Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/2004


Lykilorð

  • Eignarnám
  • Matsgerð
  • Dómstóll


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. mars 2005.

Nr. 349/2004.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.)

gegn

Kristbjörgu Hrólfsdóttur

(Karl Axelsson hrl.

 Kristín Edwald hdl.)

 

Eignarnám. Matsgerð. Dómstólar.

Í málinu var deilt um fjárhæð eignarnámsbóta vegna eignarnáms úr jörðinni Þ í tilefni af færslu á þjóðvegi númer eitt og smíði nýrrar brúar yfir Þjórsá. Matsnefnd eignarnámsbóta mat bætur fyrir land undir nýtt vegstæði 2.295.000 kr., bætur vegna verðrýrnunar lands í næsta nágrenni við hinn nýja veg 3.816.000 kr. og bætur vegna almennrar verðrýrnunar jarðarinnar 5.000.000 kr. Eignarnemi greiddi K, eiganda Þ, bætur vegna lands undir nýtt vegstæði, en féllst ekki á niðurstöðu matsnefndar að því er varðaði tvo síðarnefndu matsliðina. Fékk hann dómkvadda matsmenn sem mátu verðrýrnun vegna áhrifa á verð lands í tiltekinni fjarlægð frá þjóðvegi, heimreið og reiðvegi 1.268.000 kr. og vegna áhrifa, sem flutningur vegstæðis og vegarlagningin hefði á jörðina almennt 2.350.000 kr. Talið var að eignarnemi gæti borið ágreining um fjárhæð bótanna undir úrlausn dómstóla þótt hann hafi tekið umráð spildunnar. Úrskurðir matsnefndar eignarnámsbóta sættu endurskoðun dómstóla og væru ekki rétthærri matsgerðum dómkvaddra manna, heldur væru þeir metnir eftir verðleikum hverju sinni. Var fallist á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna um að bætur vegna verðrýrnunar lands meðfram veginum væru hæfilega ákveðnar 1.268.000 kr. Aftur á móti var K ekki talinn hafa sýnt fram á, að lagning hins nýja vegar hafi haft í för með sér almenna verðrýrnun jarðarinnar. Voru K því ekki dæmdar bætur vegna þessa liðar. Var Í því gert að greiða K 1.268.000 kr. með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. ágúst 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefndu 3.618.000 krónur með vöxtum samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2003 til greiðsludags og málskostnaður látinn niður falla.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og lýst er í héraðsdómi ákvað Vegagerðin á árinu 2002 að taka eignarnámi spildu úr jörðinni Þjórsártúni í Ásahreppi vegna færslu þjóðvegar nr. 1 og byggingar nýrrar brúar yfir Þjórsá, sem er um það bil 800 m neðan við gömlu brúna. Heildarstærð hins eignarnumda lands er 7 hektarar, þegar tekið er tillit til lands undir eldra vegi, sem skilað var til stefndu, en jörðin er alls 225 hektarar að stærð.

 Matsnefnd eignarnámsbóta heimilaði eignarnema að taka umráð landsins 27. september 2002, þótt mati á bótum væri ekki lokið, en nefndin kvað upp úrskurð um bætur til handa stefndu 7. janúar 2003. Taldi nefndin hæfilegar bætur vegna eignarnámsins vera samtals 11.111.000 krónur. Auk bóta fyrir land undir nýtt vegstæði, 2.295.000 krónur, taldi nefndin bætur vegna verðrýrnunar lands í næsta nágrenni við nýja veginn nema 3.816.000 krónum og bætur vegna almennrar verðrýrnunar jarðarinnar 5.000.000 krónum. Eignarnemi féllst ekki á niðurstöðu matsnefndar að því er varðar tvo síðarnefndu matsliðina en greiddi stefndu bætur vegna lands undir nýtt vegstæði auk málskostnaðar 31. janúar 2003, samtals 3.675.457 krónur.

Eignarnemi fór fram á dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja niðurstöðu matsnefndar að því er varðar aðra þætti en hann greiddi bætur fyrir, og er matsgerð þeirra dagsett 30. september 2003. Töldu þeir, að fullar bætur til stefndu vegna verðrýrnunar jarðarinnar væru 3.618.000 krónur, sem þeir sundurliðuðu þannig, að 1.268.000 krónur væri verðrýrnun vegna áhrifa á verð lands í tiltekinni fjarlægð frá þjóðvegi, heimreið og reiðvegi, og 2.350.000 krónur væri verðrýrnun vegna áhrifa, sem flutningur vegstæðis og vegarlagningin hefði á jörðina almennt.

Ágreiningur málsaðila snýst um það, hvort áfrýjandi sé að lögum bundinn við að greiða stefndu bætur í samræmi við úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta, og sé svo ekki talið, hvort og þá hvaða bætur áfrýjanda beri að greiða stefndu vegna ætlaðra áhrifa eignarnámsins á verðmæti jarðarinnar.

II.

Stefnda heldur því fram, að áfrýjanda sé að lögum skylt að greiða sér bætur í samræmi við úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 7. janúar 2003. Skýra verði 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með hliðsjón af fyrirmælum 14. gr. og 15. gr. þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 11/1973, segi um 13. gr. og 14. gr. að hafi eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis geti hann ekki leitað úrlausnar dómstóla um fjárhæð bóta.

Í 13. gr. laga nr. 11/1973 er kveðið á um það, að eignarnemi geti, þegar mat liggur fyrir, tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar. Undantekning frá þeirri reglu kemur fram í 14. gr. þar sem segir, að matsnefnd geti, þótt mati sé ekki lokið, heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins. Í 17. gr. laganna segir, að leita megi úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms, þar á meðal ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta, en um síðastgreint atriði þó ekki fyrr en úrlausn matsnefndar liggur fyrir. Allar takmarkanir á aðgangi manna að dómstólum verða að koma fram með skýrum hætti í lögum. Í 17. gr. laganna er ótvíræð heimild til að bera ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta undir dómstóla og er þar ekki gerður greinarmunur á eignarnema og eignarnámsþola. Er fallist á með héraðsdómi, að áfrýjanda sé heimilt að bera ágreining þennan undir dómstóla.

III.

Eins og að framan greinir er í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta og matsgerð dómkvaddra manna komist að mismunandi niðurstöðu um fjárhæð eignarnámsbóta. Eru málsaðilar þó sammála um, að leggja skuli til grundvallar að verðmæti lands sé 300.000 krónur á hektara, og hefur Vegagerðin þegar greitt stefndu bætur fyrir land undir vegstæðið.

 Bæði matsnefndin og hinir dómkvöddu matsmenn töldu að bæta bæri verðrýrnun lands meðfram vegi svo og almenna verðrýrnun jarðarinnar. Áfrýjandi telur sig þegar hafa greitt stefndu eðlilegar bætur að fullu, en reisir varakröfu sína á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna. Stefnda reisir kröfu sína á úrskurði matsnefndar, sem hún telur vera rétthærri heimild en matsgerð um fjárhæð eignarnámsbóta. Matsnefndin starfi lögum samkvæmt á landsvísu og sé sérfróð um ákvarðanir eignarnámsbóta. Beri því að leggja úrskurði hennar til grundvallar ákvörðun bóta, nema þeim hafi verið hnekkt með fullnægjandi sönnunargögnum, og svo sé ekki í máli því, sem hér um ræðir.

 Matsnefnd eignarnámsbóta er lögbundið stjórnvald. Úrskurðir hennar sæta endurskoðun dómstóla og eru ekki rétthærri matsgerðum dómkvaddra manna, heldur verða þeir metnir eftir verðleikum hverju sinni.

