Hæstiréttur íslands
Mál nr. 751/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Lánssamningur
- Sjálfskuldarábyrgð
- Kröfugerð
- Aðild
- Vextir
|
|
Föstudaginn 4. desember 2015. |
|
Nr. 751/2015.
|
Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) gegn Jóhönnu Meyer Birgisdóttur Aðalheiði Birgisdóttur Önnu Dögg Einarsdóttur Bergþóru Birgisdóttur og Val Mörk Einarssyni (Jón Magnússon hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Lánssamningur. Sjálfskuldarábyrgð. Kröfugerð. Aðild. Vextir.
Í málinu var deilt um hvort J o.fl. sem erfingjar SM, en dánarbúi hennar hafði verið skipt einkaskiptum, bæru gagnvart L ábyrgð á skuldbindingum hennar sem sjálfskuldarábyrgðarmanns á námslánum KTB. Meðal annars með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var varakröfu L gegn BB vísað frá héraðsdómi, þar sem L hafði ekki tilgreint nafn hennar í kröfu sinni. Hæstiréttur féllst ekki á kröfu L um að ómerkja bæri hinn kærða úrskurð á þeim grundvelli að héraðsdómi hafi verið óheimilt að fara með mál þetta eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Var litið til þess að L hefði hvorki mótmælt því að dómurinn veitti J o.fl. greinargerðarfrest við fyrstu fyrirtöku málsins né krafist úrskurðar um þetta atriði svo sem honum hefði verið unnt. Þá var ekki talið að J o.fl. hefðu sýnt fram á að stjórnsýsluframkvæmd hefði verið til staðar hjá L um að láta hjá líða að innheimta námslán eftir andlát ábyrgðarmanns og að henni hefði verið breytt á óheimilan hátt. Reynt hefði á sama álitaefni í dómi Hæstaréttar í máli nr. 229/2015 og gæfu hvorki atvik né gögn þessa máls tilefni til þess að komast að annarri niðurstöðu. Með vísan til sama hæstaréttardóms var jafnframt hafnað málsástæðum J o.fl. sem lutu annars vegar að því að vanræksla L á tilkynningarskyldu gagnvart þeim hefði átt að leiða til niðurfellingar ábyrgðar og hins vegar að beita ætti reglu 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með lögjöfnun þannig að ákvæðið tæki einnig til andláts ábyrgðarmanns. Hæstiréttur hafnaði einnig þeirri málsástæðu J o.fl. að krafa L væri fallin niður fyrir fyrningu. Vísað var til þess að krafa samkvæmt dómi fyrndist á 10 árum frá dómsuppsögu, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og að J o.fl. hefðu tekið að sér sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum SM, sbr. 5. tölulið 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fjárkrafa L væri byggð á héraðsdómi frá desember 2005 og væri um að ræða sömu kröfu og stofnaðist gegn SM. Af þeim sökum hafi fyrningarfrestur kröfunnar byrjað að líða frá uppkvaðningu dómsins og krafa L verið ófyrnd þegar hann lagði fram aðfararbeiðni sína í febrúar 2015. Þá var ekki talið að krafa L væri fallin niður sökum tómlætis. Loks féllst Hæstiréttur á þá málsástæðu J o.fl. að L gæti ekki krafist frekari dráttarvaxta en leiddi af úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna 4. mars 2015. Samkvæmt framansögðu var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og fallist á kröfu L, að því undanskildu að upphafstími dráttarvaxta miðaðist við 11. ágúst 2014 í staðinn fyrir 8. febrúar 2011, eins og krafist var.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2015 þar sem kröfu sóknaraðila um að fjárnám yrði gert hjá varnaraðilum var hafnað. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst aðallega ómerkingar hins kærða úrskurðar, en til vara „að viðurkennt verði að aðför megi framkvæma samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila ... á hendur varnaraðilum Jóhönnu Meyer Birgisdóttur, Aðalheiði Birgisdóttur, Önnu Dögg Einarsdóttur og Val Mörk Einarssyni“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara „að kröfufjárhæð sóknaraðila verði lækkuð.“ Í báðum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
I
Með bréfi sóknaraðila til Hæstaréttar 25. nóvember 2015 sagði að láðst hefði að tilgreina nafn varnaraðilans Bergþóru Birgisdóttur í fyrrgreindri varakröfu hans og teldi hann „að um augljósa ritvillu sé að ræða sem heimilt sé að leiðrétta skv. lögjöfnun frá 3. tl. 116. gr. l. nr. 19/1991“. Varnaraðilinn hefur hafnað því að umrædd krafa sóknaraðila verði tekin til greina.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, skal í kæru til Hæstaréttar greina kröfu um breytingu á dómsathöfn sem kærð er. Í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sem gildir um meðferð kærumála hér fyrir dómi eftir því sem við á, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 1. mgr. 163. gr. laganna, segir að dómari megi ekki fara út fyrir kröfur aðila í dómi sínum nema um sé að ræða atriði sem honum ber að gæta af sjálfsdáðum. Kröfu sem ekki komi fram í stefnu skuli vísað frá dómi nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Samkvæmt því og að teknu tilliti til þess að varnaraðilinn Bergþóra hefur hafnað því að framangreind krafa sóknaraðila á hendur henni komist að í máli þessu verður kröfunni vísað frá Hæstarétti.
