Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2010


Lykilorð

  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 12. maí 2011.

Nr. 527/2010.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)           

gegn

Iceland Excursions Allrahanda ehf.

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

Stjórnsýsla. Skaðabætur. Matsgerð.

I krafðist bóta vegna tjóns sem hann taldi að orðið hefði vegna ólögmætrar málsmeðferðar samgönguráðuneytisins við úthlutun á sérleyfisleið á Vestfjörðum á árinu 1997. Talið var að I hefði fært fullnægjandi sönnur fyrir því að tjón hefði leitt af hinni ólögmætu ákvörðun samgönguráðuneytisins vegna markaðsstarfs sem unnið var af hálfu félagsins á umræddum árum en nýttist ekki eftir 1997. Það var talið réttilega metið í matsgerð sem lá fyrir í málinu og var sá kröfuliður því tekinn til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður verði felldur niður en að því frágengnu að málskostnaður verði lækkaður.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða honum aðra lægri fjárhæð en þar var dæmd. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Iceland Excursions Allrahanda ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. maí sl., var höfðað 27. febrúar 2007 af Iceland Excursions Allrahanda ehf., Höfðatúni 12, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, Arnar­hvoli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 15.134.006 krónur auk hæstu lögleyfðra dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.134.006 krónur auk hæstu lögleyfðra dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að dómkrafa hans í málinu væri sprottin af ­atvikum og samskiptum Allrahanda/Ísferða ehf. við samgönguráðuneytið varðandi sérleyfisakstur á Vestfjörðum. Stefnandi hafi fengið kröfuna réttilega fram­selda frá Allrahanda/Ísferðum ehf., eins og staðfest sé í dómi Hæstaréttar 28. septem­ber 2006 í málinu nr. 553/2005: Íslenska ríkið gegn Iceland Excursion Allrahanda ehf.

Allrahanda hf. sótti um og fékk úthlutað sérleyfi til fólksflutninga með langferða­bifreiðum á sérleyfisleiðunum Þingeyri - Ísafjörður – Þingeyri og Ísafjörður – Hólma­vík frá 20. mars 1992 til 1. mars 1995. Leyfið var framlengt um tvö ár, til 23. febrúar 1997, og aftur frá 1. mars 1997 til 1. september sama ár.

Með bréfi 1. september s.á. veitti samgönguráðuneytið Ísafjarðarbæ sérleyfi á leiðinni Ísafjörður – Suðureyri – Flateyri – Þingeyri frá þeim degi til 1. september 1998. Allrahanda hf. sótti einnig um sérleyfið en nafni þess hafði þá verið breytt í Allrahanda/Ísferðir ehf. Eftir þetta samdi Ísafjarðarbær við Allrahanda/Ísferðir ehf. um að félagið tæki að sér akstur á sérleyfisleiðinni á tímabilinu 27. september 1997 til 31. ágúst 1998. Samgöngu­ráðuneytið veitti Ísafjarðarbæ einkaleyfi til fólksflutninga innan sveitar­félagsins á árinu 1998. Eftir það var samið við annan aðila um aksturinn.

Allrahanda/Ísferðir ehf. höfðaði skaðabótamál á hendur stefnda 14. maí 2001 þar sem byggt var á því að stefndi hefði með saknæmum og ólögmætum hætti veitt Ísafjarðarbæ umrætt sérleyfi. Bæri stefnda að bæta stefnanda tjónið sem hann hefði orðið fyrir af þeim sökum. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 27. júní 2003 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 1. september s.á.

Stefnandi höfðaði aftur mál á hendur stefnda 27. febrúar 2004 vegna sama sakarefnis og gekk dómur um það 10. október 2005 þar sem stefnanda voru dæmdar skaðabætur að álitum. Málinu var áfrýjað og varð niðurstaða Hæstaréttar 28. septem­ber 2006 sú að vísa bæri málinu frá héraðsdómi. Í dóminum er meðal annars vísað til þess að af fyrirliggjandi gögnum væri ekki ljóst hvort fyrirtækið hefði orðið fyrir tjóni vegna aðgerða aðaláfrýjanda, hvað þá hvaða fjárhæð það hefði numið. Ekki lægju fyrir nægileg gögn um tjón gagnáfrýjanda til að unnt væri að fella efnisdóm á kröfu hans í málinu. Með dóminum var hins vegar staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að slíkir annmarkar hefðu verið á stjórnsýslumeðferð sam­göngu­ráðuneytisins að bakað hefði aðaláfrýjanda bótaskyldu vegna tjóns er kynni að hafa leitt af því að Allrahanda­/Ísferðir ehf. fengu ekki umrætt sérleyfi.

