Hæstiréttur íslands

Mál nr. 89/2006


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2006.

Nr. 89/2006.

Kristbjörg Þ. Kolbeinsdóttir

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Orsakatengsl. Gjafsókn.

K lenti í umferðarslysi í október 1999. Hún leitaði til sérfræðings í bæklunarskurðlækningum í júlí 2001 og kvartaði undan bakverkjum sem hún taldi að rekja mætti til árekstursins. Hún hafði alið barn þremur vikum fyrr. Aðilar óskuðu sameiginlega eftir læknismati á afleiðingum slyssins í janúar 2002 og var varanleg örorka metin 7% og varanlegur miski einnig 7%, en matsmenn höfðu þann fyrirvara á að óvissa væri um orsakatengsl milli slyssins og bakeinkenna K. Um tveimur árum síðar sendi K matmönnum staðfestingu vinnuveitanda síns á þeim tíma sem slysið varð um að hún hefði verið frá vinnu í tvo daga eftir slysið vegna bakverkja. Töldu matsmenn umrædd gögn styðja það að um orsakatengsl hefði verið að ræða. Með héraðsdómi var S sýknað af kröfu K þar sem ekki hefði verið sýnt fram á orsakatengsl á milli slyssins og einkenna hennar. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms voru að beiðni K dómkvaddir tveir menn, prófessor í lögum og bæklunarskurðlæknir, til að leggja mat á nánar tilgreindar afleiðingar slyssins. Í þeim kafla matsgerðarinnar sem fjallaði um orsakatengsl kom fram að matsmenn teldu slysið vel hafa getað valdið einkennum K. Í niðurstöðu Hæstaréttar var tekið fram að héraðsdómur hefði verið skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, sérfræðingi í fæðingarlækningum og sérfræðingi í bæklunarlækningum. Hefði dómurinn ekki talið að þau sérfræðigögn sem lágu fyrir í héraði væru eindregin um að K hefði orðið fyrir þeim áverka í árekstrinum sem verið gæti orsök núverandi einkenna hennar. Var ekki talið að því áliti hefði verið hnekkt með mati hinna dómkvöddu manna og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Hún krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.751.665 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júní 2002 til greiðsludags, en til vara 1.700.623 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli þá niður.

I.

Áfrýjandi var ökumaður bifreiðar sem lenti í hörðum árekstri aðfaranótt sunnudagsins 24. október 1999. Var hún tryggð ökumannstryggingu hjá stefnda samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Áfrýjandi leitaði til sérfræðings í bæklunarskurðlækningum 16. júlí 2001, tæpum 21 mánuði eftir áreksturinn, og kvartaði undan mjóbaksverkjum sem hún taldi að rekja mætti til hans. Hafði áfrýjandi þá alið barn þremur vikum fyrr. Aðilar óskuðu sameiginlega 18. janúar 2002 eftir mati tveggja lækna á afleiðingum slyssins. Í matsgerð læknanna 20. mars sama ár, sem nánari grein er gerð fyrir í héraðsdómi, var varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins metinn 7% og varanleg örorka einnig 7%. Matsmennirnir höfðu þó þann fyrirvara á að óvissa væri um orsakatengsl milli slyssins og bakeinkenna áfrýjanda. Tveimur árum síðar, 24. mars 2004, sendi áfrýjandi matsmönnum staðfestingu skólastjóra leikskóla, sem hún starfaði hjá er slysið varð, þess efnis að hún hafi farið heim úr vinnu um hádegi mánudaginn 25. október 1999 vegna verkja í baki og einnig verið frá vinnu daginn eftir af sömu orsökum Fylgdu bréfinu dagbókarfærslur leikskólastjórans 25. og 26. okóber 1999 varðandi veikindi áfrýjanda. Af því tilefni rituðu matslæknarnir áfrýjanda bréf 26. apríl 2004, þar sem fram kom að þeir teldu framangreind gögn styðja það að um orsakatengsl hafi verið að ræða milli slyssins og bakeinkenna áfrýjanda.

 Áfrýjandi höfðaði mál þetta 25. október 2004. Snýst ágreiningur aðila einkum um hvort orsakatengsl séu milli slyssins og þeirra einkenna sem áfrýjandi kennir frá baki, en stefndi heldur því einnig fram að krafa áfrýjanda sé fyrnd.

II.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms voru að beiðni áfrýjanda dómkvaddir tveir menn, prófessor í lögum og bæklunarskurðlæknir. Skyldu þeir leggja mat á nánar tilgreindar afleiðingar umferðarslyssins fyrir áfrýjanda. Hefur matsgerð þeirra 27. maí 2006 verið lögð fram í Hæstarétti. Í þeim kafla matsgerðarinnar sem fjallar um orsakatengsl milli slyssins og einkenna áfrýjanda er vitnað til lögregluskýrslu frá október 1999. Síðan segir að við áreksturinn hafi höggið á bíl áfrýjanda komið „á vinstra afturhorn bifreiðarinnar þannig að ætla má að fyrst og fremst verði um snúningskrafta að ræða en bifreiðin snýst hálfhring. Með því má ætla að á bol matsbeiðanda verði fyrst og fremst vindingur til hægri sem aftur geri einkenni hægra megin líklegri. Telja matsmenn þannig slysið 24. október 1999 vel hafa getað valdið einkennum þeim sem matsbeiðandi kvartar um frá mjóbaki og jafnvel hálsi. Ljóst er þó, að í daglegu lífi henda ýmis atvik og fólk viðhefur ýmsar athafnir sem einnig gætu verið mögulegir orsakavaldar. Af gögnum málsins og upplýsingum matsbeiðanda verður þó ekki séð að nein slík atvik hafi orðið og liggur því ekkert fyrir um að önnur atvik, svo sem grindarlos valdi einkennum þeim, sem hrjá matsbeiðanda. Matsmenn hafa því miðað niðurstöður sínar, sem settar eru fram að neðan, við að þær séu afleiðing umferðarslyssins 24. október 1999.“ Þeir telja síðan að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í tvo daga, hún hafi verið veik en ekki rúmliggjandi í þrjá daga og batahvörf hafi verið 24. nóvember 1999. Þá telja þeir eins og matslæknarnir varanlegan miska áfrýjanda sem og varanlega örorku hennar hæfilega metna 7%.

