Hæstiréttur íslands

Mál nr. 699/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gagnaöflun
  • Kröfugerð


                                                                                              

Mánudaginn 23. janúar 2012.

Nr. 699/2011.

Kaupþing banki hf.

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Aresbank S.A.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Gagnaöflun. Kröfugerð.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem honum var gert að veita A aðgang að gögnum og upplýsingum um nánar tilgreind atriði á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bar K einkum fyrir sig þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í dómi Hæstaréttar sagði að fallist væri á með A að hann ætti á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 rétt til gagna sem þýðingu hefðu við mat á því hvort honum hefði verið mismunað samanborið við aðra kröfuhafa þegar skuldbindingar hefðu verið færðar frá K til N haustið 2008. Hann yrði á hinn bóginn að haga beiðni sinni á þann hátt að dómstólar gætu metið hvort það færi í bága við 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að verða við beiðninni. Þótti krafa A of víðtæk til þess að unnt væri að framkvæma slíkt mat. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili skyldi veita varnaraðila ,,aðgang að til skoðunar öllum gögnum og tiltækum upplýsingum“, sem sóknaraðili byggi yfir og varði annars vegar innlán og innstæður frá fjármálafyrirtækjum og hins vegar heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem færð voru frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf. haustið 2008. Auk þess var sóknaraðila gert skylt að afhenda varnaraðila eftirrit þessara gagna eftir ósk hans og á hans kostnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lýsti varnaraðili þremur kröfum við slit sóknaraðila, en kröfurnar kveður hann vera vegna svonefndra peningamarkaðsinnlána. Með bréfi til sóknaraðila 1. febrúar 2011 óskaði varnaraðili eftir upplýsingum og afhendingu gagna, sem að baki þeim byggju með vísan til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. málslið 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Beiðnin var í fjórum töluliðum, sem hver um sig greindist í þrjá stafliði. Í stuttu máli óskaði varnaraðili eftir upplýsingum og gögnum um peningamarkaðsinnlán innlendra og erlendra fjármálafyrirtækja hjá sóknaraðila, um heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum, um innlán (innstæður) frá fjármálafyrirtækjum, sem færð voru frá sóknaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf. og um heilsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækum, sem færð voru frá sóknaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Efni beiðninnar er nánar rakið í hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili hefur veitt varnaraðila upplýsingar sem óskað var eftir í fyrsta lið beiðninnar svo og hluta af þeim skjölum, sem að baki þeim búa. Þá hefur hann upplýst að engum kröfum hafi verið lýst við slitin vegna peningamarkaðsinnlána frá einstaklingum og fyrirtækjum, öðrum en fjármálafyrirtækjum. Sóknaraðili neitaði að veita upplýsingar og afhenda gögn, sem tilgreind voru í þriðja og fjórða tölulið beiðninnar, þar sem hann taldi sér það ekki heimilt. Varnaraðili hefur haldið kröfu sinni til streitu og varð samkomulag um að skjóta ágreiningnum til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991.

II

Fyrir héraðsdómi gerði varnaraðili þá kröfu, að sóknaraðila yrði gert að afhenda varnaraðila „öll gögn og allar tiltækar upplýsingar“, sem sóknaraðili byggi yfir og varði „annars vegar innlán og innstæður frá fjármálafyrirtækjum og hins vegar heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem öll voru færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf. á haustmánuðum 2008.“

Varnaraðili reisir kröfu sína á því að ákvæði laga nr. 21/1991 gildi um beiðni hans og samkvæmt 2. mgr. 80. gr. sömu laga geti sá, sem sýni skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins á meðan þau eru í vörslum skiptastjóra. Varnaraðili kveður hina lögvörðu hagsmuni sína vera þá, að hann hafi lagt níu sinnum inn svonefnd peningamarkaðsinnlán hjá íslenskum bönkum, samtals að fjárhæð 120.000.000 evrur auk 7.000.000 sterlingspunda. Hann hafi höfðað mál á hendur Landsbankanum hf., áður NBI hf., Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu vegna innlána, sem lögð hafi verið inn hjá Landsbanka Íslands hf. og hafi dómur verið kveðinn upp í því 22. desember 2010, en honum hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Varnaraðili kveðst ítrekað hafa skorað á Fjármálaeftirlitið að láta sér í té upplýsingar sambærilegar þeim sem hann krefur sóknaraðila um í máli þessu, án árangurs. Telur varnaraðili ljóst að þegar skuldbindingar hafi verið færðar frá gömlu bönkunum yfir til nýju bankanna haustið 2008 hafi kröfuhöfum verið mismunað og að skuldbindingar vegna krafna, sem voru eins eða sambærilegar kröfum hans, hafi verið færðar yfir í nýju bankana. Þær upplýsingar og gögn, sem hann hafi beðið um, muni renna stoðum undir þessa skoðun sína og ráða úrslitum um niðurstöðu Hæstaréttar í áðurnefndu dómsmáli. Auk þessa hafi hann augljósa hagsmuni af því að fá umræddar upplýsingar og gögn vegna krafna sem hann hafi lýst við slit sóknaraðila, en kröfurnar hafi verið vegna peningamarkaðsinnlána hans hjá sóknaraðila. Slitastjórn sóknaraðila hafi hafnað því að kröfurnar nytu forgangsréttar samkvæmt 112. gr.  laga nr. 21/1991.

Fallist er á með varnaraðila að hann eigi á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 rétt á því að fá aðgang að gögnum og eftir atvikum eftirrit þeirra, sem þýðingu hafa við mat á því, hvort honum hafi verið mismunað samanborið við aðra þegar skuldbindingar voru færðar frá sóknaraðila til Nýja Kaupþings banka hf. haustið 2008. Hann verður á hinn bóginn að haga beiðni um þetta á þann hátt að unnt sé að meta, hvort það fari í bága við 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að verða við beiðninni. Mat á því hvort svo sé verður að fara fram hverju sinni og eiga dómstólar endanlegt úrskurðarvald um það, sbr. dóm Hæstaréttar 20. janúar 2010 í máli nr. 758/2009. Krafa varnaraðila í máli þessu um aðgang að gögnum eins og hún er afmörkuð í hinum kærða úrskurði er of víðtæk til þess að unnt sé að framkvæma slíkt mat. Verður þegar af þeirri ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur því ekki krafist endurskoðunar á málskostnaðarákvörðun hans.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011.

