Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjöleignarhús
  • Lóðarréttindi
  • Aðför
  • Útburðargerð


Mánudaginn 19

 

Mánudaginn 19. mars 2007.

Nr. 123/2007.

Víkurvagnar ehf.

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Borgartúni 20 ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Kærumál. Fjöleignarhús. Lóðarréttindi. Aðför. Útburðargerð.

V ehf. leigði tvo séreignarhluta í iðnaðarhúsnæðinu D. Félagið kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist hafði verið á kröfu B ehf. um að fjarlægja skyldi með beinni aðfarargerð ýmsa hluti í eigu V ehf. af sameiginlegri lóð húsnæðisins. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið unnt að fullyrða að umgengni V ehf. á lóðinni væri með þeim hætti að brotið væri gegn þeim ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sem aðfararbeiðnin var reist á. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför bar því að hafna kröfu B ehf. um að aðfarargerðin færi fram.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2007, sem barst réttinum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fjarlægja skyldi með beinni aðfarargerð af sameiginlegri lóð fjöleignarhússins Dvergshöfða 27 í Reykjavík fleka, kerrur og vagna, samsetta og ósamsetta, í eigu sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu um aðfarargerð hafnað. Til vara krefst hann að úrskurðurinn nái ekki til hluta í eigu sóknaraðila, sem eru staðsettir á sex merktum bifreiðastæðum fyrir framan fimm iðnaðarhurðir á fyrstu hæð umræddrar fasteignar, sem er merkt sem eignarhluti nr. 0102. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er fasteignin Dvergshöfði 27 steinsteypt iðnaðarhúsnæði með fimm séreignarhlutum. Samkvæmt eignarskiptayfirlýsingu 18. september 1999 er fjórum þessara séreignarhluta lýst sem iðnaðarhúsnæði en þeir eru á fyrstu og annarri hæð húsnæðisins. Einn séreignarhluti er á þriðju hæð og er hann skilgreindur sem skrifstofur. Varnaraðili er eigandi tveggja séreignarhluta á annarri og þriðju hæð og er hlutdeild þeirra í sameign samtals 36,24%. Sóknaraðili leigir tvo séreignarhluta, sem eru báðir á fyrstu hæð, og er hlutdeild þeirra í sameign 47,18%. Fimmti séreignarhlutinn er í eigu annarra en aðila þessa máls. Er hlutdeild þeirra í sameigninni 16,58%.

Samkvæmt áðurnefndri eignarskiptayfirlýsingu er lóðin, sem húseignin stendur á, í óskiptri sameign eigenda hennar. Gert er ráð fyrir 41 bílastæði á lóðinni ásamt akstursleið um hana. Aðfararbeiðni varnaraðila er reist á því að sóknaraðili noti stóran hluta hinna sameiginlegu bílastæða undir geymslusvæði fyrir kerrur og vagna, sem sóknaraðili framleiðir. Þá sé rusl, flekar, bílhræ og ósamsettar kerrur og vagnar á víð og dreif um lóðina. Takmarki þetta verulega afnot varnaraðila, leigjenda hans og viðskiptavina af sameiginlegum bílastæðum, auk þess sem lóðin sé orðin „óþrifa- og ruslaraleg.“ Lagði varnaraðili fram nokkrar ljósmyndir máli sínu til stuðnings. Telur varnaraðili að með þessu hafi sóknaraðili brotið gegn 33. gr., 1. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 35. gr. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og helgað sér til einkanota hin sameiginlegu bílastæði. Ekki er hins vegar á því byggt að með ofangreindri nýtingu sameignarinnar hafi sóknaraðili brotið gegn 2. mgr. 35. gr. sömu laga, þar sem lagt er bann við því að eigendur og afnotahafar noti húsrými eða lóð til annars en það er ætlað. Í samræmi við 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, kemur því ekki til álita sú málsástæða, sem niðurstaða hins kærða úrskurðar virðist reist á, að sóknaraðila sé óheimilt að nota bílastæðin til annars en að þjóna umferð til og frá húsinu nema að fengnu samþykki allra eigenda þess.