Mál þetta hefur stefnandi höfðað í því skyni að fá dæmdar skaðabætur úr hendi stefnda vegna hinna ólögmætu aðgerða við úthlutun á framangreindu sérleyfi. Af hans hálfu er vísað til þess að Hæstiréttur hefði staðfest að stefnandi væri réttur aðili kröfunnar og um bótaábyrgð stefnda. Endanleg skaðabótakrafa stefnanda er annars vegar vegna tjóns, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna kostnaðar af markaðs­setningu, sem hafi ónýst, og hins vegar vegna missis framtíðarhagnaðar.  

                Undir rekstri málsins aflaði stefnandi matsgerðar dómkvaddra matsmanna og eru endanlegar kröfur hans í málinu annars vegar byggðar á því. Samkvæmt matinu hefði stefnandi orðið fyrir tjóni af markaðssetningu þjónustu, sem miðuð hafi verið við að nýtast eftir 1997, en hafi ónýst. Tjónið nemi alls 1.134.006 krónum. Stefnandi telur að tjónið sé jafnframt að rekja til missis fram­tíðar­hagnaðar og eru endanlegar kröfur stefnanda í málinu hins vegar byggðar á því.

Í sömu masgerð er vísað til þess að stefnandi hafi óskað eftir því að metið yrði hvert megi telja tjón félags­ins af missi framtíðarhagnaðar, markaðsvinnu og fjárfest­ingum, annars vegar á tímabilinu frá 1. mars 1997 til 28. febrúar 2002, en hins vegar allt fram til ársins 2005. Enn fremur segir í matinu að þegar meta eigi tjón af missi sérleyfis sé eðlilegast að bera saman þann hagnað sem sérleyfið hefði væntanlega skapað við þann hagnað sem sömu eignir sköpuðu án þess. Þá kemur fram að rekstar­tekjur hafi meira en þrefaldast milli áranna 1997 og 1998 en hafi svo minnkað aftur á árinu 1999. Ekki liggi fyrir skipting á rekstri eftir deildum á árunum þar á undan eða eftir, sem þyrfti að liggja fyrir til að meta hvort félagið hefði orðið fyrir raunverulegu tjóni. Ekki væru nægar forsendur til að meta meint tjón af missi framtíðarhagnaðar og er þar með ekki tekin afstaða til þess í matinu. Varðandi þennan kröfulið er af hálfu stefnanda vísað til greinar­gerðar Gunnars Hjaltalín, löggilts endurskoðanda, frá 7. maí 2002. Þar er tapaður framtíðarhagnaður á árunum 1999 til 2002 metinn að fjár­hæð 14.000.000 króna.

Endan­legar kröfur í málinu eru því samtals að fjárhæð 15.134.006 krónur. Áður var aflað mats dómkvaddra matsmanna á fjárhags­tjóni Allra­handa ehf. vegna upp­sagnar á sérleyfinu, en það er dagsett 26. júní 2002. Á þessu mati er ekki byggt í málinu að öðru leyti en því að af stefnda hálfu er það talið styðja að ekkert tjón hafi orðið vegna missis framtíðarhagnaðar.

                Af hálfu stefnda er kröfum stefnanda mótmælt svo og að nokkurt tjón hefði orðið enda hefði stefnandi ekki fært sönnur á það.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi beri bótaábyrgð á því tjóni, sem Allrahanda/Ísferðir ehf. hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar málsmeðferðar sam­göngu­ráðu­neytisins í september 1997 þegar brotinn var réttur á félaginu við úthlutun sérleyfa til Ísa­fjarðar­bæjar. Þetta hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar 28. septem­ber 2006. Einnig sé staðfest í sama dómi að stefnandi sé eigandi bótakröfunnar og því réttur aðili að málssókn út af henni. Málið snúist eingöngu um bótafjárhæðina og sönnun um tjónið eða að bætur verði dæmdar að álitum með hliðsjón af þeim sönnunar­­gögnum sem liggi fyrir í málinu. Bótakröfur stefnanda, bæði fjárhæð og vextir, séu ófyrndar, enda hafi kröfunum verið haldið til streitu órofið í lagaskilningi allt frá máls­höfðun 14. maí 2001.  Af sömu ástæðum gæti ekki tómlætisáhrifa í málinu.