                Þetta mál, sem barst dóminum, 10. júní 2011, með bréfi slitastjórnar Kaup­þings banka hf., var þingfest 11. júlí og tekið til úrskurðar 11. október 2011.

                Sóknaraðili, Aresbank S.A., Paseo de la Castellana 257, Madrid, Spáni, krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðila öll gögn og allar tiltækar upplýs­ingar sem varnaraðili býr yfir og varða annars vegar innlán og innstæður frá fjármála­fyrir­tækjum og hins vegar heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjár­mála­fyrir­tækjum, sem öll voru færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf. á haustmánuðum 2008.

                Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðis­auka­skatti.

                Varnaraðili, Kaupþing banki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

                Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.

Málavextir

                Sóknaraðili er spænskur banki í eigu Libyan Foreign Bank sem aftur er í eigu Seðlabanka Líbýu. Sumarið 2008 og fram á haust það ár lagði sóknaraðili níu sinnum inn peninga hjá bönkum á Íslandi, hjá Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Lands­banka Íslands hf. Þetta voru svonefnd peningamarkaðsinnlán sem námu samtals 120.000.000 evra auk 7.000.000 breskra punda.

                Í febrúar 2009 höfðaði sóknaraðili mál á hendur NBI hf., Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu. Með dómi Héraðsdóms Reykja­víkur, 22. desember 2010, voru stefndu sýkn­aðir af kröfum hans. Þeim dómi hefur sóknaraðili áfrýjað til Hæstaréttar. Í því máli krefst sóknaraðili þess að stefndi, NBI hf., greiði honum 30.000.000 evra. Til vara beinir sóknaraðili kröfunni að íslenska ríkinu og Fjármálaeftirlitinu. Í málinu leitast hann við að sýna fram á að kröfur, sambærilegar þeim kröfum sem sóknaraðili átti á hendur Lands­banka Íslands hf., vegna svokallaðra peninga­markaðs­innlána, hafi verið fluttar frá gömlu bönkunum þremur, Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf., við fall þeirra, haustið 2008, yfir til nýju bankanna. Til að sanna mál sitt kveðst sóknaraðili þurfa að fá tilteknar upp­lýs­ingar og gögn sem slita­stjórnir gömlu bank­anna hafi undir höndum, og af þeim sökum sé þetta mál sprottið.

                Hinn 1. febrúar 2011 sendi lögmaður sóknaraðila slitastjórnum gömlu bank­anna þriggja, þar á meðal slitastjórn varnaraðila, bréf þar sem farið var fram á afhend­ingu gagna varðandi:

1.         Peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum:

a.     Heildarfjárhæð peningamarkaðsinnlána frá fjármálafyrirtækjum, innlendum sem erlendum, þar með talið frá Seðlabanka Íslands, sem lögð höfðu verið inn hjá varn­ar­aðila og búið var að gera kröfu til vegna slitameðferðar.

b.     Öll undirliggjandi skjöl og gögn að baki peningamarkaðsinnlánum skv. a-lið 1. tl.

c.     Hvort varnaraðili hafi greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta af peningamarkaðsinnlánum skv. a-lið 1. tl.

2.         Heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum:

a.     Heildarfjárhæð heildsölu- og peningamarkaðsinnlána frá einstaklingum og fyrir­tækjum, sem lögð höfðu verið inn hjá varnaraðila og búið var að gera kröfu til vegna slitameðferðar.

b.     Öll undirliggjandi skjöl og gögn að baki heildsölu- og peninga­markaðs­inn­lánum skv. a-lið 2. tl.

c.     Hvort varnaraðili hafi greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta af umræddum heildsölu- og peningamarkaðsinnlánum skv. a-lið 2. tl.

3.         Innlán/innstæður frá fjármálafyrirtækjum sem færðar voru frá varnaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf.:

a.     Heildarfjárhæð allra innlána/innstæðna frá fjármálafyrirtækjum, innlendum sem erlendum, þ.m.t. frá Seðlabanka Íslands, sem færð voru frá varnaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf.

b.     Öll þau undirliggjandi skjöl og gögn sem varða yfirfærslur skv. a-lið 3. tl.

c.     Hvort varnaraðili hafi greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta af innlánum skv. a-lið 3. tl.

4.         Heildsölu- og peningamarkaðsinnlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum sem færð voru frá varnaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf.:

a.     Heildarfjárhæð heildsölu- og peningamarkaðsinnlána frá einstaklingum og fyrir­tækjum sem færð voru frá varnaraðila yfir til Nýja Kaupþings banka hf.

b.     Öll þau undirliggjandi skjöl og gögn sem varða yfirfærslur skv. a-lið 4. tl.

c.     Hvort varnaraðili hafi greitt í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta af heildsölu- og peningamarkaðsinnlánum skv. a-lið 4. tl.

                Slitastjórn varnaraðila hafnaði í upphafi þessari beiðni með bréfi, 24. febrúar 2011. Eftir nokkur bréfaskipti veitti slitastjórn varnaraðila, á fundi 25. maí 2011, sókn­ar­aðila upplýsingar um a- og c-lið 1. liðar í upphaflegu beiðni hans, ásamt því að upplýsa sóknaraðila um að ekki hefði verið lýst neinum kröfum við slita­með­ferð varn­ar­aðila vegna heildsölu- og pen­inga­markaðs­innlána frá einstaklingum og fyrir­tækjum (öðrum en fjár­mála­fyrir­tækjum), sbr. 2. lið í beiðni sóknaraðila. Slita­stjórn tók sér hins vegar frest til að skoða nánar b-lið 1. liðar í beiðni sóknaraðila og ákveða hvort slíkar upp­lýs­ingar yrðu veittar. Þá höfnuðu fulltrúar slitastjórnar varn­ar­aðila því að veita upplýsingar um 3. og 4. lið í beiðni sóknaraðila á þeim for­sendum að slita­stjórnin teldi sér ekki heimilt að veita slíkar upplýsingar.