II
Fjárkrafa sóknaraðila, sem hann hefur krafist fjárnáms fyrir hjá varnaraðilum, á rætur að rekja til sjálfskuldarábyrgðar Stefaníu Magnúsdóttur vegna láns sem sóknaraðili veitti syni hennar, Karli Thorberg Birgissyni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005 voru Stefanía og Karl meðal annarra dæmd til þess að greiða sóknaraðila óskipt 1.218.119 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum, auk þess sem þeim var gert að greiða 160.000 krónur í málskostnað. Stefanía lést 11. september 2007. Erfingjar hennar, þeirra á meðal varnaraðilar, fengu leyfi sýslumanns til einkaskipta á dánarbúi hennar 25. sama mánaðar og lauk skiptum búsins 15. febrúar 2008 með því að erfingjarnir lýstu því yfir að þeir tækjust á hendur greiðslu allra skulda búsins.
Ekki verður séð af gögnum málsins að sóknaraðili hafi í kjölfar dómsins gert reka að kröfu sinni gagnvart Stefaníu eða erfingjum hennar fyrr en með innheimtubréfum til varnaraðila 28. júlí 2014. Varnaraðilar töldu kröfu sóknaraðila skorta lagastoð og sendu erindi til stjórnar sóknaraðila 2. september sama ár þar sem þau fóru fram á að krafan yrði felld niður. Stjórnin hafnaði beiðni þeirra og var sú ákvörðun tilkynnt þeim með bréfi 26. sama mánaðar. Hinn 9. október 2014 kærðu varnaraðilar þá ákvörðun til málskotsnefndar sem starfar á grundvelli 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með úrskurði nefndarinnar 4. mars 2015 var ákvörðun sóknaraðila staðfest, en í forsendum úrskurðarins kom fram að við útreikning kröfu sóknaraðila yrði að taka mið af 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í umræddu ákvæði kemur fram að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Að mati nefndarinnar var það fyrst eftir móttöku innheimtubréfanna 28. júlí 2014 sem varnaraðilum var sannanlega gefinn kostur á að greiða skuld Stefaníu heitinnar.
Með aðfararbeiðni 8. febrúar 2015 krafðist sóknaraðili þess að gert yrði fjárnám hjá varnaraðilum til tryggingar áðurnefndri dómskuld með dráttarvöxtum frá 8. febrúar 2011 ásamt áföllnum kostnaði.
III
Sóknaraðili krefst ómerkingar hins kærða úrskurðar á þeim grundvelli að héraðsdómara hafi verið óheimilt að fara með mál þetta eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989 þar sem skilyrði 1. mgr. 14. gr. laganna til þess að tilkynna varnaraðilum um framkomna aðfararbeiðni hafi ekki verið uppfyllt.
Aðfararbeiðni sóknaraðila var réttilega send héraðsdómi samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. 3. gr. þeirra. Þar sem sóknaraðili hafði ekki óskað eftir því að varnaraðilar yrðu kvaddir fyrir dóm og ekki verður séð af gögnum málsins að þeir hafi áður tilkynnt héraðsdómara að þeir hefðu andmæli fram að færa gegn kröfu sóknaraðila sýnist ekki hafa verið þörf á að kveðja þá fyrir dóm, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Engu að síður liggur fyrir að dómarinn boðaði málsaðila til þinghalds 14. apríl 2015 þar sem aðfararbeiðnin var tekin fyrir. Í þinghaldinu óskuðu varnaraðilar eftir fresti til að skila greinargerð og ákvað dómarinn að veita þeim fjögurra vikna frest til þess. Sóknaraðili mótmælti frestbeiðni varnaraðila, en ekki var bókað í þingbók á hvaða grundvelli það hafi verið gert. Þá krafðist sóknaraðili ekki úrskurðar um þetta atriði, svo sem honum hefði verið unnt samkvæmt 2. mgr. 112. gr. og h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Það var fyrst í þinghaldi 13. maí 2015 að sóknaraðili lét færa til bókar athugasemdir við málsmeðferð héraðsdómara.
Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til og verður jafnframt með vísan til meginreglu einkamálaréttarfars um afdráttarlausa málsmeðferð að gera þá kröfu að þeim sé fylgt eftir án ástæðulauss dráttar. Að teknu tilliti til þess verður ómerkingarkröfu sóknaraðila hafnað.
