Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2011


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Skuldajöfnuður
  • Uppgjör


 

Fimmtudaginn 15. mars 2012.

Nr. 507/2011.

 

Orkuveita Reykjavíkur

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

Vélsmiðjunni Altaki ehf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

 

Verksamningur. Skuldajöfnuður. Uppgjör.

K ehf. gerði verksamning við O en V ehf. var undirverktaki þess fyrrnefnda. Talið var að með samningi K ehf. og O um greiðslur beint til undirverktakans hefði K ehf. framselt kröfurétt sinn á hendur O til hans með samþykki O. V ehf. hefði með þessu eignast kröfu beint á O og var O bundinn af samþykki sínu gagnvart V ehf. Ekki var fallist á að O gæti notað kröfu sína á hendur K ehf. til skuldajafnaðar við kröfu V ehf. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm um greiðsluskyldu O með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist verður á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að samningur sem komst á um að áfrýjandi greiddi stefnda beint án milligöngu aðalverktakans Klæðningar ehf. hafi verið forsenda þess að stefndi héldi vinnu sinni við verkið áfram. Telja verður að í skuldbindingu áfrýjanda um þetta hafi falist afsal, að því er varðar reikninga frá stefnda, á rétti sem áfrýjandi annars kynni að hafa átt til að greiða reikningana með skuldajöfnuði við kröfur sínar á hendur aðalverktakanum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði stefnda, Vélsmiðjunni Altaki ehf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 25. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vélsmiðjunni Altaki ehf., kt. 591001-2990, Jónsvör 5, Vogum, með birtri stefnu 3. og 4. júní 2010, á hendur Orkuveitu Reykjavíkur, kt. 551298-3029, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði stefnanda kr. 71.947.080 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 8.919.093 frá 2. apríl 2009 til 1. ágúst s.á., en af kr. 15.551.721 frá þeim degi til 26. nóvember s.á., og af kr.71.947.080 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 26. nóvember 2010, en síðan árlega þann dag.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að fyrirtækið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefnandi, Altak ehf., var undirverktaki hjá Klæðningu ehf., sem var með verktakasamning við stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur.  Verk þau, sem stefnandi tók að sér voru eftirfarandi:

Verkið HH-I13 „Safnæðar og safnæðastofnar.“

Verkið HH-II15 „Lágþrýstiveita.“

Verkið HH-III06 „Safnæðar og safnæðastofnar“, sbr. dómskjal nr. 32.

Verkið HH-IV02 „Dælustöð og stýrihús á Reynisvatnsheiði“, sbr. dómskjal 33.

Verkið HH-IV04 „Hellisheiðar- og Engidalsæð.“

Greiðslur til stefnanda fóru þannig fram, að stefnandi gaf út reikninga á nafn aðalverktakans, Klæðningar ehf., sem gaf svo aftur út reikninga á nafn stefnda sem verkkaupa í þessum verkframkvæmdum.  Stefndi greiddi Klæðningu ehf., sem greiddi síðan stefnanda það, sem honum bar.

Haustið 2008 varð greiðslufall af hálfu Klæðningar ehf. til stefnanda vegna vinnu stefnanda í áðurnefndum verkum og jafnframt til fleiri undirverktaka Klæðningar ehf.  Í kjölfarið var ákveðið að breyta fyrirkomulagi varðandi greiðslu reikninga, þar sem fyrir lá, að áframhald vinnu stefnanda í verkinu var háð því, að stefnandi fengi greitt fyrir sína vinnu.  Með bréfum, dags. í október og nóvember 2008, frá Klæðningu ehf. til stefnda var lagt til, að eftirleiðis yrði það fyrirkomulag haft á vegna reikningagerðar fyrir verkin, að stefnandi sendi reikninga beint á stefnda, bæði fyrir umsamin verk og aukaverk, og stefndi myndi greiða þá beint til stefnanda.  Var sérstaklega tekið fram, að fyrirkomulagið myndi gilda til verkloka.  Stefndi samþykkti þessa breytingu á verksamningunum og óskaði m.a. eftir því, að verktaki skilgreindi, hvaða kaflar og liðir magnskrár tilheyrðu stefnanda.

Í framhaldinu var unnið eftir þessu fyrirkomulagi og sendi stefnandi reikninga beint á stefnda, sem greiddi stefnanda í samræmi við þetta nýja fyrirkomulag, bæði í verkum HH-III06 og HH-IV02, sem og í öðrum verkum. 

Þann 4. maí 2009 rifti Klæðning ehf. verksamningum við stefnda.  Stefnandi vann þó áfram fyrir stefnda eftir riftun, og var gerður sérstakur samningur milli stefnanda og stefnda varðandi áframhald vinnu við verkið HH-IV02.

Síðla sumars 2009 kveður stefnandi hafa komið í ljós, að stefndi ætlaði ekki að greiða að öllu leyti fyrir verk sem unnin voru fyrir riftun. 

Þann 23. september 2009 sendi eftirlit stefnda tölvupóst til stefnanda, þar sem kemur fram, að í ljósi þess, að vinnu við lokauppgjör vegna vinnu stefnanda væri að ljúka, yrði stefnandi að kalla eftir úttekt til að geta gengið frá verkinu, að öðrum kosti muni eftirlit framkvæma úttekt.  Í framhaldinu óskaði stefnandi eftir lokaúttekt á verkinu HH-III06.  Lokaúttekt fór síðan fram 28. september 2009 og voru í úttektinni gerðar athugasemdir við verk, sem unnin voru bæði fyrir og eftir riftun á verksamningi við Klæðningu ehf. 4. maí 2009.

Þann 13. nóvember 2009 sendi eftirlit stefnda uppgjör vegna vinnu stefnanda við verkið HH-III06.  Ný samantekt var svo send af eftirliti stefnda, en þá hafði einn liður verið tekinn út „Tímavinna 11.08 V/Ístaks“ kr. 956.608, og greiddi stefndi þann hluta. 

Þann 26. nóvember 2009 undirrituðu svo stefnandi og stefndu samkomulag um endanlegt uppgjör, m.a. vegna verksins HH-III06, vegna vinnu stefnanda eftir riftun Klæðningar ehf. á verksamningi hinn 4. maí 2009.  Í samkomulaginu tekur stefnandi sérstaklega fram að hann áskilji sér allan rétt á fullnaðargreiðslu vegna óuppgerðrar vinnu fyrir 4. maí 2009.

