Hæstiréttur íslands

Mál nr. 175/2003


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2003.

Nr. 175/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Hafsteini Þóri Haraldssyni

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð.

H var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið E í andlitið, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Refsing H þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið. Þá var H og dæmdur til greiðslu bóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu, en refsing ákærða þyngd og hann dæmdur til greiðslu bóta eins og í ákæru greinir.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og bótakröfu vísað frá dómi, til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og hann sýknaður af bótakröfu. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði gerð vægasta skilorðsbundin refsing sem lög leyfa og bótakrafa lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hafsteinn Þórir Haraldsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Grétars Finnssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. þ.m., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði, útgefinni 7. nóvember 2002, á hendur Hafsteini Þóri Haraldssyni, kt. [...], Lyngbergi 21, Hafnarfirði „fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 28. desember 2001, um kl. 06:15, slegið Z, kt. [...], eitt högg í andlitið fyrir framan hús númer 2 við Q, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði“.

Telst framangreind háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög  nr. 20/1981. 

Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmdur til refsingar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem Z gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða honum 254.880 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. ágúst 2001 til 17. nóvember sama árs, en dráttavöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en bótakrafan var sett fram með bréfi Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns 5. mars 2002.

Málið sætti aðalmeðferð hér fyrir dómi.

Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og að sýknað verði af bótakröfu. Að því frágengnu krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa og að fangelsisrefsing, komi til þess að hún verði dæmd, verði bundin skilorði. Loks krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa.

I.

Í málinu liggur fyrir framburðarskýrsla sem lögreglan í Hafnarfirði skráði eftir Z. Ekki kemur fram í skýrslunni hvenær hún var rituð, en af gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður að ætla að það hafi verið 3. janúar 2002. Í skýrslunni setur Z fram kæru á hendur ákærða, Hafsteini Þóri Haraldssyni, fyrir líkamsárás að morgni 28. desember 2001. Er haft eftir Z að hann hafi verið staddur við húsið að Q laust eftir klukkan sex að morgni umrædds dags og verið þar að bíða eftir íbúa hússins, A. Tveir menn hafi þá komið gangandi að húsinu frá Selvogsgötu, öskrað að honum og spurt hann hvað hann væri að gera þarna. Annar þeirra hafi verið ljóshærður en hinn dökkhærður. Z hafi svarað því til að hann væri að bíða eftir vinkonu sinni. Þessu næst segir svo í skýrslunni: „Þá segir hann að sá ljóshærði, sem bar með sér hafnarboltakylfu, hafi gengið að sér, en hinn hafi gert það sem hann gat til þess að fá félaga sinn ofan af því að ráðast að sér, sem honum fannst greinilegt að sá ljóshærði ætlaði að gera. Hann segir að sá dökkhærði hafi náð kylfunni af félaga sínum, sem þá hafi gripið til hnefans og kýlt sig eitt högg í andlitið. Það segir hann að hafi lent á nefi sínu og hafi hann þá þegar lagst á grúfu til þess að verjast frekari höggum. Hann segir þau ekki hafa orðið fleiri og hafi mennirnir gengið á brott eftir að hafa greitt höggið.“ A hafi komið heim til sín um það bil tuttugu mínútum seinna. Hún hafi tilkynnt móður sinni um árásina og hafi hún ekið Z á slysadeild. A hafi eftir lýsingu Z þekkt árásarmanninn sem Hafstein Þóri Haraldsson.

Í skýrslu sem A gaf hjá lögreglu 7. janúar 2002 kvaðst hún hafi verið í vinfengi við Hafstein Þóri sumarið 2001. Að morgni 29. desember 2001 hafi hún móttekið frá honum tvö sms skilaboð. Í hinu fyrra hafi staðið „blessuð eigu grenjuskjóðuna“, en í hinu seinna „arrrggg ... af hverju mátti ég ekki klára orra“.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 15. janúar 2002. Er í inngangskafla hennar bókað að ákærði væri grunaður um að hafa ráðist að Z að Q þann 28. desember 2001. Í skýrslunni er haft eftir ákærða að hann hafi komið að húsinu í fylgd bróður síns B. Í húsinu hafi búið fyrrverandi vinkona hans og hafi hann orðið afbrýðisamur þegar hann hafi séð að annar maður væri kominn þangað. Hafi hann gengið að manni þessum, spurt hann að nafni og síðan slegið hann eitt högg. Hafi hann slegið með handarbakinu og hafi höggið verið meira í ætt við löðrung en það að hann hafi beitt fyrir sig hnefa. Þá kvaðst hann ekki vita hvar höggið lenti. Maðurinn sem hann sló hafi ekkert gert „til þess að eiga höggið skilið“.