Héraðsdómur var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, sérfræðingi í fæðingarlækningum og sérfræðingi í bæklunarlækningum. Að mati dómsins voru þau sérfræðigögn er fyrir lágu í héraði ekki eindregin um að áfrýjandi hafi orðið fyrir þeim áverka í árekstrinum, sem verið gæti orsök núverandi einkenna hennar. Þessu áliti hefur ekki verið hnekkt með mati hinna dómkvöddu manna. Verður því að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kristbjargar Þ. Kolbeinsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 5. október s.l., hefur Kristbjörg Þ. Kolbeinsdóttir, kt. 190664-7599, nú til heimilis að Skessugili 6, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi með stefnu, útgefinni 19. október 2004 og birtri 25. s.m., á hendur Sjóvá-almennum tryggingum h.f., kt. 701288-1739, Kringlumýri 5, Reykjavík, en málið var þingfest þann 4. nóvember 2004.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða henni kr. 1.751.665, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 frá 21. júní 2002 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi, en með bréfi Dómsmálaráðuneytisins, dags. 8. desember 2003 var stefnanda veitt gjafsókn og gerir stefnandi kröfu um að málskostnaður verði dæmdur henni eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.  Þá er krafist að 24,5% virðisaukaskattur er leggist við dæmdan málskostnað, sbr. lög nr. 50, 1988.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað skv. málskostnaðarreikningi, en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Mál þetta höfðar stefnandi til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hún kveðst hafa orðið fyrir er hún lenti í umferðarslysi við gatnamót Drottningarbrautar og Austurbrúar á Akureyri þann 24. október 1999.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort orsakatengsl séu á milli nefnds umferðarslyss og þess líkamlega ástands sem stefnandi býr nú við, en einnig um það hvort kröfur stefnanda séu fyrndar.

I.

Í lögregluskýrslu, dagsettri 24. október 1999, er atvikum lýst á þann veg, að kl. 01.44 hafi lögreglunni á Akureyri verið tilkynnt um árekstur með bifreið stefnanda, JA-151, Toyota Corolla, sem ekið hafði af Austurbrú inn á Drottningarbraut gegnt biðskyldu til norðurs og bifreiðinni XT-545, Plymouth, sem ekið hafði suður Drottningarbraut og fram úr bifreiðinni MO-457, uns hún hafnaði á bifreið stefnanda.  Samkvæmt skýrslunni voru ákomur á bifreið stefnanda á miðri vinstri hlið og afturhluta.  Er skráð að tjón á bifreiðinni hafi verið mikið og að hún hafi verið óökufær eftir áreksturinn.  Í skýrslunni er greint frá því að ákomur hafi verið á vinstra framhorni bifreiðarinnar XT-545, en að tjón á henni hafi verið lítið.  Greint er frá því að farþegi í bifreið stefnanda hafi kvartað undan eymslum í höfði eftir áreksturinn og að hann hafi af þeim sökum verið fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA).  Í upplýsingaskýrslu lögreglu, sem dagsett er 26. s.m., er skráð að nefndur farþegi hafi kvartað um höfuðverk daginn eftir áreksturinn, en einnig um eymsli í baki og herðum.

II.

Samkvæmt stefnu og öðrum gögnum málsins var stefnandi, er atvik máls þessa gerðust, búsett ásamt 4 börnum sínum, 9, 14, 16 og 17 ára, í Eyjafjarðarsveit.  Starfaði hún í leikskólanum Krummakoti þar í sveit en vann einnig hlutastarf í Ferðanesti við Drottningarbraut á Akureyri.

Í stefnu er því haldið fram að fljótlega eftir umferðarslysið hafi stefnandi fundið til eymsla í baki, en ætlað að þau myndu hverfa af sjálfu sér og því ekki leitað til læknis.  Hún hafi mætt til vinnu í leikskólanum mánudaginn 25 október 1999, en hætt störfum um hádegisbilið vegna mikilla verkja í baki.  Hún hafi og verið frá vinnu þriðjudaginn 26. október s.á. af sömu ástæðu  Þessu til staðfestu vísar stefnandi til framlagðs bréfs leikskólastjóra Krummakots frá 22. mars 2004 og dagbókarfærslna sama aðila fyrir dagana 25. og 26. október 1999.  Staðhæfir stefnandi að allt frá þessum tíma hafi hún oft verið með verki í baki, sem hún hafi ekki haft fyrir slysið.  Hafi hún orðið ófrísk á árinu 2000 og eignast barn í júní árið 2001.  Á meðgöngunni hafi bakverkirnir ágerst.  Vegna bakverkjanna hafi hún á árinu 2001 leitað til heimilislæknis síns, Hilmis Jóhannssonar, heilsugæslulæknis, er hafi vísað henni til Guðna Arinbjarnar, bæklunarskurðlæknis.

Í málinu hafa verið lögð fram gögn frá nefndum læknum.

Í vottorði Hilmis Jóhannssonar, sem dagsett er 19. desember 2001 er rakin heilsufarssaga stefnanda, en í upphafsorðum er þess getið að stefnandi hafi lítið þurft að leita sér læknishjálpar í gegnum tíðina.  Greint er frá því að hún hafi leitað sér lækninga í júlímánuði 1987 vegna bakverkja er hafi leitt fram í kvið.  Um hafi verið að ræða þvagfærasýkingu og hafi stefnandi fengið meðferð við því.  Í júnímánuði 1988 hafi hún leitað lækninga vegna verkja í hægra hné við álag og kvartað undan smellum.  Hafi hún áður stundað langstökk en hætt því vegna greindra eymsla.  Hún hafi fengið bólgueyðandi meðferð og ekki kvartað undan hnémeiðslunum eftir það.  Í vottorðinu er frá því að í júnímánuði 1999 hafi stefnandi kvartað um höfuðverk í gagnauga báðum megin ásamt ljósfælni og ógleði, en án uppkasta.  Þá hafi hún verið aum við þreifingu temporalt.  Niðurlag vottorðs heilsugæslulæknisins er svohljóðandi:  „Það hefur verið talsvert álag á henni undanfarið, en neitar öllum depression einkennum.  Teknar voru ítarlegar blóðprufur sem voru allar eðlilegar nema járn var í hærra lagi.  Einnig hafa verið teknar ítarlegar gigtarprufur 3. desember 1998, sem voru neikvæðar.  [Stefnandi] er fimm barna móðir og fæddi síðast 25. júní s.l.  Annars hefur hún ekki leitað læknis nema vegna smákvilla þar til hún leitaði nú s.l. sumar vegna afleiðinga bílslyss í október 1999.  Undirritaður vísaði henni þá til Guðna Arinbjarnar, bæklunarlæknis, sem mun hafa skrifað ítarlegt vottorð eftir undangengna röntgenrannsókn og sneiðmyndatöku af hrygg.“

