Hæstiréttur íslands
Mál nr. 173/2003
Lykilorð
- Veiðiréttur
- Afréttur
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 173/2003. |
Sigurrós K. Indriðadóttir og Örnólfur Björgvinsson (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Húnaþingi vestra (Ólafur Haraldsson hrl.) og gagnsök |
Veiðiréttur. Afréttur.
Eignarhald veiðiréttar í Syðra-Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði var ákvarðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna um eigendaskipti að veiðiréttinum, en auk þess löggerninga um aðliggjandi jarðir og afrétt. Var H talinn eigandi veiðiréttarins að undanskildum þeim veiðirétti sem fylgdi jörðinni E, áður hafði fylgt jörðinni Þ samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þ 31. maí 1887.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. maí 2003. Krefjast þau sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 22. júlí 2003 og krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að allur veiðiréttur í Syðra Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði tilheyri sér sem eiganda Núpsheiðar og Þverár. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Deila málsaðila snýst um veiðirétt í öðru af tveimur vötnum við norðurmörk Efranúpsheiðar, Ytra Kvíslarvatni og Syðra Kvíslarvatni, iðulega nefnd Kvíslarvötn. Samkvæmt framlögðum uppdrætti munu vera tvö önnur vötn á Arnarvatnsheiði einnig kölluð Kvíslarvötn, hið syðra og nyrðra. Samkvæmt uppdrættinum munu þau vötn liggja töluvert sunnar en Kvíslarvötn þau sem fyrst eru nefnd og utan merkja jarðarinnar Þverár og Efranúpsheiðar.
Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega rakin lögskipti vegna jarðanna Efra Núps og Þverár sem og Efranúpsheiðar. Þar kemur meðal annars fram að til 20. janúar 1985, er hluti jarðarinnar Þverár var seldur Fremri og Ytri Torfustaðahreppum, var hið svokallaða Ytra Kvíslarvatn að öllu leyti innan landamerkja Þverár en einungis hluti Syðra Kvíslarvatns. Hinn hluti vatnsins var innan marka Efranúpsheiðar samkvæmt landamerkjabréfi 16. febrúar 1891, en heiðin var nýtt var sem sérstakur afréttur frá jörðinni Efra Núpi, uns hann var seldur Torfastaðahreppi með kaupsamningi 15. ágúst 1896. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að aðaláfrýjendur hafi ekki sýnt fram á að veiðiréttur Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni hafi verið sérstaklega undanskilinn við sölu Efranúpsheiðar 15. ágúst 1896, en veiðiréttur fylgir almennt afréttum. Samkvæmt framanrituðu verður ekki fallist á þá málsástæðu aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti að áður gert samkomulag þáverandi eigenda jarðanna Efra Núps og Þverár 31. maí 1887, sem rakið er í héraðsdómi og lýtur að samnýtingu þeirra að báðum vötnunum, leiði óhjákvæmilega til þess að túlka beri þinglýst afsal fyrir Efranúpsheiði 27. maí 1898 á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var veiðiréttur jarðarinnar Þverár í Syðra Kvíslarvatni undanskilinn sölu jarðarinnar 18. júní 1908 og lagður undir Efra Núp. Var enda getið sérstaklega um það í kaupsamningi fyrir jörðinni Efra Núpi 7. júní 1919 að henni fylgdi veiðiréttur í syðra Kvíslarvatni fyrir landi Þverár. Verður ekki séð að veiðiréttur þessi hafi síðar verið færður undan jörðinni Efra Núpi. Sú veiði sem stunduð hefur verið frá Efra Núpi í Syðra Kvíslarvatni og lýst hefur verið með gögnum og framburði fjölda vitna, var því í samræmi réttindi jarðarinnar og fór á engan hátt í bága við veiðirétt þann er fylgdi Efranúpsheiðinni í þessu sama vatni, enda verður ekki séð að til hafi verið að dreifa samkomulagi um skiptingu veiðinnar í vatninu milli þeirra sem rétt höfðu til hennar. Með þessari athugasemd verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að veiðiréttur í Syðra Kvíslarvatni hafi ekki getað lagst að öllu leyti undir Efra Núp fyrir hefð.
Þá er fallist á það með héraðsdómi að þótt jarðirnar Efri Núpur og Þverá hafi á árinu 1985 á ný komist í eigu eins og sama manns leiði það eitt og sér ekki til þess að veiðiréttur Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni, sem undanskilinn var sölu Þverár 1908, hafi verið lagður aftur til síðastnefndrar jarðar, enda um tvær sjálfstæðar landareignir að ræða. Þá bera framlögð gögn ekki með sér að svo hafi verið gert. Eins og hér háttar til verður því að telja að heimilt hafi verið að undanskilja veiðirétt Efra Núps í Syðra Kvíslarvatni við sölu á hluta af landi Efra Núps og Þverár sunnan afréttargirðingar til Fremri og Ytri Torfastaðahreppa 20. júní 1985. Að þessu virtu og því sem rakið hefur verið verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Rétt er að hver aðilanna greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. febrúar 2003.
I.