Í greinargerð sóknaraðila í héraði mótmælir hann því að það ástand sé til staðar sem lýst er í aðfararbeiðninni. Hafi aðilar náð samkomulagi um tiltekt á lóðinni og sóknaraðili staðið við það samkomulag. Ekkert rusl, bílhræ eða flekar séu á lóðinni á hans vegum. Hlutum, sem sóknaraðila séu nauðsynlegir vegna þeirrar starfsemi sem hann reki og eðlilegt sé að hafa á lóðinni til skemmri tíma, hafi verið komið haganlega fyrir þannig að þeir hindri ekki umferð annarra um lóðina. Er þar lögð áhersla á að húseignin sé í iðnaðarhverfi og nýting sóknaraðila sé eðlileg í ljósi þeirrar starfsemi, sem hann sé með í húsnæðinu. Lagði hann fram ljósmyndir staðhæfingum sínum til stuðnings svo og yfirlýsingu 18. janúar 2007, sem er undirrituð af öðrum eiganda þess séreignarhluta, sem ekki er í eigu málsaðila. Kemur fram í yfirlýsingunni að á húsfundi 26. nóvember 2006 hafi verið munnlega samþykkt að sóknaraðili myndi laga til á lóðinni og að hann hafi staðið við það. Gerir eigandinn engar athugasemdir við núverandi nýtingu sóknaraðila á lóðinni. Óumdeilt er að samkomulag varð í húsfélaginu í október 2005 um að leigjendur varnaraðila mættu merkja sér 13 bílastæði.

Lög nr. 26/1994 gilda um umrætt húsnæði, sbr. 3. tölulið 2. mgr. 1. gr. laganna. Eigendum er þó heimilt að víkja frá fyrirmælum þeirra með samningum sín á milli, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laganna verður óskiptum bílastæðum ekki skipt nema eigendur samþykki og skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim þinglýst. Í III. kafla laganna er mælt nánar fyrir um réttindi og skyldur eigenda og afnotahafa í tengslum við hagnýtingu sameignar. Í 34. gr. laganna er kveðið á um að séreignareigandi hafi ásamt og í félagi með öðrum eigendum rétt til hagnýtingar þess hluta fjöleignarhúss sem er sameiginlegur, svo og sameiginlegrar lóðar og búnaðar. Nær réttur þessi til sameignarinnar í heild og takmarkast eingöngu af hagsmunum og jafnríkum rétti annarra eigenda. Fer þessi hagnýtingarréttur ekki eftir hlutfallstölum og hafa allir eigendur jafnan hagnýtingarrétt þótt hlutfallstölur séu misháar. Með 1. mgr. 35. gr. laga nr. 26/1994 er lögð sú skylda á eigendur og afnotahafa af séreignum í fjöleignarhúsum að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til annarra eigenda og afnotahafa við hagnýtingu sameignar og fara í hvívetna eftir löglegum reglum og ákvörðunum húsfélagsins varðandi afnot hennar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er eigendum og afnotahöfum skylt að ganga vel og þrifalega um sameiginlegt húsrými og lóð og gæta þess sérstaklega í umgengni sinni að valda ekki öðrum í húsinu óþægindum eða ónæði. Þá er í 4. mgr. ákvæðisins kveðið á um að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Í 36. gr. sömu laga segir ennfremur að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar. Getur hann ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.

Í ljósi samkomulags aðila um nýtingu lóðarinnar og framkvæmdir þar frá október 2005 og 26. nóvember 2006 og þeirra takmörkuðu gagna sem liggja fyrir um hvernig sóknaraðili hagar núna hagnýtingu sinni á hinum sameiginlegu bílastæðum við umrætt iðnaðarhúsnæði verður ekki fullyrt að umgengni hans sé með þeim hætti að brotið sé gegn ofangreindum ákvæðum laga nr. 26/1994. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 ber því að hafna kröfu varnaraðila um að hin umbeðna aðfargerð fari fram.

