Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. október 2007.

Nr. 536/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103.gr. laga nr. 19/1991.

Á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var X gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október 2007.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Úrskurður héraðsdóms er ekki að öllu leyti nákvæmur um atvikalýsingu, en af gögnum málsins verður fallist á með sóknaraðila að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili tengist skipulögðum þjófnaðarbrotum á höfðuborgarsvæðinu. Slík brot geta varðað fangelsisrefsingu allt að sex árum. Uppfyllt eru skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um gæsluvarðhald yfir varnaraðila en gæsluvarðhaldinu markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

       Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október 2007, klukkan 16.

 

                                    Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 10. október 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 24. október 2007 kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú rúmlega 20 þjófnaði úr verslunum, þar sem í öllum tilvikum sé um að ræða að stolið hafi verið á opnunartíma verslana með kerfisbundnum hætti dýrum smávarningi. Um síðustu mánaðamót hafi vaknað grunsemdir um að hópur fólks, frá Litháen, sem hér dvelji, stæði að þjófnuðunum. Gerð hafi verið húsleit í íbúð á 3. hæð í [...], Reykjavík, 2. október sl. Í íbúðinni haldi til nokkrir Litháar, þar á meðal kærði. Við húsleitina hafi verið hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivöru og ýmsan tæknibúnað. Í kjölfarið hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald miðvikudaginn 3. október sl.

Hafi lögregla nú unnið að því að skrá niður alla þá muni sem fundust við húsleitina og fara yfir innkomnar kærur frá verslunum vegna stórfellds búðahnupls. Þá sé búið að fara yfir myndskeið úr þeim málum sem kærði sé grunaður í ásamt fleiri mönnum og hafi hann þekkst á myndskeiðum úr verslunum sem kært hafa þjófnað.

Eftirtalin mál séu til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á hendur þeim hópi, sem kærði sé aðili að, og sé grunaður um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi:

Mál nr. 007-2007-54068

Innbrot í bifreið þann 14.-15. júlí sl. þar sem stolið var GPS Gramin staðsetningartæki að verðmæti 50.000 krónur. GPS tækið fannst við húsleit í Fellsmúla 4, Reykjavík.

 

Mál nr. 007-2007-56665

Þann 22. júlí sl. kom kærði ásamt öðrum manni með fatnað á Litla-Hraun, sem reyndist vera þýfi. Um er að ræða fatnað frá Intersport að verðmæti 115.120 krónur og fatnað frá Herragarðinum að verðmæti 129.840 krónur. Allur þessi fatnaður endurheimtist og segja verslanirnar vörurnar vera óseldar. Kærði hefur neitað sök í málinu, en vísar á annan aðila innan þess hóps sem til rannsóknar er hjá embættinu.

 

Mál nr. 007-2007-61214

Þann 11. ágúst sl. var fatnað stolið úr verslun Intersport, Bíldshöfða, Reykjavík, að verðmæti 22.940 krónur. Benti starfsmaður verslunarinnar á einn úr hópi kærðu sem aðalmann en hann hafi verið þar ásamt fleiri aðilum.

 

Mál nr. 007-2007-70650

Þann 14. september sl. stóð starfsmaður Krónunnar, við Fiskislóð, Reykjavík, þrjá menn að þjófnaði í versluninni en þeir komust undan. Þeir skildu eftir tvo bakpoka, sem þeir voru búnir að setja rakvélablöð í að verðmæti 83.727. Þá komust þeir undan með þriðja bakpokann, sem talið er að hafi innihaldið meira þýfi.

 

Mál nr. 007-2007-72499

Þar var stolið rakvélablöðum að verðmæti 50.891 krónur í verslun Bónus við Tjarnarvelli, Hafnarfirði, þann 2. september sl. Sáu starfsmenn til þriggja dökkklæddra aðila.

 

Mál nr. 007-2007-75199

Tilkynnt var um þjófnað á tónlistarforriti úr verslun Tónabúðarinnar í Skipholti, Reykjavík, þann 29. september sl. Er verðmæti þess 40.000 krónur. Myndskeið er til af verknaðinum og sést þar hvar tveir menn koma inn í búðina og hlaupa út með kassa.

 

 Mál nr. 007-2007-75650

Tilkynnt var um þjófnað og líkamsárás í 10-11, Lágmúla; Reykjavík, þann 2. október sl. Starfsmaður sá hvar mennirnir sem komu inn stungu inn á sig snakkpokum og kjúklingi, samtals að verðmæti 2.906 krónur og gengu svo rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir. Er hún ákvað að stöðva för þeirra stukku þeir undan en hún náði taki í úlpu eins þeirra en sá hrinti henni frá sér svo að hún féll í gólfið og skellti höfðinu utan í vörurekka.