Mál þetta var höfðað 26. mars 2002 og tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi 5. desember sl. Málið var endurupptekið og frekari gögn lögð fram 12. þessa mánaðar og þann sama dag endurflutt og dómtekið að nýju. Stefnandi er Húnaþing vestra, Klapparstíg 4, Hvammstanga. Stefndu eru Sigurrós K. Indriðadóttir og Örnólfur Björgvinsson bæði til heimilis að Bjargartanga 3, Mosfellsbæ.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að allur veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni tilheyri honum sem eiganda að Efranúpsheiði og jörðinni Þverá. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda að því marki sem kröfur hans beinast að eignarréttindum þeirra. Þá kerfjast þau málskostnaðar úr hendi stefnda og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu þeirra til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II.
Málavextir.
Kvíslarvötn eru nefnd tvö vötn á Núpsheiði í Miðfirði, Húnaþingi vestra en Núpsheiði liggur að og er hluti af Arnavatnsheiði. Vötnin hafa verið aðgreind þannig að þau eru nefnd Ytra-Kvíslarvatn og Syðra-Kvíslarvatn en í daglegu tali mun oftast hafa verið talað um þau bæði í einu sem Kvíslarvötn. Upphaflegar dómkröfur stefndu tóku til beggja vatnanna en eftir að stefndu lýstu því yfir að þau gerðu ekki tilkall til veiðiréttar í ytra vatninu takmarkast mál þetta við veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni.
Undir lok 19. aldar voru vötnin innan landamerkja jarðanna Þverár og Efri-Núps en Núpsheiði var hluti af eignarlandi Efra-Núps þó svo að í raun væri heiðin sérstök eign. Allt Ytra-Kvíslarvatn var innan landamerkja Þverár. Syðra-Kvíslarvatn var að stærstum hluta innan landamerkja Núpsheiðar en einhver hluti vatnsins lá á þessum tíma innan landamerkja Þverár og verður ekki annað séð en ágreiningslaust sé með aðilum þessa máls hvar merki milli jarðanna voru á þessum tíma.
Í landamerkjalýsingu frá 31. maí 1887 fyrir jörðina Þverá segir svo um veiðirétt í Kvíslarvötnum: ,,Eptir framangreindum merkjum verður nokkur partur af syðra Kvíslavatni og allt norðara vatnið liggjandi í Þverárlandi. En þess ber að geta að núverandi eigendur Efranúps og Þverár gjöra það að samningi sín í milli, að silungsveiði og önnur afnot þesssara svokölluðu Kvíslarvatna skuli vera til helmingaskipta brúkuð af ábúendum Efranúps og Þverár, sem hver önnur sameign, en ekki mega þeir ljá eða leigja öðrum veiðina.”
Almennur bændafundur í Fremri-Torfustaðahreppi var haldinn að Efra-Núpi þann 21. apríl 1896. Í fundargerð sem rituð var á fundinum kemur fram að fundurinn hafi m.a. verið haldinn til að ræða kaup á afréttarlöndum Aðalbóls- og Núpsheiða. Fyrir fundinum lá tilboð frá eiganda Aðalbólsheiðar um að hann gæfi kost á heiðinni fyrir 1.000 krónur. Jafnframt bar oddviti hreppsins upp fyrirspurn til eiganda Núpsheiðar hvort nefnt heiðarland fengist keypt og með hvaða kostum. Heiðareigandinn Hjörtur Líndal lýsti vilja sínum til að selja upprekstrarfélagi Fremri- og Yrti Torfustaðahreppa, Núpsheiði fyrir 1.200 krónur með þeim ummerkjum sem tiltekin eru í áðurgjörðum leigusamningi við hreppsnefndir Ytri- og Fremri Torfustaðahreppa. Í fundargerðinni kemur einnig fram að Hjörtur Líndal hafi lýst því að samkvæmt landamerkjaskrá hefði Neðri-Núpur fríjan upprekstur á heiðina og setti Hjörtur það sem skilyrði fyrir sölunni sá réttur stæði áfram. Þá setti hann ennfremur það skilyrði að Efri-Núpur hefði frítt fuglafang á heiðinni svo lengi sem hann væri ábúandi þar. Þann 29. maí 1896 samþykktu hreppsnefndir Torfustaðahreppa að kaupa Núpsheiði fyir 1.200 krónur. Hinn 27. maí 1898 afsalaði Hjörtur Líndal Efrinúpsheiði til Fremri-og Ytri-Torfustaðahreppa með öllum réttindum og skyldum að undanskyldum þeim atriðum sem í kaupsamningi frá 15. ágúst 1896 greinir. Þessi kaupsamningur hefur ekki fundist.
Hjörtur Líndal eignaðist jörðina Þverá í maímánuði 1905 og átti hann þá bæði býlin Efri-Núp og Þverá. Með kaupsamningi dagsettum 18. júní 1908 selur Hjörtur Líndal Hirti L. Jónssyni Þverá. Í kaupsamningnum er veiðiréttur Þverár í Kvíslarvatni undanskilinn og tekið fram að veiðiréttur fyrir Þveárlandi í Kvíslarvatni skuli að öllu leyti tilheyra Efra-Núpi. Afsal byggt á þessum kaupsamningi var gefið út 12. júní 1909. Eftir þetta gengur Þverá nokkrum sinnum kaupum og sölum án þess að veiðiréttar í Kvíslavötnum sé getið sérstaklega þar til Ketilríður Benendiktsdóttir selur hluta landsins á árinu 1985 eins og rakið verður síðar.