Í rökstuðningi matsnefndar eignarnámsbóta kemur fram, að jörðin Þjórsártún sé vel staðsett vegna nálægðar við þéttbýlið á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Jörðin sé ekki landmikil og sé því öll skerðing á nýtanlegu landi hennar til þess fallin að rýra heildarverðmæti jarðarinnar meira en ef um landmikla jörð væri að ræða. Nýi vegurinn komi til með að skera verðmæta hluta jarðarinnar eftir endilöngu og feli vegarlagningin sem slík í sér almenna verðlækkun á jörðinni, sérstaklega þar sem hluti af gamla veginum eigi að haldast opinn sem reiðleið. Nefndin telur að ekki skuli einungis taka tillit til þeirrar nýtingar, sem nú sé á jörðinni, því að ljóst þyki, að landið geti að einhverju leyti hentað fyrir lóðir undir sumarhús eða heilsársbyggð, þótt það hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð. Ekki er talið, að hin nýja veglagning feli í sér sérstakt hagræði fyrir stefndu, jafnvel þótt umferð færist fjær húsakosti á jörðinni. Nefndin telur ljóst, að land í allt að 150 m fjarlægð frá miðju hins nýja vegar muni aldrei nýtast undir byggð, en það sé þó unnt að nýta til hefðbundinna landbúnaðarnota, svo sem verið hefur. Heildarstærð þess lands utan vegstæðisins er 25,44 hektarar. Er verðrýrnun þess lands metin á 150.000 krónur á hektara, eða samtals 3.816.000 krónur.

Hinir dómkvöddu matsmenn telja, eins og matsnefndin, að áhrifa vegarins gæti út fyrir það svæði, sem tekið er eignarnámi, en þeir miða við að áhrifasvæði þetta sé í allt að 250 m fjarlægð frá miðju hans. Innan þessa svæðis hefði mátt byggja, en það sé ekki unnt lengur. Sömu áhrif nái 100 m út frá reiðveginum. Samtals er flatarmál þessa lands um það bil 53,7 hektarar. Matsmennirnir draga síðan frá áhrifasvæði gamla vegarins, sem einnig hafi verið 250 m út frá miðju hans, en land innan þess svæðis hafi ekki verið fallið til byggingar áður vegna nálægðar við umferðina. Flatarmál þessa lands er um það bil 36,8 hektarar. Eftir færslu vegarins verði því áhrifasvæði hins nýja vegar, heimreiðar og reiðvegar 16,9 hekturum stærra en áhrifasvæði gamla vegarins. Matsmenn benda á, að gamla vegstæðið hafi í raun verið afar óhagstætt fyrir eigendur jarðarinnar og hafi talsverð hætta verið fyrir búfénað og fólk, og telja að vegurinn í hinu nýja stæði muni ekki verða ábúendum óhagstæðari en gamli vegurinn var. Matsmenn miða við það, að samkvæmt aðalskipulagi, sem gildir til 2014, sé land Þjórsártúns landbúnaðarland. Þeir telja, að sumarbústaðalóðir verði ekki eftirsóttar í landinu, þótt skipulagðar yrðu, meðal annars vegna virkjunaráforma, auk þess sem landið sé tiltölulega flatt og bert og hafi ekki þá almennu kosti, sem slíkt land þurfi að hafa til að teljast eftirsóknarvert. Matsmenn telja því að meta skuli landið sem landbúnaðarland, en hugsanlegt sé, að á jörðinni verði í framtíðinni reist 2 til 5 frístunda- eða heilsárshús til annars en búskapar. Telja þeir, að verðfall lands vegna nálægðar vegarins sé hæfilega metið 25% af markaðsverði, og sé því verðrýrnun af þessum sökum 75.000 krónur á hektara, eða samtals 1.268.000 krónur.

Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um bætur fyrir verðrýrnun lands meðfram veginum er mjög ítarleg og vel rökstudd. Úrskurður matsnefndarinnar er aftur á móti lítt rökstuddur. Ekki virðist þar tekið tillit til þess, að hringvegurinn hefur legið í gegn um land Þjórsártúns um áratuga skeið. Við matið var einungis tekið að hluta tillit til þess landsvæðis, sem skilað var, en ekki til þess, að gamla veginum fylgdi líka áhrifasvæði, sem ekki var lengur fyrir hendi, og fór ekkert mat fram vegna þess. Um þetta var aftur á móti ítarlega fjallað í matsgerðinni.

Samkvæmt framansögðu er fallist á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmann um, að bætur vegna verðrýrnunar lands meðfram veginum séu hæfilega ákveðnar 1.268.000 krónur.

IV.

Eins og að framan greinir komst matsnefnd eignarnámsbóta að þeirri niðurstöðu, að almenn verðrýrnun jarðarinnar Þjórsártúns vegna eignarnámsins væri 5.000.000 krónur. Dómkvaddir matsmenn töldu verðrýrnunina vera 2.350.000 krónur, en ekki hefur verið leitað yfirmats.

Rökstuðningur matsnefndar eignarnámsbóta að því er þennan lið varðar er ákaflega rýr. Eins og að framan er getið miðast mat nefndarinnar við þá framtíðarnýtingu landsins að það henti fyrir lóðir undir sumarhús eða heilsársbyggð. Nefndin bendir á það, að heildarverðmæti landsins rýrni vegna þess að nýi vegurinn skeri verðmætan hluta þess eftir endilöngu, en jörðin sé ekki landmikil. Þá feli það einnig í sér almenna verðlækkun á jörðinni að hluti gamla vegarins eigi að haldast opinn sem reiðleið. Ekki er rökstutt á hvaða grundvelli komist var að niðurstöðunni. Hér er þó um stefnubreytingu að ræða hjá nefndinni, að því er fram kom í málflutningi fyrir Hæstarétti, svo að enn ríkara tilefni hefði verið að gera ítarlega grein fyrir breyttri afstöðu nefndarinnar.

Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um að nýi vegurinn hafi í för með sér almenna verðrýrnun jarðarinnar er rökstudd með því, að með tilkomu nýs vegstæðis verði ábúendur að laga nýtingu jarðarinnar að hinum breyttu aðstæðum og því muni fylgja kostnaður, sem valdi verðrýrnun á jörðinni í heild. Þá sé reiðvegur og það, að hluta gamla þjóðvegarins verði haldið opnum sem neyðarleið, kvöð á jörðinni og valdi verðrýrnun og loks verði um aukinn rekstrarkostnað og óhagstæðari nýtingu að ræða. Gegn mótmælum áfrýjanda verður ekki fallist á, að þeir þættir, sem hér um ræðir, eigi við haldbær rök að styðjast. Hefur stefnda því ekki sýnt fram á, að lagning hins nýja vegar hafi haft í för með sér almenna verðrýrnun jarðarinnar. Verða því stefndu ekki dæmdar bætur vegna þessa liðar.

Niðurstaða málsins verður því sú, að áfrýjandi greiði stefndu 1.268.000 krónur með vöxtum svo sem í dómsorði greinir.

Rétt er, að áfrýjandi greiði stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Kristbjörgu Hrólfsdóttur, 1.268.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. febrúar 2003 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2004.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 17. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Kristbjörgu Hrólfsdóttur, Þjórsártúni, Ásahreppi, Rangárvallasýslu, á hendur Vegagerðinni, Borgartúni 5, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 12. febrúar 2003.

             Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 12.491.457 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. janúar 2003 til greiðsludags.

             Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Til frádráttar komi síðan innborgun stefnda hinn 31. janúar 2003, að fjárhæð 3.675.457 krónur.

             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst stefndi þess, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

II

             Málavextir eru þeir, að með matsbeiðni, upphaflega dagsettri 18. júní 2002, óskaði Vegagerðin eftir því að matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á spildu úr jörðinni Þjórsártúni, Ásahreppi, en eignarnámsþoli, stefnandi málsins, er eigandi jarðarinnar. Tilefni eignarnámsins var vegalagning hringvegar að nýrri brú yfir Þjórsá, u.þ.b. 800 m, neðan við núverandi brú yfir ána.

             Eignarnámið náði til landspildu undir hinn nýja veg í landi Þjórsártúns. Vegsvæðið í landi jarðarinnar er 1.060 m langt og 60 m breitt. Auk þess þarf að skerða land jarðarinnar til viðbótar vegna „skeringar” við veginn. Heildarflatarmál 60 m breiðs vegsvæðis og land undir „skeringar” er 7,45 ha. Til viðbótar fara 1,5 ha lands undir nýja heimreið að Þjórsártúni. Stefndi var reiðubúinn til að skila landi undir núverandi vegsvæði hringvegar til eignarnámsþola, stefnanda málsins, að svo miklu leyti sem ekki er þörf á því undir reiðveg. Ætlunin er að skila til eignarnema 1,95 ha lands með þessum hætti. Heildarstærð hins eignarnumda er því 7,0 ha.

             Lagaheimild til eignarnámsins er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

             Málið var fyrst tekið fyrir á vettvangi 23. september 2002. Stefndi krafðist þess, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, að sér yrðu heimiluð umráð hins eignarnumda þótt mati væri ekki lokið, en því var mótmælt af stefnanda. Með bréfi nefndarinnar, dagsettu 27. september 2002, var málsaðilum tilkynnt að nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að heimila eignarnema umráð hins eignarnumda þótt mati væri ekki lokið.

             Matsnefnd eignarnámsbóta felldi úrskurð um bætur til handa stefnanda hinn 7. janúar 2003. Í áliti nefndarinnar segir svo að fallist sé á það með eignarnámsþola að jörðin Þjórsártún sé vel staðsett og einmitt á því svæði landsins sem eftirsóknarvert þykir vegna nálægðar við þéttbýlið á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Telur matsnefndin að þróun landverðs á þessum slóðum undanfarin ár renni stoðum undir þessa staðhæfingu. Síðan segir: „Hinn nýi vegur um land eignarnámsþola kemur til með að skera verðmætan hluta jarðarinnar eftir endilöngu og felur því framkvæmdin í sér meira tjón fyrir eignarnámsþola en væri ef einungis skák í útjaðri jarðarinnar væri tekin eignarnnámi. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að jörðin er ekki landmikil og því öll skerðing á nýtanlegu landi hennar til þess fallin að rýra heildarverðmæti jarðarinnar meira en ef um landmikla jörð væri að ræða. Af þessum sökum er það álit matsnefndarinnar að veglagningin sem slík feli í sér almenna verðlækkun á jörðinni, sérstaklega þar sem hluti af gamla veginum á að haldast opinn sem reiðleið.

             Fallist er á það með eignarnámsþola að við matið skuli ekki einungis taka tillit til þeirrar nýtingar sem á jörðinni er nú. Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarbústaðabyggð þykir ljóst að landið geti að einhverju leyti hentað fyrir lóðir undir sumarhús eða heilsársbyggð. Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 á bls. 906.

             Matsnefndinni þykir ljóst að land í allt að 150 m fjarlægð frá hinum nýja vegi, þ.e. 120 m hvorum megin vegarins frá hinni eignarnumdu spildu, muni aldrei nýtast undir byggð, hvort sem er sumarhúsabyggð eða annars konar byggð. Eignarnámsþoli mun allt að einu geta nýtt þann hluta landsins til hefðbundinna landbúnaðarnota svo sem verið hefur og því er ekki litið svo á að þessi hluti landsins verði verðlaus þrátt fyrir lagningu hins nýja vegar.

             Fallist er á það með eignarnema að til frádráttar bótum fyrir hið eignarnumda skuli koma verðmæti 1,95 ha spildu sem skilað er aftur. Þess ber þó að geta að á þeirri spildu er nú steyptur vegur sem gerir hana verðminni til sumarhúsabyggðar og/eða frístundanotkunar auk þess sem af veginum er nokkur sjónmengun. Sú spilda er því að áliti matsnefndarinnar ekki eins verðmikil og óspjallað land á svæðinu.

             Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að hann eigi að fá sérstakar bætur fyrir efnistöku á þeim hluta landsins sem eignarnemi tekur eignarnámi, enda eru bætur fyrir þann hluta landsins miðaðar við að um fullt verð á því landi sé að ræða með þeim gögnum og gæðum sem því fylgja.

             Ekki er fallist á það með eignarnema að hin nýja veglagning feli í sér sérstakt hagræði fyrir eignarnámsþola, jafnvel þótt umferð færist fjær húsakosti á jörðinni.

             Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar bætur vegna eignarnámsins vera sem hér segir:

Bætur fyrir land undir nýtt vegsvæði 8,95 ha x 300.000                                kr.                                2.685.000

-skilað landi 1,95 ha x 200.000                                (kr.                                390.000)

Verðrýrnun lands í næsta nágrenni við hinn

nýja veg 1.060 m x 240 m x 150.000 pr. ha                                kr.                                3.816.000

Almenn verðrýrnun jarðarinnar vegna aðstæðna

sem lýst hefur verið                                kr.                                5.000.000

Eignarnámsbætur samtals                                 kr.                                11.111.000

Ekki þykja efni til að greiða sérstakar bætur fyrir meint tjón eignarnámsþola af völdum ónæðis og/eða röskunar á framkvæmdatímanum.”

Í framhaldi af niðurstöðu matsnefndarinnar leitaði stefnandi eftir uppgjöri samkvæmt úrskurðinum. Með bréfi stefnda, dagsettu 23. janúar 2001, var stefnanda tilkynnt að stefndi hygðist ekki hlíta úrskurði matsnefndarinnar nema að hluta, þ.e. greiða metnar bætur fyrir land í vegsvæði og málskostnað. Í bréfinu kemur fram að stefndi fallist ekki á niðurstöðu úrskurðarins um bætur vegna verðrýrnunar lands í næsta nágrenni vegar né heldur bætur vegna almennrar verðrýrnunar, og talið að skorti á röksemdafærslu í forsendum úrskurðarins.

Með bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 28. janúar 2003, var afstöðu stefnda mótmælt.

Með bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 31. janúar 2003, var boðað að farið yrði fram á dómkvaðningu matsmanna sem og að greiddar hefðu verið 3.675.457 krónur inn á reikning lögmanns stefnanda. Með bréfi stefnanda til stefnda, dagsettu 3. febrúar 2003, var stefnda tilkynnt að tekið yrði við greiðslunni sem innborgun inn á kröfu stefnanda, samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.

Stefndi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 2003. Í tilefni af því mótmælti stefnandi matsbeiðninni sem algjörlega þýðingarlausri varðandi lögskipti aðila, í ljósi þess að fyrir lægi niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta í matsmálinu, sem að lögum væri bindandi fyrir matsbeiðanda.

