Hæstiréttur íslands
Mál nr. 564/2012
Lykilorð
- Landamerki
- Samningur
- Eignarréttur
- Hefð
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 564/2012.
|
Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu (Guðjón Ármannsson hrl.) gegn Sigríði Júlíu Jónsdóttur (Gísli Guðni Hall hrl.) og gagnsök |
Landamerki. Samningur. Eignarréttur. Hefð.
Aðilar deildu um landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga í Rangárþingi eystra, sem afmörkuðust af fjörumarki á sjávarkambi, sem aðilar voru sammála um hvar væri, og norður í Dalárfoss. Hæstiréttur lagði til grundvallar að með samningi eigenda jarðanna frá árinu 1899 hefði ágreiningur, sem lengi hafði staðið um landamerki jarðanna, verið leiddur til lykta. Yrðu aðilar að færa sönnur á kröfur sínar að því leyti sem þær vikju frá samningnum. Aðalkrafa HR og HV var í samræmi við samninginn frá framangreindu fjörumarki og að punkti þar sem talið var að Dalá hefði runnið er samningurinn var gerður, en frá punktinum til vesturs fylgdi landamerkjalínan hæðarlínum sem miðuðust við brekkurætur allt að ánni Kvernu, þaðan sem línan var dregin í tiltekna gilbrún allt upp að svonefndum Efribrúnum og endaði línan í Dalárfossi. S taldi að landamerkin milli jarðanna úr fjörumarkinu skyldi til norðurs fylgja svokölluðum Sjóbúðavegi upp að þjóðvegi. Þaðan lægi línan í norðvestur að Dalá, um Austustu Fit og í Kvernu og fylgdi hún svo þeirri línu upp í Kvernufoss og þaðan í Dalárfoss. Hæstiréttur taldi S ekki hafa sýnt fram á stofnast hefði til beins eignarréttar Eystri-Skóga að svæði sunnan þjóðvegar fyrir hefð þótt svæðið hefði verið nýtt á árum áður til eggjatöku og fuglaveiða og að einhverju leyti til beitar. Var því lagt til grundvallar að landamerki jarðanna lægju frá fjörumarkinu í norðlæga stefnu að punkti þar sem talið væri að Dalá hefði runnið er samningurinn frá 1899 var gerður. Túlka yrði samninginn svo að landamerkin fylgdu farveginum til vesturs í farveg Dalár eins og hann væri nú og fylgdi honum allt að og meðfram syðri hluta Austustu Fitjar, en beygði svo til samræmis við afmörkun beggja málsaðila á suðvesturhluta Fitjarinnar og í Kvernu. Merkjalínan fylgdi svo Kvernu til norðausturs í átt að Kvernufossi og Efribrúnum. Ágreiningslaust var í málinu að landamerkjalínan endaði í Dalárfossi, en um legu línunnir frá Kvernu og í Dalárfoss var ágreiningur sem héraðsdómari hafði ekki skorið úr með rökstuddum hætti. Taldi Hæstiréttur ekki nauðsynlegt að ómerkja dóminn vegna þessa, en um legu landamerkjalínunnar að þessu leyti yrði ekki dæmt í málinu. Þá var talið sannað að S hefði fyrir hefð öðlast beinan eignarrétt að tilteknu afgirtu túni sem lá vestan þeirrar línu sem dregin var samkvæmt samningnum frá 1899.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. júní 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. ágúst sama ár og áfrýjuðu þeir öðru sinni 24. sama mánaðar. Þeir krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga séu svofelld: Úr hnitapunkti A sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga, þaðan bein stefna í hnitapunkt B, þar sem áður var farvegur Dalár suðvestan við Eystri-Skógatún, þaðan í hnitapunkt C við rót Brekkna. Þaðan fylgir línan brekkurótum vestur í hnitapunkt C1, þaðan í hnitapunkta C2, D, D1, D2, D3, D4, D5, D6 og D7. Frá þeim hnitapunkti er línan dregin norður í hnitapunkt E, þaðan í hnitapunkta F, F1, F2, F3, F4, F5 og G. Frá þeim hnitapunkti er línan dregin í hnitapunkta G1, G2, G3 og í hnitapunkt H. Frá síðastnefndum hnitapunkti er línan dregin í hnitapunkt I, sem er Dalárfoss. Til vara krefjast þeir þess að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga séu svofelld: Úr hnitapunkti A sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga, þaðan í hnitapunkt A1 í suðurjaðri túns norðan þjóðvegar. Þaðan er línan dregin til vesturs eftir jaðri túnsins í hnitapunkt A2 og síðan í hnitapunkta A3, A4, A5, A6, A7, A8 og A9. Frá jaðri túnsins í síðastnefndum hnitapunkti er línan dregin beina stefnu í hnitapunkt B þar sem áður var farvegur Dalár suðvestan við Eystri-Skógatún, þaðan í hnitapunkt C við rót Brekkna. Þaðan fylgir línan brekkurótum í vestur, svo í norður og þá í austur allt eftir sömu hnitapunktum og í aðalkröfu og endar í hnitapunkti I, sem er Dalárfoss. Við bætist að svonefnd Austasta Fit teljist hluti Eystri-Skóga og hún afmarkist með svofelldum hætti: Úr hnitapunkti J sem er þúfa sem skilur að Austustu Fit og Skjólgarðsfit í hnitapunkt K, þaðan í hnitapunkta L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V og X. Frá síðastnefndum hnitapunkti er línan dregin aftur í hnitapunkt J. Koma hnitapunktar sem aðalkrafa aðaláfrýjenda tekur mið af fram á hnitasettum uppdrætti Landnota ehf. 28. febrúar 2011, sem leiðréttur var 9. apríl 2013, en varakrafa þeirra miðar við hnitapunkta sem koma fram á hnitasettum uppdrætti sama fyrirtækis 18. október 2011, sem leiðréttur var 9. apríl 2013. Í báðum tilvikum krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 7. nóvember 2012. Hún krefst þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga skuli vera lína frá hnitapunkti B, sem er vestra fjörumark jarðarinnar, og hið sama og aðaláfrýjendur miða við, um svonefndan Sjóbúðaveg í Strympustein (hnitapunktar C, D, E, F, G, H og I). Landamerkjalínan haldi áfram úr síðastgreindum hnitapunkti I í Dalá og þaðan í Kvernu umlukt Austustu Fit (hnitapunktar J, K, L, M, N, O, P og Q). Línan haldi áfram úr síðastgreindum hnitapunkti Q eftir Kvernu í punkt R og í Kvernufoss (hnitapunktur S) og þaðan í Dalá (hnitapunktur T). Kröfulínan er mörkuð með rauðri línu á uppdrætti Landnota ehf. 15. ágúst 2011, eins og hann var leiðréttur 9. apríl 2013. Til vara krefst hún þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
I
Aðilar málsins deila um þann hluta af landamerkjum jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga, sem afmarkast af fjörumarki á sjávarkambi, sem aðilar eru sammála um hvar sé, og norður í Dalárfoss, sem í gögnum málsins er einnig nefndur Dölufoss og Dalagilsárfoss. Kröfur aðila lúta ekki að merkjum jarðanna í norður frá Dalárfossi.