Þann 7. júní 1919 seldi Hjörtur Líndal syni sínum, Benedikt H. Líndal, Efri-Núp ásamt hjáleigunni Núpsseli. Í kaupsamningi er tekið fram að jörðinni fylgi öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni fyrir landi Þverár. Ketilríður Benenditsdóttir, dóttir Benedikts H. Líndal og eiginmaður hennar Jóhann G. Helgason tóku við búskap að Efri-Núpi á árinu 1965 og þann 16. ágúst 1967 afsalði Benedikt H. Líndal jörðinni til tengdasonar síns. Í afsali kemur fram að jörðinni fylgi öll réttindi og skyldur sem henni fylgi og fylgja ber samkvæmt landamerkjaskrá frá 1892 og kaupbréfi frá 7. júní 1919. Með skiptayfirlýsingu dagsettri 20. janúar 1985 eignaðist Ketilríður Benedikstdóttir Efri-Núp.
Þann 20. júní 1985 gerðu Ketilríður Benediksdóttir og Fremri- og Ytri Torfustaðahreppar kaupsamning þess efnis að hrepparnir keyptu af Ketilríði allt land jarðanna Þverár og Efra-Núps ,,sunnan núverandi afréttargirðingar” eins og landinu er lýst í kaupsamningi. Eiginmaður Ketilríðar Jóhann G. Helgason eignaðist Þverá á árinu 1970 en ekki er um það deilt að Ketilríður hafi á árinu 1985 haft heimild til að ráðstafa eigninni líkt og hún gerði. Bæði Kvíslarvötn eru sunnan nefndrar afréttargirðingar og eru vötnin bæði frá þessum tíma alfarið á landi í eigu hreppanna en áður er því lýst að hrepparnir höfðu keypt Núpsheiði. Í kaupsamningnum var tekið fram að við sölu landsins væri undanskilinn sá réttur sem fylgdi þessum jörðum um veiði í Kvíslarvötnum en kaupendur áskildu sér rétt til að athuga og fá úr því skorið hvaða veiðirétt þeir ættu í áðurnefndum vötnum. Þann 11. maí 1988 afsalaði Ketilríður Benedikstsdóttir Fremri- Torfustaðahreppi jörðinni Þverá. Hvað landamerki jarðarinnar varðaði var vísað til landamerkjaskrár frá 31. maí 1887 að undanskildu landi ,,sunnan afréttargirðingar”. Varðandi veiðirétt í Kvíslarvötnum var vísað til nefndrar landamerkjaskrár frá 31. maí 1887 samanber og 2. gr. kaupsamnings og afsals dagsett 20. júní 1985. Þann 16. júní 1988 kaupa stefndu Efri-Núp af Ketilríði Benediktsdóttur.
Allmargir hreppar í Vestur-Húnavatnssýslu sameinuðust á árinu 1988 í eitt sveitarfélag sem nú heitir Húnaning vestra og voru Torfustaðahreppar ytri og fremri þar á meðal og þannig hefur Húnaþing vestra tekið við réttindum og skyldum hreppanna og þar með aðild að máli þessu.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann eigi allan veiðirétt í Kvíslarvötnum annars vegar vegna þess að hann hafi eignast réttinn með kaupum á Efranúpsheiði, afsal út gefið 27. maí 1898. Hins vegar hafi hann eignast veiðirétt Þverár í vötnunum með kaupum á jörðinni 11. maí 1988.
Stefnandi bendir á að í afsali fyrir Efranúpsheiði komi fram að heiðinni sé afsalað með öllum réttindum og skyldum eins og seljandi hafði eignast hana og átt að undanskyldum þeim atriðum sem greinir í kaupsamningi frá 15. ágúst 1896. Þessi kaupsamningur hefur ekki fundist. Á almennum bændafundi að Efra-Núpi 21. apríl 1896 setti Hjörtur Líndal þau skilyrði fyrir sölunni að eigandi Neðri-Núps ætti frían upprekstur á heiðina og Efri-Núpur frítt fuglafang þar meðan Hjörtur væri ábúandi að Efra-Núpi. Byggir stefnandi á því að önnur skilyrði fyrir sölunni hafi ekki verið í kaupsamnigi þeim sem ekki hefur fundist og bendir í því sambandi á að kaupverð hafi haldist óbreytt frá bændafundinum þar sem kaup Núpsheiðar voru rædd og þar til afsal var gefið út. Heldur stefnandi því fram að ekkert í gögnum málsins styðji það að undanskilja hafi átt fiskveiðina í Kvíslarvötnum við söluna á Efranúpsheiði. Óumdeilt sé að eftir söluna á heiðinni hafi Efri-Núpur ekki lengur átt land að Kvíslarvötnum.
Stefnandi heldur því fram að það hafi verið meginregla á þeim tíma er kaup þessi áttu sér stað að fiskveiði fylgdi vötnum á eignarlandi og þeir sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrgði fyrir því. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 56. kap. landleigubálks Jónsbókar, en þar segir m.a. að hver maður eigi vatn og veiðistöð á sinni jörðu og á sem að fornu hefur verið nema með lögum sé frá komið, sbr. nú 1. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Þessi regla leiði til þess að ef ekki séu skýr gögn um annað eigi hver vatn og veiði fyrir sínu landi en allt Syðra-Kvíslarvatn sé innan landamerkja Núpsheiðar.
