Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2006
Lykilorð
- Ríkisstarfsmenn
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 8. júní 2006. |
|
Nr. 8/2006. |
Landspítali-háskólasjúkrahús(Anton B. Markússon hrl.) gegn Tómasi Zoëga (Karl Axelsson hrl.) |
Ríkisstarfsmenn. Stjórnsýsla.
T var skipaður í starf yfirlæknis hjá L árið 1991. Árið 2001 ákvað framkvæmdastjórn sjúkrahússins að hefja undirbúning að breytingum á starfstilhögun yfirmanna þess þannig að þeir myndu framvegis vera í 100% starfi og ekki sinna störfum utan sjúkrahússins öðrum en kennslu og annars konar störfum við háskóla. T rak eigin læknastofu samhliða yfirlæknisstarfi sínu. Í kjölfar samþykktarinnar áttu T og fyrirsvarsmenn L í viðræðum um skyldu hans til að hlíta henni, sem lauk með því að honum var tilkynnt að ákveðið hefði verið að leysa hann undan þeirri ábyrgð og stjórnunarskyldum, sem fylgdu starfi yfirlæknis, og að framvegis myndu starfsskyldur hans felast í starfi sérfræðilæknis á geðsviði. Kom þar fram að ákvörðunin væri reist á 19. gr. laga nr. 70/1996, þar sem mælt er fyrir um skyldu ríkisstarfsmanna til að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði, og að eftir þessa breytingu yrðu ekki gerðar athugasemdir við fyrirkomulag atvinnurekstrar hans. T krafðist ógildingar en til vara viðurkenningar á ólögmæti þessarar ákvörðunar. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að ákvörðunin hefði rúmast innan 19. gr. laganna, heldur talið að í henni hefði falist lok á starfi T sem yfirlæknis og flutningur í annað starf. Ekki lá annað fyrir en að um starflok T ætti að fara eftir 25. gr. og VI. kafla laga nr. 70/1996, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þar sem ákvörðunin var hvorki reist á þessum ákvæðum né hefði L haldið því fram að skilyrðum þeirra hefði í raun verið fullnægt var fallist á hún hefði verið ólögmæt. Talið var að ákvörðunin hefði verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi og var því ekki fallist á kröfu T um ógildingu hennar, sbr. 2. mgr. 32. gr. laganna. Varakrafa hans var hins vegar tekin til greina þannig að viðurkennt var að L hefði verið óheimilt að grípa til umræddrar breytingar á starfi T.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2006. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi mun hafa hafið störf sem sérfræðingur á geðdeild ríkisspítala 1982 en formlega var gengið frá ráðningu hans í mars 1983. Hann var skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 12. febrúar 1991 til að vera yfirlæknir við geðdeild Landspítalans frá og með 1. mars sama ár. Samhliða starfi sínu á sjúkrahúsinu mun hann hafa rekið læknastofu frá árinu 1982. Starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala var sameinuð á árinu 2000 og tók áfrýjandi þá við rekstrinum.
Á fundi framkvæmdastjórnar áfrýjanda 11. desember 2001 var samþykkt að hafinn skyldi undirbúningur að breytingum á starfstilhögun yfirmanna hjá sjúkrahúsinu á þann hátt að þeir gegni starfi sem svarar til 100% starfshlutfalls og sinni ekki öðrum störfum utan sjúkrahússins en kennslu á háskólastigi eða störfum við háskóla. Skyldi þessi skipan taka gildi ekki síðar en í árslok 2002. Lýsti stjórnarnefnd áfrýjanda sig samþykka þessu fyrirkomulagi á fundi 13. sama mánaðar.
Þann 11. október 2002 sendi áfrýjandi stefnda bréf þar sem ákvörðun stjórnarnefndar var rakin og vakin athygli á því að senn liði að áramótum en þá skyldi aðlögunartíma að hinni nýju skipan lokið. Áttu málsaðilar síðan, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi, í samskiptum bréflega og á fundum fram til ársins 2005 um heimild stefnda til að reka læknastofu samhliða yfirlæknisstarfi sínu. Lauk þeim samskiptum með því að áfrýjandi tilkynnti stefnda með bréfi 27. apríl 2005 að ákveðið hefði verið í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að gera breytingar á störfum og verksviði hans. Fælist í þeim að stefndi væri leystur undan þeirri ábyrgð og stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis á geðsviði. Skyldu störf og starfsskyldur hans framvegis felast í starfi sérfræðilæknis á geðsviði en samhliða skyldu falla niður störf hans og starfsskyldur sem yfirlæknir. Skyldu laun stefnda haldast óbreytt. Jafnframt yrði eftir þessar breytingar ekki gerðar athugasemdir við fyrirkomulag atvinnurekstarar hans samhliða sérfræðilæknisstörfum. Á heimasíðu áfrýjanda var tilkynnt 2. maí 2005 að Hannesi Péturssyni sviðsstjóra lækninga á geðsviði hefði frá 9. sama mánaðar verið falið að taka við þeirri læknisfræðilegu stjórnunarábyrgð sem fylgdi yfirlæknisstarfi stefnda og skyldi sú tilhögun gilda „þar til ráðið hefur verið í yfirlæknisstarfið.“
Stefndi vildi ekki una þeirri ákvörðun sem fólst í fyrrnefndu bréfi áfrýjanda 27. apríl 2005 og höfði mál þetta 13. maí sama ár.
II.
Eins og að framan er rakið skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra stefnda ótímabundið í starf yfirlæknis frá og með 1. mars 1991. Á fundi framkvæmdastjórnar ríkisspítala 21. janúar 1997 var samþykkt að stefndi yrði til næstu tveggja ára einn þriggja sviðsstjóra á geðlækningasviði. Áfrýjandi hefur hvorki lagt fram gögn því til stuðnings að þessi tímabundna breyting á starfsskyldum stefnda hafi hróflað við skipun hans í starf yfirlæknis né hefur hann rennt stoðum undir það að við hann hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur er hann tók á ný við starfsskyldum yfirlæknis að loknu þessu tveggja ára tímabili. Fer því um starfslok stefnda eftir 25. gr. og VI. kafla laga nr. 70/1996 eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum.