Stefnandi sendi stefnda reikning nr. 100748 vegna uppgjörs á verkinu HH-IV02 með gjalddaga 26. nóvember 2009 vegna vinnu í apríl 2009.  Stefndi endursendi reikninginn, m.a. með vísan til þess að sér bæri ekki að greiða reikninginn, þar sem samningur stefnda hafi verið við Klæðningu ehf. en ekki stefnanda.  Inn á þann reikning er handskrifaður texti svohljóðandi:  „Ágreiningur vegna skuldajöfnunar“, en ekki liggur fyrir, að stefndi hafi átt kröfu á stefnanda.  Kveður stefnandi stefnda með þessu hafna því í fyrsta skipti að greiða stefnanda fyrir vinnu, sem unnin var fyrir riftun á samningi Klæðningar ehf. og stefnda.

Með bréfum, dags. 2. febrúar 2010, krafðist stefnandi þess, að stefndi greiddi stefnanda fyrir þá vinnu, sem óumdeilt hafi verið, að stefnandi innti af hendi fyrir stefnda.  Með bréfum, dags. 4. marz 2010, hafnaði stefndi því, að honum bæri að greiða kröfur stefnanda.  Kveður stefnandi ástæðu þess, að stefndi hafnaði greiðslu, vera þá, að stefndi hafi talið sig eiga margvíslegar kröfur á hendur Klæðningu ehf., m.a. vegna ólögmætrar riftunar, skaðabóta vegna ýmiss tjóns, sem Klæðning ehf. hafi valdið, endurgreiðslukröfu vegna ofgreiðslu í verkinu og skuldajafnaðarkröfu. 

Eftir að breyting var gerð á verksamningi Klæðningar ehf. og stefnda, hefur Klæðning ehf. ekki krafið stefnda um greiðslu verklauna fyrir þá verkþætti, sem stefnandi vann að og hefur stefndi ekki greitt Klæðningu ehf. fyrir þessa vinnu, sem hér er krafizt greiðslu á.

Stefndi hefur hafnað umdeildri greiðslu, þar sem enginn samningur hafi verið milli stefnanda og stefnda, heldur hafi Klæðning ehf. verið viðsemjandi stefnanda.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því aðallega, að hann eigi lögvarinn rétt til greiðslu verklauna úr hendi stefnda á grundvelli samkomulags um greiðslur, en til vara að hann eigi rétt til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjárhagslegs tjóns, sömu fjárhæðar og kröfur stefnanda nemi, sem stefndi eða aðilar, sem hann beri ábyrgð á, hafi valdið stefnanda með saknæmum og ólögmætum aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi. 

Klæðning ehf. hafi framselt kröfu sína á hendur stefnda um greiðslu fyrir verk þau, er stefnandi hafi unnið í verkunum HH-III06 og HH-IV02, til stefnanda, og stefndi hafi samþykkt það framsal.  Eftir að greiðslufall hafi orðið af hálfu Klæðningar ehf. í verkunum, hafi forsendan fyrir áframhaldandi vinnu af hálfu stefnanda verið sú, að greiðslur til stefnanda væru tryggðar.  Með bréfum, dags. í október og nóvember 2008, frá Klæðningu ehf., sbr. dskj. nr. 9, til stefnda, hafi Klæðning ehf. því lagt til, að eftirleiðis og til verkloka yrði það fyrirkomulag haft á vegna reikningagerðar, að stefnandi sendi reikning vegna vinnu sinnar beint á stefnda.  Fjallað sé um þessa beiðni Klæðningar ehf. í verkfundargerð nr. 27 í verkinu HH-IV02, sbr. dskj. nr. 10, og í verkfundargerð nr. 37 í verkinu HH-III06, sbr. dskj. nr. 11, en þar segi svo:  „Undirverktaki, Altak, hefur fengið samþykkt hjá Klæðningu að senda reikninga og fá greidda beint frá verkkaupa.“  Stefndi hafi samþykkt þetta framsal á kröfu, þ.e. að stefnandi sendi reikninga beint á stefnda, sbr. orðsendingar frá stefnda nr. 38 í verkinu HH-IV02 og nr. 137 í verkinu HH-III06, sbr. dómskjöl nr. 12 og 13.  Stefnandi byggi jafnframt á því, að með þessu hafi sú breyting verið gerð á verksamningum Klæðningar ehf. og stefnda um verkin HH-IV02 og HH-III06, að undirverktakar á vegum Klæðningar ehf., þ.m.t. stefnandi, skyldu gefa út reikninga sína beint til stefnda og þiggja þaðan beinar greiðslur, án milligöngu Klæðningar ehf.  Hafi þetta fyrirkomulag á reikningsútgáfu og greiðslum átt að gilda til verkloka.  Með þessu breytta fyrirkomulagi, sem staðfest hafi verið sérstaklega af stefnda, sbr. dómskjöl nr. 12 og 13, hafi skapazt sjálfstæður réttur stefnanda til þess að krefja stefnda um greiðslu verklauna, og hafi stefndi verið bundinn af þessu breytta fyrirkomulagi gagnvart stefnanda og ekki getað hróflað við því nema með samþykki stefnanda. 

Stefnandi byggi kröfu sína á því, að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu gagnvart stefnanda vegna vinnu stefnanda í verkunum HH-IV02 og HH-III06.   Frá nóvember 2008 hafi stefndi greitt fjölda reikninga frá stefnanda, bæði í verkum HH-IV02 og HH-III06, sbr. dómskjöl nr. 16 og 17, sem og í öðrum verkum, sbr. dskj. nr. 27.  Þá byggi stefnandi kröfur sínar á því, að hann eigi rétt á greiðslu frá stefnda fyrir verk, sem unnin hafi verið í þágu stefnda, enda hafi stefndi samþykkt að greiða stefnanda beint fyrir þá vinnu, sbr. m.a. dómskjöl nr. 12 og 13.  Þá byggi stefnandi jafnframt á því, að stefnandi hafi, með því að greiða suma reikninga eftir riftun, fyrir vinnu, sem unnin hafi verið fyrir riftun á samningi Klæðningar ehf. og stefnda, viðurkennt skyldu sína til að greiða stefnanda beint fyrir þá vinnu, sem unnin hafi verið fyrir riftun og að stefnda bæri að standa við það samkomulag, sem gert hafi verið varðandi greiðslu reikninga, óháð ágreiningsmálum stefnda við Klæðningu ehf.

