Hæstiréttur íslands

Mál nr. 716/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms


                                              

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 716/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Líkamsárás. Dómur. Ómerking héraðsdóms.

X var sakfelldur í héraði og dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir gegn A, fyrrverandi sambýliskonu sinni. Við þingfestingu málsins neitaði X sök varðandi báða liði ákæru en játaði við aðalmeðferð að hafa slegið A einu höggi og að hafa séð blóð á nefi hennar eftir það. Hann bar hins vegar um að brotaþoli hefði haldið á skærum í undanfara þess sem hann taldi vera ógnun við sig. Í hinum áfrýjaða dómi var ekki fjallað um þennan ákærulið að öðru leyti en því að vísa til þess að X hefði játað brot sitt skýlaust. Í ljósi kröfugerðar X við aðalmeðferð málsins um sýknu af öllum sakargiftum og þess sem fram kom við aðalmeðferð um atvik málsins voru ekki talin skilyrði til að leysa úr ákæruliðnum sem játningarmáli. Var því fallist á með X að samningu dómsins hefði verið ábótavant að þessu leyti og í andstöðu við e., f. og g. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hún krefjist staðfestingar á kröfu sinni, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að héraðsdómara hafi ekki verið rétt að líta svo á að ákærði hafi játað þær sakir sem greinir í ákærulið I.2, enda hafi ákærði neitað sök með öllu við þingfestingu málsins. Þótt ákærði hafi við aðalmeðferð málsins viðurkennt að hafa slegið brotaþola einu höggi hafi ekki verið lagaskilyrði til að dæma málið á þeim grundvelli. Samningu dómsins sé því ábótavant, þar sem eingöngu sé vísað til þessa ákæruliðar í dóminum með því að ákærði hafi skýlaust játað það brot. Jafnframt byggir ákærði kröfu um ómerkingu á því að ekki hafi verið lagt mat á trúverðugleika framburðar ákærða um ákærulið I.1.

Við aðalmeðferð málsins var ákærði spurður um þau atvik er greinir í ákærulið I.2. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa slegið brotaþola högg á ,,kinnina eða nefið“. Hann kvaðst hafa séð áverka á brotaþola, ,,blóð“... ,,á nefi“. Spurður um aðdraganda þess kvað hann brotaþola hafa tekið upp ,,skæri - fyrst föndurskæri svo skipti hún í önnur skæri ... Ég reyni að slá skærin frá mér eða semsagt úr höndunum á henni og svo á endanum þá fékk ég nóg eða þú veist þá missti ég mig, sá svart ... Hún var kannski ekkert beint að reyna að stinga mig með þeim en hún var svona ógnandi með þau.“ Brotaþoli bar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hún hefði tekið skæri og haldið þeim fyrir framan sig og ,,hann segir mér að stinga sig og gera þú veist - ögrar mér og slær síðan skærunum úr höndunum á mér og gefur mér hérna á hann.“ Brotaþoli kvaðst fyrst hafa verið með barnaskæri í höndunum, en ,,síðan tók ég skæri upp, ég man þetta ekki alveg svona, en ég man að ég hélt á skærunum fyrir framan mig inni í eldhúsinu og þau höfðu verið þarna einhvern veginn.“

Eins og að framan er rakið neitaði ákærði sök við þingfestingu málsins, en játaði við aðalmeðferð þess að hafa slegið brotaþola einu höggi og að hafa séð blóð á nefi hennar eftir höggið. Við aðalmeðferð krafðist verjandi ákærða sýknu af öllum sakargiftum. Ekki var í dóminum fjallað um ákærulið I.2 að öðru leyti en því að vísa til þess að ákærði hefði játað brotið skýlaust. Í ljósi kröfugerðar ákærða við aðalmeðferð málsins um sýknu af öllum sakargiftum og þess sem að framan er rakið og fram kom við aðalmeðferð um atvik máls voru ekki skilyrði til að leysa úr ákærulið I.2 á grundvelli skýlausrar játningar ákærða. Því var samningu dómsins ábótavant að þessu leyti og í andstöðu við e., f. og g. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði niðurstöðu héraðsdóms en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Einars Huga Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns 300.000 krónur.