Stefnandi bendir á að þegar Núpsheiði var afsalað til hans 27. maí 1898 hafi lög ekki girt fyrir það að landeigendur gætu ráðstafað veiðirétti sínum með samningum. Með lögum 15/1923 hafi fyrst verið lagt bann við því að skilja fiskveiðirétt frá landareign. Í þessu máli verði því að horfa til þeirra réttarreglna sem í gildi voru við afsal í maí 1898. Síðari lögskipti eftir gildistöku vatnalaga hafi ekki neina þýðingu fyrir þetta úrlausnarefni og ekki áhrif á niðursöðu máls þessa.
Til frekari stuðning þess að veiðiréttur hafi ekki verið undanskilinn við söluna á Núpsheiði bendir stefnandi á að ekkert er minnst á veiðirétt þennan í fasteignamati fyrir Efra-Núp á árunum 1918, 1932 eða síðar en í fasteignamötum þessum er þess þó sérstaklega getið að Efri-Núpur eigi veiðirétt fyrir landi Þverár. Telur stefnandi þetta gefa til kynna huglæga afstöðu Hjartar Líndal, hreppstjóra þáverandi eiganda Efra-Núps, til þess hvaða veiðiréttindi tilheyrðu jörðinni. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að afstaða Hjartar til veiðiréttar Efri-Núps komi glögglega fram í afsalsbréfi hans til sonar hans Benedikts H. Líndal dagsett 7. júní 1919. Í afsalinu reki Hjörtur skilmerkilega öll þau hlunnindi sem fylgi jörðinni. Þar komi m.a. fram að jörðinni fylgi hálfur viðarreki á jörðinni Skriðunessenni í Birtu, Strandasýlsu á milli Stigakletts og Rauðuskriðu. Einnig beitarítak og torfristu í Neðra-Núpsjörð í Fremri-Torfustaðahreppi svo og öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni í landi jarðarinnar Þverár í Núpsdal. Í afsalinu geti Hjörtur í engu veiðiréttar jarðarinnar í Kvíslarvötnum en tilgreinir einungis að Efra-Núpi fylgi nú veiðiréttur fyrir landi jarðarinnar Þverár. Hjörtur hafi verið eigandi Þverár og Efra-Núps á árunum 1905 til 1909 og lagt veiðirétt Þverár til Efra-Núps þegar hann seldi Þverá á árinu 1909. Heldur stefnandi því fram að eigendur Efra-Núps hafi veitt í Kvíslarvötnum í skjóli veiðiréttarins sem áður var í eigu Þverár. Af hálfu stefnanda er á því byggt að ef veiðiréttur hefði verið undanskilinn við sölu Núpsheiðar hefði þessi veiðiréttur verið talinn til hlunninda í afsali þessu.
Stefnandi byggir á því að hann hafi eignast veiðirétt Þverár í Kvíslarvötnum með afsali 11. maí 1988 en þá hafi hann keypt jörðina af Ketilríði Benediktsdóttur sem á þeim tíma átti bæði Þverá og Efri-Núp. Byggir stefnandi á því að sala veiðiréttarins hafi verið í samræmi við grundvallarsjónarmið 2. og 3. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna saminga- og kauparéttar. Þá vísar hann til 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar svo og til lax og silungs-veiðilaga nr. 76/1970. Viðurkenningarkrafan er byggð á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991. Krafa um málskostnað er reist á XXI kafla nefndra laga um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu telja að með sölu Ketilríðar Benediktsdóttur á jörðinni Þverá til Fremri-Torfustaðahrepps hafi stefnandi eignast allan veiðirétt í Ytra-Kvíslarvatni og um veiðirétt í því vatni sé því ekki ágreiningur.
Af hálfu stefndu er á því byggt að fyrirliggjandi eignarheimildir og þinglýst gögn leiði til þess að þau eigi veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni. Stefndu hafna því að Hjörtur Líndal hafi selt Ytri- og Fremri Torfustaðahreppum veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni þegar hrepparnir keyptu af honum Núpsheiði á árinu 1896. Halda þeir því fram að þegar höfð er hliðsjón af síðari gögnum um ráðstöfun jarðarinnar og skýrslur aðila sem þekkja vel til máls þessa sé ljóst að veiðirétturinn hafi verið skilinn frá við söluna. Benda stefndu í þessu sambandi á að fjórir mánuðir liðu frá bændafundinum að Efra-Núpi og þar til kaupsamningur var gerður og á slíkum tíma geti margt gerst. Stefndu vísa til þess að augljós ástæða hafi verið fyrir því að skilja veiðiréttinn frá þar sem 12 kílómetrar eru frá Efra-Núpi að Syðra-Kvíslarvatni og ávinningur augljós fyrir ábúendur þar að fara ekki lengri leið eftir soðningu og vetrarforða. Þá sé og einsýnt að hrepparnir voru fyrst og fremst að leita eftir kaupum á beitilandi enda hafi heiðarland jarðarinnar verið ,,bæði mikið og gott” eins og fram kemur í jarðalýsing frá 1849. Hrepparnir hafi þannig ekki verið að falast eftir veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni sem alla tíð hafði verið nytjað frá Efra-Núpi.