Stefnandi byggi kröfu sína á því, að stefndi hafi ekki greitt fyrir þau verk, sem stefnandi geri kröfu um greiðslu á, sbr. dskj. nr. 35.  Þá byggi stefnandi á því, að stefndi geti ekki fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða öðrum en stefnanda fyrir þá vinnu.  Stefndi hafi samþykkt, að Klæðning ehf. framseldi kröfur sínar um greiðslur fyrir þau verk, sem unnin hafi verið af stefnanda í þágu stefnda, til stefnanda og þar með, að verksamningum stefnda og Klæðningar ehf. yrði breytt.  Greiðsluskyldu verði því aðeins fullnægt, að stefndi greiði stefnanda fyrir þau verk,sem gerð sé krafa um greiðslu á.

Stefnandi byggi kröfur sínar á því, að stefndi hafi verið bundinn af samþykki sínu um, að stefnandi sendi reikninga vegna vinnu sinnar í verkunum HH-IV02 og HH-III06 beint til stefnda.  Þá byggi stefnandi á því, að stefndi hafi ekki afturkallað samþykki sitt um, að stefnandi sendi reikninga vegna vinnu sinnar beint á stefnda eða óskað eftir breytingum á því fyrirkomulagi.  Það sé fyrst síðla sumars 2009, að svo virðist sem stefndi ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar og greiða stefnanda að fullu fyrir verk, sem unnin hafi verið fyrir riftun Klæðningar ehf. á samningum við stefnda.  Þá byggi stefnandi á því, að það hafi fyrst verið með bréfi, dags. 2. desember 2009, sbr. dskj. nr. 5, sem þeirri athugasemd hafi verið hreyft, að stefnda bæri ekki að greiða reikninga stefnanda vegna þess að ekkert samningssamband væri milli þeirra.  Vegna þessarar síðbúnu afstöðu stefnda bendi stefnandi á, að Klæðning ehf. hafi ekki gefið út neina reikninga til stefnda, sem feli í sér verklaun stefnanda.  Þessi afstaða, verði hún viðurkennd í máli þessu, feli því í sér óréttmæta auðgun stefnda á kostnað stefnanda, enda losni stefndi þá við að greiða stefnanda fyrir verkþætti, sem nemi rúmlega 70 milljónum króna.

Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi brotið tillitsskyldur sínar gagnvart stefnda, en stefnda hafi borið að láta stefnanda vita fyrir fram, þ.e. áður en verk voru unnin, ef stefndi ætlaði einungis að greiða suma reikninga en ekki alla.  Þannig hafi stefnandi verið í góðri trú um, að stefndi myndi greiða stefnanda fyrir öll verk, sem unnin væru fyrir stefnda.  Ef tilkynning hefði borizt frá stefnda um, að stefnandi gæti ekki lengur sent reikninga og fengið greidda beint frá stefnda, þá hefði stefnandi getað tekið afstöðu til þess fyrir fram, hvort hann ynni áfram við verkin.  En ljóst sé, að stefnandi hafi unnið við verkin í trausti þess, að greiðslur væru tryggðar, þar sem stefndi hafi samþykkt að greiða stefnanda beint.  Þá sé bent á, að stefndi hafi óskað eftir að fá reikninga senda, sbr. m.a. dskj. nr. 34.

Stefnandi byggi á því, að hann hafi unnið þau verk, sem nú sé krafið um endurgjald fyrir, enda hafi því ekki verið mótmælt af hálfu stefnda, og byggi stefnandi á því, að hann eigi rétt á að fá greitt fyrir þau verk frá stefnda. 

Stefnandi byggi á því, að fjárhæðir þeirra krafna, sem stefnufjárhæðin samanstandi af, séu réttar og óumdeildar.  Bent sé á, að reikningi nr. 100748, sbr. dskj. nr. 5, hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda.  Stefndi virðist hins vegar ætla að nota hann til skuldajöfnunar, sbr. áritun hans á reikninginn, sbr. dskj. nr. 5.  Verðbætur, að fjárhæð kr. 1.280.796, séu vegna reikninga nr. 100506, 100521 og 100533, en stefndi hafi nú þegar greitt 2 greiðslur af þremur vegna verðbóta, sbr. dskj. nr. 6.  Hér sé um þriðju og síðustu greiðsluna að ræða vegna samþykktra verðbóta á þessa reikninga.  Krafa vegna vinnu við verkið HH-III06, að fjárhæð kr. 55.511.334, hafi verið samþykkt af eftirliti stefnda, sbr. dskj. nr. 3.   Þá hafi stefnandi sent reikninga nr. 100542 og 100543, sbr. dskj. nr. 25, sem séu vegna tímavinnu í nóvember og desember 2008 og séu hluti af uppgjöri við verkið HH-III06, sem samþykkt hafi verið af eftirliti stefnda.  Þeir reikningar séu ógreiddir, en hafi ekki verið mótmælt af stefnda.

Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi notið verks stefnanda og sé því að hagnast með ólögmætum hætti, ef hann greiði stefnanda ekki fyrir verkið.

Stefnandi byggi á þeirri meginreglu laga, að reikningar og orðsendingar fyrir verk og þjónustu, sem samið hafi verið um, teljist réttir, nema gagnaðili sanni, að þeir séu rangir eða að efni og umfangi óréttmætir.  Það hafi stefndi ekki gert. 

Verði ekki fallizt á þær málsástæður, sem hér hafi verið raktar til stuðnings stefnukröfum í málinu, telji stefnandi sig eiga skaðabótakröfu á hendur stefnda að sömu fjárhæð og nemi stefnukröfum.  Stefnandi byggi kröfu sína um greiðslu skaðabóta á því, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna stefnda og/eða annarra aðila, sem hann beri ábyrgð á.  Þannig hafi starfsmenn og eftirlit stefnda látið hjá líða að tilkynna stefnanda um, að stefndi myndi ekki greiða stefnanda beint fyrir alla þá vinnu, sem hann innti af hendi í þágu stefnda í verkunum HH-IV02 og HH-III06.  Ljóst sé, að stefndi hafi haft hag af því, að stefnandi ynni áfram við verkin, eftir að greiðslufall varð af hálfu Klæðningar ehf.  Stefndi hafi vitað, að forsendan fyrir áframhaldandi vinnu við verkin af hálfu stefnanda hafi verið sú, að tryggt yrði, að hann fengi greitt fyrir vinnu sína.  Því hafi verið ákveðið, með samþykki stefnda, sbr. dómskjöl nr. 12 og 13, að stefnandi sendi alla reikninga vegna vinnu, m.a. við verkin HH-IV02 og HH-III06, beint á stefnda og þeir yrðu greiddir beint til stefnanda.  Stefnandi hafi því haldið áfram vinnu við verkin í góðri trú um, að stefndi mundi greiða alla reikninga beint og stefnandi þyrfti ekki að treysta á greiðslur frá Klæðningu ehf.  Í samræmi við þetta breytta fyrirkomulag hafi stefndi greitt fjölda reikninga, sem stefnandi hafi sent honum, bæði í verkum HH-IV02, HH-III06 og öðrum verkum, sbr. dómskjöl nr. 16, 17 og 27.  Stefnandi byggi á því, að stefnda hafi verið, eða mátt vera, það ljóst, að þetta hafi verið forsendan fyrir áframhaldandi vinnu stefnanda.  Stefndi hafi hins vegar látið hjá líða að tilkynna stefnanda um, að þetta fyrirkomulag væri ekki lengur í gildi, eða að stefndi áskildi sér rétt til að greiða stefnanda einungis fyrir hluta þeirra verka, sem hann hafi unnið fyrir stefnda.  Stefnandi byggi á því, að með þessari háttsemi hafi stefndi valdið stefnanda tjóni, sem nemi þeirri fjárhæð, sem stefndi hafi ekki innt af hendi til stefnanda vegna vinnu við verkin HH-IV02 og HH-III06. 