Eystri-Skógar voru í máldaga Jóns biskups Halldórssonar, sem talinn er vera frá 1332, ein af útjörðum kirkjunnar í Ytri-Skógum. Svokallaðar Skógaeignir munu hafa fallið til konungs á 15. öld, en meðal þeirra voru jarðirnar Ytri-Skógar og Eystri-Skógar. Síðarnefnda jörðin er talin hafa verið gerð að lénsjörð prestsins að Skarði í Meðallandi um 1580 en konungur mun hafa selt Henrik Bjelke, ríkisaðmírál, Ytri-Skóga á árinu 1675. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því um 1709 var að finna athugasemd um að Eystri-Skógar teldust byggðir úr Ytri-Skógum og verið í fyrstu hjáleiga frá þeirri jörð ,,hvað og vera kann, því engin landamerki eru á millum þessara jarða.“
Ágreiningur reis um merki Ytri-Skóga og Eystri-Skóga og gekk dómur um hann á árinu 1768. Sá dómur er ekki til í frumriti, en uppskrift hans hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaða dómsins var að Ytri-Skógum tilheyrði allt land uppi á heiðinni, milli ánna Kvernu, sem í gögnum málsins er einnig nefnd Kverná og Kvarnarhólsá og Dalár, allt fram á Brúnir sem einnig eru nefndar Þverbrekknabrýr þar til ofan eftir hallar. ,,En Eystri Skógum tilheyrir og tildæmast allar Brekkur fyrir neðan Brúnir (eða Þverbrekknabrýr) á milli Dalagilsár og Kvarnarhólsár.“ Í uppskrift dómsins segir einnig svo: ,,En Eystri Skógum tildæmast hér með allar Brekkur niður að sandi og þeirri svokölluðu Austustu Fit, út að Kvarnarhólsá hið neðra, því þar það er margbevísað eru og hafa verið eignarland, slægjuland og stekkjartúnsland Eystri Skóga frá alda öðli“.
Eigendur beggja jarðanna skrásettu einhliða landamerki þeirra og var skrásetningum þessum þinglýst á sama manntalsþingi 21. maí 1890. Skrásetning Eystri-Skóga er frá 14. desember 1885 en Ytri-Skóga 22. maí 1886. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi var verulegur munur á því hvernig merkjum var lýst í þessum skrásetningum.
Eigendur jarðanna gerðu með sér samning 13. desember 1899, sem sagður er staðfestur af stiftsyfirvöldum Íslands og svo þinglýst 29. maí 1902. Í samningnum er annars vegar samið um að Skógafjall skuli vera í tilgreindum hlutföllum sameign jarðanna og hins vegar um landamerki milli þeirra. Í þeim hluta samningsins segir svo: ,,Landamerkjalínan milli Ytri- og Eystri-Skóga skal vera þannig: Úr vörðu á öldunum, sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga fjöru, bein stefna í Dalagilsfoss síðan úr áðurnefndri vörðu beint allt upp að Dölu suðvestan við Eystri-Skógatún, síðan ræður Dala upp að fossi og svo áfram austan við svonefnda Hnauka ... Auk þess eiga Eystri-Skógar Brekkur allar og Þverbrekkur allt að Efribrúnum, Austustu Fit.“
Í málinu liggja ekki frammi nýrri skjöl um landamerki milli jarðanna.
II
Hvorki aðalkrafa aðaláfrýjenda né kröfur gagnáfrýjanda eru til fulls reistar á því samkomulagi eigenda jarðanna um merki milli þeirra, sem áður er getið.
Aðalkrafa aðaláfrýjenda er í samræmi við samninginn frá fjörumarki á sjávarkambi og punkti þar sem talið er að Dalá hafi runnið suðvestan við Eystri-Skógatún á þeim tíma er samningurinn var gerður. Frá þeim punkti fylgir línan til vesturs ekki Dalá, heldur hæðarlínum sem miðast við brekkurætur allt að Kvernu, en þaðan er línan dregin í gilbrún vestan við Brekkur og Þverbrekkur allt upp að svonefndum Efribrúnum. Liggur línan á gilbrúninni og kveða aðaláfrýjendur línuna norðan Efribrúna fylgja 200 metra hæðarlínu og sé rétt neðan við efstu mörk Efribrúna. Línan endi í Dalárfossi.
Varakrafa aðaláfrýjenda miðar við sömu línu að því frátöldu, annars vegar að hún er dregin um tún rétt norðan við núverandi þjóðveg, sem nytjað hefur verið frá Eystri-Skógum, og hins vegar er dregin sjálfstæð lína umhverfis það sem aðaláfrýjendur telja vera mörk Austustu Fitjar, en þessi lína er ekki í beinum tengslum við landamerkjalínu þeirra.
Kröfulína samkvæmt aðalkröfu gagnáfrýjanda hefur upphafspunkt í sama fjörumarki á sjávarkambi og kröfulína aðaláfrýjenda sunnan þjóðvegar og fylgir henni skamman veg í norður en beygir svo í norðvestur. Línuna dregur gagnáfrýjandi svo að frá fjörumarkinu og norður að núverandi þjóðvegi fylgi hún svonefndum Sjóbúðavegi sem liggur að mestu leyti verulega vestar en kröfulína aðaláfrýjenda á þessu svæði. Kveður gagnáfrýjandi landið milli kröfulína aðila sunnan þjóðvegar vera um 415 hektarar. Frá þjóðveginum liggi línan í norðvestur að Dalá og um Austustu Fit, eins og gagnáfrýjandi telur að afmarka eigi hana og í Kvernu og fylgi svo þeirri línu upp í Kvernufoss og þaðan í Dalárfoss. Gagnáfrýjandi kveður land það norðan þjóðvegar sem sé á milli þeirra lína er krafa hennar miðar við og línunnar í aðalkröfu aðaláfrýjenda vera um 225 hektarar.
Varakrafa gagnáfrýjanda um staðfestingu hins áfrýjaða dóms fylgir kröfum aðaláfrýjenda upp fyrir núverandi þjóðveg, en liggur þaðan í vestur á þann hátt sem lýst er í héraðsdómi.
III
Við úrlausn málsins verður lagt til grundvallar að með samningi eigenda jarðanna 13. desember 1899 hafi ágreiningur, sem staðið hafði um langa hríð um landamerki þeirra, verið leiddur til lykta. Hefur landamerkjunum ekki verið breytt með samningum eftir það. Verður miðað við, að því leyti sem kröfur aðila í málinu kunna að víkja frá þeim landamerkjum sem ákveðin eru í samningnum, að færa þurfi sönnur á slík frávik. Að því marki, sem samningurinn kann að vera óljós um afmörkun á landamerkjalínu milli jarðanna verður að túlka hann með hliðsjón af öðrum gögnum málsins og staðháttum.
Eins og áður greinir eru aðilar sammála um hvar syðsti punktur landamerkjanna sé, sem tilgreindur er sem fjörumark á sjávarkambi. Þótt gagnáfrýjandi hafi sannað að svæði sunnan núverandi þjóðvegar, milli línu sem dregin er í samræmi við samninginn frá 13. desember 1899 og svonefnds Sjóbúðavegar hafi verið nýtt á árum áður frá Eystri-Skógum til eggjatöku og fuglaveiða og að einhverju leyti til beitar, er ósannað að stofnast hafi til beins eignarréttar að landi þessu fyrir hefð. Verður lagt til grundvallar í málinu að landamerki jarðanna liggi frá áðurnefndu fjörumarki í norðlæga stefnu sem tekur mið af Dalárfossi að punkti á melkolli þar sem talið er að Dalá hafi runnið er samningurinn frá 1899 var gerður suðvestan við Eystri-Skógatún. Túlka verður samninginn svo, að landamerkin fylgi farveginum til vesturs í farveg Dalár eins og hann er nú og fylgi honum allt að og meðfram syðri hluta Austustu Fitjar, en merkjalínan beygi svo til samræmis við afmörkun beggja málsaðila á suðvesturhluta Fitjarinnar og í Kvernu. Merkjalínan fylgi svo Kvernu til norðausturs í átt að Kvernufossi og Efribrúnum. Ágreiningslaust er að landamerkjalínan, að því leyti sem um er deilt málinu, endi í Dalárfossi. Um legu landamerkjalínunnar frá Kvernu og í Dalárfoss er ágreiningur, sem héraðsdómari hefur ekki skorið úr með rökstuddum hætti, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er af þeim ástæðum nauðsynlegt að ómerkja héraðsdóminn, en um legu landamerkjalínunnar að þessu leyti verður því ekki dæmt í málinu.
