Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


                                                        

Mánudaginn 15. mars 2010.

Nr. 135/2010.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Gögn. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Ákæruvaldið kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þess um að skýrsla vegna rannsóknar á ökuhraða bifreiðar, þegar hún lenti í umferðaróhappi, yrði lögð fram í sakamáli. Talið var að ekki yrði séð að lög stæðu til þess að meina ákæruvaldinu að leggja fram skýrsluna sem gagn sem þýðingu kynni að hafa við efnisniðurstöðu málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að skýrsla prófessors Magnúsar Þórs Jónssonar 25. október 2008 sem ber heitið „Rannsókn á ökuhraða bifreiðar IN-012 þegar hún lendir í umferðaróhappi á Hringbraut á móts við Furumel“ yrði lögð fram í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að heimila framlagningu skýrslunnar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Með ákæru 2. febrúar 2010 voru varnaraðila gefin að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið, svo vanbúinni að hættulegt hafi verið, of hratt og hafi orðið árekstur milli bifreiðarinnar og annarrar bifreiðar með þeim afleiðingum að bifreið ákærða fór upp á gangstétt og rakst á steinsteyptan vegg og glugga húss. Er ætluð háttsemi ákærða heimfærð undir 1. mgr. 4. gr., a.-, c.- og d.-liði 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.

Samkvæmt gögnum málsins gerði lögregla skýrslur um vettvang með ljósmyndum, eigin mælingum og uppdrætti. Að ósk lögreglu fóru auk þess fram svokallaðar bíltæknirannsóknir hjá einkahlutafélaginu Gnostica, og gerði Snorri S. Konráðsson framkvæmdastjóri félagsins skýrslur um þær. Þá leitaði lögregla aðstoðar Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands til þess að reikna út ætlaðan hraða bifreiðar ákærða miðað við tilteknar forsendur. Framangreind gögn voru meðal þeirra sem send voru héraðsdómi með ákæru, samkvæmt 154. gr. laga nr. 88/2008. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómur því að síðastgreind skýrsla yrði lögð fram við meðferð málsins.

II

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Í 1. mgr. 86. gr. laganna er gert ráð fyrir að lögregla geti leitað til sérfróðra manna án dómkvaðningar þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál. Lögregla getur einnig eftir atvikum fengið menn dómkvadda til mats á ákveðnum atriðum, sbr. 1. mgr. 128. gr., eða í sumum tilvikum leitað beint til opinbers starfsmanns til mats samkvæmt 3. mgr. 127. gr. sömu laga. Þá segir í 1. mgr. 56. gr. að lögregla taki saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skal þar meðal annars koma fram athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna. Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 134. gr. laganna leggja aðilar fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Ákærandi leggur fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.

Að öllu þessu virtu verður ekki séð að lög standi til þess að meina sóknaraðila að leggja fram umrædda skýrslu Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors sem gagn sem þýðingu kunni að hafa við efnisniðurstöðu málsins. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010.

Við þingfestingu máls þessa, 15. febrúar sl. ákvað dómarinn með hliðsjón af 1. mgr. 86. gr., 1. mgr. 116. gr. og XIX. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008, að ekki yrði lögð fram álitsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors sem fylgdi rannsóknargögnum málsins.  Ákæruvaldið hefur látið bóka eftirfarandi „Ákvörðun dómara um að ekki verði lögð fram álitsgerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors, sem fylgdi rannsóknargögnum málsins, er mótmælt og krafist úrskurðar um hana sem kæra megi til hæstaréttar samkvæmt p-lið 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Dómara er ekki heimilt að neita ákæruvaldi um að leggja fram sönnunargögn nema þau séu bersýnilega tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála.  Ákæruvaldið leggur fram sönnunargögn, sbr. 1.og 2. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 158. gr. sömu laga, en dómari dæmir um gildi þeirra, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga.“  Af hálfu ákærða er fallist á ákvörðun dómsins og tekið fram að álitsgerð utanaðkomandi aðila, sem ekki sé vitni í málinu, megi ekki leggja fram í því.