Stefnandi byggi kröfur sínar á því að brotnar hafi verið stjórnsýslu­reglur á Allrahanda/Ísferðum ehf. þegar Ísafjarðarbæ var veitt sérleyfið og að stefndi hafi með því bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefnanda. Þótt örðugt geti verið að sanna nákvæm­lega hvert fjártjón Allrahanda/Ísferða ehf. hafi verið, og þar með hvað verði lagt til grundvallar bótakröfu stefnanda í málinu, sé ljóst að tjónið hafi verið verulegt þar sem fótunum hafi verið kippt undan rekstri fyrirtækisins með hinni ólögmætu ákvörðun ráðuneytisins.

Allt frá árinu 1992 hefði Allrahanda/Ísferðir ehf. byggt upp rekstur sinn á Vest­fjörðum. Félagið hefði fengið úthlutað sérleyfi til aksturs á milli Hólmavíkur og Ísafjarðar og á milli byggðakjarnanna á Vestfjörðum og Ísafjaðar. Félagið hefði jafn­framt byggt upp áætlun fólks- og vöruflutninga á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og samtengingu þessa rekstrar við rekstur sérleyfanna á Vestfjörðum. Félagið hafi m.a. gert samning við Flugleiðir hf. um fólks- og vöruflutninga innan svæðisins í tengslum við áætlunarferðir beggja félaganna. Jafnframt hafi öflun sérleyfa verið liður í sókn félagsins inn á hópferðamarkað á Vestfjörðum, en rekstur sérleyfa innan svæðis­ins hefði verið félaginu til verulegra hagsbóta við þessa alhliða markaðssókn. Með því hafi félagið orðið sýnilegra öllum þeim aðilum sem stefnt var að viðskiptum við. Öflun sérleyf­anna og akstur félagsins á þeim leiðum, sumar jafnt sem vetur, hafi því verið hluti af markaðssókn þess. Öll uppbygging starfseminnar, með ærnum til­kostnaði, hafi að engu verið gerð og niður rifin með ólögmætri málsmeðferð og ákvörðun sam­göngu­ráðu­neytisins um að úthluta sérleyfinu til Ísafjarðarbæjar.

Allrahanda/Ísferðir ehf. hafi einnig verið með sérleyfi á leiðinni Ísafjörður – Látrabjarg. Eftir að Ísafjarðarbær fékk einkaleyfi til farþegaflutninga innan sveitar­félagsins hafi félaginu verið óheimilt, á leið sinni til og frá Látrabjargi, að taka upp farþega, t.d. á Ísafirði og setja þá af á Þingeyri eða annars staðar innan Ísafjarðarbæjar og allt upp á miðja Dynjandisheiði, eða á um það bil 50% af sérleyfisleiðinni. Sama eigi við á leiðinni Flateyri – Hólmavík í gegnum Ísafjörð, félaginu hafi verið óheimilt að taka upp farþega á Flateyri og setja þá af á Ísafirði.

Allrahanda/Ísferðir ehf. hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna tapaðra við­skipta og óhagstæðari rekstrar af völdum hinnar bótaskyldu háttsemi samgöngu­ráðu­neytisins. Tjón hafi jafnframt leitt af því að langvarandi vinna að markaðsmálum ónýttist. Sérleyfið hefði styrkt stöðu félagsins gagnvart viðskiptavinum á Vestfjörðum. Gert hefði verið ráð fyrir því að leggja þyrfti út í veru­legan kostnað og eftir atvikum taprekstur framan af til að ná þeim markmiðum að reksturinn yrði ábatasamur er fram liðu stundir. Nýting þjónust­­unnar hafi verið mjög lítil í upp­hafi, en hafi aukist eftir því sem frá leið og virkni sam­göngu­­netsins varð þekktari.

Í janúar 1996 hafi félagið haldið uppi áætlunarakstri á milli byggðakjarnana allt árið en áður hefði einungis verið ekið eftir áætlun yfir sumarmánuðina. Þetta hafi verið gert vegna áskorana frá sveitarstjórnarmönnum, en fullyrt hafi verið að sveitar­félögin myndu styrkja þennan akstur með einhverjum hætti. Á þessum tíma hafi staðið fyrir dyrum sameining sveitarfélaga á Vestfjörðum og mikil áhersla lögð á góðar samgöngur. Þegar félagið hóf akstur allt árið hafi fargjöld verið lækkuð veru­lega í þeim tilgangi að fá íbúa svæðisins til þess að nýta sér þessa þjónustu. Þetta hafi verið gert bæði til að markaðssetja þjónustuna og vegna þess að reiknað hafi verið með styrk frá sveitarfélögunum til þessa aksturs. Félagið hafi ekið á áætlunarleiðunum frá janúar 1996 til september 1997 án þess að fá nokkurn styrk til þess frá sveitar­félögunum, en þau hafi verið sameinuð undir nafninu Ísafjarðarbær í maí 1996.