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2012.

                Ár 2012, mánudaginn 15. október, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. [...]/2012:  Ákæruvaldið (Fanney Björk Frostadóttir) gegn X (Hilmar Gunnarsson hdl.) sem tekið var til dóms hinn 9. október sl. að aflokinni aðalmeðferð og aftur í dag, eftir framhaldsaðalmeðferð.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 3. apríl sl. á hendur ákærða, X, kt. [...]-[...], [...], [...],

„I.

fyrir líkamsárás, á hendur þáverandi sambýliskonu sinni, A, með því að hafa í neðangreind skipti, á heimili hennar að [...] í [...]:

1.       Að morgni sunnudagsins 21. nóvember 2010, slegið A nokkur högg í kjálkann og ýtti henni aftur fyrir sig svo hún lenti með bakið á borði, með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð og bólgu á vörum og mar á baki og lendahrygg.

 (M. 007-2011-[...])

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

2.       Laugardaginn 13. ágúst 2011, gripið í handlegg A og slegið hana í andlit og enni, með þeim afleiðingum að A hlaut nefbeinabrot, skurð á nefi og kinnbeini og mar og yfirborðsáverka á hægri handlegg.

(M. 007-2011-[...])

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Af hálfu Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl. fyrir hönd A kennitala [...]-[...], er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000.-, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2011 þar til mánuður er liðinn frá því sakborningi var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

II.

fyrir líkamsárás, á hendur stjúpmóður sinni, B, með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 9. október 2011, á heimili hennar að [...] í [...], hrint B þannig að hún datt aftur fyrir sig og lenti á hillu, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og skurð á vinstri kinn, mar yfir hnúa litlafingurs á vinstri hendi og eymsli yfir vinstra læri

(M. 007-2011-[...])

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Fallið hefur verið frá því atriði í ákærulið I,2 að ákærði hafi gripið í handlegg A svo að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á handlegg.  Þá hefur verið fallið frá II. kafla ákærunnar.

Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir í ákærulið I,2.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem þar er lýst og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. 

Að öðru leyti hefur ákærði neitað sök.

Málavextir

                Samkvæmt dagbók lögreglustjóraembættisins var það kl 10:56 sunnudagsmorguninn 21. nóvember 2010 að tilkynnt var um það til lögreglunnar að maður í [...] væri þar að berja konu sína.  Þegar lögregla kom á vettvang var ákærði þar úti fyrir en sambýliskona hans, A, var inni.  Segir í færslunni að blóð hafi verið á gólfi og nokkur glerílát voru brotin.  Þá hafi sést lítillega á A en hún verið ölvuð.  Kl. 6:28 þennan sama morgun hafði verið bókað að lögreglumenn hefðu hitt ákærða og A í [...] og þá komið fram að þeim hefði lent saman og að tölva hennar komið þar við sögu.

                Í málinu er staðfest vottorð C yfirlæknis bráðalækninga á Landspítala, Fossvogi.  Segir þar að A hafi komið á spítalann kl. 14:50 þennan dag og sagt frá því að rifrildi hafi orðið með henni og sambýlismanni hennar.  Hafi það leitt til þess að sambýlismaðurinn sló hana í andlitið og sparkaði í bakið á henni.  Læknisskoðun leiddi í ljós að hún var bólgin um varirnar og með sár á þeim.  Hafi ½ cm skurður verið innanvert á efri vör og samsvarandi mar innanvert á neðri vör.  Þá hafi verið 5 cm marblettur hægra megin við hryggsúlu lendarhryggjar.

