Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/2013
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2013. |
|
Nr. 462/2013. |
K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn Barnaverndarnefnd A (Jóhann H. Hafstein hrl.) |
Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn
Barnaverndarnefnd A krafðist þess að K yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Með vísan til álits sérfræðinga og annarra gagna málsins var talið of áhættusamt og óvarlegt að fela K ábyrgð á uppeldi og velferð dóttur sinnar þar sem mikil hætta þótti vera á því að þeim stöðugleika sem barnið byggi við yrði raskað. Þótti sýnt að K gæti ekki farið með forsjá dóttur sinnar og sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart henni. Brýna nauðsyn þótti bera til þess að skapa barninu til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem það þyrfti á að halda og ætti rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. mgr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með hagsmuni barnsins að leiðarljósi taldi héraðsdómur að skilyrði a- og d-liða 29. gr. laganna væru uppfyllt til að svipta K forsjá stúlkunnar, enda væri ljóst að önnur lagaúrræði hefðu verið reynd án árangurs. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu. Í dómi hans var tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skyldi í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla mætti að barni væru fyrir bestu og skyldu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá var vísað til þess að í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013, væri kveðið á um að það sem barni væri fyrir bestu skyldi ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera og dómstólar gerðu ráðstafanir er vörðuðu börn.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2013. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal í barnaverndarstarfi beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Jafnframt er í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögtekinn var með 2. gr. laga nr. 19/2013, kveðið á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera og dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður úrskurður stefnda 15. október 2012 um umgengni dóttur áfrýjanda, B, við hana. Samkvæmt úrskurðarorði skal umgengni barnsins við móður sína, áfrýjanda, vera aðra hverja helgi frá klukkan 19 á föstudegi til klukkan 16 á sunnudegi. Skal umgengnin fara fram á heimili G, móður áfrýjanda og ömmu barnsins. Úrskurðurinn er að þessu leyti í samræmi við samning áfrýjanda og stefnda um umgengnina frá 27. apríl sama ár. Við málflutning hér fyrir dómi kom fram að þessi tilhögun á umgengni hafi reynst vel, auk þess sem upplýst var að B hitti áfrýjanda mun oftar en aðra hverja helgi. Af gögnum málsins verður ráðið að tengsl milli mæðgnanna séu mjög náin og sterk. Haldi áfrýjandi sig frá vímuefnum er það barninu fyrir bestu að sú umgengni, sem ákveðin hefur verið, verði áfram í sama horfi.
Að virtu því sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2013.
I.
Mál þetta, sem höfðað er með áritun lögmanns stefndu á stefnu 28. september 2012, var dómtekið að aflokinni aðalmeðferð 18. júní 2013.
Stefnandi er Barnaverndarnefnd A, [...] í A.
Stefnda er K, [...] í [...].
Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá yfir barninu B, kt. [...]. Jafnframt er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður hver sem úrslit málsins verða.
Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda um að hún verði svipt forsjá barnsins. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins ekki væri um gjafsóknarmál að ræða, að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Þá er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
II.
Stefnandi kveður mál B, dóttur stefndu, fyrst hafa komið inn á borð stefnanda í september 2006 þegar tilkynning hafi borist frá lækni vegna vanrækslu stefndu á umsjón og eftirliti með dóttur sinni. Stefnda hafi þá reynt að fá verkjalyf leyst út í apóteki með því að láta dóttur sína ljúga til um eftirnafn.
Á árinu 2007 hafi stefnanda borist þrjár tilkynningar vegna B. Sú fyrsta hafi borist frá leikskólanum [...] þar sem fram hafi komið að stefnda hafi verið undir áhrifum lyfja þegar hún sótti B á leikskólann. Einnig hafi starfsfólk leikskólans lýst áhyggjum sínum af því að B hafi hvorki verið böðuð né henni greitt í heila viku. Í viðtali 3. apríl 2007 hafi stefnda greint frá því að hún stundaði AA-fundi og væri í hópmeðferð hjá SÁÁ í Reykjavík. Í meðferðaráætlun sem gerð hafi verið í sama mánuði hafi stefnda samþykkt að stunda áfram AA-fundi og hópmeðferð auk þess að vera í reglulegu sambandi við geðlækni. Síðar sama ár hafi borist önnur tilkynning frá leikskólanum af sama tilefni og í framhaldi af henni hafi starfsfólk á vegum stefnanda farið í vitjun til stefndu. Hún hafi ekki virst vera undir áhrifum lyfja en verið bólgin í kringum augun og hafi stefnda sagt það skýrast af því að hún væri með ofnæmi. Þriðja tilkynningin þetta árið hafi borist frá ónafngreindum aðila þar sem fram hafi komið að stefnda væri að svíkja út lyf á margar kennitölur og hafi þar verið lýst verulegum áhyggjum af B vegna lyfjaneyslu stefndu. Stefnda hafi þvertekið fyrir að vera í neyslu og ekki sagst svíkja út lyf.
Hinn 22. janúar 2008 hafi verið gerð áætlun um meðferð máls þar sem stefnda hafi samþykkt að stunda AA-fundi og vera í reglulegu sambandi við geðlækni. Hinn 27. maí 2008 hafi stefnanda borist tilkynning frá Læknavakt [...] þar sem lýst hafi verið áhyggjum af lyfjanotkun stefndu sem þá hafi verið með B hjá sér. Þá hafi komið í ljós að stefnda hafi verið að taka inn 100 mg af lyfinu Nobligan fimm sinnum á dag og hafi læknir talið að stefnda gæti ekki verið með ráði og rænu tæki hún svo stóra skammta af því lyfi. Stefnda hafi tjáð lækni að hún ætlaði í meðferð á næstu 2-3 vikum. Í þessari tilkynningu hafi einnig komið fram að stefnda hefði verið kærð fyrir að leysa út lyfseðil sem ekki var á hennar nafni. Í viðtali við félagsráðgjafa í byrjun júlí sama ár hafi komið fram að B gengi vel í leikskólanum og að þær mæðgur byggju nú hjá móður stefndu. Stefnda hafi sagst hafa áhuga á því að flytja út frá móður sinni og fá sér eigin íbúð. Hún hafi einnig lýst áhuga á að tengjast [...], sem sé geðræktarmiðstöð á [...]. Ákveðið hafi verið að félagsráðgjafi myndi aðstoða stefndu við það og einnig hafi stefnda sagst ætla að stunda AA-fundi reglulega og vera í sambandi við geðlækni.
Um miðjan apríl 2009 hafi stefnanda borist tilkynning þar sem lýst hafi verið áhyggjum af því að stefnda væri flutt með B út frá móður sinni og sæi því alfarið um uppeldi dóttur sinnar. Tilkynnandi hafi talið þörf á eftirliti með uppeldi B og lýst áhyggjum af því að stefnda væri að falsa lyfseðla og að stela. Einnig hafi tilkynnandi sagst vita til þess að stefnda hefði kennt dóttur sinni að stela. Í framhaldi af tilkynningunni hafi stefnda farið í viðtal hjá félagsráðgjafa þar sem samþykkt hafi verið áætlun um könnun máls. Í upplýsingum frá leikskóla B í júlí s.á. hafi komið fram að umhirðu B hefði hrakað nýliðið vor eftir að þær mægður fluttu í eigin húsnæði. Einnig hafi þar komið fram að B kæmi oft illa til fara í leikskólann, óhrein og ógreidd, auk þess sem hún væri farin að mæta seinna í leikskólann og oft ekki búin að borða. B hafi sagst mæta of seint þar sem hún kæmi móður sinni ekki á fætur því hún svæfi svo fast. Starfsfólk leikskólans hafi þótt B vera varkár þegar heimilisaðstæður hennar voru ræddar og hafi B sem minnst viljað tala um aðstæðurnar heima fyrir. Starfsfólk leikskólans hafi talið mikilvægt að fylgst yrði með högum þeirra mæðgna. Í viðtali við stefndu á þessum tíma hafi hún sagst sækja AA-fundi til að halda sér edrú. Stefnda hafi einnig sagst gera sér grein fyrir því hvaða áhrif stelsýki hennar hefði á B og sagst vilja takast á við hana. Í lok ágúst hafi könnun máls lokið og hafi niðurstaðan verið sú að stefnda hafi hugsað að mörgu leyti vel um B en þyrfti samt sem áður á stuðningi að halda í uppeldishlutverki sínu og til að halda sér frá neyslu.
Í áætlun um meðferð máls sem gerð hafi verið í byrjun september 2009 hafi stefnda samþykkt að fara í sálfræðiviðtöl, vera í sambandi við geðlækni eftir þörfum og sækja AA-fundi. Áður en stefnda mætti til að skrifa undir áætlunina hafi borist tilkynning frá lækni á slysa- og bráðadeild Landspítala þangað sem stefnda hafði verið flutt vegna gruns um misnotkun lyfja. Hafði B komið að henni og látið ömmu sína vita. Í viðtali við félagsráðgjafa hafi stefnda upplýst að hún hefði búið sér til smjörsýru eftir upplýsingum úr Morgunblaðinu í þeim tilgangi að komast í vímu. Einnig hafi stefnda greint frá því að hún hefði verið að misnota lyfin Tafil og Tramol sem væru sterk verkjalyf og róandi lyf. Stefnda hafi sagst finna til sektarkenndar, sýnt eftirsjá og viðurkennt að hún hefði sýnt algjört dómgreindarleysi. Stefnda hafi ekki viljað leggjast inn til meðferðar og sagst vilja fara til læknis á [...] ásamt móður sinni og hefja niðurtröppunarferli á lyfjunum. Hún hafi sagst vilja hætta að taka öll lyf að lyfinu Serol undanskildu en það lyf tæki hún við geðhvarfasýki. Stefnda hafi sagt að móðir hennar yrði með lyfin í sinni umsjá auk þess sem hún ætlaði að sækja AA-fundi, sem hún hefði ekki verið að gera og fá sér trúnaðarmann. Stefnda hafi einnig samþykkt að fá tilsjónarmann inn á heimilið til að styðja og styrkja hana sem einstakling og móður.