Gagnáfrýjandi heldur því fram að Eystri-Skógum tilheyri afgirt tún, sem liggur rétt norðan við núverandi þjóðveg og austan við heimreið að bænum. Túnið er í héraðsdómi ranglega sagt vera sunnan þjóðvegarins. Túnið er vestan þeirrar línu, sem dregin verður samkvæmt samningnum frá 1. desember 1899 og fallist er á að framan. Sannað er með framburði vitnanna Guðmundar Vigfússonar, Friðbergs Stefánssonar og Halldórs Benónýs Nellet að tún þetta hafi verið ræktað í áföngum og því lokið um 1970, það hafi þá verið afgirt og nytjað síðan frá Eystri-Skógum átölulaust af eigendum Ytri-Skóga. Hefur gagnáfrýjandi því öðlast beinan eignarrétt fyrir hefð að hinu afgirta landi, sem verður afmarkað á þann hátt, sem greinir í varakröfu aðaláfrýjenda.
Samkvæmt öllu framansögðu verða landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga frá fjörumarki á sjávarkambi og að Dalárfossi afmörkuð svo, að því leyti sem um er dæmt í málinu, að þau séu frá óumdeildu fjörumarkinu í norðlæga stefnu í átt að Dalárfossi upp fyrir þjóðveg, en þaðan umhverfis afgirt tún norðan þjóðvegarins og austan heimreiðar að Eystri-Skógum og aftur í línuna sem veit að Dalárfossi og eftir henni að melkolli þar sem áður var farvegur Dalár. Þaðan í vestur eftir eldri farvegi Dalár og í núverandi farveg árinnar áfram í vestur allt að syðri mörkum Austustu Fitjar og meðfram þeim þar til línan beygir til norðurs um suðvesturenda Fitjarinnar, í samræmi við aðalkröfu gagnáfrýjanda og varakröfu aðaláfrýjenda og í Kvernu, en þaðan eftir farvegi hennar í norðaustur og í átt að Kvernufossi og Efribrúnum.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða aðilar látnir bera hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga frá fjörumarki á sjávarkambi í suðri eru ákveðin svo að þau séu frá fjörumarkinu í norðlæga stefnu í átt að Dalárfossi upp fyrir þjóðveg, en þaðan umhverfis afgirt tún norðan þjóðvegarins og austan heimreiðar að Eystri-Skógum og aftur í línuna sem veit að Dalárfossi og eftir henni að melkolli þar sem áður var farvegur Dalár suðvestan við Eystri-Skógatún. Þaðan í vestur eftir eldri farvegi Dalár og í núverandi farveg árinnar í vestur allt að syðri mörkum Austustu Fitjar og meðfram þeim þar til línan beygir til norðurs um suðvesturenda Fitjarinnar, í samræmi við kröfu gagnáfrýjanda, Sigríðar Júlíu Jónsdóttur, og varakröfu aðaláfrýjenda, Héraðsnefndar Rangæinga og Héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu, og í Kvernu, en þaðan eftir farvegi hennar í norðaustur í átt að Kvernufossi og Efribrúnum.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. mars 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember sl., er höfðað með stefnu birtri 28. janúar 2011. Málið var endurupptekið og endurflutt 29. febrúar sl. og dómtekið að því búnu.
Aðalstefnandi er Sigríður Júlía Jónsdóttir, kt. 071140-2969, Eystri-Skógum, A-Eyjafjallahreppi.
Aðalstefndu eru héraðsnefnd Rangæinga, kt. 490189-2549, Þrúðvangi 18, Hellu og héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu, kt. 510589-2629, Ketilsstöðum 2, Vík.
Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda eru þær að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Eystri-Skóga og Ytri-Skóga skuli vera lína dregin sem hér segir:
frá Eystra fjörumarki (punktur A) um svonefndan Sjóbúðaveg (punktar B,C,D,E,F,G og H), þaðan í Strympustein (punktur I). Línan er mörkuð með rauðri línu á uppdrætti Loftmynda ehf., dags. 15. ágúst 2011, hnit punktanna eru:
austur norður
A 478502.7 : 328826.1
B 478404.4 : 329498.1
C 478213.7 : 329886.2
D 478275.6 : 329779.9
E 477786.2 : 330408.0
F 476421.0 : 332175.2
G 476137.5 : 332483.3
H 476601.3 : 334511.5
I 475808.1 : 335321.3
Landamerkjalínan haldi áfram úr punkti I í Dölu og þaðan í Kvernu umlukt Austustu Fit (punktar K, L, M, N, O, P, Q). Línan er mörkuð á uppdrætti Loftmynda ehf., dags. 18. október 2011, hnit punktanna eru:
austur norður
K 475747.0 : 335155.8
L 475655.9 : 335150.3
M 475560.6 : 335151.7
N 475417.1 : 335183.0
O 475330.0 : 335244.1
P 475370.9 : 335283.6
Q 475498.0 : 335354.0
Landamerkjalínan haldi áfram úr punkti Q á síðastnefndum uppdrætti eftir Kvernu (punktur O á uppdrætti Loftmynda ehf., dags. 15. ágúst 2011) og í Kvernufoss (punktur P á sama uppdrætti, þaðan í Dalsá (punktur Q á sama uppdrætti), hnit punktanna eru:
austur norður
O 475955.0 : 335358.3
P 476114.9 : 336047.5
Q 477540.7 : 336125.5
Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur aðalstefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum aðalstefnanda og þá krefjast þeir málskostnaðar að skaðlausu úr hendi þeirra samkvæmt reikningi.
Í gagnsök krefjast gagnstefnendur þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Eystri-Skóga og Ytri-Skóga séu með eftirfarandi hætti:
Samkvæmt updrætti Landnota ehf., dags. 28. febrúar 2011, úr hnitpunkti A (479414;328294) sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga, þaðan bein stefna í hnitpunkt B (477301;335204), þar sem áður var farvegur Dölu suðvestan við Eystri-Skógatún, þaðan í hnitpunkt C (477322;335326) við rót Brekkna. Þaðan fylgir línan brekkurótum vestur í hnitpunkt C1 (477151;335277), þaðan í hnitpunkt C2 (476984;335338), þaðan í hnitpunkt D (476576;335329), þaðan í hnitpunkt D1 (476355;335389), þaðan í hnitpunkt D2 (476267;335414), þaðan í hnitpunkt D3 (476230;335455), þaðan í hnitpunkt D4 (476063;335488), þaðan í hnitpunkt D5 (475945;335590), þaðan í hnitpunkt D6 (475884;335699) og þaðan í hnitpunkt D7 (475901;335759). Frá punkti D7 er línan dregin norður í hnitpunkt E (475944;335803), þaðan í hnitpunkt F (476129;335755), þaðan í hnitpunkt F1 (476147;335873), þaðan í hnitpunktF2 (476229;335992), þaðan í hnitpunkt F3 (476336;336203), þaðan í hnitpunkt F4 (476311;336301), þaðan í hnitpunkt F5 (476334;336233), þaðan í hnitpunkt G (476613;336471). Frá hnitpunkti G er línan dregin í hnitpunkt í hnitpunkt G1 (476744;336305), þaðan í hnitpunkt G2 (476922;336186), þaðan í hnitpunkt G3 (477160;336089) og í hnitpunkt H (477287;336145). Frá síðastnefndum punkti er línan dregin í Dalagilsfoss, hnitpunktur I (477438;335963). Framangreind kröfulína er mörkuð með rauðri línu á uppdrát Landnota ehf., dags. 28. febrúar 2011.