Í vottorði Guðna Arinbjarnar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, sem dagsett er 10. september 2001, er þess getið að lögmaður stefnanda hafi óskað eftir nákvæmu læknisvottorði vegna áverka, orsaka, meðferðar, svo og um horfur og núverandi ástand vegna afleiðinga slyss hinn 24. október 1999.  Í vottorði segir síðan:  „Farið hefur verið í gegnum gögn slysadeildar FSA.  Þar eru engar komur skráðar vegna slyssins, það eru engar skoðanir á sérfræðimóttöku FSA og samkvæmt gögnum frá heimilislækni eru engar komur á heilsugæslu Akureyrar vegna þessa slyss.  Til grundvallar liggur því skoðun og viðtal við sjúkling á stofu þann 16.07.01.  [Stefnandi] segir svo frá að í október 1999 hafi hún verið bílstjóri bifreiðar, ók inn á Drottningarbraut á Akureyri er annarri bifreið var ekið inn í hlið hennar.  Kveðst hafa verið í bílbelti og kveður bílinn hafa snúist heilhring.  Fékk ekki verki fyrr en einhverjum dögum eftir áverkann og segist ekki hafa leitað læknis eða fengið meðferð vegna þessa.  Sjúklingur kveðst alla tíð hafa verið hraust, ekki haft nein vandamál með bakverki.  Kveðst nú hafa verki í mjóbaki sem leiði niður í hægri mjöðm og niður í hægra læri, fót og tær.  Finnst verst ef hún situr lengi, einnig vont ef hún liggur lengi, á þá erfitt með að standa og fara á fætur.  Hefur ekki tekið lyf vegna þessa.  Sjúklingur ól barn 3 vikum fyrir þessa skoðun.  Var ekki með grindarlos á meðgöngu.  Panta röntgenmynd og sneiðmyndatöku.  Þessi rannsókn fer fram þann 01.08.01.  Röntgenmyndir af mjóbaki sýna mjög væga snúningsskekkju til vinstri, annars allt eðlilegt, sneiðmyndataka af L-3 til S:1, samkvæmt svari röntgenlækna, hvorki greinist brjósklos eða þrenging - eðlileg rannsókn.

Álit:  [Stefnandi] er með mjóbaksverki sem leiða í hægri ganglim.  Er ekki orsakað af brjósklosi, ekki ólíklegt að þessi einkenni geti byrjað eftir bílslys.  Afar líklegt að sjúklingur muni hafa þörf á sjúkraþjálfun og mögulega bólgueyðandi lyfjum til þess að bæta ástandið.  Gæti þó lagast af sjálfu sér er lengra líður frá barnsburði.“

Samkvæmt gögnum málsins óskuðu lögmenn stefnanda og stefnda eftir því í janúar 2002, að læknarnir Guðmundur Björnsson og Atli Þór Ólason létu í té mat á heilsufari stefnanda skv. lögum nr. 50, 1993 vegna umrædds bílslyss, og um það hvenær ekki væri að vænta frekari bata.  Af hálfu lögmanns stefnda var og sérstaklega farið fram á að læknarnir athuguðu hvort orsakatengsl væru á milli bílslyssins og kvartana stefnanda.

Matsgerð læknanna er dagsett 20. mars 2002, en matsskoðun hafði farið fram 25. febrúar s.á.

Í matsskýrslunni er rakin félags- og persónusaga stefnanda og m.a. áréttað að hún eigi 5 börn það yngsta 8 mánaða, að hún hafi unnið fullt starf á leikskóla frá vorinu 1998 þar til í aprílmánuði 2000, en að hún hafi þá flutt til Akureyrar og starfað um tíma í bakaríi en frá haustinu 2000 starfað sem dagmóðir og gætt að meðaltali tveggja barna.  Rakin er fyrri heilsufarssaga stefnanda, sbr. áður rakin vottorð heimilislæknis, og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum frá árinu 2001, en þess jafnframt getið að hún hafi farið í æðahnútaaðgerð á vinstri fæti í desembermánuði 2001.

Varðandi umferðarslys stefnanda þann 24. október 1999 er í matsskýrslunni vísað til áðurrakinnar lögregluskýrslu, en síðan segir m.a.:  ,,Um var að ræða töluvert högg og kveðst hún (stefnandi) fljótlega hafa farið að finna fyrir óþægindum í baki.  (Stefnandi) segir að u.þ.b. 3 dögum eftir slysið hafi hún fengið „sjokk“ vegna þess sem gerst hafði … kveðst ekki hafa misst úr vinnu vegna slyssins, en hún varð ófrísk og fæddi heilbrigt barn í júnímánuði 2001.  Á þeim tíma versnuðu óþægindi hennar í baki með leiðnióþægindum, sérstaklega hægra megin út í mjöðm … kveðst ekki hafa farið í sjúkraþjálfunarmeðferð, en hefur tekið verkjalyf af og til.  Hún segir ástand sitt búið að vera óbreytt lengi.“

Við matsskoðun er líðan stefnanda lýst þannig:  ,,(Stefnandi) segir að fyrir slysið hafi hún haft óþægindi frá stoðkerfi, sérstaklega við mikið álag.  Hafi það aðallega verið „vöðvabólga“.  Vegna afleiðinga slyssins hafi hún farið að finna fyrir bakverkjum sem hafi farið hríðversnandi með einkennum í mjóbaki og leiðnióþægindum út í hægri ganglim.  Þá hafi hún óþægindi í hálsi og herðum með þreytuverk í hálsi og þyngslum yfir höfði.  Hún kveðst eiga í erfiðleikum með að sitja og standa lengi og eftir rúmlegu þarf hún að „rúlla sér út úr rúminu“.  Óþægindin leiði stundum niður í hægri fót og sé akstur bifreiðar um langan veg erfiðastur.  Óþægindin leiði stundum niður í il með dofaverk og geti þá borið á helti.

Skoðun:  Um er að ræða rétthenta konu í meðalholdum.  Líkamsstaða er innan eðlilegra marka.  Við skoðun á hálsi eru hreyfingar eðlilegar, það eru ekki eymsli í hálsi og hreyfingar í öxlum eru einnig innan eðlilegra marka ásamt brjóstbaki.  Það eru væg þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í brjóstbaki.  Við skoðun á baki eru hreyfingar stirðar, það eru álagstengd óþægindi neðarlega í lendhrygg og við bolvindu fær hún óþægindi í mjóbak.  Mjaðmahreyfingar eru innan eðlilegra marka, SLR eru u.þ.b. 80° beggja vegna, SI-liðir gætu verið með óþægindi við álag hægra megin.  Það eru þreifieymsli yfir tractus ilotibalis hægra megin og jafnvel í kringum lærhnútu.  Taugaskoðun er innan eðlilegra marka.“

Niðurstöðukafli matsskýrslunnar er svohljóðandi:

