Hæstiréttur íslands

Mál nr. 230/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                        

Þriðjudaginn 11. maí 2010.

Nr. 230/2010.

Mottó-Junior ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Viðskiptahúsinu ehf.

Jóhanni Magnúsi Ólafssyni og

Þorbjörgu Stefánsdóttur

(enginn)

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M ehf. gegn V ehf., J og Þ var vísað frá dómi. Talið var að málavextir hafi verið skýrðir svo sem kostur væri. V ehf., J og Þ hafi ekki haft uppi kröfu um frávísun málsins og engin efni hafi verið til þess fyrir héraðsdómara að vísa því frá dómi af sjálfsdáðum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila varðar uppgjör verks, sem sóknaraðili tók að sér að vinna við jarðvegsframkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf í Kópavogi. Samningur um verkið var munnlegur og greinir aðila á um efni hans.

Fyrir héraðsdómi fór fram sönnunarfærsla þar sem nokkrir menn, sem þekktu til atvika málsins, gáfu skýrslu svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði. Verður ráðið að málavextir hafi verið skýrðir svo sem kostur er. Varnaraðilar höfðu ekki uppi kröfu um frávísun málsins og engin efni voru til þess fyrir héraðsdómara að vísa því frá dómi af sjálfsdáðum. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. mars 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mottó Junior ehf., kt. 590106-0110, Flugumýri 25, Mosfellsbæ, gegn Viðskiptahúsinu ehf., kt. 520499-2020, Skúlagötu 17, Reykjavík, Jóhanni Magnúsi Ólafsyni, kt. 171068-4609, og Þorbjörgu Stefánsdóttur, kt. 260171-3489, báðum til heimilis að Ennishvarfi 6, Kópavogi með stefnu sem birt var í mars 2009.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum 2.091.903 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 965.685 kr. frá 31 desember 2007 til 11. janúar 2008, af 1.679.955 kr. frá þeim degi til 28. janúar 2008, en af 2.091.903 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Krafist er að vextir verði höfuðstólsfærðir á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að þau verði sýknuð.  Til vara að dómkrafan verði verulega lækkuð.  Hver sem niðurstaða málsins verður, krefjast stefndu, að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.  Þá er krafist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun f.h. stefndu, Jóhanns Magnússonar og Þorbjargar, en þau eru ekki virðisaukaskyldir aðilar og er því nauðsynlegt að fá tildæmdan virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Aðila greinir verulega á um aðdraganda þessa máls.  Um munnlega samninga var að ræða.  Af hálfu Mottó Junior ehf. segir að Viðskiptahúsið ehf., Jóhann Magnús Ólafsson og Þorbjörg Stefánsdóttir hafi fengið Mottó Junior ehf. til að vinna grunn- og jarðvegsvinnu vegna byggingar íbúðarhúss að Ennishvarfi 6 í Kópavogi.  Fasteignin þar sé íbúðarhúsnæði Jóhanns og Þorbjargar.  Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg hefðu keypt lóðina ásamt sökkli sem útbúinn hafi verið af fyrri eiganda.  Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg hafi hins vegar kosið að byggja á lóðinni annars konar og mun stærra hús en áður var fyrirhugað, meðal annars til að koma fyrir kjallara.  Hafi því þurft að rífa sökkulinn sem fyrir var og grafa fjögurra til fimm metra djúpan grunn fyrir fasteignina.  Sá grunnur hafi auk heldur verið mun stærri að flatarmáli en fyrri grunnur enda væri nýja fasteignin mun stærri að gólffleti en fyrri grunnur gerði ráð fyrir.  Þá hafi þurft að undirbyggja fasteignina að loknum greftri grunnsins með því að útbúa svokallaða púða fyrir húsið og fjarlæga það efni sem til féll við jarðvinnu og niðurrif fyrri grunns.