                Fulltrúar slitastjórnar varnaraðila og lögmaður sóknaraðila funduðu aftur um ágrein­inginn 8. júní 2011 og afhenti slitastjórn varnaraðila lögmönnum sóknar­aðila hluta af þeim skjölum sem farið var fram á undir b-lið 1. liðar í upphaflegu beiðni sókn­ar­aðila. Nánar tiltekið fékk sóknaraðili afhent afrit af kröfulýsingum fjár­mála­fyrir­tækja sem tengjast til­teknum peninga­markaðslánum og útdrátt úr kröfuskrá yfir lýstar kröfur vegna peninga­markaðslána. Þá ítrekaði slitastjórnin að hún yrði ekki við beiðni sóknaraðila um afhend­ingu gagna undir 3. og 4. lið í beiðni sókn­ar­aðila. Aðilar sam­mæltust um að slita­stjórnin beindi ágreiningi vegna þessara liða til Héraðsdóms Reykja­víkur í samræmi við 171. gr. laga nr. 21/1991 og var það gert 10. júní 2011.

Málsástæður sóknaraðila

                Til stuðnings kröfu sinni um afhendingu gagna og upplýsinga um þær skuld­bind­ingar sem færðar voru frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., við fall þess fyrr­nefnda á haustmánuðum 2008 vísar sóknaraðili fyrst til lokamálsliðar 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt því ákvæði skuli reglur um skipta­stjóra við gjaldþrotaskipti gilda um slitastjórn fjármálafyrirtækja, störf hennar og stjórnarmenn. Því sé ljóst að ákvæði laga nr. 21/1991 um skiptastjóra eigi við um störf slitastjórnar varnaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 geti sá sem sýni skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins á meðan þau eru í vörslum skiptastjóra.

                Sóknaraðili telur í öðru lagi ekki nokkrum vafa undirorpið að hann hafi lögvar­inna hagsmuna að gæta og uppfylli þar af leiðandi skilyrði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991. Til þess að hagsmunir teljist lögvarðir verði þeir að njóta verndar laga og lands­réttar, sbr. 1. mgr. 24. gr. um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá hafi einnig verið talið að hags­munir þurfi að vera einstaklegir, þ.e. þeir þurfi að varða þann aðila sem hafi uppi kröfu á grundvelli þeirra, og þeir þurfi að hafa raun­hæft gildi fyrir aðila. Hagsmunir sókn­ar­aðila komi annars vegar til vegna aðildar hans að dóms­máli þar sem umræddar upp­lýsingar séu líklegar til að hafa úrslitaáhrif á niður­stöðu dómsins og hins vegar vegna stöðu hans sem kröfuhafa gagnvart varnar­aðila.

                Sóknaraðili hafi árið 2008 níu sinnum lagt inn svonefnd peningamarkaðsinnlán hjá íslenskum bönkum að fjárhæð samtals 120.000.000 evra auk 7.000.000 breskra punda. Vegna þriggja þessara peningamarkaðsinnlána hafi sóknaraðili höfðað dóms­mál á hendur NBI hf. vegna innlána sem lögð höfðu verið inn hjá Landsbanka Íslands hf. Því máli hafi lokið í héraði með dómi 22. desember 2010 í máli nr. E-2832/2009, Ares­bank gegn NBI hf., Fjár­mála­eftir­litinu og Ríkissjóði Íslands. Sóknaraðili hafi undir rekstri þess dóms­máls margsinnis skorað á Fjármálaeftirlitið að láta honum í té upp­lýs­ingar sambærilegar þeim er sóknar­aðili krefjist að varnaraðili láti af hendi í þessu máli. Hafi Fjármálaeftirlitið ekki orðið við þeirri áskorun. Sóknaraðili hafi nú áfrýjað dómi héraðs­dóms til Hæstaréttar Íslands. Sóknaraðili telji víst að þegar skuld­bind­ingar hafi verið færðar frá gömlu bönkunum yfir til nýju bankanna við hrun við­skipta­bank­anna þriggja hafi kröfuhöfum verið mis­munað og að skuldbindingar vegna krafna sem voru eins eða sambærilegar kröfum sókn­ar­aðila hafi verið færðar yfir í nýju bankana. Sókn­ar­aðili telji ljóst að umrædd gögn og upplýsingar muni sýna fram á að svo hafi verið og að slíkt muni hafa úrslita­áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar. Í ljósi aðildar íslenska ríkis­ins að fyrrnefndu máli telji sóknaraðili það skipta verulegu máli að úr því verði skorið hvort kröfuhöfum í sömu stöðu hafi verið mismunað.

                Þessu til viðbótar hafi sóknaraðili augljósa hagsmuni af því að fá umrædd gögn og upplýsingar þar sem hann hafi lýst kröfum við slitameðferð varnaraðila. Umræddar kröfur beri kröfunúmerin 20100111-0008, 20091227-0820 og 20100111-0009 og séu til komnar vegna þriggja peningamarkaðsinnlána sem sóknaraðili lagði inn hjá varnar­aðila í júní og september árið 2008. Slitastjórn varnaraðila hafi þegar hafnað því að kröf­urnar njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og sóknaraðili hafi farið fram á í kröfulýsingu sinni dagsettri 17. desember 2009. Með vísan til fyrri umfjöll­unar um mismunun milli kröfuhafa telji sóknaraðili ljóst að umræddar upplýs­ingar og gögn muni sýna fram á að kröfur, sambærilegar kröfum hans í bú varnaraðila, hafi verið fluttar yfir til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banki hf.