Í sama mánuði eða 26. september 2009 hafi borist tilkynning í gegnum bakvakt barnaverndarnefndar frá hjúkrunarfræðingi á slysa- og bráðadeild Landspítala um að stefnda hefði komið á slysadeild með skerta meðvitund. Þar hafi komið fram að stefnda hefði ítrekað komið inná slysadeild vegna lyfjainntöku og meðvitundarleysis. Um hefði verið að ræða þriðja skiptið sem B hefði komið að móður sinni meðvitundarlausri og í annað sinn á tveimur vikum. Í kjölfarið hafi B farið til móðurfjölskyldu sinnar. Stefnda hafi talið ástæðu tilkynningarinnar vera þá að hún hefði fengið flog vegna fráhvarfs af niðurtröppunarmeðferðinni sem hún væri í. Einnig hafi stefnda sagst hafa gert öryggisáætlun fyrir B fengi hún flog aftur og gæti hún leitað til nágranna síns sem væri sjúkraliði auk þess sem móðuramma hennar fylgdist með heimilinu og kæmi til þeirra þrisvar á dag. Haft hafi verið samband við yfirlækni á slysa- og bráðadeild Landspítala sem greint hafi frá því að stefnda hefði komið inn nokkrum dögum áður vegna ofskömmtunar lyfja. Þá hafi þótt sýnt að ekki væri hægt að tryggja öryggi B í umsjá stefndu þar sem hún væri að misnota lyf og hefði í tvígang síðust tvær vikur fengið krampa og misst meðvitund vegna þess. Þá hafi það einnig verið mat félagsráðgjafa að sex ára gömul stúlka ætti ekki að þurfa að bera slíka ábyrgð á móður sinni líkt og B gerði. Auk framangreinds hafi lyfjafræðingur haft samband við lækni á [...] þar sem hann hafi talið að átt hefði verið við lyfseðil sem stefnda var að reyna að leysa út með því að eyða út dagamerkingum og fjölda úttekta til þess að fá stærri skammt. Stefnda hafi neitað þessu og sagt lyfseðilinn hafa blotnað. Þegar rætt hafi verið einslega við stefndu hafi hún játað að hafa farið til læknis 25. september 2009 til að fá frekari lyf. Í lok september hafi einnig borist þrjú læknabréf frá Landspítala þar sem fram hafi komið að stefnda hefði fengið krampaköst, væri að taka inn töluvert magn af Tramadol og Tafil auk þess sem hún hefði reynt að komast í vímu af smjörsýru.
Á þessum tíma hefði stefnda verið afar ósátt við vinnslu málsins og sagst vera búin að ráða sér lögmann. Stefnda hafi neitað að skrifa undir yfirlýsingu samkvæmt 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um samþykki til vistunar B utan heimilis. Hún hafi ekki heldur samþykkt vistun fram að meðferð en þó fallist á að B yrði hjá systur sinni, C og D eiginmanni hennar, á meðan hún færi í meðferð. Í ljósi þess að ekki hafi náðst samkomulag við stefndu hafi B verið neyðarvistuð á grundvelli 31. gr. laga nr. 80/2002 hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar.
Í byrjun október 2009 hafi aftur borist bréf frá lækni hjá [...]. Þar hafi komið fram að stefnda væri hætt í niðurtröppun lyfja og hefði aftur hafið neyslu á Tramol og Tafil. Einnig hafi komið fram að hún hefði myndað mikið þol og vaxandi fíkn í umrædd lyf og tæki of stóra skammta af þeim. Enn fremur hafi komið fram að hún hefði reynt að breyta útgefnum lyfseðlum. Læknir hafi mælt með langtímameðferð sem allra fyrst og lýst áhyggjum sínum af uppeldisaðstæðum dóttur hennar. Mál B hafi verið lagt fyrir fund stefnanda 12. október 2009 og í greinargerð félagsráðgjafa hafi verið lagt til að B yrði vistuð hjá móðursystur sinni meðan stefnda væri í meðferð. Þá var lagt til að þegar stefnda færi í framhaldinu í meðferð á dagdeild á [...] færi B aftur heim en eftirlit yrði haft með heimilinu. Stefnda hafi samþykkt þær tillögur, en auk þess hafi nefndin falið félagsráðgjafa að ræða við stefndu um að B færi til stuðningsfjölskyldu tvisvar í mánuði. Einnig hafi verið gerð meðferðaráætlun 14. október sama ár þar sem stefnda hafi samþykkt tilsjón inn á heimilið einu sinni á dag, fimm daga vikunnar, og skoðað yrði hvort B færi til stuðningsfjölskyldu tvisvar í mánuði. Þá hafi stefnda samþykkt að hætta misnotkun allra lyfja og stunda AA-fundi a.m.k. tvisvar í viku. Meðferðaráætlunin hafi verið endurnýjuð 3. mars 2010 og markmiðið hafi verið að halda áfram stuðningi við stefndu. Hinn 15. mars sama ár hafi borist tilkynning frá skóla B þar sem áhyggjum hafi verið lýst af því hve döpur hún væri. Í framhaldinu hafi félagsráðgjafi haft samband við tilsjónaraðila til að kanna með stöðuna á stefndu og hvort vísbendingar væru um að hún væri fallin. B hafi sagst hafa farið í tvígang í apótek með móður sinni og þá í sitt hvort apótekið. Hún hafi einnig sagt frá því að þegar hún hefði komið heim til sín í byrjun mars hefði móðir hennar verið titrandi og sagst vera veik. Í framhaldi af þessu hafi tilsjónin með heimili stefndu gengið vel en þegar tilsjónaraðili hafi farið í sumarfrí hafi stefnda ekki óskað eftir því að fá annan í hans stað.
Í júní 2010 hafi stefnda verið dæmd í Héraðsdómi [...] fyrir margs konar brot og henni gert að sæta fangelsi í sex mánuði. Í viðtali við stefndu 6. október 2010 hafi hún greint frá því að hún hefði fallið um vorið. Hún hafi náð að vinna sig út úr því en fallið aftur í ágúst 2010. Stefnda hafi óskað eftir því að leggjast inn á deild 33A á Landspítalanum og sagst fara þangað á næstu dögum. Stefnda hafi sagst vera orðin þreytt á neyslunni og þeirri vanlíðan sem henni fylgdi og viljað fá aðstoð við að hætta. Hún hafi einnig sagst hafa náð framförum varðandi stelsýkina en væri ekki alveg laus við hana. Gerð hafi verið áætlun um meðferð máls þennan dag þar sem fram hafi komið að stefnda ætlaði í meðferð á deild 33A og í framhaldi af því í átta vikna eftirmeðferð á dagdeild [...]. Hún hafi farið í meðferðina 12. október. Í samtali við félagsráðgjafa í nóvember 2010 hafi stefnda sagst hafa lokið meðferð 22. október og væri að fara tvisvar sinnum í viku á undirbúnings- og hópfundi á [...]. Hún hafi sagst vera edrú og líða ágætlega og hafi verið ákveðið að tilsjón myndi hefjast fljótlega. Í nóvember sama ár hafi ítrekað verið reynt að ná sambandi við stefndu en án árangurs.
Í byrjun janúar 2011 hafi stefnanda borist tvær tilkynningar vegna B frá systur stefndu. Í fyrri tilkynningunni hafi komið fram að stefnda hefði tekið eitthvað inn og væri á sjúkrahúsi en B hjá ömmu sinni. Í þeirri síðari hafi komið fram að stefnda væri nú í daglegri neyslu og að skömmu áður hefði B ekki getað vakið móður sína sökum þess að hún hafði tekið inn smjörsýru. Í það skipti hefði B farið til nágranna sinna og fengið aðstoð og hafi stefnda verið flutt á sjúkrahús í kjölfarið og B til móðursystur sinnar. Einnig hafi komið fram í tilkynningunni að stefnda væri á leið í [...] að sækja hund og að B væri með henni. Hafi systir stefndu talið að stefnda væri undir áhrifum lyfja við aksturinn og hún hefði oft ekið á. Einnig hafi hún sagt að B væri nýfarin að stela með móður sinni.