Í málinu liggur frammi vottorð Gunnhildar Margrétar Guðnadóttur deildarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala-Fossvogi. Í því segir meðal annars svo: „Að sögn [Z] var ráðist á hann í samkvæmi í heimahúsi aðfaranótt 29.12. s.l. Hann var kýldur einu sinni í nefið. Hann rotaðist ekki en fékk nefblæðingu og bólgnaði upp á nefi. Leitaði strax á slysadeild og er því lýst í nótu þaðan að hann var undir áhrifum en kurteis. Það var engin nefblæðing. Það var skekkja á nefinu yfir til vinstri. Engin blæðing frá munni, tennur voru heilar og neðri kjálki heill. Ekki grunur um brot á öðrum andlitsbeinum og engin blæðing frá eyrum. Hann kvartaði ekki um aðra áverka. Honum var ráðlagt að leita á göngudeild Háls- nef- og eyrnalækninga nokkrum dögum síðar og undirrituð sá hann 03.01.2002. Þá var bólgan að mestu leyti gengin til baka. Það var greinileg skekkja á nefinu, hak hægra megin á nefbeini og útkýling vinstra megin og sveigði nefið yfir til vinstri. Hann hefur áður nefbrotnað en samkvæmt lýsingum síðan þá hafði ekki verið nein skekkja á nefinu eftir að það var lagfært. [...] Í staðdeyfingu var gert að nefbroti og það rétt við og gekk það vel.“

Upplýst er í málinu að eldra nefbrotið sem vísað er til í framangreindu læknisvottorði hlaut Z í líkamsárás 15. júlí 2001.

II.

Málið var upphaflega dómtekið við lok aðalmeðferðar 19. f.m. Í samræmi við ákæru tók sönnunarfærsla sem þá hafði farið fram mið af því að hið meinta brot hafi átt sér stað að morgni föstudagsins 28. desember 2001, enda hafði Z svo sem að framan greinir borið á þann veg í skýrslu sinni hjá lögreglu. Var einungis lítillega vikið að tilgreiningu á verknaðardegi í framangreindu læknisvottorði og því ósamræmi sem er að þessu leyti á milli þess skjals og skýrslu Z. Vegna þessarar aðstöðu og með vísan til heimildar í 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ákvað dómarinn að endurupptaka málið. Var það gert í þinghaldi 5. þ.m. og þá lagt fyrir sækjanda að afla gagna um komu eða komur Z á slysadeild Landspítala í Fossvogi í desember 2001. Í þinghaldi í málinu 10. þ.m. var lagt fram vottorð Ólafs Ragnars Ingimarssonar læknis þar sem staðfest er að Z hafi leitað á slysadeildina klukkan 07:02 að morgni 29. desember 2001. Var jafnframt upplýst af sækjanda að þetta hafi verið eina koma Z á slysadeildina í desember 2001. Að fengnum þessum upplýsingum var ákveðið að taka að nýju skýrslu af ákærða og þeim vitnum sem borið höfðu um atvik í undanfara þess að Z leitaði á slysadeild. Voru þær skýrslur teknar 19. þ.m. Að því loknu var málið flutt að nýju.

III.

