnsins tryggðir í hvívetna. Vísað er til meginreglunnar um að dómþing fari fram á reglulegum þingstað.
Dómari hafi kvatt sér til aðstoðar sérþjálfaðan kunnáttumann. Engin lagarök séu fyrir því að dómari kalli til konu, en kyn þess sem aðstoði dómara við skýrslutöku geti ekki skipt máli. Vísað er til góðrar reynslu af karlkyns spyrjendum í málum sem þessum. Lögreglan hafi gert móður stúlkunnar grein fyrir því að það væri hlutverk dómarans að ákveða hver annaðist skýrslutökuna og hvar hún færi fram.
Ekki er fallist á að þörf sé á að kalla til sálfræðing. Lagareglan geri ráð fyrir að dómarinn meti hvern rétt sé að kalla til aðstoðar sem kunnáttumann. Varðandi börn með athyglisbrest skipti einkum máli að sá sem spyrji gangi hreint til verks og nái fram upplýsingum frá þeim á sem skemmstum tíma. Rannsóknarlögreglumaðurinn sem dómarinn hafi kvatt til hafi einmitt góða þjálfun í þessu. Hann hafi með góðum árangri tekið skýrslur af börnum af báðum kynjum og á öllum aldri, allt frá fimm ára gömlu barni til barna á unglingsaldri. Hendur dómara séu ekki bundnar umfram það sem segi í lögum og reglugerð en fyrirkomulagið sem dómari hafi ákveðið sé ekki á nokkurn hátt íþyngjandi fyrir barnið. Ekki hefði verið tekin afstaða til þess af hálfu lögreglunnar hvort tilefni væri nú til læknisrannsóknar enda hefði verið orðið of seint að tryggja sönnun með henni þegar málið var kært til lögreglu.
Skipaður verjandi kærða hefur lýst því að hann hafi þegar í upphafi fallist á þá málsmeðferð sem dómari hafi ákveðið. Mjög brýnt sé að hraða málinu. Þótt hann teldi betur fara á því að ungt barn eins og hér um ræði gefi skýrslu í Barnahúsi en í Dómhúsi telur hann nauðsynlegt að hraða málsmeðferðinni og að ákvarðanir um fyrirkomulag verði teknar út frá því. Hann telji enga þörf á að kalla til sálfræðing en verjandinn hefur kynnst störfum rannsóknarlögreglumannsins, sem dómarinn hefur kallað til aðstoðar við skýrslutökuna, við sambærilegar aðstæður og hér um ræðir og hafi hann staðið sig mjög vel. Að mati verjandans sé þar um mjög hæfan kunnáttumann á þessu svið að ræða. Kyn spyrjandans skipti ekki máli enda hafi kunnátta hans og fyrri reynsla mesta þýðingu.
IV.
Brýnt er að dómari geti tekið skjótar ákvarðanir um fyrirkomulag skýrslutöku og tilkynnt um hana eins og skylt er samkvæmt 2. mgr. 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára nr. 321/1999. Reynt hefur verið að miða við að undirbúningur skýrslutöku taki sem skemmstan tíma og að ekki líði nema í mesta lagi örfáir dagar frá því að beiðni berst dóminum þar til skýrslutakan fer fram. Það skiptir máli meðal annars vegna þess að reynslan hefur sýnt að ung börn eiga oft erfitt með að muna atvik og skýra frá þeim þótt tiltölulega skammur tími hafi liðið síðan þau gerðust. Með því að bregðast skjótt við er bæði unnt að koma til móts við brýna rannsóknarhagsmuni og hagmuni barnsins af því að þurfa ekki að bíða í óvissu í alltof langan tíma eftir því að skýrslutaka geti farið fram. Þannig er hraðinn ekki eingöngu almenn regla við rannsóknir opinberra mála heldur tryggir hann um leið þessa mikilvægu hagsmuni.
Dómarinn hefur á undanförum árum haft til meðferðar um 20-30 mál þar sem beðið hefur verið um skýrslutökur af brotaþolum yngri en 18 ára í tilvikum sem þessu. Langflest þessara barna hafa gefið skýrslu í hinni sérútbúnu aðstöðu hér í Dómhúsinu. Hefur það í nánast öllum tilvikum gengið vel en dómarinn hefur alltaf kallað til kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökurnar, ýmist sálfræðing eða rannsóknarlögreglumann, oftast þann sem kallaður hefur verið til aðstoðar í þessu máli. Ekki hefur verið að sjá að það hafi íþyngt nokkru þessara barna að hafa þurft að gefa skýrslu við framangreindar aðstæður. Verður ekki fallist á að í þessu tilviki standi svo sérstaklega á að annað eigi við um það barn sem hér um ræðir.