Með kaupum á Þverá árið 1905 hafi Hjörtur Líndal eignast veiðirétt jarðarinnar í syðra vatninu og þar með hafi hann átt allan veiðirétt í því vatni svo og veiðirétt í ytra vatninu sem var í Þverárlandi. Af hálfu stefndu er því haldið fram að eðlilegt hafi verið að við sölu jarðarinnar til Hjartar J. Jónssonar á árinu 1908 að taka það fram að veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni væri undanskilinn og tilheyrði frá og með þeim degi Efra-Núpi. Á árinu 1919 seldi Hjörtur Líndal síðan syni sínum Benedikt Líndal Efri-Núp. Í kaupsamning vegna þessarar sölu eru talin upp þau réttindi sem fylgdu jörðinni og m.a. segir svo: ,,Einnig öll silungsveiði í Syðra-Kvíslarvatni í landi jarðarinnar Þverár í Núpsdal.” Telja stefndu þetta eðlilegt þar sem réttindi þessi voru tekin frá Þverá á árinu 1908 og því rétt að geta þeirra í kaupsamningi. Aftur á móti hafi verið óþarfi að nefna veiðirétt Efra-Núps í vatninu enda hafi hann fylgt jörðinni alla tíð.
Stefndu benda ennfremur á að Ketilríður dóttir Benedikts og eiginmaður hennar Jóhann G. Helgason hafi, eftir að þau tóku við búi að Efra-Núpi á árinu 1965 stundað veiði í syðra vatninu líkt og fyrri ábúendur höfðu gert og talið fram til skatts tekjur af slíkri veiði. Þá benda stefndu á að þegar Ketilríður seldi Fremri- og Ytri Torfustaðahreppum land Þverár og Efri-Núps sunnan afréttargirðingar á árinu 1985 hafi veiðiréttur jarðanna í Kvíslarvötnum verið undanskilinn. Ketilríður hafi eftir þetta nýtt veiði í vötnunum og auglýst til sölu í dagblaði og selt þar veiðileyfi án athugasemda af hálfu stefnanda á árunum 1985 til 1987.
Af hálfu stefndu er á því byggt að þau hafi eignast veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni með kaupum sínum á Efra-Núpi af Ketilríði Benediktsdóttur þann 6. júní 1986. Þremur vikum áður hafði Ketilríður selt Fremri-Torfustaðahreppi jörðina Þverá. Í samningi vegna sölu Efra-Núps er tekið fram að jörðinni fylgi veiðiréttur í Miðfjarðará og Kvíslarvötnum. Hvað veiðirétt í Kvíslarvötnum varðar var vísað til landamerkjaskrár frá árinu 1887. Hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi fjallað um samninginn 28. júní 1988 og samþykkt söluna. Jarðanefnd Vestur-Húnavatnssýslu hafi í framhaldi af því einnig samþykkt söluna. Af háflu stefndu er á því byggt að með þessu séu þinglýstar eignarheimildir sem kveði á um að þau séu eigendur veiðiréttinda í syðra vatninu. Almennar sönnunarreglur leiði til þess að sá sem gerir tilkall til þinglýstra eignarheimilda annarra beri sönnunarbyrgði fyrir þeirri staðhæfingu sinni. Stefnandi verði því að sanna að veiðirétturinn tilheyri ekki Efra-Núpi og að hann sé eigandi umþrættra veiðiréttinda. Stefnandi verði því að bera hallann af því að kaupsamningur Hjartar Línda og Fremri- og Ytri Torfustaðahreppa hefur ekki fundist í skjalasafni hans en þar kemur fram hvað var undanskilið við sölu Hjartar á Núpsheiði.
Af hálfu stefndu er á því byggt að nýting eigenda og ábúenda að Efra-Núpi á veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni styðji kröfu þeirra um eignarrétt að veiðirétti í vatninu. Þessi hagnýting styðji málsástæður og sjónarmið þeirra þess efnis að veiðiréttur í syðra vatninu hafi ekki fylgt við sölu Núpsheiðar.
Stefndu hafna sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda að sérstök sönnunarregla sem hann leiðir af 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar eigi við í þessu máli enda fari sá skilningur stefnanda gegn þinglýstum eignarheimildum stefndu og almennum sönnunarreglum íslensks réttar. Í þessu sambandi benda stefndu á að Núpsheiði var háð fullkomnum eignarrétti eiganda Efri-Núps þar til heiðin var seld 1896. Þannig átti Hjörtur Líndal veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni og honum var á þessum tíma heimilt að undanskilja veiðiréttinn frá landareigninni. Þess vegna fari eignarhald á heiðinni og veiðiréttur í vatninu ekki saman eftir söluna. Af hálfu stefndu er því haldið fram að þegar Núpsheiði var seld hafi verið óheimilt að spilla eða banna þeim veiði sem hana hefði haft frá fornu fari. Með því að halda eftir veiðirétti í vatninu hafi Hjörtur fylgt þessari reglu og vísa stefndu í þessu sambandi til 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar.