Rétt er í ljósi atvika, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Borgartúns 20 ehf., um að fjarlægja skuli með beinni aðfarargerð af sameiginlegri lóð fjöleignarhússins Dvergshöfða 27 í Reykjavík, fleka, kerrur og vagna, samsetta og ósamsetta, í eigu sóknaraðila, Víkurvagna ehf.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaðar fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007.

          Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. desember 2006, hefur Borgartún 20 ehf., Kríunesi 1, Garðabæ, krafist þess að fjarlægð verði með beinni aðfarargerð kerrur, vagnar, bílhræ, rusl, flekar o.fl. af sameiginlegri lóð fjöleignarhússins að Dvergshöfða 27, Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

          Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.

I.

          Málavextir

          Gerðarbeiðandi er eigandi að eignarhlutum 0201 og 0301 að Dvergshöfða 27, Reykjavík sem samtals eru 36,24% af heildareign. Gerðarþoli leigir allan neðsta hluta fasteignarinnar, nánar tiltekið eignarhluta 0101 og 0102, sem samtals eru 47,18% af heildareign.

          Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, dagsettri 18. september 1999, sem er á meðal gagna málsins er fasteignin Dvergshöfði 27, 3 hæða steinsteypt iðnaðarhús með 5 séreignarhlutum, 2 á 1. hæð (0101 og 0102), 2 á 2. hæð (0201 og 0202) og 1 séreignarhluta á 3. hæð (0301). Lóðin er í óskiptri sameign. Á henni eru samtals 41 bílastæði sem eru í hlutfallslegri og óskiptri sameign. Fram kemur að ekki sé leyfilegt að leggja bílum fyrir framan innkeyrsludyr á 1. hæð.

          Eigendur fasteignarinnar skipa stjórn húsfélags þess samkvæmt samþykkt sem gerð var á húsfundi 20. október 2005.

          Fyrir liggur að á lóðinni eru hlutir sem tilheyra gerðarþola og tengjast starfsemi hans. Gerðarbeiðandi er ósáttur við þessa hagnýtingu lóðar og telur hana ólögmæta. Skoraði hann á gerðarþola með bréfi, dagsettu 5. júlí 2006, að fjarlægja af lóðinni þessa hluti og koma henni í lögmætt horf en gerðarþoli varð ekki við þeirri beiðni.

          Hinn 20. september 2006 var boðað til húsfundar að beiðni gerðarbeiðanda. Á dagskrá fundarins var umræða um nýtingu sameiginlegra bílastæða og atkvæðagreiðsla um eftirfarandi tillögu:

          Skorað er á Spánís ehf. og fyrirsvarsmenn Víkurvagna ehf. að rýma sameiginlega lóð fjöleignahússins af rusli, varahlutum, geymsluhlutum, tilbúnum vögnum ofl. þess háttar sem ekki á heima á sameiginlegri lóð fjöleignahúss, sbr. nánari ákvæði laga um fjöleignahús varðandi nýtingu sameiginlegra bílastæða. Er þess krafist að það sé gert innan 10 daga frá fundi þessum.

          Í fundargerð kemur fram að til fundarins hafi verið boðað með ábyrgðarbréfi en af hálfu Spánís ehf. hafi ekki verið mætt. Þá kusu eigendur eignahluta 0202 að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um ofangreinda tillögu og lýstu því yfir að þau vildu leysa málið með samningum en ekki setja gerðarþola afarkosti. Kváðust þau nýta bílastæðin lítið sem ekkert og vildu því ekki blanda sér í deilur annarra. Þá er bókað að gerðarbeiðandi áskilji sér allan rétt til að sækja málið á öðrum vettvangi en hjá húsfélagi, enda virtust þrautreynd öll önnur ráð.