IV
Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi með ólögmætum hætti breytt stjórnsýsluframkvæmd við innheimtu lána gegn erfingjum ábyrgðarmanns, en þeir telja að sóknaraðili hafi um árabil látið vera að ganga að erfingjum hafi dánarbúi verið skipt einkaskiptum. Í dómi Hæstaréttar 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015 reyndi á þetta sama álitaefni og var þar talið ósannað að slík framkvæmd hafi mótast hjá sóknaraðila. Hvorki atvik þessa máls né þau gögn, sem varnaraðilar hafa lagt fram, gefa tilefni til að komast að annarri niðurstöðu hér. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu þeirra. Með vísan til sama hæstaréttardóms verður jafnframt hafnað málsástæðum varnaraðila sem lúta að því annars vegar að vanræksla sóknaraðila á tilkynningarskyldu gagnvart þeim hafi átt að leiða til niðurfellingar ábyrgðarinnar og hins vegar að beita eigi reglu 4. mgr. 9. laga nr. 21/1992 með lögjöfnun þannig að ákvæðið taki einnig til andláts ábyrgðarmanns.
Varnaraðilar halda því enn fremur fram að krafa sóknaraðila sé fallin niður fyrir fyrningu. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007, fyrnast kröfur samkvæmt dómi á 10 árum, en fyrningarfrestur slíkra dómkrafna reiknast frá dómsuppsögu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt 5. tölulið 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. felst í leyfi til einkaskipta að erfingjar taka að sér sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu. Gildir þetta án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um kröfurnar þegar skiptum var lokið, sbr. 97. gr. sömu laga. Fjárkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðilum er byggð á áðurnefndum héraðsdómi 21. desember 2005, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Hér er því um að ræða sömu kröfu og stofnaðist gegn Stefaníu Magnúsdóttur. Af þeim sökum byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar að líða við uppkvaðningu dómsins og var hún þar með ófyrnd þegar sóknaraðili lagði fram aðfararbeiðni sína 8. febrúar 2015.
Þá verður ekki fallist á með varnaraðilum að krafa sóknaraðila sé fallin niður sökum tómlætis, enda verður ekki gerð sú krafa til sóknaraðila að hann geri frekari reka að kröfu sinni eftir að hann hefur fengið dóm fyrir henni.
Loks halda varnaraðilar því fram að sóknaraðili geti ekki krafist frekari dráttarvaxta en leiði af fyrrgreindum úrskurði málskotsnefndarinnar. Eins og áður er rakið gerir sóknaraðili í aðfararbeiðni sinni kröfu um dráttarvexti frá 8. febrúar 2011 til greiðsludags. Í forsendum úrskurðar nefndarinnar var aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila bæri að taka mið af 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 við innheimtu kröfunnar þannig að ekki skyldi krefja varnaraðila um dráttarvexti fyrr en tveimur vikum eftir að þeim var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins sem hafi verið 28. júlí 2014. Þar sem sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að úrskurðurinn sé haldinn neinum annmörkum að þessu leyti verður fallist á kröfu varnaraðila um að upphafstími dráttarvaxta skuli miðast við 11. ágúst sama ár.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og fallist á beiðni sóknaraðila um að fjárnám megi gera samkvæmt henni hjá öðrum varnaraðilum en Bergþóru Birgisdóttur, þó þannig að dráttarvextir af höfuðstól fjárkröfu hans reiknist frá 11. ágúst 2014.
Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður, að öðru leyti en því að sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum Bergþóru Birgisdóttur 250.000 krónur í kærumálskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og og fallist á beiðni sóknaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um að fjárnám megi gera samkvæmt henni hjá varnaraðilunum Jóhönnu Meyer Birgisdóttur, Aðalheiði Birgisdóttur, Önnu Dögg Einarsdóttur og Val Mörk Einarssyni fyrir 1.218.119 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2014 til greiðsludags, 160.000 krónum í málskostnað samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005 í máli nr. E-5896/2005 og 5.960 krónum í kostnað vegna innheimtuviðvörunar.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Bergþóru Birgisdóttur 250.000 krónur í kærumálskostnað, en kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2015.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 15. september sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni, sem móttekin var 11. febrúar sl.
Sóknaraðili er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík.
Varnaraðilar eru Jóhanna Meyer Birgisdóttir, Grönbyvägen 332, Anderslöv, Svíþjóð, Aðalheiður Birgisdóttir, Öldugötu 34, Reykjavík, Anna Dögg Einarsdóttir, Dronningsgade 12A, Odense C, Danmörku, Bergþóra Birgisdóttir, Steinum 3, Djúpavogi, og Valur Mörk Einarsson, Vörðutúni 6, Akureyri.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð á hendur varnaraðilum megi fara fram samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila, dagsettri 8. febrúar 2015. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, auk þess sem krafist er málskostnaðar.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir að Karl Thorberg Birgisson, tók námslán hjá sóknaraðila málsins, Lánasjóði íslenskra námsmanna, með skuldabréfum sem gefin voru út árin 1983-1986. Að námi loknu voru veitt námslán sameinuð og gefið sameiginlegt númer, S-891122. Vegna vanskila var lánið gjaldfellt samkvæmt heimild í 11. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með ákvörðun stjórnar sjóðsins 3. maí 2005. Í kjölfarið var aðalskuldara lánsins stefnt til greiðslu þess ásamt ábyrgðarmönnum þess, Stefaníu Magnúsdóttur, varnaraðilanum Aðalheiði Birgisdóttur og Björn Levi Birgissyni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 21. desember 2005 voru stefndu dæmd til að greiða kröfuna eftir þeim hlutföllum sem þau voru í ábyrgð fyrir. Þannig var Stefanía Magnúsdóttir dæmd til að greiða óskipt 5,48% skuldarinnar með Karli Thorberg, eða 1.218.119 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Stefanía lést 11. september 2007. Mun erfingjum hennar hafa verið veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar 15. febrúar 2008 og lauk skiptum sama dag.