Hin umdeilda ákvörðun áfrýjanda 27. apríl 2005 var reist á 19. gr. laga nr. 70/1996 en samkvæmt þeirri grein er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því að hann tók við starfi. Er ljóst af síðasta málslið greinarinnar að hún getur tekið til breytinga sem hafa í för með sér skert launakjör eða réttindi starfsmanns. Þegar þetta er virt og það jafnframt haft í huga að hugtakið staða var ekki notað í lögunum og að meðal markmiða þeirra var að stuðla að aukinni tilfærslu á fólki í störfum verður að telja að í greininni felist allrúmar heimildir til breytinga á starfssviði ríkisstarfsmanna. Til þess er á hinn bóginn að líta að með 5. mgr. 29. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu með áorðnum breytingum er kveðið á um að á svæðis- og deildasjúkrahúsum skuli vera yfirlæknar sérdeilda sem bera ábyrgð á lækningum sem þar fara fram. Hefur yfirlæknir samkvæmt ákvæðinu eftirlit með starfsemi deildarinnar og skal stuðla að því að hún sé ávallt sem hagkvæmust og markvissust. Starf og verksvið yfirlækna er þannið bundið í lögum og verður ekki breytt með ákvörðun stjórnvalds. Umrædd breyting var ekki liður í almennum skipulagsbreytingum á starfsemi sjúkrahússins heldur gerð í tilefni af því að stefndi vildi ekki láta af sjálfstæðum atvinnurekstri sínum. Með henni var stefndi leystur undan lögboðnum stjórnunarskyldum sínum og jafnframt settur undir boðvald annars manns sem við þeim tók. Ákvörðun sú sem tekin var með bréfi áfrýjanda 27. apríl 2005 rúmast af þessum sökum ekki innan heimildar til breytinga á verksviði starfsmanns samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Fólst í henni ákvörðun um lok á starfi stefnda sem yfirlæknis og jafnframt flutningur í annað starf. Um slík starfslok stefnda gilda samkvæmt framansögðu ákvæði 25. gr. og VI. kafla laga nr. 70/1996. Þar sem áfrýjandi hvorki reisti ákvörðun sína um starfslok stefnda á þessum ákvæðum né hefur haldið því fram að skilyrðum þeirra hafi í raun verið fullnægt verður að telja að hún hafi verið ólögmæt.
Eins og að framan var rakið var stefndi árið 1991 skipaður yfirlæknir af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 97/1990. Með 63. gr. laga nr. 83/1997 var gerð sú breyting á 30. gr. fyrrnefndu laganna að forstjóra var falið að ráða aðra starfsmenn sjúkrahússins en meðlimi framkvæmdastjórnar, þar á meðal yfirlækna. Með flutningi veitingarvalds til forstjóra fluttist jafnframt til hans vald til að kveða á um starfslok þeirra og tilflutning milli starfa. Margumrædd ákvörðun um starfslok stefnda var því tekin af þar til bæru stjórnvaldi og verður aðalkröfu stefnda um hún verði ógilt með dómi því hafnað, sbr 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt öllu framansögðu verður tekin til greina varakrafa stefnda á þann hátt að viðurkennt verður að ákvörðun áfrýjanda 27. apríl 2005 um að breyta störfum hans á spítalanum úr því að hann gegni starfi yfirlæknis á geðsviði í það að hann gegni starfi sérfræðilæknis á geðsviði hafi verið óheimil.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að áfrýjanda, Landspítala-háskólasjúkrahúsi, hafi verið óheimilt að breyta starfi stefnda, Tómasar Zoëga, úr því að hann gegni starfi yfirlæknis á geðsviði í það að hann gegni starfi sérfræðings á geðsviði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2005
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 13. maí 2005 og dómtekið 19. desember sl. Stefnandi er Tómas Zoëga, Viðjugerði 8, Reykjavík. Stefndi er Landspítali háskólasjúkrahús, Eiríksgötu 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að ógilt verði sú ákvörðun stefnda 27. apríl 2005 að breyta störfum stefnanda á þann veg að í stað þess að hann gegni starfi yfirlæknis á geðsviði gegni hann starfi sérfræðilæknis á geðsviði. Stefnandi gerir til vara þá kröfu að viðurkennt verði að þessi ákvörðun stefnda sé ólögmæt. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Helstu atvik málsins eru ágreiningslaus.