Í framhaldi af því voru dómkvaddir tveir sérfróðir matsmenn til þess að meta fjárhagslegt tjón vegna verðrýrnunar jarðarinnar Þjórsártúns af völdum eignarnámsins, á grundvelli eftirfarandi atriða:

1)        Hver er skerðing heppilegs byggingarlands jarðarinnar Þjórsártúns vegna færslu hringvegar, að teknu tilliti til þess að gamla veginum er skilað að hluta en hluti breytist í reiðleið, svo og að frádreginni hinni eignarnumdu spildu sem bætt hefur verið að fullu? Metið verði:

a)       Flatarmál lands meðfram nýja veginum, sem almennt er vel fallið til bygginga, en verður ekki framvegis nýtanlegt sem slíkt vegna vegarins.

b)       Flatarmál lands meðfram gamla veginum sem nýtanlegt verður til bygginga við færslu hringvegar.

2)        Hvaða áhrif er líklegt að færsla hringvegar og breytt not gömlu brúarinnar hafi á verðmæti mannvirkja jarðarinnar Þjórsártúns, s.s. íbúðarhúsa, með tilliti til þeirrar breytingar frá núverandi ástandi að bílaumferð færist fjær mannvirkjum?

3)        Telja matsmenn að nýi vegurinn sé lagður á verðmætari hluta jarðarinnar en sá gamli? Ef svo er skal meta áhrif þess á heildarverðmæti jarðarinnar Þjórsártúns.

4)        Hefur lega reiðleiðar eftir gömlu brúnni og vegstæði gamla vegarins að nýrri heimreið að Þjórsártúni áhrif á verðmæti jarðarinnar í heild að teknu tilliti til þess að engar skyldur verða á landeiganda vegna girðinga meðfram henni?

5)        Hver eru áhrif breytinga af völdum eignarnámsins á nýtingu jarðarinnar miðað við núverandi nýtingu, og fyrirsjáanlega nýtingu hennar, að teknu tilliti til hagræðis af nýjum girðingum og undirgöngum undir nýjan veg? Metið verði eftirfarandi fyrir og eftir framkvæmdir:

a) Stærð og nýting túna og ræktunarhæfs lands.

b) Stærð og nýting beitilands.

6) Þess er óskað, að matsmenn taki afstöðu til þess hvort jörðin Þjórsártún teljist hafa rýrnað í verði með vísan til mats á liðum 1) - 5) hér að framan og meti fullar bætur til matsþola vegna verðrýrnunar jarðarinnar.

Hinir dómkvöddu matsmenn svöruðu ofnagreindum matsspurningum á eftirgreindan hátt, hinn 30. september 2003: 1a) 53,7 hektarar. 1b) 36,8 hektarar. 2) Færsla vegarstæðisins ein og sér veldur ekki marktækum mun á markaðsverði núverandi mannvirkja jarðarinnar. 3) Matsmenn telja ekki að nýi vegurinn sé lagður á verðmætari hluta jarðarinnar. 4) já. 5a) Matsmenn telja ekki að breytingarnar hafi áhrif á stærð og nýtingu túna eða ræktunarhæfs lands. 5b) Matsmenn telja að nýting beitilands kunni að verða lítilsháttar lakari eftir breytingarnar, 6) Fullar bætur til matsþola vegna verðrýrnunar jarðarinnar eru kr. 3.618.000. Fjárhæðin sundurliðast þannig að kr. 1.268.000, er verðrýrnun vegna áhrifa á verð lands í tiltekinni fjarlægð frá þjóðvegi, heimreið og reiðvegi og kr. 2.350.000, er verðrýrnun vegna áhrifa sem flutningur vegastæðis og vegalagningar hefur á jörðina almennt.

Rökstuddu þeir verðrýrnun vegna minni nýtingarmöguleika lands með því, að flutningur hringvegar falli innan áhrifasvæðis vegar 16,9 hekturum stærra en það var fyrir flutninginn. Verðrýrnun þessa lands sé 75.000 krónur á hektara. Almenn verðrýrnun jarðarinnar, sem matsmenn mátu 2.350.000 krónur, töldu þeir til komna vegna þess, að með tilkomu nýs vegarstæðis verði ábúendur að laga nýtingu jarðarinnar að hinum breyttu aðsæðum. Þessari aðlögun muni fylgja kostnaður sem valdi verðrýrnun á jörðinni í heild. Aðlögunin gerist á nokkrum tíma og falli að einhverju leyti undir viðhald mannvirkja. Þá töldu þeir, að lagning reiðvegar og það að hluti gamla þjóðvegarins verði haldið opnum sem neyðarleið sé kvöð á jörðinni Þjórsártúni og valdi verðrýrnun. Ekki væri um verulegt álag að ræða en þó óhjákvæmilegt að meta þessa kvöð sem verðrýrnun. Þá töldu þeir vissa þætti í rekstri jarðarinnar munu verða kostnaðarsamari en áður eftir flutning hringvegar og að eigendur jarðarinnar þurfi að bera aukinn kostnað vegna þessa, sem valdi verðrýrnun. Nýi þjóðvegurinn, heimreið og reiðvegur muni og skipta jörðinni á vissan hátt í þrjá aðskilda hluta í stað tveggja áður, en hafi þar þó ekki mikil áhrif.

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á því, að stefnda sé að lögum skylt að greiða stefnanda bætur í samræmi við úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta frá 7. janúar 2003. Stefndi hafi enga tilraun gert til þess að benda á ágalla á úrskurðinum, sem valdið gætu vafa um formlegt gildi hans að lögum. Byggir stefnandi á því, að hvað sem líði óánægju stefnda með efnislega niðurstöðu nefndarinnar þá sé réttarstaðan allt að einu sú, að hann eigi ekkert val og beri að greiða stefnanda bætur samkvæmt úrskurðinum. Fyrirmæli laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sbr. 14. og 15. gr. laganna, séu algjörlega skýr að þessu leyti, sbr. niðurlagsákvæði 15. gr., þar sem beinlínis sé mælt fyrir um það, að eignarnema sé að kröfu eignarnámsþola skylt að greiða eignarnámsbætur, ef eignarnemi hafi tekið umráð eða hafið hagnýtingu verðmætis, eftir atvikum gegn tryggingu, sbr. 14. gr. laganna.

             Ljóst sé því að stefnda hafi verið skylt að greiða bætur samkvæmt fyrrgreindum úrskurði enda hafi hann þegar tekið umráð hins eignarnumda lands og sjálfur vísað ágreiningi um bótaákvörðun til matsnefndar eignarnámsbóta. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 11/1973, hafi verið gert ráð fyrir að úrlausnir matsnefndar yrðu bornar undir dómstóla, sbr. 17. gr. laganna. Frá þeirri meginreglu sé a.m.k. eitt skýrt frávik, sbr. athugasemdir með 13. og 14. gr. frumvarpsins, en þar segi að eignarnámsþoli geti leitað úrlausnar dómstóla um fjárhæð bóta, en eignarnemi á hinn bóginn geti ekki skotið slíkum ágreiningi til dómstóla, ef hann hafi tekið umráð eignarnumins verðmætis.