Stefnandi vísi til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá desember 2009 svo og til greinargerðar Gunnars Hjaltalín, löggilts endurskoðanda, frá 7. maí 2002. Í mats­gerðinni sé tjón vegna markaðssetningar þjónustu talið samtals að fjárhæð 1.134.006 krónur. Matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt og hún sé ekki haldin nokkrum göllum. Með henni hafi tjónið verið sannað. Tjón vegna tapaðs framtíðarhagnaðar sé metið 14.000.000 króna af Gunnari Hjaltalín, löggiltum endur­skoðanda. Stefnandi vísi jafnframt til upplýsinga frá Ísafjarðarbæ um greiðslur bæjarins vegna aksturs almenn­ings­­vagna á tímabilinu 1996 til 2005 á leiðum Ísafjörður – Suðureyri – Flateyri – Þing­eyri. Allrahanda­/Ísferðir ehf. hafi misst af þess háttar greiðslum þar sem það hafi ekki haft umræddan akstur með höndum vegna hinna ólögmætu aðgerða ráðu­neytisins þegar sérleyfinu var úthlutað Ísafjarðarbæ. Með þessum upplýsingum hafi stefnandi rennt stoðum undir framan­greint mat Gunnars á tapi framtíðarhagnaðar félagsins. Dómurinn geti dæmt bætur að álitum á grundvelli þessara gagna verði ekki fallist á að dæma alla fjárhæðina í þessum kröfulið.

Bótagrundvöllur fjárkrafna stefnanda séu brot stefnda á stjórnsýslureglum, sbr. fyrrgreindar niðurstöður Hæstaréttar í málinu nr. 553/2005. Fjárkröfur sínar byggi stefnandi á gögnum málsins og styðji þær við almennar reglur skaðabótaréttarins.

Dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi er kröfu stefnanda var komið á framfæri við stefnda. Krafan sé byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og síðar vaxtalögum nr. 38/2001. Stefnandi byggi á ákvæðum 11. gr. laga nr. 14/1905 um stöðu krafna sinna, einkum vaxtakrafna, gagnvart fyrningarsjónarmiðum, en ekkert slíkt rof hafi orðið á sókn stefnanda sem valdið geti missi krafna hans að einhverju leyti eða öllu. Krafa stefnanda um málskostnað sé byggð á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hafi valdið því að stefnandi þurfti að sækja málið fyrir dómi.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að fyrirtækið hafi orðið fyrir tjóni enda hefðu viðhlítandi sönnunargögn ekki verið lögð fram um það. Greinargerð Gunnars Hjaltalín, löggilts endur­skoðanda, frá 7. maí 2002, sem stefnandi styðji kröfur sínar við nú, hafi verið hafnað með dómi Hæstaréttar 28. september 2006 og ekki talið unnt að byggja á henni í málinu. Fram hafi komið í málinu að álitsins væri aflað einhliða af stefnanda, það sýndist reist á ótraustum grunni og að sumu leyti á hæpnum forsendum. Mati dómkvaddra matsmanna sé einnig mót­mælt sem fullnægjandi sönnunargagni um tjónið. Tjónið væri því ósannað, enda sýndu gögn málsins ekki fram á það.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón sem afleiðingu af þeirri stjórnsýslumeðferð sem talin er hafa bakað stefnda bótaskyldu. Rekstur stefnanda hafi farið að skila hagnaði eftir að hann fékk ekki sérleyfið. Stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi sönnunargögn um tjónið. Reifun málsins og sönnunarfærsla af hálfu stefn­anda sé með þeim hætti að til greina komi að vísa málinu frá dómi, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi mótmæli kröfum stefnanda en matsmenn hafi að stærstum hluta hafnað því að tjón hefði orðið. Stefndi mótmæli þeirri niðurstöðu matsmanna að félagið hafi orðið fyrir tjóni af markaðs­setningu þjónustu sem miðuð hafi verið við að nýtast mætti eftir árið 1997. Óraunhæft sé að markaðssetning á þjónustu geti talist tapaður ágóði eða hagnaðartjón. Á engan hátt sé sannað að um sé að ræða tjón sem afleiðingu af ákvörðun ráðherra um úthlutun sérleyfis á umræddri leið og tæplega um að ræða hagsmuni sem njóti verndar skaða­bóta­reglna. Rökstuðningur matsmanna virtist einnig í mótsögn við umfjöllun þeirra um aðra liði.