Stefnandi hóf störf sem sérfræðingur við geðdeild ríkisspítala á árinu 1982, en var skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 12. febrúar 1991 til að gegna stöðu yfirlæknis við geðsvið Landspítalans frá og með 1. mars það ár. Starfshlutfall stefnanda hefur verið 100% hjá spítalanum frá því að hann hóf störf þar, en samhliða starfi sínu hjá stefnda hefur stefnandi frá upphafi rekið eigin læknastofu. Árið 1997 var stefnandi ráðinn án auglýsingar í starf sviðsstjóra geðlækningasviðs. Heldur stefndi því fram að með þessari ráðningu hafi starfi stefnanda sem yfirlæknis lokið. Stefnandi hafi svo á árinu 2002 verið ráðinn með ótímabundinni ráðningu í núverandi starf sitt eftir breytingar á skipuriti stefnda. Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann hafi aldrei sagt lausu starfi sínu sem yfirlæknir og hafi hann gegnt því starfi með starfi sviðsstjóra á umræddum tíma. Hafi staða hans sem yfirlæknis þannig grundvallast á skipun ráðherra sem gerð var í tíð laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Með bréfi 30. desember 2004 var stefnandi upplýstur um að vegna höfnunar hans á því að gera samkomulag um að hætta rekstri sjálfstæðrar læknastofu áformaði stefndi að gera breytingar á starfi og verksviði hans í samræmi við 19. gr. laga nr. 70/1996. Sagði í bréfinu að í áformum stefnda felist að stefnandi yrði leystur undan þeirri ábyrgð svo og þeim stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis. Samkvæmt því fælust störf og starfsskyldur stefnanda eftirleiðis í starfi sérfræðilæknis og samhliða féllu niður störf og starfsskyldur hans sem yfirlæknis. Jafnframt myndi starfsheiti hans breytast frá núverandi starfsheiti yfirlæknis í starfsheitið sérfræðilæknir. Í áformuðum breytingum á störfum og verksviði fælist jafnframt breyting á launaflokki og lækkun á starfshlutfalli, þ.e. úr 100% starfshlutfalli í 80% starfshlutfall. Var stefnanda gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir og andmæli við þessa fyrirhuguðu ákvörðun. Ritaði lögmaður stefnanda yfirstjórn stefnda bréf 31. janúar 2005, þar sem fyrirhugaðri ákvörðun var mótmælt og áskilinn réttur til að krefjast ógildingar ákvörðunarinnar og hafa uppi kröfur um skaðabætur. Með bréfi Jóhannesar M. Gunnarssonar, þáverandi forstjóra stefnda, og Vilhelmínu Haraldsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra lækninga stefnda, 27. apríl 2005 var stefnanda tilkynnt um að ákveðið hefði verið að breyta störfum og verksviði hans. Í bréfinu segir nánar tiltekið eftirfarandi:
Með vísan til framanritaðs tilkynnist hér með að Landspítali- háskólasjúkrahús hefur ákveðið, í samræmi við 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að gera breytingu á störfum og verksviði yðar. Í breytingunum felst að þér verðið leystur undan þeirri ábyrgð svo og stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis á geðsviði. Störf og starfsskyldur yðar felast framvegis í starfi sérfræðilæknis á geðsviði og samhliða falla niður störf og starfsskyldur yðar sem yfirlæknir. Af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss skal upplýst að laun yðar verða óbreytt eftir gildistöku breytingarinnar. Sama gildir um vinnutíma yðar. [/] Breytingar samkvæmt framangreindu taka gildi og koma formlega til framkvæmda þann 1. maí 2005. Sviðstjóri geðsviðs mun afhenda yður starfslýsingu sérfræðilæknis á geðsviði samkvæmt því sem að framan greinir. [/] Eftir þessar breytingar á starfssviði yðar eru ekki gerðar athugasemdir við fyrirkomulag atvinnurekstrar yðar samhliða sérfræðilæknisstörfum á Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
Af hálfu stefnanda var því lýst yfir í bréfi 2. maí 2005 hann teldi framangreinda ákvörðun ólögmæta og myndi hann leita atbeina dómstóla til þess að fá henni hnekkt.
Í stefnu og greinargerð er ítarleg grein gerð fyrir aðdraganda umræddrar ákvörðunar. Í greinargerð er þannig greint frá því að stefndi starfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og hafi hann tekið við sameinaðri starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala með reglugerð sem öðlaðist gildi þann 2. mars 2000. Af hans hálfu er lögð áhersla á að í sameiningunni hafi falist aukin áhersla á rannsóknir, kennslu og vísindi. Þá hafi í tengslum við sameininguna hafist ferli sameininga einstakra sviða, sérgreina og deilda. Í kjölfar sameiningarinnar hafi verið lögð aukin áhersla á að stefndi þyrfti óskipta starfskrafta lækna og koma ætti í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl lækna og mismunun þeirra sem starfa innan og utan sjúkrahúsa. Vísar stefndi í þessu sambandi m.a. til umfjöllunar starfshóps um svokölluð ferliverk, þ.e. verk sem læknar höfðu með höndum sem sjálfstæðir verktakar og inntu af hendi innan veggja sjúkrahússins. Stefndi hefur einnig í dæmaskyni vísað til ákvæða í kjarasamningum og öðrum heimildum um starfskjör lækna allt frá árinu 1980 þar sem fjallað hafi verið um stöðu þeirra lækna sem vinna eingöngu á sjúkrahúsum samanborið við stöðu þeirra sem reka einnig sjálfstæðar stofur. Hinn 11. desember 2001 hafi svo verið samþykkt svohljóðandi tillaga framkvæmdastjóra lækninga á fundi framkvæmdastjórnar stefnda:
Lagt er til að gerðar verði svofelldar breytingar á ráðningum og starfstilhögun yfirmanna sem starfa á sjúkrahúsinu: Frá 1. janúar n.k. skal hafinn undirbúningur að gerð breytinga á ráðningarsamningum og/eða starfstilhögun starfandi yfirmanna hjá sjúkrahúsinu á þann hátt að þeir gegni starfi sem svarar til 100% starfshlutfalls. Sinni þeir ekki öðrum störfum utan sjúkrahússins en kennslu á háskólastigi eða störfum við háskóla. Sama er með setu í nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila. Skal regla þessi hafa tekið gildi eigi síðar en í árslok 2002. Ráðningum yfirmanna til sjúkrahússins skal framvegis svo varið nema í undantekningartilvikum að annað sé talið henta sjúkrahúsinu.
Á fundi stjórnarnefndar stefnda 13. desember 2001 var þessi stefnumörkun framkvæmdastjórnar lögð fram og lýsti stjórnarnefndin sig samþykka þessu fyrirkomulagi. Í greinargerð stefnda er rakið hvernig staðið var að innleiðingu þessarar stefnu og kynningu á henni. Af hans hálfu er lögð áhersla á að umrædd stefnumörkun hafi ekki beinst að stefnanda sérstaklega heldur verið almenns eðlis. Þá hafi hún tekið til allra yfirmanna sjúkrahússins en ekki aðeins lækna.
