Hæstiréttur íslands

Mál nr. 801/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                            

Þriðjudaginn 15. desember 2015.

Nr. 801/2015.

Vegagerðin

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Ósafli sf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.

V kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni Ó sf. um að dómkvaddir yrðu tveir nafngreindir menn til þess að meta tiltekin atriði til viðbótar fyrri matsgerðum sínum. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars rakið að aðili að einkamáli ætti að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann teldi þörf á og væri hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Að sögn Ó sf. mætti rekja hið umbeðna mat til áskorunar V í bréfi hans frá því í febrúar 2015 og athugasemda af hans hálfu í bréfi sem var lagt fram á dómþingi í júní sama ár. Var því talið að matsbeiðnin væri ekki of seint fram komin. Þá yrði ekki séð að matsmenn hefðu í fyrri matsgerðum sínum fjallað um þau atriði sem beiðnin tæki til. Hæstiréttur vísaði jafnframt til þess að þótt svo kynni að vera að með matsbeiðninni væri verið að undirbyggja málsástæðu, sem ekki hefði áður verið byggt á, gæti öflun matsgerðar ekki ein út af fyrir sig valdið því að Ó sf. gæti breytt málatilbúnaði sínum. Samkvæmt þessu var fallist á kröfu Ó sf. um að fá dómkvadda menn til að svara fyrstu tveimur spurningunum í matsbeiðni félagsins. Með þriðju matsspurningu sinni óskaði Ó sf. eftir því að matsmenn myndu reikna og sýna áhrif þess á kröfur Ó sf. í málinu ef fallist yrði á að félagið hefði átt að skipta tilboðsfjárhæð sinni með þeim hætti sem gert væri ráð fyrir í fyrstu tveimur spurningunum. Hæstiréttur taldi að það væri hvorki hlutverk dómkvaddra matsmanna að staðreyna né breyta kröfum sem aðilar hefðu uppi í einkamáli. Af þeim sökum skorti þriðju spurninguna lagastoð og var þeim hluta matsbeiðni Ó sf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2015 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir nafngreindir menn til þess að meta tiltekin atriði til viðbótar fyrri matsgerðum sínum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umræddri beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili hefur höfðað mál á hendur sóknaraðila til heimtu skaðabóta vegna verks sem sá fyrrnefndi hafði tekið að sér að vinna fyrir þann síðarnefnda og fólst meðal annars í greftri svonefndra Bolungarvíkurganga. Í héraðsdómsstefnu er á því byggt af hálfu varnaraðila að „jarðfræðiaðstæður hafi verið verri en útboðslýsing gaf til kynna og stórfelldar tafir sem urðu á greftrinum af þeim sökum hafi verið langt umfram það sem ætla mátti.“ Eigi hann því rétt til bóta vegna þess viðbótarkostnaðar sem orðið hafi við framkvæmd verksins. Varnaraðili hefur í stefnunni uppi aðal- og varakröfu á hendur sóknaraðila og er í báðum tilvikum krafist bóta, sem leitt hafi af auknum kostnaði vegna tafa við verkið, öðrum en beinum kostnaði við gröft ganganna og vegna hruns í þeim. Umræddar kröfur varnaraðila eru reistar á því að heildarfjárhæð samkvæmt tilboði hans í verkið vegna tiltekins verkþáttar, er lýst sé í útboðsgögnum sem „uppsetning aðstöðu, undirbúningur á mannvirkjagerð“, hafi numið 845.857.721 krónu sem dreifst hafi á 603 vinnudaga. Kostnaðurinn hafi því verið 1.402.749 krónur að meðaltali á hvern vinnudag og sú tala síðan margfölduð með þeim fjölda daga, sem varnaraðili heldur fram að verkið hafi tafist af áðurgreindum orsökum, til að finna út fjárhæð bótanna sem krafist er vegna þess óbeina kostnaðar sem til hafi fallið.