Þar sem stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á að stjórnsýsla samgönguráðherra hafi leitt til tjóns sé skilyrði um orsakasamband ekki fyrir hendi. Þótt Ísferðum ehf. hafi ekki verið veitt sérleyfi á leiðinni sé engum grundvelli til greiðslu bóta fyrir að fara. Félaginu hafi verið í lófa lagið að bera ákvörðun stefnda undir dómstóla án tafar, en í bréfi til Ísferða ehf. hafi verið rökstutt sérstaklega hvaða ástæður lægju til þess að veita Ísafjarðarbæ sérleyfið. Félagið hefði getað borið lögmæti ákvörðunar undir dóm og eftir atvikum gildi þess að synja félaginu um sérleyfið og að veita það Ísafjarðarbæ. Verulegar líkur séu á því að ósk um að málið sætti flýtimeðferð hefði náð fram að ganga. Með þessu hefðu Ísferðir ehf. getað leitað raunhæfra réttarúrræða í samræmi við 60. gr. stjórnarskrár, teldi hann á rétt sinn hallað, og eftir atvikum komið í veg fyrir eða takmarkað verulega ætlað tjón sitt. Þessu til stuðnings vísi stefndi til hrd. 1996, bls. 3962 og hrd. 1994, bls. 79. Engum úrræðum í þessa veru hefði verið hreyft.

Stefnandi styðji kröfur sínar þeim rökum að með því að sérleyfi á umræddri leið hafi verið úthlutað til annars aðila hafi fótunum verið kippt undan rekstri fyrirtækisins. Ísferðir ehf. hafi haft með höndum alls kyns starfsemi á sviði ferðamála og fólksflutn­inga, þ.á m. sérleyfisakstur á Vestfjörðum á nokkrum leiðum. Fullyrðingu stefnanda um að fótum hafi verið kippt undan rekstri félagsins sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Félagið hefði meðal annars stundað rekstur á grund­velli sérleyfa, en þau séu alltaf tímabundin. Forráðamenn Ísferða ehf. hafi frá byrjun mátt gera ráð fyrir því að sérleyfin fengjust ekki endur­nýjuð, t.d. ef sveitarfélag óskaði eftir því að taka að sér reksturinn. Upplýst sé, meðal annars af viðtali við forsvarsmann félagsins í blaðinu Vestra 31. október 1996, að reksturinn á sérleyfinu hefði ekki gengið. Þá hafi legið fyrir, allt frá árinu 1995, að eitt af aðalmálum hins nýja sameinaða sveitarfélags væri að bæta almenningssam­göngur og að bæjaryfirvöld myndu taka þessa þjónustu í sínar hendur eftir sameiningu ef ekki semdist um annað. Ísferðir ehf. hefðu því haft sérstaka ástæðu til að fara sér hægt í fjárfestingum og ráðgera ekki aukin umsvif á sérleiðum við þessar aðstæður. Allar fjárfestingar hefðu verið á ábyrgð og áhættu félagsins. Ósannað sé að þær hafi á einhvern hátt verið sérstaklega bundnar við þessa tilteknu sérleið, en um það væru engin sönnunargögn.

Með 3. mgr. 8. gr. laga nr. 53/1987 hafi verið lögfest með hvaða hætti skyldi bæta sérleyfishafa þann kostnað sem hann hefði lagt út í vegna sérleiðar sem einkaleyfi væri veitt á. Ekkert annað yrði bætt, enda væri það óeðlilegt þegar litið sé til þess að sérleyfin væru tímabundin og því verði sérleyfishafar að haga rekstrinum miðað við þær forsendur. Lögin hefðu þannig sérstök úrræði vegna sérleyfishafa sem sættu því að sveitarfélag fengi einkaleyfi á tiltekinni leið.