Ennfremur er á því byggt af hálfu stefndu að einu lögskipti sem í raun skipta hér máli sé sala Núpsheiðar árið 1898. Stefnandi verði að bera hallann af því að geta ekki lagt fram kaupsamning vegna heiðarinnar en ljóst sé að eigendur Efri-Núps hafi alla tíð litið svo á að veiðiréttur í vatninu fylgdi jörðinni. Stefndu telja að ekki sé byggjandi á tilgreiningu veiðiréttinda í fasteignamati. Þannig sé ekkert tilgreint varðandi veiðirétt í Kvíslarvötnum í fasteignamati ársins 1940 fyrir Efri-Núp og því megi sjá að réttindin hafi ekki alltaf verið talin í fasteignamati. Árið 1940 hafi Benedikt H. Líndal verið eigandi jarðarinnar og þrátt fyrir að hann teldi til eignarréttar yfir veiðiréttindum í Syðra-Kvíslarvatni voru þau ekki tilgreind í fasteignamti. Benedikt hafi líkt og faðir hans gegnið út frá því að jörðin ætti þessi réttindi. Í þessu sambandi megi t.d. benda á yfirlýsingu Filippusar Jóhannssonar er réði sig til Benedikts vorið 1954 og var þar í 10 ár. Hann segi Benedikt hafa sagt sér að þegar faðir hans seldi Núpsheiði hafi veiðiréttur í syðra vatninu ekki verið seldur með. Sama megi segja um yfirlýsingar dætra Benedikts þeirra Guðrúnar, Brynhildar, Pálinu, Sigríðar, Hjördísar, Ketilríðar og Öldu. Þá hafi Benedikt talið fram til skatts tekjur vegna silungsveiði í vatninu.
Stefndu byggja kröfu sína einnig á því að hefð sé fullnuð í skilningi hefðalaga nr. 46/1905. Veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni hafi verið nýttur af eigendum og ábúendum Efra-Núps mann fram af manni og þeir hafi litið á réttinn sem sína eign og farið þannig með hann frá ómunatíð og því sé skilyrði hefðalaga um óslitið eignarhald uppfyllt. Eignarréttur þeirra hafi hingað til ekki verið dreginn í efa. Huglæg afstaða hefðanda og almennt álit nágranna þeirra leiði til þessarar niðurstöðu. Í máli þessu liggi fyrir yfirlýsingar og vitnisburður margra aðila, sem þekkja vel til jarðarinnar og veiðiréttinda hennar, um það hvernig veiði í Syðra-Kvíslarvatni hefur verið háttað í gegnum tíðina. Allar yfirlýsingarnar séu samhljóða varðandi nýtingu veiðiréttinda í vatninu, þ.e. að veiðirétturinn hafi verið undanskilinn við sölu Núpsheiðar og nýttur frá Efra-Núpi. Í þessu sambandi megi einnig benda á lýsingu veiðiferðar Björns Sigurðssonar á Efra-Núpi í ritinu Göngur og réttir. Þá benda stefndu á að eigendur og ábúendur Efra-Núps, þau með talin, hafa talið fram til skatts tekjur af silungsveiði og selt veiðileyfi í vatninu. Stefndu benda á að þau hafi andmælt því að Syðra-Kvíslarvatn yrði hluti af veiðifélagi á Arnarvatnsheiði og veiðimálastjóri hafi fallist á sjónarmið þeirra fyrir utan athugasemd varðandi tveggja króka hald í Arnarvatni og hann hafi talið að taka skyldi tillit til þess við gerð arðskrár fyrir félagið. Þá hafi landbúnaðarráðuneytið hafnað staðfestingu samþykkta veiðifélagsins þar sem þær myndu óbreyttar brjóta gegn réttindum stefndu. Þannig liggi fyrir ljós afstaða þessara stjórnvalda gagnvart veiðirétti stefndu. Af háflu stefndu er því haldið fram að þó svo að veiðiréttur í Syðra-Kvíslarvatni hefði fylgt með við sölu Núpsheiðar á sínum tíma þá skipti það í raun ekki máli því veiðiréttindin hafi færst til Efri-Núps fyrir hefð og þannig útrýmt rétti stefnanda.
Af hálfu stefndu er ennfremur á því byggt að engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnanda við hagnýtingu eða ráðstöfun veiðiréttinda jarðarinnar í gegnum tíðina. Með tómlæti sínu og athafnaleysi hafa stefnandi því glatað réttindum sínum eða veitt eigendum og ábúendum Efra-Núps allan veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni hafi þau réttindi á annað borð færst til stefnanda við kaup hans á Núpsheiði árið 1896. Stefndu byggja jafnframt á því að af hálfu jarða- eða hreppsnefndar Fremri-Torfustaðahrepps hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við kaup þeirra á jörðinni árið 1988. Með þessu hafi þessi stjórnvöld talið réttindi stefndu hafin yfir allan vafa. Hreppsnefnd Fremri-Torfustaðahrepps hafi fjallað um kaupsamning stefndu á fundi 28. júní 1988 og samþykkt að nýta sér ekki forkaupsrétt sinn. Hefði hreppsnefndin talið sig vera eiganda að öllum veiðirétti í Syðra-Kvíslarvatni þá hefði hún átt að synja um ráðstöfun veiðiréttinda jarðarinnar. Með því að afsala sér forkaupsrétti hafi hreppsnefndin einnig samþykkt ráðstöfun veiðiréttindanna sem fólst í kaupsamningnum.
Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna um stofnun eignarréttar og eignarráð fasteignareiganda, almennra reglnasaminga- og kröfuréttar, 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, laga nr. 46/1905 um hefð, einkum 2., 3. og 6. gr., svo og jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Málskostnaðarkröfu byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reisa þeir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Niðurstaða.
Í máli þessu er eingöngu deilt um veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni en stefndu gera ekki tilkall til veiðiréttar í ytra vatninu. Aðilar eru sammála um að landamerkjalýsing fyrir Þverá frá 31. maí 1887 sé rétt og þar með verði nokkur partur af syðra-Kvíslarvatni og allt norðara vatnið liggjandi í því landi sem á þeim tíma tilheyrði Þverá.
Fram hefur komið að kaupsamningur frá 15. ágúst 1896 þar sem Hjörtur Líndal selur upprekstrarfélagi Fremri- og Yrti Torfustaðahreppa Núpsheiði hefur ekki fundist. Er hér því til úrlausnar hvort stefnendur eigi veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni á grundvelli þess að þeir hafi keypt veiðiréttinn um leið og þeir keyptu Núpsheiði og þar með mestan hluta þess lands sem liggur að vatninu eða hvort stefndu eigi þar veiðirétt vegna þess að Hjörtur Líndal hafi skilið veiðiréttinn undan er hann seldi Núpsheiði. Einnig kemur til skoðunar veiðiréttur í vatninu sem tilheyrði jörðinni Þverá en sá réttur var lagður til Efra-Núps þegar Hjörtur Líndal seldi Þverá á árinu 1908.
Niðurstaða máls þessa veltur að mestu á því hvor aðila verður látinn bera hallann af því að ekki er unnt að upplýsa hvað stendur í hinum glataða kaupsamningi um Núpsheiði. Stefnandi heldur því fram að meginreglur laga leiði til þess að hann hafi keypt veiðiréttinn með heiðinni á sínum tíma. Þá bendir hann á fundargerð almenns bændafundar þar sem ákveðið var að kaupa heiðina, á afsal fyrir heiðinni þar sem tekið er fram að Neðri-Núpur eigi frían upprekstur og Efri-Núpur frítt fuglafang meðan seljandi er ábúandi þar. Jafnframt bendir hann á skráningu í fasteignaskrá. Stefndu byggja aftur á móti á því að eðlilegt hafi verið að skilja veiðiréttinn undan vegna þess hversu stutt er frá Efra-Núpi að vatninu. Á því að hrepparnir hafi fyrst og fremst verið að kaupa beitiland, oþví að Syðra-Kvíslarvatn hafi alla tíð verið nytjað og með það farið sem eign Efra-Núps og því að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda meintum rétti sínum til haga.
Í fundargerð sem rituð var á nefndum bændafundi sem haldinn var á Efra-Núpi 21. apríl 1896 kemur fram að Hjörtur Líndal er tilbúinn að selja Núpsheiði fyrir 1.200 krónur með þeim ummerkjum sem tiltekin eru í áðurgjörðum leigusamningi við hreppsnefndir Ytri- og Fremri Torfustaðahreppa. Jafnframt er skráð að Hjörtur hafi tekið fram að eigandi Neðra-Núps ætti fríjan upprekstur á heiðina samkvæmt landamerkjaskrá sem yrði að standa óhaggað þrátt fyrir að kaup þessi fari fram og loks áskilur hann sér frítt fuglafang á heiðinni svo lengi sem hann er ábúandi á Efra-Núpi og að öðrum yrði ekki heimilt fuglafang þar í jafnlangan tíma. Í fundargerðinni er því ekkert bókað um að Hjörtur vilji skilja veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni undan við söluna. Það er forn og ný réttarregla, að landeigandi eigi fiskveiði í vötnum á landi sínu, sbr. landbrigðaþátt Grágásar um veiði, 208 kap. Konungsbókar og 438 kap. Staðarhólsbókar, og 56. kap. landsleigubálks Jónsbókar, en nú 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Af þessum sökum var rík ástæða fyrir Hjört Líndal að kveða afdráttarlaust að orði ef ætlun hans var að halda veiðirétti eftir við söluna. Hafi Hjörtur lýst því að hann ætlaði að halda veiðiréttinum eftir er harla ólíklegt að veiðiréttur í vatninu hafi ekki komið til umræðu á fundinum og eitthvað um hann bókað í fundargerðinni. Einkum er þetta ólíklegt þegar horft er til þess að sérstaklega er bókað um upprekstrarrétt Neðri-Núps svo og áskilnað Hjartar um frítt fuglafang. Ekkert er minnst á veiðirétt í leigusamningi þeim sem vitnað er til í fundargerðinni og ekki heldur í afsali fyrir heiðinni. Með hliðsjón af þessu telst stefndi bera sönnunarbyrgði fyrir því að veiðiréttur hafi verið undanskilinn eins og hann heldur fram. Sýnileg gögn svo sem sölusamningar varðandi Efri-Núp, lýsingar á hlunnindum jarðarinnar og skráning í fasteignamat benda ekki til þess að veiðiréttur Núpsheiðar í Syðra-Kvíslarvatni hafi verið lagður til Efri-Núps. Stefnda hefur ekki tekist að sanna að það hafi verið gert og verður því ekki fallist á með honum að hann sé eigandi veiðiréttarins af þessum sökum. Skriflegar yfirlýsingar og framburður vitna þess efnis að alltaf hafi verið farið með veiðiréttinn í syðra vatninu sem eign Efri-Núps breyta þessu ekki.