Þá segir að milligöngu varðandi aðkomu Mottó Juniors ehf. að þessum verkþætti hafi Ingimundur Magnússon, byggingarstjóri að fasteigninni að Ennishvarfi 6, og starfsmenn verktakans Verkáss haft, en Verkás hafi séð um byggingu hússins.  Mottó Junior ehf. hafi síðan unnið verkið eins og um hafði verið samið og gert Viðskiptahúsinu ehf., Jóhanni og Þorbjörgu, reikninga vegna þeirrar vinnu. Hafi reikningarnir verið stílaðir á Viðskiptahúsið ehf. að beiðni Jóhanns.  Greiðandi reikninganna hafi yfirleitt verið Viðskiptahúsið ehf., en þó hafi Jóhann og Þorbjörg greitt reikninga vegna verksins eins og fram komi á viðskiptayfirliti Mottó Juniors ehf., dskj. nr. 3.  Reikningarnir hafi verið byggðir á einingaverðum og tímagjaldi og hafi Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg greitt reikningana án athugasemda allt til útgáfu reiknings nr. 335, dags. 19. nóvember 2008, dskj. nr. 4.

Greint er frá því að Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg hafi neitað að greiða reikning nr. 335 óbreyttan og krafist afsláttar af honum auk þess sem þau hafi krafist afsláttar af áður útgefnum reikningum, dskj. nr. 5, sem þau höfðu greitt án athugasemda og fyrirvaralaust.

Til að koma til móts við kröfur Viðskiptahússins ehf., Jóhanns og Þorbjargar hafi af hálfu Mottó Juniors ehf. verið ákveðið að veita þeim 20% afslátt af ógreiddum reikningum, þ.e. reikningum nr. 335 og nr. 337, dskj. nr. 4 og nr. 7, með útgáfu kreditnótu að fjárhæð 419.990 kr. og jafnframt veittur 20% afsláttur af reikningi nr. 339, dskj. nr. 8.  Mottó Junior ehf. hafi hins vegar eðlilega ekki fallist á kröfur Viðskiptahússins ehf., Jóhanns og Þorbjargar um afslátt af eldri reikningum þar sem samkomulag hafði ekki orðið með aðilum og reikningarnir þegar verið greiddir án athugsemda og fyrirvaralaust.

Greint er frá því að þrátt fyrir framangreinda viðleitni hjá Mottó Junior ehf. hafi Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg hvorki greitt reikning nr. 335 né síðari reikninga Mottó Juniors vegna verksins, dskj. nr. 7 og 8.  Í kjölfar þess hafi Mottó Junior ehf. látið af störfum fyrir Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörgu.

Af hálfu Viðskiptahússins ehf., Jóhanns og Þorbjargar er málavöxtum lýst á annan veg þannig að Viðskiptahúsið ehf. hafi verið eigandi lóðarinnar að Ennishvarfi 6 í Kópavogi.  Búið hafi verið að grafa grunn og setja púða og slá upp sökklum, þegar félagið keypti lóðina, en gert hafi verið ráð fyrir húsi á einni hæð.  Ákvörðun hafi verið tekin um að reisa hús á tveimur hæðum.  Hafi því þurft að flytja möl úr grunni, steypa upp sökkla fyrir kjallara og fylla aftur með því efni sem í lóðinni var.  Byggingastjóri Viðskiptahúss ehf. hafi komið að máli við Mottó Junior ehf. og rætt um að félagið tæki verkið að sér.  Skilningur Viðskiptahússins ehf. hafi verið að verkið myndi ekki kosta meira en átta milljónir.  Mottó Junior ehf. hafi síðan gefið út reikninga á Viðskiptahúsið ehf. og hafi þeir framan af verið greiddir þar sem Viðskiptahúsið ehf. hafi talið þá innan þeirra marka sem um hafði verið rætt.  Þegar Viðskiptahúsið ehf. varð vart við að reikningar voru samtals orðnir hærri en um hafði verið samið hafi félagið neitað að greiða og krafist þess að afsláttur yrði reiknaður á útgefna reikninga í samræmi við umsamið verð og væri félagið þar með búið að greiða verkið að fullu.