          Á meðal gagna málsins er yfirlýsing Hallgerðar Jónsdóttur, annars eiganda eignahluta 0202, dagsett 18. janúar 2007, þar sem hún kveðst ekki gera athugasemdir við núverandi nýtingu gerðarþola á lóðinni.

          Tvær aðrar fundargerðir eru á meðal gagna málsins. Annars vegar fundargerð frá 20. október 2005 en á meðal þess sem samþykkt var á þeim fundi var heimild til handa Dikta ehf., leigutaka gerðarbeiðanda, að merkja sér 13 bílastæði við norðurvegg. Hins vegar fundargerð frá 26. nóvember sl. en til umfjöllunar á þeim fundi var fyrirhuguð vinna á lóðinni. Samþykkt var að rífa vírnet og tréstaura í porti og skera burt ryðgaða járnstaura og járnhlið. Af hálfu gerðarþola var ekki mætt á þennan fund en upplýst er að hann hafi tekið þátt í þeirri vinnu sem hér um ræðir.

II.

          Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

          Að sögn gerðarbeiðanda nýtir gerðarþoli stóran hluta hinna sameiginlegu bílastæða sem geymslusvæði fyrir kerrur og vagna sem framleiddir eru á starfsstöð hans, auk þess sem á víð og dreif um lóðina sé rusl, flekar, bílhræ, ósamsettar kerrur og vagnar o.fl. Takmarki gerðarþoli með háttalagi sínu afnot gerðarbeiðanda, leigjenda hans og viðskiptavina af sameiginlegum bílastæðum.

          Gerðarbeiðandi vísar til 33. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús máli sínu til stuðnings en þar segir að bílastæði á lóð fjöleignarhúss séu sameiginleg og óskipt nema annað sé ákveðið í þinglýstum heimildum. Verður óskiptum bílastæðum ekki skipt nema allir eigendur samþykki og skuli þá gerðar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim breytingum þinglýst.

          Samkvæmt 35. gr. laganna beri sérhverjum eiganda og afnotahafa skylda til að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til annarra eigenda og afnotahafa við nýtingu sameignar. Jafnframt beri þeim skylda til að ganga vel og þrifalega um sameiginlegt húsrými og lóð, sem og um sameiginlegan búnað hússins og gæta þess í umgengni sinni að valda ekki öðrum í húsinu óþægindum eða ónæði. Einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur samþykki.

          Samkvæmt 36. gr. laganna sé eiganda óheimilt að helga sér til einkanota hluta sameignar, auk þess sem eigandi geti ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.

          Með framferði sínu hafi gerðarþoli brotið gegn fyrrgreindum lagagreinum og helgað sér til einkanota sameiginlegt bílastæði fjöleignarhússins. Hafi gerðarþoli með því gengið á rétt gerðarbeiðanda og valdið honum tjóni, m.a. þannig að leigjendur hafi kvartað og sagt upp leigusamningi. Aðkoma að húsinu sé í umræddu bílastæðaporti, en þar sé nú lítið af nothæfum bílastæðum, auk þess sem sjónmengun sé mikil. Gerðarbeiðandi telji að gerðarþoli brjóti verulega á rétti hans til hagnýtingar á sameiginlegum bílastæðum, auk þess sem afnot gerðarþola af sameigninni hafi valdið gerðarbeiðanda verulegu fjárhagslegu tjóni, sem eigi að hans mati aðeins eftir að aukast.

          Í ljósi þess að leigjendur að rými gerðarbeiðanda hafi þegar yfirgefið það hafi gerðarbeiðandi sýnt nokkrum áhugasömum aðilum fasteignina til útleigu. Hafi þeir allir borið fyrir sig að þeir vilji ekki leigja eignina vegna ástands lóðarinnar enda ekki talið unnt að reka viðskipti undir slíkum kringumstæðum.

          Gerðarbeiðandi hafi ítrekað reynt að leysa málið með samningum og m.a. sent bréf til gerðarþola og leigusala hans, auk þess sem boðað hafi verið til húsfundar vegna málsins. Þar hafi hvorki leigutaki né eigendur mætt þrátt fyrir löglega boðun.