Í stefnu og greinargerð eru rakin ítarlega samskipti málsaðila eftir að framangreind samþykkt var gerð. Stefndi sendi stefnanda bréf 11. október 2002, þar sem tilkynnt var að um áramótin 2002 og 2003 gengi í gildi umrædd ákvörðun stjórnarnefndar stefnda. Í kjölfarið eða 1. nóvember 2002 áttu stefnandi og þáverandi lækningaforstjóri stefnda, Jóhannes M. Gunnarsson, fund þar sem rætt var um réttarstöðu stefnanda og störf hans hjá stefnda. Með bréfi stefnda 19. febrúar 2003 var stefnanda tilkynnt að stefndi hefði spurnir af því að hann stundaði enn sjálfstæðan atvinnurekstur þrátt fyrir ákvörðun stefnda um að starfandi yfirmenn helguðu starfskrafta sína að fullu spítalanum og gegndu ekki öðrum störfum en þeim sem tilgreind væru sérstaklega að sættu undanþágu. Stefnandi svaraði erindi stefnda með bréfi 16. júní 2003. Kom þar m.a. fram að stefnanda hefði engin grein verið gerð fyrir því á hvaða lagalega grundvelli stjórn stefnda teldi sér heimilt að mæla einhliða fyrir um breytingar á starfskjörum hans. Óskað var eftir rökstuðningi að þessu leyti. Með bréfi stefnda 3. september 2003 var stefnanda tilkynnt að á fundi framkvæmdastjórnar stefnda hefði verið lögð fram tillaga framkvæmdastjóra lækninga um að frá 1. janúar 2004 yrðu gerðar breytingar á ráðningarsamningum og/eða starfstilhögun starfandi yfirmanna hjá sjúkrahúsinu á þann hátt að þeir gegndu starfi sem svaraði til 100% starfshlutfalls. Í bréfinu kom ennfremur fram að stefndi teldi að stefnandi hefði engar ráðstafanir gert til að tryggja framgang samþykktarinnar 11. desember 2001. Var vísað til þess í bréfinu að stefndi hefði heimildir til að mæla fyrir um takmarkanir á þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri utan sjúkrahússins, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996. Í lok bréfsins var af hálfu stefnda óskað eftir upplýsingum um á hvern hátt stefnandi hygðist virða áðurnefndar samþykktir. Stefnandi svaraði bréfi stefnda með bréfi 1. október 2003 og vísaði þá til lögfræðiálits 30. september 2003. Taldi hann með vísan til álitsins að hafið væri yfir vafa að öll meðferð á máli hans væri hrein lögleysa, bæði hvað varðaði form og efni. Óskaði hann eftir skýrum svörum við þeim spurningum sem fram kæmu í lögfræðiálitinu. Að fengnum þeim svörum myndi hann taka afstöðu til framhalds málsins. Loks lýsti stefnandi sig reiðubúinn til viðræðna við sjúkrahúsið. Með bréfi 30. desember 2004, þ.e. um 15 mánuðum síðar, svaraði stefndi bréfi stefnanda. Var í bréfinu rakin atburðarás í tengslum við samþykkt framkvæmdastjórnar stefnda 11. desember 2001 og því lýst að leitað hefði verið eftir samkomulagi við þá yfirmenn sem hlut áttu að máli, þ.á m. við stefnanda, stefnandi hefði hafnað slíku samkomulagi. Er efni bréfsins að öðru leyti rakið hér að framan svo og viðbrögð stefnanda og loks ákvörðun stefnda 27. apríl 2005 sem er andlag kröfugerðar stefnanda í máli þessu. Í stefnu er einnig gerð grein fyrir fundum með fyrirsvarsmönnum stefnda 22. mars 2005 svo og óskum stefnanda eftir fundi með heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Hinn 2. maí 2005 birtist tilkynning á heimasíðu stefnda þess efnis að framkvæmdastjóri lækninga hefði falið Hannesi Péturssyni, sviðsstjóra lækninga á geðsviði, að taka við þeirri læknisfræðilegu stjórnunarábyrgð sem fylgdi yfirlæknisstarfi stefnanda frá og með 9. maí 2005 og þar til ráðið hefði verið í yfirlæknisstarfið. Í fjarveru sviðsstjórans var Halldóri Kolbeinssyni yfirlækni falið að fara með þessa stjórnunarábyrgð til og með 8. maí 2005.
Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram tæmandi upplýsingar um hvaða nafngreindu yfirlæknar stefndu gegndu aukastörfum og hvaða störf þetta væru. Brást stefndi við þessari áskorun með framlagningu lista yfir lækna sem reka eigin stofur eða sinna öðrum aukastörfum. Þetta skjal var skýrt nánar í aðilaskýrslu Jóhannesar M. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga stefnda, og kom þar fram að í ákveðnum tilvikum hefðu yfirlæknar stefnda getað haldið áfram rekstri á eigin læknastofum. Nánar tiltekið kom fram í skýrslunni að deildir þessara yfirlækna, sem væru í 50% eða 75% stöðum, væru svo litlar að litið væri svo á að stefndi gæti ekki gert kröfu til þess að þeir rækju ekki sjálfstæðar stofur jafnhliða yfirlæknisstarfi. Í skýrslunni kom fram að tilteknir læknar hefðu fengið fyrirmæli um að loka stofum sínum en samkomulag hefði náðst við aðra. Í skýrslu Jóhannesar var áréttað að nefndarstörf á vegum hins opinbera, svo sem seta í örorkunefnd, og störf við háskólann væru heimil aukastörf.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefnandi og Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga stefnda. Þá gaf skýrslu sem vitni Tómas Helgason, fyrrverandi yfirlæknir og prófessor emeritus. Er ekki ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að ákvörðun stefnda 27. apríl 2005 hafi farið í bága við form- og efnisreglur stjórnsýslu- og starfsmannaréttar. Stefnandi telur að umrædd ákvörðun stefnda hafi verið stjórnvaldsákvörðun, en leggur þó áherslu á að án tillits til þess hafi stefnda borið að fara að meginreglum stjórnsýsluréttarins áður en hún var tekin. Stefnandi vekur athygli á því að þeir atvinnuhagsmunir hans sem hér sé um að ræða njóti verndar 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og henni var breytt með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að ákvörðun sú sem tekin var af hálfu stefnda hinn 27. apríl 2005 verði ekki reist á 19. gr. laga nr. 70/1996. Ekki hafi verið breytt starfi eða verksviði stefnanda heldur hafi hann í raun verið færður úr starfi því sem hann hafði gegnt frá árinu 1991 í annað lægra sett starf. Um þetta vísar stefnandi m.a. til auglýsingar sem birt var á heimasíðu stefnda hinn 2. maí 2005 og rakin var hér að framan en þar kemur fram að öðrum nafngreindum manni hafi verið falið starf stefnanda sem yfirlæknir á geðsviði. Stefnandi byggir á því að í raun sé um að ræða lausn hans úr embætti og að um þá lausn hafi stefnda borið að fara að reglum þeim sem fram koma í VI. kafla starfsmannalaga, enda falli starfslok stefnanda ekki að neinu þeirra atriða sem getið er um í 25. gr. laganna. Ákvörðunin hafi þannig verið klædd í annan búning en hún í raun var í. Ef aðferðafræði stefnda í þessu máli fengi staðist væri í raun verið að gera þýðingarlaus ákvæði starfsmannalaga um lausn embættismanna sem sett séu embættismönnum til verndar.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að stefndi hafi alls ekki verið bær til að taka ákvörðun um starfslok stefnanda. Að því leyti sé vísað til 1. mgr. 26. gr. starfsmannalaga þar sem segi að stjórnvald er skipi í embætti veiti og lausn frá því um stundarsakir. Stefnandi hafi, svo sem að framan sé getið, verið skipaður af ráðherra sem yfirlæknir við stefnda frá og með 1. mars 1991. Með vísan til ofangreindrar reglu 26. gr. starfsmannalaga hafi forstöðumenn stefnda ekki verið til þess bærir að taka þá ákvörðun sem þeir tóku 27. apríl 2005. Um sé að ræða valdþurrð en í stjórnsýslurétti sé talið að valdþurrð leiði ein og sér til ógildingar á ákvörðun.
Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að stefndi hafi við ákvörðun sína brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og að ákvörðunin hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Hafi það verið ómálefnalegt sjónarmið að líta til þess að stefnandi rak sjálfstæða læknastofu, eins og ráðið verði af bréfi stefnda 30. desember 2004 að gert hafi verið. Í þessu sambandi fjallar stefnandi ítarlega um samþykkt stjórnarnefndar stefnda 13. desember 2001 sem hann telur að hafi verið ólögmæt. Vísar hann í þessu sambandi til þess að 20. gr. laga nr. 70/1996 eigi ekki við stefnanda, enda sé um að ræða aukastarf sem stefnandi hafi gegnt áður en hann hóf störf hjá stefnda og haft athugasemdalaust allt frá 1982. Jafnvel þótt talið væri að stefndi væri bært stjórnvald til að gera athugasemdir við starfið þá hefði þurft að gera það innan tveggja vikna samkvæmt ákvæðinu. Þá byggir stefnandi á því að bannið hafi gengið lengra en nauðsynlegt var, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hér vísar stefnandi sérstaklega til þess að hann hafi aldrei hafnað fyrirmælum stefnda um að hætta aukastarfinu, heldur þvert á móti óskað eftir rökstuðningi stefnda fyrir því hvers vegna hann mætti ekki gegna starfinu. Þá hafi stefnandi ítrekað lýst því yfir að hann væri tilbúinn til viðræðna um aukastarfið og störf sín hjá stefnda. Loks bendir stefnandi á að ekki hafi verið gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga áður en ákvörðunin frá 13. desember 2001 um bann við aukastörfum hafi verið tekin, svo sem skylt var. Vísar stefnandi hér m.a. til athugasemda með 20. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996 en þar sé því slegið föstu að ákvörðun um bann við aukastörfum sé stjórnvaldsákvörðun.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að efnisreglur stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar þegar ákvörðunin 27. apríl 2005 var tekin. Í því sambandi sé einkum vísað til jafnræðisreglunnar og meðalhófsreglunnar sem lögfestar eru í 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Stefnda sé skylt samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála í lagalegu tilliti. Stefnanda sé kunnugt um að ýmsum yfirlæknum sé heimilað að stunda aukastörf samhliða yfirlæknisstöðum. Af samþykkt stjórnarnefndar stefnda frá 13. desember 2001 verði ekki annað ráðið en að það sama ætti að gilda um alla yfirmenn spítalans. Augljós mismunun felist í afgreiðslu stefnda að þessu leyti sem leiða eigi til ógildingar á ákvörðun stefnda, enda hafi stefndi ekki fært málefnaleg rök fyrir þeirri mismunun. Þá byggir stefnandi á því að ákvörðun stefnda feli í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða eftir atvikum óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Með engu móti hafi verið unnt að henda reiður á því í hvaða tilgangi stefndi tók hina ólögmætu ákvörðun og að hvaða markmiði var stefnt. Stefnandi telur þó ljóst, hvað sem líður markmiðum ákvörðunarinnar, að stefndi hafi gengið mun lengra en efni stóðu til.
Loks byggir stefnandi í fimmta lagi á því að málsmeðferð við ákvarðanatöku stefnda hinn 27. apríl 2005 hafi verið svo ábótavant að taka eigi kröfu hans til greina. Stefnandi byggir á því að brotið hafi verið gegn málshraðareglu og rannsóknarreglu, sbr. 9. og 10. gr. stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar. Stefnandi byggir jafnframt á því að yfirstjórnendur stefnda hafi ekki haft lögbundið samráð við læknaráð stefnda, sbr. 32. gr. laga nr. 97/1990 og starfsreglur læknaráðs.
