Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. mars 2004.

Nr. 125/2004.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 25. mars 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Það athugast að kærumálsgögn bárust ekki Hæstarétti svo tímanlega sem ætlast mátti til.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2004.

                Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X skuli sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. mars kl. 16:00. Um lagaheimildir er vísað til 103. gr. a liðar laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

[...]

Kærða er grunuð um brot gegn fíkniefnalöggjöf sem varðað geta fangelsisrefsingu ef sök sannast. Hún neitar sakargiftum. Rannsóknargögn, sem fyrir liggja, vekja hins vegar sterkan grun um aðild hennar að sölu fíkniefna. Verður að telja að rökstuddur grunur sé til staðar um að hún sé sek um þá háttsemi sem hún er grunuð um.  Rannsókn málsins hefur staðið nokkurn tíma en er ólokið, yfirheyra þarf kærðu frekar sem og vitni. Verður að telja að hætta sé á því að kærða geti torveldað rannsókn málsins fari hún frjáls ferða sinna, meðal annars með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum og að hún gæti komið hugsanlegum sönnunargögnum undan. Þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi og er krafa sýslumannsins á Selfossi um að kærða sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett enda þykir tímalengd í hóf stillt.

Hjördís Hákonardóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 25. mars kl. 16:00.