Stefnandi byggi á því, að hefði stefndi tilkynnt stefnanda um, að hann myndi ekki greiða áfram alla reikninga beint, eða einungis suma, áður en stefnandi stofnaði til útgjalda vegna verka í þágu stefnda, hefði stefnandi getað tekið ákvörðun um það fyrir fram, hvort hann héldi áfram vinnu við verkin.  Þannig sé tjónið afleiðing þess, að stefnandi hafi unnið áfram í góðri trú um, að stefndi myndi greiða reikninga fyrir vinnu við verk, sem unnin hafi verið að beiðni og í þágu stefnda. 

Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi vakið, styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd stefnanda, þ.e. að stefndi mundi greiða stefnanda fyrir þau verk, sem stefnandi innti af hendi í þágu stefnda, og hafi þannig auðgazt með ólögmætum hætti.  Hin ólögmæta háttsemi hafi valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á.

Kröfur stefnanda um greiðslu á útistandandi kröfum á hendur stefnda sundurliðist þannig:

Verkið HH-IV02 „Dælustöð og stýrihús á Reynisvatnsheiði“:

Reikningur nr. 100748, sbr. dskj. nr. 5., að fjárhæð kr. 15.154.950 með vsk.  Reikningurinn sé fyrir vinnu í apríl 2009 ásamt verðbótum.

Verðbætur að fjárhæð kr. 1.280.796, vegna vinnu, sem innheimt hafi verið á reikningum nr. 100506, 100521 og 100533, sbr. dskj. nr. 6, en einungis tveir reikningar af þremur vegna verðbóta á þá vinnu hafi verið greiddir.  Þannig hafi reikningur nr. 100585 verið greiddur 22. maí 2009 og reikningur nr. 100607 hinn 17. júlí 2009, sbr. dskj. nr. 6.

Samtals: 16.435.746 kr.

Verkið HH-III06 „Safnæðar og safnæðastofnar“

Kröfur stefnanda vegna vinnu við verkið HH-III06 sundurliðist þannig, sbr. dskj. nr. 3, lokauppgjör, samþykkt af eftirliti stefnda: 

Verkhluti

Heildarverð með vsk.

Magnuppgjör pípa o.fl.

kr. 12.535.819

Magnuppgjör pípa o.fl.

kr. 3.126.000 (einungis verðbætur)

Tímavinna ágúst 2008

kr. 1.659.537 (einungis verðbætur)

Tímavinna september 2008

kr. 1.783.951 (einungis verðbætur)

Tímavinna október 2008

kr. 1.768.260 (einungis verðbætur)

Stálpallar úti

kr. 7.063.039

Stálpallar inni

kr. 21.326.728

Tímavinna nóvember 2008

kr. 6.682.718 (Reikn. nr. 100542, dskj. nr. 25.)

Tímavinna desember 2008

kr. 2.236.375 (Reikn. nr. 100543, dskj. nr. 25)

Tímavinna marz 2009

kr. 314.824

Til frádráttar greiddar verðbætur

kr. 2.985.916

Samtals

55.511.334 kr.

Að baki þessu lokauppgjöri liggi fjöldi gagna, sem hafi verið send og yfirfarin af eftirliti stefnda, m.a. magntölur vegna stálpalla inni og úti, sbr. dskj. nr. 29., magnuppgjör pípa, sbr. dskj. nr. 30. (ath. að þar sé ekki að finna vinnulið verksins eða efniskostnað vegna stálpalla), dagskýrslur, sbr. dskj. nr. 31.  Kröfur um verðbætur séu vegna ákvörðunar stefnda að verðbæta verkið afturvirkt frá 1. marz 2008, sbr. dskj. nr. 36.  Á reikningi nr. 100575 á dskj. nr. 16, megi sjá sundurliðun á útreiknuðum verðbótum afturvirkt, en stefndi hafði einungis greitt eina greiðsla af þremur.  Stefnandi hafi sent stefnda reikninga nr. 100542 og 100543 vegna tímavinnu í nóvember og desember 2008 með gjalddaga 2. apríl 2009, sbr. dskj. nr. 25.  Stefndi hafi ekki greitt þá reikninga, en þeir hafi fyrst verið afhentir stefnanda 20. maí 2010.

Samtals dómkröfur:

Verkið HH-IV02 „Dælustöð og stýrihús á Reynisvatnsheiði“: kr. 16.435.746

Verkið HH-III06 „Safnæðar og safnæðastofnar“: kr. 55.511.334

Samtalskr. 71.947.080

Gerð sé krafa um dráttarvexti af kr. 8.919.093 frá 2. apríl 2009, sem hafi verið gjalddagi reikninga nr. 100542 og 100543, sbr. dskj. nr. 25.  Þá sé til einföldunar gerð krafa um dráttarvexti á ógreiddar verðbætur fyrir bæði verkin frá 1. ágúst 2009, samtals að fjárhæð kr. 6.632.628, en verðbætur vegna verka, sem unnin hafi verið fyrir ákvörðun stefnda um að verðbæta verkið, skyldu greiðast í þremur greiðslum.  Stefndi hafi hins vegar einungis greitt hluta þeirra greiðslna, en á dómskjölum nr. 6 og 16 megi finna útreikninga á þessum verðbótum.  Þá sé til einföldunar gerð krafa um greiðslu á dráttarvöxtum frá 26. nóvember 2009 fyrir öðrum ógreiddum verklaunum, en þá hafi endanlegt uppgjör vegna vinnu stefnanda við verkið HH-III06 legið fyrir, og það sé jafnframt gjalddagi reiknings nr. 100748 vegna verksins HH-IV02. 

