Hæstiréttur íslands

Mál nr. 242/2006


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Fíkniefnalagabrot
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. september 2006.

Nr. 242/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Bjarka Frey Sigurgeirssyni

(Jón Egilsson hdl.)

 

Þjófnaður. Fíkniefnalagabrot. Reynslulausn. Skilorðsrof.

B var sakfelldur fyrir þjófnað, innbrot og fíkniefnalagabrot og rauf þar með skilorð reynslulausnar á 150 daga eftirstöðvum refsingar. Niðurstaða héraðsdóms um sjö mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu B var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og ákvörðun refsingar.

Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en til vara að refsing verði milduð og að fullu skilorðsbundin.

Ákærði er fæddur 23. ágúst 1978. Hann hefur samkvæmt sakavottorði gengist fimm sinnum undir sátt vegna fíkniefnabrota á árunum 1996 til 2005. Hann var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisrefsingar 14. september 1998, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Virðist hann hafa staðist það skilorð. Hinn 22. júní 2004 var hann dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar og sviptur ökurétti í fjóra mánuði fyrir umferðar- og fíkniefnabrot, 10. nóvember sama ár var hann dæmdur til greiðslu 31.000 króna sektar vegna fíkniefnabrots og 30. desember sama ár til greiðslu 65.000 króna sektar fyrir samskonar brot. Hinn 15. febrúar 2005 var ákærði dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar, og sviptur ökurétti í eitt ár, fyrir þjófnaðabrot, tilraunir til þjófnaða, nytjastuldi, tilraun til nytjastuldar, fjársvik, skjalafals og umferðar- og fíkniefnabrot. Hinn 14. apríl sama ár var ákærði sakfelldur fyrir fíkniefnabrot, um var að ræða hegningarauka við dóminn frá 15. febrúar og honum ekki gerð sérstök refsing. Hinn 11. janúar 2006 var ákærði dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar vegna aksturs sviptur ökurétti.

Með þeim dómi sem nú er til endurskoðunar var ákærði dæmdur til sjö mánaða fangelsisrefsingar fyrir þjófnaða- og fíkniefnabrot. Um var að ræða hegningarauka við dóminn frá 11. janúar 2006, en skilorðsrof vegna reynslulausnar á 150 dögum eftirstöðva refsingar samkvæmt dóminum frá 15. febrúar 2005, sem honum hafði verið veitt 28. apríl 2005 skilorðsbundið í eitt ár. Brotin voru samkvæmt rannsóknargögnum framin 4., 6. og 21. nóvember 2005. Um var að ræða þjófnað, innbrot á hársnyrtistofu í eigu afa ákærða og smávægilegt fíkniefnabrot. Sakarferill ákærða gefur ekki tilefni til þess að skilorðsbinda refsingu ákærða. Með framangreindum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti og yfirlýsingu ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bjarki Freyr Sigurgeirsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 216.099 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 28. febrúar 2006 á hendur Bjarka Frey Sigurgeirssyni, [kt.], óstaðsettum í hús í Garðabæ, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2005:

1. Þjófnaði:

1.1. Föstudaginn 4. nóvember á slysadeild Landspítalans í Fossvogi stolið pakka af lyfinu ketamín að óþekktu verðmæti.

1.2. Aðfaranótt sunnudagsins 6. nóvember, brotist inn í húsnæði A við B, með því að spenna upp glugga, og stolið um kr. 30.000 í skiptimynt.

Eru brot þessi talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 16. nóvember, að C, haft í vörslum sínum 0,54 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögreglumenn fundu við leit.

Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 0,54 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í febrúar 1975. Samkvæmt sakavottorði hefur hann sex sinnum frá árinu 1996 gengist undir sáttir til greiðslu sekta vegna fíkniefnalagabrota. Hann hlaut skilorðsbundna ákærufrestun í tvö ár fyrir þjófnað 16. september 1996. Ákærði var þann 14. september 1998 dæmdur í 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir fíkniefnalagabrot og þjófnað. Þann 22. júní 2004 var ákærði dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 3. september sama ár að telja. Hann var dæmdur til greiðslu 31.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot 10. nóvember 2004 og 28.000 króna sektar 30. desember sama ár. Þá var hann dæmdur til að sæta 10 mánaða fangelsi hinn 15. febrúar 2005 fyrir tilraun til þjófnaðar, fjársvik, skjalafals, nytjastuld fíkniefnabrot, ölvunarakstur og sviptingarakstur. Jafnframt var hann þá sviptur ökurétti í 1 ár frá uppkvaðningu dómsins. Enn var hann dæmdur 14. apríl 2005 vegna fíkniefnabrots en honum var ekki gerð refsing þá með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var loks dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt vegna sviptingaraksturs hinn 11. janúar 2006. Brot ákærða nú eru hegningarauki við dóminn frá 11. janúar sl., sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærða verður einnig að líta til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga.

Við meðferð málsins voru lögð fram vottorð sem benda til þess að ákærði sé að reyna að reyna að vinna á bug á eiturlyfjafíkn sinni sem virðist, að minnsta kosti að verulega leyti, vera undirrót að brotaferli ákærða. Samkvæmt vottorði læknis SÁÁ hefur ákærði verið til meðferðar á sjúkrastofnunum SÁÁ vegna fíknar sinnar í maí og júnímánuði 2005. Brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir voru þó öll framin eftir þann tíma.

Hinn 28. apríl 2005 var ákærða veitt reynslulausn  á eftirstöðvum refsingar, 150 daga í 1 ár. Með þeim brotum sem ákærði er nú sakfelldur fyrir rauf hann skilorð reynslu­lausnarinnar og ber því að dæma eftirstöðvar þeirrar refsingar ásamt refsingu fyrir brot hans nú, sbr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Að virtu því sem hér hefur verkið rakið og að teknu tilliti til greiðrar játningar ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði.

Upptæk eru gerð 0,54 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem hald var lagt á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdóms­lögmanns, 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Bjarki Freyr Sigurgeirsson,  sæti fangelsi í 7 mánuði.

Upptæk eru gerð 0,54 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdóms­lögmanns, 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.