Með innheimtubréfi frá sóknaraðila til varnaraðila, dagsettu 28. júlí 2014, voru þeir krafðir um greiðslu skuldar Stefaníu heitinnar sem nam þá með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði, 2.381.857 krónum. Með bréfi lögmanns varnaraðilanna Jóhönnu, Önnu Daggar, Bergþóru og Vals, dagsettu 2. september s.á. til stjórnar sóknaraðila, var þess krafist að krafan yrði felld niður. Byggðu varnaraðilar á því að krafan væri fyrnd, að beita ætti 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, um niðurfellingu endurgreiðslna sem falli í gjalddaga eftir andlát lánþega, með lögjöfnun um ábyrgðarmenn lántaka, að áralangri stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila um innheimtu á hendur erfingjum ábyrgðamanna hefði verið breytt með afturvirkum og íþyngjandi hætti gagnvart þeim og að sóknaraðili hefði sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki tilkynnt varnaraðilum um kröfuna strax í febrúar 2008. Með ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 26. september s.á., var kröfum varnaraðila hafnað. Vísað var til þess að krafa sóknaraðila væri dæmd krafa og að varnaraðilar hefðu tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum sem hvíldu á dánarbúinu, sbr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Ættu því lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn ekki við um kröfu sóknaraðila á hendur erfingjum Stefaníu. Enn fremur var vísað til þess að krafan væri ekki fyrnd. Tekið var fram að af framangreindu leiddi að ekki væri ástæða til að fjalla um málsástæður varnaraðila um lögjöfnun og afturvirka stjórnsýsluframkvæmd. Sömu varnaraðilar kærðu ákvörðun stjórnar sóknaraðila til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem staðfesti ákvörðun stjórnarinnar með úrskurði, dagsettum 26. september 2014. Hins vegar tiltók nefndin í niðurstöðum sínum að útreikningur kröfu sóknaraðila skyldi taka mið af því að það hafi verið fyrst með bréfi hans dagsettu 27. júlí 2014 að varnaraðilum hafi sannanlega verið gefinn kostur á því að greiða skuld hinnar látnu, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Með aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettri 8. febrúar 2015, óskaði sóknaraðili síðan eftir því að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila á grundvelli fyrrnefnds dóms frá 2005 með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 89/1990 um aðför og 4. tl. 11. gr. sömu laga. Boðaði dómari sóknaraðila og varnaraðila til þinghalds. Varnaraðilar sóttu þing og tóku til varna. Í framhaldi af því var farið með málið skv. 13. kafla nefndra laga. Undir rekstri málsins kröfðust varnaraðilar þess að heimilaðar yrðu vitnaleiðslur í því skyni að varpa ljósi á stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila um innheimtu á hendur erfingjum ábyrgðamanna. Þeirri kröfu, sem var mótmælt af hálfu sóknaraðila, var hafnað með úrskurði dómsins uppkveðnum 16. júní sl. með vísan til þess að skv. síðari málslið 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 skulu mats- og skoðunargerðir og vitnaleiðslur að jafnaði ekki fara fram þegar mál er rekið eftir 13. kafla laganna.
III
Helstu málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila eru gerðar athugasemdir við meðferð dómsins á aðfararbeiðni og vísað til þess að samkvæmt 12. gr. og 13. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sé almennt ekki gert ráð fyrir tilkynningum til gerðarþola eða nærveru hans, nema krafist sé útburðar- eða innsetningargerðar án undanfarins dóms eða sáttar. Athugun dómara á aðfararbeiðni eigi fyrst og fremst að beinast að formhlið málsins og samkvæmt 3. mgr. 13. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 sé heimild fyrir héraðsdómara að gefa gerðarbeiðanda kost á því að bæta úr annmörkum, áður en aðfararbeiðni sé hafnað að öllu eða hluta.
Sóknaraðili vísar til þess að um sameiginlega ábyrgð varnaraðila sé að ræða og þriðja manns loforð í þágu sóknaraðila. Fyrir liggi dómur á hendur Stefaníu Magnúsdóttur sem nú sé látin og hafi erfingjar hennar fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar. Þá hafi varnaraðilar tekið á sig með yfirlýsingu sameiginlega ábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins, þ.m.t. kröfu gerðarbeiðanda, sem sé lögbundin samkvæmt 28. gr. og 97. gr. laga nr. 20/1991. Hin sameiginlega ábyrgð sé að öllu leyti ótakmörkuð enda standi sameiginlega ábyrgð þeirra á skuldbindingum dánarbúsins áfram eftir lok einkaskipta. Skilyrðislaust þriðja manns loforð varnaraðila um að greiða kröfu sóknaraðila á hendur dánarbúinu standi svo lengi sem krafa sóknaraðila á hendur hinni látnu sé ekki fyrnd. Einkaskiptum á dánarbúi Stefaníu heitinnar hafi lokið 15. febrúar 2008 með erfðafjárskýrslu og hafi eignir verið í búinu til skipta.