Kröfur um verðbætur séu byggðar á þeirri ákvörðun stefnda að verðbæta óverðbætta verksamninga, en um þá ákvörðun sé m.a. kveðið á í verkfundargerð nr. 43, dags. 10. marz 2009 í verkinu HH-III06, sbr. dskj. nr. 28.  Samkvæmt ákvörðun stefnda skyldi verðbæta alla verksamninga, sem ekki hafi verið verðbættir afturvirkt frá 1. marz 2008, sbr. dskj. nr. 36.  Hafi reiknaðar verðbætur vegna eldri reikninga numið hærri fjárhæð en 1 milljón króna, skyldi skipta greiðslunni í þrennt. 

Stefndi hafi greitt að fullu fyrir verk, sem unnin hafi verið eftir riftun.  Hins vegar snúist málið um, að stefndi hafi einungis greitt fyrir hluta af þeirri vinnu, sem hafi verið unnin fyrir riftun, en eftir að hann hafi samþykkt, að stefnandi sendi reikninga beint á stefnda fyrir vinnu sína.  Stefndi hafi hvorki greitt stefnanda né öðrum fyrir þá vinnu. 

Stefnandi hafi ítrekað reynt að ná sáttum við stefnda til þess að ljúka uppgjöri vegna greiðslu á verklaunum, en án árangurs. 

Fjárhæð skaðabóta nemi fjárhæð þeirra verka, sem stefnandi hafi innt af hendi fyrir stefnda í verkunum HH-IV02 og HH-III06 og ekki fengið að fullu greitt fyrir. 

Um greiðsluskyldu stefnda vísist til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og greiðsluskyldu á lögmætum peningakröfum, en regla þessi fái m.a. stoð í 51. gr. og 52. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og samningalögum nr. 7/1936.  Vísað sé til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. stoð í 51. gr. og 52. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og samningalögum nr. 7/1936.  Þá sé vísað til almennra reglna verksamningaréttar um rétt verktaka til greiðslu verklauna fyrir unnið verk.  Vísað sé í meginreglu laga um, að reikningar og orðsending fyrir verk og þjónustu, sem samið hafi verið um, teljist réttir, nema gagnaðili sanni, að þeir séu rangir eða að efni og umfangi óréttmætir, en regla þessi fái m.a. stoð í 47. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.  Varðandi kröfu um skaðabætur sé vísað til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna.  Krafa um dráttarvexti sé byggð á 1. mgr. 6. gr. og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Málskostnaðarkrafa sé reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er öllum kröfum, málsástæðum og sjónarmiðum stefnanda mótmælt.  Eins og mál þetta horfi við stefnda, snúist ágreiningur þess um kröfur, sem stefnandi telji að hafi stofnazt, áður en Klæðning ehf., sem aðalverktaki umræddra verka, rifti samningum við stefnda um þau verk.  Stefndi telji, að það fái fjarri öllu lagi staðizt, að samningur hafi stofnast við stefnanda, eða að stefndi hafi valdið tjóni með einum eða öðrum hætti.

Stefndi byggi dómkröfur sínar um sýknu meðal annars á því, að ekkert samningssamband hafi verið milli aðila, og því geti stefnandi ekki beint kröfum sínum að honum.  Stefndi sé ekki réttur aðili til að beina dómkröfum að.  Verði því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi mótmæli því, að samkomulag hafi stofnazt milli aðila, eins og stefnandi haldi fram í stefnu.  Eins og málsatvik og gögn málsins beri með sér, hafi stefndi gert verksamning við Klæðningu ehf. um þá verkþætti, sem stefnandi krefji nú um verklaun fyrir.  Hafi fyrirsvarsmaður Klæðningar ehf. raunar staðfest, að ekkert samningssamband hafi verið á milli undirverktaka Klæðningar ehf. og stefnda, sjá dskj. nr. 43.  Stefnandi geti því ekki átt lögvarinn rétt til greiðslu verklauna úr hendi stefnda.

Þeirri fullyrðingu stefnanda sé mótmælt, að hann hafi eignazt umþrættar kröfur á hendur stefnda fyrir framsal frá Klæðningu ehf., og að stefndi hafi samþykkt það framsal.  Hið rétta sé, að stefndi hafi greitt stefnanda verklaun og verðbætur vegna tiltekinna verka, án milligöngu Klæðningar ehf. sem aðalverktaka.  Hafi það verið gert í þessum einangruðu tilvikum til að vinna við verkin gæti haldið áfram, þrátt fyrir ýmsar vanefndir af hálfu Klæðningar ehf.  Með því verði hins vegar ekki litið svo á, að stefnandi hafi tekið við verkinu af Klæðningu ehf.  Einnig verði það ekki túlkað sem svo, að nýr verksamningur hafi stofnazt milli stefnanda og stefnda um verkið.  Gögn málsins styðji engan veginn þá langsóttu túlkun stefnanda.  Þvert á móti komi skýrt fram í yfirlýsingu fyrrverandi framkvæmdastjóra Klæðningar ehf., að heimild undirverktaka til að senda reikninga beint á stefnda hafi verið veitt með þeirri forsendu, að slíkt skapaði ekki sjálfstætt samningssamband milli aðila, dskj. nr. 43.  Hafi verktryggingar og ábyrgð enda verið á herðum Klæðningar ehf.

Það hafi verið skýrt af hálfu stefnda, að ekki hafi verið ætlunin að vera í samningssambandi við fleiri aðila en aðalverktaka í verkum HH-III06 og HH-IV02.  Hafi aðilum öllum verið þetta ljóst, eins og komi fram í yfirlýsingu fyrrverandi framkvæmdastjóra Klæðningar ehf., dskj. nr. 43.  Gögn málsins sýni einnig, svo ekki verði um villzt, að vilji stefnda hafi aldrei staðið til þess að gera samninga við tvo verktaka um sama verk.  Aldrei hafi verið samið sérstaklega um þetta fyrirkomulag og því mótmælt sérstaklega, að stefndi hafi samþykkt, að það skyldi gilda til verkloka.  Gögn málsins sýni fram á, að fyrirkomulag þetta hafi verið gert á grunni hvers einstaks verkhluta jafnóðum.  Hafi það verið ætlun aðila að gera sérstakan samning um framkvæmdina, þá hefði það verið gert með formlegum hætti til að tryggja, að viðunandi ábyrgðir væru til staðar og ljóst væri, hverjar væru skuldbindingar aðila.  Megi þessu til stuðnings benda á þann samning, sem gerður hafi verið milli aðila um tilgreinda verkliði, dskj. nr. 19.