„Matsmenn telja að nokkrum erfiðleikum sé bundið að fullyrða að orsakatengsl séu milli bílslyssins þann 24.10.1999 og núverandi einkenna ofanritaðrar.  Ljóst er að um töluverðan árekstur var að ræða og gæti hann einn sér hafa valdið töluverðum einkennum vegna hnykkáverka, en að sama skapi er ekki hægt að fullyrða að svo hefði orðið.  Fram kemur að ofanrituð leitaði ekki til læknis fyrr en 16.07.01.  Einkenni þau sem hún hefur í dag og hún rekur til umferðarslyssins gætu í sjálfu sér verið til komin án slysaatburðar og gætu t.d. verið orsökuð af ertingu í spjaldlið hægra megin.  Slík erting getur komið fram án þess að um slysaatburð sé að ræða og er t.d. allalgengt einkenni við grindarlos á meðgöngu.  Að þessu sögðu telja matsmenn sanngjarnt að leggja þurfi fram gögn um læknisheimsókn eða staðfestingu kvartana hennar á annan hátt í kjölfar umferðarslyssins til þess að hægt sé með vissu að telja skýr orsakatengsl milli bílslyssins og núverandi kvartana hennar.  Liggi þær upplýsingar fyrir telja matsmenn sanngjarnt að ætla að um orsakatengsl sé að ræða milli núverandi einkenna og bílslyssins.

Þá verður lagt til grundvallar eftirfarandi:  Ekki kemur fram í gögnum málsins að ofanrituð hafi verið frá vinnu tímabundið vegna afleiðinga umferðarslyssins.

Matsmenn telja að u.þ.b. 2 mánuðum eftir slysið hafi ekki verið að vænta frekari bata og telst hún hafa verið veik og batnandi á þeim tíma í skilningi skaðabótalaga, en ekki rúmliggjandi.

Við mat á varanlegum miska leggja matsmenn til grundvallar þá almennu líkamlegu færniskerðingu sem ofanrituð býr við vegna tognunaráverka í mjóbaki.  Óþægindi þessi hafa einnig í för með sér allnokkra skerðingu á almennum lífsgæðum hennar.

Við mat á varanlegri örorku leggja matsmenn til grundvallar að einkenni þessi geta valdið varanlegri skerðingu á getu hennar til tekjuöflunar þar sem þau takmarka starfsval hennar, álagsgetu og úthald.  Ofanrituð hefur grunnskólamenntun og takmarkaða starfsreynslu í störfum utan heimilis.“

Í lok matsskýrslunnar setja matsmennirnir fram eftirfarandi ályktanir:

„1.  Undirritaðir matsmenn telja að ekki sé útilokað að orsakatengsl séu til staðar milli bílslyssins og núverandi einkenna ofanritaðrar.  Um var að ræða allharðan árekstur.  Matið nú byggir á frásögn ofanritaðrar frá slysdegi fram að fyrstu læknisheimsókn þann 16.07.01. og áliti þess læknis sem fyrst sér hana eftir slysið þann 16.07.01.  Óvissunni um orsakasamhengi væri hægt að eyða með því að lögð yrðu fram læknisvottorð eða sambærileg gögn sem staðfestu kvartanir hennar tengdar umferðarslysinu á þeim tíma sem um er að ræða.  Telja matsmenn að slík gögn séu nauðsynleg til þess að sýnt sé fram á orsakatengsl með vissu.

2.  Sé gert ráð fyrir orsakatengslum telja matsmenn tímabært að leggja mat á varanlegt heilsutjón ofanritaðrar, sbr. umræðu að ofan.

3.  Tímabundið atvinnutjón telst ekki vera.

4.  Ofanrituð telst hafa verið veik og batnandi þar til ekki var að vænta frekari bata 2 mánuðum eftir slysið.  Á þeim tíma telst hún ekki hafa verið rúmliggjandi.  Stöðugleikapunktur telst vera 24.12.1999.

5.  Varanlegur miski telst hæfilega metinn 7%.

6.  Varanleg örorka telst vera 7%.

7.  Hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka telst vera 7%.

8.        Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja varðandi ofanritaða og hafa átt við hana viðtal og skoðað.  Þeir telja ekki að önnur slys eða sjúkdómar eigi þátt í því mati sem hér er lagt fram og eingöngu tekur til afleiðinga umferðarslyssins þann 24.10.1999 að gefnum ofangreindum forsendum.“

 

Samkvæmt gögnum málsins sendi lögmaður stefnanda stefnda þann 21. maí 2002 tillögu að bótauppgjöri, er voru byggðar á framan greindri matsskýrslu.  Af hálfu stefnda var bótaskyldu hafnað með tölvupósti þann 13. júní s.á. með vísan til þess að orsakatengsl milli bílslyssins og núverandi einkenna stefnanda væru ósönnuð.

Fyrir liggur að vitnið Anna Gunnbjörnsdóttir, leikskólastjóri Krummakots í Eyjafjarðarsveit, ritaði eftir þetta svofellt bréf þann 22.mars 2004:  Það staðfestist hér með að Kristbjörg Kolbeinsdóttir var starfsmaður á leikskólanum Krummakoti árið 1999.  Helgina 23. - 24. október lenti Kristbjörg í bílslysi sem leiddi til þess að hún þurfti að fara heim úr vinnunni um hádegi á mánudeginum 25. október vegna mikilla verkja í baki og mjóbaki.  Kristbjörg var einnig heima þriðjudaginn 26. október af sömu orsökum.  Með bréfi þessu fylgdi ljósrit úr dagbók frá 25. og 26. október þar sem eftirfarandi var handritað:  „25. október:  Kittý veik heim um hádegi, lenti í bílslysi, kvartaði um í mjóbaki og baki.“  Í dagbókarfærslu  þann 26. október er skráð:  „Kittý veik, illt í baki.“

Fyrir liggur að lögmaður stefnanda sendi nefndum matslæknum ofangreind gögn vitnisins Önnu Gunnbjörnsdóttur með bréfi dagsettu 24. mars 2004, en af því tilefni rituðu þeir eftirfarandi bréf, sem dagsett er 26. apríl 2004 :  „Matsmenn telja að miðað við eðli málsins og eðli framlagðra gagna styðji þau að um orsakatengsl sé að ræða milli slysaatburðarins þann 24.10.1999 og núverandi kvartana hennar.“

III.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi sé með ökumannstryggingu fyrir stefnanda, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, og að ekki sé deila um greiðsluskyldu stefnda á tjóni er hlotist hafi á líkama stefnanda vegna slyssins.  Á hinn bóginn sé ágreiningur um það hvort líkamstjón hafi hlotist af árekstrinum.  Hafi stefndi hafnað því að stefnandi hafi hlotið nokkurt líkamstjón í slysinu, þ.e. að engin orsakatengsl séu sönnuð á milli bílslyssins og núverandi einkenna stefnanda.  Af hálfu stefnanda er þessu mótmælt og telur hann sig hafa sannað orsakatengslin og byggi því kröfu sína á áðurröktu örorkumati.