Sóknaraðili mótmælir staðhæfingum varnaraðila þess efnis að verklagsreglum sóknaraðila hafi verið breytt á árinu 2012 í þá veru að fyrst þá hafi verið ákveðið að innheimta þriðja manns loforð erfingja látinna ábyrgðarmanna sem skiptu dánarbúi þeirra einkaskiptum. Úthlutunarreglur sóknaraðila fyrir hvert skólaár séu samþykktar í stjórn sóknaraðila og staðfestar af ráðherra. Úthlutunarreglur áranna 1999-2015 hafi allar að geyma svohljóðandi skilmála: „Látist ábyrgðarmaður getur lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir ofangreind skilyrði en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins“. Sambærilegar upplýsingar sé að finna á heimasíðu sóknaraðila. Þá vísar sóknaraðili til þess sem fram komi í tölvupósti Guðrúnar M. Eysteinsdóttur hdl., til framkvæmdastjóra sóknaraðila frá 23. janúar 2015 ásamt minnisblaði Sigurbjörns Magnússonar hrl. frá 17. janúar 1997 til gerðarbeiðanda um „Yfirlit yfir stöðu ábyrgðarmanna á námslánum skv. lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna“. Sóknaraðili bendir á að einungis stjórn hans sé til þess bær að taka ákvarðanir af þeim toga sem varnaraðilar staðhæfi að teknar hafi verið. Farið hafi verið yfir fundargerðir stjórnar sóknaraðila frá árinu 2012 og í ljós kom að á fundi stjórnar sóknaraðila 12. janúar 2012 hafi verið ákveðið að lýsa ekki kröfu í dánarbú ábyrgðarmanna ef námslán væru í skilum. Þessi samþykkt hafi átt sér forsögu í samþykkt fundar stjórnar sóknaraðila hinn 17. nóvember 2011 og af þeirri fundargerð megi ráða að verið sé að fjalla um dánarbú í opinberum skiptum og hvort gjaldfella ætti lán í skilum af því tilefni. Stjórn sóknaraðila hafi engar aðrar ákvarðanir tekið á árinu 2012 um innheimtu vegna andláts ábyrgðarmanna.
Helstu málsástæður varnaraðila
Varnaraðilar byggja á því að krafa sóknaraðila sé fyrnd. Vísa þeir til þess að upphafleg sjálfskuldarábyrgð Stefaníu Magnúsdóttur vegna námslánanna hafi verið stofnuð með undirritun hennar á áður tilgreind skuldabréf vegna námslána Karls Th. Birgissonar árið 1985. Fljótlega eftir að krafan gjaldféll hafi hún farið í vanskil. Hinn 21. desember 2005 hafi síðan fallið dómur vegna ábyrgðanna þar sem Stefanía var dómþoli. Ábyrgðarkrafa sóknaraðila á hendur Stefaníu hafi því stofnast í tíð eldri fyrningarlaga, þ.e. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, enda hafi ábyrgðaryfirlýsingin verið gefin út árið 1985 og krafan verið í vanskilum um nokkurt skeið. Eðli málsins samkvæmt sé það ekki dómurinn sem stofni kröfuna, það gerist áður. Með dómnum hafi réttindi sóknaraðila á hendur dómþolum verið staðfest. Dómurinn taki því ekki til annarra en dómþola og þannig gildi reglur eldri laga um fyrningu krafna um kröfur sóknaraðila. Samkvæmt 4. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 fyrnist kröfur á grundvelli ábyrgðarskuldbindinga á fjórum árum. Samkvæmt kröfubréfi sóknaraðila hafi skipti á búi Stefaníu hafist 15. febrúar 2008 og þeim lokið sama dag. Það sé því fyrst frá þeim degi sem varnaraðilar kunni að hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á fyrrnefndum kröfum sóknaraðila. Í 97 gr. laga nr. 20/1991 sé skýrt kveðið á um að eftir að einkaskiptum sé lokið beri erfingjar ábyrgð á skuldbindingum búsins. Í ákvæðinu felist ekki að erfingjar fái stöðu dómþola við lok skipta, ef krafa sóknaraðila byggir á dómi, líkt og virðist mega ráða af kröfugerð sóknaraðila. Í reglunni felist í staðinn að erfingjar beri ábyrgð samkvæmt reglum um ábyrgðarskuldbindingar á þeirri fjárkröfu sem ella hefði mátt beina að búinu og felist í dómsorðinu. Þegar dánarbú sé tekið til einkaskipta fái erfingjar því ekki stöðu þess dómþola sem sé látinn eða teljist vera á einhvern hátt dómþolar líkt og sóknaraðili virðist byggja á. Þess í stað taki þeir á sig sjálfskuldarábyrgð á þeirri kröfufjárhæð sem fyrir hendi sé sem í þessu tilfelli sé sjálfskuldarábyrgð á kröfu sem stofnað hafi verið til árið 1985 og staðfest var með dómi árið 2005. Slíkar ábyrgðarskuldbindingar fyrnist því á fjórum árum, enda gildi reglur laga 14/1905 um fyrningu þeirra, þar sem krafan hafi stofnast í tíð eldri fyrningarlaga, sbr. 28. gr. núverandi laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Af þeim sökum líti varnaraðilar svo á að kröfur sóknaraðila á hendur þeim, hafi þær stofnast, hafi fyrnst í síðasta lagi fjórum árum eftir að einkaskiptum lauk, sbr. ákvæði eldri fyrningarlaga og beri því að hafna kröfu sóknaraðila um fjárnám, sbr. 9. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Varnaraðilar byggja á því að óheimilt sé að beita afturvirkt breytingum sem gerðar eru á stjórnvaldsframkvæmd. Vísa þeir til þess að þegar einkaskiptin á búi Stefaníu hafi átt sér stað árið 2008 hafi verið í gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila um að þegar dánarbúi væri skipt einkaskiptum væri ekki gengið að erfingjum. Breyting hafi orðið á stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila árið 2012 í þá veru að nú skyldi gengið á eftir ábyrgðum erfingja á námslánum þar sem bú hefðu verið tekin til einkaskipta. Sóknaraðili sé stjórnvald og því bundinn af stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meginreglum stjórnsýsluréttar og almennum reglum um vandaða stjórnsýsluhætti, auk meginreglna fjármunaréttar og viðskiptavenju. Þegar stjórnvöld taki ákvörðun um að breyta stjórnsýsluframkvæmd sé þeim skylt að gæta að tilteknum málsmeðferðar- og formsatriðum á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar, skráðra og óskráðra, sem styðjist við sjónarmið um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og stöðugleika í stjórnsýslu, nánar tiltekið um vandaða stjórnsýsluhætti. Í samræmi við þetta þurfi stjórnvöld að gæta sérstaklega að hagsmunum þeirra sem slík breyting bitni á. Slíkar breytingar séu verulega íþyngjandi gagnvart borgurunum. Með tilliti til fyrri stjórnsýsluframkvæmdar verði stjórnvöld þannig að kynna breytinguna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara. Varnaraðilum hafi aldrei verið kunngerð breyting á stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila. Til enn frekari undirstrikunar á gildi hennar sé kveðið á um í skuldabréfunum sjálfum, að endurgreiðslur sem falli í gjalddaga eftir að lánþegi andist, falli sjálfkrafa niður. Hið sama gildi þá eðli málsins samkvæmt um aðra skuldara á bréfunum en aðalskuldara, þ.e. að eftir að þeir falli frá, verði erfingjar þeirra ekki krafðir um gjaldfallnar afborganir. Fyrrnefnd stjórnsýsluframkvæmd sé því í fullu samræmi við efni skuldabréfanna. Varnaraðilar vísa til þess að það hafi líklega verið í byrjun ársins 2012 að sóknaraðili ákvað að breyta þessari áralöngu og venjuhelguðu stjórnsýsluframkvæmd og hefja innheimtu mála fjögur ár aftur í tímann á hendur erfingjum sem fengið hefðu leyfi til einkaskipta á dánarbúi ábyrgðarmanns. Sóknaraðili virðist því hafa ákveðið í þessu máli, ef marka má innheimtubréf sjóðsins, dagsett 28. júlí 2014, að breyta stjórnsýsluframkvæmdinni með afturvirkum hætti. Þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin með formlegum hætti og sóknaraðili hafi ekki kynnt hana opinberlega. Í ljósi þessa liggi fyrir að innköllun á kröfum sóknaraðila vegna einkaskipta á búi Stefaníu árið 2008 hefði ekki haft neina þýðingu gagnvart sóknaraðila, þar sem þessar reglur voru í gildi og ekki ástæða til annars en að treysta þeirri framkvæmd. Varnaraðilar telja því að þessi afturvirka breyting á hinni langvarandi og venjubundnu stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila sé ólögmæt og því geti hann ekki krafið varnaraðila um þessar fjárhæðir þar sem sóknaraðili hafi í reynd afsalað sér mögulegum rétti sínum gagnvart erfingjum ábyrgðarmanna.
Varnaraðilar byggja enn fremur aðalkröfu sína á því að rétt sé að lögjafna frá meginreglum laga nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þegar kemur að ábyrgðum erfingja ábyrgðarmanna og að reglur laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, einkum tómlæti, standi í vegi fyrir aðför. Með hliðsjón af e-lið 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, eins og ákvæðinu var breytt með 10. gr. laga nr. 78/2015, eru ekki efni til að reifa þessa málsástæður frekar né röksemdir varnaraðila fyrir varakröfu.
