Hæstiréttur íslands
Mál nr. 187/2000
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Ölvunarakstur
|
|
Fimmtudaginn 14. september 2000. |
|
Nr. 187/2000. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Akstur án ökuréttar. Ölvunarakstur.
V var ákærður fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttar og gekkst hann við sakargiftum. Var héraðsdómur staðfestur og V sviptur ökurétti og dæmdur til fangelsisrefsingar, en um var að ræða margítrekað brot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða samkvæmt héraðsdómi verði þyngd, en ákvæði um ævilanga sviptingu ökuréttar staðfest.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bundin skilorði.
Í málinu er ákæði sóttur til saka fyrir að hafa 15. nóvember 1999 ekið bifreið ölvaður og sviptur ökurétti. Hann gekkst við þeim sakargiftum fyrir héraðsdómi. Samkvæmt gögnum málsins hefur ákærði á árunum frá 1981 til 1999 þrívegis hlotið dóm eða gengist undir sátt fyrir ölvunarakstur, sex sinnum fyrir akstur án ökuréttar og tvisvar fyrir hvort tveggja í senn. Hann var sviptur ökurétti tímabundið á árunum 1981, 1989 og 1992, en ævilangt árið 1981 og aftur 1994. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þessa sakferils, sbr. að nokkru 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða meðal annars gert að sæta fangelsi í fimm mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, eru ekki efni til að hreyfa við þeirri refsiákvörðun, sem skal því standa óröskuð. Með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verða staðfest ákvæði hans um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Valentínus Guðmundur Baldvinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 15. mars 2000
Málið, sem þingfest var 9. mars sl. og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru dagsettri 8. febrúar sl. á hendur Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni, kt. 160360-5699, Hverfisgötu 87, Reykjavík "fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni YY-451, að kvöldi mánudagsins 15. nóvember 1999, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti um Hverfisgötu og Barónsstíg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Sundhöllina.
Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”
Ákærði kom fyrir dóminn 9. mars sl. og viðurkenndi að hafa framið þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru máls þessa.
Með játningu ákærða, sem samrýmist gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1978 hlotið 8 refsidóma fyrir ýmisleg brot, þar af einn árið 1986 fyrir þjófnað og einn í Þýskalandi 1993 fyrir fíkniefnabrot og hegningalagabrot. Aðra dóma hefur hann hlotið fyrir ýmis umferðarlagabrot, aðallega fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttar. Þá hefur ákærði margsinnis verið sektaður fyrir ýmis brot, aðallega umferðarlagabrot og áfengislagabrot, en einnig fyrir fíkniefnabrot, húsbrot, líkamsmeiðingar, fjársvik og þjófnað.
Ákærði hefur sætt eftirfarandi refsingum, sem þykja hafa þýðingu í málinu: Hinn 19. apríl 1999 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar. Þar áður var hann hinn 21. október 1997 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, fyrir sama brot. Hinn 17. febrúar 1994 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur án ökuréttar og fyrir brot gegn 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga. Þá var ákærði hinn 7. janúar 1994 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar og ölvunarakstur, svo og fyrir áfengislagabrot. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 28. janúar 1994 að telja. Sá dómur var staðfestur með dómi Hæstaréttar í júní sama ár. Hinn 1. október 1992 gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt, 36.000 króna sekt, vegna aksturs án ökuréttar og brots gegn 1. mgr. 71. gr. umferðarlaga.
Er ákærði gerðist sekur um ölvunarakstur 15. nóvember sl. voru meira en 5 ár liðin frá því hann var síðast dæmdur fyrir slíkt brot, en það var með dómi 7. janúar 1994. Sá dómur hefur því ekki áhrif á ákvörðun viðurlaga í máli þessu. Ákærði hefur hins vegar ítrekað gerst sekur um akstur án ökuréttar.
Með hliðsjón af sakarferli ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði.
Þá hefur ákærði unnið sér til þess að vera sviptur ökurétti svo sem krafist er í ákærunni og samkvæmt lagaákvæðum þeim, er þar greinir. Ákærði er þegar sviptur þessum rétti og ber að árétta að svo skuli vera ævilangt.
Rétt þykir að kostnaður að fjárhæð 39.872 krónur vegna lyfjarannsóknar á blóðsýni úr ákærða greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði annan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl, sem þykir hæfilega ákveðin 25.000 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Valentínus Guðmundur Baldvinsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.
Kostnaður vegna lyfjarannsóknar á blóðsýni úr ákærða greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði annan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 25.000 krónur.