Til vara krefjast gagnstefnendur þess að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Eystri-Skóga og Ytri-Skóga séu með svofelldum hætti:
Úr hnitpunkti A (479414;328294) sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga, þaðan í hnitpunkt A1 (477481.1;334243,3), í suðurjaðri túns norðan þjóðvegar. Þaðan er línan dregin til vesturs eftir jaðri túnsins í hnitpunkt A2 (476934.8;334609.4), þaðan í hnitpunkt A3 (476954.8;334635.5), þaðan í hnitpunkt A4 (476968.0;334627.3), þaðan í hnitpunkt A5 (477067.0;334743.9), þaðan í hnitpunkt A6 (477257.9;334716.8), þaðan í hnitpunkt A7 (477197.3;334559.4), þaðan í hnitpunkt A8 (477416.3;334425.6), þaðan í hnitpunkt A9 (477488.8;334419.0). Frá jaðri túnsins í síðastnefndum hnitpunkti A9 er línan dregin í beina stefnu í hnitpunkt B (477301;335204), þar sem áður var farvegur Dölu suðvestan við Eystri-Skógatún, þaðan í hnitpunkt C (477322;335326) við rót Brekkna. Þaðan fylgir línan brekkurótum vestur í hnitpunkt C1 (477151;335277), þaðan í hnitpunkt C2 (476984;335338), þaðan í hnitpunkt D (476576;335329), þaðan í hnitpunkt D1 (476355;335389), þaðan í hnitpunkt D2 (476267;335414), þaðan í hnitpunkt D3 (476230;335455), þaðan í hnitpunkt D4 (476063;335488), þaðan í hnitpunkt D5 (475945;335590), þaðan í hnitpunkt D6 (475884;335699), þaðan í hnitpunkt D7 (475901;335759). Frá punkti D7 er línan dregin norður í hnitpunkt E (475944;335803), þaðan í hnitpunkt F (476129;335755), þaðan í hnitpunkt F1 (476147;335873), þaðan í hnitpunkt F2 (476229;335992), þaðan í hnitpunkt F3 (476336;336203), þaðan í hnitpunkt F4 (476311;336301), þaðan í hnitpunkt F5 (476334;336233), þaðan í hnitpunkt G (476613;336471). Frá hnitpunkti G er línan dregin í hnitpunkt G1 (476744;336305), þaðan í hnitpunkt G2 (476922;336186), þaðan í hnitpunkt G3 (477160;336089), þaðan í hnitpunkt H (477287;336145), þaðan í hnitpunkt I (477438;335963), að því undanskildu að svonefnd Austasta Fit teljist hluti Eystri-Skóga og hún afmarkist með svofelldum hætti:
Úr hnitpunkti J (475789.5;335274.3) sem er þúfa sem skilur að Austustu Fit og Skjólgarðsfit, þaðan í hnitpunkt K (475747.0;335155.8), þaðan í hnitpunkt L (475655.9;335150.3), þaðan í hnitpunkt M (475560.6;335151.7), þaðan í hnitpunkt N (475417.1;335183.0), þaðan í hnitpunkt O (475330.0;335244.1), þaðan í hnitpunkt P (475370.9;335283.6), þaðan í hnitpunkt Q (475498.0;335354.0), þaðan í hnitpunkt R (475616.6;335376.5), þaðan í hnitpunkt S (475656.4;335396.0), þaðan í hnitpunkt T (475725.1;335409.4), þaðan í hnitpunkt U (475759.3;335437.3, þaðan í hnitpunkt V (475824.3;335513.6) og þaðan í hnitpunkt X (475878.7;335523.1). Frá síðastnefndum punkti er línan dregin í hnitpunkt J (475789.5;335274.3). Varakröfulínan er mörkuð með rauðri línu á uppdrætti Loftmynda dags. 18. október 2011.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefndu samkvæmt reikningi.
Gagnstefnda krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að aðalstefnandi fer með eignaráð jarðarinnar Eystri-Skóga í A-Eyjafjallahreppi,Rangárþingi eystra en aðalstefndu eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Ytri-Skóga, en hún er vestan megin við Eystri-Skóga. Aðalstefnandi segir landamerki jarðanna ekki fullkomlega ljós í skriflegum gögnum og hafi verið deilt um þau um aldir þótt undanfarna áratugi hafi ekki verið beinn ágreiningur um landamerkin. Telur aðalstefnandi rétt að skrásetja þau með formlegum hætti en ekki hafi náðst samkomulag við aðalstefndu og sé því nauðsynlegt að fá dóm um þau. Jarðirnar munu vera meðal svonefndra Skógajarða og liggur Suðurlandsvegur í gegnum þær. Sunnan þjóðvegarins séu þær sandar með litlum gróðri og felist landnýting fyrst og fremst í veiði og eggjatöku. Einstaka landskikar hafi verið ræktaðir en norðan þjóðvegar séu jarðirnar ræktaðar og einkennist þar af því að vera fremur landlitlar til landbúnaðar.
Heimildir um jörðina Ytri-Skóga má rekja allt aftur til Landnámu. Af máldaga frá árinu 1332 má ráða að þá hafi bændakirkja verið á jörðinni og undir hana heyrt jörðin Eystri-Skógar. Í jarðabókargögnum Árna Magnússonar segi að Eystri-Skógar hafi verið hjáleiga frá Ytri-Skógum og sé það ástæðan fyrir því að engin landamerki séu milli jarðanna. Þá komi fram að Ytri-Skógar hafi átt selstöðu upp undan Eystri-Skógum sem brúkuð hafi verið átölulaust. Á 18. öld hafi risið deilur um landamerki milli jarðanna og hafi þeim lokið með dómi sýslumanns Rangæinga árið 1786. Landamerkjabréf Ytri-Skóga hafi verið undirritað 22. maí 1886 en þar segi um merki jarðarinnar gagnvart Eystri-Skógum um austurhliðina að steinhrúga suður á sjávarkambi, sem sé bæði fjöru- og landmark, eigi að bera eða miðast beina sjónhending í miðjan Dalagilsfoss, Dalagil aðskilji síðan nokkuð langt til norðurs heiðarland Ytri- og Eystri-Skóga hvort frá öðru. Landamerkjabréf Eystri-Skóga er tekið hafi til merkja gagnvart Ytri-Skógum hafi verið undirritað af eigendum jarðarinnar 14. desember 1885. Um merki frá fjöru upp að Dalagili segi að fjörumark milli Eystri-Skóga og Ytri-Skóga sé grjótvarða á Öldunum fram við fjöru sem eigi að bera í Dalagilsárfoss, úr þessari vörðu sé bein lína á sandinum sem næst til útnorðurs, það langt að þangað til að sjá má Kvarnarhólsárfoss, liggi þá markið upp á milli svonefndrar Austustu fita og miðfitar og þaðan beina sjónhending upp í Kvarnarhólsá, svo ráði áin í gilinu þangað til komi á móts við efri Þverbrekknabrýr, liggi þá markið austur á við með brúnunum og það austur að miðtungugili og með þeim brúnum ofan við svo nefnt laufeimi og álfhól og kofaskjól, úr því ráði Dalagil. Hvorugt þessara bréfa ber með sér að hafa verið áritað um samþykki gagnaðila.
Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 24/2007 sé að nokkru fjallað um eignarrétt að Skógaeignum og segi þar svo orðrétt:
„Svokallaðar Skógaeignir munu hafa fallið til konungs á 15. öld og til þeirra þá talist Ytri-Skógar, Eystri-Skógar, Drangshlíð, Skarðshlíð, Bakkakot, Hörðuskáli, Lambafell og Berjanes. Eystri-Skógar eru taldir hafa verið gerðir að lénsjörð prestsins að Skarði í Meðallandi um 1580, en konungur mun hafa selt Henrik Bjelke ríkisaðmíráli Ytri-Skóga á árinu 1675. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var að finna athugasemd um að „Eystriskógar undir Eyjafjöllum þykjast menn hafa heyrt, að byggðir sé úr Ytriskógum og hafi prestinum í Meðallandi lagðir verið, nær prestunum voru lénsjarðir til uppheldis eftirlátnar, en nær vita menn ekki, og hafi Eystriskógar í fyrstu verið hjáleiga frá enum ytri, hvað og vera kann, því engin landamerki eru á millum þessara jarða. Þar til hefur og selstaða frá Ytriskógum brúkuð verið nærri upp undan Eystriskógum átölulaust af þeirrar jarðar meðeigendum.“ Deilur risu þegar á leið um merki milli Ytri-Skóga og Eystri-Skóga og gekk dómur um þau á árinu 1768. Ekki var þar vikið sérstaklega að Skógafjalli eða merkjum jarðanna svo að teljandi sé til norðurs.“
Ekki mun vera vitað um frumeintak dómsins frá 1768 (Skógadóms), en fyrir liggur í málinu lýsing Þórðar Tómassonar, forstöðumanns Byggðasafnsins í Skógum, á dóminum. Þar segi m.a.:
„Af landamerkjadómi Jóns sýslumanns og meðdómenda hans er það að ráða að engar gildar landamerkjaskrár hafa verið fyrir hendi, dómurinn hefur alfarið byggst á vitnatöku og hún hefur sannað langvarandi not bænda í Eystri-Skógum af landi vestan Dalsár. Ber þar eigi síst að nefna slægjur í heiðarhallinu gegnt bænum í Eystri-Skógum þar sem heita Þverbrekkur og stekkjarstöður jarðarinnar í heiðarhorninu neðan þeirra. Þröngt hefur verið fyrir dyrum í Eystri-Skógum án þeirra nota. Ytri-Skógum var dæmt allt land uppi á heiðinni „á millum Kvarnarhólsár og Dalagilsár og það allt austur að Dalagili eða Dalagilsá,samt allt fram á Brúnir, eða svokallaðar Þverbrekknabrýr, þar til ofan eftir hallar. En Eystri-Skógum tilheyrir og tildæmast allar brekkur fyrir neðan Brúnir (eða Þverbrekknabrýr) á milli Dalagilsár og Kvarnarhólsár. Svo Ytri-Skógar eiga allt heiðarland allt austur að Dalagilsá hið efra. En Eystri-Skógum tildæmast hér með allar brekkur niður að sandi og þeirri svokölluðu Austustufit út að Kvarnarhólsá hið neðra, því það er margbevísað eru og hafa verið eignarland, slægjuland og stekkjartúnsland Eystri-Skóga frá alda öðli og hvað Ytri-Skógamenn hafa leitast við að veikja þennan eignarrétt Eystri-Skóga er fánýtt, veikt og ólögmætt“. Dómurinn vekur athygli á því að enginn þurfi að furða sig á því þótt lönd jarða liggi á misvíxl „svo einn eigi efra, annar neðra, því þar til finnast mörg dæmi undir Eyjafjöllum hvar margbýlt og þröngbýlt var og er“. Þverbrekknabrýr eru heiðarbrúnin ofan og vestan við Þverbrekkur, órofin austan frá Dalsá að Kvarnarhólsá innan við Kvarnarhólsárfoss (Kvernufoss). Neðan hennar, vestur frá Þverbrekkum og vestur í Heiðarbrún heitir Þverbrekknadalur“.
Þórður taki fram að dómurinn sé ekki að öllu leyti vel skýr og kunni það að liggja í því að hann þekkist ekki í frumriti, en Þórður hafi stuðst við afrit Einars Sighvatssonar á Ystaskála frá því um 1850. Skjöl frá lokum 19. aldar beri með sér að landamerkin hafi ekki komist á hreint þrátt fyrir Skógadóm. Gerðar hafi verið landamerkjaskrár fyrir báðar jarðirnar árið 1885 og hafi þeim ekki borið saman um landamerkin. Eigi þær sammerkt að vera einhliða yfirlýsingar sem ekki hafi verið samþykktar af gagnaðila. Sé því sönnunargildi þeirra takmarkað. Í árslok 1899 hafi eigendur jarðanna gert samning um landamerkin og eignarrétt að Skógafjalli. Þar segi að Skógafjall, afréttarland Skóga, sem liggi milli Jökulsár og Fjallgilsár, skuli vera eign Ytri- og Eystri-Skóga þannig, að Ytri-Skógar eigi 4/5 hluta afréttarlandsins en Eystri-Skógar 1/5. Tekið var fram að engar aðrar jarðir eigi rétt til upprekstrar í fjallið. Þá hafi landamerkin milli jarðanna verið ákveðin þannig að úr vörðu á Öldunum, sem er fjörumark milli Ytri- og Eystri-Skóga, bein stefna í Dalagilsfoss, síðan úr áður nefndri vörðu beint allt upp að Dölu suðvestan til Eystri-Skógatún, síðan ræður Dala upp að Fossi, og svo áfram austan við svonefnda Hnauka, allt inn að Kambsfjöllum og þaðan norður til jökuls. Auk þess eiga Eystri-Skógar Brekkur allar og Þverbrekkur allt að Efribrúnum, Austustu Fit. Í áðurgreindum dómi Hæstaréttar nr. 24/2007 sé vikið að þessum samningi og segi þar að líta verði svo á að samningurinn frá 14. desember 1899 sem staðfestur hafi verið 14. september 1901 af svokölluðum stiftsyfirvöldum Íslands hafi til samans sönnunargildi um mörk eignarlands Ytri-Skóga og Eystri-Skóga að því er Skógafjall varði. Þá segi í dóminum að þegar mat sé lagt á þessar heimildir verði að gæta að því að Eystri-Skógar hafi öldum saman talist vera svokölluð útjörð Ytri-Skóga og virðist engin merki hafa verið milli jarðann fram á 18. öld, en fyrst hafi risið ágreiningur um hvað heyrði til hvorrar þeirra og hafi honum fyrst verið lokið með samningnum í desember 1899 þar sem kveðið hafi verið á um landamerki og sameign um Skógafjall.
Stefnandi tekur fram að hann hafi gert nokkra þinglýsta leigusamninga í landi Eystri-Skóga um sumarbústaðajarðir sem séu m.a. í brekkunum austan við íbúðarhúsið að Eystri-Skógum.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.
Aðalstefnandi segir kröfugerð sína lúta að því að frá staðfest með dómi hver landamerkin séu milli jarðanna Eystri-Skóga og Ytri-Skóga. Hann hafi markað á uppdrætti á dómskjali nr. 3 landamerkjalínu sem hann krefjist að verði viðurkennd. Til glöggvunar hafi einnig verið lagður fram á dómskjali nr. 12 annar uppdráttur af jörðunum frá 4. apríl 2007 þar sem markaðar séu tvær línur, annars vegar gul lína og hins vegar rauð lína. Sé rauða línan nálægt því að vera í samræmi við kröfu aðalstefnanda en með gulu línunni séu landamerkin sýnd eins og einhver kynni að halda fram að þau væru. Á milli línanna sé u.þ.b. 415 ha svæði sunnan þjóðvegar en u.þ.b. 225 ha svæði norðan þjóðvegar.