Í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti ákærði að hann hafi hitt Z við heimili A að Q að morgni dags í lok desember 2001. Treysti ákærði sér ekki til að segja nánar til um það hvað dag þetta hafa verið. Skömmu eftir að fundum þeirra bar saman hafi hann slegið Z einu sinni. Ekki hafi verið um hnefahögg að ræða heldur hafi hann slegið þannig frá sér að handarbak hægri handar hafi lent á Z. Taldi ákærði að höggið hafi ekki verið þungt og útilokað væri að nefbrot hafi hlotist af því. Ákærði hafi verið þarna á ferð í þeim tilgangi að athuga hvort A væri heima hjá sér, en hún hafi verið unnusta hans um tíma. Með í för hafi verið bróðir hans, B. A hafi verið búin að nefna það við sig að hún ætti vin sem héti Z. Ákærði hafi þegar hér var komið sögu ekki þekkt Z og aldrei séð hann áður. Þegar Z hafi aðspurður sagt ákærða hver hann væri og að hann væri að bíða eftir A hafi ákærði fundið fyrir afbrýðisemi í garð hans. Ákærði bar þó á þann veg að þessi afbrýðisemi hans hafi ekki orðið til þess að sló til Z. Aðdraganda þess atviks lýsti ákærði á þann veg að í þann mund sem þetta átti sér stað hafi Z staðið sem næst aftan við ákærða og hreyft sig með þeim hætti að ákærði hafi talið að sér stafaði einhver ógn af honum. Hafi ákærði þá slegið frá sér með framangreindum hætti. Nánar aðspurður gat ákærði ekki gefið aðra skýringu á þessari ógn en þá að Z hafi hreyft sig þannig að ákærði hafi talið að hann ætlaði að ráðast á sig. Hafi hann ekki haft í hyggju að meiða Z með þessu höggi sínu. Z hafi gripið fyrir andlitið og farið að gráta. Engin áverkamerki hafi verið sjáanleg. Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa sent A svokölluð sms-skilaboð í kjölfar þessa atviks.

Vitnið Z kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa verið að bíða eftir A við heimili hennar þegar tveir menn hafi birst þar. Annar þeirra hafi haldið á hafnaboltakylfu. Sá sem upphaflega hafi haldið á kylfunni hafi spurt hann hvað hann væri að gera þarna. Þegar Z hafi verið búinn að skýra honum frá nafni sínu og að hann væri að bíða eftir A hafi sá sem spurði, sem vitnið hafi síðar gert sér grein fyrir að væri Hafsteinn Þórir Haraldsson, ákærði í máli þessu, umsvifalaust slegið hann með krepptum hnefa í andlitið. Fylgdarmaður ákærða hafi skömmu áður verið búinn að taka hafnaboltakylfuna af honum. Höggið hafi verið fast. Kvaðst Z hafa fundið fyrir miklum sársauka og gripið fyrir andlitið. Tvímenningarnir hafi í kjölfar þessa yfirgefið staðinn, en Z hafi beðið áfram eftir A. Þegar hún kom heim til sín um það bil 20 mínútum seinna hafi þau farið inn í húsið og hún kallað móður sína til, sem ekið hafi honum á slysadeild. Þar hafi komið í ljós að hann hafi nefbrotnað við höggið sem ákærði veitti honum. Í kjölfar aðhlynningar á slysadeild hafi Z farið á lögreglustöðina í Hafnarfirði í þeim tilgangi að kæra þessa líkamsárás. Honum hafi þá verið sagt að koma síðar til að gefa formlega kæruskýrslu. Það hafi hann gert daginn eftir. Í fyrri skýrslu sinni við dómsmeðferð málsins bar Z á þann veg að umrætt atvik hafi átt sér stað að morgni 28. desember 2001. Í seinni skýrslu sinni lagði hann á það áherslu að hann hafi leitað á slysadeild strax í kjölfar árásar ákærða og samkvæmt því og miðað við þær upplýsingar sem komið hefðu fram í málinu væri ljóst að honum hefði skjöplast að þessu leyti og atvikið hafi þannig átt sér stað að morgni laugardagsins 29. desember.