Þar sem sóknaraðili telur að fjárhæðin, sem varnaraðili bauð í framangreindan verkþátt, hafi verið óvenjulega há skoraði sá fyrrnefndi á þann síðarnefnda með bréfi 25. febrúar 2015 að sundurliða fjárhæðina með nánar tilgreindum hætti. Í þinghaldi 13. mars sama ár lagði varnaraðili fram skjal þar sem fjárhæðin var sundurliðuð á þann hátt sem um var beðið. Í ljósi þess hefur sóknaraðili gert athugasemdir við það hve varnaraðili bauð hátt í verkþáttinn og ekki talið tilboðsfjárhæðina standast ákvæði útboðslýsingar. Var bréf þess efnis frá 8. apríl 2015 lagt fram á dómþingi 29. júní sama ár.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili áður aflað matsgerðar og viðbótarmatsgerðar dómkvaddra manna vegna þess máls sem hann hefur höfðað gegn sóknaraðila. Var viðbótarmatsgerðin lögð fram á dómþingi 20. október 2015. Í því þinghaldi lagði varnaraðili jafnframt fram matsbeiðni þá sem um er deilt í máli þessu.

Með beiðninni fer varnaraðili fram á að dómkvaddir verði sömu menn og áður „til þess að skoða og meta tiltekin atriði er varða gerð Bolungarvíkurganga, til viðbótar fyrri matsgerð sinni ... og viðbótarmatsgerð“. Er þess „óskað að matsmenn skoði og meti áhrif þess á kröfu (tjón) stefnanda ef tilboðsfjárhæð stefnanda í verklið 8.01 (lið nr. 1) hefði verið lægri, um sem nemur muninum á 845.857.721 kr. og 198 milljónum annars vegar og 270 milljónum hins vegar. Þetta er að því gefnu að stefnandi hefði þá við tilboðsgerðina skipt mismuninum niður á einingaverðstilboð sín í hlutfalli við fjárhæð einstakra liða. Við svör við eftirtöldum spurningum þarf einnig að taka mið af endanlegu uppmældu magni og uppgjöri í verkinu. Nánar tiltekið eru spurningarnar eftirfarandi sem að þessu lúta: 1) Leggið mat á áhrif þess ef tilboð verktaka (lægstbjóðanda) hefði verið 270.350.644 í verkþátt 8.01 liður 01 (Uppsetning aðstöðu, undirb. framkvæmda, tilvísun 02.1), í stað þess að vera 845.857.721. a. Í matinu skal miða við að mismuninum, 575.507.077 kr., hefði verið skipt hlutfallslega jafnt á þá greiðsluliði verksins sem gerðir voru upp samkvæmt magni. b. Þá skal í matinu byggt á endanlegu uppmældu magni og greiðsluuppgjöri því sem miðað var við í lok verksins. c. Óskað er eftir því að matsmenn meti heildaráhrifin á uppgjör til verktaka og sýni útreikningsaðferðir sínar. d. Óskað er eftir því að útreikningar verði sundurliðaðir og taki mið af grunnverði samningsins. 2) Þá er þess óskað að matsmenn meti með sama hætti og greinir í spurningu nr. 1, en miði í því tilviki við mismuninn á tilboðsverðinu 845.857.721 kr. og 197.977.033 kr. Verði í því tilviki mismuninum, kr. 647.880.688, skipt niður á uppmælda greiðsluliði, sbr. umfjöllun í spurningu nr. 1 að öðru leyti. 3) Þess er óskað að matsmenn reikni og sýni áhrif þess á kröfur stefnanda í málinu (sbr. sundurliðun aðal- og varakröfu í stefnu og í dskj. 9) ef fallist væri á að stefnandi hefði átt að skipta tilboðsfjárhæð sinni í samræmi við liði 1 eða 2 hér að framan.“

II

Í einkamáli lýtur sönnun einkum að því að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar getur hann meinað aðila um sönnunarfærslu samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laganna. Í IX. kafla sömu laga er fjallað um matsgerðir. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Ef ekki verður farið svo að kveður dómari eftir 1. mgr. 61. gr. einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvað það er sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með mati.

Aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Það er því hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema formskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðnin lúti einvörðungu að atriðum, sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr. Í síðastnefnda tilvikinu yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr.

