Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-99
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Eignarréttur
- Hefð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 27. mars 2020 leita Hrefna Smith, Jan Henje, Katla Smith Henje, Pétur Kristinn Arason, Bjarney Ragna Róbertsdóttir, Berg Framtíð ehf., Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, Gunnar Eiríksson og Mildrid Irene Steinberg leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. febrúar 2020 í málinu nr. 920/2018: Hrefna Smith, Jan Henje, Katla Smith Henje, Pétur Kristinn Arason, Bjarney Ragna Róbertsdóttir, Berg Framtíð ehf., Sólveig Hólmfríður Sverrisdóttir, Gunnar Eiríksson og Mildrid Irene Steinberg gegn Reykjavíkurborg, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Reykjavíkurborg leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að spildu sem nýtt er undir gangstétt og bílastæði og liggur meðfram suðurhlið fasteignar þeirra að Bergstaðastræti 52 í Reykjavík. Reisa leyfisbeiðendur kröfu sína meðal annars á því að þau hafi öðlast beinan eignarrétt að umræddri spildu með því að mælingamaður gagnaðila hefði á grundvelli 3. gr. laga nr. 35/1914 um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, ákveðið stærð og legu lóðarinnar að fasteign þeirra í samræmi við kröfu þeirra. Þá reisa leyfisbeiðendur kröfu sína jafnframt á því að þau hafi öðlast eignarrétt að spildunni fyrir hefð. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðenda og var sú niðurstaða staðfest með framangreindum dómi Landsréttar.
Leyfisbeiðendur telja að niðurstaða Hæstaréttar um aðalkröfu þeirra sé fordæmisgefandi um túlkun á ákvæðum laga nr. 35/1914 og þýðingu þeirra fyrir það hvort sönnun liggi fyrir um legu lóðarmarka fasteignarinnar. Þá telja þeir að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem framangreind lög hafi verið túlkuð með röngum hætti auk þess sem ranglega hafi verið talið að skilyrðum hefðar hafi ekki verið fullnægt. Loks telja leyfisbeiðendur að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi né efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.