Ef fallist verður á aðalkröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunarinnar 27. apríl 2005 byggir stefnandi málatilbúnað sinn á því að hann sé enn í starfi yfirlæknis á geðsviði hjá stefnda. Verði hins vegar talið að ekki séu uppfyllt þau skilyrði sem sett eru í stjórnsýslurétti fyrir því að ógilda stjórnvaldsákvörðun gerir stefnandi varakröfu þess efnis að viðurkennt verði að ákvörðun stefnda hafi verið ólögmæt. Stefnandi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá því slegið föstu í dómsúrlausn að ekki hafi verið gætt að reglum stjórnsýslu- og starfsmannaréttarins við meðferð máls hans. Slík úrlausn geti orðið grundvöllur samningaviðræðna við stefnda um greiðslur skaðabóta stefnanda til handa, en enn sé óljóst hvort, og þá að hvaða marki, stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar stefnda. Af þeim sökum sé ekki unnt að gera skaðabótakröfu eða kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á hendur stefnda að svo stöddu. Byggir stefnandi varakröfuna á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og rakin hafa verið hér að ofan til stuðnings aðalkröfu.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er þeim röksemdum stefnanda mótmælt að í ákvörðun hans 27. apríl 2005 hafi falist flutningur úr því starfi sem hann hafði gegnt í annað lægra starf. Stefndi byggir á því að hann hafi heimildir á grundvelli laga nr. 70/1996 til að gera ráðstafanir og grípa til aðgerða gagnvart öllum starfsmönnum án tillits til þess hvort þeir eru ráðnir eða skipaðir. Ákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996 beri að skýra svo að í því felist árétting á heimildum vinnuveitanda almennt til að taka ákvarðanir til að ná markmiðum í starfsemi stofnunar. Af skýru orðalagi ákvæðisins verði ráðið að störfum og verksviði kunni að verða breytt á þann hátt að hlutaðeigandi starfsmaður taki við „minna verðmætu“ starfi. Stefnandi muni hér eftir sem hingað til sinna öllum sambærilegum starfsskyldum og án þess þó að starfsskyldum hans fylgi ábyrgð og stjórnun. Starfsaðstaða verður áfram sambærileg sem og laun, önnur starfskjör og vinnutími og stefnandi njóti hærri launagreiðslna en aðrir sérfræðilæknar, þ.e. ef tekið er mið af ákvæðum kjarasamnings, og ekki séu gerðar athugasemdir við atvinnurekstur stefnanda. Stefnandi byggir ennfremur á því að slík túlkun ákvæðis 19. gr., sem endurspeglast í ákvörðun um breytingar á störfum og verksviði stefnanda, sé í samræmi við þann megintilgang og ákvæði laga nr. 70/1996 að forstöðumaður skuli stjórna stofnun og starfsemi á vinnustað. Í heimildum forstöðumanns felist réttur til að taka ákvörðun um það hverjum hann felur ábyrgð og skyldur á hverjum tíma. Framangreindar heimildir styðjist ennfremur við grundvallarreglur vinnuréttar um stjórnunarrétt vinnuveitanda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að allar heimildir vinnuveitanda hafi, þrátt fyrir að stefnandi hafi hlotið skipun frá ráðherra í starf yfirlæknis, flust frá ráðherra til stefnda við gildistöku laga nr. 70/1996 og þó aldrei síðar en við gildistöku laga nr. 83/1997 um breytingar á lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Af framangreindu leiði að stefndi hafi verið réttur aðili til að taka ákvarðanir um allt sem lýtur að stefnanda sem starfsmanni hjá stefnda.
Jafnvel þó svo að ekki yrði fallist á að heimildir vinnuveitanda hafi flust frá ráðherra til stefnda við framangreindar lagabreytingar byggir stefndi á því að slíkt hafi í reynd ekki áhrif, enda hafi skipun stefnanda frá árinu 1991 fallið niður á árinu 1997 þegar stefnandi tók við starfi sviðsstjóra. Hafi stefnandi svo verið ráðinn að nýju í starf yfirlæknis frá gildistöku nýs skipurits árið 2002 eða eftir að samþykkt framkvæmdastjórnar stefnda um aukastörf yfirlækna á árinu 2001 tók gildi. Um starfslok stefnanda hefði því undir engum kringumstæðum átt að fara samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/1996 auk þess sem ekki hafi verið um starfslok að ræða.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að ákvörðun hans 27. apríl 2005 hafi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og að ákvörðunin hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Er í því sambandi fjallað ítarlega um samþykkt framkvæmdastjórnar stefnda 11. des. 2001 sem áður greinir. Hann vísar einnig til þess að stefnumörkun sú, sem samþykkt hafi verið á 11. desember 2001, sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Á sama hátt byggi stefndi á því að meðferð stefnumörkunar fyrir stjórnarnefnd þann 13. desember 2001 verði ekki talin fela í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Einungis hafi verið um stefnumörkun að ræða og kveði texti að tillögu skýrlega á um að gengið skuli til gerðar samkomulags við yfirmenn. Af beinu orðalagi stefnumörkunar leiðir að ákvörðun yrði samkvæmt því aldrei tekin fyrr en reynt hefði verið til hlítar að ganga frá samkomulagi. Stefndi byggir á því að ráðstafanir, sem varða þetta mál, þ.m.t. stefnumörkun, tilkynning um breytingu á starfi og verksviði, 27. apríl 2005 og/eða aðrar ráðstafanir séu ekki ákvörðun um rétt eða skyldur í skilningi stjórnsýsluréttar. Stefnda beri hvorki skylda til að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga né fylgja meginreglum stjórnsýsluréttar við þessar ákvarðanir. Frá hinu síðarnefnda kunni þó að vera undantekningar er varða einstaka þætti.
Þótt talið yrði að umræddar reglur hafi gilt um samþykkt framkvæmdastjórnar stefnda 11. des. 2001 telur stefndi að hann hafi fullnægt þessum reglum í einu og öllu. Byggir stefndi á því að stjórnvaldsákvörðun teljist í þessu tilfelli tekin með bréfi stefnda til stefnanda 27. apríl 2005. Stefndi telur einnig að samþykktin 11. des. 2001 hafi verið lögmæt jafnvel þótt litið yrði á hana sem stjórnvaldsákvörðun, en lagaheimild til að taka slíkar ákvarðanir sé að finna í 19. og 20. gr. laga nr. 70/1996. Þá hafi ákvörðunin þjónað hagsmunum stefnda og ekki verið á neinn hátt íþyngjandi fyrir stefnanda. Af hálfu stefnda þykir sýnt að ekki hafi borið, eins og á stóð, að veita yfirmönnum hverjum og einum andmælarétt enda hafi slíkt verið sýnilega ástæðulaust í skilningi stjórnsýslulaga. Ákvæði kjarasamninga aðila styðji ennfremur þau sjónarmið um að stefnda hafi verið umrædd stefnumótun og ákvörðun heimil.