 Varnaraðili kveður að ástæðu hins umbeðna mats sé að rekja til áskorunar sóknaraðila í bréfi hans 20. febrúar 2015 og athugasemda af hans hálfu í bréfi sem lagt var fram á dómþingi 29. júní sama ár eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Að því virtu er fallist á með héraðsdómi að matsbeiðnin sé ekki of seint fram komin. Þá verður ekki séð að áður hafi verið fjallað um þau atriði, sem hún tekur til, í þeim matsgerðum dómkvaddra manna sem fyrir liggja.

Í kæru til Hæstaréttar heldur sóknaraðili því fram að með matsbeiðninni sé varnaraðili að víkja frá þeim einingaverðum, sem hann hafi boðið í gangagröftinn, og þar með „að undirbyggja málsástæðu og grundvöll kröfu sinnar sem hann hefur ekki áður byggt á.“ Þótt svo kynni að vera verður að líta til þess að öflun matsgerðar getur ekki ein út af fyrir sig valdið því að varnaraðili geti breytt málatilbúnaði sínum, en hann verður að bera áhættu og kostnað af því ef umbeðin matsgerð kemur honum ekki að haldi af þeim sökum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. nóvember 2014 í máli nr. 687/2014.

Með fyrstu tveimur matsspurningunum óskar varnaraðili eftir útreikningum sem taki mið af nánar greindum forsendum. Samkvæmt framansögðu er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fallast á þann hluta af beiðni hans.

  Eins og áður er fram komið er hlutverk dómkvaddra matsmanna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 að leggja mat á sérfræðileg atriði, en hvorki að staðreyna né breyta kröfum sem aðilar hafa haft uppi í einkamáli. Af þeim sökum skortir þriðju spurninguna í matsbeiðni varnaraðila lagastoð og verður því að hafna þeim hluta af beiðni hans þegar af þeirri ástæðu.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu varnaraðila, Ósafls sf., um að fá dómkvadda matsmenn til að svara fyrstu tveimur spurningunum í matsbeiðni hans.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2015.

I.

Í þinghaldi 20. október sl. lagði stefnandi, sóknaraðili í þessum þætti málsins, fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna (viðbótarmat). Í sama þinghaldi óskaði stefndi, varnaraðili í þessum hluta málsins, eftir fresti til að kynna sér framlögð gögn, þ. á m. nefnda matsbeiðni.

Í þinghaldi 3. nóvember komu fram mótmæli varnaraðila við framkominni matsbeiðni og var þá ákveðinn munnlegur málflutningur um þennan ágreining. Málflutningur fór fram 4. nóvember sl. um það hvort fallist yrði á að dómkveða matsmenn, og var málið tekið til úrskurðar þann dag. Aðeins sá þáttur málsins er hér til umfjöllunar og úrlausnar.

II.

Varnaraðili hafði uppi frávísunarkröfu í greinargerð sinni til héraðsdóms en henni var hafnað með úrskurði dómsins 12. nóvember 2014. Þá var rekið ágreiningsmál um matsbeiðni sóknaraðila þar sem hann, í kjölfar matsgerðar Pálma R. Pálmasonar verkfræðings og Sigurðar St. Arnalds verkfræðings sem lokið var við í desember 2014, óskaði eftir því að matsmenn endurskoðuðu svör við ellefu af fjörutíu matsspurningum úr fyrra mati. Héraðsdómur féllst á beiðnina en Hæstiréttur féllst einungis á að bornar yrðu fram sjö spurningar til matsmanna í viðbótarmatsgerð, með dómi réttarins 15. mars 2015 í málinu nr. 330/2015. Matsgerð samkvæmt þeirri dómkvaðningu lauk í október sl. og var lögð fram í málinu 20. október sl.

III.

Í matsbeiðni þeirri (viðbótarmatinu) sem hér er fjallað um er þess óskað að matsmenn skoði og meti áhrif þess á kröfu (tjón) varnaraðila ef tilboðsfjárhæð sóknaraðila í verklið 8.01 (lið nr. 1) hefði verið lægri um sem nemur muninum á 845.857.721 kr. og 198.000.000 kr. annars vegar og 270.000.000 kr. hins vegar. Þetta væri að því gefnu að sóknaraðili hefði þá við tilboðsgerðina skipt mismuninum niður á einingaverðstilboð sín í hlutfalli við fjárhæð einstakra liða. Bornar eru síðan upp þrjár matsspurningar sem matsbeiðandi telur að geti leitt til þessarar niðurstöðu.