                Með hliðsjón af þessari stöðu sóknaraðila, hvort sem litið sé til aðildar hans að dóms­máli eða stöðu hans sem kröfuhafa í bú varnaraðila, telji sóknaraðili ljóst að skil­yrði reglunnar um lögvarða hagsmuni séu uppfyllt. Þannig sé viður­kenn­ingar­krafa sóknaraðila í þessu dómsmáli lögvarin krafa, sbr. 1. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé einnig ljóst að hagsmunirnir sem hér um ræðir séu einstaklegir, þ.e. sókn­ar­aðili sé réttur aðili að hagsmununum. Að lokum liggi í augum uppi að hags­mun­irnir af því að orðið sé við kröfum sóknaraðila í þessu máli hafi raunhæft gildi fyrir hann og séu í raun gríðarlegir með hliðsjón af þeim fjármunum sem séu í húfi.

                Með hliðsjón af öllu ofansögðu sé ekki nokkrum vafa undirorpið að sóknar­aðili hafi lögvarða hags­muni af því að fá þær upplýsingar og þau gögn sem hann krefjist frá varnaraðila. Því beri varnaraðila, í samræmi við 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, að verða við kröfum sóknaraðila.

                Sóknaraðili byggir enn fremur á því að reglur um bankaleynd eigi ekki við. Í bréfum sínum frá 24. febrúar 2011 og 22. mars 2011 hafi slitastjórn varnar­aðila vísað til reglna um bankaleynd og talið þær koma í veg fyrir að sér væri heimilt að afhenda þau gögn sem sóknaraðili hafi farið fram á að yrðu afhent. Sóknar­aðili telji ljóst að reglur um bankaleynd eigi ekki við í þessu tilviki þar sem slíkar reglur gildi ekki hvíli á annað borð sú lagaskylda á fjármálafyrirtæki að veita upplýsingar og jafn­framt vegna þess að ekki sé tækt að slíkar reglur gildi um ákveðnar sérvaldar skuld­bind­ingar við slit fjár­mála­fyrir­tækja, en aðrar ekki.

                Í umræddum bréfum hafi slitastjórn varnaraðila vísað til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 og talið að það ákvæði um þagnarskyldu kæmi í veg fyrir að varnaraðili gæti veitt sóknaraðila umbeðnar upplýsingar. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 segi að „stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endur­skoð­endur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagn­ar­skyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einka­málefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýs­ingar samkvæmt lögum“. Í því tilviki sem hér um ræðir sé alveg ljóst að varnaraðila sé skylt að veita umræddar upplýsingar samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991, og því eigi þagnar­skyldan í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 ekki við.

                Þá telji sóknaraðili að þrátt fyrir að þær skuldbindingar varnaraðila, sem beðið sé upp­lýsinga og gagna um, kunni í dag, eftir atvikum, að vera skuldbindingar Arion banka hf., sé ljóst að reglur um bankaleynd eigi ekki við og að reglur gjaldþrotalaga og annarra laga um skiptastjórn eigi við um allar skuldbindingar varnaraðila við slita­með­ferð hans. Sóknaraðili telji það, hvernig staðið sé að slitum fjármála­fyrir­tækis, t.d. hvort stofnaður sé nýr lögaðili sem taki við skuldbindingum hins gjald­þrota fjár­mála­fyrir­tækis, breyti ekki neinu um að reglur um gjaldþrotaskipti, þar á meðal varðandi upp­lýs­inga­gjöf, eigi við um allar kröfur á hendur hinu gjaldþrota fjár­mála­fyrir­tæki, óháð því hvort ákveðnum kröfum sé veittur sérstakur forgangur eða því hvort þeim sé við­haldið óbreyttum með sérstakri lagasetningu. Önnur niðurstaða hefði aug­ljósa van­kanta í för með sér og myndi óumflýjanlega leiða til réttarspjalla fyrir kröfu­hafa þrota­manns og aðra hagsmunaaðila.

                Þá beri að taka það fram að allir þeir sem hafi lýst kröfum á hendur varnaraðila hafi þurft að afsala sér bankaleynd, samkvæmt fyrirvara þess efnis í innköllunar­til­kynn­ingu Kaupþings frá 6. júlí 2009.

                Af öllu ofansögðu sé ljóst að reglur um bankaleynd eigi ekki við í þessu máli og að varnaraðila beri samkvæmt lögum að verða við kröfum sóknaraðila um afhend­ingu þeirra gagna sem hann óski eftir.

                Sóknaraðili byggir málsókn sína aðallega á ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., laga nr. 161/2002um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. þeirra laga.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili hafnar að öllu leyti málatilbúnaði sóknaraðila. Varnaraðili mót­mælir fyrst þeirri fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðila sé skylt að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann bendir á að þessi gögn séu ekki hluti af slitameðferð varnaraðila þar sem þau varði eignir sem hafi verið fluttar frá varnaraðila og yfir til Arion banka hf. haustið 2008 í sam­ræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008, en slita­meðferð varnar­aðila hafi ekki hafist fyrr en varnaraðila hafi verið skipuð slita­stjórn 25. maí 2009. Þá sé rétt að benda á að kröfum hafi ekki verið lýst við slita­með­ferð varnaraðila vegna þeirra innstæðna/innlána sem sóknaraðili óski eftir gögnum um og séu þeir inn­láns­eigendur, sem upplýsingabeiðni sóknaraðila snúi að, því ekki kröfu­hafar varnar­aðila í skilningi laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili telur lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki veita sóknar­aðila jafnvíðtækan upplýsingarétt og sóknaraðili byggi á. Sóknaraðili krefjist þess að fá afhent gögn sem lúti reglum um bankaleynd, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og varði þar að auki ekki kröfuhafa við slita­með­ferð varnar­aðila. Beiðni sóknaraðila snúi fyrst og fremst að afhendingu gagna um viðkvæm við­skipta­málefni viðskiptavina Arion banka hf. Með vísan til þess sé varnar­aðila óskylt og beinlínis óheimilt að afhenda umbeðin gögn með hliðsjón af orðanna hljóðan í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 enda verði að túlka ákvæðið þröngt. Þar sem sóknaraðili hafi þegar fengið afhent gögn, sem tengjast slitameðferð varnaraðila beint, beri að hafna kröfu sóknaraðila.