           Varðandi heimild til beinnar aðfarargerðar er vísað til 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 72. gr. sömu laga.

          Málsástæður og lagarök gerðarþola

          Gerðarþoli kveðst leigja undir starfsemi sína allan neðsta hluta fasteignarinnar að Dvergshöfða 27, merktan 0101 og 0102.  Á eignarhlutanum séu 7 iðnaðarhurðir. Vegna starfsemi sinnar kveðst gerðarþoli nýta sér pláss fyrir framan þessar dyr til að koma fyrir kerrum eða vögnum, ýmist fullkláruðum eða í smíðum svo og efnishlutum í þessa framleiðslu. Hafi hann gert svo frá upphafi, líkt og tíðkast hafi hjá forvera gerðarþola í húsnæðinu. Hafi gerðarbeiðandi einn gert athugasemdir við nýtingu þessa en gerðarþoli telur hana eðlilega enda um að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem framleiðsla eigi sér stað. Þá tíðkist nýting sem þessi í iðnaðarhverfinu.

          Skömmu eftir að gerðarbeiðandi hafi keypt efri hluta fasteignarinnar að Dvergs­höfða 27 hafi aðilar málsins og eigendur eignarhluta 0202 gert með sér samkomulag um að gerðarbeiðandi fengi einn til afnota 13 bílastæði með fram norðurvegg geymslu­svæðisins. Á móti hafi gerðarbeiðandi ekki gert athugasemdir um nýtingu gerðar­þola á geymslusvæðinu að öðru leyti. Þrátt fyrir þetta hafi gerðarbeiðandi haldið áfram að gera athugasemdir við gerðarþola. Haldinn hafi verið fundur síðastliðið sumar en leigusali gerðarþola ekki mætt á þann fund. Á þeim fundi hafi gerðar­beiðandi lagt fram áskorun til gerðarþola um rýmingu svæðisins en sú tillaga hafi ekki verið samþykkt. Annar fundur hafi verið haldinn þann 26. nóvember 2006. Þar hafi verið samþykkt að gerðarþoli myndi laga til á svæðinu. Gerðarþoli kveðst strax hafa hafið tiltekt auk þess sem hann hafi fjarlægt járnavirki. Hafi því verki lokið milli jóla og nýárs. Ekkert rusl, bílhræ eða flekar séu nú á svæðinu heldur eingöngu þeir hlutir sem tengist starfsemi gerðarþola. Hindri þeir ekki umferð um lóðina og hafi gerðarþoli þannig staðið við samkomulagið. Því sé ekki til staðar það ástand sem gerðarbeiðandi lýsi í aðfararbeiðni.

          Þá mótmælir gerðarþoli fullyrðingu gerðarbeiðanda um að notkun hans á lóðinni hafi orðið þess valdandi að gerðarbeiðandi hafi ekki getað leigt út fasteign sína.  

III.

Niðurstaða

          Úrlausnarefni málsins lýtur að því hvort gerðarþoli brjóti gegn skýrum rétti gerðarbeiðanda á þann hátt að skilyrði beinnar aðfarargerðar skv. 12. kafla laga nr. 90/1989 teljist uppfyllt.

          Fyrir liggur að gerðarþoli hagnýtir hluta bílastæða á lóð iðnaðarhúsnæðisins að Dvergshöfða 27, sem geymslusvæði í tengslum við atvinnustarfsemi sína. Greinir gerðarþola og gerðarbeiðanda á um það hvort honum sé það heimilt.

          Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var að ósk gerðarbeiðanda haldinn húsfundur hinn 20. september 2006 um ágreining aðila. Ekki reyndist samstaða á meðal eigenda um að grípa til aðgerða gegn gerðarþola þá þegar en á fundinum kom fram skýr afstaða gerðarbeiðanda um notkun bílastæðanna. Í kjölfar húsfundar hinn 26. nóvember sl. réðust eigendur í lóðarhreinsun. Það sameiginlega verkefni verður þó með engum hætti tengt ágreiningsmáli þessu eins og gerðarþoli heldur fram.