             Sjónarmið sem búi að baki 72. gr. stjórnarskrárinnar leiði eðli máls samkvæmt til afar þröngs svigrúms eignarnema undir kringumstæðum sem þessum. Um sé að ræða skýr skilyrði eignarskerðingar sem leidd verði af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, um greiðslu bóta áður en eignarskerðing geti farið fram. Telur stefnandi ólíðandi, ef heimila eigi undantekningu sem felist í umráðatöku lands, samkvæmt úrskurði matsnefndar, áður en bætur eru ákvarðaðar og greiddar, að eignarnemi sé ekki bundinn af úrskurði sömu nefndar um fjárhæð bóta. Stefndi verði að bera áhættuna sem felist í umráðatöku án þess að bótaákvörðun hafi legið fyrir. Heimild 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 til umráðatöku feli í sér afar þrönga undantekningu frá hinu stjórnarskrárbundna skilyrði. Slík heimild matsnefndar eignarnámsbóta til að heimila eignarnema umráðatöku verði að skýra til samræmis og í samhengi við önnur ákvæði laganna sem og það markmið þeirra að tryggja eignarnámsþola fullar og tryggar bætur. Eignarnemi sé því bundinn af úrskurði sama stjórnvalds um fjárhæð og greiðslu bóta.

             Þá byggir stefnandi á því, að stefndi, sem ríkisstofnun, beri að fara að lögum, og í því sambandi vísar stefnandi einkum til 9. kafla vegalaga nr. 45/1994, sbr. lög nr. 11/1973, þar sem ákveðið sé að náist ekki samkomulag um bætur þá skuli bætur ákvarðaðar af matsnefnd eignarnámsbóta. Stefndi hafi því ekki sama svigrúm og eignarnámsþoli til að láta reyna á ákvarðanir bótafjárhæðar, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973. Verði ráðið af lögskýringargögnum sem og innbyrðis skipan laganna, sbr. einkum 14. gr. og 15. gr. þeirra, að endurskoðunarheimild 17. gr. sé fyrst og fremst ætlað að vernda heimild eignarnámsþola til endurskoðunar, en ekki eignarnema. Ætli stefndi, sem ríkisstofnun, að fá hnekkt niðurstöðu annars stjórnvalds, matsnefndar eignarnámsbóta, verði slík heimild að eiga sér lagastoð, sem ekki sé til staðar.

             Stefnandi byggir á því, að niðurstöðu matsnefndar verði ekki hnekkt á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna og sú málsmeðferð eigi sér ekki lagastoð.

Ef hins vegar fallist verði á það með stefnda, að unnt sé að hnekkja niðurstöðu matsnefndarinnar á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna vísar stefnandi til greinargerðar sinnar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Stefnandi kveður Þjórsártún hafa verið stofnað sem nýbýli úr landi Kálfholts árið 1898. Jörðin sé að mestu þurrlend, um 250 ha. að stærð og öll gróin. Hlunnindi séu af lax- og silungsveiði í Þjórsá og í landi jarðarinnar sé heitt vatn. Jörðin sé í um 80 km fjarlægð frá Reykjavík og af henni sé gott útsýni. Nú sé stundaður sauðfjár- og hrossabúskapur á jörðinni, en til framtíðar litið sé landið kjörið til að reisa á því sumarbústaði eða aðra byggð og stunda á því skógrækt og útivist ýmiss konar. Fyrirsjáanlegt sé að verulegt ónæði verði af framkvæmdum á verktímanum auk þess sem skemmdir hafi verið unnar á túnum og ræktanlegu landi vegna efnistökunnar o.fl. sem muni hafa áhrif á búskap á framkvæmdatímanum. Fyrst og fremst sé um að ræða sauðfjárbúskap á jörðinni, sem sé afar viðkvæmur fyrir öllu raski af þessu tagi, og óhægt um vik að flytja sauðféð til meðan á framkvæmdum standi, enda jörðin lítil.

Stefnandi kveður, að samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sé rétt að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Síðan eigi að beita því sjónarmiði sem komi hagstæðast út fyrir eignarnámsþola. Við mat á bótum vegna eignarnámsins megi ekki leggja það til grundvallar að til frambúðar verði fyrst og fremst stundaður sauðfjárbúskapur á jörðinni svo sem nú sé gert. Komi þar einkum til stærð jarðarinnar, sem sé óhagkvæm fyrir slíkan búskap, en ekki síður staðsetning jarðarinnar nærri Stór-Reykjavíkursvæðinu, þróun á notkun og verði jarða á svæðinu. Land jarðarinnar sé kjörið til að reisa þar sumarhús eða eftir atvikum aðra heilsársbyggð.

Jörðin sé ekki nema 250 ha að stærð. Samkvæmt uppdrætti komi fram að um helmingur jarðarinnar sé neðan við núverandi hringveg en hinn helmingur hennar ofan hans. Sá hluti jarðarinnar sem sé neðan við núverandi hringveg muni klofna að endilöngu við lagningu hins nýja vegar sem feli í sér verulegt óhagræði og verðrýrnun, enda muni jörðin á eftir vera tvíklofin, annars vegar vegna hins nýja vegar og hins vegar vegna gamla vegarins sem verði haldið við áfram sem reiðvegi að hluta. Að mati eignarnámsþola sé því fráleitt að tjón hans sé einskorðað við það land sem fari undir hinn nýja veg. Þá verði að taka sérstakt tillit til þeirrar hljóð-, sjón- og loftmengunar sem leiði af hinum nýja stofnvegi og þeirri umferð sem fara muni um þann veg annars vegar og reiðveginn hins vegar. Vísar stefnandi til skýrslu KPMG ráðgjafar ehf., sem meti verðrýrnum vegna eignarnámsins 10,5 til 11 milljónir króna, miðað við að landinu sé skipt í eftirsóknarvert sumarbústaðaland á kr. 300.000 pr. ha annars vegar og verðminna land hins vegar á kr. 150.000 pr. ha og hafni því að nokkur verðmæti sé í þeim veghluta sem eignarnemi komi til með að skila aftur til eignarnámsþola. Þá hafi Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, metið verðrýrnun jarðarinnar vegna framkvæmda eignarnema 15.000.000 krónur.

             Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 11/1973, um eignarnám, og vegalaga nr. 45/1994, sem og meginreglna eignarréttar, sbr. einkum 72. gr. stjórnarskrárinnar.

             Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum. Stefnda beri að halda stefnanda skaðlausum af rekstri dómsmáls þessa, hver sem niðurstaðan verði, sbr. dómafordæmi um að fyrirmæli 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð verði túlkuð á þann veg.

             Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.    

IV

             Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því, að heimilt sé að bera ágreining um eignarnám, þ. á m. um fjárhæð bóta, undir dómstóla. Dómstólar eigi lögum samkvæmt úrlausn um réttarágreining, þ. á m. um ágreining er varði lögmæti ákvarðana stjórnvalda eins og matsnefndar eignarnámsbóta. Auk þess sé sérstaklega tekið fram í 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að dómstólar eigi úrlausn um ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta. Fram að setningu laga nr. 11/1973 hafi dómstólar, að því er virðist, ekki talið sér heimilt að fjalla um ágreining sem eingöngu hafi varðað fjárhæð eignarnámsbóta. Hins vegar hafi dómstólar fjallað um formlegt og efnislegt lögmæti ákvarðana, þ. á m. hvort ákvörðun um eignarnámsbætur væri byggð á réttum matssjónarmiðum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í dómabindi 1973, bls. 811. Með lögum nr. 11/1973 hafi ekki verið stefnt að því að þrengja málskotsheimildir vegna ákvörðunar eignarnámsbóta heldur þvert á móti að kveða á um með ótvíræðum hætti, að dómstólar ættu endanlegt ákvörðunarvald um fjárhæð bóta. Sú skipan laganna að leggja niður yfirmat en taka þess í stað upp mat á einu stigi hafi m.a. verið réttlætt með því að tryggður yrði réttur aðila til að skjóta mati til dómstóla. Ef girða hefði átt fyrir aðkomu dómstóla að ágreiningi um ákvörðun eignarnámsbóta í einhverjum tilvikum hefði þurft að taka það fram með skýrum hætti í texta laganna, en að öðrum kosti gildi ákvæði 17. gr. laganna um heimild til að bera ágreining um eignarnám, þ. á m. fjárhæð bóta, undir dómstóla.

