Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 11. júlí 2012. |
|
Nr. 482/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Magnús Ingi Erlingsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi
sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu
til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum
degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2012, þar sem
varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júlí 2012
klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr.
192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega
að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi
og einangrun verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 8. júlí 2012 játaði varnaraðili að hafa ásamt Y farið inn á heimili A að [...] í [...] og svipt hann þar frelsi sínu. Varnaraðili kvaðst hins vegar engin verðmæti hafa tekið þar á staðnum og vísaði um það atriði til Y með þeim orðum að „Y var bara eitthvað að taka saman dótið inn í íbúðinni.“ Þegar krafa um gæsluvarðhald yfir varnaraðila var tekin fyrir á dómþingi síðar sama dag lét héraðsdómari fyrir farast að spyrja varnaraðila, svo ekki færi milli mála, hvaða brot hann hefði játað. Er þetta aðfinnsluvert, meðal annars í ljósi 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
sunnudaginn 8. júlí 2012.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr.
sakamálalaga nr. 88/2008, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13.
júlí 2012 kl. 16.00 Þá er þess með vísan
til b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga krafist að honum verði gert að sæta
einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð
Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í gærmorgun hafi lögreglu
borist tilkynning frá [...], [...] um að ráðist hafi verið að íbúa þar, hann
sviptur frelsi sínu og rændur.
Tilkynningin hafi borist frá starfsfólki [...] sem hafi komið á heimili
vinnufélaga síns þar skömmu áður vegna þess að þau hafi saknað hans úr vinnu og
haft áhyggjur af honum. Þegar þau hafi
komið að heimili hans hafi þau orðið vör manna þar, sem hafi komið sér undan
með því að fara út um svalir íbúðarinnar.
Árásarþolinn, A hafi,
þegar komið var að, verið bundinn og með límteip
fyrir munni og mjög miður sín, með sýnilega áverka og af honum dregið. A hafi
getað gefið greinargóða lýsingu sem hafi komið heim og saman við Y sem lögreglan
hafi handtekið í grenndinni eða við [...] í [...].
A hafi lýst atvikum
þannig að hringt hafi verið á dyrabjöllu hjá honum um klukkan 03:00 aðfaranótt
s.l. föstudags. Hann hafi þá verið
sofandi, vaknað og farið til dyra.
Umsvifalaust hafi þá tveir menn ruðst inn í íbúðina og á hann. Þeir hafi strax yfirbugað hann bundið og
troðið einhverju upp í munn hans og sett límteip
fyrir. Þeir hafi þjarmað að honum og
beitt hann ofbeldi og hótunum af ýmsu tagi.
Þeir hafi gefið honum skipanir um að gefa upplýsingar um bankanúmer og
aðgangsnúmer til þess að taka peninga út af bankareikningum hans. A kveðist hafa látið undan og hafi mennirnir
fengið hann til að millifæra af sínum reikningi á reikninga sem þeir hafi
krafið hann um að leggja inn á. A hafi
sagt mennina hafa leitað verðmæta á heimilinu og tekið þaðan ýmis verðmæti. A kveði
ofbeldið og frelsissviptinguna hafa staðið yfir frá 03:00 um nóttina þar til
samstarfsmenn hans hafi komið honum til hjálpar um klukkan 10:30 um morguninn.
Í samræmi við framburð A hafi
453.000 krónur verið færðar af reikningi hans á bankareikning Y nr. [...] um
morguninn.
Þegar kærði Y hafi verið
handtekinn hafi hann haft í fórum sínum rúmlega 308.000 kr. í seðlum og
skiptimynt, tvær lyklakippur og minnislykil sem hafi verið úr eigu A, ávísun
stílaða á hann og blað, sem komið hafi heim og saman við það sem A segi að sér
hafi verið sýnt, með handskrifaðri kennitölu kærða, Y, og bankanúmeri hans.
Við yfirheyrslur hafi
kærði, Y, neitað öllum sakargiftum og gefið ótrúverðugar skýringar á ástæðu
millifærslu á milli bankareikninga hans og A og engar skýringar gefið á því að
hann hafi verið með persónulega muni A í fórum sínum við handtöku. Þá liggi
fyrir upplýsingar frá starfsmönnum [...]bankans að skömmu fyrir handtökuna hafi
kærði millifært tæplega helming upphæðarinnar, sem millifærð hafi verið af
reikningi A inn á hans reikning, inn á reikning kærða X, sbr. gögn lögreglu, og
tekið út um 305.000 kr. í peningum út af eigin bankareikningi.
Kærði hafi verið
handtekinn síðdegis í gær og verið þá í mjög annarlegu ástandi og því ekki unnt
að yfirheyra hann þá. Við yfirheyrslu
fyrr í dag hafi kærði játað aðild sína að árásinni á A, að [...], [...] aðfaranótt
sl. föstudags.
Talsverð rannsókn sé
framundan. Yfirheyra þurfi brotaþola
nánar, vitni og kærðu ítarlegar.
Kærðu séu undir
rökstuddum grun um aðild að sérstaklega alvarlegri líkamsárás og andstyggilegu
brot, þar sem ruðst hafi verið inn á brotaþola um miðja nótt, hann bundinn á
höndum og fótum og teipað fyrir munn hans og hann
þannig bjargarlaus beittur ofbeldi klukkustundum saman. Kærðu hafi fengið
brotaþola með hótunum um ofbeldi og með því að beita hann ofbeldi til þess að
láta af hendi peninga auk þess sem kærðu hafi tekið ýmis verðmæti af heimili
hans. Brot kærðu séu talin varða við 252. gr., 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 226.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot kærðu kunni að varða fangelsi allt að 16 árum.
Rannsókn málsins sé á
frumstigi og því brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þannig að
hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina með því að koma undan munum
eða hafa áhrif á aðra samseka og eða vitni. Með vísan til þess sem að framan er
rakið og rannsóknargagna þyki skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 til þess að úrskurða hann til að sæta gæsluvarðhaldi og jafnframt til
þess, samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga, að sæta einangrun á meðan á
gæsluvarðhaldi standi.
Samkvæmt
því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum
málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa, aðfararnótt síðastliðins
föstudags í félagi við Y, ráðist á og beitt mann líkamsmeiðingum svipt hann
frelsi sínu og rænt. Brot það sem kærði er grunaður um getur varðað
fangelsisrefsingu, allt að sextán árum.
Kærði hefur játað aðild sína að brotinu, en rannsókn þess er þó á
frumstigi. Er fallist á það með
lögreglustjóranum að kærði geti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að
hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus. Með vísan til þess og
framangreinds rökstuðnings í greinargerð lögreglustjóra að öðru leyti verður
krafan tekin til greina eins og hún er fram sett. Með sömu rökum er fallist á að kærði
sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari
kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...],
skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. júlí 2012 kl. 16.00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á
gæsluvarðhaldinu stendur.