                Varnaraðili leggur áherslu á að sóknaraðili beri alfarið sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu að varnaraðila sé skylt að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 en að mati varnaraðila sé honum ekki að lögum skylt að afhenda umbeðin gögn eins og að framan greinir. Með vísan til þess beri alfarið að hafna kröfu sóknaraðila.

                Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að skilyrði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um lögvarða hagsmuni séu uppfyllt. Hann bendir á að meintir hags­munir sóknaraðila byggi á væntanlegri niður­stöðu Hæstaréttar í máli sem sóknaraðili hafi höfðað á hendur NBI hf., Fjár­mála­eftir­litinu og íslenska ríkinu og fullyrði sóknaraðili að afhending umbeð­inna gagna muni hafa úrslitaáhrif á niðurstöðu málsins fyrir Hæstarétti. Varnar­aðili áréttar að innstæðueigendur og viðskiptamenn fjármála­fyrir­tækja, sem beiðnin snúi að, eigi ekki aðild að framangreindu dómsmáli og sé niður­staða málsins þeim alls óvið­kom­andi. Auk þess sé alfarið ósannað hvort afhend­ing umbeðinna gagna muni hafa ein­hverja efnislega þýðingu í umræddu máli eða muni breyta einhverju um niður­stöðu málsins fyrir Hæstarétti. Að mati varnaraðila séu hags­munir sóknaraðila það óljósir að þeir uppfylli ekki regluna um lögvarða hags­muni og skilyrði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 en sóknaraðili túlki ákvæði 80. gr. laganna of rúmt enda beri að skýra undantekningarákvæði laga nr. 21/1991 þröngt.

                Varnaraðili telji auk þess að hagsmunir þeirra sem beiðnin snertir, það er að almennar reglur um bankaleynd gildi um innstæður þeirra, séu mun ríkari en hags­munir sóknaraðila af því að fá gögnin afhent enda njóti hagsmunir þeirra lögverndar með vísan til 58. gr. laga nr. 161/2002, ólíkt hagsmunum sóknaraðila, enda séu skil­yrði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.

                Varnaraðili mótmælir fullyrðingu sóknaraðila um að hann hafi lögvarða hags­muni af því að fá umbeðin gögn afhent á grundvelli 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 með þeim rökum að sóknaraðili hafi lýst kröfum við slitameðferð varnaraðila. Að mati varn­ar­aðila veiti ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sóknaraðila ekki svo víðtækan rétt til upplýsinga þar sem krafa sóknaraðila byggi fyrst og fremst á dóms­máli sem varði hvorki slita­meðferð varnaraðila né aðra kröfuhafa varnaraðila.

                Með vísan til alls þessa og þar sem verulegur vafi sé um heimildir sóknaraðila til aðgangs að umbeðnum gögnum beri að hafna kröfum sóknar­aðila enda hvíli ekki laga­skylda á varnaraðila að veita umkrafðar upplýsingar með vísan til eðlis umbeð­inna gagna og þröngrar túlkunar undantekningarákvæða laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili mótmælir alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila að bankaleynd eigi ekki við í málinu. Hann leggur áherslu á að reglur um bankaleynd í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki nái yfir öll gögn sem varði við­skipta- eða einka­mál­efni viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Krafa sóknaraðila varði afhendingu á þess konar gögnum en sóknaraðili fari fram á að fá öll gögn afhent sem tengist innstæðum og/eða innlánum tiltekinna viðskiptavina Arion banka hf. Að mati varnaraðila feli slíkar upplýsingar í sér viðkvæmar upplýsingar sem ákvæði 58. gr. laganna kveði á um og sé varnaraðila því bæði óskylt og óheimilt að afhenda sókn­ar­aðila umbeðin gögn vegna fyrirmæla 58. gr. laga nr. 161/2002.

                Varnaraðili bendi enn fremur á að Fjármálaeftirlitið hafi ítrekað hafnað beiðni sókn­araðila um afhendingu sams konar gagna sem þetta mál varði sem að mati varnar­aðila bendi til þess að umbeðin gögn feli í sér upplýsingar sem kveðið sé á um í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002.

                Varnaraðili áréttar að sóknaraðili beri alfarið sönnunarbyrði fyrir þeirri full­yrð­ingu að reglur um bankaleynd eigi ekki við í málinu enda beri að túlka allar und­an­tekn­ingar frá 58. gr. laga nr. 161/2002 þröngt sem og öll frávik frá lögbundinni þagnar­skyldu. Með vísan til þess og alls framangreinds sé fullyrðing sóknaraðila ósönnuð og því beri að hafna kröfunni.

                Varnaraðili bendi enn fremur á að þeir aðilar sem beiðnin varðar, það er inn­stæðu­eigendur og tilteknir viðskiptavinir Arion banka hf., hafi ekki afsalað sér lög­bund­inni banka­leynd eins og aðrir kröfuhafar hafi gert við slitameðferð varnaraðila. Því eigi fyrirvari í innköllun varnaraðila ekki við um umbeðin gögn og því gildi reglur 58. gr. laga nr. 161/2002 um bankaleynd fullum fetum um umbeðin gögn. Full­yrð­ingu sóknaraðila um hið gagnstæða sé því alfarið hafnað.