Ákvæði 17. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sé ætlað að tryggja að dómstólar eigi aðkomu að úrlausn ágreinings um eignarnám og eignarnámsbætur. Enginn greinarmunur sé gerður á því hvort í hlut eigi eignarnemi eða eignarnámsþoli. Almannahagsmunir krefjist þess að stefndi, í hlutverki eignarnema, sem hafi það hlutverk að vinna að framkvæmdum í almannaþágu, geti borið slíkan ágreining undir dómstóla með sama hætti og stefnandi, sem eignarnámsþoli. Sömu sjónarmið um almannaheill liggi til grundvallar sjálfri eignarnámsheimildinni. Auk þess leiði meginreglan um jafnræði aðila til þess að málskotsréttur beggja aðila sé tryggður nema ríkar ástæður mæli gegn því. Samkvæmt 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms eða öðrum ákvæðum laganna sé ekki gerður greinarmunur á stöðu eignarnema og eignarnámsþola að því leyti að málskotsréttur sé almennt fyrir hendi.

Heimild eignarnema, samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 til að taka umráð hins eignarnumda, þrátt fyrir að mat á bótum sé ekki lokið, sé almennt orðuð og styðjist við eðlileg rök. Í sumum tilvikum geti verið útilokað að ljúka mati á tilteknum bótaliðum fyrir fram og mat geti verið svo viðamikið að óhjákvæmilegt sé að heimila umráð samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Í slíkum tilvikum geti mat ekki verið undanþegið umfjöllun dómstóla. Ummæli í greinargerð eigi ekki við í tilvikum sem hér um ræði. Tilvísun stefnanda til 15. gr. laga um framkvæmd eignarnáms eigi ekki við í máli þessu, þar sem stefndi hafi ekki í hyggju að hverfa frá eignarnámi og hafi ekki neitað skyldu til greiðslu eignarnámsbóta, en telji úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta ekki verða lagðan til grundvallar bótaákvörðun.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta varðandi meinta verðrýrnun lands, sé ekki fullnægjandi grundvöllur kröfu stefnanda. Við meðferð málsins hjá matsnefnd hafi ekki verið gætt þeirra reglna sem gildi um ákvörðun eignarnámsbóta, og við töku stjórnsýsluákvarðana almennt. Litið hafi verið fram hjá mikilvægum atriðum við meðferð málsins og rökstuðningur sé ófullnægjandi. Ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til fyrirliggjandi gagna í málinu. Tölulegri sundurliðun á bótaliðum sé ábótavant í úrskurði. Niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að hún hafi ofmetið stórlega áhrif færslu vegarins á verðmæti jarðarinnar. Þannig hafi ekki verið litið til þess að aðstæður varðandi umferð verði þær sömu og verið hafi fyrir eignarnámið, en færist einungis til í landi jarðarinnar við færslu vegarins. Liggi ekki fyrir að átroðningur vegna hins nýja vegar verði meiri en verið hafi af gamla veginum.

Ennfremur byggir stefndi sýknukröfu sína á því, að ekki liggi fyrir að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna verðrýrnunar þess hluta lands Þjórsártúns, sem ekki hafi verið tekinn eignarnámi, þannig að bótaskylt geti talist samkvæmt lagareglum og venjum sem gildi um ákvörðun eignarnámsbóta. Ekkert bendi til þess að markaðsverð jarðarinnar hafi eða muni lækka vegna framkvæmda, fyrir utan þá skerðingu sem verði vegna hinnar eignarnumdu spildu, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Einnig byggir stefndi sýknukröfu sína á því, að óheimilt sé að meta bætur sérstaklega vegna verðrýrnunar lands meðfram vegi annars vegar og vegna jarðarinnar í heild hins vegar. Telja verði annað tveggja að verðrýrnun kunni að verða á þeim hluta eignarinnar sem eftir verði eða að verðmæti eignarinnar breytist ekki. Verði ekki séð hvernig unnt sé að aðskilja land meðfram veginum með þessum hætti frá öðru landi jarðarinnar og meta verðrýrnun þess sérstaklega til viðbótar við verðrýrnun jarðarinnar í heild. Land meðfram veginum sé ekki sjálfstæð fasteign, sem nýtt verði með sjálfstæðum hætti eða hafi sjálfstætt verðgildi. Megi ætla að stefndi tvíbætti tjón vegna verðrýrnunar ef þessi háttur verði viðhafður.

Stefndi telur að finna megi að eftirgreindum atriðum við ákvörðun bóta fyrir verðrýrnun lands hjá matsnefndinni.:

1) Verðrýrnun lands meðfram hinni eignarnumdu spildu. Matsnefndin komist að þeirri niðurstöðu að byggingarland jarðarinnar skerðist um 25,4 ha til viðbótar því landi sem lagt verði undir nýjan veg. Bætur séu metnar sem svari til þess, að þetta land hafi rýrnað í verði um 50% við eignarnámið. Við nánari athugun komi í ljós að afmörkun þess svæðis meðfram veginum, sem nefndin telji að rýrni í verði, sé ónákvæm þar sem ekki sé tekið tillit til þess að eignarnámsspildan sé misbreið. Ekki sé lagt mat á það hvort umrædd landspilda teljist hæf sem byggingarland yfirleitt, en stefndi telur a.m.k. hluta hennar óbyggingarhæft land eða illa fallið til bygginga vegna aðstæðna og staðsetningar. Loks sé litið fram hjá því að vegur hafi legið um land Þjórsártúns um áratuga skeið og lengd vegsvæðis hringvegar svipað og verið hafi. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi láðst að taka tillit til jákvæðra breytinga sem færsla vegarins hafi í för með sér.

Ekki sé gert ráð fyrir byggingu á þessu landi í tillögu að aðalskipulagi Ásahrepps, sem auglýst hafi verið á síðastliðnu ári. Þrátt fyrir það sé nauðsynlegt, vegna úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta, að taka afstöðu til þess hve stór hluti lands meðfram nýja og gamla veginum teljist heppilegt byggingarland án tillits til vegarins. Ef litið verði svo á að lagning vegar á nýjum stað hafi áhrif til verðrýrnunar á landi meðfram vegi hljóti land meðfram gamla veginum að sama skapi að hækka í verði við það að umferðin færist á nýja veginn og sá gamli sé lagður niður sem þjóðvegur. Nauðsynlegt sé því að meta þá verðhækkun til frádráttar mögulegum bótum vegna meintrar verðrýrnunar lands meðfram nýja veginum. Stefndi telur land meðfram hringvegi í landi Þjórsártúns ekki ónýtanlegt til hvers kyns bygginga eftir lagningu vegarins, eins og segi í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.

2) Almenn verðlækkun jarðarinnar. Matsnefnd eignarnámsbóta komist að þeirri niðurstöðu, að almenn verðlækkun jarðarinnar nemi 5.000.000 króna. Sundurliðun og nánari útlistun á því hvaða forsendur liggi þessu til grundvallar skorti alveg. Stefndi telur ekkert benda til þess, að eignarnámið hafi afgerandi neikvæð áhrif á núverandi eða fyrirsjáanlega nýtingu annarra hluta jarðarinnar. Ekkert bendi til að sá hluti jarðarinnar sem nýr vegur verði lagður um sé verðmætari en aðrir hlutar hennar nema síður sé. Ennfremur telur stefndi að færsla vegarins hafi jákvæð áhrif á nýtingu mannvirkja, s.s. íbúðarhúsa, og geti þannig haft áhrif til hækkunar á verðmæti þeirra og lands næst þeim.

