Hæstiréttur íslands

Mál nr. 576/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. nóvember 2006.

Nr. 576/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Gæsluvarðhaldsvist.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Þá var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu X um að eiginkona hans og barn fengi að heimsækja hann meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. nóvember kl. 16 og hafnað kröfu hans um að eiginkona hans og barn fengju að heimsækja hann meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Málin voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 8. nóvember 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður um gæsluvarðhald verði felldur úr gildi og hann verði í stað þess látinn sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá gerir hann þá kröfu, verði talið að hann eigi að sæti gæsluvarðhaldi, að eiginkona hans og barn fái að heimsækja hann meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.

Með vísan til forsendna hinna kærðu úrskurða verða þeir staðfestir.

Dómsorð:

Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt.], með lögheimili í Danmörku, sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 14. nóvember 2006, kl. 16:00, á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild embættisins rannsaki tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum til landsins frá Danmörku.  Fíkniefnin hafi verið falin í tölvum sem afhentar hafi verið til sendingar hjá Y í Danmörku og verið merktar tæknideild Glitnis, Kirkjusandi, Reykjavík.  Lögregla í Danmörku hafi lagt hald á fíkniefnin þann 18. f.m. og komið upplýsingum um málið áleiðis til lögreglu hér á landi.  Hafi tölvurnar síðan verið sendar áfram til Íslands með Y flugleiðis og komið til Keflavíkurflugvallar þann 20. f.m.  Grunur lögreglu hafi beinst að því að starfsmaður eða starfsmenn hjá Y á Íslandi kynnu að vera viðriðnir málið.  Upplýsingar hafi fengist um að tiltekinn starfsmaður Y, A, myndi sækja sendinguna á flugvöllinn ásamt öðrum sendingum á vegum fyrirtækisins sunnudaginn 22. f.m.  Sé nánar vísað til greinargerðar Kristjáns Ó. Guðnasonar, aðst. yfirlögregluþjóns, dags. 20. f.m.

Við eftirlit hinn 23. f.m. hafi orðið ljóst að A hafi skilið tölvusendinguna eftir í bifreið Y að loknum vinnudegi en komið aftur að kvöldi sama dags í fyrirtækið ásamt B. Hafi þeir verið handteknir skömmu síðar og frá þeim tíma sætt gæsluvarðhaldi.  Sé nánar vísað til upplýsingaskýrslna Húnboga Jóhanns­sonar, rannsóknar­­lögreglumanns, dags. 23. og 24. f.m, og upplýsinga­skýrslu Kjartans Ægis Kristinssonar um eftirlit, dags. 23. f.m. C hafi verið handtekinn hinn 1. þ.m. og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins 2. þ.m. en nánar sé vísað til kröfu þess efnis og úrskurðar héraðsdóms í máli nr. R-611/2006.

Fyrir liggi upplýsingar um tengsl nefnds B við kærða en nánar sé vísað til greinargerða embættisins til Hæstaréttar hinn 26. f.m. og 2. þ.m.  Hjá lögreglu liggi fyrir ljósmyndir af kærða og D í tölvuversluninni í Danmörku þegar tölvurnar voru keyptar þar og afhentar og skv. upplýsingum frá dönsku lögreglunni sé sterkar líkur á því að sömu aðilar hafi sent tölvurnar til landsins með Y í Danmörku.  Danska og íslenska lögreglan hafi undanfarið leitað að kærða og nefndum D vegna rannsóknar málsins en kærði hafi gefið sig fram við lögreglu í dag kl. 14:00 og þá verið handtekinn.  Lögregla leiti enn að D sem sé talinn dveljast í Danmörku.

Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en svo virðist sem kærði hafi útvegað tölvurnar og sent þær til landsins með Y.  Leiki grunur á því að kærði hafi komið fíkniefnunum fyrir í tölvunum áður en þær voru afhentar til sendingar og að nefndur D hafi tekið þátt í brotinu.  Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins í dag en hann hafi viðurkennt að hafa keypt tölvurnar og afhent þær tilteknum manni en hann hafi ekkert komið nálægt því að koma fíkniefnum fyrir í tölvunum né senda þær til landsins.  Sé nánar vísað til framburðarskýrslu kærða. 

Unnið verði áfram að rannsókn málsins en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og meinta aðild kærða að brotinu og tengsl við aðra meinta vitorðsmenn sem tengist málinu, hérlendis sem erlendis, og taldir séu tengjast málinu.  Nefndur D gangi enn laus en hans sé leitað í því skyni að handtaka hann.  Fleiri aðilar kunni að tengjast málinu sem enn gangi lausir en unnið sé að sérstakri gagnaöflun í því skyni, sbr. úrskurði héraðsdóms frá 1. þ.m. í málum nr. R-606/2006 og R-608/2006. 

Frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum muni einnig fara fram á næstunni, þ.m.t. af kærða.  Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti sett sig í sambandi við vitni og komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknar­hagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.

Þá liggi einnig fyrir að kærði búi í Danmörku og það myndi torvelda mjög rannsókn málsins á þessu stigi ef kærði færi af landi brott. Gæsluvarðhald sé þannig einnig nauðsynlegt til að tryggja nærveru kærða.

Sakarefnið sé talið varða við 173. gr. a., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geta fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og fallist er á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus.  Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. nóvember nk. kl. 16.00.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2006.

Kærði, X, [kt.], með lögheimili í Danmörku hefur krafist þess að sú undantekning verði gerð varðandi þá takmörkun sem fulltrúi lögreglustjóra hefur tilkynnt að beitt verði samkvæmt c-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 að eiginkona kærða og barn fái að heimsækja hann meðan á gæsluvarðhaldi stendur. 

Fulltrúi lögreglustjóra hefur mótmælt þessari kröfu. 

Líkt og fram kemur í úrskurði dómara um gæsluvarðhald hér að framan telur dómari að virtum atvikum máls að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins ef hann gengur laus. Með vísan til þeirra raka sem fram koma í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að öðru leyti er ekki fallist á kröfu kærða þar sem telja verði að öðrum kosti hættu á að gagnkvæm upplýsingaskipti geti átt sér stað.  Verður því fallist á að rannsóknarhagsmunir málsins réttlæti að svo stöddu að kærði sæti takmörkun samkvæmt c-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 án þeirrar undantekningar sem kærði gerir kröfu um.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kærða, X, um að eiginkona hans og barn fái að heimsækja hann meðan á gæsluvarðhaldi stendur, er hafnað.