IV
Niðurstaða
Í málinu krefst sóknaraðili þess að aðfarargerð á hendur varnaraðilum megi fara fram. Aðfararbeiðni sóknaraðila barst dóminum 11. febrúar 2015. Í henni er rakið að sóknaraðili styðji heimild sína til aðfarar hjá varnaraðilum við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005. Með dóminum hafi Stefanía Magnúsdóttir verið dæmd til að greiða gerðarbeiðanda sameiginlega (in soldium) með Karli Thorberg Birgissyni 1.218.119 krónur, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Varnaraðilar hafi fengið leyfi sýslumanns til einkaskipta á dánarbúi Stefaníu en hún andaðist 11. september 2007. Aðfararbeiðni fylgdi hins vegar ekki einkaskiptaleyfi eða önnur gögn um framvindu skiptanna. Með hliðsjón af því tók dómari þá ákvörðun að boða sóknaraðila og varnaraðila til þinghalds 14. apríl 2015. Sóknaraðili hefur mótmælt málsmeðferð dómsins og telur hana í andstöðu við lög um aðför nr. 90/1989. Dómurinn getur fallist á að eftir atvikum hefði verið rétt að veita sóknaraðila færi á að bæta úr annmörkum á beiðni sinni án þess að kveðja varnaraðila fyrir dóminn, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1989. Hins vegar liggur fyrir að við fyrirtöku málsins 14. apríl 2015 höfðu varnaraðilar uppi andmæli gegn aðfararbeiðni og óskuðu þess að fá frest til að skila greinargerð. Dómari féllst á frestbeiðnina og var sú ákvörðun ekki kærð af sóknaraðila til Hæstaréttar eins og honum hefði verið heimilt á grundvelli h-liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Með hliðsjón af því og þeim rétti sem gerðarþola er veittur í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/1989, til að koma að andmælum við aðfararbeiðni, verður ekki ráðið að óheimilt hafi verið að fara með málið eftir fyrirmælum 13. kafla laganna. Er því ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að lög standi því í vegi að varnir þær sem varnaraðilar hafa uppi gegn beiðninni verði teknar til efnismeðferðar.
Aðfararbeiðni sóknaraðila á hendur varnaraðilum byggist á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 og er vísað til þess að þeir hafi við skipti á dánarbúi Stefaníu Magnúsdóttur, sem sóknaraðilar skiptu einkaskiptum, tekist á hendur ábyrgð á skuldbindingum hennar. Eins og rakið hefur verið var Stefanía heitin dæmd til að greiða sóknaraðila 1.218.119 krónur, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Krafa sóknaraðila er tilkomin vegna ábyrgðar sem hún hafði gengist í á 12,38% af námslánaskuld Karls Thorberg Birgissonar. Erfingjum hennar, sem voru varnaraðilar og framangreindur Karl Thorberg, var veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar og lauk skiptum 15. febrúar 2008. Umsókn um leyfi til einkaskipta eða einkaskiptaleyfið hefur ekki verið lagt fram í málinu en varnaraðilar hafa ekki andmælt því að það hafi verið veitt þennan sama dag og að þeir hafi þá gengist í ábyrgð á skuldum hinnar látnu, sbr. 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili aðhafðist ekki frekar um innheimtu dómkröfunnar á hendur Stefaníu meðan hún var á lífi og með hliðsjón af útreikningum sóknaraðila verður ekki ráðið að greitt hafi verið inn á kröfuna af aðalskuldara. Með bréfi sóknaraðila frá 28. júlí 2014 voru varnaraðilar á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar sinnar krafðir um greiðslu á þeim hluta lánsins sem Stefanía heitin hafði verið dæmd til að greiða. Varnaraðilarnir Jóhanna, Anna Dögg, Bergþóra og Valur kröfðust þess að sóknaraðili felldi ábyrgðin yrði felld niður með vísan til sömu málsástæðna og þau byggja á í máli þessu. Því hafnaði stjórn sóknaraðila með bréfi 26. september 2014. Þá ákvörðun kærðu sömu varnaraðilar til málskotsnefndar sóknaraðila sem starfar á grundvelli 5. gr. a laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2015 staðfesti málskotsnefndin þá ákvörðun stjórnar sóknaraðila að hafna því að fella niður ábyrgð varnaraðila. Hins vegar taldi málsskotsnefndin að útreikningur kröfu sóknaraðila skyldi taka mið af því að það hafi verið fyrst með bréfi hans dagsettu 28. júlí 2014 að varnaraðilum hafi sannanlega verið gefinn kostur á því að greiða skuld hinnar látnu, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Sóknaraðili tekur ekki tillit til þessa í útreikningum kröfu sinnar.