                Að lokum bendi varnaraðili á að innstæðueigendur njóti aukinnar verndar umfram aðra kröfuhafa lögum samkvæmt en til að mynda sé óheimilt að birta nöfn innstæðu­eigenda í kröfuskrá sem birta eigi opinberlega, sbr. niðurlag í V. bráða­birgða­ákvæði í lögum nr. 75/2010 sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þar sem krafa sóknaraðila varði afhendingu gagna og upplýsinga um innstæður og/eða inn­lán sem séu ekki hluti af slitameðferð varnaraðila og þeir aðilar sem beiðnin snúi að séu ekki kröfuhafar í skilningi laga nr. 21/1991 sé ljóst að óheimilt sé að afhenda umbeðin gögn þar sem þau séu bundin þagnarskyldu vegna fyrirmæla 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

                Allt framangreint sýni að varnaraðila sé bæði óheimilt og óskylt að afhenda sókn­ar­aðila umbeðin gögn á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Því beri alfarið að hafna kröfunni.

                Varnaraðili vísar til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Vegna kröfu um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrota­skipti o.fl.

Niðurstaða

                Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda honum gögn og upp­lýs­ingar sem varnaraðili býr yfir og varða þær skuldbindingar Kaupþings banka hf. sem voru færðar frá þeim banka til Nýja Kaupþings banka hf. á haust­mán­uðum 2008.

                Aðdraganda að setningu svonefndra neyðarlaga, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkis­sjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og aðgerðum sem byggðu á þeim lögum er lýst í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 en í því máli mótmæltu fjöldamargir kröfuhafar í bú Landsbanka Íslands hf. því að slita­stjórn bank­ans viður­kenndi sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, kröfu breska tryggingarsjóðsins.

                Tilgangur laganna var að bregðast við mjög alvarlegri stöðu sem var komin upp í landinu. Aðgerðir sem var gripið til fólust einkum í að vernda innlán í bönkum. Stofn­aðir voru nýir bankar í stað hinna þriggja stóru viðskiptabanka, Landsbanka, Glitnis og Kaupþings, og innlán hjá þeim flutt í hina nýju. Þessar ákvarðanir byggðu á 5. gr. laga nr. 125/2008 sem bætti nýrri grein, 100. gr. a, við lög nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Með 6. gr. laganna, þar sem nýrri málsgrein var bætt framan við 103. gr. laga nr. 161/2002, var kveðið á um það að við skipti á búi fjár­mála­fyrir­tækis skyldu kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um inn­stæðu­trygg­ingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjárfesta, njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með þessu var innlánum veittur forgangsréttur við slit fjár­mála­fyrir­tækis fram yfir almennar kröfur, en innlánskröfur höfðu fram að setningu laganna verið skilgreindar sem almennar kröfur. Jafnframt voru fluttar eignir úr gömlu bönkunum í nýju bankana til að mæta þeim skuld­bind­ingum, sem fólust í innlánunum, sem voru flutt til þeirra. Í þessum aðgerðum fólst að innlánum í bönkunum var í reynd veittur for­gangur fram yfir aðrar kröfur sem á þeim höfðu hvílt.

                Í dómi Hæstaréttar kemur fram að með lögum nr. 125/2008 hafi verið mælt fyrir um réttindaröð krafna á hendur fjár­málafyrirtækjum, sem tekin yrðu til slita eftir gild­is­t­öku laganna. Með þeim hafi ekki verið mælt fyrir um nýja skipan við slit sem þegar væru hafin eða lokið. Í dóminum segir enn fremur að lögin hafi ekki verið sett til að gilda tíma­bundið heldur feli þau í sér nýja skipan til frambúðar. Með lögunum hafi verið ákveðið, með almennum hætti, hvernig skipað skuli réttindaröð krafna við slit fjár­mála­fyrir­tækja, sem geti raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjár­mála­fyrir­tækja.

                Í dóminum er jafnframt bent á að fyrir setningu laganna hafi verið talið að Lands­banki Íslands hf. væri að öllum líkindum ófær um að standa við skuldbindingar sínar en með lögunum hafi kröfur innstæðueigenda verið færðar framar í réttindaröð, en áður var, en ekki kröfur annarra kröfueigenda. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að fyrir­sjá­an­legt tjón almennra kröfuhafa yrði meira en ella hefði orðið. Hið sama hlýtur að eiga við um gjaldfærni varnaraðila þessa máls, Kaupþings banka hf., fyrir setningu laganna og tjón almennra kröfuhafa í bú hans.

                Í dóminum er að auki vísað til þess að stöðu krafna hafi nokkrum sinnum verið breytt með lögum og þannig hafi kröfum sumra kröfuhafa verið lyft skör hærra á kostnað annarra kröfuhafa. Því geti kröfuhafar ekki reitt sig á að lagaleg staða kröfu þeirra breytist ekki frá þeirri stöðu sem hún hefur að lögum þegar þeir fela banka­stofnun fjármuni sína til varðveislu.

                Eins og áður er vikið að ákvað Fjármálaeftirlitið, 21. október 2008, að til­teknum eignum Kaup­þings banka hf. yrði ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú heitir Arion banki hf., gegn því að hann tæki meðal annars yfir „skuld­bind­ingar í útibúum Kaup­þings banka hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðla­banka Íslands og öðrum viðskiptavinum“.

                Sú krafa sem sóknaraðili fól Kaupþingi banka hf. til varðveislu og ávöxtunar er kölluð peningamarkaðsinnlán (money market deposit). Sóknaraðili telur hana þess eðlis að hún eigi að njóta forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og hann fór fram á í kröfu­lýs­ingu sinni, 17. desember 2009. Hann telur að flokka eigi pen­inga­markaðsinnlán hans sem innstæðu en slitastjórn varnaraðila hefur hafnað því.

                Sóknaraðili vefengir ekki að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða í október 2008 til að vernda bankakerfið og koma í veg fyrir hugsanlegt hrun hag­kerfis landsins. Hann byggir ekki heldur á því að málefnalegar ástæður hafi ekki legið að baki þeirri ákvörðun löggjafans að skipa innstæðum í forgangsröð.