Hjúkrunarfræðingur hafi staðfest símleiðis að stefnda hefði tekið inn smjörsýru umræddan dag og upplýsingar hafi borist í byrjun febrúar 2011 frá Landspítala þess efnis að stefnda hefði verið lögð inn 1. janúar vegna vímuefnaneyslu. Hún hafði þá leyst upp strimla af naglalakksleysi í vatn og drukkið. Þar hafi komið fram að B hefði komið að móður sinni meðvitundarlausri í sófanum. Um svipað leyti hafi borist upplýsingar frá félagsráðgjafa á geðdeild Landspítala þar sem fram hafi komið að stefnda hafi verið í stuðningshóp á göngudeild [...] en lítið mætt. Síðast hafi hún mætt 12-15. október 2010 og þá greint frá mikilli neyslu verkjalyfja og róandi lyfja. Félagsráðgjafi hafi sagt að það gæti ekki verið rétt að stefnda hefði verið að bíða frá því í október 2010 eftir því að komast í meðferð líkt hún hafði haldið fram. Hinn 15. janúar 2011 hafi stefnda innritað sig aftur í dagmeðferð á [...] þar sem hún hafi mætt tvisvar sinnum í viku. Um miðjan janúarmánuð hafi stefndu verið greint frá mati félagsráðgjafa á því að hún þyrfti að fara í langtímameðferð og að á meðan yrði B vistuð hjá móðursystur sinni til 1. júní 2011. Ef stefnda héldi sér edrú á tímabilinu fengi hún umgengni við dóttur sína. Á þessum tímapunkti lýsti systir stefndu miklum áhyggjum af B, hún væri taugatrekktari en áður og sýndi mikið óöryggi. Í kjölfarið hafi stefnda lagst inn á geðdeild að eigin ósk og B farið til móðursystur sinnar. Á meðan stefnda var inni á geðdeild hafi hún dregið samþykki sitt um vistun B til 1. júní til baka og hafi henni af því tilefni verið kynnt að hún yrði boðuð á fund hjá stefnanda þar sem mál hennar yrðu kynnt og gögn lögð fram.
Hinn 3. febrúar 2011 hafi stefnda skrifað undir samþykki þess efnis að B yrði vistuð hjá móðursystur sinni. Einnig hafi hún undirritað áætlun um meðferð máls þar sem ráðgert hafi verið að hún undirgengist foreldrahæfnismat og að B gengist undir sálfræðimat. Tilkynning um ráðstöfun B til bráðabirgða í samræmi við ákvæði 44. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga hafi verið send Barnaverndarstofu í byrjun febrúar 2011. Auk þess hafi verið send umsókn til sama embættis um að systir stefndu og maðurinn hennar fengju leyfi til reksturs annarra úrræða í samræmi við 84. gr. laga nr. 80/2002 og 2. mgr. 36. gr. reglugerðar nr. 652/2004. Barnaverndarstofa hafi veitt umrætt leyfi og hafi það gilt frá 3. febrúar 2011 til 3. júní 2011.
Í stefnu segir að frá því að stefnda lauk meðferð í janúar 2011 hafi markmið meðferðaráætlunar frá því í byrjun febrúar ekki staðist að neinu leyti. Erfitt hafi reynst að ná í stefndu og fá hana í viðtal og hún hafði ekki staðið við edrúmennsku sína frá því að B var vistuð utan heimilis. Í símtali við félagsráðgjafa á [...] 31. mars hafi komið fram að móðir hefði ekki mætt í meðferðina á [...]. Stefnda hafi farið aftur í meðferð í byrjun maí 2011 og útskrifast 18. sama mánaðar. Hinn 1. júní sama ár hafi stefnda hitt starfsmenn stefnanda á fundi til að ræða stöðu mála. Stefnda hafi sagst hafa verið í 12 daga á Vogi og verið edrú undanfarnar þrjár vikur og væri að stunda AA-fundi. Stefnda hafi ekki samþykkt vistun B utan heimilis en sagst ætla að vinna í því að halda sér edrú. Farið hafi verið yfir tillögur félagsráðgjafa um að B yrði vistuð hjá systur stefndu í eitt ár á meðan stefnda ynni að því að halda sér edrú. Þar sem stefnda hafi ekki viljað fallast á vistunina hafi henni verið tilkynnt að málið yrði tekið fyrir á fundi hjá stefnanda 14. júní 2011. Málinu hafi verið frestað til 16. júní sama ár en á þeim fundi hafi hún mætt ásamt Leifi Runólfssyni hdl. sem hafi lagt fram greinargerð fyrir hennar hönd og hafi málinu verið frestað til frekari gagnaöflunar.
Hinn 22. júní 2011 hafi stefnanda borist læknabréf sem óskað hafði verið eftir hjá hjúkrunarforstjóra á [...]. Bréfið hafi tekið til tímabilsins 1. janúar 2011 til 22. júní 2011 og á því tímabili hafði stefnda leitað töluvert oft á læknavaktir og fengið ávísað talsverðu magni lyfja, m.a. Tramol og Tafil. Hún hafði m.a. fengið ávísað á ákveðnu tímabili 100 töflum af Tramol á 3-5 daga fresti og í marsmánuði alls 800 töflum. Einnig hafi þar komið fram að læknir hafi gert samning við stefndu sem hún hafi samþykkt en síðar svikið. Í bréfinu hafi komið fram að 12. júní hefði stefnda komið í fylgd sjúkraflutningamanna verulega ölvuð og með skurð á enni. Við komuna hafi hún verið sofandi en vaknað þegar kallað hafi verið á hana. Hún hafi verið þvoglumælt og blótað bæði lækni og sjúkraflutningamönnum og brugðist hin versta við þegar læknir hafi reynt að gefa henni deyfilyf. Þegar læknir hafi ætlað að sauma saman sárið hafi hún sparkað í hægri hönd hans og hafi þurft að kalla til lögreglu. Þennan sama dag hafði hún óskað eftir því að fá ávísað Tramól og Stesólíni en fengið neitun, enda hafði hún fengið skammt tveimur dögum áður. Þá hafi hún sagst ætla að neyta áfengis í staðinn. Hinn 21. júní hafi hún hótað því einnig að ætla að neyta áfengis fengi hún ekki annan skammt og hafi svo farið að henni hafi verið ávísaðar 20 töflur af Tramol. Í læknabréfinu hafi einnig komið fram að stefnda stæli ítrekað lyfseðlum og falsi í því skyni að fá fleiri og stærri skammta.
Í viðtali sálfræðings við B 21. febrúar 2011, sem og í samtölum við félagsráðgjafa, m.a. 25. maí 2011, hafi B sagt að sér liði vel hjá móðursystur sinni og manni hennar. Hún hafi lýst heimilisaðstæðum þar sem venjulegum og að allt væri gott þar, auk þess sem hún hafi sagst hafa hlakkað til að fara til þeirra til að vera með stelpunum og prófa eitthvað nýtt. Hún hafi einnig sagst hlakka til að flytja aftur til móður sinnar og að henni fyndist jafn gaman að vera hjá öllum. Að mati sálfræðings var B glaðlynd, jákvæð og samstarfsfús stúlka. Einnig kom fram að B væri vel stödd náms- og félagslega og stundaði íþróttir. Sálfræðingur hafi ekki talið þörf á inngripi í formi stuðningsviðtala að svo stöddu, en sagt að með auknum aldri og þroska B myndu erfiðleikar í umhverfi hennar mögulega hafa meiri áhrif á líðan hennar.
Hinn 28. júní 2011 hafi stefnandi kveðið upp úrskurð þess efnis að B yrði vistuð utan heimilis, hjá móðursystur og eiginmanni hennar í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Í kjölfarið hafi stefnandi skipað B talsmann sem m.a. hafi innt hana eftir afstöðu hennar varðandi búsetu. Niðurstaða talsmanns hafi verið sú að B væri mjög hrifin af þeim stað þar sem hún byggi og vildi eindregið búa áfram með móðursystur sinni og eiginmanni hennar. Í kjölfarið hafi stefnandi krafist þess fyrir dómi að B yrði vistuð utan heimilis í 12 mánuði. Héraðsdómur hafi fallist á þá kröfu með úrskurði sínum í máli nr. U-5/2011, sem kveðinn hafi verið upp 12. október 2011. Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar 11. nóvember sama ár í málinu nr. 585/2011.
Meðan krafa um vistun utan heimilis hafi verið til meðferðar hjá dómstólum hafi stefnda verið í afplánun í fangelsinu að Kópavogsbraut 17, en með dómi í Héraðsdómi [...] 11. júní 2010 í máli nr. S-[...]var stefnda dæmd til sex mánaða fangelsisrefsingar. Stefnda hafi á þeim tíma verið með fjölmörg mál í kerfinu hjá lögregluyfirvöldum. Stefnda hafi komið til afplánunar 14. júlí 2011 og lokið henni 27. október sama ár. Meðan á afplánun hafi staðið hafi stefnda kvartað ítrekað yfir þeirri lyfjagjöf sem hún hafi fengið og verið afar ósátt við að fá ekki þau lyf sem hún óskaði eftir. Hafi hún hótað að taka sitt eigið líf fengi hún ekki þau lyf sem hún vildi. Hún hafi m.a. reynt að brytja ljósaperu niður í kaffið sitt og drekka það í þeim tilgangi að skaða sig og verið flutt á Landspítalann eftir að hafa brotið niður kryddglas og borðað glerbrotin. Í framhaldi af því hafi hún verið sett í einangrun í fangelsinu og eftirlit með henni verið hert. Hún hafi einnig reynt að borða plasthnífapör og kveikja í sér og á endanum verið flutt á öryggisganginn á Litla-Hrauni svo hægt væri að hafa hana undir eftirliti allan sólarhringinn. Tveimur vikum áður en hún lauk afplánun hafi hún drukkið ofnahreinsi og sagst hafa gleypt rakvélarblöð. Hún hafi því verið flutt á Landspítalann í Fossvogi, en þegar læknar hafi viljað setja hana í röntgenmyndatöku til að athuga hvort hún hefði orðið fyrir innvortis skaða hafi stefnda neitað að fara í myndatökuna nema hún fengi þau lyf sem hún óskaði eftir. Læknar hafi ekki viljað verða við því þar sem hún hafði þegar fengið hámarksskammt. Eftir að afplánun lauk hafi stefnda farið á skilorðsbundna reynslulausn og verið undir umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar þann tíma sem reynslulausn varði. Hún hafi ekki mætt í boðað viðtal í nóvember 2011 og ekki látið vita af sér. Hinn 31. janúar 2012 hafi loksins náðst í hana og þá hafi hún sagst hafa verið mikið á spítala undanfarið þar sem hún hefði gleypt nælu og fengið sýkingu í meltingarfærin í kjölfarið.