Greint er frá því að Viðskiptahúsið ehf. hafi fengið upplýsingar um að Mottó Junior ehf. hafi selt Viðskiptahúsinu ehf. efni, sem félagið gróf upp úr grunni Viðskiptahússins ehf., þegar kom að uppfyllingu að sökkli.  Staðhæft er að Mottó Junior ehf. beri að upplýsa á hvaða verði félagið seldi efni úr grunni Viðskiptahússins ehf. og hvað hafi orðið um endurgjaldið.  Þá beri Mottó Junior ehf. að útskýra hvaða hluti reikninga félagsins stafi af efnissölu til Viðskiptahússins ehf.  Engin tilraun sé gerð í reikningum til að útskýra tímagjald starfsmanna eða vinnuvéla, fjölda tíma vinnuvéla eða leiðir sem ekið var, fjölda ferða eða á nokkurn annan máta að sanna að umkrafið endurgjald væri sanngjarnt.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefnandi, Mottó Junior ehf., byggir á því að ekki hafi verið samið um ákveðið endurgjald fyrir vinnu félagsins fyrir Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörgu.  Samið hafi verið um að þau greiddu fyrir verkið samkvæmt einingamælingum, tímaskýrslum og reikningum Mottó Juniors ehf.  Þetta hafi gengið eftir án nokkurra athugsemda þeirra allt frá upphafi verksins á vormánuðum 2007 og fram að útgáfu reiknings nr. 335 hinn 19. nóvember 2007.

Tölulega sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig:

         Reikningur nr.        Dskj. Nr.          Athugsemd           Útgáfudagur        Gjalddagi             Reikningsfjárhæð

         335                             4                                                       19.11.2007              19.12.2007          1.385.675

         341                             6                       Kreditnóta            31.12. 2007             31.12.2007          -419.990

         337                             7                                                       11.12. 2007             11.1.2008            714.270

         339                             8                                                       28.12.2007              28.1.2008            411.948

Til einföldunar við útreikning dráttarvaxta kveðst stefnandi hafa dregið fjárhæð kredit- nótu, sem færð var á viðskiptareikning Viðskiptahússins ehf., frá fjárhæð samkvæmt fyrsta reikningi nr. 335 og miði dráttarvaxtakröfu sína við útgáfudag kreditnótunnar hvað þennan reikning varðar.

Með vísun til greiðslu Viðskiptahússins ehf., Jóhanns og Þorbjargar á reikningum Mottó Juniors ehf. og til þess að verkið var unnið við fasteign Jóhanns og Þorbjargar, enda þótt reikningum væri beint að Viðskiptahúsinu ehf. að beiðni Jóhanns, beri Viðskiptahúsið ehf., Jóhann og Þorbjörg óskipta skyldu til að greiða reikninga Mottó Juniors ehf.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga.  Þá er vísað til 45. gr. laga nr. 50/2000.  Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001.  Krafa um málskostnað við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.  Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33 og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Helstu málsástæður stefndu og réttarheimildir er þau byggja á: Stefndu, Jóhann Magnús Ólafsson og Þorbjörg Stefánsdóttir, byggja á því að þau hafi ekki verið eigendur fasteignarinnar að Ennishvarfi 6 í Kópavogi á þeim tíma sem Mottó Junior ehf. vann umrætt verk.  Þau hafi persónulega ekki samið um verkið fyrir sína hönd.  Reikningar, sem hér um ræðir, séu á hendur Viðskiptahúsinu ehf., sem var þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Ennishvarfi 6 á þeim tíma, sem hér um ræðir; en ætla megi að verkið hafi verið unnið í ágúst og fram í nóvember [2007].  Sýkna beri þau á grundvelli aðildarskorts.  Tekið er fram að þau taki einnig undir málsvörn og málsástæður Viðskiptahússins ehf.

Stefnda, Viðskiptahúsið ehf., byggir á því að umrætt verk sé greitt að fullu fyrir löngu.  Þá byggir félagið á því að Mottó Junior ehf. beri að sanna um hvað var samið og að krafa um endurgjald fyrir verkið sé eðlileg.  Mottó Junior ehf. beri að leggja fram sundurliðun á tímagjaldi og fjölda tíma, ásamt nánari útlistun á því hvernig endurgjald sé reiknað og hvernig það samræmist samningi aðila.

Hafnað er tilvísun Mottó Juniors ehf. til ákv. 45. gr. laga nr. 50/2000.  Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna gildi þau ekki um samninga þegar sá sem afhendir hlut skal jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu sem felur í sér mestan hluta af skyldum hans.

