Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


           

Föstudaginn 14. janúar 2000.

Nr. 17/2000.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hallvarður Einvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdómara þar sem fallist var á kröfu lögreglustjóra um skýrslutöku yfir X fyrir dómi og framlengingu frests til að synja verjanda X um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls í þrjár vikur, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest, meðal annars með vísan til umfangs málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 2000, sem barst réttinum 12. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2000, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að tekin yrði skýrsla af varnaraðila fyrir dómi og að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur hans til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að afhenda verjanda endurrit af öllum rannsóknargögnum, sem málið varða, svo og að veita honum aðstöðu til að kynna sér þau gögn, sem ekki verða endurrituð.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili er borinn sökum um að hafa átt hlut að innflutningi á verulegu magni af fíkniefninu MDMA í desember 1999. Þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp bar mikið á milli framburðar varnaraðila hjá lögreglu og skýrslna annarra sakborninga. Á því hefur orðið nokkur breyting, enda er framburður varnaraðila í veigamiklum atriðum orðinn á annan veg í lögregluskýrslu 12. janúar sl., sem hefur verið lögð fyrir Hæstarétt. Allt að einu má fallast á að brýnt tilefni sé til að aflað verði framburðar varnaraðila fyrir dómi áður en verjanda hans gefst kostur á að kynna sér gögn málsins umfram það, sem þegar hefur verið gert. Í ljósi umfangs málsins eru efni til að beita í þessu skyni ákvæði b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2000

Ár 2000, þriðjudaginn 11. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Kristjönu Jónsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

 

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur taki skýrslu af X, […] og framlengi jafnframt í þrjár vikur frest sem lögregla hefur til að synja verjanda hans um aðgang að gögnum er varða rannsókn máls nr. 010-1999-30983.   Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram […]

 

Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. b-liðar 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, ber dómara að verða við beiðni lögreglu um skýrslutöku fyrir dómi af sakborningi til þess að upplýsa mál, áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess, telji lögregla bera nauðsyn til þess.  Með vísan til þessa er fallist á að skýrslutaka fari fram fyrir dómi yfir kærða, X  

Samkvæmt sama lagaákvæði getur dómari framlengt frest sem lögregla hefur til að veita verjanda sakbornings aðgang að gögnum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna í allt að þrjár vikur, ef þörf er á, til að unnt sé að ljúka skýrslutökum.  

Með hliðsjón af því hve mál þetta er umfangsmikið má fallast á kröfu lögreglustjóra um að frestur til að sýna verjanda og sakborningi gögn verði framlengdur í allt að þrjár vikur, samkvæmt síðari málslið b-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, svo unnt verði að ljúka skýrslutöku.  

Úrskurðarorð:

 Fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um skýrslutöku yfir sakborningi, X, fyrir dómi.  Jafnframt er framlengdur í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda Guðmundar Inga Þóroddssonar um aðgang að öllum rannsóknargögnum máls nr. 010-1999-30983.