Í mars og apríl 2012 hafi farið fram lyfjaleit á stefndu. Í þeirri fyrri hafi hún neitað að gefa þvagsýni þegar hún hafi heyrt að hjúkrunarfræðingur þyrfti að vera með henni þegar hún gæfi þvagsýnið. Hinn 2. apríl hafi hún aftur á móti reynst samvinnuþýð og gefið þvagsýni sem hafi reynst neikvætt. Í mars sama ár hafi stefnda mætt í sálfræðiviðtal hjá E eftir tilvísun frá F, yfirhjúkrunarfræðingi í Geðteymi [...]. Stefnda hafi mætt í eitt sálfræðiviðtal en ekki komið aftur þrátt fyrir að hafa verið gefinn annar tími. Máli hennar hafi því lokið af hálfu Geðteymis [...]. Þegar stefnda hafi lokið afeitrun á deild 33-A á Landspítala 25. janúar 2012 hafi henni verið boðið að mæta í grunnhóp tvisvar í viku sem undirbúning fyrir meðferð á [...]. Henni hafi einnig verið boðið að mæta í stuðningshóp á göngudeild fjóra daga vikunnar. Stefnda hafi mætt stopult í grunnhópinn og sagst eiga erfitt með að komast frá [...] auk þess sem hún hafi oft tilkynnt veikindi. Þrátt fyrir stopula mætingu hafi hún óskað eftir því að komast í meðferð á [...] og hafi henni verið hleypt inn 10. apríl 2012. Hún hafi mætt í meðferðina í einn og hálfan dag en þá tilkynnt veikindi. Hún hafi nú verið útskrifuð úr meðferð af þeim sökum að hún ráði ekki við að nýta sér hana.
Hinn 27. apríl 2012 hafi verið gerður samningur um umgengni sem hafi falið í sér að stefnda hafi fengið að umgangast B aðra hverja helgi á heimili móðurömmu B. Í mars og apríl hafi hún tekið þátt í starfi [...] geðræktarmiðstöðvar [...] og komið þar vel fyrir að sögn félagsfræðings og kennara í [...]. Upplýsingar hafi borist frá [...] 12. júní þar sem fram hafi komið að stefnda hefði mætt í eitt sálfræðiviðtal hjá sálfræðingi í [...] 23. apríl en stefnda hafi ekki beðið um fleiri viðtöl í kjölfarið. Hinn 4. júní hafi stefnda átt að mæta í lyfjaleit en ekki látið sjá sig. Hún hafi síðan mætt daginn eftir þar sem niðurstaðan hafi verið neikvæð. Upplýsingar frá [...] hafi borist stefnanda 8. júní 2012 og sýnt að stefnda hafi leitað mikið á vaktir til að fá lyf, stolið ítrekað lyfseðlum og reynt að falsa.
Í júní 2012 hafi stefnanda borist upplýsingar um líðan og aðbúnað B frá [...]skóla. B hafi reynst hafa það gott og hafi liðið vel í skólanum, umhirða hennar verið í góðu lagi, mætingar fínar og hún verið bæði glöð og félagslynd. Þá hafi B verið skipaður talsmaður sem hafi skilað skýrslu 11. júní 2012. Samkvæmt skýrslu talsmanns hafi B komið vel fyrir og verið ófeimin að ræða ýmis málefni og hagi sína. Það hafi verið niðurstaða talsmanns að afstaða B varðandi búsetu væri sú að hún væri mjög hrifin af þeim stað sem hún byggi núna, þ.e. hjá fósturfjölskyldu, og hún vildi eindregið búa þar áfram.
Starfsmaður barnaverndar hafi haft samband við C, fósturmóður B, í byrjun júní til að tjá henni afstöðu barnaverndaryfirvalda til málsins og að til stæði að fara fram á breytingar á forsjá. C hafi tjáð starfsmanni barnaverndar að grunur væri um að stefnda væri í áfengisneyslu þar sem hún hefði horfið í nokkra daga um mánaðamótin apríl/maí. C hafi einnig greint frá því að stefnda hefði ekki tekið neinn þátt í undirbúningi afmælisveislu dóttur sinnar sem hafi verið haldin í lok [...], þrátt fyrir að eftir því hafi verið óskað. Stefnda hafi aftur á móti mætt í lok veislunnar og hafi C staðið hana að því að vera að opna umslög utan af afmæliskortum og safna saman öllum peningum sem dóttir hennar hafði fengið í afmælisgjöf. Stefnda hafi gefið þá skýringu að hún hefði ætlað að geyma peninga fyrir dóttir sína.
Hákon Sigursteinsson sálfræðingur hafi framkvæmt foreldrahæfis- og tengslamat á stefndu og skilað skýrslu sinni 12. júní 2012. Niðurstaða matsmanns hafi verið sú að langvarandi fíkni- og geðrænn vandi stefndu væri ómeðhöndlaður þar sem stefnda hefði aldrei klárað meðferð sem lagt hefði verið upp með þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þá hafi það verið niðurstaða hans að stefnda væri ekki fær um að sinna daglegum þörfum B að öllu óbreyttu og að tengsl B við sína nánustu væru mjög góð og að henni liði vel hjá fósturfjölskyldu sinni.
Boðað hafi verið til fundar hjá stefnanda 13. júní 2012 og hafi greinargerð verið lögð fram af hálfu starfsmanna barnaverndarnefndar og hálfu lögmanns móður. Að kröfu lögmanns stefndu hafi fundinum verið frestað um viku og hafi málið verið tekið fyrir aftur á fundi hjá stefnanda 19. júní 2012. Lögmaður stefndu hafi þá lagt fram aðra greinargerð. Í kjölfarið hafi stefnandi kveðið upp úrskurð þar sem ákveðið hafi verið að krefjast þess fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá dóttur sinnar, sbr. a- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um málavexti kveðst stefnandi vísa að öðru leyti til ítarlegrar málavaxtalýsingar í framlögðum gögnum málsins.
Í greinargerð stefndu er málavaxtalýsingu stefnanda mótmælt sem rangri. Stefnda kveðst eiga einn uppkominn son auk B dóttur sinnar. Upphaf afskipta barnaverndaryfirvalda af málefnum hennar megi rekja til þess að sögn stefndu að hún hafi sótt um að fá felld niður leikskólagjöld vegna lágra tekna.
Faðir B hafi ekki haft nein afskipti af henni í gegnum tíðina. Lengst af ævi B hafi hann dvalið erlendis, en hann sé nú nýlega kominn til landsins. Hann hafi hvorki haft samband við stefndu né dóttur sína frá því að hann kom til landsins.
Stefnda kveðst ekki hafa leynt því að hún hafi átt eða eigi við geðhvarfasjúkdóm, stelsýki, lyfjafíkn og þunglyndi að etja. Stefnda hafi leitað sér aðstoðar á viðeigandi stöðum vegna sjúkdóma sinna. Hún hafi farið í meðferð á Vogi, sjúkrahúsi SÁÁ, farið inn á deild 33A og sótt meðferð á [...] svo fátt eitt sé nefnt, þannig að ljóst sé að stefnda sé óhrædd við að sækja sér meðferð eftir þörfum. Undanfarið hafi hún stundað AA-fundi og tekið þátt í starfsemi [...]geðræktarmiðstöðvar [...]. Loks hafi stefnda farið í langtímameðferð í [...]. Kom fram við aðalmeðferð málsins að stefnda væri útskrifuð þaðan en hefði kosið að dvelja þar áfram á meðan mál þetta væri til meðferðar í hér fyrir dómi.
Stefnda kveðst búa í dag að [...] í [...] hjá móður sinni, G [...].
Í vottorði frá 9. nóvember 2006, sem sé á meðal gagna málsins, komi fram að B hafi verið á leikskólanum [...] frá 29. ágúst 2005. Þar sé staðfest að samstarfið við stefndu hafi verið gott, engin samskipti hafi verið við föður B og að B væri glaðlynd stúlka. Því sé harðlega mótmælt sem fram komi í stefnu að B hafi ekki verið böðuð né henni greitt í heila viku á árinu 2007. Það skuli þó viðurkennt að í örfáa daga hafi B farið í leikskólann illa greidd. Á þeim tíma hafi B verið með sítt hár. B sé mjög hársár og það hafi verið mjög erfitt að greiða henni.