Um réttarheimildir vísa stefndu til almennra reglna samninga, kaup- og kröfuréttar, sérstaklega um sönnunarbyrði stefnanda um umsamið endurgjald.  Um sýknu á grundvelli aðildarskorts vísa stefndu, Jóhann og Þorbjörg, til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Um meðferð málsins vísa stefndu til laga nr. 91/1991.  Þá er tekið fram að málskostnaðarkrafa styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.  Matthías Matthíasson, eigandi og stjórnarformaður stefnanda Mottó-Juniors ehf., bar fyrir rétti m.a. að tildrög þess að hann kom að jarðvegsvinnu vegna byggingar íbúðarhúss að Ennishvarfi 6 í Kópavogi hafi verið að Ingimundur Magnússon, byggingastjóri hússins, hafi beðið hann að koma að verkinu og vinna jarðvegsvinnu þar.  Á lóðinni voru steyptir sökklar og lokið hafði verið að grafa fyrir húsinu.  Fyrir hann var lagt að brjóta niður sökklana og flytja í burtu á losunarstað á Kársnesi í Kópavogi, fjarlægja umframefni og taka nýtilegt efni sem var til staðar inni í sökklunum og geyma það á lóðinni til að nýta það frekar í þessu verki.  Ónýtanlegu efni hafi verið fargað á „þar til gerðum losunarstað“ hjá Kópavogsbæ.  Grafið hefði verið fyrir húsinu og einni viðbótarhæð bætt við hæðina fyrir neðan.  Grafið var fyrir hæðinni og sökklum þar undir.  Breytingar hefðu verið gerðar eftir að þessu var lokið.  Bætt var við stækkun á húsinu.  Þurft hefði að koma tvisvar eða þrisvar aftur á verkstað til að grafa frekar fyrir húsinu.  Þegar lokið var að grafa fyrir húsinu hefði þurft að ná í þar til gert fyllingarefni undir húsið, bögglaberg, sem tekið er í námum Boldu við Litlu kaffistofu.  Fyllt hafi verið með því og þjappað.  Síðan hafi sökklarnir verði steyptir og fyllt inn í þá.  Grafið hafi verið fyrir lögnum, sandur lagður yfir og jafnað undir plötu hússins.  Grafið hafi verið fyrir drenlögnum utan við húsið og fyllt þar yfir.  Grafið hafi verið fyrir vinnuskúrum, fyrir stoðveggjum, skolplögnum og vatnslögnum.  Ýmislegt hefði fallið til.

Matthías kvaðst hafa talið að verkkaupendur væru hjónin Jóhann Magnús Ólafsson og Þorbjörg Stefánsdóttir.  Þau hefði beðið hann um að gefa reikninga út á nafn Viðskiptahússins ehf.  Hjónin hefðu stjórnað verki hans og komið fram sem verkkaupar og hagsmunaðilar í þessu máli.

Matthías sagði að samið hefði verið um einingarverð.  Reikningar hafi verið skrifaðir samkvæmt vinnuskýrslum starfsmanna, fylgiskjölum, útlögðum kostnaði og efniskaupum.  Ekki hafi verið samið um hámarksverð.  Reikningarnir hefðu verið samþykktir og greiddir nema þeir þrír sem málsókn stefnanda er byggð á.

Matthías sagði að rætt hafi verið um afslátt undir lokin.  Samkvæmt ráðleggingum byggingarstjórans kvaðst Matthías hafa samþykkt að veita 20% afslátt af síðustu reikningunum án þess að telja sér það skylt.

Matthías sagði að umrætt einingarverð hafi verið samkvæmt gjaldskrá Mottó Junior ehf., einingarverð starfmanna, sem séu bara tímagjöld.  Hann sagði að gjaldskráin væri aðgengileg.  Ef spurt væri hvað starfsmaður kostaði á tímann gæti viðkomandi fengið að vita það.

Lagt var fyrir Matthías dskj. nr. 4. sem er myndrit af reikningi Mottó Juniors ehf. á Viðskiptahúsið ehf., dags. 19. nóvember 2007.  Matthías sagði að þetta væri ekki hefðbundinn útfærsla á reikningi sem hann sendi frá sér.  Reikningurinn hafi verið settur fram með þessum hætti samkvæmt fyrirmælum verkkaupanda.  Hann sagði að verkkaupendur hefðu aldrei óskað eftir að sjá gjaldskrá félagsins og ekki óskað eftir tímagjaldi eða gjaldi á tæki eða fjölda áætlaðra tíma, en gjaldskráin hafi verið eðlileg.