Stefndi hefur jafnframt haldið því fram að hann hafi unnið hefð á títtnefndum veiðirétti. Fyrir dóminn komu allmörg vitni sem staðfestu yfirlýsingar sínar þess efnis að eigendur Efri-Núps hafi um áratugaskeið farið með veiði í vatninu sem sína eign. Af hálfu stefnanda var því auk þess lýst yfir að hann gerði ekki athugasemdir við framlagðar skriflegar yfirlýsingar þeirra sem ekki komu fyrir dóminn sem vitni til að staðfesta yfirlýsingar sínar. Þá liggur og fyrir að meðan Ketilríður Benediktsdóttir átti jörðina auglýsti hún í dagblaði að hún seldi veiðileyfi í Kvíslarvötnum og þá hafa stefndu einnig selt öðrum aðgang að vatninu. Bendir þetta til þess að eigendur og ábúendur á Efra-Núpi hafi í raun talið sig eiga réttindi þessi og jafnframt benda yfirlýsingar og framburður vitna til þess að svo hafi almennt verið talið í nærliggjandi sveitum. Allt frá gildistöku laga nr. 15/1923 hefur verið lagt bann við því í lögum að veiðiréttur sé skilinn frá jörð, nema að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. 121. gr. þeirra laga og nú síðast ákvæði í 4. tl. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 36/1972 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði þessi verði að skýra þannig að þau m.a. banni stofnun veiðiítaks fyrir hefð. Sala Núpsheiðar átti sér stað á árinu 1896 en Hjörtur Líndal seldi jörðina á árinu 1919 og þá fyrst gat hefðartími byrjað að líða enda út frá því gengið að ósannað sé að hann hafi skilið veiðiréttinn frá við söluna. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð getur hefð á ósýnilegum ítökum eingöngu unnist með 40 ára óslitinni notkun og öðrum skilyrðum eignarhefðar uppfylltum. Er því útilokað að fullur hefðartími hafi verið liðinn þegar lög nr. 15/1923 tóku gildi og verður því ekki fallist á með stefnda að hann hafi eignast veiðiréttindin fyrir hefð.
Áður er þess getið að eftir gildistöku laga 15/1923 hafi verið bann við því í lögum að veiðiréttur sé skilinn frá jörð. Óumdeilt er að veiðiréttur sá sem tilheyrði jörðinni Þverá í Kvíslarvatni var frá henni skilinn og lagður til Efra-Núps með afsali 18. júní 1908. Þessi veiðiréttur hefur ekki verið lagður aftur til Þverár. Ákvæði í afsali Ketilríðar Benediktsdóttur til stefnda frá 11. maí 1988 verður ekki túlkað svo að þar sé verið að færa veiðiréttinn aftur til Þverár. Þvert á móti er þar vísað til 2. gr. kaupsemnings sem sömu aðilar gerðu í júní 1985 vegna sölu á landi sunnan afréttargirðingar. Við þau kaup eignaðist stefnandi allt land sem liggur að Ytra-Kvíslarvatni og þann hluta syðra vatnsins sem var innan landamerkja Þverár. Í nefndir 2. gr. er tekið fram að allur veiðiréttur jarðanna Þverár og Efri-Núps sé undanskilinn við söluna og er Ketilríður væntanlega að árétta að hún sé ekki að selja veiðirétt í syðra vatninu og hnykkja á því að hún telji veiðiréttinn tilheyra Efra-Núpi. Skilja verður ákvæði um bann við því að veiðiréttur sé skilinn frá landi taki einnig fyrir að veiðiréttur sé lagður til jarðar sem áður hafði hann. Ákvæði í 3. gr. lax- og silungsveiðilaga frá 1932 og 3. gr. núgildandi laga mæla fyrir um með hvaða hætti unnt er að innleysa veiðiréttindi sem áður höfðu verið skilin frá jörð. Þannig er beinlínis gert ráð fyrir því að veiðiréttur hafi verið skilinn frá jörð enda mun slíkt nokkuð hafa verið tíðkað. Af þessum sökum var óheimilt eftir gildistöku lax- og silungsveiðilaga frá 1932 að færa veiðiréttinn til baka nema með innlausn. Innlausn hefur ekki farið fram og eiga stefndu því samkvæmt þessu veiðirétt í Syðra-Kvíslavatni sem áður tilheyrði jörðinni Þverá. Niðurstaða máls þessa verður því sú að krafa stefnanda um að hann eigi allan veiðirétt í Syðra-Kvíslarvatni verður því ekki tekin til greina en innan kröfugerðar hans rúmast að hann eigi veiðirétt í vatninu annan en þann sem áður tilheyrði jörðinni Þverá og fram kemur í landamerkjabréfi fyrir Þverá frá 31. maí 1887.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan
DÓMSORÐ
Stefnandi, Húnaþing vestra er eigandi veiðiréttar í Syðra-Kvíslarvatni á Núpsheiði í Miðfirði að undanskildum veiðirétti þeim sem nú fylgir Efra-Núpi í Miðfirði en áður fylgdi jörðinni Þverá samkvæmt landamerkjabréfi fyrir Þverá frá 31. maí 1887.
Málskostnaður fellur niður.