Stefndi mótmælir og sérstaklega kröfu stefnanda um málskostnað, þar sem krafan fari í bága við ákvæði laga um meðferð einkamála og eigi sér ekki stað í lögum um framkvæmd eignarnáms. Viðbrögð stefnanda að höfða mál til heimtu eignarnámsbóta hafi ekki verið óhjákvæmileg í ljósi þess að stefnda hafi verið rétt að hafna greiðslu á hluta bóta samkvæmt úrskurði, sem augljóslega hafi ekki verið byggður á nægilega traustum grunni.

Varakröfu sína byggir stefndi á því, að fráleitt sé að verðmæti jarðarinnar hafi lækkað um tæpar 9 milljónir umfram verðmæti hins eignarnumda við það eitt að hringvegur sé færður til í landinu og reiðvegur lagður á öðrum stað en áður. Færsla vegar og breikkun hans hafi ekki slík áhrif á verðmæti þess hluta jarðarinnar sem eftir sé, enda megi auðveldlega aðlaga landnýtingu að breytingunum. Þar sem eingöngu beri að ákveða stefnanda bætur vegna sannaðs og óumflýjanlegs fjárhagslegs tjóns, sé óhjákvæmilegt að lækka kröfur hans verulega. Verði talið að Þjórsártúnsjörðin hafi rýrnað í verði við framkvæmdina, beri að ákveða slíka verðrýrnun í einu lagi fyrir eignina í heild.

Þá hafi matsnefnd eignarnámsbóta ekki tekið mið af hugsanlegum jákvæðum áhrifum jafnt sem neikvæðum vegna vegarlagningarinnar og þar með geti niðurstaða hennar ekki gefið rétta mynd af breytingum á landnotkun og hvaða áhrif þær breytingar kunni að hafa á fjárhagsmuni stefnanda. Þá bendir stefndi á að matsnefndin hafi notað sama mælikvarða við mat á verðmæti lands óháð stærð þess. Söluverðmæti lands sé háð stærð þeirrar spildu sem seld sé hverju sinni. Við mat á verðrýrnun jarðarinnar verði að hafa í huga, að við sölu á nokkurra hektara spildu sé jafnan greitt hlutfallslega mun hærra verð pr. ha. Ennfremur beri að líta til fyrirliggjandi upplýsinga um verðmæti landsins frá Fasteignamati ríkisins, en væntanlega hafi verðmat landsins nýlega verið endurskoðað með hliðsjón af markaðsverði jarða. Svokallað verðmat sem stefnandi hafi lagt fram fyrir matsnefndina standi ekki undir nafni, þar sem þar sé engin afstaða tekin til þess hver verðmæti jarðarinnar kunni að vera, hvorki fyrir eða eftir framkvæmdir.

Við ákvörðun bóta beri og að hafa í huga, að um sé að ræða færslu á vegi, sem legið hafi um land Þjórsártúns um langt skeið. Mjög sé hallað réttu máli þegar stefnandi haldi því fram, að tvöfalt vegakerfi verði um landið. Sem fyrr muni hringvegur liggja um land jarðarinnar og heimreið að Þjórsártúni og jörðin því í sama vegarsambandi og áður. Reiðvegur, sem til þessa hafi legið meðfram þjóðveginum um landið, muni á kafla verða á gamla veginum og um gömlu brúna, annars staðar en þjóðvegurinn. Lítið ónæði verði af reiðveginum sem gefi ákveðna möguleika þegar komi að uppbyggingu þjónustu við ferðamenn. Þessar breytingar hafi því ekki í för með sér stórfellda verðrýrnun jarðarinnar. Þess beri og að geta að stefnanda hafi staðið til boða, að reiðvegur yrði lagður meðfram ánni og gamla veginum í heild skilað, en stefnandi hafi frekar kosið að reiðvegurinn skipti landinu.

Það hagræði, sem felist í færslu hringvegar frá íbúðarhúsum jarðarinnar, sé slíkt, að álitaefni sé hvort tjón hljótist af eignarnáminu yfirleitt. Hagræði vegna nýrra girðinga, undirganga undir veg o.fl. geri meira en að vega á móti óhagræði, sem kunni að skapast af breytingunni.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, 72. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, varðandi málsmeðferð.

Ennfremur vísar stefndi til ákvæða stjórnarskrárinnar um úrskurðarvald dómstóla um réttarágreining er snerti ákvarðanir stjórnvalda.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

             Í málinu krefur stefnandi stefnda um bætur vegna eignarnámsins á grundvelli úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta. Stefndi hefur greitt stefnanda 3.675.457 krónur, en hafnað greiðslu frekari bóta og byggir á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, að hluta.

             Eins og rakið hefur verið voru stefnda fengin umráð hins eignarnumda áður en niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta lá fyrir. Aðila greinir á um hvort lög um eignarnám heimili stefnda að leita til dómstóla með ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta þegar svo stendur á. Heldur stefnandi því fram að stefndi sé bundinn af úrskurðinum, þar sem stefndi hafi þegar tekið til umráða verðmæti, sem taka á eignarnámi, og í 15. gr. laganna er kveðið á um að, eftir kröfu eignarnámsþola sé eignarnema skylt að greiða eignarnámsbætur, ef eignarnemi hefur tekið umráð eða hafið nýtingu verðmætis. Í athugasemd með 14. gr. núgildandi laga um eignarnám segir svo m.a.: „Þegar eignarnámsmat liggur fyrir og eignarnemi hefur greitt eða boðið fram bætur, er honum rétt að framkvæma þá eignarskerðingu, sem felst í eignarnámi. Það girðir hins vegar ekki fyrir, að eignarnámsþoli leiti úrlausnar dómstóla um fjárhæð bóta, en það frestar ekki framkvæmd eignarnámsins. Ef eignarnemi á hinn bóginn tekur umráð eignarnumins verðmætis getur hann ekki skotið slíkum ágreiningi til dómstóla.“

             17. gr. laganna heimilar að bera undir dómstóla úrlausnir matsnefndar, en greinin hljóðar svo: „Leita má úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms, þar á meðal ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta, en um síðastgreint atriði þó ekki fyrr en úrlausn matsnefndar liggur fyrir.“ Samkvæmt orðalagi greinarinnar er bæði eignarnema og eignarnámsþola heimilt að bera ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta undir dómstóla. Með því að lögin sjálf kveða á um það með skýrum hætti, að dómstólar eigi endanlega úrlausn um fjárhæð eignarnámsbóta, er ekki þörf á að túlka orðalag greinarinnar með vísan til orðalags í greinargerð eða tilgangi eignarnáms. Verður því fallist á að heimilt sé að bera ágreining þennan undir dómstóla.

             Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan hefur matsnefnd eignarnámsbóta komist að þeirri niðurstöðu að hæfilegar bætur til handa stefnanda fyrir umrætt eignarnám séu 11.111.000 krónur. Er úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta lá fyrir greiddi stefndi stefnanda metnar bætur fyrir land undir vegsvæði, 2.295.000 krónur auk kostnaðar, samtals 3.675.457 krónur, en kvaðst ekki fallast á niðurstöðu úrskurðarins um bætur fyrir verðrýrnun lands í nágrenni vegar og almenna verðrýrnun jarðarinnar. Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að ekki sé unnt að leggja til grundvallar úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta um fjárhæð bóta til handa stefnanda, þar sem bæði séu formgallar og efnisgallar á úrskurði matsnefndarinnar. Við meðferð málsins hjá matsnefnd hafi ekki verið gætt þeirra reglna sem gildi um ákvörðun eignarnámsbóta og við töku stjórnsýsluákvarðana almennt. Rökstuðningur sé ófullnægjandi, ekki sé tekin rökstudd afstaða til fyrirliggjandi gagna og tölulegri sundurliðun sé ábótavant.