IV.

Sóknaraðili heldur því fram að verkið sem málið snýst um, þ.e. gerð Óshlíðarganga, hafi tekið mun lengri tíma en útboðsgögn bentu til og gerðu ráð fyrir, en tafir megi m.a. rekja til rangs mats á jarðlögum. Verkið hafi því verið flóknara og erfiðara en hægt var að áætla. Kostnaður verksins hafi því aukist. Sóknaraðili vísaði til þess í málflutningi sínum að málshraði hefði mátt vera meiri, en tafir málsins ættu sér þó að mestu leyti eðlilegar skýringar og þær mætti rekja til beggja aðila málsins. Sóknaraðili vísaði jafnframt til þess að hinn umdeildi verkliður hefði að mati varnaraðila ekki átt að kosta meira en 197.977.033 krónur, sbr. sundurliðun varnaraðila á tilboði í lið 021; undirbúningi og uppsetningu aðstöðu, en þar sem sóknaraðili hafi boðið 845.857.721 krónu beri að skilja málatilbúnað varnaraðila með þeim hætti að hann telji sóknaraðila í raun hafa búið tjón sitt til sjálfur með tilhögun tilboðsgerðar.

Tilgangur hinnar umdeildu matsbeiðni sé því að meta heildaráhrif þess fyrir málið, ef einingaverð sóknaraðila og tilboð í verklið nr. 8.01 (lið 1) hefðu verið byggð upp eins og varnaraðili sjálfur geri kröfu til. Jafnframt að svara því hvernig stefnukröfur ættu að líta út ef sóknaraðili hefði haft tilboð sitt í samræmi við staðhæfingar varnaraðila er fram komu í umræddri sundurliðun á tilboði í lið 021; undirbúningi og uppsetningu aðstöðu.

Sóknaraðili hafnar því að þessar matsspurningar hafi getað komið fram á fyrri stigum málsins. Það sé ekki fyrr en við framlagningu á skjali í þinghaldi 29. júní sl. frá varnaraðila, sem slíkt tilefni hafi gefist.

Sóknaraðili mótmælir því að grundvelli málsins sé raskað með beiðni hans og telur réttarfarsreglur girða fyrir slíkt; að niðurstaða matsgerðar geti ekki ein og sér breytt grundvelli máls. Sóknaraðili telur reyndar að framangreint skjal sem varnaraðili lagði nýverið fram sé fremur til þess fallið að raska málsgrundvellinum.

Sóknaraðili telur að það horfi til mikils hagræðis fyrir dóminn að fá svör við þessum niðurstöðum en ef fallist yrði með einum eða öðrum hætti á þá aðferðarfræði sem varnaraðili hefur nú kynnt myndi slíkt þá kalla á útreikninga dómsins til að komast að niðurstöðu, sem væri ótækt.

Sóknaraðili byggir á að ef hægt er að sýna fram á áhrif á stefnukröfur með matsgerð, eins og líkur standi til í þessu tilviki, hljóti slík matsgerð að teljast sönnunargagn og eigi því erindi inn í málið.

IV.

Varnaraðili telur að reglur einkamálaréttarfars um málshraða geti girt fyrir frekari gagnaöflun þ.m.t. að afla matsgerða í málum og slíkt eigi við í þessu máli. Mál þetta hafi tekið allt of langan tíma nú þegar. Varnaraðili telur að sóknaraðila hefði verið í lófa lagið að leggja fram matsspurningarnar strax í upphafi máls. Því beri að hafna frekari matsbeiðnum í málinu þegar af þeirri ástæðu. Þá telur varnaraðili ekki sýnt fram á hvaða atriði matsbeiðandi leitist við að sanna með þeirri sönnunarfærslu sem hann óski eftir nú.