Af hálfu stefnanda er til þess vísað að samkvæmt skýrslu lögreglu hafi árekstur sá sem stefnandi lenti í þann 24. október 1999 verið mjög harður.  Staðfest sé að stefnandi hafi þurft að fara heim úr vinnu 34 klst. eftir áreksturinn vegna mikilla verkja í baki og mjóbaki og hafi verið frá vinnu í 2 daga vegna verkja.  Hafi stefnandi enga slíka verki haft fyrir áreksturinn en því til staðfestingar er vísað til áður rakins vottorðs Hilmis Jóhannssonar, heilsugæslulæknis, frá 19. desember 2001, en þar sé vísað til þess að þeir verkir er hún hafði á árum áður séu alls ótengdir ástandi hennar eftir umrætt umferðarslys.

Af hálfu stefnanda er byggt á áliti matslækna, sbr. og viðbótarmati þeirra frá 26. apríl 2004, þar sem miðað sé við að öll framlögð gögn styðji að um orsakatengsl sé að ræða milli slysaatburðarins þann 24. október 1999 og núverandi kvartana hennar.  Af hálfu stefnanda er andmælt þeirri málsástæðu stefnda að bakeymsli hennar hafi orsakast af meðgöngu og grindarlosi eftir bílslysið.  Af hálfu stefnanda er vísað til þess að þrátt fyrir að verkir í baki hafi versnað við meðgönguna hafi það ástand lagast eftir barnsburð.  Meðgangan hafi á hinn bóginn leitt til þess að hún hafi frestað för sinni til læknis vegna bakeymslanna og sé það helsta skýringin á þeim drætti sem á varð, en hún hafi fyrst leitað til læknis 21 mánuði eftir slysið.  Af hálfu stefnanda er einnig á það bent að engin rannsókn á árekstrinum hafi farið fram af hálfu lögreglu eftir slysið, líkt og stefndi hafi í raun farið fram á sbr. svarbréf lögreglunnar á Akureyri, sem dags. sé 14. ágúst 2000.  Telur stefnandi að fullvíst megi telja að ef slík rannsókn hefði farið fram þá hefði það komið fram við skýrslutöku af hennar hálfu að hún hefði slasast við áreksturinn eins og farþegi bifreiðarinnar, en hann hafi verið fluttur á sjúkrahús af lögreglu.  Stefnandi telur fullsýnt að gögn málsins sýni fram á að orsakatengsl séu á milli greinds bílslyss og núverandi ástands hennar.  Hafi stefnandi því sannað tjón sitt og sé því stefndi skyldur samkvæmt ökumannstryggingu að bæta tjón hennar.

Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi því að krafa hennar sé fyrnd.  Er til þess vísað að matslæknar hafi metið svonefndan stöðugleikapunkt u.þ.b. 2 mánuðum eftir slysið, þ.e. á aðfangadag 1999.  Hafi stefnanda verið ómögulegt að afla nauðsynlegra gagna þá þegar og hafi henni fyrst verið unnt að gera það á árinu 2000.  Verði að játa stefnanda svigrúm til slíkrar gagnaöflunar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 281/1994 og nr. 276/2003.  Stefnandi hafi haft uppi kröfur sínar á hendur stefna í árslok 2002, og höfðað málið með stefnu útgefinni í október 2004, en þá hafi málið eigi verið fyrnt.

Varðandi útreikning bótakröfu vísar stefnandi til örorkumats læknanna Guðmundar Björnssonar og Atla Þórs Ólasonar, sbr. skaðabótalög nr. 50, 1993, en kröfuna sundurliðar hún nánar þannig:

1.1.     Þjáningar, skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993:

Samkvæmt örorkumati hafi stefnandi verið veik í 60 daga án þess að vera rúmliggjandi.  Krafa um þjáningabætur með uppfærðri lánskjaravísitölu sé því kr. 55.800, þ.e. (700*4.381/3.282=931-930*60=55.800).

1.2.     Miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993:

Samkvæmt örorkumati sé varanlegur miski 7%.  Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé grunnfjárhæð miska miðuð við aldur á tjónsdegi kr. 4.000.000, er skuli uppfærast eftir lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. sömu laga, þ.e. kr. 5.339.500, en 7% af þeirri fjárhæð sé kr. 373.765.

1.3.     Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga:

Varanleg örorka stefnanda er 7%, en þar sem stefnandi hafi ekki náð lágmarks viðmiðunarlaunum miðað við framlögð skattframtöl þriggja síðustu ára verði þau aldrei lægri en kr. 1.200.000, sbr. 7. gr. skaðabótalaganna.  Reikna beri lágmarkið upp til þess tíma er stöðugleika var náð, er var samkvæmt matinu í desember 1999.  Þá hafi viðmiðunarvísitala verið 3.817 stig.  Uppreiknuð séu viðmiðunarlaunin kr. 1.396.000.  Stefnandi hafi verið 35 ára og 187 dögum betur þegar stöðugleikapunkti var náð þann 24. desember 1999 skv. örorkumatinu.  Stuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé því miðaður við 35 ár að frádregnum mismun fyrir næstu ár og verði því 11,522.

Útreikningur samkvæmt 5. gr. skaðabótalaganna verði því 7%*1.396.000*11,52231=1.128.892.

Vextir.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að þjáningar, varanlegur miski og tímabundið atvinnutjón beri vexti frá því að tjón varð.  Bætur fyrir varanlega örorku beri vexti frá upphafsdegi metinnar örorku.  Vextirnir skuli nema 4,5% á ári, sbr. 16. gr. skaðabótalaganna.  Krafa um bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska séu kr. 429.565 og er gerð krafa um 4,5% vexti frá því að tjón varð 24. október 1999 fram að kröfugerð þann 21. maí 2002.  Það séu 2 ár og 210 dagar.  Vexti beri að leggja við höfuðstól á eins árs fresti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001.  Útreikningur sé því eftirfarandi:

24. október 1999 til 23. október 2000, 429.565*4,5%=19.330.

24. október 2000 til 23. október 2001, 448.895*4,5%=20.201.

24. október 2001 til 23. október 2002, 469.096*4,5%/365*210=12.145.

Vextir vegna þessa liðar kröfunnar séu því kr. 51.676.

Krafa um bætur fyrir varanlega örorku eru kr. 1.128.892.  Gerð er krafa um 4,5% vexti frá upphafsdegi metinnar örorku þann 24. desember 1999 fram að kröfugerð 21. maí 2002.  Það eru 2 ár og 149 dagar.  Vextir leggist við höfuðstól á eins árs fresti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001.

Útreikningurinn sé því eftirfarandi:

24. desember 1999 til 23. desember 2000, 1.128.892*4,5%=50.800.

24. desember 2000 til 23. desember 2001, 1.179.692*4,5%=53.086.

