Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 12. mars 2013. |
|
Nr. 159/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. apríl 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til c. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. apríl nk. kl. 16:00.
Ákærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að ákærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 106. gr., 217. gr., 233. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 o.fl. og vopnalög.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 8. febrúar sl. í máli nr. R-83/2013 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. mars kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Áður hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli áðurgreindra lagaákvæða með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. janúar sl. nr. R-22/2013 sem staðfestur var í Hæstarétti þann 15. janúar sl. (mál nr. 29/2013).
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði sé grunaður um auðgunarbrot, umferðarlagabrot, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot. Nú sé rannsókn málanna lokið og hafi ákæra verið gefin út þann 31. janúar sl. á hendur ákærða af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt hafi verið gefnar út ákærur á hendur ákærða þann 6. júlí 2012 af ríkissaksóknara fyrir brot gegn valdstjórninni og þann 9. júlí 2012 af lögreglustjóranum á Suðurnesjum fyrir líkamsárás og fíkniefnalagabrot. Hafi þessar ákærur nú verið sameinaðar til meðferðar hér í héraðsdómi Reykjaness undir málsnúmerinu S-[...]/2012. Aðalmeðferð málsins fari fram 4. apríl nk.
Þá kemur fram í greinargerðinni að þrátt fyrir ungan aldur eigi ákærði að baki nokkurn sakarferil. Í febrúar árið 2006 hafi ákvörðun refsingar verið frestað skilorðsbundið í 2 ár vegna þjófnaðarbrota. Í júní sama ár hafi ákærði verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundna í 2 ár, vegna ráns og í september hafi hann verið dæmdur til greiðslu sektar vegna þjófnaðarbrots og fíkniefnalagabrots. Þann 25. október 2007 hafi ákærði hlotið 4 mánaða fangelsi vegna umferðarlagabrota, fíkniefnalagabrota og þjófnaðar. Árið 2008 hafi ákærði svo í Hæstarétti verið dæmdur í 3 ára og 6 mánaða fangelsi vegna fjölda brota, m.a. auðgunarbrota og brots gegn valdstjórninni. Í janúar 2011 hafi ákærði svo í héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi vegna fjölda brota. Í nóvember sama ár hafi ákærði svo verið dæmdur í 45 daga fangelsi vegna umferðarlagabrota.
Við rannsókn mála ákærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu.
Með vísan til framangreinds og brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Þetta mat lögreglustjóra hafi verið staðfest með ofangreindum dómi Hæstaréttar og liggi ekkert fyrir sem breytir því mati.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til þess sem að framan segir og með vísan til rannsóknargagna málsins verður fallist á með lögreglustjóra að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Aðalmeðferð í málum hans fer fram 4. apríl nk. Verður því fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2009 séu uppfyllt og verður því krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. apríl nk. kl. 16:00.