Í skýrslu Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í málinu sem hann nefnir “Rannsókn á ökuhraða bifreiðar IN-012 þegar hún lendir í umferðaróhappi á Hringbraut á móts við Furumel” er sett fram “líkan af atburðarás þegar ökumaður bifreiðar IN-012 missir stjórn á henni þegar hann ekur eftir Hringbraut til austurs og er staddur á móts við Furumel” samkvæmt því sem þar segir.  Er þar með hjálp eðlisfræði og stærðfræði svarað því álitaefni hver hafi verið ætlaður hraði bílsins þegar ökumaðurinn missti stjórn á honum en jafnframt því hver hafi verið minnsti mögulegi hraði og hver mesti mögulegi hraði hans.  Beiðni um þessa vinnu fylgir ekki gögnum málsins en ætla verður að lögregla eða ákæruvaldið hafi lagt álitaefnið fyrir prófessorinn með þessum hætti.  Forsendur þessa útreiknings eru vettvangsrannsókn lögreglu og rannsókn á bílunum sem komu við sögu og Snorri S. Konráðsson gerði fyrir lögreglu á vegum fyrirtækisins Gnostiku ehf.  Við þessa líkangerð byggði prófessorinn á því sem vitað var um aðstæður á vettvangi svo og beyglur og aðrar skemmdir á bílunum tveimur.  Niðurstaða prófessorsins er sú að bílnum IN-012 hafi verið ekið með minnst 86 km hraða á klukkustund en mest með 113 km hraða á klukkustund áður en ökumaðurinn missti stjórn á honum.  Líklegast sé að hraðinn hafi verið 99 km/klst., en þá sé miðað við að ökumaðurinn hafi ekki hemlað og jafnframt við það að áreksturinn við hinn bílinn hafi ekki breytt hraðanum á IN-012.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála er hverjum manni skylt að koma fyrir dóm sem vitni til þess að svara munnlega spurningum um málsatvik.  Kemur hér fram meginregla réttarfars að maður verði því aðeins kvaddur fyrir dóm sem vitni að hann geti borið um málsatvik sem hann hafi skynjað af eigin raun.  Af því leiðir að maður verður almennt ekki leiddur sem vitni í sakamáli til að svara spurningum um sérfræðileg atriði, nema hann hafi verið dómkvaddur sem matsmaður í málinu.  Í 2. ml. þessarar málsgreinar er þó gerð sú undantekning frá þessari reglu að þeim sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf áður en mál er höfðað sé einnig skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um sérfræðileg atriði.  Dómurinn álítur að almenn lögskýringarsjónarmið hljóti að valda því að þessi undantekning verði skýrð þröngt og að byggja verði á almennri merkingu þessara orða.  Séu því þannig takmörk sett hvað talist geti sérfræðileg aðstoð eða ráðgjöf í skilningi hennar og um hvaða atriði megi þannig leiða vitni, án þess að til dómkvaðningar matsmanns komi.  Vísbendingu um þennan skilning er að finna í 1. mgr. 86. gr. laga um meðferð sakamála en þar segir að lögregla leiti í þágu rannsóknar til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, svo sem læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn.  Enda þótt hér sé ekki um að ræða tæmandi upptalningu á slíkum rannsóknum þykir orðalag ákvæðisins benda til þess að takmörk séu við því hvað talist geti sérfræðileg skoðun eða rannsókn í skilningi ákvæðisins og að hafa verði hliðsjón af almennri merkingu þeirra orða.  Loks er á það að líta að í síðari málslið þessa ákvæðis er einmitt gert ráð fyrir því að lögregla eða ákæruvald geti, þegar ástæða er til, farið fram á það að dómkvaddur verði matsmaður samkvæmt 128. gr. laganna.  

Skýrsla sú sem lögregla eða ákæruvald fól Magnúsi Þór Jónssyni að gera í málinu getur að áliti dómsins ekki talist vera sérfræðileg aðstoð, ráðgjöf, skoðun eða rannsókn í skilningi 1. mgr. 86. gr. og 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála.  Aftur á móti er hér ferðinni álitsgerð eða ályktun , sem telja verður ígildi matsgerðar, um líklega eða mögulega atburðarás af því sem eiginleg lögreglurannsókn hefur leitt í ljós.  Sök ákærða í málinu sýnist að nokkru leyti geta ráðist af því hversu hratt hann verður talinn hafa ekið bílnum þegar óhappið varð.  Álítur dómurinn að gæta hefði þurft hagsmuna hans þegar ákveðið var að fá þetta atriði metið og að lögreglu eða ákæruvaldinu því borið að óska eftir því að matsmaður yrði dómkvaddur til þess í samræmi við XIX. kafla laganna um meðferð sakamála.  Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála verður gagn þetta ekki lagt fram í málinu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Skýrsla prófessors Magnúsar Þórs Jónssonar, dagsett 25. október 2008, um „rannsókn á ökuhraða bifreiðar IN-012 þegar hún lendir í umferðaróhappi á Hringbraut á móts við Furumel“, verður ekki lögð fram í máli þessu.