24. desember 2001 til 21. maí 2002, 1.232.778*4,5%/365*149=22.646.

Vextir vegna þessa liðar kröfunnar eru því kr. 126.532.

Samtals eru því vaxtaliðir kröfunnar kr. 178.208.

Ferðakostnaður.

Af hálfu stefnanda er krafist kostnaðar vegna ferða að fjárhæð kr. 15.000 með þeim rökum að hún hafi verið búsett í Eyjafirði, en að örorkumatið hafi farið fram í Reykjavík.  Við munnlegan flutning var gerð sú krafa til vara af hálfu stefnanda að þessi kostnaður félli undir málskostnað.

Heildarkrafa stefnanda samkvæmt ofangreindu er því kr. 1.751.665.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50, 1993 með síðari breytingum og umferðarlaga nr. 50, 1987, helst 92. gr.  Kröfur um vexti styður stefnandi við reglur III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001.  Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um varnarþing er vísað til 33. gr. sömu laga.  Um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50, 1988.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukrafa stefndu er annars vegar byggð á því að ósönnuð séu orsakatengsl milli árekstursins 24. október 1999 og núverandi líkamlegs ástands stefnanda og hins vegar á því að kröfur stefnanda séu fyrndar.

1.        Orsakatengsl ósönnuð.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ósannað sé að líkamlegt ástand stefnanda megi rekja til árekstursins þann 24. október 1999.  Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að líkamlegt ástand nú sé að rekja til árekstursins og hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á og sanna að orsakatengsl séu þarna á milli.  Rökstyður stefndi það í fyrsta lagi með því að stefnandi hafi ekki kvartað við lögreglu undan eymslum eftir greindan árekstur.  Í öðru lagi hafi stefnandi ekki leitað til læknis í kjölfar slyssins og hafi hann ekki gert það fyrr en tæpu einu ári og níu mánuðum síðar.  Þar sem svo langur tími hafi liðið sé útilokað að gera sér grein fyrir því hvort og þá að hvaða marki önnur slys, óhöpp, sjúkdómar, eða atburðir hafi orsakað þau mein sem hrjá stefnanda í dag.  Í þessu samhengi er af hálfu stefnda sérstaklega vísað til forsendna matsmanna í matsgerð þar sem segi m.a.:  „Einkenni þau sem [stefnandi] hefur í dag og hún rekur til umferðaslyssins, gætu í sjálfu sér verið tilkomin án slysaatburðar og gætu t.d. verið orsökuð af ertingu í spjaldlið hægra megin.  Slík erting getur komið fram án þess að um slysaatburð sé að ræða og er t.d. allalgengt einkenni við grindarlos á meðgöngu.“

Af hálfu stefnda er á það bent að stefnandi hafi eignast barn stuttu áður en hún leitaði fyrst til læknis vegna slyssins.  Samkvæmt frásögn stefnanda fyrir matsmönnum hafi óþægindi í baki á meðgöngunni versnað m.a. með leiðni óþægindum, sérstaklega hægra megin út í mjöðm.  Að þessu virtu telur stefndi að barnsburður stefnanda hafi haft áhrif á líkamlegt ástand hennar og e.t.v. valdið þeim meinum sem hrjá hana í dag.  Að auki telur stefndi óljóst hvort og þá hvaða áhrif sjúkdómar kunni að hafa orsakað mein stefnanda, en hún hafi á árunum 1997 leitað til læknis vegna bakverkja sem hafi leitt fram í kvið og á árinu 1998 hafi hún gengist undir ítarlegt gigtarpróf.

Í þriðja lagi er af hálfu stefnda harðlega mótmælt sönnunargildi yfirlýsingar og dagbókarfærslu vitnisins Önnu Gunnbjörnsdóttur leikskólastjóra frá 22. mars 2004.  Verði fyrst að hafa í huga að gögn þessi séu skrifuð af yfirmanni stefnanda og verði að meta sönnunargildi þessa skjals og vitnisburðar vitnisins fyrir dómi í því ljósi, sbr. 59. gr. og 3. mgr. 72. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Á það er bent að lítið mál sé að færa dagbækur eftir á og bæta við texta og hafi það a.m.k. verið gert með færslu á ártali efst á dagbókarblaðinu, en að auki verði ráðið að átt hafi verið við textann sem skráður sé undir 25. október.  Loks bendir stefndi á að engin gögn hafi verið lögð fram er styðji það er fram kemur á nefndu dskj., þvert á móti hafi stefnandi skýrt matsmönnunum sjálf frá því að hún hafi ekki misst úr vinnu vegna slyssins.

Í fjórða lagi byggir stefndi á því að orsakatengsl séu ósönnuð jafnvel þótt dómurinn telji sannað að stefnandi hafi kvartað undan verkjum fljótlega eftir slysið.  Því til stuðnings er bent á að frá fyrstu kvörtun til fyrstu læknisheimsóknar hafi liðið tæpt ár og níu mánuðir.  Þegar svo langur tími líði án nokkurra kvartana stefnanda í millitíðinni sé alls ekki hægt að slá því föstu að slysið hafi haft varanlegar afleiðingar á heilsu hennar.  Ekki sé útilokað að aðrir atburðir kunni að hafa orsakað mein stefnanda líkt og áður hafi verið rakið.  Stefndi bendir að lokum á að framlagt bréf matsmanna frá 26. apríl 2004 verði ekki skilið svo að þeir telji afdráttarlaust að orsakatengsl séu fyrir hendi heldur einungis að gögn nefnds vitnis Önnu Gunnbjörnsdóttur styðji þá niðurstöðu.

Að öllu framangreindu virtu telur stefndi með öllu ósannað að núverandi mein stefnanda sé að rekja til árekstursins sem hún lenti í þann 24. október 1999.

2.        Kröfur fyrndar.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 sé það megin regla að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Hafi 99. gr. verið skýrð svo að fyrningarfrestur byrji að líða þegar unnt hafi verið að setja fram fjárkröfu en ekki þegar fjárkrafa liggi fyrir.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi haft vitneskju um tilvist kröfu sinnar og átt þess kost að leita fullnustu hennar á stöðuleikapunkti 24. desember 1999, sbr. niðurstöðu matsmanna í matsgerð.  Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi fyrningarfrestur kröfunnar byrjað að líða í árslok í 1999 og sé krafan því fyrnd frá lokum árs 2003.

Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun bóta á neðangreindum atriðum.

Hann mótmælir því að krafa stefnanda um þjáningabætur verði tekin til greina.  Því til stuðnings er bent á að stefnandi hafi ekki verið óvinnufær vegna árekstursins, sbr. framburð hennar fyrir matsmönnum.  Þar sem stefnandi hafi ekki verið frá störfum vegna slyssins geti hún ekki talist veik af völdum þess í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Beri því að hafna kröfu stefnanda um þjáningabætur.  Stefndi mótmælir því að krafa stefnanda um ferðakostnað verði tekin til greina.  Sú krafa sé með öllu ósönnuð og engin gögn verið lögð fram henni til stuðnings.