Varnaraðili gerir athugasemdir við að sóknaraðili geri hér tilraun til þess að flétta beiðni þessa saman við dómskjal sem varnaraðili lagði fram 29. júní sl. Slíkt eigi sér enga stoð enda hafi sú fjárhæð sem fram komi í þessari matsbeiðni, 845.857.721 króna, komið strax fram í stefnu á árinu 2013 og því verið ljós frá þeim tíma.

Varnaraðili telur að matsmenn hafi þegar svarað spurningum nr. 1 og 2 en það hafi þeir gert með svörum við spurningum 34 og 35 í matsgerð sinni. Dómkvaðning matsmanna nú sé því óþörf.

Varnaraðili telur að með beiðni sinni sé sóknaraðili að óska eftir að dómkvaddir matsmenn meti breytingar á kröfugerð hans, sbr. 3. spurningu í matsbeiðni, og jafnvel móti nýjar dómkröfur sóknaraðila. Slíkt sé ekki í verkahring dómkvaddra matsmanna heldur sé það lögfræðilegt atriði sem heyri undir lögmann sóknaraðila og dóminn.

Varnaraðili vísar jafnframt til viðræðufundar milli aðila sem haldinn var í tengslum við gerð verksamningsins, þar sem fram komu vangaveltur um hversu mikill kostnaður væri við hinn umdeilda verkhluta, þ.e. stofn og uppsetningarkostnað. Þá vísaði varnaraðili einnig á samanburð á þessum kostnaði á milli bjóðenda í verkið á sínum tíma, en samkvæmt téðum samanburði var sóknaraðili þar með langhæsta tilboðsverðið í hlutaðeigandi verkþátt.

V.

Eins og rakið hefur verið lagði sóknaraðili fram hina umdeildu matsbeiðni þann 20. október sl. Mótmæli varnaraðila voru bókuð í þinghaldi þann 3. nóvember sl. og munnlegur flutningur fór fram þann 4. nóvember.

Í þinghaldi þann 27. febrúar sl. lagði varnaraðili fram áskorun til sóknaraðila um að leggja fram sundurliðun á kröfum sóknaraðila. Sóknaraðili brást við áskorun varnaraðila og lagði fram í þinghaldi þann 13. mars sl. sundurliðun á tilboði sínu að andvirði 845.857.721 króna. Í þinghaldi þann 29. júní sl. lagði varnaraðili síðan fram útreikning sinn á breytilegum kostnaði við tilboðsliðinn 02, undirbúning og uppsetningu aðstöðu. Þetta skjal telur sóknaraðili að hafi öðru fremur kallað á matsbeiðni þá sem hér er deilt um.

Í kjölfar framangreindrar áskorunar varnaraðila um sundurliðun á tilboðsgerð sóknaraðila undir hlutaðeigandi tilboðslið og viðbragða við henni hafa risið álitamál undir rekstri málsins sem dómurinn telur að hafi ekki áður fengið umfjöllun í fyrirliggjandi matsgerðum þess.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa málsaðilar forræði á sönnunarfærslu í málum eins og því sem hér um ræðir og ráða því þar með hvernig þeir færa sönnur á atvik sem þar er deilt um. Í sömu lögum eru ekki lagðar sérstakar hömlur við því að aflað sé matsgerðar um atriði sem áður hafa verið metin og enn síður hafa verið lagðar hömlur við því að óskað sé eftir mati á nýjum atriðum. Ráða má þó af dómaframkvæmd að 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála girði fyrir að aflað sé nýrrar matsgerðar ef slík sönnun verði talin bersýnilega tilgangslaus. Einnig verður að telja að sé það metið vafalaust að matsspurningu hafi áður verið svarað beri að hafna matsspurningu. Verði það hins vegar ekki fullyrt eða sýnt að matsbeiðni sé tilgangslaus til sönnunar telur dómurinn að að meginstefnu beri þá í ljósi þessara meginreglna að fallast á beiðni aðila í þessa veru. Matsbeiðandi ber enda áhættuna af sönnunargildi matsgerðar í málinu og kostnað af öflun hennar.