Stefndi mótmæli því að upplýsingar frá Ísafjarðarbæ um greiðslur vegna aksturs almenningsvagna hefðu þýðingu í málinu. Að sama skapi sé áliti Gunnars Hjaltalín mótmælt enda órökstutt að Allrahanda/Ísferðir ehf. hafi orðið fyrir tjóni vegna rekstrartaps, þ.e. missis hagnaðar félagsins eða að líkur séu á að hann hefði orðið meiri. Niðurstöðu um ætlað tjón sé mótmælt sem rangri og þýðingar­lausri. Um sé að ræða einhliða mat, gert að beiðni forsvarsmanna Ísferða ehf. og reist á huglægum forsendum þeirra og óraun­hæfum væntingum, leiðsögn og lagatúlkun. Við vinnslu álitsins hefði stefndi ekki haft tækifæri til að tjá sig um þær forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar, aðferðafræði eða niðurstöðu. Fjallað sé um reksturinn allan, en ekki þá sérleið ein­göngu sem málið snúist um. Niðurstöðu þessarar álitsgerðar hafi verið hafnað af dóm­kvöddum matsmönnum, sérstaklega að því er varðar ætlaðan hagnaðar­missi. Hagn­aður hafi verið af starfseminni þegar félagið hafði ekki lengur sérleyfi fyrir umrædda leið og því sé fjarstæðukennt að ætla að tjón hafi orðið við að félagið fékk það ekki. Þessari niðurstöðu í álitinu hafi einnig verið hafnað með dómi Hæsta­réttar. Upplýsingar skorti til að unnt sé að staðhæfa að tjón hafi orðið vegna kröfu­­liðarins sem stefnandi setji fram sem missir framtíðarhagnaðar. Engu rekstrar­tjóni sé til að dreifa, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á það og sé ætluðu rekstar­tjóni mótmælt sem ósönnuðu. Rökstuðningur stefnanda fyrir kröfum í málinu sé villandi og málatilbúnaðurinn mótsagnakenndur.

Stefnandi hafi lagt fram ársreikninga sem gefi þó takmarkaða mynd af öðru en því að afkoma Ísferða ehf. virtist hafa batnað þegar félagið hafði ekki lengur með höndum akstur á leiðinni. Að öðru leyti væru ekki haldbær gögn til að byggja samanburð á og ganga úr skugga um hvort einhverjar afleiðingar hefðu orðið af því að Ísferðir ehf. fékk ekki hið umdeilda sérleyfi. Þá væru þessir þættir rökstuddir með því að sótt hefði verið um sérleyfið í öðrum tilgangi en það veitti heimild til, þ.e. til að styðja við önnur viðskipti sem féllu til yfir sumartímann og ekki féllu undir akstur á sérleyfum. Engin rök væru til að bæta tapaða hagnaðarvon vegna sérleyfis ef tilgangurinn var ekki sá að nýta það á þann hátt sem lög ráðgeri, en sérleyfi kalli einnig á skyldur samkvæmt lögum og reglugerð. Hafi tjónið verið í því fólgið að geta ekki notfært sér sérleyfi í auglýsingaskyni fyrir annars konar starfsemi þá sé það ekki afleiðing af því að Ísferðir ehf. fengu ekki sérleyfið eða a.m.k. svo fjarlægt að það geti ekki verið á ábyrgð stefnda eða notið réttarverndar skaðabótareglna.

Stefnandi hafi ekki lagt fram haldbær sönnunargögn um tjónið og hafi lýst því hversu erfitt sé að meta það. Þetta geti ekki skoðast öðruvísi en sterk vísbending um að engu tjóni sé fyrir að fara. Ekki væru tök á því að dæma bætur að álitum ef alls engin sönnun um tjón hefði komið fram.

Engin sundurgreining á rekstri eða afkomu á umræddri sérleið liggi fyrir nema að því leyti að afkoma Ísferða ehf. á Vestfjörðum hafi ekki orðið jákvæð fyrr en árið 1999 þegar fyrirtækið hafði hætt akstri á umræddri sérleið, eins og bent sé á í matsgerð. Því hafi ætíð verið haldið fram við ráðuneytið að rekstur þessarar leiðar hefði gengið fremur illa og raunar með tapi. Meðan stefnandi hafi aðeins upplýst um þetta að takmörkuðu leyti og dómkvaddir matsmenn hafi hafnað þessum lið sé ætluðu tjóni mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Ísferðir ehf. hljóti auk þess að hafa staðið jafnfætis öðrum þegar Ísafjarðar­bær bauð út aksturinn eftir að hafa fengið einkaleyfi. Félagið hefði því getað takmarkað tjón sitt. Það hafi gert tilboð sem ekki hafi verið tekið og sé ekki unnt að álykta annað en að það hafi ekki verið aðgengilegt og þar með á ábyrgð félagsins að það hélt ekki áfram akstrinum á leiðinni innan sveitar­félagsins. Þá sé einnig upplýst að Ísferðir ehf. hefðu hafnað boði bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um að það mætti aka í gegnum einka­leyfis­svæðið. Enn fremur komi fram í samningi Ísafjarðar­bæjar við undirverktaka sína að sérleyfishafar með akstur til og frá bænum með áætlanir á staði utan hans geti fengið heimild bæjarins til gegnumaksturs án samþykkis verktaka. Auk þessa hefði félagið haft önnur úrræði, svo sem hópferða­akstur, sem það hafi mátt stunda. Að öllu þessu virtu væru hverfandi líkur á að Ísferðir ehf. hefðu í raun orðið fyrir einhverju tjóni vegna athafna stefnda og hefði þar að auki getað takmarkað það með margvíslegum úrræðum í sínum rekstri.