Stefndi telur að við úrlausn málsins beri að líta til sögulegs aðdraganda, samskipta við stéttarfélög, gerð kjarasamninga o.fl. Þá byggir stefndi ennfremur á því að fyrirkomulag ráðninga yfirlækna á geðlækningasviði hafi verið umfram lagaskyldu þar að lútandi og að stefnda sé í reynd ekki skylt lögum samkvæmt að ráða annan yfirlækni til starfa í stað stefnanda. Stefnandi hafi samkvæmt því ekki haft með höndum starf eða ábyrgð sem varin er samkvæmt lögum nr. 97/1990 og því hafi heimildir stefnda til að breyta starfi og verksviði verið rýmri en stefnandi telur.
Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að ákvæði 20. gr. laga nr. 70/1996 beri að skýra svo að það eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar starfsmaður, sem þegar gegnir starfi hjá ríkinu, ákveði að bæta við sig öðru starfi utan aðalstarfsins. Slík túlkun styðst hvorki við gögn né viðhlítandi rök. Jafnvel þó svo að stefnandi hafi starfrækt sjálfstæða lækningastofu telur stefndi að hann hafi heimildir til að taka ákvörðun um annað og þá sérstaklega í ljósi þeirra breytinga á þörfum stefnda sem greint er frá í lýsingu málsatvika.
Þá mótmælir stefndi þeim staðhæfingum stefnanda að sú ráðagerð stefnda, að ráða yfirmenn í 100% starf og gera kröfu til þess að þeir starfi ekki utan sjúkrahúss, hafi gengið lengra en nauðsynleg var, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi bendir á að ákvörðun hafi byggst á hagsmunum sjúkrahússins og framtíðarsýn stjórnenda varðandi uppbyggingu starfseminnar. Ákvörðun hafi í reynd verið í samræmi við almenn sjónarmið um starfsemi stefnda og styðjist auk þess við hagkvæmnisrök. Ákvörðun taki jafnt til allra sem eins er ástatt um og vandséð sé hvers vegna læknar, einir allra starfsstétta hjá stefnda, skuli njóta sérstaks réttar umfram aðra starfsmenn að starfa utan sjúkrahúss, hvað þá stefnandi einn allra yfirmanna sjúkrahússins. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi einn alfarið hafnað að ræða um breytingar á fyrirkomulagi og starfi hjá stefnda á öðrum forsendum en þeim að hann gæti samhliða starfað á lækningastofu sinni. Stefndi byggir ennfremur á því að andmælaréttur í tengslum við meinta ákvörðun á fundi stjórnarnefndar þann 13. desember 2001 hafi í reynd alls ekki átt við eða talist nauðsynlegur, eins og áður er lýst. Þá er því mótmælt að jafnræðisregla hafi verið brotin og mótmælt staðhæfingum stefnanda um að ýmsum yfirlæknum sé heimilað að stunda aukastörf samhliða störfum yfirlæknis. Telur stefndi að þær undantekningar sem hafi verið heimilaðar í þessu efni séu í samræmi við samþykktar reglur.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að málsmeðferð við ákvarðanatöku stefnda hinn 27. apríl 2005 hafi verið með þeim hætti að leiða eigi til ógildingar á ákvörðun eða að hún hafi talist ólögmæt. Stefndi byggir einnig á því að hann hafi að fullu og öllu leyti virt ákvæði um málshraða. Bendir stefndi á að upphafleg málsmeðferð hafi miðað að því að stefnandi gerði samkomulag við stefnda og hætti rekstri sjálfstæðrar lækningastofu. Þá mótmælir stefndi því alfarið að hann hafi ekki virt ákvæði rannsóknarreglu og/eða að slíkir annmarkar leiði til þess að ákvörðun verði ógilt.
Stefndi telur að honum hafi ekki borið skylda til að leggja mál sérstaklega fyrir læknaráð, sbr. ákvæði 32. gr. laga nr. 97/1990, enda hafi hér verið um að ræða stjórnunarlega þætti og daglega starfsemi stefnda.
Framangreindu til viðbótar bendir stefndi á að stefnandi hafi haft möguleika á að grípa inn í og hafa áhrif á atburðarás áður en ákvörðun var tekin um breytingar á störfum og verksviði hans. Stefnandi hafi hins vegar ákveðið að gera slíkt ekki og bera fremur ágreining undir dómstóla. Stefndi mótmælir því að brotið hafi verið gegn réttindum stefnanda að nokkru leyti, hvort heldur lög- eða stjórnarskrárvörðum rétti.
Að lokum byggir stefndi á því að fyrirvari sá sem stefnandi gerði með bréfi 2. maí 2005, er hann tók við starfi sérfræðilæknis, samrýmist á engan hátt kröfugerð aðalkröfu stefnanda þessa máls. Beri að sýkna stefnda þá þegar af aðalkröfu stefnanda.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar stefnda 27. apríl 2005 að leysa stefnanda undan þeirri ábyrgð svo og stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis á geðsviði stefnda frá og með 1. maí 2005 og fela honum starf og starfsskyldu sérfræðilæknis á geðsviði frá sama tíma. Fyrir liggur aðilaskýrsla Jóhannesar M. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga stefnda, þess efnis að stefnandi hafi ekki vanrækt starfskyldur sínar og hafi því ekki verið efni til að áminna hann eða víkja honum úr starfi. Þá er einnig komið fram að ekki var litið svo á að staða stefnanda væri lögð niður vegna skipulagsbreytinga eða vegna hagræðingar í kjölfar sameiningar Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 2000. Er því hvorki um það að ræða að staða stefnanda hafi verið lögð niður vegna skipulagsbreytinga stefnda né að stefnanda hafi verið vikið úr starfi. Að síðustu liggur fyrir að ákvörðun stefnda grundvallaðist ekki á ákvæðum 20. gr. laga nr. 70/1996 sem veitir yfirmanni opinbers starfsmanns heimild til að banna honum að taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar. Er umrædd ákvörðun stefnda þannig eingöngu reist á því að um hafi verið að ræða breytingu á yfirlæknisstarfi stefnanda sem rúmast hafi innan 19. gr. laga nr. 70/1996.
Ákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996 verður að skýra með hliðsjón af þeim reglum sem gilda um uppsögn, svo og áminningu og brottrekstur opinberra starfsmanna, sbr. VI. og IX. kafla laganna. Verður heimild 19. gr. laganna því aldrei skýrð svo rúmt að hún heimili að opinber starfsmaður sé fluttur úr einni stöðu í aðra eða beinlínis lækkaður í stöðu innan stjórnskipulags stofnunar. Til þess að slík ákvörðun sé heimil verður efnislegum skilyrðum að vera fullnægt fyrir starfslokum viðkomandi opinbers starfsmanns, enda hafi áður verið gætt þeirra reglna um málsmeðferð sem tryggja eiga réttaröryggi hans.
Eins og áður greinir var stefnandi leystur undan „þeirri ábyrgð svo og stjórnunarskyldum sem fylgja starfi yfirlæknis á geðsviði“ með framangreindri ákvörðun stefnda 27. apríl 2005. Ágreiningslaust er að þessi ákvörðun fól í sér að stefnandi fór ekki lengur með stjórnunarskyldur yfirlæknis og var jafnframt settur undir boðvald annars manns sem tók við starfi yfirlæknis frá og með þeim tíma er breytingin gekk í gildi. Þá var starfsheiti hans breytt úr yfirlækni í sérfræðilækni. Af bréfum stefnda 30. desember 2004 og 27. apríl 2005, svo og greinargerð hans fyrir héraðsdómi, verður ráðið að umrædd ákvörðun hafi verið viðbrögð stefnda við þeirri afstöðu stefnanda að neita að hlíta stefnu stefnda um aukastörf yfirlækna.
Með hliðsjón af efni og aðdraganda þeirrar ákvörðunar, sem nú hefur verið rakin, telur dómari að ekki geti farið á milli mála að stefnanda var í reynd vikið úr starfi yfirlæknis og þess í stað falið starf sérfræðilæknis, en slíkur læknir telst ótvírætt undirmaður yfirlæknis í stjórnskipulagi stefnda. Var því fráleitt um að ræða breytingu á starfi stefnanda sem yfirlæknis eða breytingu á verksviði yfirlæknis sem rúmaðist innan marka 19. gr. laga nr. 70/1996. Væri það afstaða stefnda að stefnandi hefði brotið gegn skyldum sínum sem yfirlæknir, bar stefnda að áminna hann og fylgja að öðru leyti þeim reglum sem gilda um brottvikningu úr embætti eða starfi. Var tilvísun stefnda til 19. gr. laga nr. 70/1996 því ekki aðeins haldlaus heldur var ákvarðanataka hans ósamrýmanleg þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaröryggi starfsmanns, sbr. dóm Hæstaréttar 8. desember 2005 í máli nr. 175/2005.
Samkvæmt framangreindu telur dómari að um bersýnilegt brot á rétti stefnanda hafi verið að ræða þegar stefndi tók umrædda ákvörðun sína 27. apríl 2005. Er áréttað að með þeirri niðurstöðu er engin afstaða tekin til þess álitaefnis hvort og með hvaða nánari hætti er heimilt að áskilja að starfandi yfirlæknar stefnda gegni ekki tilteknum aukastörfum samhliða fullu starfi.
Ekki verður á það fallist með stefnda að stefnandi hafi týnt niður rétti sínum, samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, til að bera gildi umræddrar ákvörðunar stefnda undir dómstóla, með því að lýsa því yfir í bréfi 2. maí 2005 að hann myndi starfa áfram hjá stefnda. Skilja verður málatilbúnað stefnda á þá leið að ekkert sé því til fyrirstöðu frá stjórnunar- og skipulagslegu sjónarmiði að stefnandi taki að nýju við starfi sínu sem yfirlæknir á geðsviði stefnda. Verður því ekki litið svo á að stefndi kjósi að afþakka vinnuframlag stefnanda, en halda áfram að greiða honum laun, sé umrædd ákvörðun talin ólögmæt og ógildanleg. Er því ekkert því til fyrirstöðu að aðalkrafa stefnanda um ógildingu umræddrar ákvörðunar verði tekin til greina. Felst í þessari niðurstöðu að réttaráhrif ákvörðunar stefnda 27. apríl 2005 falla niður og verður staða stefnanda sú hin sama og hin ólögmæta ákvörðun stefnda hefði aldrei verið tekin, enda komi ekki til ný ákvörðun stefnda sem breyti því réttarástandi.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda hefur alls 108,4 vinnustundum verið varið í mál þetta. Þótt sakarefni málsins sé fremur einfalt og afmarkað verður ekki fram hjá því litið að aðdragandi og rökstuðningur ákvörðunar stefnda, svo og málatilbúnaður hans fyrir dómi, gaf stefnanda tilefni til gagnaöflunar og umfjöllunar um atriði sem voru á mörkum þess að hafa þýðingu fyrir efnislega úrlausn málsins. Þótt áðurnefndur tímafjöldi lögmanns sé þannig mikill með hliðsjón af eðli málsins, telur dómari á að orsakanna sé að meginstefnu að finna í athöfnum og viðbrögðum stefnda, þar á meðal málatilbúnaði hans fyrir dómi. Að teknu tilliti til umrædds málskostnaðaryfirlits verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 950.000 krónur málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Það athugast að greinargerð stefndu er úr hófi löng og skortir mjög á að málsástæður og lagarök séu þar sett fram með gagnorðum og skýrum hætti, svo sem áskilið er í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda flutti málið Karl Axelsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Anton Björn Markússon hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Felld er úr gildi ákvörðun stefnda, Landspítala háskólasjúkrahúss, 27. apríl 2005 um að breyta störfum stefnanda, Tómasar Zoëga, úr því að hann gegni starfi yfirlæknis á geðsviði í það að hann gegni starfi sérfræðilæknis á geðsviði.
Stefndi greiði stefnanda 950.000 krónur í málskostnað.