Jóhann Magnús Ólafsson, einn af stefndu í málinu, bar fyrir rétti m.a. að fyrirtækið Viðskiptahúsið, sem hann rak á sínum tíma, sem nú beri heitið VH ráðgjöf, hafi reynt að fá úthlutað lóðum í Kópavogi og sótt um það en ekki fengið.  Starfsemi Viðskiptahússins hafi verið eignamiðlun og hann hafi haft hug á að reyna að útvíkka þá starfsemi til að styrkja hana með því að byggja hús og selja.  Boðist hafi lóð haustið 2005 sem Viðskiptahúsið keypti.  Farið hafi verið hægt í þetta, lóðin fengið teiknuð og annað.  Síðan hafi verið byrjað að byggja.  Hann hafi ekki haft mikla reynslu af byggingarframkvæmdum en þekkt Ingimund í gegnum viðskipti.  Ingimundur hefði verið með bókhald fyrir tengdaforeldra hans [Jóhanns Magnúsar] í mörg ár.  Ingimundur hafi boðist til að vera byggingastjóri á svona eign og hafi þá verið ákveðið að Ingimundur yrði til ráðgjafar forsvarsmönnum Viðskiptahússins í þessum málum.

Að tilhlutan Ingimundar kvað Jóhann Magnús Mottó Junior ehf. hafa komið að umræddri jarðvegsvinnu.

Jóhann sagði að hann hafi á sínum tíma litið svo á að heildargreiðsla fyrir verk Mottó Juniors ehf. yrði u.þ.b. 8.000.000 kr.  En þegar reikningar fóru að hlaðast inn og tölur fóru að hækka þá hafi hann talað við Ingimund og sagt að sér fyndist þetta vera örlítið laust í reipunum.  Hann hafi síðan átt fundi „einu sinni eða tvisvar“ í fundarherbergi Viðskiptahússins með Matthíasi.  Þar hafi þeir gengið endanlega frá því að Matthías myndi veita Viðskiptahúsinu afslátt af verkinu miðað við að „þessi tala“ héldist eitthvað nálægt „þessum mörkum“.  Annars vegar „hafi kannski verið að tala um afslátt af vinnu því að þetta var svo sem ekki gott fyrir okkur að fylgjast nákvæmlega með, þetta voru bara einhverjar tímaútskriftir og það kom svona ekki einhver heildar tala, þetta voru að koma svona reikningar með einhverjum tímaútskriftum“.

Jóhann sagði að þegar Matthías fór „að hnippa í okkur.  Mig minnir að þegar svona menn eru að ræða þetta uppgjör þá minnir mig að við hefðum samkvæmt hans bókhaldi skuldað honum, held ég, 1.300.000, ég man ekki þessa tölu rétt.  Þó með fyrirvara að ég man þetta ekki nákvæmlega.  Þannig að við hittumst á fundi minnsta kosti einu sinni ef ekki tvisvar, ég man ekki hvort það var einu sinni eða tvisvar, og þá var gert samkomulag um að hann gefi okkur afslátt.  Annars vegar var það bara til þess að halda okkur innan ramma sem upphaflega var reiknað með og hins vegar náttúrlega var ég búinn að komast að því að efnið sem var í gamla grunninum, það var sem sagt grunnur á lóðinni áður tilbúinn.  Við létum taka hann í burtu og það var settur nýr grunnur, að það hafi aldrei komið til frádráttar á þessum reikningum það efni sem klárlega fór eitthvað annað og voru tekjur af“.  Jóhann sagði, að hann teldi sig vita að efnið hefði verið selt og vita hvert það fór, en hafi ekki verið að þrefa um það við hann.  Þeir hafi bara samið þarna um vissan afslátt og vissa niðurstöðu.  Síðan hafi hann farið að ýta eftir að fá lokauppgjör á þeim reikningum og þá hafi komið í ljós að hann bakkaði með þessa samninga þeirra.  Og í staðinn fyrir að gefa „okkur“ 20 til 25% afslátt af verkinu, sem að talað var, þá gaf hann „okkur held ég“ 20 til 25% afslátt af því sem að ógreitt var.