Af hálfu stefnda er byggt á því að vextir eru til féllu 4 árum eða fyrr, fyrir stefnubirtingardag séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.  Beri því að hafna kröfu stefnanda um nefnda vexti.  Að lokum er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu en auk þess voru teknar vitnaskýrslur af matslæknunum Atla Þór Ólasyni og Guðmundi Björnssyni og af fyrrverandi samstarfsmönnum stefnanda á leikskólanum Krummakoti, Helgu Sigríði Árnadóttur og Önnu Gunnbjörnsdóttur leikskólastjóra.

Stefnandi, Kristbjörg Þ. Kolbeinsdóttir, bar fyrir dómi að á árekstursstað aðfaranótt sunnudagsins 24. október 1999 hafi hún verið í „hálfgerðu sjokki“ og í raun fyrst farið að finna fyrir líkamlegum eymslum tveimur til þremur dögum eftir slysið.  Hún hafi því farið til vinnu sinnar í leikskólanum Krummakoti mánudaginn 25. október, en hætt störfum um hádegisbilið „bæði vegna þess að ég var í sjokki og vegna bakverkjanna“, og einnig verið frá vinnu þriðjudaginn 26. október af sömu ástæðu.  Vegna þessa hafi hún haft símasamband við heimilislækni sinn, Hilmi Jóhannesson, en ekki notið liðsinnis hans, þ.á.m. lyfjagjafar.  Eftir þetta kvaðst hún í raun aldrei hafa misst úr vinnu þrátt fyrir viðvarandi bakverki eftir slysið.

Stefnandi kvaðst alla tíð hafa verið heilsuhraust fyrir utan viðvarandi höfuðverk um árabil, en af þeim sökum kvaðst hún hafa leitað til lækna.  Hún kannaðist hins vegar ekki við að hafa þjáðst af verkjum í stoðkerfi og andmælti að því leyti skýrslu matslækna.  Fyrir dómi hafði stefnandi orð á því að hún hefði e.t.v. lítt skeytt um nefndan bakverk og vísaði til þess að í febrúarmánuði 2000 hefði hún orðið vanfær, en misst það barn í fyrirburafæðingu í júlímánuði það ár.  Hún kvaðst á ný hafa orðið vanfær í septembermánuði sama ár og átt barn sitt í júnímánuði 2001.  Á meðgöngunni kvaðst hún ekki hafa verið með grindarlos, en staðhæfði að bakverkir hennar hefðu versnað við upphaf meðgöngu en síðan verið mismiklir frá degi til dags.  Vegna bakverkjanna og álags við afgreiðslustörf í Ferðanesti og síðar í bakaríi kvaðst hún hafa skipt um starfsvettvang og eftir það að mestu starfað sem dagmóðir.  Hún kvaðst ekki hafa haft orð á bakverkjunum við mæðraskoðun og staðfesti að hún hefði fyrst leitað sér læknisaðstoðar vegna verkjanna í júlímánuði 2001.

Vitnið Anna Gunnbjörnsdóttir, leikskólastjóri, bar fyrir dómi að stefnandi hefði verið fjarverandi dagana 20. og 21. október 1999 vegna umgangspestar, en mætt að öðru leyti mjög vel til vinnu.  Vitnið kvaðst minnast þess að morgni 25. október nefnt ár hafi stefnandi mætt til vinnu að morgni, en farið heim um hádegið „því að henni var bara greinilega illt af völdum bílslyss“.  Vitnið staðfesti áður rakin gögn, þ.á.m. bréf dagsett 22. mars 2004 og ljósrit úr dagbók vegna ársins 1999.  Kvaðst hún hafa skráð slíkar athugasemdir í dagbókina af öryggisástæðum vegna starfsins í leikskólanum.  Aðspurð staðhæfði vitnið að starfið í leikskólanaum hefði að öllu jöfnu verið líkamlega erfitt og vísaði m.a. til þess að hún hefði veitt því eftirtekt fyrstu dagana eftir að stefnandi mætti að nýju til vinnu í októbermánuði 1999 hafi hún átti erfitt með að beygja sig.

Vitnið Helga Sigríður Árnadóttir kvaðst hafa verið samstarfsmaður stefnanda í leikskólanum Krummakoti haustið 1999.  Hún kvaðst hafa farið á heimili stefnanda 25. eða 26. október nefnt ár og þá heyrt frásögn hennar af umferðarslysinu.  Ástandi stefnanda lýsti vitnið nánar þannig:  „Hún var frekar aum og öll lurkum lamin ... hún var ábyggilega bara eitthvað marin eða tognuð, en hún vildi nú gera lítið úr þessu, hún var ekki vön að kvarta mikið, en hún var ansi illa haldin og hafði orð á því að hún þyrfti að fara til læknis.“

Matslæknarnir, Atli Þór Ólason og Guðmundur Björnsson, komu fyrir dóm og staðfestu áður rakta matsskýrslu.

Atli Þór Ólason bar fyrir dómi að við gerð skýrslunnar hafi verið óvissa um orsakasamband milli bílslyssins og ástands stefnanda.  Vísaði vitnið til þess að helst hefði skort á að einhver þriðji aðili staðfesti að einhver einkenni hafi verið til staðar hjá stefnanda eftir slysið.  Vitnið staðfesti að eftir gerð matsskýrslunnar hefðu upplýsingar um heilsufarsástand stefnanda haustið 1999 borist frá yfirmanni hennar á leikskóla.  Var það álit vitnisins, þrátt fyrir að nefnd gögn væru ekki frá lækni og ekki jafngild sem slík, væru þau til styrktar því að orsakasamband væri millum einkenna stefnanda og umrædds bílslyss, a.m.k. væru mjög sterkar líkur fyrir því.  Vitnið vísaði í því sambandi einnig til þess að við matsskoðun hafi stefnandi verið með einkenni í mjóbaki, en aðeins að litlu leyti haft einkenni frá spjaldlið.  Lét vitnið það álit í ljós að einkenni frá spjaldliðum gæti komið til án slyss, t.d. vegna meðgöngu.

Guðmundur Björnsson bar fyrir dómi að sá slinkur sem stefnandi varð fyrir í árekstrinum 24. október 1999 hefði getað valdið tognunaráverka í hryggsúlu hennar.  Slíkur áverki hafi hins vegar ekki verið staðreyndur af lækni í kjölfar slyssins.  Eftir gerð matsskýrslunnar hafi gögn er bárust frá yfirmanni stefnanda hins vegar styrkt orsakasamhengið millum einkenna stefnanda og umferðaslyssins, „þó að það sé ekki hægt að fullyrða neitt um það ... að þau einkenni séu vegna álags á meðgöngu eða eftirstöðvar þessa slyss“.