             Samkvæmt 10. gr. laga um eignarnám skal matsnefnd kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Í úrskurðinum skal gerð grein fyrir þeim atvikum og réttarreglum sem liggja til grundvallar niðurstöðu mats. Bótafjárhæð skal vera sundurliðuð og grundvelli útreikninga lýst. Jafnan skal taka afstöðu til ágreiningsatriða.

             Í rökstuðningi matsnefndar um eignarnámsbætur er lýst þeim sjónarmiðum sem nefndin lagði til grundvallar ákvörðun bótafjárhæðar. Kemur þar fram lýsing á jörðinni Þjórsártúni, staðsetningu hennar sem og hver skerðing jarðarinnar er með eignarnáminu. Þá kemur þar fram að við ákvörðun bóta sé tekið tillit til þeirrar nýtingar sem á jörðinni er, en jafnframt að miðað sé við að í framtíðinni eigi landið að geta nýst til sumarhúsabyggðar. Gerð er grein fyrir því að veglagningin muni hafa þau áhrif að landið nýtist ekki undir byggð, en muni nýtast til landbúnaðarafnota. Þá er og gerð grein fyrir því sem kemur til frádráttar bótum, en hafnað því sjónarmiði eignarnema að veglagningin feli í sér sérstakt hagræði fyrir eignarnámsþola. Þá telur matsnefnd eignarnámsbóta að almenn verðrýrnun jarðarinnar vegna eignarnámsins verði talsverð, bæði bein og óbein áhrif, þar sem jörðin verður margskipt við framkvæmdirnar.

             Eins og áður greinir fékk stefndi dómkvadda matsmenn til þess að meta til verðs hæfilegar bætur til handa stefnanda vegna eignarnámsins. Samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna telja þeir, andstætt því sem stefndi heldur fram, að bæta skuli sérstaklega verðrýrnun lands meðfram nýja veginum, sem tekið var eignarnámi, svo og meta sérstaklega almenna verðrýrnun jarðarinnar vegna eignarnámsins.

             Þá verður ekki séð að matsnefndina og dómkvadda matsmenn greini á um stærð þess svæðis, sem fer undir veglagningu, en hins vegar ber þeim ekki saman um hversu stórt land í næsta nágrenni við hinn nýja veg muni rýrna í verði við veglagninguna.

Matsnefnd eignarnámsbóta telur að 150 m spilda út frá vegmiðju nýja vegarins verði ekki nýtanleg til byggðar. Land sem fari undir vegstæði sé 2x30 m og því séu 120 m hvorum megin vegar sem bæta skuli með 150.000 krónum á ha, eða 50% af 300.000 krónum ha, sem hið eignarnumda land var metið á. Veglína í landi Þjórsártúns er 1060 m og spildan meðfram veginum, sem bæta skuli með framangreindri fjárhæð, því 1060 m x (150-30) x 2= 254.400 m², eða 25,44 ha. Matsnefnd eignarnámsbóta virðist ekki taka tillit til þess að spilda meðfram gamla veginum verði byggingarhæf eftir að notkun vegarins verði hætt. Reiðvegur verði í notkun á hluta gamla vegarins og virðist því matsnefndin leggja að jöfnu landið meðfram nýja reiðveginum og landið meðfram aflagða veginum. Metur nefndin hæfilegar bætur vegna þessa þáttar 25,44 x 150.000 =3.816.000 krónur.

             Dómkvaddir matsmenn miða hins vegar við 250 m spildu út frá vegmiðju eftir að hafa athugað fjarlægð bygginga frá hringveginum á leiðinni frá Selfossi að Hellu. Einnig miða þeir við 100 m spildu út frá nýjum reiðvegi, en rökstyðja ekki sérstaklega af hverju sú fjarlægð er notuð. Til frádráttar reikna þeir samsvarandi spildu meðfram gamla veginum, sem stefndi skilar. Mismunur þessara spildna sé 16,9 ha, sem þeir verðleggja á 25% af 300.000 kr. á ha, eða 75.000 krónur á ha. Hinir dómkvöddu matsmenn styðjast við annað verðmat á hektara, án þess að sérstaklega sé gerð grein fyrir á hverju sú fjárhæð þeirra byggist. Matmenn meta samkvæmt því bætur vegna svokallaðs áhrifasvæðis nýja vegarins 16,9 ha x 75.000 krónur = 1.267.500 krónur.

Samkvæmt framansögðu telur bæði matsnefnd eignarnámsbóta og hinir dómkvöddu matsmenn, að verðrýrnun verði á landi í næsta nágrenni við hinn nýja veg. Eru þeir og sammála um að leggja skuli til grundvallar að verð á hektara lands sé 300.000 krónur. Þar sem fyrir liggur að lagning nýs vegar um land stefnanda muni hafa áhrif á nýtingu lands í næsta nágrenni við veginn og fyrir liggur rökstuddur úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta um stærð þess lands, og því mati hefur ekki verið hnekkt með rökstuddum hætti af matsmönnum, ber að leggja þann úrskurð til grundvallar. Þá þykir dóminum eðlilegt að leggja til grundvallar 50% af metnu verði á hektara lands undir nýtt vegsvæði sem verð á hektara áhrifasvæðisins, eins og matnefnd eignarnámsbóta gerir.

              Það er samdóma álit matsnefndar eignarnámsbóta og hinna dómkvöddu matsmanna, að ný veglagning á jörðinni feli í sér almenna verðlækkun jarðarinnar, sérstaklega, m.a. þar sem hluti af gamla veginum eigi að haldast opinn sem reiðleið og jörðin verði því margskipt.

             Hinir dómkvöddu matsmenn meta þó hina almennu verðrýrnun jarðarinnar lægri en matsnefnd eignarnámsbóta gerir.

             Af framlagðri matsgerð, sem stefndi styður kröfur sínar við, verður ráðið að hinir dómkvöddu matsmenn byggi á sömu sjónarmiðum um almenna verðrýrnun jarðarinnar, en nálgist verðmatið með öðrum hætti, án þess að það verðmat þeirra sé rökstutt frekar en í úrskurði matsnefndarinnar.

Er það álit dómsins að lagning hringvegar um land stefnanda hafi þau áhrif sem í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta greinir og að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna haggi ekki því mati, sem byggist á gögnum sem lögð voru fyrir nefndina.

Með því að fyrir liggur rökstuddur úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta, sem samkvæmt framansögðu hefur ekki verið hnekkt, ber að fallast á kröfur stefnanda um fjárhæð skaðabóta vegna eignarnámsins. Verður því krafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett.

             Eftir þessari niðurstöðu ber, samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

             Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Eggerti Óskarssyni héraðsdómara og Sigurði Þórðarsyni verkfræðingi.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, Vegagerðin, greiði stefnanda, Kristbjörgu Hrólfsdóttur, 12.491.457 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. janúar 2003 til greiðsludags, að frádregnum 3.675.457 krónum, sem greiddar voru hinn 31. janúar 2003.

             Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.