Á dskj. nr. 7, sem sé dagsett 22. júní 2009, komi fram að móðir hafi ávallt komið með barnið í reglulegt eftirlit ungbarnaverndar frá fæðingu. Stúlkan hafi verið hrein, gangi í heilum fötum og virðist kát og ánægð.
Í stefnu sé vísað til þess að 27. maí 2008 hafi stefnanda málsins borist tilkynning frá Læknavakt [...] þar sem lýst hafi verið áhyggjum af lyfjanotkun stefndu sem þá hafi verið með B hjá sér. Stefnda eigi að hafa verið að taka 100 mg lyfinu Nobligan fimm sinnum á dag og að læknir hafi talið að stefnda gæti ekki verið með ráði og rænu ef hún tæki svo stóra skammta af því lyfi. Stefnandi leggi ekki fram nein gögn þessari staðhæfingu sinni til stuðnings. Ljóst megi vera að ef læknir á Læknavakt [...] hefði leyft stefndu að halda för sinni áfram óhindrað með dóttur sinni í því ástandi sem lýst er, þá hafi sá sami læknir ekki haft hagsmuni barns í fyrirrúmi.
Í stefnu komi fram að tilkynnandi hafi tilkynnt að stefnda væri farin að kenna dóttur sinni að stela. Tilkynning sjálf sé ekki lögð fram og þá komi ekki fram hver tilkynnandinn hafi verið. Þrátt fyrir að stefnda hafi þjáðst af stelsýki sé því harðlega mótmælt að hún hafi kennt dóttur sinni að stela og þá hafi dóttir hennar aldrei verið með henni við slíka iðju. Stefnda kveðst gera sér vel grein fyrir því að stelsýkin sé óásættanleg og hafi því tekið á því máli. Hún hafi nú ekki orðið uppvís að því að stela í meira en tvö ár að eigin sögn.
Stefnda hafi þrívegis orðið meðvitundarlaus eða meðvitundarlítil. Fyrsta skiptið hafi átt sér stað í verslun 7. desember 2008. Í það skiptið hafi móðir hennar verið með henni. Stefnandi málsins hafi haldið því fram að stefnda geti ekki séð um dóttur sína sökum lyfjaneyslu. Engu að síður hafi ekki verið lögð fram nein gögn sem sýni að stefnda sé undir áhrifum lyfja eða að hve miklu leyti hún sé undir áhrifum þeirra. Blóðprufur sem teknar hafi verið við þrjú mismunandi tilfelli beri það með sér að stefnda hafi ekki verið undir áhrifum lyfja eða áfengis er hún var lögð inn. Við skoðun á safnsvörum sjúklings komi fram að þegar sóknaraðili var lögð inn 13. september 2009 og 7. desember 2008 hafi lyfið S-Parasetamól mælst einungis <66 í bæði skiptin á meðan að eitrunarmörk fjórum klukkustundum eftir inntöku séu >1300 µmól/L og 12 klukkustundum eftir inntöku >250 µmól/L. S-etanól mæling þessa sömu daga hafi verið < 2,2 en lífshættuleg eitrun sé >65 mmól/L. Ein af þessum blóðprufum hafi verið tekin er liðið hafi yfir stefnda í verslun. Engin af þessum blóðprufum bendi til þess að stefnda sé að taka svo mikið af lyfjum sem stefnandi haldi fram.
Í stefnu komi fram að B hafi sagt frá því að hún hafi í tvígang farið með móður sinni í apótek. Stefnda kveðst telja að þetta sé rétt haft eftir dóttur sinni. Bendir stefnda á að í þessi tvö skipti sem dóttir hennar hafi farið með henni í apótekið hafi ekkert óeðlilegt átt sér stað. Fólk þurfi bara að fara í apótek vegna ýmislegs.
Stefnda kveðst hafa að mestu leyti verið edrú í tvö ár. Hún hafi vissulega fallið á þessu tímabili en þá hafi dóttir hennar hvergi verið nærri og hún hafi ávallt strax tekið sig á aftur. B líði vel hjá móður sinni og hún hafi oftar en ekki lýst því yfir að hún vilji búa hjá stefndu.
Í stefnu sé meðal annars farið yfir það tímabil er stefnda hafi setið í fangelsi í Kópavogi. Sá tími hafi verið stefndu mjög erfiður. Rétt sé að hún hafi sýnt sjálfskaðandi hegðun er hún dvaldi þar. Hún hafi því fyrst verið flutt í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, síðan í fangelsið að Litla-Hrauni, en eftir það hafi hún snúið aftur í Kópavogsfangelsið. Á þessum sama tíma hafi verið rekið dómsmál um vistun B utan heimilis í tólf mánuði. Með þessari sjálfskaðandi hegðun hafi stefnda í raun og veru verið að kalla á hjálp. Hún hafi verið langt niðri og iðrast þess að hafa komið sér í þessa aðstöðu, þ.e. að geta ekki sinnt dóttur sinni. Hún hafi þarfnast aðhlynningar geðlæknis en ekki fengið. Hún hafi þá gripið til þess ráðs að skaða sjálfa sig. Í þessu sambandi verði að horfa til þeirra aðstæðna sem stefnda hafi verið í.
Varðandi lyfjaleit sem minnst sé á í stefnu sé það að segja að stefnda sé ekki vön því að pissa fyrir framan aðra. Henni hafi brugðið við þetta, en áttað sig síðan á því að þetta væri nauðsynlegt. Síðan þá hafi hún ávallt látið sig hafa það að gefa þvagsýni fyrir framan hjúkrunarfræðing og þess megi geta að allar þvagprufur hafi verið neikvæðar hvað varði lyfjaleit.
Varðandi afmælisveislu B sem haldin hafi verið í lok [...] sé rétt að taka fram að B eigi afmæli [...] [...]. C hafi nefnt það við stefndu hvort að ekki væri sniðugt að nýta afgangana úr [...]veislu H, dóttur C, í afmæli B. Þar með hafi verið ákveðið að halda afmælisveislu nokkru fyrir afmælisdag B og kveðst stefnda hafa samþykkt það. Haldið hafi verið upp á afmælið með tæplega sólarhringsfyrirvara. Stefnda hafi ekki vitað að afmælið yrði á þessum tíma og á þessum degi og því hafi hún mætt of seint. Það sé rétt að stefnda hafi opnað afmæliskortin og safnað peningunum saman. Peningarnir hafi verið notaðir til að fjármagna hestanámskeið fyrir B. Stefnda kveðst strax í afmælisveislunni hafa látið C fá umslagið með peningunum í. Stefnda hafi því aldrei farið með peningana út úr húsi.
Stefnda kveðst hafa verið til samvinnu frá upphafi þrátt fyrir ýmsar misfellur hjá stefnanda. Hafi það gengið svo langt að Barnaverndarstofa hafi séð ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum sínum til stefnanda málsins.
Við fyrirtöku málsins 16. október sl. var af hálfu stefndu lögð fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns og var Einar Ingi Magnússon sálfræðingur dómkvaddur sem matsmaður í málinu í þinghaldi 23. október sl. Ákveðið var að matsmaður skyldi ljúka matinu eigi síðar en 5. desember 2012. Matsmaður lauk hins vegar ekki matsstörfum fyrr en í lok apríl sl. og var matsgerðin lögð fram við fyrirtöku málsins 7. maí sl. Í sama þinghaldi var af hálfu stefndu lögð fram beiðni um yfirmat. Af hálfu stefnanda var beiðni stefndu um dómkvaðningu yfirmatsmanna mótmælt. Með úrskurði 24. maí sl. var beiðni stefndu um dómkvaðningu yfirmatsmanna hafnað. Stefnda ákvað að kæra ekki úrskurðinn til Hæstaréttar.
Stefnda kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, I, sonur stefndu, J, félagsráðgjafi og forstöðumaður barnaverndarnefndar [...], Hákon Sigursteinsson, sálfræðingur, K og L, starfsmenn barnaverndarnefndar, C, fósturmóðir B og systir stefndu, M, ráðgjafi stefndu í [...].
III.
Stefnandi kveðst byggja á því að það þjóni best hagsmunum barnsins að svipta stefndu forsjá hennar og að henni verði komið í varanlegt fóstur hjá fósturfjölskyldu sinni. Það teljist til frumréttinda barna að búa við stöðugleika í uppvexti og við þroskavænleg skilyrði. Að mati stefnanda hafi það sýnt sig svo ekki verði um villst að stefnda geti ekki búið dóttur sinni þau uppeldisskilyrði sem hún eigi rétt á. Þegar dóttir stefndu hafi verið vistuð utan heimilis í 12 mánuði með úrskurði héraðsdóms 12. október 2011 hafði stúlkan búið við ákaflega slæmar uppeldisaðstæður hjá stefndu. Stefnda hafði þá um langt skeið misnotað lyf og hafi dóttir hennar komið margsinnis að henni meðvitundarlausri vegna ofneyslu þeirra lyfja. Stefnda hafi einnig ítrekað komist í kast við lögin vegna ýmissa afbrota og hafi hún verið í afplánun þegar úrskurður héraðsdóms hafi verið kveðinn upp 12. október 2011. Þar sem stefndu hafi ekki tekist að vinna bug á þeim margþætta vanda sem hún hafi átt við að etja telji stefnandi hana ekki í stakk búna til að taka aftur við dóttur sinni inn á sitt heimili þar sem hún geti ekki boðið henni viðunandi uppeldisaðstæður. Hún hafi ekki klárað meðferð og sé enn að reyna að komast í lyfjaskammta og hóti m.a. sjálfsvígi fái hún ekki þá uppáskrift sem hún óski eftir eins og nýleg dæmi sanni.