Ekki sé vafi á lögmæti þess að Ísafjarðarbæ var veitt einkaleyfi til aksturs á umræddri leið í lok maí 1998. Samningur um akstur á leiðinni hefði því ekki átt að gilda lengur en til eins árs. Á engan hátt sé unnt að fullyrða eða leggja til grundvallar að Ísferðir hefðu átt að fá sérleyfi til fimm ára. Af þessu sé ljóst að Ísferðir ehf. hefðu ekki orðið fyrir neinu tjóni. Ekkert tjón geti hafa verið afleiðing af stjórnsýslu ráðuneytisins um að veita Ísafjarðarbæ sérleyfið, en ekki Ísferðum ehf., og ósannað að ákvörðun ráðherra hefði leitt til tjóns fyrir Ísferðir ehf.

Stefndi byggi varakröfu sína um stórfellda lækkun á öllum málsástæðum sem að framan greini og mótmælum. Einungis komi til álita tjón sem sé ótvírætt sannað sem afleiðing af athöfnum stefnda ef á bótaskyldu vegna þeirra yrði fallist.

Stefndi mótmæli einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma dráttar­vaxta, með vísan til 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú 9. gr. laga nr. 38/2000 og bráðabirgðaákvæði með þeim lögum. Engar forsendur hafi verið til að greiða bætur eða semja um þær. Dráttarvexti beri því í fyrsta lagi að dæma frá dóms­uppkvaðningu eða frá þeim tíma er matsgerð lá fyrir.

Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Verulegur hluti af mats­kostnaði hafi ekki komið að notum við úrlausn málsins og verði að taka tillit til þess við ákvörðun á því hvorum málsaðila verði gert að greiða hann. Málið hafi auk þess tekið langan tíma, en þar sé ekki við stefnda að sakast. Stefndi mótmæli því að hann hafi ýtt stefnanda út í málarekstur. Stefndi hafi ekki haft ástæðu til að greiða skaðabætur þar sem ennþá hefði ekkert tjón verið sannað.