Dómurinn telur vafa geta leikið á því hvort spurningum 1 og 2 í matsbeiðni hafi verið svarað nú þegar. Í ljósi framangreindra sjónarmiða telur dómurinn að þann vafa beri að skýra meginreglunni í hag. Telji dómkvaddir matsmenn spurningu eða spurningum hafa nú þegar verið svarað með fullnægjandi hætti verður, svar þeirra á þá leið, eðli máls samkvæmt. 

Því er ekki fallist á að matsbeiðni sóknaraðila sem slík raski grundvelli málsins. Niðurstaða matsgerðar gæti hins vegar breytt ásýnd málsins líkt og endranær, en slík niðurstaða hleypir aldrei að nýjum málsástæðum og breytir ekki grundvelli máls frá því sem lagður var í upphafi, nema að öðrum skilyrðum uppfylltum og eftir atvikum með samþykki aðila.

Eins og meðal annars verður ráðið af 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skulu aðilar einkamáls tefla fram kröfum og öðrum atriðum sem varða málatilbúnað sinn, þar á meðal þeim sönnunargögnum sem þeir vilja reisa hann á, svo fljótt sem kostur er. Jafnframt er leitast við að sporna við því í lögunum að aðilar geti upp á sitt eindæmi eða með sammæli sín á milli dregið mál á langinn að óþörfu. Sú meginregla að hraða beri máli eftir föngum styðst ekki einungis við hagsmuni málsaðila, heldur búa einnig að baki henni ríkir almannahagsmunir. Þó svo að fallast megi á þá röksemd varnaraðila að málið hafi dregist nokkuð ber við mat á því hvort um brot gegn málshraða er að ræða eður ei að líta til þess af hvaða ástæðum mál hefur tafist. Samkvæmt dómaframkvæmd skiptir það máli hvort mál hafi legið í láginni; í kyrrstöðu um langan tíma og hvort tilefni hafi verið til matsspurninga á fyrri stigum eða annarrar gagnaöflunar. Slíkt er ekki tilfellið í þessu máli ef horft er til reksturs þess, m.a. kröfu um frávísun og umfjöllun um hana og fyrri ágreining aðila um matsbeiðni sem að framan er lýst. Þá tók nýr dómari við málinu nýverið. Hafa því ýmsir þættir undir rekstri málsins valdið því að það hefur dregist.

Sem fyrr greinir risu upp álitamál undir rekstri málsins sem ekki hafði áður verið fjallað um, þegar framangreind áskorun varnaraðila um sundurliðun á tilboðsgerð kom fram í málinu. Tilgangur matsspurninga í hinu umdeilda viðbótarmati er að skýra nánar fyrir dóminum mismun á reikningsaðferðum aðila og varpa ljósi á það hver munurinn hefði orðið á kröfufjárhæð ef kröfugerð sóknaraðila hefði verið í samræmi við sundurliðun á tilboði varnaraðila hvað varðaði hlutaðeigandi tilboðslið. Sá ágreiningur sem um ræðir kom fyrst upp undir rekstri málsins og að áeggjan varnaraðila. Með vísan til málsforræðisreglu einkamálaréttar og ríks réttar aðila til að afla mats er matsbeiðni heimiluð enda ekki ljóst eins og málið er vaxið að sönnun sé bersýnilega tilgangslaus. Þá ber matsbeiðandi ennfremur alla áhættuna af sönnunargildi og kostnaði af öflun matsgerðar. Aukinheldur bendir flest til þess að dómkvaddir matsmenn eigi að geta lokið matsstörfum mjög hratt. Engin frekari gagnaöflun virðist nauðsynleg til að framkvæma umbeðið mat og matsmenn þeir sem óskað er eftir að verði dómkvaddir, að því gefnu að það gangi eftir, gjörþekkja málið og hafa enda nú þegar skilað af sér tveimur matsgjörðum í málinu.

Að framanrituðu virtu þykja hvorki ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 né ákvæði IX. kafla sömu laga eða reglur um málshraða standa því í vegi að fallist verði á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Verður kröfu varnaraðila um að synjað verði beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna því hafnað og skal dómkvaðning því fara fram samkvæmt beiðni sóknaraðila.

Engar kröfur voru gerðar um málskostnað undir þessum þætti málsins.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.