Þær aðstæður sem dóttir stefndu hafi alist upp við hjá móður sinni geti haft verulega slæm áhrif á stúlkuna. Börn sem alist upp við viðlíka aðstæður séu undir miklu tilfinningalegu álagi sem geti birst í ótta, þreytu, kvíða, depurð og þunglyndi. Það sé mat stefnanda að dóttir stefndu geti ekki búið hjá stefndu miðað við hvernig ástandið hefur verið á heimilinu undanfarin ár og kveðst stefnandi óttast að það geti haft verulega slæm áhrif á stúlkuna snúi hún aftur til móður sinnar.
Frá því að dóttir stefndu var vistuð utan heimilis hafi hún verið hjá fósturforeldrum og hafi líðan stúlkunnar stórbatnað upp frá því og allur hennar aðbúnaður og umhirða einnig. Um það beri fósturforeldrar, kennarar stúlkunnar, talsmaður hennar og fleiri. Þegar stúlkan hafi búið hjá stefndu hafi hún iðulega mætt illa til fara, óhrein og ógreidd í leikskóla og skóla og hafi stefnda oft verið að skila henni í kringum hádegi og þá hafi stúlkan ekki verið búin að borða. Í dag hafi þetta snúist til betri vegar og virðist stúlkan hafa það afar gott hjá fósturfjölskyldu sinni og segist vera afar ánægð þar líkt og fram komi víða í gögnum málsins. Stefnandi telji það einsýnt að eftir að stúlkan var vistuð utan heimilis hafi hagir hennar batnað til muna og að hagsmunum barnsins sé augljóslega best borgið utan heimilis móður.
Hákon Sigursteinsson sálfræðingur hafi framkvæmt foreldrahæfis- og tengslamat á stefndu og skilað skýrslu sinni 12. júní 2012. Í niðurstöðum matsins komi fram að stefnda hafi átt við stigvaxandi vanda að etja, bæði er varði fíkn og geðræna erfiðleika. Hún sé greind með fíkniheilkenni af völdum notkunar slævandi lyfja og svefnlyfja. Auk þess sé hún með blandna kvíða- og geðlægðarröskun ásamt vandamálum tengdum félagslegu umhverfi. Samkvæmt matsmanni vilji stefnda standa sig vel og þyki vænt um dóttur sína en í stað þess að rækta sig og efla í uppeldishlutverkinu beini hún kröftum sínum í rangar áttir, svo sem í að vera í stríði við barnaverndaryfirvöld. Þá segi matsmaður hana ekki hafa verið tilbúna til að vinna eftir leiðbeiningum fagaðila sem hafi verið með mál hennar nema þegar það henti henni. Hún sé því fljót að hætta þátttöku í þeim úrræðum eða meðferðum sem henni hafi staðið til boða sem hafi leitt til þess að hún hafi ekki klárað meðferð. Stefndu skorti úthald, festu og mögulega innsýn í þau áhrif sem fíknisjúkdómur hennar hafi á hana og hennar nánasta umhverfi. Matsmaður segi það mikilvægt að stefnda taki fyrst á fíknivanda sínum áður en hægt sé að vinna með aðra þætti. Styrkleikar stefndu í uppeldishlutverkinu séu fyrst og fremst þeir að hún sé víðlesin og ræði mikið við dóttur sína, auk þess að sýna henni ástúð og kærleika. Veikleikarnir séu aftur á móti þeir að hún sé ekki góð fyrirmynd gagnvart dóttur sinni auk þess sem hana skorti úthald og festu. Hún eigi erfitt með að halda rútínu í uppeldinu og að veita dóttur sinni ákveðið öryggi sem öll börn þurfi á að halda. Samkvæmt matsmanni sé stefnda ekki fær um að sinna daglegum þörfum dóttur sinnar eins og staðan sé í dag.
Í niðurstöðum matsmanns varðandi dóttur stefndu komi fram að stúlkan sé virk og flott stelpa, kát og glaðleg. Samkvæmt matslista líði henni vel og svör hennar í tengslaprófi bendi til þess að hún eigi góð samskipti við sína nánustu. Einnig komi fram í matinu að stúlkunni líði mun betur í þeim aðstæðum sem hún sé í núna en þegar hún hafi búið hjá stefndu samkvæmt kennurum og fósturforeldrum. Matsmaður telji þær aðstæður sem stúlkan búi við í dag vera kjöraðstæður fyrir hana, þ.e. hún búi hjá fósturforeldrum og sé í góðum samskiptum við stefndu. Það sé því niðurstaða matsmanns að stúlkan verði áfram í fóstri þar sem hún sé nú og að hún verði áfram í umgengni við stefndu, svo fremi að stefnda nái að vinna á vanda sínum, sé edrú og í jafnvægi. Vilji stúlkunnar sjálfrar liggi fyrir og sé afar skýr. Í samtali við talsmann sinn hafi hún talað hlýlega um fósturfjölskyldu sína. Hún hafi sagst vera ánægð með það fyrirkomulag sem sé við lýði í dag og viljað halda því áfram. Hún vilji þó vera í samskiptum stefndu og ömmu sína áfram.
Af málavaxtalýsingunni hér að framan og gögnum málsins megi ráða að fjölmargar meðferðaráætlanir hafi verið gerðar í gegnum tíðina án þess að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Af meðferðaráætlununum og greinargerðum sem teknar hafi verið saman og lagðar fyrir stefnanda sé einnig fullljóst að leitast hafi verið við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni og reynt að aðstoða stefndu þannig að hún gæti haldið dóttur sinni hjá sér. Að mati stefnanda sé alveg ljóst að við meðferð málsins hafi verið kappkostað að gæta meðalhófs og öll úrræði hafi verið tæmd áður en sú viðurhlutamikla ákvörðun hafi verið tekin að höfða þetta mál. Einnig hafi stefnandi leitast við að upplýsa málið eins og frekast sé unnt og í því skyni m.a. aflað upplýsinga frá sérfræðingum sem komið hafi að málinu og þeim sem hafi umgengist stefndu og dóttur hennar. Stefnandi telji að önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu ekki tiltæk, enda brýn nauðsyn á því að skapa stúlkunni öryggi og uppeldi sem hún hafi ótvírætt farið á mis við hjá stefndu.
Það sé mat stefnanda að hjá stefndu búi dóttir hennar við óviðunandi uppeldisaðstæður. Stúlkan sé á viðkvæmum aldri og í brýnni þörf fyrir stöðugleika þannig að persónueiginleiki hennar og þroski fái að njóta sín. Með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs sé það mat stefnanda að mikilvægt sé að stúlkan fái framtíðarheimili og umönnunaraðila þar sem öryggi hennar og þroskavænlegar uppeldisaðstæður séu tryggðar. Það sé því mat stefnanda að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu fullreynd og dugi ekki til að tryggja dóttur stefndu þroskavænleg uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefndu. Þá sé það mat stefnanda að hagsmunum stúlkunnar sé best borgið með áframhaldandi fóstri hjá fósturfjölskyldu. Það sé mikilvægt fyrir börn að alast upp við stöðugleika, gott atlæti og öryggi og það sé mat stefnanda að aðstæður hjá fósturfjölskyldu muni frekar geta mætt þessum þörfum stúlkunnar.
Með hliðsjón af öllu framanröktu telji stefnandi að hagsmunum stúlkunnar sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá hennar. Stefnandi telji það hafa sýnt sig að stefnda geti ekki búið dóttur sinni þau uppeldisskilyrði sem hún eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á séu hagsmunir barnsins og hvað því sé fyrir bestu þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994, og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.
Með vísan til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarstarfi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og gagna málsins kveðst stefnandi krefjast þess að stefnda verði svipt forsjá barns síns, B, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.
IV.
Stefnda kveðst benda á að í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 komi fram að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðkomandi árangurs. Í þessu máli hafi vægari úrræði til úrbóta ekki verið reynd til þrautar. Stefnda sé að taka á sínum málum, en hún sé nú í meðferð í [...] og gangi sú meðferð vel. Þá sé ekkert sem bendi til þess að stefnda sé ófær um að ala upp barn sitt.
Nauðsynlegt sé að hafa í huga að forsjársvipting sé verulega íþyngjandi ráðstöfun fyrir foreldri, sem feli í sér skerðingu á grundvallarrétti sem varinn sé af 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Svo að skilyrði þau sem komi fram í dlið 29. gr. teljist uppfyllt verði að teljast fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin sökum þess að forsjáraðilar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða vegna þess að hegðun foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Ekkert í máli þessu bendir til þess að B hafi orðið fyrir alvarlegum skaða né nokkuð sem bendi til þess að svo muni verða.
Hvergi hafi komið fram í gögnum sem styðji það að líkamlegri heilsu barnsins geti verið hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf. Varðandi andlega heilsu barnsins er það að segja að ekkert styðji það að andlegri heilsu þess muni hraka fari stefnda með forsjá þess.