Niðurstaða

Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum gert grein fyrir því á hvern hátt hann telur að tjón hafi orðið vegna hinnar ólögmætu málsmeðferðar samgönguráðuneytisins við úthlutun á sérleyfisleið á Vestfjörðum á árinu 1997. Aðalkrafa stefnanda í málinu er í tveimur liðum; annars vegar vegna tjóns, sem stefnandi telur að orðið hafi út af kostnaði af markaðssetningu, sem hafi átt að nýtast eftir 1997 en gerði ekki, og hins vegar vegna missis fram­­tíðar­­hagnaðar, allt vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar. Varakrafa stefnanda tekur aðeins til fyrri liðarins. Stefnandi hefur aflað gagna til sönnunar á tjóninu, þar á meðal mats­gerðar dóm­kvaddra matsmanna frá 20. desember 2009, eins og rakið er hér að framan. Af hálfu stefnanda hefur verið lagður nægilega skýr grundvöllur að málinu og þykir því ekki ástæða til að vísa því frá dómi samkvæmt 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Í matsgerðinni frá 20. desember 2009 er gerð grein fyrir þeim þáttum sem markaðs­setning Allrahanda/Ísferða ehf. tók til samkvæmt heimasíðu félagsins í september 2001. Gerð er grein fyrir aðferðum við matið til að finna þann kostnað sem þar falli undir. Í matinu segir að greina þurfi á milli þess kostnaðar sem varði umrædda sérleið og annarrar starf­semi fyrirtækisins. Gengið er út frá því að kostnaður vegna markaðs­starfs sé annars vegar fólginn í almennum rekstrarkostnaði og hins vegar í framlagi starfs­manna. Almennur rekstarkostnaður vegna Flateyrarstöðvar árið 1997 er til­greindur í nokkrum liðum. Markaðskostnaður er ekki sérstakur liður heldur fellur hann undir aðra kostnaðarliði. Metið er umfang markaðskostnaðar sem felur í sér langtímaávinning og reiknað er hlutfall kostnaðar af heildartekjum á árunum 1995 til 1997. Kostnaður er framreiknaður til þess dags er matið fór fram samkvæmt neyslu­verðsvísitölu og er að fjárhæð 308.801 króna. Einnig er í matinu tekið tillit til framlags starfsmanna til markaðsstarfa. Reiknað er með að helmingur kostnaðar sé í þágu langtímahagsmuna og að þrír fjórðuhlutar af kostnaði starfsem­innar á Vest­fjörðum sé vegna sérleiðarinnar sem um ræðir. Mat á framlagi starfs­manna til markaðs­starfs, framreiknað til þess dags er matið fór fram samkvæmt neyslu­verðs­vísitölu, er að fjárhæð 825.205 krónur. Tjónið er því metið samtals að fjárhæð 1.134.006 krónur og er vegna kostnaðar sem varð á árunum 1995 til 1997 en nýttist ekki eftir þann tíma, þ.e. eftir að hin ólögmæta ákvörðun var tekin, eins og hér hefur verið rakið. Matið þykir rökstutt með viðeigandi hætti og verður ekki séð að nokkrir gallar séu á því þannig að ekki verði unnt að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins. Þá verður að telja að stefnandi hafi sýnt nægilega fram á orsakasamband milli tjónsins, sem þannig hefur verið metið, og hinnar ólögmætu ákvörðunar sem er grund­völlur bótakröfunnar. Ekki er fallist á þær röksemdir stefnda að stefnandi hefði getað komið í veg fyrir tjónið eða að ákvæði þágildandi laga um skipulag með fólks­flutningum með langferðabifreiðum nr. 53/1987 komi í veg fyrir að skaða­bætur verði dæmdar í tilviki sem þessu að öðrum skilyrðum uppfylltum.  

Telja verður að stefnandi hafi með framangreindum röksemdum og gögnum fært fullnægjandi sönnur fyrir því að tjón hafi leitt af hinni ólögmætu ákvörðun samgöngu­ráðu­neytisins vegna markaðsstarfs, sem unnið var af hálfu fyrirtækisins á umræddum árum en nýttist ekki eftir 1997, og að það sé réttilega metið í framangreindri matsgerð, 1.134.006 krónur. Verður sá kröfuliður því tekinn til greina.

Rök stefnda fyrir því að tjón hefði orðið vegna missis framtíðarhagnaðar eru aðallega þau að gerðar hafi verið áætlanir um framtíðarhagnað af hálfu fyrirtækisins og að sveitarfélagið hefði greitt styrki vegna aksturs á umræddri leið sem fyrirtækið hefði orðið af. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að bætur vegna þessa ættu að vera annað hvort að fjárhæð 14.000.000 króna, samkvæmt mati Gunnars Hjaltalíns endur­skoðanda, eða að álitum. Með dómi Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 553/2005 er komið fram að matið virtist reist á ótraustum grunni og að sumu leyti á hæpnum forsendum. Með gögnum málsins, sem aflað hefur verið eftir þann tíma, hefur ekki verið bætt úr þessum ágöllum. Þá verður að telja grundvöll kröfunnar óskýran og rökstuðning fyrir henni óljósan. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi með málatil­búnaði sínum sýnt fram á að tjón hafi orðið vegna hinnar ólögmætu háttsemi sam­göngu­ráðuneytisins sem stefnandi krefst bóta fyrir í þessum lið kröfugerðarinnar. Krafa stefnanda verður því að þessu leyti ekki tekin til greina.

Af þessu leiðir að aðalkrafa stefnanda nær ekki fram að ganga en varakrafan, að fjárhæð 1.134.006 krónur, er tekin til greina.

Samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 bera skaðabóta­kröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi lagði sannanlega fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Fyrir gildistöku laganna, þ.e. fyrir 1. júní 2001, var í gildi sambærilegt ákvæði í 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Samkvæmt því og með vísan til þess að matsgerð kom ekki fram fyrr en 20. desember 2009, en þá fyrst lá fyrir ákveðin bótafjárhæð, ber að dæma dráttarvexti frá 20. janúar 2010 eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn samtals 2.000.000 króna.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefnda, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Iceland Excursions Allrahanda ehf., 1.134.006 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2010 til greiðsludags og 2.000.000 króna í máls­kostnað.