Lögmaður stefndu vísað til dskj. nr. 3, sem lagt hafði verið fram af stefnanda sem viðskiptayfirlit.  Hann benti á að þar virtist vera bókaðar greiðslur frá stefndu upp á 8.667.000.  Jóhann sagði að það gæti passað.  Þau hefðu örugglega verið komin svolítið yfir þessar 8.000.000.

Lögmaður stefnda spurði, hver hafi verið eigandi eignarinnar á þeim tíma, sem verkið var unnið.  Jóhann sagði, að Viðskiptahúsið hafi keypt lóðina 2005 og hafi átt eignina allan tímann.  Hann og konan hans eigi Viðskiptahúsið og hafi hann frá upphafi verið framkvæmdastjóri Viðskiptahússins.

Vísað var til þess að komið hefði fram hjá Matthíasi að reikningar hefðu verið stílaðir á Viðskiptahúsið að beiðni Jóhanns, og spurt var, hvort það væri ekki rétt þar sem Viðskiptahúsið var eigandi og húsbyggjandi.  Jóhann sagði að ekki hefði verið unnt að stíla reikninga á neinn annan.  Viðskiptahúsið var að byggja húsið og greiddi reikningana.  Ef hann muni rétt þá hafi fyrst einhverjir reikningar komið á hans nafn, en hann hafi bara leiðrétt það.

Jóhann sagði að stefnandi hafi ekki upplýst hann um einingarverð, einingafjölda, tímagjald, akstursgjald, sundurliðun á ferðum og kílómetrum varðandi verk Mottó Juniors ehf. fyrir Viðskiptahúsið.  Jóhann sagði að umræddar byggingaframkvæmdi Viðskiptahússins hafi verið frumraun félagsins og það hafi haft mjög litla reynslu á þeim vettvangi.  Það hafi verið atriði hjá honum að hafi í fyrsta laga mann eins og Ingimund sér til handa og í öðru lagi, að það sem um væri samið, væru einhverjar tölur, þar sem maður vissi hvað ætti að borga.

Lögmaður stefnanda lagði fyrir Jóhann dskj. nr. 3, sem áður var getið, og vísaði til þess að hann og kona hans, Þorbjörg, hefðu greitt hluta af þeim reikningum sem þar er getið.  Jóhann kvaðst ekki kannast við að þau hefðu persónulega greitt reikninga fyrir verk stefnanda.

Ingimundur Magnússon bar fyrir rétti m.a. að Jóhann Ólafsson hafi beðið sig um að vera byggingastjóri að þessu húsi [að Ennishvarfi 6 í Kópavogi] og hafi hann fallist á það.  Hluti af því starfi hafi verið að útvega verktaka til verksins.  Þar á meðal hafi náttúrlega verið byrjað á að grafa fyrir húsinu og fjarlægja sökkla, sem fyrir voru, og annað sem var fyrir.  Til þess hafi hann fengið Matthías Matthíasson, sem rak fyrirtækið Mottó Junior ehf.  Hann hafi fengið Matthías til þess vegna þess að hann treysti honum og hafði þekkt hann og föður hans að vönduðum verkum.

Ingimundur sagði að verkefni Matthíasar hafi verið að taka undirstöðuna, þessa gömlu sökkla, sem voru á lóðinni og saga þá í sundur, þessar undirstöður undir hús, sem átti að byggja þarna, og fjarlægja þessa steypuköggla, fyllingu, einangrun, lagnir og allt sem þar var inni.  Grafa átti síðan fyrir nýju tveggja hæða húsi sem var með kjallara, sem ekki átti að vera með fyrra húsinu.  Þá þurfti hann að grafa burtu 2.500 rúmmetra af efni og keyra megnið af því í burtu, sem ekki var hægt að nota, en geyma það sem hægt var að nota, á staðnum.  Hann hafi líka grafið fyrir lögnum, bæði frárennslislögnum og vatnstengingum, eins fyrir vinnuskúrum og tengingum við þá.  Hann hafi grafið fyrir stoðveggjum á milli lóða báðum megin við húsið.  Bæði á milli sex og fjögur og sex og átta.

