Hæstiréttur íslands

Mál nr. 765/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                       

Mánudaginn 9. desember 2013.

Nr. 765/2013.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. desember 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta úrræðum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2013.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. desember 2013, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

                Í kröfu lögreglustjóra segir að hinn 6. október s.l. hafi A, komið með flugi [...] frá Alicante á Spáni og hafi hún haft innvortis 421,51 gramm af kókaíni. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja og eiturefnafræði hafi styrkleiki í tveimur sýnum, sem send hafi verið þangað, verið 32 og 31%.

Við yfirheyrslur hafi A m.a. greint frá því að hún hafi verið þvinguð til að fara hingað til lands og hún hafi ekki vitað hvað hún hafði innvortis. Hafi hún sagt að tveir menn hafi sett inn í sig tvo pakka og sagt henni að flytja þá innvortis til Íslands, annars gæti eitthvað hent fjölskyldu hennar. A hafi lítið tjáð sig um málið að öðru leyti en því að hún hafi fengið upplýsingar um það frá þessum mönnum að hún yrði sótt á flugvöllinn á Íslandi af manni sem yrði með nafn hennar ritað á miða. A hafi við yfirheyrslur sagt að hún þekkti engan á Íslandi og hafi ekki nein tengsl við landið að öðru leyti en því að það að einhver maður hafi átt að sækja hana á flugvöllinn. A hafi ekki getað sjálf losað sig við umrædd fíkniefni og hafi hún því verið flutt á [...]. Þar hafi vakthafandi læknir tekið ákvörðun um að flytja hana á kvennadeild [...] þar sem hún hafi verið svæfð og fíkniefnin sótt af lækni.

Lögreglan á Suðurnesjum hafi upplýsingar um að kærði hafi verið staddur í flugstöð Leifs Eiríkssonar 6. október 2013 með miða sem á hafi staðið „A“. Aðspurður af tollverði hafi kærði sagst hafa verið sendur af óþekktum aðila til þess að sækja farþega með þessu nafni úr áðurgreindu flugi. Samkvæmt upplýsingum lögreglu aki kærði leigubifreið fyrir [...] í [...].

Kærði hafi tvívegis verið yfirheyrður vegna þessa máls og hafi hann viðurkennt að hafa verið staddur í flugstöð Leifs Eiríkssonar hinn 6. október 2013, en þangað hafi hann átt að sækja konu sem ekki hafi skilað sér. Framburður hans varðandi aðdraganda og samskipti vegna málsins sé mjög reikull og ótrúverðugur.

Lögregla hafi hlustað á símanúmerið [...] frá 10. október sl. með heimild, sem fengin hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Töluverð samskipti hafi verið milli kærða og B kt. [...], sem lögregla telji að sé viðriðinn málið.

Hinn 24. nóvember 2013 hafi C, fædd [...] 1987 komið til landsins. Við afskipti tollvarða hafi hún sífellt breytt frásögn sinni um komu sína hingað til lands og ástæðu hennar. Hafi vaknað grunur um að hún hefði fíkniefni falin innvortis og hafi hún því verið færð í röntgenmyndatöku en sá grunur hafi ekki reynst á rökum reistur. Í viðtali við lögreglu hafi hún sagst stunda vændi hér á landi og sagt að fyrir henni væri séð að öllu leyti. Hinn 1. desember sl. hafi C verið handtekin að [...],[...]vegna gruns um að í íbúðinni væru geymd fíkniefni. Þá hafi verið tekin af henni skýrsla 2. desember sl.

Lögregla hafi upplýsingar um að B og D hafi fyrirhugað að flytja fíkniefni til landsins og nota til þess spænskar stelpur sem burðardýr fíkniefna. Einnig hafi lögregla upplýsingar um að B hafi sent umtalsverðar fjárhæðir til Spánar í nokkrum peningasendingum á þessu ári.

Rannsókn máls þessa standi nú yfir. Lögregla vinni að því að rannsaka aðdraganda að ferð A og C hingað til lands og tengsl þeirra við kærða, meðkærða B og hugsanlega aðra vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Mikið beri í milli í skýrslum kærða og B og einnig með hliðsjón af þeim gögnum sem lögregla hafi undir höndum.

Lögregla telji að kærði kunni að eiga aðild að ætluðu mansali á framangreindum stúlkum, þ.e. með því að taka á móti þeim í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og flytja þær á milli staða. Þá sé það einnig mat lögreglu að kærði kunni að vera viðriðinn innflutning A á fíkninefnum hingað til lands. Sé það mat lögreglu að hin haldlögðu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að kærði eigi beina aðild að innflutningnum. Þá telji lögregla einnig, miðað við það magn ætlaðra fíkniefna sem hald hafi verið lagt á í málinu, að háttsemi kærða og ætlaðra samverkamanna kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

                Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a, 206. og 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. desember 2013 og að kærða verði gert að sæta einangrun á þeim tíma.

                Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsi. Rannsókn málsins stendur yfir. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. desember 2013, kl. 16:00.

Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæslu stendur.