Við ákvörðun landamerkja sunnan þjóðvegar komi til skoðunar 2. töluliður samningsins frá 1899 en þar segi að landamerkjalínan skuli vera úr vörðu á Öldunum, sem sé fjörumark milli Ytri- og Eystri Skóga fjöru, bein stefna í Dalagilsfoss. Varðan sé merkt með punktinum A á dómskjali nr. 3 en frá þeim punkti sjáist upp í Dalagilsfoss. Á leiðinni sé langur kafli þar sem fossinn sé ekki í sjónfæri. Í stað þess að miða við þessa beinu línu hafi a.m.k. síðastliðin 70 ár og líklega lengur verið miðað við svonefndan Sjóbúðaveg, en hann liggi í hlykkjum frá þjóðveginum niður að punktinum A. Vegurinn sé varðaður og við það miðað að landið vestan vegar tilheyri Ytri-Skógum en landið austan vegar tilheyri Eystri-Skógum. Hafi eigendur og ábúendur jarðanna haft eftirlit með því að fólk frá jörðinni á móti væri ekki að sniglast yfir veginn en það hafi helst komið fyrir við veiðar og eggjatöku eða þegar börn hafi verið að leik. Á síðustu öld hafi jarðarafnotin einmitt falist í eggjatöku og hafi verið litið á það sem stuld ef egg væru tekin röngu megin við veginn. Þá bendir aðalstefnandi á að Eystri-Skógum tilheyri óumdeilt landskiki sunnan þjóðvegar sem hafi verið ræktaður og girtur af eiganda Eystri-Skóga. Ef landamerkin væru umrædd bein lína frá punktinum A upp í Dalagilsfoss, þá tilheyrði hluti ræktaða skikans Ytri-Skógum. Hið sama væri að segja um heimreiðina frá þjóðveginum að bænum Eystri-Skógum. Aðalstefnandi fullyrðir að hún og fyrri eigendur Eystri-Skóga hafi farið með landið austan Sjóbúðavegar sem sitt eigið land í marga áratugi, eins og ræktun jarðarskika, heimreið og eggjataka séu til vitnis um. Aðalstefnandi byggir á því að hefð hafi skapast um að landamerkin réðust af áðurnefndum Sjóbúðavegi, hafi Eystri-Skógum tilheyrt land austan vegarins en Ytri-Skógum land vestan hans.
Aðalstefnandi byggir á þeim hluta samningsins frá 1899 þar sem segi að Eystri-Skógar eigi Brekkur allan og Þverbrekkur allt að Efribrúnum, Austustu Fit. Á brekkunum séu m.a. sumarbústaðalóðir sem aðalstefnandi hafi gert lóðarleigusamninga um. Aðalstefnandi byggir á því að brekkurnar nái niður að þjóðvegi andspænis áðurnefndum Sjóbúðavegi en viðurkennir að vissulega dragi úr halla eftir því sem nær dragi þjóðveginum og þar nálgist landið að vera sléttlendi. Telur aðalstefnandi fráleitt að miða landamerkin eingöngu við halla í landinu og megi ráða það af landkostum og landamerkjum að öðru leyti. Austasta Fit sé nánast á sléttlendi mjög nærri þjóðveginum og tilheyri Eystri-Skógum óumdeilt samkvæmt áðurgreindu samkomulagi.
Aðalstefnandi byggir á yfirlýsingu Þórðar Tómassonar en hann sé manna fróðastur um Skógajarðir og örnefni sem þeim tengist. Í yfirlýsingunni segi að Austasta Fit sé austan við Kvernu og afmarkist hún að vestan af Kvernu, að suðvestan og sunnar af Dölu (Dalsá), að austan af Skjólgarðsfit sem greind sé í örnefnaskrá Eystri-Skóga saminni af Ólafi H. Jónssyni á Eystri-Sólheimum. Hún hafi verið nytjuð frá Eystri-Skógum og austast á henni sé glögg rúst hins forna skjólgarðs. Um vestanverða Skjólgarðsfit sé landamerkjalínan sem Jón Hjörleifsson í Eystri-Skógum hafi lengst af viljað halda milli Eystri-Skóga og Ytri-Skóga. Landamerkjaþúfan sé enn óglögg og Austasta Fit sé öll grasi gróin.
Aðalstefnandi leggur til grundvallar að því að varðar mörk Austustu Fitjar að hún sé meðfram Kvernu og nái niður að þjóðvegi á móts við Sjóbúðaveg. Allt annað væri óeðlilegt með tilliti til staðhátta og landamerkjanna að öðru leyti.
Aðalstefnandi vísar til meginreglna eignaréttar og ákvæða laga um hefð nr. 46/1905, einkum 1. til 3. gr. Aðalstefnandi fullyrðir að hann og fyrri eigendur jarðarinnar Eystri-Skóga hafi farið með landið innan landamerkjalínunnar sem tilgreind sé í kröfugerð sem sitt eigið í marga áratugi, miklu meira en 20 ár. Þá séu önnur skilyrði hefðar einnig uppfyllt.
Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök aðalstefndu.
Sýknukrafa aðalstefndu er á því byggð að landamerki jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga skuli vera með þeim hætti sem krafist sé af þeirra hálfu í gagnstefnu, þ.e. grundvallist á samkomulagi um landamerki jarðanna frá 13. desember 1899. Aðalstefndu hafna alfarið dómkröfulínu aðalstefnanda enda styðjist hún ekki við neinar heimildir og sé bersýnilega í ósamræmi við gildandi samning um landamerki milli Eystri-Skóga og Ytri-Skóga frá 1899. Samningurinn sé í fullu gildi enda hafi eigendur jarðanna aldrei gert samkomulag um önnur mörk, hvorki formlega né í verki. Þvert á móti hafi aðalstefnandi byggt á því að samkomulagið sé í fullu gildi, sbr. málatilbúnað hennar og eigenda Ytri-Skóga í Hæstaréttarmálinu nr. 24/2007.
Aðalstefndu mótmæla því harðlega að í framkvæmd hafi verið miðað við að landamerkjalínan miðaðist við svonefndan Sjóbúðaveg og þá er mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að eigendur og ábúendur jarðanna hafi haft sérstakt eftirlit með því að fólk frá jörðinni væri ekki að sniglast yfir veginn og þar með landamerkin. Vegir þjóni vitanlega ekki þeim tilgangi að vera landamerki og staðsetning þeirra ráðist af allt öðrum þáttum. Sé því fráleitt að halda því fram að lega vegarins víki til hliðar þinglýstum landamerkjum.
Þá hafna aðalstefndu því alfarið að hefð hafi skapast um að landamerkin ráðist af Sjóbúðavegi. Vegurinn liggi um ógróinn fjörusand og einu notin af landsvæðinu séu í formi eggjatöku. Aðalstefndu mótmæla því að eigendur Eystri-Skóga hafi nýtt hið umþrætta svæði með samþykki eigenda Ytri-Skóga. Þótt aðalstefnanda tækist að sýna fram á að hún hefði stundað eggjatöku á svæðinu þá séu þau not alltof takmörkuð og stopul til að skilyrði um 20 ára óslitið eignarhald sé fullnægt, sbr. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Þá er byggt á því að eigendum og ábúendum Skógajarða hafi allt frá árinu 1899 verið fullkunnugt um hið þinglýsta samkomulag um landamerkin. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga sé ekki hægt að vinna hefð með umráðum sem náðst hafa með óráðvandlegu athæfi. Hafi þetta ákvæði verið túlkað þannig að bein vitneskja hefðanda um eignarréttindi annarra komi í veg fyrir að hefð vinnist. Sé þegar af þeirri ástæðu ekki hægt að taka dómkröfulínu aðalstefnanda til greina vegna vitneskju hennar og forvera hennar um að hluti landsins austan við þá línu væri eign aðalstefndu.