                Sóknaraðili byggir á því að það skipti hann máli að lögum að fá að sann­reyna hvort kröfur annarra, sem séu fullkomlega sambærilegar kröfu hans, hafi slæðst með þegar kröfur voru færðar úr gamla bankanum, hinum gjald­þrota banka, yfir í hinn nýstofn­aða banka. Telur hann sig hafa vissu fyrir því að svo hafi verið og telur að þau gögn sem hann óskar aðgangs að sýni það. Samkvæmt framlögðum gögnum hefur sókn­araðili óskað eftir því að tveir erlendir bankar, sem eiga kröfur sem höfnuðu í nýja bankanum, veiti honum upplýsingar um eðli þeirrar kröfu sem var flutt í nýja bank­ann. Annar þeirra óskaði frekari frests en hinn neitaði að afhenda upplýs­ing­arnar. Að mati dómsins veitir þetta vísbendingar um að grunur sóknaraðila sé á nægum rökum reistur.

                Enda þótt litið sé svo á að slit bankanna þriggja hafi ekki hafist fyrr en eftir að lögin tóku gildi svo og að kröfuhafar geti ekki almennt haft neinar væntingar til þess að stöðu kröfu þeirra að lögum verði ekki breytt eftir að þeir hafa lagt fjár­muni í banka til varðveislu þá gátu þeir sem lögðu fé í bank­ann fram til 6. október 2008 engan veg­inn séð fyrir að stofnaður yrði nýr banki og að sumar skuld­bindingar gamla bankans, einkum innlán, yrðu færðar yfir í hann. Eins og áður segir var þeim innlánum með því í reynd veittur for­gangur fram yfir aðrar skuld­bind­ingar sem á bönkunum höfðu hvílt.

                Þrátt fyrir að stöðu kröfu í réttindaröð sé breytt með lögum hefur það ekki í för með sér að kröfueigandinn þurfi ekki að lýsa kröfunni. Því, að færa kröfurnar í nýjan banka, fylgdi ekki eingöngu að kröfuhafarnir fengu kröfur sínar að fullu greiddar heldur einnig sú réttar­vernd að þeir þurftu ekki að lýsa kröfu sinni og hafa af þeim sökum ekki þurft að fallast á að banka­leynd um þá og kröfu þeirra falli niður þrátt fyrir að sá banki sem þeir upphaflega fólu fjár­muni sína hafi orðið ógjald­fær.

                Þar sem gamli bankinn var tekinn til slita urðu þeir sem áttu kröfur, sem skildar voru eftir í honum, að lýsa kröfum sínum. Ekki neinn gat skorast undan því hvort sem hann taldi kröfu sína vera sértöku-, bús- eða veðkröfu, forgangskröfu sam­kvæmt 112. gr. eða almenna kröfu samkvæmt 113. gr. gjaldþrotalaga. Með þeirri kröfu­lýsingu afsöluðu þeir sér bankaleynd sem áður hafði gilt um þá og kröfur þeirra.

                Eins og áður er komið fram staðfesti Hæstiréttur í máli nr. 340/2011 að vegna þess að með neyðarlögunum hafi kröfur innstæðueigenda verið færðar framar í röð rétt­inda, en þær stóðu áður, sé óhjákvæmilegt að tjón almennra kröfuhafa verði meira en ella hefði orðið. Það er því mjög afdrifaríkt fyrir sérhvern kröfuhafa í hvorum bank­anum, þeim gamla eða þeim nýja, krafa hans hafnar.

                Í máli nr. E-2832/2009 sem sóknaraðili höfðaði gegn NBI hf., Fjár­mála­eftir­litinu og Ríkissjóði Íslands, kemur fram að sóknaraðili hafi falið um þriðjung eigin fjár síns íslenskum bönkum til vörslu. Hann hafi lagt inn hjá þeim samtals 120.000.000 evra auk 7.000.000 breskra punda og nemi það ríflega 22.000.000.000 króna. Hagsmunir hans eru því verulegir og einstaklegir.

                Það þykir því ekki nokkrum vafa undirorpið að það skipti sóknaraðila máli að lögum að fá upp­lýs­ingar um það hvort krafa hans var dregin í réttan dilk þegar ákveðið var hvaða kröfur féllu í hlut nýja bankans og hverjar yrðu skildar eftir í Kaup­þingi banka og jafnframt hvort í nýja bank­anum hafi hafnað kröfur algerlega sam­bæri­legar peninga­markaðs­inn­láni hans. Reynist það rétt verður að ætla að það hefði áhrif á stöðu peninga­mark­aðs­innláns hans í kröfuröð hjá varnaraðila.

                Við munnlegan málflutning bar varnaraðili því við að þau gögn sem sóknar­aðili krefst aðgangs að væru ekki í hans vörslum. Verður að telja þessa málsástæðu of seint fram komna enda bar varnaraðili því aldrei við, í öll þau skipti sem hann bar fyrir sig skrif­lega að sókn­ar­aðili hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá að kynna sér gögnin, að varn­ar­aðila væri hreint og beint ómögulegt að afhenda gögnin þar sem þau væru ekki í vörslum hans, sbr. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hefði svo verið hefði varnaraðili ekki haft neina ástæðu til að vísa ágreiningum til héraðs­dóms til úrlausnar.

                Ekki er heldur hægt að fallast á þau rök varnaraðila að þessi gögn séu ekki hluti af slitameðferðinni. Gögn sem varða ráðstafanir þrotamanns fyrir frestdag eru meðal þeirra gagna sem 80. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. tekur til. Á sama hátt eru gögn um þær skuldbindingar sem hvíldu á Kaupþingi banka hf. á þeim degi þegar félagið fór þess á leit að Fjár­málaeftirlitið tæki yfir vald hluthafafundar þess 8. október 2008 einnig gögn sem 80. gr. laganna tekur til.