Stefndi mótmæli þeim fullyrðingum stefnanda, að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda vegna vinnu í verkum HH-IV02 og HH-III06.  Ekkert samningssamband hafi verið milli aðila, eða önnur gögn farið á milli, sem styðji þá fullyrðingu.  Það fái augljóslega ekki staðizt, að greiðsla einstakra reikninga af hálfu stefnda feli í sér viðurkenningu á greiðsluskyldu annarra ótiltekinna reikninga af hálfu sama aðila. Einnig sé því hafnað, að tímasetningar á greiðslum einstakra reikninga geti gefið stefnanda fyrirheit um viðurkenningu á skyldu til greiðslu fyrir alla vinnu, sem unnin hafi verið, áður en riftun á verksamningi við Klæðningu ehf. hafi átt sér stað.  Ekkert samkomulag um greiðslu reikninga hafi legið fyrir milli stefnanda og stefnda og engin viðurkenning um greiðsluskyldu.  Sé þessari málsástæðu því mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Stefnandi byggi kröfur sínar í stefnu einnig á þeim röksemdum, að framsal krafna hafi verið samþykkt af hálfu stefnda og með því hafi verksamningum stefnda og Klæðningar verið breytt.  Eins og áður sé rakið, hafi stefndi ekki samþykkt slíkt framsal, og hvað þá breytingar á verksamningi sínum við Klæðningu ehf.  Engum gögnum sé til að dreifa, sem styðji framangreindar málsástæður stefnanda og sé þeim því alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Stefndi mótmæli því, að honum hafi borið skylda til að tilkynna stefnanda um afturköllun samþykkis fyrir heimild stefnanda að senda reikninga til stefnda, eins og haldið sé fram í stefnu.  Samþykki stefnda hafi aldrei legið fyrir, og þar af leiðandi verði ekki lagðar á hann skyldur að tilkynna stefnanda um nokkurn hlut.  Þá sé því mótmælt, að afstaða stefnda um höfnun reikninga frá stefnanda hafi komið of seint fram.  Eins og bréf stefnda, dags. 2. desember 2009, beri með sér, hafi afstaða hans komið fram jafnskjótt og tilefni gafst til, dskj. nr. 5.  Engar skyldur hafi hvílt á stefnda í þessum efnum, enda engu samningssambandi milli aðila til að dreifa.

Þá sé því mótmælt sérstaklega, sem stefnandi haldi fram, að stefndi hafi hagnazt með ólögmætum hætti, ellegar að um sé að ræða óréttmæta auðgun hans af vinnu stefnanda.  Ekkert í gögnum málsins styðji þennan skilning.  Þvert á móti hafi stefndi orðið fyrir verulegu tjóni, m.a. í tengslum við riftun verksamnings við Klæðningu ehf.  Engum gögnum sé til að dreifa um verðmæti þeirrar vinnu, sem stefnandi telji, að hafi farið fram.  Þá sé ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti, að vinnan hafi farið fram.

Stefndi vísi því á bug, að hann hafi brotið tillitsskyldur sínar gagnvart stefnda, eins og haldið sé fram í stefnu.  Engar slíkar skyldur verði lagðar á stefnda með hliðsjón af atvikum málsins.  Ekkert samningssamband hafi verið til staðar milli aðila, og hvorki athöfnum né athafnaleysi stefnda verði kennt um, að stefnandi hafi haldið annað.  Gögn málsins beri það enda með sér, að það hafi staðið stefnanda nær að fá nánari skýringar á stöðu gagnvart stefnda.  Það hafi hann hins vegar ekki gert.

Þá sé því mótmælt, að sú vinna, sem stefnandi krefji verklauna fyrir, hafi í raun átt sér stað.  Ekki hafi verið lögð fram gögn, sem sýni fram á það, og stefndi telji, með hliðsjón af því, að ekkert samningssamband hafi verið milli aðila, að sönnunarbyrði um þá vinnu verði ekki varpað á stefnda, með vísun til meginreglu laga um réttmæti reikninga sem samið hafi verið um.  Hér liggi fyrir, að enginn samningur hafi verið gerður milli aðila.

Að sama skapi sé því alfarið mótmælt, að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda, sem nemi dómkröfum hans.  Stefndi hafi ekki valdið neinu því tjóni, er varði hagsmuni stefnanda, og hafi stefnandi ekki sýnt fram á slíkt tjón, hvorki umfang þess, né að meint tjón verði rakið til stefnda, eða aðila, sem hann beri ábyrgð á.

Að því er varði málsástæður stefnanda um rétt til greiðslu skaðabóta fyrir meint tjón, þá sé því alfarið mótmælt sem ósönnuðu.  Vísist því til stuðnings eftir atvikum til málsástæðna, sem raktar hafi verið hér að framan.  Auk þess skuli áréttað, að engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda, sem sýni fram á saknæma eða ólögmæta háttsemi starfsmanna stefnda eða annarra aðila, sem hann verði talinn bera ábyrgð á.  Einnig sé umfangi og fjárhæð hins meinta tjóns mótmælt sem ósönnuðu.

Stefndi mótmælir því, að fjárhæð dómkröfunnar sé rétt og óumdeild.  Sem fyrr telji stefndi ekki liggja fyrir fullnægjandi sönnunargögn af hálfu stefnanda um réttmæti reikninga og fjárhæðir þeirra.  Eins og áður hafi verið rakið sé því hafnað, að stefnda hafi borið að sinna einhvers konar tilkynningarskyldu gagnvart stefnanda.  Því sé mótmælt, að reikningar og orðsendingar fyrir verk teljist rétt, nema gagnaðili sanni hið öndverða.  Ekkert samningssamband hafi verið milli aðila, sem hafi getað gefið tilefni til slíkrar skyldu.  Stefndi vísi því alfarið á bug, að honum hafi borið skylda til að tjá hug sinn gagnvart stefnanda og að hið meinta tjón megi rekja til athafnaleysis stefnda í þessum efnum.  Þá hafi stefndi ekki vakið, styrkt eða hagnýtt sér ranga hugmynd stefnanda.  Sé þessum röksemdum mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Öllum fjárkröfum stefnanda sé mótmælt sem ósönnuðum.  Mótmælt sé, að vinna sú, sem stefnandi vísi til, hafi verið framkvæmd.  Engin gögn liggi til stuðnings því, og hafi stefnandi látið undir höfuð leggjast að fá dómkvaddan matsmann eða matsmenn til að sýna fram á, hvaða verkliðir eigi við rök að styðjast.  Magntölur séu einnig ósannaðar.