Varnaraðilar byggja á því að krafa sóknaraðila á hendur þeim sé fyrnd. Því mótmælir sóknaraðili og vísar til þess að svo lengi sem krafa hans á hendur hinni látnu sé ekki fyrnd beri varnaraðilar ábyrgð á henni í samræmi við 5. tl. 28. og 97. gr. laga nr. 20/1991. Við mat á þessari málsástæðu varnaraðila er til þess að líta að krafa sóknaraðila á hendur hinni látnu byggist á dómi sem upp var kveðinn 21. desember 2005 og fyrnist á 10 árum, sbr. 1. tl. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í 28. gr. núgildandi laga fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 er kveðið á um að lögin gildi einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna en þau öðluðust gildi 1. janúar 2008. Þótt fallist yrði á það með varnaraðilum að líta beri á ábyrgð þeirra sem hefðbundna sjálfskuldarábyrgð, en ekki þriðja manns loforð eins og sóknaraðili vísar til, er til þess að líta að varnaraðilar gengust ekki í ábyrgð fyrir skuldbindingum dánarbúsins fyrr en með einkaskiptaleyfi sem mun hafa verið veitt 15. febrúar 2008. Um ábyrgð þeirra fer því eftir núgildandi lögum en í 7. gr. þeirra er kveðið á um að sé krafa tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri tryggingu reiknist fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Samkvæmt því verður ekki fallist á það með varnaraðilum að krafa sóknaraðila á hendur þeim sé fyrnd enda fyrnist dómkrafa sóknaraðila á hendur Stefaníu heitinni í samræmi við framangreint ekki fyrr en 21. desember næstkomandi.
Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi með með afturvirkum hætti breytt framkvæmd sinni hvað varðar innheimtu námslána árið 2012. Vísa þeir til þess að þegar einkaskiptin á dánarbúi Stefaníu hafi átt sér stað hafi verið í gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd sóknaraðila um að þegar dánarbúi væri skipt einkaskiptum væri ekki gengið að erfingjum. Sóknaraðili mótmælir því að umrædd breyting hafi átt sér stað en af málatilbúnaði hans fyrir dóminum verður hins vegar ekki ráðið að hann mótmæli staðhæfingu varnaraðila þess efnis að slík breyting kynni að fela í sér verulega íþyngjandi breytingu gagnvart borgurunum sem hefði þurft að kynna fyrir fram.
Úthlutunarreglur sóknaraðila fyrir árin 1999-2015 höfðu að geyma skilmála þess efnis að ef ábyrgðarmaður létist gæti lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir tilgreind skilyrði en að öðrum kosti tækju erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hefðu á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins. Hins vegar liggja takmörkuð gögn fyrir um hver framkvæmdin hafi verið á innheimtu sóknaraðila á hendur erfingja ábyrgðarmanna námslána fyrir 2012. Stefna sem sóknaraðili lagði fram, árituð um aðfararhæfi í október 2008, varðar ekki dómsmál á hendur erfingjum ábyrgðarmanns námsláns heldur skuldara. Þótt þess sé getið á stefnunni að dómkrafan hafi, í lok sama árs, verið framseld manni sem greiddi kröfuna fyrir hönd dánarbús dómfellda þá er til þess að líta að í stefnunni kemur jafnframt fram að lánið hafi upphaflega verið tryggt með sjálfskuldaábyrgð manns sem sé látinn en „erfingjum hans sé ekki stefnt að svo stöddu.“ Tilvísun sóknaraðila til dóms Hæstaréttar í máli nr. 139/1997, frá 4. mars 2009, tekur ekki til sambærilegra atvika og í máli þessu enda var um það að ræða að ábyrgðarmanni var stefnt í lifanda lífi en eiginkona hans, sem sat í óskiptu búi, tók við aðild málsins fyrir Hæstarétti þar sem ábyrgðarmaðurinn féll frá undir rekstri málsins. Sóknaraðili hefur lagt fram tölvupóst dagsettan 23. janúar 2015 frá lögmanni sem annast innheimtu á kröfum sóknaraðila um endurgreiðslur námslána, ásamt minnisblaði annars lögmanns frá 1997, þar sem fjallað er um stöðu ábyrgðarmanna. Fyrir liggur að vitnaleiðslur hafa ekki verið heimilaðar í máli þessu, í samræmi við meginreglu 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili getur ekki sneitt fram hjá þeirri reglu með framlagningu umræddra frásagnarskjala og verður við mat á sönnun því horft fram hjá þeim. Þá verður ekki dregin fullnægjandi ályktun um framkvæmd innheimtunnar af fundargerðum stjórnar sóknaraðila, þar sem til umræðu var hvenær lýsa skyldi kröfu í dánarbú ábyrgðarmanna. Að mati dómsins taka gögn málsins ekki af vafa um hvort sóknaraðili hafi með afturvirkum hætti breytt framkvæmd sinni hvað varðar innheimtu námslána á hendur erfingjum sem skiptu dánarbúi ábyrgðarmanns einkaskiptum. Er því varhugavert að gerðin nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 og ber því að hafna kröfu sóknaraðila um aðför.
Eftir þessum málsúrslitum bera að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðilum málskostnað eins og í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Við uppkvaðningu úrskurðar þessa var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.
Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um aðfarargerð á hendur varnaraðilum Jóhönnu Meyer Birgisdóttur, Aðalheiði Birgisdóttur, Önnu Dögg Einarsdóttur, Bergþóru Birgisdóttur og Vali Mörk Einarsson, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, hverju fyrir sig, 124.000 krónur í málskostnað.