Vitnið A skýrði svo frá fyrir dómi að hún og ákærðu hefðu á sínum tíma verið trúlofuð. Trúlofun sinni hefðu þau slitið í ágúst 2001. Vinskapur hafi síðar tekist á milli hennar og Z og hafi hann staðið um tíma, en í seinni tíð hafi engin samskipti verið á milli þeirra. Um atvik í umrætt sinn skýrði hún svo frá að þegar hún kom heim til sín að morgni dags í lok desember 2001 hafi Z beðið þar eftir henni. Hafi hann skýrt henni frá því að tveir menn, vopnaðir hafnaboltakylfu, hefðu ráðist á hann skömmu áður og barið hann. Nef Z hafi verið bólgið. Honum hafi strax verið ekið á slysadeild. Hafi móðir vitnisins ekið honum þangað og vitnið verið með í för. Þegar þaðan var komið hafi A fengið sms-skilaboð frá ákærða sem orðið hafi til þess að hún hafi tengt hann við þá árás sem Z hafði orðið fyrir. Staðfesti hún að efni þeirra væri réttilega lýst í framburðarskýrslu sem hún gaf hjá lögreglu og áður er gerð grein fyrir. Þá hafi hún einnig fengið sms-skilaboð frá bróður ákærða. Þau hafi hljóðað eitthvað á þessa leið: „Ég reyndi að stoppa bróður minn, það bara gekk ekki alveg.“ Í skýrslu sinni fyrir dómi 19. þ.m. var vitnið helst á því að umrætt atvik hafi átt sér stað að morgni 29. desember 2001. Kvaðst vitnið byggja þetta á því að henni hafi borist áðurgreind sms-skilaboð frá ákærða að morgni þess dags og að hún hafi þá að því er hún taldi verið nýkomin heim til sín eftir að hafa fylgt Z á slysadeild. Þá kvaðst vitnið ennfremur álykta um verknaðardag út frá afmæli sem hún hafi farið í þennan sama dag, en tvær frænkur hennar eigi afmæli 29. desember.

Vitnið C, móðir vitnisins A, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi ekið Z á slysadeild að morgni dags einhvern tíma í lok desember 2001 vegna áverka sem henni hafi verið sagt að hann hafi hlotið við líkamsárás. Hafi A vakið hana á milli klukkan 6 og 7 þennan morgun. Z hafi þá verið staddur hjá A. Lítillega hafi blætt úr nefi Z og honum hafi greinilega liðið illa þó svo að hann væri ekki sárkvalinn. Hafi vitninu verið skýrt frá því að Z hafi verið laminn, en um frekari málsatvik væri vitninu ekki kunnugt. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um það hvað dag þetta hafi verið.

Vitnið B, bróðir ákærða, skýrði frá atvikum í umrætt sinn á sama veg og ákærði. Um eitt högg hafi verið ræða, sem ákærði hafi veitt Z með því að slá frá sér með hægri hendi þannig að handarbakið lenti í andliti hans.

Gunnhildur Margrét Guðnadóttir læknir, sem ritaði áverkavottorð það sem áður er gerð grein fyrir, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins 19. febrúar sl. Þá staðfesti hún vottorð sitt. Aðspurð um efni vottorðsins skýrði hún svo frá að í samtali hennar og Z hafi komið fram hvar og hvenær hafi verið ráðist á hann. Þá kom fram hjá vitninu að nefbrot sé 6-8 vikur að gróa. Að þeim tíma liðnum eigi brot að vera fullgróið og nefið eigi ekki að vera veikara fyrir þar. Það nefbrot sem Z hlaut 15. júlí 2001 geti samkvæmt þessu ekki haft það í för með sér að minna högg en ella hafi þurft til að valda nefbrotinu sem skoðun vitnisins á Z leiddi í ljós. Þá var það álit vitnisins að mikið högg þurfi til hafi nefbrot hlotist af því höggi sem ákærði hefur gengist við að hafa veitt Z. Loks kom fram í skýrslu vitnisins að um samskonar nefbrot væri að ræða í bæði þessi skipti þótt ekki væri hægt að fullyrða að nefið hafi brotnað á sama stað.

Vitnið D, faðir Z, kvaðst hafa ekið fram á son sinn í miðborg Reykjavíkur að nóttu til í lok desember 2001, en vitnið hafi þá verið á heimleið úr vinnu. Var vitnið helst á því að þetta hafi verið aðfaranótt laugardags, en treysti sér ekki til að staðhæfa það. Hafa vitnið ekið syni sínum að Q. Engir áverkar hafi þá verið sjáanlegir á syni hans. Vitnið hafi rætt við son sinn í síma skömmu eftir áramótin og hafi hann þá skýrt vitninu frá því að hann hafi lent í átökum þessa nótt og verið laminn af „einhverjum fyrrverandi“ eins og hann hafi orðað það.