                Að mati dómsins hefur sóknaraðili því lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 en varnaraðili fullyrðir að banka­leynd komi í veg fyrir það. Sóknaraðili telur að sú bankaleynd sem varnaraðili ber fyrir sig geti ekki átt við um þær kröfur sem höfnuðu í nýja bankanum vegna þess hvernig það bar til að þær voru fluttar þangað.

                Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 758/2009 segir að ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, varðandi þagnar­skyldu starfsmanna þeirra og annarra sem vinna verk í þeirra þágu, sé ætlað að vernda per­sónu­lega og viðskiptalega hags­muni þeirra er viðskipti eigi við fyrirtækin. Eins og tekið sé fram í skýringum við ákvæðið í athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi sem varð að lögum nr. 161/2002 sé beiting ákvæðisins ávallt háð mati dómstóla, sé málum skotið til þeirra.

                Sóknaraðili hefur ekki beðið um upplýsingar um núverandi stöðu við­skipta­manna Arion banka hf. (áður Nýja Kaupþings banka hf.) eða viðskiptasögu þeirra hjá bankanum, eðlilega eða óeðlilega fyrirgreiðslu sem bankinn kann að hafa veitt þeim eða neitt af því tagi enda hefur hann ekki beint kröfu sinni að þeim banka.

                Hann óskar eftir að fá að kynna sér gögn sem eru orðin þriggja ára og varða ekkert sérstaklega nánar tilgreint fólk eða fjár­hæðir heldur eðli þeirra skuldbindinga sem voru færðar á milli tveggja banka við sérstækar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjár­málamarkaði. Hann vill kynna sér hvort kröfu­hafi var ein­stakl­ingur eða fjár­mála­fyrir­tæki og hvort inneign hans hjá bankanum var annaðhvort innlán eða inn­stæða eða heild­sölu- eða peninga­markaðs­innlán. Því verður ekki séð að sú, nánast fræðilega, rann­­sókn sem sóknaraðili vill gera á millifærslum skuldbindinga milli þessara tveggja banka sé neitt í ætt við slúður­burð starfs­manna fjármálafyrirtækja sem ákvæðinu er ætlað að hindra. Þar fyrir utan verður að gera ráð fyrir að eigendur mjög hárra heild­sölu- og peninga­mark­aðs­innlána séu ekki launamenn heldur bankar og aðrir fjársterkir aðilar og upplýsingarnar séu því ekki mjög persónulegar.

                Þegar litið er til þess hversu miklu það varðar sóknaraðila að fá að ganga úr skugga um hvort skuldbinding hans við bankann hafi verið rétt meðhöndluð þykir hann hafa mun meiri hagsmuni af því að fá aðgang að þessum gögnum en þeir sem áttu, og eiga mögulega enn, þær kröfur sem voru fluttar yfir í nýja bankann af því að þessum upplýsingum sé haldið leyndum.

                Við munnlegan málflutning gat varnaraðili ekki svarað því hvort hægt væri að veita aðgang að þessum gögnum þannig að persónugreinanlegar upplýsingar hefðu verið afmáðar. Sóknaraðili gat hins vegar svarað því að hann sæktist ekki eftir neinum persónugreinanlegum upp­lýs­ingum.

                Sóknaraðili byggir kröfu sína á 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 en samkvæmt því ákvæði getur sá, sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum.

                Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér öll gögn og allar tiltækar upplýs­ingar sem varnaraðili býr yfir og varða annars vegar innlán og inn­stæður frá fjármála­fyrir­tækjum og hins vegar heildsölu- og pen­inga­mark­aðs­innlán frá öðrum en fjár­mála­fyrir­tækjum, sem öll voru færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf. á haustmánuðum 2008.

                Það ákvæði sem sóknaraðili byggir á veitir honum ekki svo víðtækan rétt en fallist er á að varnaraðila beri að veita sóknaraðila aðgang að til skoðunar öllum gögnum og til­tækum upplýsingum sem varnaraðili býr yfir, og varða annars vegar inn­lán og inn­stæður frá fjármálafyrirtækjum og hins vegar heildsölu- og peninga­markaðs­innlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem voru færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaup­þings banka hf. haustið 2008. Kjósi sóknaraðili að fá eftirrit af einhverjum þeirra ber hann kostnað af því.

                Sé varnaraðila ekki fært að afmá persónuauðkenni af þeim gögnum sem sókn­ar­aðili vill fá eftirrit af, eru hagsmunir sóknaraðila svo mikilsverðir að varn­ar­aðila er skylt að afhenda honum gögnin með persónuupplýsingunum.

                Varnaraðili hefur bent á að innstæðueigendur njóti aukinnar verndar umfram aðra kröfuhafa lögum samkvæmt þar sem óheimilt sé að birta nöfn þeirra í kröfuskrá sem birta eigi opinberlega, sbr. niðurlag í V. bráða­birgða­ákvæði í lögum nr. 75/2010 sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Ekkert hefur komið fram um það að sóknaraðili ætli að birta opinberlega þær upplýsingar sem varnaraðila ber að veita honum aðgang að. Þurfi sóknaraðili að leggja upplýsingarnar fram í dómsmáli ætti honum að vera í lófa lagið að afmá nöfn innstæðueigenda.

                Eins og atvikum þessa máls er háttað þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Varnaraðila, Kaupþingi banka hf., ber að veita sóknaraðila, Aresbank S.A., aðgang að til skoðunar öllum gögnum og til­tækum upplýsingum sem varnaraðili býr yfir og varða annars vegar inn­lán og inn­stæður frá fjármálafyrirtækjum og hins vegar heildsölu- og peninga­markaðs­innlán frá öðrum en fjármálafyrirtækjum sem voru færð frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaup­þings banka hf. haustið 2008. Varnaraðili skal afhenda sóknaraðila eftirrit þessara gagna eftir ósk hans og á hans kostnað.

                Málskostnaður fellur niður.