Ingimundur sagði að verkefni stefnanda hafi aukist, eftir að hann tók það upphaflega að sér.  Ákveðið hafi verið að stækka húsið um 60 fermetra og smávegis breytingar ákveðnar eins og stundum vill verða.  Svo hafi verið ákveðið að hafa hesthús á lóðinni.  Stefnandi hefði þurft að grafa fyrir því og fylla undir það.

Ingimundur sagði að „við“ hefðum alltaf litið á Viðskiptahúsið sem verkkaupanda sem var fyrirtæki þeirra Þorbjargar og Jóhanns, sem voru að byggja þetta hús fyrir sig.  Þau hefðu átt þetta einkahlutafélag og notað það í raun og veru sem byggjanda hússins.  Þetta væri einbýlishús, fjölskylduhús og alltaf hafi legið fyrir að þetta var þeirra hús.

Ingimundur sagði að enginn sérstakur samningur hafi verið við Matthías/Mottó Junior ehf.  Stefnandi hafi bara átt að gera það sem þurfti af jarðvinnu á venjulegum hefðbundnum töxtum sem gengu, og vinna það sem hann [Ingimundur] bað hann um að gera eða það, sem Gunnar og Ársæll, stjórnendur á staðnum, báðu hann að gera.  Það hafi fyrst og fremst verið þeir, sem hefðu haft samband við hann [Matthías], enn ekki ég [Ingimundur].

Ingimundur sagði að ekki hafi verið samið um heildarverð.  Hann sagði að útgefnir reikningar stefnanda væru eðlilegir og réttir að hans mati eftir því sem hann sá, en hann hafi ekki verið á staðnum til að tímamæla hvenær hann kom og hvenær hann fór.  Ársæll og Gunnar hafi hins vegar verið á staðnum og gætu betur borið um það.  En sjálfur hafi hann ekki reynt Matthías að öðru en að skrifa rétta reikninga.  Honum hafi fundist að form reikninganna uppfylltu öll skilyrði og þeir verið eðlilegir venju samkvæmt.  Ljóst væri að vinna, sem farið var fram á greiðslu fyrir, hafði öll verið innt af hendi.

Lagt var fyrir Ingimund dskj. nr. 3, sem áður er getið.  Ingimundur sagði að hann hefði samið þetta skjal.  Hann viti ekki betur en efni þess sé rétt, eðlilegt og í samræmi við bókhald.

Ingimundur sagði að samið hefði verið um að stefnandi ynni verk fyrir stefnda en ekki samið sérstaklega um hámarksgjald, ekki um tímagjald, ekki samið um gjald fyrir vélaklukkutíma að öðru leyti en því, að ekki væri farið fram úr því sem gerðist á markaðnum.  Hann hafi alveg vitað hvað það var.  Ekki hafi alveg legið fyrir umfang verksins, þegar það var hafið, en það hefði aukist verulega.

Lagt var fyrir Ingimund dskj. nr. 4, sem áður er getið.  Þar sem á þessum reikningi komi ekki fram kílómetragjald, tímagjald, einingagjöld, gjald á vélar og ekki liggi fyrir umfang verksins í byrjun eða yfir tímann, var spurt hvort hægt væri að meta hvort þetta væri eðlilegt endurgjald.  Ingimundur sagði að það væri nokkurn veginn hægt í restina.  Þá var bent á að ekkert eftirlit hafi verið með því hvort þessar ferðir, þessir tímar og þessir kílómetrar voru inntar af hendi.  Ingimundur sagði að það hefði ekki verið gert af sinni hálfu.  Hann hafi ekki verið þarna daglega.  Hann taldi að hafi einhverjir fylgst með því hafi það verið Gunnar og Ársæll.  Þeir hefðu pantað stefnanda til að koma að vinna og verið stjórnendur hans um hvað gera skyldi.  Gunnar hafi verið þar daglegur verkstjóri en Ársæll húsasmíðameistari verksins.  Þannig hafi samstarfið gengið.  Bent var þá á að þeir höfðu ekki og báru ekki ábyrgð á þessum aðila, á því að hann skrifaði rétta tíma, eða hefðu yfirferð á tímaskriftunum hans.  Ingimundur sagði að þeir hefðu ekki verið settir sérstaklega í það.  Allavega hefði hann ekki gert það.