Aðalstefndu hafna því að það hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins að vegurinn frá þjóðvegi að bænum á Eystri-Skógum sé að hluta innan þess lands sem aðalstefndu geri kröfu um í máli þessu. Alþekkt sé að vegir heimreiða liggi oft innan lands næstu jarðar. Þá er því mótmælt að tilvist túns vestan dómkröfulínu aðalstefndu geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Sönnunarbyrði um að aðalstefnandi hafi hefðað eignarrétt á túninu, þvert á gildandi samning um landamerkin, hvíli á henni sjálfri. Enda þótt aðalstefnanda tækist að sýna fram á eignarhefð að túninu þá sé ljóst að hún væri bundin við túnið sjálft. Sé fráleitt að ætla að nýting túnsins geti orðið grundvöllur að eignarhefð á fleiri hundruðum hektara lands þar fyrir sunnan.
Þá mótmæla aðalstefndu því að svonefndar Brekkur geti undir nokkrum kringumstæðum náð allt niður að þjóðvegi. Sé farið á vettvang sé mjög greinilegt hvar brekkunum sleppi og sléttlendi taki við. Aðalstefndu hafna því að samkomulagið frá 1899 sé ótvírætt um að Austasta Fit skuli tilheyra Eystri-Skógum. Þá er því hafnað að Austasta Fit sé staðsett eins og miðað sé við í stefnu.
Málsástæður og lagarök gagnstefnenda.
Gagnstefnendur byggja á því að árið 1899 hafi eigendur Eystri- og Ytri-Skóga gert fyrirvaralaust samkomulag um landamerki milli jarðanna. Það hafi verið undirritað af ábúendum beggja jarða og staðfest af stiftsyfirvöldum Íslands 14. september 1901. Sé byggt á því að samkomulagið sé í fullu gildi enda hafi eigendur jarðanna hvorki gert samkomulag um önnur mörk né farið fram á endurskipti á landinu. Gagnstefnda hafi sjálf byggt á samkomulaginu fyrir dómi og er þar vísað til Hæstaréttarmálsins nr. 24/2007 en þar hafi samkomulagið verið lagt til grundvallar niðurstöðu málsins.
Gagnstefnendur byggja kröfur sínar alfarið á samkomulaginu frá 1899. Upphafspunkturinn A sé varða á Öldum á mörkum Ytri-Skógafjöru og Eystri-Skógafjöru. Ekki sé ágreiningur um upphafspunktinn en gagnstefnda staðsetji umrædda vörðu á sama stað í stefnu. Gagnstefnendur byggja á því að frá þessum upphafspunkti eigi að draga línuna í hnitpunkt B sem sé þar sem talið sé að Dala (Dalagilsá) hafi runnið árið 1899 suðvestan við Eystri-Skógatún. Sé punkturinn settur niður á melkoll sem áin hafi ekki náð að eyða, en ljóst sé að landslag hafi breyst nokkuð frá árinu 1899 vegna framburðar Dölu í aldanna rás. Hins vegar liggi fyrir glögg kort af svæðinu frá árinu 1904 og þá sé vísað til dönsku herforingjaráðskortanna sem gerð hafi verið í upphafi 20. aldar og sérstakra túnakorta sem hinir dönsku landmælingamenn hafi unnið. Sé innbyrðis samræmi milli kortanna varðandi afmörkun á túnum Eystri-Skóga.
Gagnstefnendur byggja á því að í samkomulaginu frá 1899 komi fram að Eystri-Skógar skuli eiga Brekkur allar og Þverbrekkur allt að Efribrúnum og hafi brekkurnar náð allt niður að Dölu að austanverðu. Því sé punktur B dreginn í punkt C en af kortum megi ráða að það séu neðri mörk brekknanna um 1899. Þaðan sé brekkurótum fylgt vestur um hnitpunkta C1, C2, D, D1, D2, D3, D4, D5, D6, D7 og E við Kvernu. Frá síðastnefndum hnitpunkti sé línan dregin upp á gilbrún vestan við Brekkur og Þverbrekkur og allt upp að Efribrúnum. Línan liggi á gilbrúninni í hnitpunktunum E,F, F1, F2, F3, F4, F5 og G. Þaðan séu merkin dregin austur frá hnitpunkti G meðfram efri mörkum Efribrúna í hnitpunktum G, G1, G2, G3 og H. Línan norðan Efribrúna fylgi 200 metra hæðarlínu og sé rétt neðan við efstu mörk Efribrúna. Frá síðastnefndum punkti H sé línan dregin í Dölufoss (Dalagilsfoss) í hnitpunkt I.
Gagnstefnendur telja að samkomulagið frá 1899 um merkin milli jarðanna sé skýrt. Með því að hafa kort frá umræddum tíma til hliðsjónar megi leiða í ljós merkin með tiltölulega nákvæmum hætti. Það sem helst veki vafa í samkomulaginu séu upphafsorð merkjalýsingar um að merkin skuli vera úr vörðu á Öldunum, sem sé fjörumark milli Ytri- og Eystri-skóga fjöru, bein stefna í Dalagilsfoss. Telja gagnstefnendur augljóst að þarna sé einungis um að ræða stefnumarkalínu og tilraun til að staðsetja umrædda vörðu á sandinum. Sé það rökrétt niðurstaða með tilliti til textans sem á eftir komi, en hann sé á þessa leið: „síðan úr áður nefndri vörðu beint alt upp að Dölu suðvestan við Eystri-Skógatún; síðan ræður Dala upp að fossi.“ Telja gagnstefnendur af framansögðu ljóst að þeir hafi gætt hófs í kröfugerð sinni og valið þann skýringarkost sem gangi skemur hvað þá varði.
Gagnstefnendur mótmæla með öllu að gagnstefnda og forverar hennar hafi nokkru sinni farið með ágreiningslandið austan Sjóbúðavegar sem sitt eigið. Sé raunar viðurkennt í stefnu að einu notin af landinu neðan þjóðvegar hafi verið veiðar og eggjataka. Jafnvel þótt þau not teldust sönnuð af hálfu gagnstefnenda þá sé engu að síður fráleitt að þau not geti verið grundvöllur eignarhefðar.
Gagnstefnendur mótmæla því alfarið að svonefndar Brekkur geti undir nokkrum kringumstæðum náð allt niður að þjóðvegi eins og miðað sé við í stefnu. Mjög greinilegt sé hvar brekkunum sleppi og láglendi taki við. Landamerki milli jarðanna geti því aldrei náð niður að þjóðvegi. Þá er því mótmælt að samkomulagið frá 1899 sé ótvírætt um að Austasta Fit skuli tileyra Eystri-Skógum. Þá er því mótmælt að Austasta Fit sé staðsett á þeim stað sem haldið sé fram í stefnu.
Vísað er til laga nr.41/1919 um landamerki o.fl. og meginreglna íslensks eignaréttar um landamerki. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök gagnstefndu.
Gagnstefnda vísar til stefnu í aðalsök og byggir í gagnsök á sömu málsástæðum og í aðalsök. Gagnstefnda mótmælir því að hafa byggt á samkomulaginu frá 1899 fyrir dómstólum án nokkurs fyrirvara. Samkomulagið hafi m.a. verið lagt til grundvallar niðurstöðu dóms í máli Hæstaréttar nr. 24/2007 en sakarefnið hafi ekki haft með landamerki Eystri- og Ytri-Skóga að gera. Málsaðilar hafi verið samaðilar í því máli og engin afstaða hafi verið tekin til þeirra landamerkja sem hér sé deilt um.