IV.

Samkvæmt gögnum málsins kom Z á slysadeild Landspítalans í Fossvogi klukkan 7:02 að morgni 29. desember 2001. Leiddi læknisskoðun í ljós að hann var nefbrotinn. Fyrir liggur að þetta var eina koma Z á slysadeildina í þessum mánuði. Samkvæmt vitnisburði þeirra A og C fylgdu þær Z á slysadeildina. Bar A á þann veg að Z hafi sagt henni að ráðist hefði verið á hann skömmu áður og hann barinn. Nef hans hafi verið bólgið. Þá kom fram hjá vitninu að það hafi móttekið svonefnd sms-skilaboð frá ákærða og bróður hans. Bendir efni þeirra til þess að ákærði hafi gengið lengra í atlögu sinni gagnvart Z en hann hefur haldið fram. Vitnið C kvaðst hafa séð að blætt hafi úr nefi Z og honum hafi greinilega liðið illa. Hafi vitninu verið sagt að Z hafi verið laminn.

Ljóst er að fundum ákærða og Z bar saman að morgni dags í lok desember 2001 við heimili þeirra A og C að Q. Z hefur verið afdráttarlaus og trúverðugur í þeim framburði sínum að samskiptum þeirra hafi lokið með því að ákærði hafi slegið hann hnefahögg í andlitið og að hann hafi strax í kjölfarið leitað á slysadeild vegna áverka sem hann hafi hlotið við höggið. Þessi lýsing ákærða á atvikum fær ótvíræða stoð í því sem fram er komið í málinu með vitnisburði A og C og upplýsingum um komu Z á slysadeild sem vísað er til hér að framan og áverka sem hann þá bar. Vitnisburður D hnígur í sömu átt.

Þegar framangreint er virt þykir ekki varhugavert að leggja framburð Z til grundvallar við úrlausn málsins og telja nægilega sannað, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að atvik hafi verið með þeim hætti sem hann hefur lýst. Á sama grunni og með framlögðum læknisvottorðum telst ennfremur sannað að Z hafi nefbrotnað við höggið sem ákærði veitti honum. Með háttsemi sinni gerðist ákærði því sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fram telst komið að verknaðardagur er ekki réttilega tilgreindur í ákæru, en ljóst þykir að umrætt atvik hafi átt sér stað að morgni laugardagsins 29. desember 2001. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 kemur þessi annmarki á ákæru ekki í veg fyrir að áfall verði dæmt, enda hefur vörn ekki verið áfátt vegna þessa.

V.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem þýðingu hefur við ákvörðun refsingar í þessu máli. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga og er hún með sérstakri hliðsjón af því að ákærði hefur ekki áður hlotið refsidóm bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir.

VI.

Skaðabótakrafa Z samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 254.880 krónum. Annars vegar er gerð krafa um greiðslu á útlögðum lækniskostnaði og nemur sá liður 7.021 krónu. Hins vegar er krafist miskabóta og telst sú krafa í samræmi við framangreint nema 247.859 krónum. Að auki er gerð krafa um greiðslu á lögfræðikostnaði að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Krafa Z um miskabætur styðst við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Fullnægt er skilyrðum til að dæma ákærða til að greiða Z miskabætur á grundvelli þessa ákvæðis og þykja þær hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Krafa um greiðslu á útlögðum lækniskostnaði er studd gögnum og verður að fullu tekin til greina. Þá verður ákærða gert að bæta kostnað af aðstoð lögmanns vegna málsins með 45.000 krónum og er virðisaukaskattur þar með talinn.

Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða Z 152.021 krónu. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 130.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

Ákærði Hafsteinn Þórir Haraldsson sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Z 152.021 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 100.000 krónum frá 29. desember 2001 til 7. janúar 2002, en af 107.021 krónu frá þeim degi til 19. desember sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 130.000 krónur.