 

Mál nr. 007-2007-75840

Tilkynnt var um stolna tölvu í verslun Bræðranna Ormsson, Síðumúla 9, Reykjavík, þann 29. september sl. Sá starfsmaður hvar þrír menn komu inn í verslunina og voru þar í ca. 5-6 mínútur. Eftir komu þeirra var einnar fartölvu saknað, verðmæti 90.000 krónur.

 

Mál nr. 007-2007-76081

Innbrot í bifreið þann 3. september sl. fyrir utan Hringbraut 61, Reykjavík. Var þaðan stolið GPS staðsetningartæki af gerðinni Garmin Nuvi 660, að verðmæti 50.000 krónur. GPS staðsetningartækið fannst við húsleit í stofu í Fellsmúla 4, Reykjavík.

 

Mál nr. 007-2007-76203, 007-2007-77490 og 007-2007-77491

Stolið var snyrtivörum og rakvélablöðum í verslun Hagkaupa, Skeifunni, Reykjavík, þann 13. og 15. september sl. og í verslun Hagkaupa, Garðabæ, þann 16. september sl. Samtals að verðmæti 335.754 krónur en ekki er vitað nákvæmlega hversu miklu var stolið í hvert skipti, en verðmæti varanna er byggð á vörutalningu starfsmanna, eftir að þeir urðu varir við að miklum vörum væri stolið úr verslununum.

 

Mál nr. 007-2007-76210

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 62.965 í verslun Bónus, Smiðjuvegi, Kópavogi, þann 24. ágúst sl.

 

Mál nr. 007-2007-76215

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 21.588 í verslun Bónus, Hraunbæ, Reykjavík, þann 29. ágúst sl.

 

Mál nr. 007-2007-76216

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 57.568 í verslun Bónus við Hraunbæ, Reykjavík, þann 31. ágúst sl.

 

Mál nr. 007-2007-76222

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 62.965 í verslun Bónus, Holtagarða, Reykjavík, þann 1. september sl.

 

Mál nr. 007-2007-76225

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 17.990 í verslun Bónus, Smiðjuvegi, Kópavogi, þann 1. september sl.

 

Mál nr. 007-2007-76228

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 69.400 í verslun Bónus, Smiðjuvegi, Kópavogi, þann 2. september sl.

 

Mál nr. 007-2007-76233

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 118.320 krónur í verslun Bónus, Smiðjuvegi, Kópavogi, þann 8. september sl.

 

Mál nr. 007-2007-76236

Stolið var rakvélablöðum að verðmæti 50.000 krónur, að því að talið er, í verslun Bónus við Hraunbæ, Reykjavík, þann 23. ágúst sl.

 

Mál nr. 007-2007-76237

Stolið var snyrtivörum að verðmæti 41.311 krónur í verslun Lyfju, Lágmúla, Reykjavík, þann 2. október sl.

Varningurinn sem hverfi í ofantöldum þjófnaðarbrotum sé eins og áður sagði ýmis smávara, snyrtivörur, tölvutengdur varningur og fatnaður. Í leitum sem gerðar hafi verið í þeim íbúðum sem kærðu dveli eða hafi aðgang að, hafi varningur fundist sem svari til þess sem horfið hafi í þeim þjófnaðarbrotum sem til rannsóknar séu. Þá hafi við rannsókn málsins verið upplýst að póstsendingar á vegum nokkurra hinna kærðu til sömu borgar í Litháen, samkvæmt þeim innihaldslýsingum sem fyrir liggi, séu sendingarnar m.a. smávarningur og snyrtivörur.

Að mati lögreglu sé kærði aðili að hóp sem sjái um skipulagða þjófnaði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum ofantöldum málum hafi lögregla þekkt gerendur sem aðila úr þessum  hópi. Þá hafi munir sem tengjast ofantöldum málum fundist á dvalarstað kærðu og hafi kærði sjálfur þekkst á nokkrum myndskeiðum úr verslunum. Sé hópurinn grunaður um að stela úr verslunum með kerfisbundnum hætti, þar sem þeir skipuleggi sig saman og skipti með sér verkum hverju sinni. Sé það mat lögreglu að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málanna, svo sem með því að samræma framburð sinn við framburð ætlaðra samverkamanna sinna. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málanna að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt verði að ljúka rannsókn málsins og koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn málsins.

Sakarefni málanna sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Lögreglan hefur til rannsóknar fjölda þjófnaðarmála úr ýmsum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og beinist rannsóknin að kærða og nokkrum félögum hans. Við slíkum brotum liggur fangelsisrefsing samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fallist er á með lögreglu að rökstuddur grunur beinist að kærða um þátt eða hlutdeild í brotunum.  Þar sem málið er enn til rannsóknar og félagar hans eru einnig undir grun verður að tryggja að þeim verði gert ókleift að hafa samband sín á milli og samræma skýrslur sínar.  Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem greinir í úrskurðarorði en lögreglan stefnir að því að ákæra verði gefin út á næstu tveimur vikum. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

                                        Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 24. október 2007 kl. 16:00.