Gagnstefnda mótmælir því að lína sem markast af hnitpunktum og lýst sé í kröfugerð gagnstefnenda sé í samræmi við samkomulagið frá 1899. Þá mótmælir gagnstefnda því að dönsku herforingaráðskortin hafi sérstaka þýðingu í málinu. Þau hafi ekki eignarréttarlegt gildi, ekki komi fram hvenær þau hafi verið unnin, í hvaða tilgangi og þá komi ekki fram hvort eigendur jarðanna hafi viðurkennt nákvæmni þeirra.
Gagnstefnda mótmælir því að hafa ekki farið með landið sem tilheyrir Eystri-Skógum sem sitt eigið. Hafi eigendur jarðarinnar ekki einvörðungu farið með umrætt land sem sitt eigið þegar veiði og eggjataka séu annars vegar. Sjóbúðavegurinn hafi verið notaður sem landamerki og hafi eigendur Eystri-Skóga ekki mátt fara yfir veginn á landsvæði Ytri-Skóga og öfugt. Þá bendir gagnstefnda á að landamerkjalínan eins og hún sé dregin í kröfugerð gagnstefnenda fari bæði yfir ræktuð lönd aðalstefnanda og heimreið að íbúðarhúsinu að Eystri-Skógum. Hafi það ekkert með veiði eða eggjatöku að gera. Þá mótmælir gagnstefnda staðhæfingum í gagnstefnu um staðsetningu á Brekkum og á Austustu Fit.
Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Ágreiningur málsaðila snýst um landamerki milli jarðanna Ytri- og Eystri-Skóga. Aðilar virðast að nokkru leyti sammála um gildi samnings sem gerður var þann 13. desember 1899 milli þáverandi eigenda jarðanna og markaði landamerkjalínu milli jarðanna en deila um túlkun hans, sérstaklega hvernig afmarka skuli Brekkur allar og Þverbrekkur allt að Efribrúnum. Ekki er ágreiningur um staðsetningu fjörumarksins milli jarðanna sem er varða á svokölluðum Öldum en aðalstefnandi telur að hefð standi til þess að landamerkin þaðan fari eftir svokölluðum Sjóbúðavegi sem varðaður er í sandinn sunnan þjóðvegarins. Þá er ágreiningur um staðsetningu Austustu Fitar, en hún markar mörk jarðanna í vestri, og jafnframt um það til hvorrar jarðarinnar hún falli.
Samkvæmt umræddum samningi er nokkuð ljóst að landamerkin milli jarðanna voru ákveðin frá hinni óumdeildu vörðu á Öldunum með beina stefnu í Dalagilsfoss. Aðalstefnandi telur að víkja verði frá samningnum að þessu leyti og beri að miða við að merkin liggi um svokallaðan Sjóbúðaveg. Óumdeilt er í málinu að einu notin af landinu sunnan þjóðvegar hafi verið veiðar og eggjataka. Þá er óumdeilt að Eystri-Skógum tilheyrir landskiki sunnan þjóðvegar sem hefur verið ræktaður og girtur af eiganda Eystri-Skóga, en þessi skiki er vestan framangreindrar línu og myndi því tilheyra Ytri-Skógum ef línan sem samningurinn getur um er látin ráða. Fram hefur komið fyrir dóminum að undanfarna áratugi hafi Sjóbúðavegurinn verið notaður sem landamerki og hafi eigendur Eystri-Skóga ekki mátt fara yfir veginn á landsvæði Ytri-Skóga og öfugt. Ljóst er að hafi hugur eigenda jarðanna staðið til þess að breyta landamerkjum milli jarðanna að þessu leyti hefur ekki verið staðið að þeirri breytingu með þeim hætti sem lýst er í 4. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki. Þá verður ekki talið að not aðalstefndu af landsvæðinu í formi veiða, eggjatöku og landgræðslu leiði til þess að hún hafi haft svo víðtæk umráð landsvæðisins að þau bendi til eignarréttar hennar. Þá ber til þess að líta að báðum aðilum var kunnugt um efni samkomulagsins frá 1899 og landamerkin sem þar eru tilgreind. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð og verður kröfugerð aðalstefnanda að þessu leyti því hafnað.
Kemur þá til skoðunar hvernig afmarka skuli svonefndar Brekkur, en samkvæmt samkomulaginu skyldu Eystri-Skógar eiga Brekkur allar og Þverbrekkur allt að Efribrúnum, Austustu Fit. Við skýringu á þessu samningsákvæði ber að hafa hliðsjón af svonefndum Skógadómi frá 1768, þrátt fyrir að hann sé nú aðeins til í endursögn. Þar segir að Eystri-Skógum tildæmist allar brekkur fyrir neðan Brúnir (eða Þverbrekknabrýr) á milli Dalagilsár og Kvarnarhólsár, en Ytri-Skógar áttu allt heiðarland allt austur að Dalagilsá hið efra. Þá er tekið fram að Eystri-Skógum tildæmist allar brekkur niður að sandi og þeirri svokölluðu Austustu Fit. Tekið er fram að það sé margbevísað að þar hafi verið eignarland, slægjuland og stekkjartúnsland Eystri-Skóga frá alda öðli, en Ytri-Skógamenn hafi leitast við að veikja þennan eignarrétt Eystri-Skóga. Hafa ber í huga að verði fallist á kröfugerð gagnstefnenda, myndi nánast ekkert láglendi tilheyra Eystri-Skógum vestan bæjarins. Verður að telja með ólíkindum að samningurinn frá 1899 hafi falið í sér slíka ráðstöfun þegar litið er til þess hve jörðin yrði þá rýr að landkostum. Verður því að telja með hliðsjón af öllu framansögðu að Eystri-Skógum tilheyri ekki aðeins framangreindar brekkur heldur einnig láglendi í framhaldi af þeim niður að sandi eins og ráða má af Skógadómi. Þykir mega við það miða að Austasta Fit tilheyri Eystri-Skógum eins og varakrafa gagnstefnenda lýtur raunar að. Þá þykir með hliðsjón af málavöxtum öllum eðlilegt að suðurmörkin miðist nánast við þjóðveginn þannig að frá hnitpunkti A1 eins og honum er lýst í varakröfu gagnstefnenda liggi mörkin í vestur að hnitpunkti I eins og honum er lýst í kröfugerð aðalstefnanda og þaðan um hnitpunkta J, K, L, M, N, O, P og Q eins og þeim er lýst í kröfugerð aðalstefnanda. Að öðru leyti en hér segir skulu aðalstefndu sýknir af kröfum aðalstefnanda í aðalsök og með sama hætti skal gagnstefnda sýkn af kröfum gagnstefnenda í gagnsök að öðru leyti en hér hefur verið lýst.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að málskostnaður falli niður bæði í aðalsök og gagnsök.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Landamerki milli jarðanna Eystri-Skóga og Ytri Skóga eru sem hér segir: Úr hnitpunkti A (478502.7 : 328826.1) norður í hnitpunkt A1 (477481.1 : 334243,3), þaðan vestur í hnitpunkt I (475808.1 : 335321.3) og haldi landamerkjalínan áfram úr punkti I í Dölu og þaðan í Kvernu umlukt Austustu Fit (punktar K, L, M, N, O, P, Q eins og þeim er lýst í endanlegri kröfugerð aðalstefnanda).
Að öðru leyti en hér segir skulu aðalstefndu, héraðsnefnd Rangæinga og héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu, sýknir af kröfum aðalstefnanda, Sigríði Júlíu Jónsdóttur, í aðalsök og með sama hætti skal gagnstefnda sýkn af kröfum gagnstefnenda í gagnsök að öðru leyti en hér hefur verið lýst.
Málskostnaður fellur niður bæði í aðalsök og gagnsök.