Nokkur hluti krafna stefnanda sé vegna verðbóta, sem stefnandi telji sig eiga inni.  Engin rök hafi verið færð fram til sönnunar verðbótakröfunni.  Kröfur stefnanda séu vegna dælustöðvar og stýrishúss á Reynisvatnsheiði annars vegar og vegna safnæðar og safnæðastofna hins vegar.  Í verksamningum við Klæðningu ehf. vegna þessara verka hafi sérstaklega komið fram, að engar verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum.  Sé hér vísað til 2. gr. beggja samninga við Klæðningu,  dskj. nr. 44 og 45 .

Byggt sé á því, hvað sem framangreindu líði, að stefnandi eigi ekkert tilkall til verðbóta, þar eð Klæðning ehf. hafi rift samningi um verðbætur, sbr. tölvupóst fyrirsvarsmanns Klæðningar ehf. 4. maí 2009,  dskj. nr. 38 .

Þá byggi stefndi á því sjálfstætt, að honum sé heimilt að skuldajafna við kröfur stefnanda þeim fjárhæðum, sem hann hafi þegar ofgreitt í þeim verkum, sem um ræði.  Byggi kröfur um skuldajöfnuð á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Ljóst sé, að verði talið, að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda vegna framsals krafna frá Klæðningu ehf. til stefnanda, þá komi stefndi að öllum sömu mótbárum og hefðu komist að gegn Klæðningu sem kröfuhafa, þ.á m. skuldajafnaðarréttur.

Um kröfur stefnda á hendur stefnanda vísist til stöðuúttektarskýrslu Verkís,  dskj. nr. 46. Byggt sé á því, að stefndi eigi skuldajafnaðarrétt vegna annarra verka.  Þá sé byggt á því sem sjálfstæðri málsástæðu og sjálfstæðri skuldajafnaðarkröfu, að stefndi hafi ofgreitt í þeim verkum, sem samningar aðila nái til heild sinni.  Um sundurliðun á ofgreiðslu vísist til samantektar á dskj. nr. 47, en þar megi glöggt sjá, að í verkinu HH-II15 hafi stefndi ofgreitt kr. 24.593.800 og í verkinu HH-III06 sé ofgreiðslan kr. 52.074.140.  Byggi stefndi á því, að honum sé heimilt að skuldajafna kröfu sinni í þeim verkum gagnvart kröfu í því verki, sem stefnandi reisi kröfur sínar á.  Einsýnt sé, að öll skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi.

Verði ekki fallizt á framangreint, sé þess krafizt, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Varakröfu sína um lækkun dómkrafna og niðurfellingu málskostnaðar byggi stefndi eftir atvikum á sömu röksemdum og hafi verið færðar fram fyrir aðalkröfu um sýknu.  Verði, gegn vilja og sjónarmiðum stefnda, fallizt á, að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda, sé byggt á því, að stefndi eigi kröfu til skuldajafnaðar.  Sé hér vísað til ákvæðis 28. gr. í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og umfjöllunar hér að framan.  Ljóst sé, að ef fallizt sé á, að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda, þá komi stefndi að öllum sömu mótbárum og stefndi hefði haft gegn aðalverktakanum Klæðningu ehf.

Auk framangreinds sé kröfu um dráttarvexti og upphafsdegi þeirra mótmælt.

Um lagarök sé vísað til allra framangreindra sjónarmiða.  Vísað sé til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þá vísist til meginreglna samninga- og verktakaréttar, m.a. um stofnun samninga og framsal krafna.  Enn fremur sé vísað til meginreglna skaðabótaréttarins.  Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Gunnar Pétursson, framkvæmdastjóri stefnanda, Þórður Ásmundsson og Gunnlaugur Brjánn Haraldsson, tæknifræðingar hjá verkfræðistofunni Mannviti, Þorsteinn Hallgrímsson, viðskiptafræðingur hjá KPMG, Sigurjón Sigurjónsson, verkfræðingur hjá stefnda, Helgi Leifsson, staðarverkfræðingur hjá stefnda, Sveinn Ragnarsson, tæknifræðingur hjá Verkís, og Sigþór Ari Sigþórsson, verkfræðingur og fyrrum framkvæmdastjóri Klæðningar ehf.

Stefnandi byggir á því aðallega, að Klæðning ehf. hafi framselt greiðslukröfu sína á hendur stefnda vegna þeirra verka, sem mál þetta snýst um, og stefnandi hafi samþykkt það framsal.  Stefndi byggir sýknukröfu sína hins vegar á aðildarskorti, þar sem ekkert samningssamband hafi verið milli aðila.

Óumdeilt er, að stefnandi var undirverktaki Klæðningar ehf., sem gerði verksamning við stefnda. 

Samkvæmt gögnum málsins, auk þess sem fram kom við skýrslutökur fyrir dómi, lenti aðalverktakinn, Klæðning ehf., í greiðsluerfiðleikum haustið 2008, sem leiddi til þess, að fyrirtækið gat ekki greitt undirverktökum sínum, stefnanda Altaki ehf. og fyrirtækinu Viðreisn, sem þeim bar.  Leiddi það til þess, að undirverktakarnir töldu sér ekki fært að halda áfram verkinu, nema greiðslur til þeirra yrðu tryggðar.  Var stefnda gert það ljóst, m.a. á verkfundi hinn 28. október, þar sem m.a. voru mættir fulltrúar Viðreisnar og bókuð var athugasemd Viðreisnar vegna þessa.  Í framhaldi af því sendi stefndi erindi til Klæðningar ehf., dags. 31. október, þar sem hinum síðarnefnda var gefinn frestur til að gera úrbætur.  Til að tryggja, að verk undirverktakanna stöðvuðust ekki, lagði Klæðning ehf. til við stefnda, í samráði við undirverktakana, að hinir síðarnefndu myndu senda reikninga vegna vinnu sinnar beint til stefnda og myndi fyrirkomulagið gilda til verkloka.  Stefndi samþykkti þetta fyrirkomulag, og koma fram í tölvubréfi Sigurjóns Sigurjónssonar, verkfræðings hjá stefnda, sem sent var m.a. til stefnanda og Klæðningar ehf., leiðbeiningar um, hvernig fyrirkomulag við reikningsgerðina skyldi vera.

Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram, að ágreiningslaust er, að Klæðning ehf. var áfram aðalverktaki að verkinu, eftir að stefndi hóf að greiða beint til stefnanda.  Enn fremur kom fram, að stefnda var vel ljóst, að ástæða þess, að óskað var eftir þessu greiðslufyrirkomulagi, var sú, að stefnandi, sem hafði ekki fengið greitt frá Klæðningu ehf. vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækisins, hafði hótað að ganga frá verkinu, nema greiðslur yrðu tryggðar.  Taldi stefndi rekstraröryggi hitaveitukerfisins stefnt í hættu, nema aðkoma undirverktaka að verkinu, og þar með framganga verksins, yrði tryggð með þessum hætti.  Var þetta greiðslufyrirkomulag því staðfest með samkomulagi við Klæðningu ehf.

Helgi Leifsson bar m.a. fyrir dómi, að stefndi hefði ofgreitt Klæðningu ehf., þar sem rangar og of háar magntölur hefðu komið fram í reikningum Klæðningar ehf.  Hefði þetta komið í ljós, þegar nýr eftirlitsmaður kom að verkinu og yfirfór eldri reikninga.  Þessar röngu magntölur hefðu þó ekki komið fram í reikningum Klæðningar ehf. vegna verka stefnanda máls þessa.  Hefði stefndi ákveðið að skuldajafna greiðslum vegna vinnu undirverktaka við kröfur stefnda á hendur Klæðningu ehf. vegna þessara ofgreiðslna.

Það liggur fyrir, að samningur um greiðslur stefnda beint til stefnanda var gerður við Klæðningu ehf., en með samþykki stefnanda.  Ástæða þess, að þetta fyrirkomulag var haft við, var sú, að ella hefði stefnandi horfið frá verkinu, með tilheyrandi áhættu og kostnaði fyrir stefnda og jafnvel nýju útboði, sem hefði seinkað verkinu verulega.  Enda þótt stefndi hafi ekki samið beint við stefnanda, var honum ljóst að þetta greiðslufyrirkomulag var alger forsenda þess, að stefnandi héldi verkinu áfram og að hann mætti treysta því loforði, sem fólst í samningi stefnda og Klæðningar ehf.  Samkvæmt þessu fyrirkomulagi eignaðist stefnandi kröfu beint á stefnda, enda þótt Klæðning ehf., sæi um að senda framvinduskjal til stefnda, þar sem fram kæmi, hversu mikið hver undirverktaki ætti að fá.  Meðan þetta fyrirkomulag var við lýði átti Klæðning ehf. ekki kröfu á stefnda vegna vinnu stefnanda.  Hafði Klæðning ehf. þannig framselt kröfuréttinn á hendur stefnda til stefnanda og með samþykki stefnda.  Er stefndi bundinn af því samþykki gagnvart stefnanda.

Þar sem greiðslufyrirkomulagið skyldi gilda allt til verkloka ber stefnda að greiða stefnanda fyrir þá vinnu, sem unnin var, þar til Klæðning ehf. rifti verksamningi sínum við stefnda.

Stefndi gerir til vara kröfu um, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Við aðalmeðferð féll stefndi frá þeirri mótbáru, að ósannað væri, að verk þau, sem stefnandi krefst greiðslu fyrir, hafi verið unnin, en byggði lækkunarkröfu á skuldajöfnuði krafna stefnda á hendur Klæðningu ehf., sem og að verðbótakrafan sé ósönnuð.  Þá mótmælti stefndi mótmælum stefnanda við kröfum, sem stefndi hefur uppi til skuldajafnaðar, sem of seint fram komnum.

Krafa stefnda um skuldajöfnun kemur fram í greinargerð hans.  Skuldajafnaðarkrafa er sýknukrafa, en leiðir ekki til sjálfstæðs dóms.  Mótmæli gegn sýknukröfu og þeim málsástæðum, sem slík krafa byggir á, felast því í sjálfri dómkröfunni og er þeirri mótbáru því hafnað, að mótmæli stefnanda við skuldajafnaðarkröfu stefnda, séu of seint fram komin.  Að þessu virtu og með vísan til þess, sem að framan er rakið, er ekki fallizt á, að stefndi geti notað kröfu stefnanda til skuldajafnaðar við kröfur á hendur Klæðningu ehf.

Stefndi byggir á því, að engin rök hafi verið færð fram til sönnunar verðbótakröfunni.  Kröfur stefnanda séu vegna dælustöðvar og stýrishúss á Reynisvatnsheiði annars vegar og vegna safnæðar og safnæðastofna hins vegar.  Í verksamningum við Klæðningu ehf. vegna þessara verka hafi sérstaklega komið fram, að engar verðbætur yrðu greiddar á samningstímanum. 

Samkvæmt samkomulagi stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, og Samtaka iðnaðarins, dags. 4. marz 2009, samþykkti stefndi, að verðbæta greiðslur til tilgreindra verktaka, þ. á m. stefnanda, Altaks ehf., fyrir verkframvindu frá 1. marz 2008 samkvæmt óverðtryggðum verksamningum til lengri tíma en þriggja mánaða, eins og nánar greinir í samkomulaginu, sem liggur fyrir í málinu á dskj. nr. 36.  Stefndi var bundinn samkvæmt þessu samkomulagi og ber honum því að greiða verðbætur til stefnanda samkvæmt því, allt til þess að Klæðning ehf. rifti verksamningi sínum við stefnda hinn 4. maí 2009, en ekki er fallizt á, að riftunin hafi afturvirk áhrif.

Verðbótaútreikningar, eins og þeir koma fram í kröfugerð stefnanda, voru samþykktir af eftirliti stefnda.  Er enginn ágreiningur milli aðila um magnuppgjör, og hafa allir reikningar, sem liggja til grundvallar stefnufjárhæðinni í reynd verið samþykktir af eftirliti stefnda, sbr. m.a. dskj. nr. 3, 5 og 6, sem og framburð tæknimanna á vegum stefnda fyrir dómi.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, verða kröfur stefnanda teknar til greina eins og þær eru fram settar, en stefndi hefur ekki stutt rökum mótmæli við dráttarvaxtakröfu stefnanda. 

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir, með hliðsjón af umfangi málsins og hagsmunum, hæfilega ákveðinn kr. 3.000.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum, Ragnari Ingimarssyni byggingarverkfræðingi og Stanley Pálssyni byggingarverkfræðingi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði stefnanda, Vélsmiðjunni Altaki ehf., kr. 71.947.080 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 8.919.093 frá 2. apríl 2009 til 1. ágúst s.á., af kr. 15.551.721 frá þeim degi til 26. nóvember s.á., og af kr.71.947.080 frá þeim degi til greiðsludags og leggjast dráttarvextir við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 26. nóvember 2010.  Þá greiði stefndi stefnanda kr. 3.000.000 í málskostnað.