Stefnda kveðst hafa alla aðstöðu og burði til að búa barninu þroskavænleg uppeldisskilyrði. Því sé ekkert sem bendi til þess að þroska barnsins sé stefnd í voða ef barnið búi hjá stefndu. Stefnda búi í dag hjá móður sinni, sem fylgist vel með gangi mála.
Varðandi vímuefnaneyslu sé rétt að stefnda hafi átt við lyfjafíkn að etja. Hún sé nú að taka á þeim vanda með meðferð í [...]. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefnda hafi neytt óeðlilegs magns lyfja. Eitt sé að sækja sér lyf en annað að neyta þeirra. Safnsvör sjúklings sýni ekki óeðlilega mikla lyfjanotkun.
Hvað varði d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé ekki hægt að sjá í gögnum málsins að hegðun stefndu sé mjög líkleg til að skaða dóttur hennar. Stefnda hafi ekki fallið í lyfjaneyslu á undanförnum árum og í þau skipti sem hún hafi fallið á edrúmennsku sinni hafi dóttir hennar dvalist annars staðar. Stefnda geri sér ljóst að hún þurfi að taka á sínum málum og sé byrjuð á því með meðferð á meðferðarheimilinu [...].
Að ofantöldu megi ljóst vera að hvorki a- né d-liður 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um skilyrði til forsjársviptingar sé uppfylltur hvað stefndu varði. Beri því þá þegar að hafna kröfu stefnanda um að svipta stefndu forsjá dóttur sinnar. Í greinargerð með frumvarpi að barnaverndarlögum sé tekið fram að barnaverndaryfirvöldum sé ekki falið það verkefni að stuðla að því að öll börn búi við bestu mögulegu aðstæður, heldur fyrst og fremst að aðstæður einstakra barna séu viðunandi. Það geti verið breytilegt á hverjum tíma og eftir almennum efnahag hvað teljist viðunandi. Aðstæður hjá stefndu séu viðunandi. Hún sé með gott tengslanet í kringum sig sem hún nýti eftir bestu getu.
Því sé harðlega mótmælt að það þjóni best hagsmunum barnsins að móðir þess verði svipt forsjá þess. Almennt sé talið börnum best að alast upp hjá kynforeldrum sínum. Stefnda sýni dóttur sinni ástúð og kærleika. Hún sé dugleg að ræða við hana og fari með hana á allskyns menningarviðburði. Því sé harðlega mótmælt að stúlkan hafi verið illa til fara, óhrein og ógreidd er hún hafi búið hjá stefndu. Engin gögn styðji þessa fullyrðingu stefnanda.
Á því sé byggt af hálfu stefndu að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu fullreynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Heimildarákvæðið um forsjársviptingu samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 verði að vera stutt nægjanlegum og jafnframt ótvíræðum rökum, bæði að því er taki til a- og d-liða lagagreinarinnar. Í þessu tilviki sé þeim skilyrðum ekki fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar skuli því aðeins krafist sviptingar forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Slíkt hafi ekki verið fullreynt eins og sjá megi af gögnum máls og því komi forsjársvipting í þessu máli ekki til greina. Í skýrslu Hákonar Sigursteinssonar sálfræðings ráðleggi hann stefndu að fara í meðferð á meðferðarheimilinu [...]. Stefnda hafi verið í meðferð þar. Standist hún þá meðferð sé ekkert sem bendi til þess að hún geti ekki sinnt forsjárskyldum sínum.
Samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna beri stjórnvöldum að stuðla að því að sameina fjölskyldur, en ekki að sundra þeim eða búa til nýjar fjölskyldur með því að taka börn af öðrum fjölskyldum og færa þau til annarra aðila.
Markmið laganna sé að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og það almenna sjónarmið lagt til grundvallar að hagsmunir barna séu að öllu jöfnu best tryggðir með því að þau alist upp hjá foreldrum sínum. Það sé í samræmi við almenna meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Almenna reglan sé sú að vistun utan heimilis vari í sem skemmstan tíma og að barn snúi aftur til foreldra sinna.
Það sé meginregla í íslenskum rétti að barni sé fyrir bestu að alast upp hjá kynforeldrum sínum. Í dag fari móðirin með forsjá barnsins. Faðirinn hafi ekki verið til staðar fyrir barnið. Hann hafi nánast ekkert skipt sér af barninu frá fæðingu. Vissulega sé móðir ekki gallalaus, en hún sé að taka á sínum málum.
Forsjá megi skilgreina í þrjá þætti. Í fyrsta lagi feli hún í sér rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns, í öðru lagi skyldu foreldra til að annast barn sitt og í þriðja lagi rétt barnsins til forsjár foreldra sinna.
Í 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 komi fram að foreldrar hafi rúma heimild til að ákveða hvers konar uppeldi börn þeirra fá. Heimild þessi sé í raun í samræmi við grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sé friðhelgi fjölskyldunnar lögfest. Með henni sé tryggð sú grundvallarregla að fjölskyldan fái að búa saman og að foreldrar fái að annast uppeldi barna sinna án utanaðkomandi afskipta. Grundvallarreglan um friðhelgi fjölskyldunnar eigi sér einnig lagastoð í 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Foreldrum sé ekki einungis tryggður réttur til þess að ráða persónulegum högum barna sinna, heldur sé þeim það einnig skylt, sbr. 4. mgr. 28. gr. laga nr. 76/2003, og í 5. mgr. sömu greinar sé tekið fram að börnin eigi rétt á forsjá foreldra sinna uns það verði sjálfráða. Með þessu sjáist að meginreglan sé sú að foreldrar skuli fara með sameiginlega forsjá barna sinna og ráða yfir högum þeirra. Þessari meginreglu séu sett takmörk með hagsmuni barnsins í huga. Hins vegar beri að gæta að því að hagur barnsins geti oft verið sá að búa hjá foreldri þrátt fyrir misfellur á aðbúnaði þess að einhverju marki.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem samþykktur hafi verið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og tekið gildi 2. september 1990, hafi verið undirritaður af hálfu Íslands 26. janúar 1990 og öðlast gildi gagnvart Íslandi 27. nóvember 1992. Þar komi fram í 1. mgr. 18. gr. sú meginregla að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á uppeldi barns og því að koma því til þroska. Í 5. gr. samningsins sé síðan fjallað um að aðildarríkin skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita barninu tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við þroska barnsins. Í raun skuli afskiptum hins opinbera haldið í lágmarki. Í 9. gr. samningsins sé áréttað að barn skuli ekki skilið frá foreldrum sínum nema að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins. Svo sé ekki í þessu máli.
Um lagarök vísar stefnda að öðru leyti til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er vísað til grundvallarreglna um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, sem og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafa um málskostnað er byggð á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem kveði á um að aðili máls skuli hafa gjafsókn fyrir dómi, svo og á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.
V.
Dóttir stefndu, B, fæddist í [...] 2003. Allt frá árinu 2006 og þar til B var vistuð utan heimilis hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar um miðjan janúar 2011 bárust barnaverndarnefnd fjölmargar tilkynningar um vanrækslu stefndu á umsjón og umönnun með barninu vegna lyfjaneyslu hennar. Á þessum tíma gekkst stefnda endurtekið undir meðferðaráætlanir barnaverndarnefndar þar sem hún samþykkti að stunda AA-fundi og hópmeðferð hjá SÁÁ, svo og að vera í reglulegu sambandi við geðlækni. Þrátt fyrir það bárust áfram tilkynningar um lyfjamisnotkun stefndu og um tíma var stefnda jafnframt ítrekað staðin að þjófnaði og því að framvísa fölsuðum lyfseðlum. Í september 2009 var stefnda flutt nokkrum sinnum meðvitundarlaus á slysadeild vegna lyfjainntöku. Mun B hafa komið þrisvar sinnum að móður sinni meðvitundarlausri á skömmum tíma, m.a. eftir neyslu á smjörsýru sem stefnda hafði búið til sjálf. Í kjölfar þessa fór stefnda í meðferð og að henni lokinni var höfð tilsjón með heimilinu. Stefnda féll vorið 2010, en náði að vinna sig út úr því, en féll að nýju í ágúst 2010. Í kjölfar þess lagðist stefnda inn á geðdeild 33A á Landspítalanum og fór síðan í eftirmeðferð á dagdeild [...], en hætti eftir nokkra daga. Í janúar 2011 kom B tvisvar að móður sinni meðvitundarlausri vegna vímuefnaneyslu. Í fyrra skiptið hafði hún leyst upp strimla af naglalakksleysi í vatn og drukkið og í síðara skiptið hafði hún tekið inn smjörsýru. Í bæði skiptin var stefnda flutt meðvitundarlaus á sjúkrahús og lagðist stefnda síðan inn á geðdeild. Í byrjun febrúar sama ár undirritaði stefnda meðferðáætlun barnaverndarnefndar. Markmið meðferðaráætlunarinnar stóðust ekki að neinu leyti og mætti stefnda ekki í meðferð á [...]. Þá kemur fram í gögnum málsins að á tímabilinu frá 1. janúar til 22. júní 2011 leitaði stefnda töluvert oft á læknavaktir og fékk ávísað talsverðu magni lyfja. Stefnda fór í meðferð á Vogi í 12 daga í maí 2011. Hinn 12. júní sama ár var stefnda flutt á sjúkrahús mjög ölvuð og með skurð á enni. Við það tækifæri óskaði hún eftir að fá ávísað róandi lyfjum og þegar henni var neitað hótaði hún því að neyta áfengis í staðinn. Stefnda beitt sömu hótun við lækna 21. sama mánaðar.