Lögmaður stefnda vísaði til þess að komið hefði fram að unnið hefði verið á hefðbundnum töxtum en ekki væri hægt að staðfesta það samkvæmt þessum reikningi.  Ingimundur sagði að það væri kannski erfitt en stefnandi hafi ekki farið út úr þessum töxtum svo hann vissi, hvorki í þessu verki né öðru.

Ársæll Þorleifsson bar fyrir rétti m.a. að hann hefði unnið við byggingu að Ennishvarfi 6 í Kópavogi.  Hann hafi unnið þar fyrir Viðskiptahúsið og Jóhann.  Reikningar hans hefðu verið stílaðir á Viðskiptahúsið.  Verksamningur aðila hafi verið tilboð sem samþykkt var í upphafi verksins.  Ársæll sagði að Mottó Junior ehf. hafi komið að verki þarna, en hann hafi ekki átt þátt í því.  Þá hafi hann hvorki haft eftirlit með né stjórnun á vinnu Mottó Juniors ehf.  Hann hafi ekki fylgst sérstaklega með því, hvað Mottó Junior ehf. gerði, og hvort félagið krafðist greiðslu í samræmi við það, honum hafi ekki komið það við.

Vísað var til þess að hluti af verkinu hafi verið að moka upp fyllingu, sem komin var í eldri grunn, og spurt var, hvort líklegt væri að öll fyllingin, sem mokuð var upp, hafi aftur farið í húsið í framhaldinu.  Ársæll kvaðst ekki geta svarað þessu.  Hann hafi fyrst komið til að skoða verkið, þegar fyllingin var til staðar og sökklar voru ofan á fyllingunni.  Svo hafi hann næst komið þegar komin var svaka hola.

Ársæll sagði að Mottó Junior ehf. hafi klárið sitt verk svo uppsláttur gætit hafist.

Gunnar Þórólfsson bar fyrir rétti m.a. að hann hefði starfað við Ennishvarf 6.  Hann hafi unnið þar fyrir Verkás ehf., og taldi, að Viðskiptahúsið hafi verið verkkaupandi, en reikningar hefðu verið stílaðir á þann aðila.  Hann kvaðst ekki vita hvernig samið var um vinnu sína.  Hann hafi verið starfmaður Verkáss ehf.  Hann kvaðst kannast við að Mottó Junior ehf. hefði komið að þessu verki.  Hann kvaðst ekki hafa haft eftirlit eða umsjón með aðkomu Mottó Juniors ehf. að verkinu.

Óumdeilt er að Viðskiptahúsið ehf. var eigandi fasteignarinnar að Ennishvarfi 6 í Kópavogi á þeim tíma sem Mottó Junior ehf. vann umrætt verk.  Ekki liggur fyrir með ótvíræðum hætti að eigendur Viðskiptahússins ehf. hafi persónulega ábyrgst greiðslu fyrir verkið, er samið var um að Mottó Junior ehf. innti af hendi grunn- og jarðvegsvinnu vegna byggingar íbúðarhúss að Ennishvarfi 6.  Gegn andmælum stefndu, Jóhanns Magnúsar Ólafsonar og Þorbjargar Stefánsdóttur, verður Mottó Junior ehf. að bera halla af því.  Ekki liggur heldur fyrir með ótvíræðum hætti að samið hafi verið við Mottó Junior ehf. í þá veru að heildargreiðsla fyrir verk Mottó Juniors ehf. yrði u.þ.b. 8.000.000 krónur, svo sem Jóhann Magnús hélt fram fyrir rétti.  Þá verður heldur ekki með vissu ráðið af gögnum málsins að samið hafi verið um að stefndu greiddu fyrir verkið samkvæmt einingamælingum, tímaskýrslum og reikningum Mottó Juniors ehf., svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda.  Málatilbúnaður aðila er því ekki svo skýr að niðurstaða verði fengin.  Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.  Málskostnaður fellur niður.