                A gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu 23. ágúst 2011 og sagðist þá hafa verið sofandi og vaknað við það að ákærði var að berja hana og hrista hana til.  Hefði hún fengið 5 eða 6 högg í andlitið svo hún marðist og fékk blóðnasir.

                Ákærði var yfirheyrður um þetta sakarefni hjá lögreglu 3. nóvember í fyrra.  Neitaði hann því afdráttarlaust að hafa veitt henni þessa áverka og kvaðst ekki vita hvernig hún hefði hlotið þá.  Hann kvaðst muna eftir því að þau hefði greint á um tölvu um haustið.  Hefðu þau togast á um tölvuna og hún skemmst.

Aðalmeðferð málsins

                Ákærði segir að umræddan morgun hafi verið mikil ölvun á þeim A.  Hann neitar því hins vegar að hafa slegið hana.  Aftur á móti hafi hún misst stjórn á sér og rifið í hár hans.  Segist hann þá hafa kallað lögreglu til.  Hann minnir að misklíðin hafi komið til af meintu framhjáhaldi.  Hann kannast við að einnig hafi þau rifist út af fartölvu, hvort þeirra ætti hana.  Hafi tölvan farið í gólfið í þeim átökum.  Ákærði kveðst ekki geta skýrt áverkana sem konan var með þegar lögreglan kom á vettvang nema þá að þeir hafi hlotist af átökum þeirra um tölvuna.  Hafi þau togast á um tölvuna og konan náð henni af honum.  Við það hafi hún fallið við og tölvan lent í gólfinu.  Ítrekar hann að hann hafi ekki slegið A.   

                A hefur skýrt frá því að ákærði hafi reiðst þegar hringt var í hana úr ókunnu númeri.  Hafi hann vakið hana með látum.  Hún segir þetta atvik vera í svolítilli móðu fyrir sér.  Hafi þau farið að slást og ákærði tekið tölvuna hennar.  Hún hafi reynt að ná tölvunni af honum hafi hann þá kýlt hana fimm sinnum í hökuna svo hún datt í gólfið. 

                   C yfirlæknir hefur komið fyrir dóm.  Segir hún að um ferska áverkar hafi verið að ræða á A.

                D lögreglumaður var einn þeirra sem kvaddir voru í [...] í umrætt sinn.  Segir hann A hafa verið með áverka í andliti, mar að hann minnir.  

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök.  Á hinn bóginn hefur A verið stöðug í frásögn sinni af atvikinu og dóminum þykir vottorð C yfirlæknis styðja mjög við framburð hennar.  Telst þannig vera sannað að ákærði veittist að A og sló hana nokkur högg á kjálkann svo að hún féll við og meiddist, eins og lýst er í ákærunni.  Hefur ákærði með þessu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærði á að baki talsverða brotaferil allt frá árinu 1997.  Hefur hann hlotið tíu dóma, ýmist fyrir umferðar-, fíkniefna- og hegningarlagabrot.  Þá hefur hann þrisvar verið sektaður fyrir umferðarlagabrot og einu sinni fyrir fíkniefnalagabrot.  Brot ákærða voru fólskuleg og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi 6 mánuði. 

                Af hálfu A hefur þess verið krafist að ákærði greiði henni 1.500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 13. ágúst 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá 17. maí 2012 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.  Miski A þykir hæfilega metinn 300.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða henni þá fjárhæð í miskabætur ásamt vöxtum, eins og krafist er.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Gunnarssyni hdl., 345.125 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.  Jafnframt ber að dæma ákærða til þess að greiða Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hrl., 150.000 krónur í þóknun, sem dæmist með virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað, 65.550 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómar kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi 6 mánuði. 

                Ákærði greiði A 300.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 13. ágúst 2011 en dráttarvöxtum frá 17. maí 2012 til greiðsludags. 

                Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Gunnarssyni hdl., 345.125 krónur í málsvarnarlaun og Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hrl., 150.000 krónur í þóknun.

Annan sakarkostnað, 65.550 krónur, greiði ákærði einnig.