Í tilkynningu Dómstólaráðs nr. 2/2000, frá 28. september 2000, segir að dómari geti við ákvörðun um hvar skýrsla af barni vegna rannsóknar kynferðisbrots skuli tekin haft til viðmiðunar, eftir því sem aðstæður leyfi við hvern dómstól, að skýrslutökur af yngri börnum en 14 ára fari fram í sérútbúnu skýrslutökuherbergi í húsnæði dómstóls eða Barnahúsi. Enn fremur segir að dómari geti til dæmis ákveðið að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi ef fyrir liggur að barnið þurfi að gangast undir læknisrannsókn sem fram geti farið þar. Engin ákvörðun hefur verið tekin af hálfu lögreglunnar um að læknisrannsókn skuli fara fram. Framangreind tilvitnun úr tilkynningu Dómstólaráðs á því ekki við sem röksemd fyrir því að skýrslutakan fari fram í Barnahúsi.
Tæknibúnaður í Dómhúsinu hefur ekki sætt aðfinnslum áður svo kunnugt sé. Engin gögn liggja fyrir sem styðja þá staðhæfingu réttargæslumanns að myndavél í skýrslutökuherbergi í Dómhúsinu sé ekki búin aðdráttarlinsu. Getur þetta atriði því ekki haft áhrif á niðurstöðu á því ágreiningsefni sem hér um ræðir.
Við úrlausn ágreiningsefnisins verður lagt til grundvallar að aðstæður í sérútbúnu skýrslutökuherbergi í Dómhúsinu til skýrslutöku af brotaþola yngri en 18 ára séu mjög góðar. Einnig verður að líta til þess að dómari á þess frekar kost að skipuleggja skýrslutöku með skömmum fyrirvara í Dómhúsinu en með því að láta skýrslutöku fara fram í Barnahúsi. Það á sérstaklega við núna vegna óvenju mikils vinnuálags sem verið hefur að undanförnu á dóminum og verður fyrirsjáanlega næstu mánuði. Með vísan til þess hve þýðingarmikið er að rannsóknin verði ekki fyrir töfum og til annars sem hér hefur verið rakið verður að hafna því að umbeðin skýrslutaka fari fram í Barnahúsi.
Vegna þess hve hraðinn skiptir miklu máli, eins og hér að framan hefur verið lýst, er ekki fallist á að dómara beri að hafa samráð við lögreglustjóra, réttargæslumann og verjanda um það hvern hann kveður sem kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutöku umfram það sem gögn málsins gefa tilefni til. Dómari mat það svo að ekki væri ástæða til að ráðgast við framangreinda aðila vegna fyrirhugaðrar skýrslutöku þegar hann tók ákvörðun um að kalla til kunnáttumann og hvern skyldi kalla til. Ekkert nýtt hefur komið fram sem breytir því mati. Engar haldbærar röksemdir hafa komið fram fyrir því að kveðja þurfi til sálfræðing til aðstoðar við skýrslutökuna. Sá kunnáttumaður sem dómarinn hefur kallað til er sérþjálfaður og hefur reynslu af því að taka skýrslur af börnum með góðum árangri. Hann er mjög fljótur að ná tengslum við börnin, sem hann hefur tekið skýrslur af hér, og hann hefur átt mjög gott með að fá þau til að tjá sig eðlilega. Hann hefur einstakt lag á að halda athygli þeirra en þau virðast auðveldlega gleyma sér í frásögninni og ekki er að sjá að umhverfið trufli þau á nokkurn hátt nema síður sé. Verður að telja þessa eiginleika rannsóknarlögreglumannsins góðan kost, einkum í því máli sem hér um ræðir. Afstaða lögreglunnar er sú að honum sé einmitt vel treystandi til að taka skýrslu af barninu sem í hlut á hér. Verður á það mat fallist. Kyn þess sem kallaður er til aðstoðar sem kunnáttumaður við skýrslutöku af barni skiptir ekki máli enda er hvorki gert ráð fyrir því í lögum né samkvæmt öðrum reglum sem hér eiga við.
Þótt taka þurfi skýrslu af barni vegna rannsóknar lögreglu í tilefni af kæru vegna ætlaðs brots gegn barninu er ekki um að ræða ráðstöfun gagnvart barninu í skilningi 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989, sbr. auglýsingu nr. 18/1992. Ákvæði samningsins hefur því ekki þýðingu fyrir úrlausnarefnið. Telja verður að jafnræðis hafi verið gætt við undirbúning skýrslutökunnar enda hefur hann verið samkvæmt fyrirmælum í lögum. Einnig hefur hann verið í samræmi við hefðbundin vinnubrögð dómsins að svo miklu leyti sem unnt hefur verið miðað við vinnuálag og aðrar aðstæður sem dómurinn starfar við.
Að öllu þessu virtu verður að hafna kröfum réttargæslumanns sem hér er deilt um. Skýrslutakan fer því fram í sérútbúnu skýrslutökuherbergi í Dómhúsinu við Lækjartorg og skal hún fara fram svo fljótt sem verða má. Hafnað er kröfu um að annar kunnáttumaður verði kallaður til en sá sem dómari hefur þegar kvatt til aðstoðar við skýrslutökuna.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er beiðni réttargæslumanns, Sifjar Konráðsdóttur hrl., um að umbeðin skýrslutaka fari fram í Barnahúsi og að hún verði framkvæmd af konu með sérþekkingu í sálarfræði.