             Um réttarsamband eigenda iðnaðarhúsnæðisins að Dvergshöfða 27 fer eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús, sbr. 2. tl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994. Í lögunum er að finna skýr ákvæði um bílastæði á lóð fjöleignarhúsa en samkvæmt 33. gr. laganna eru þau í sameign og óskipt nema allir eigendur samþykki annað fyrirkomulag. Í fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsingu er byggt á þessari meginreglu og eru bílastæði á lóð húseignarinnar því í óskiptri sameign að undanskildum þeim 13 bílastæðum sem samþykkt var að skyldu fylgja eignarhluta gerðarbeiðanda.  Samþykki allra eigenda þarf fyrir auknum rétti eins sameiganda skv. 4. mgr. 35. gr. laganna.  Þá er þetta enn frekar áréttað í 1. mgr. 36. gr. laganna, að eiganda sé óheimilt að helga sér til einkanota tiltekna hluta sameignar og öðlast hann ekki sérstakan afnotarétt á grundvelli hefðar.  

          Bílastæði eru eðli máls samkvæmt ætluð til að þjóna umferð til og frá viðkomandi húsi. Óumdeilt er hins vegar að gerðarþoli notar allmörg bílastæði fyrir framleiðslu sína og aðra hluti henni tengdri.

          Í málinu liggur hvorki fyrir lögformlegt samþykki allra eigenda fjöleignarhússins fyrir skiptingu bílastæða gerðarþola til handa né samþykki fyrir rétti hans til hagnýtingar þeirra með þeim hætti sem raun ber vitni. Stoðar gerðarþola því eigi að bera fyrir sig yfirlýsingu annars eigenda eignarhluta 0202 um að hann láti hagnýtingu þessa afskiptalausa.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ljóst að gerðarþoli hefur með hagnýtingu sinni á þeim hluta lóðar fjöleignarhússins, sem sérstaklega er ætlaður fyrir bílastæði, brotið gegn skýrum og ótvíræðum rétti gerðarbeiðanda.

                    Gerðarbeiðandi krefst þess að fjarlægð verði kerrur, vagnar, bílhræ, rusl, flekar o.fl. af sameiginlegri lóð fjöleignarhússins að Dvergshöfða 27, Reykjavík. Í kröfugerð er ekki tekið fram að hlutir þessir séu í eigu Víkurvagna ehf. og þeir tengist rekstri fyrirtækisins. Hins vegar er ekki ágreiningur með aðilum um að kerrur og vagnar í eigu gerðarþola, bæði samsettar og ósamsettar, og fleiri hlutir sem tengjast rekstri hans, svo sem flekar, séu geymdir á sameiginlegri lóð þeirra, enda hafa mótmæli gerðarþola einskorðast við þá hluti. Verður því kröfugerðin talin nægilega skýr að þessu leyti. Gerðin getur hins vegar ekki beinst að „rusli og fleiru“, eins og í aðfararbeiðni segir. Upplýst var við flutning málsins að bílhræ á lóðinni er ekki í eigu gerðarþola og var því ekki mótmælt af gerðarbeiðanda sem röngu.  Verður því fallist á kröfu gerðarbeiðanda um beina aðfarargerð svo sem segir nánar í úrskurðarorði.

          Vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 er ekki ástæða til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

          Eftir niðurstöðu málsins verður gerðarþoli dæmdur til að greiða gerðarbeiðanda 150.000 krónur í málskostnað.

          Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Fjarlægja skal með beinni aðfarargerð af sameiginlegri lóð fjöleignarhússins Dvergshöfða 27, Reykjavík, fleka, kerrur og vagna, samsettar og ósamsettar, í eigu Víkurvagna ehf.

             Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda, Borgartúni 20 ehf., 150.000 krónur í málskostnað.