Í júní 2010 var stefnda dæmd í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ýmiss konar brot og henni gert að sæta fangelsi í sex mánuði. Afplánun stefndu í fangelsi hófst 14. júlí 2011 og lauk 27. október sama ár. Á meðan á fangelsisvistinni stóð sýndi stefnda ítrekað sjálfskaðandi hegðun, m.a. með því að borða glerbrot og plasthnífapör, drekka ofnahreinsi og kveikja í sjálfri sér. Stefnda hlaut reynslulausn á hluta refsingarinnar og var hún undir eftirliti Fangelsismálastofnunar þann tíma sem reynslulausn varði. Stefnda lauk afeitrun á deild 33A á Landspítala 25. janúar 2012, en mætti stopult í stuðningshóp sem henni bauðst að taka þátt í að innlögn lokinni. Þá hætti hún í eftirmeðferð á [...] eftir einn og hálfan dag. Fram kemur í gögnum málsins að stefnda leitaði mikið á vaktir hjá Heilbrigðisstofnun [...] á þessum tíma til að fá lyf. Þá kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni að stefnda hafi ítrekað stolið lyfseðlum og reynt að falsa þá. Fram kemur í gögnum málsins að stefnda hafi mætt í [...]- geðræktarmiðstöð [...] tvisvar til fjórum sinnum í viku frá því í byrjun júní 2012 og fram í október sama ár, en þá hóf stefnda meðferð í [...], sem lauk nú nýverið.
Í niðurstöðu matsgerðar hins dómkvadda matsmanns, Einars Inga Magnússonar sálfræðings, sem dagsett er 22. apríl 2013, segir að í ljósi sögu stefndu hljóti hæfi hennar til að fara með forsjá dóttur sinnar að teljast mjög takmarkað. Nefnir matsmaðurinn í þessu sambandi neyslusögu stefndu og geðsjúkdóm og tiltekur að hún hafi a.m.k. þrisvar sinnum reynt að taka líf sitt og þá hafi meðferðir verið árangurslausar. Einnig hafi stefnda átt við mikla erfiðleika að stríða og sýnt vanlíðan og öfgakennda hegðun í afplánun. Samhliða þessu hafi stefnda sýnt sterka andfélagslega hegðun. Stefnda telji að vímuefnameðferðin í [...] hafi leitt han[a inn á nýjar og árangursríkari slóðir en fyrri meðferðir og hún hafi nú átt þess kost að vinna betur í sjálfri sér. Matsmaðurinn bendir hins vegar á að vímuefnameðferðin í [...] hafi, þegar matsgerðin var rituð, staðið yfir í sex mánuði, en fíknivandi stefndu hafi hafist fyrir einum til tveimur áratugum. Einkenni geðhvarfasýkinnar hafi einnig birst í missterkum myndum undanfarna áratugi. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir síðan:
„Matsmaður getur fallist á að niðurstöður viðtala, tengslamata og annarra greininga bendi til þess að K hafi vissan skilning á þörfum og hagsmunum dóttur sinnar. Hún hefur átt stærstan þátt í að móta hugsun hennar og viðhorf og gagnkvæm tilfinningatengsl þeirra mæðgna eru sterk. Hæfi K til að fara með forsjá dóttur sinnar ræðst hins vegar ekki einungis af getu hennar til framfylgja þessum skilningi gagnvart telpunni í formi daglegrar rútínu, umönnunar og hvetjandi og þroskavænlegs uppeldisumhverfis, heldur einnig hvernig henni tekst að vinna enn frekar úr sinni fíkn og geðrænu einkennum á næstu árum og hvernig henni tekst að laga sig að eðlilegu, daglegu lífi, án fíknar. Matsmaður telur almennt hæpið að K valdi forsjárskyldum sínum eðlilega, þótt sterk, gagnkvæm tengsl þeirra mæðgna krefjist mikillar nálægðar og umgengni. Ábyrgðin á uppeldi og framtíð B þarf þó að vera í höndum annarra en K til þess að engin hætta sé á að stöðugleika í þroska hennar sé raskað og eðlilegt má telja að barnið njóti vafans í þessum efnum.“
Að því er varðar mat á persónuleika og atgervi stefndu segir í niðurstöðu matsgerðar að greindarfar stefndu sé almennt í góðu lagi. Á persónuleikaprófi gefi K mjög glæsta mynd af sér, en í úrvinnslu prófsins komi fram ábendingar um að hún reisi þessa mynd nokkuð á óskhyggju og skorti á innsæi. Þá bendi persónuleikapróf til neikvæðrar sjálfsmyndar og sjálfsefasemda og einnig sé stefnda félagslega viðkvæm og kvíðin. Hún hafi einkenni fullkomnunaráráttu og frammistöðukvíða, auk þess að eiga í erfiðleikum með eðlilega aðlögun. Loks segir að á sjálfsmatslistum komi m.a. fram að hana skorti sjálfstraust, hún finni til vanlíðunar og sé ekki í góðu jafnvægi.
Loks segir í matsgerðinni að geta stefndu til að annast uppeldishlutverk sitt sé að nokkru leyti fyrir hendi. Geta stefndu til að axla ábyrgð á heildarhagsmunum og velferð K, samhliða viðamiklum persónulegum úrbótum í formi sálfræðimeðferðar og eftirmeðferðar vegna vímuefnafíknar, sé hins vegar mjög vafasöm.
Hinn dómkvaddi matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerðina. Aðspurður kvað hann stefndu ekki vera hæfa til að fara með forsjá dóttur sinnar.
Framangreind niðurstaða hins dómkvadda matsmanns er í samræmi við niðurstöðu í skýrslu Hákonar Sigursteinssonar sálfræðings, dagsettri 10. júní 2012, þar sem lagt var mat á foreldrahæfi stefndu og tengsl hennar við dóttur sína, en skýrslan var unnin að beiðni barnaverndarnefndar [...] vegna meðferðar málsins hjá nefndinni. Kom Hákon Sigursteinsson einnig fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir m.a. að K sé greind með fíkniheilkenni af völdum notkunar slævandi lyfja eða svefnlyfja, sem blandið sé kvíða- og geðlægðarröskun og vandamálum tengdum félagslegu umhverfi. K geri sér ágætlega grein fyrir sínum vanda, en eigi erfitt með að vinna á honum þar sem hana skorti úthald og festu og ef til vill innsýn í afleidd áhrif sem hann valdi. K sé þrátt fyrir allt ágætisuppalandi og veiti B ástúð og kærleika, leiðbeini henni, uppfræði og tali mikið við dóttur sína. Stefnda sé hins vegar ekki góð fyrirmynd og uppeldisaðstæður hjá henni séu slæmar vegna fíknar hennar og geðrænna veikinda. Þá segir í matsgerðinni að börnum sem alist upp við þess háttar aðstæður sé mun hættara en öðrum börnum við að misnota vímuefni eða lyf síðar á lífsleiðinni. B sé hins vegar vel gerð, hafi seiglu og gott skap, en sýni jafnframt vanlíðan þegar ástandið sé hvað verst. Hún hafi sýnt merki taugaveiklunar þegar hún dvaldi hjá móður sinni, en líðan hennar sé mun betri eftir að hún fór í fóstur. Það gefi sterka vísbendingu um að uppeldisaðstæður hjá stefndu hafi haft neikvæð áhrif á B. Loks segir að telja megi að sú lausn að B dvelji hjá móðursystur sinni og fjölskyldu, í mikilli nálægð við móður sína og undir eftirliti ömmu sinnar, séu kjöraðstæður úr því að aðstæður hjá móður séu ekki viðunandi.
Með hliðsjón af öllu framangreindu og gögnum málsins þykir ljóst að vandi stefndu er djúpstæður og margþættur. Vímuefnameðferðir stefndu hafa hingað til ekki borið tilætlaðan árangur, en stefnda hefur nú nýlokið átta mánaða meðferð í [...] og dvelur þar áfram á meðan mál þetta er til meðferðar hér fyrir dómi. Ljóst er að stefnda á langt í land með að ná tökum á vanda sínum og sýna fram á að hún öðlist varanlegan bata. Af þeim sökum og með hliðsjón af hagsmunum barnsins þykir of áhættusamt og óvarlegt að fela stefndu ábyrgð á uppeldi og velferð dóttur sinnar þar sem mikil hætta þykir vera á því að þeim stöðuleika sem barnið býr nú við yrði raskað með þeim hætti.
Af því sem að framan er rakið og gögnum málsins þykir sýnt að stefnda geti ekki farið með forsjá dóttur sinnar, B, og sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart henni. Brýna nauðsyn þykir bera til þess að skapa barninu til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem það þarf á að halda og á rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Af gögnum málsins er ljóst að úrræði samkvæmt 23., 24., 26., 27. og 31. gr. barnaverndarlaga hafa verið reynd allt frá því að stefnandi hóf afskipti af málefnum dóttur stefndu á árinu 2006 án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri.
Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni barnsins B að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá stúlkunnar. Verður krafa stefnanda því tekin til greina.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.086.560 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi.
Dómsorð:
Stefnda, K, er svipt forsjá yfir barninu, B, kt. [...].
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar hdl., 1.086.560 krónur.