V.

Líkt og hér að framan hefur verið rakið lenti stefnandi í árekstri aðfaranótt 24. október 1999.  Er ágreiningur um það hvort að orsakatengsl séu á milli slyssins og núverandi einkenna stefnanda.  Reisir stefnandi kröfur sína á ökumannstryggingu, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, og á áliti matslækna.

Atvikum máls er að nokkru lýst í lögregluskýrslu.  Er þar m.a. getið um lítils háttar áverka er farþegi í bifreið stefnanda hlaut og um tjón á þeim bifreiðum er í hlut áttu.  Ágreiningslaust er að stefnandi kvartaði ekki um eymsli á slysavettvangi.

Af framburði stefnanda fyrir dómi verður ráðið að hún hafi í fyrstu ekki fundið fyrir sérstökum eymslum, en að verkir, einkum í mjóbaki, hafi komið til fljótlega og hún af þeim sökum þurft að hverfa úr þáverandi vinnu í leikskólanum Krummakoti í Eyjafjarðarsveit, um hádegi mánudaginn 25. október.  Vegna þessa hafi hún og verið fjarverandi þriðjudaginn 26. október.  Hefur stefnandi staðhæft að vegna slyssins og afleiðinga þess hafi hún haft símasamband við heimilislækni sinn, en ekki fengið úrlausn sinna mála og álitið gagnslaust að leita til hans á ný.  Af framlögðu læknisvottorði heimilislæknisins dagsettu 19. desember 2001 er ekki vikið að þessu og verður ráðið að stefnandi hafi fyrst leitað til hans þá um sumarið vegna afleiðinga bílslyssins.  Í vottorðinu er þannig ekki vikið að heilsufarsástandi stefnanda haustið 1999 og liggja því í raun ekki fyrir í málinu samtíma læknisfræðileg gögn sem styðja frásögn stefnanda að þessu leyti.  Frásögn stefnanda hefur á hinn bóginn stoð í vætti og framlögðum gögnum vitnisins Önnu Gunnbjörnsdóttur leikskólastjóra og vitnisins Helgu Sigríðar Árnadóttur.  Að áliti dómsins eru skýrslur þeirra trúverðugar.  Verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna bakeymsla í einn og hálfan dag og að það hafi verið afleiðing greinds umferðarslyss.

Óumdeilt er að fyrir utan ofangreinda fjarveru úr vinnu haustið 1999 stundaði stefnandi starf sitt á ólíkum vinnustöðum næstu misserin án sérstaka veikindaforfalla, þ.á.m. í áðurgreindum leikskóla og við afgreiðslustörf í verslun og bakaríi.  Samkvæmt frásögn stefnanda varð hún fyrir líkamlegu álagi við afgreiðslustörfin og skipti hún um starfsvettvang af þeim sökum.  Samkvæmt vætti vitnisins Önnu Gunnbjörnsdóttur leikskólastjóra urðu starfsmenn hennar fyrir talsverðu líkamlegu álagi við vinnu sína í leikskólanum.

Er atvik máls þessa gerðust var stefnandi 35 ára og fjögurra barna móðir.  Samkvæmt frásögn stefnanda fyrir dómi varð hún vanfær í febrúarmánuði 2000, sem endaði með fyrirburafæðingu í 26. viku, í byrjun júlímánaðar 2000.  Upplýst er að stefnandi varð á ný vanfær í septembermánuði 2000 og fæddi fullburða barn þann 26. júní 2001.  Samkvæmt frásögn stefnanda var meðgangan eðlileg fyrir utan það að bakverkir ágerðust á því tímabili.  Að eigin sögn lýsti stefnandi aldrei bakverkjum sínum við mæðraeftirlit.

Samkvæmt framansögðu er óumdeilt að stefnandi leitaði fyrst læknismeðferðar vegna mjóbaksverkja þremur vikum eftir barnsburð, þann 16. júlí 2001, þ.e. um einu ári og níu mánuðum eftir umferðarslysið 24. október 1999.

Samkvæmt læknisvottorði Guðna Arinbjarnar bæklunarskurðlæknis fór stefnandi m.a. í röntgenrannsókn í júlímánuði 2001 og reyndust þær eðlilegar, en í vottorðinu er eiginlegri líkamsskoðun ekki lýst.  Verður ráðið af ályktun sérfræðingsins, að einkenni stefnanda geti hafa byrjað eftir bílslys, sé byggð á frásögn stefnanda um verki í mjóbaki, með leiðni niður í hægri mjöðm og hægra læri, fót og tær.  Af matsskýrslu og vitnisburði matslækna verður ráðið að hið sama hafi ráðið niðurstöðu þeirra, og að hún hafi styrkst við síðar framlögð gögn frá fyrrverandi yfirmanni stefnanda, án þess þó að þau tækju af öll tvímæli.

Að öllu framangreindu virtu lítur dómurinn svo á að stefnandi hafi að líkindum verið með mjúkvefsáverka eftir margnefnt umferðarslys, en að þeir áverkar hafi gengið til baka á tiltölulega skömmum tíma.

Það er og álit sérfróðra meðdómsmanna að þau einkenni sem stefnandi lýsti hjá bæklunarskurðlækni í júlímánuði 2001 geti komið heim og saman við álagseinkenni á grind og bak vegna meðgöngu.  Í raun séu slík einkenni algeng við þær aðstæður.  Að áliti meðdómsmanna staðfestir lýsing matslækna við skoðun stefnanda í febrúarmánuði 2002 slíka greiningu enn frekar.

Að áliti dómsins eru framanrakin sérfræðigögn ekki eindregin um að stefnandi hafi orðið fyrir þeim áverka í árekstrinum sem verið geti orsök að núverandi einkennum hennar.

Þegar þetta er virt ásamt öðrum gögnum málsins er það niðurstaða dómsins að viðundandi sönnun liggi ekki fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stefnda beri að bæta vegna umferðarslyssins 24. október 1999.

Niðurstaða dómsins er því sú að stefndi skuli sýknaður af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. laun lögmanns hennar Þorsteins Hjaltasonar hdl., kr. 560.250 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Við uppkvaðningu dóms þessa var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, sem dómsformaður, Karl Ólafsson sérfræðingur í fæðingarlækningum og Þorvaldur Ingvarsson sérfræðingur í bæklunarlækningum

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristbjargar Þ. Kolbeinsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknakostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. laun lögmanns hennar, Þorsteins Hjaltasonar hdl., kr. 560.250 að meðtöldum virðisaukaskatti.