Hæstiréttur íslands

Mál nr. 534/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. október 2008.

Nr. 534/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. október 2008 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að varnaraðili sé grunaður um að eiga aðild að innflutningi fíkniefna sem komu til Seyðisfjarðar með farþegaskipinu Norrænu 2. september 2008. Munu fíkniefnin hafa fundist í bifreið manns sem lögregla handtók og sætir hann nú rannsókn vegna málsins. Það athugist að í hinum kærða úrskurði er sagt að efnin hafi fundist í bifreið „sem kærði hafi verið með“ og er þar sýnilega átt við manninn sem handtekinn var en ekki varnaraðila. Grunsemdir sóknaraðila um aðild varnaraðila að þessum innflutningi byggist á því að í fórum mannsins sem handtekinn var hafi fundist símanúmer varnaraðila, símanúmer móður hans í Þýskalandi sem og manns sem talinn er búa með henni. Þá hafi fundist á heimili varnaraðila pappírar þar sem nöfn móður hans og sambýlismanns hennar hafi verið að finna. Loks byggist grunur lögreglu á því að maðurinn sem handtekinn var 2. september 2008 hafi borið um að hafa komið til Íslands í apríl 2008 og hafi varnaraðili þá sótt hann til Seyðisfjarðar. Varnaraðili segist aldrei hafa ferðast innanlands á Íslandi út fyrir höfuðborgarsvæðið og segist ekki þekkja handtekna manninn. Segir hann hugsanlegt að þeir hafi hist á skemmtistað fyrr á árinu og skipst á símanúmerum eins og hann telur algengt að samlandar geri við slík tækifæri. Þá kveðst varnaraðili ekki þekkja manninn sem talinn er búa með móður hans og ekki heldur kannast við miðann sem fannst á heimili hans en taldi hugsanlegt að móðir hans hefði skilið hann þar eftir, þegar hún hafi verið í heimsókn hjá honum fyrr á árinu.

Sóknaraðili hefur ekki með sakbendingu eða á annan hátt freistað þess að sanna að varnaraðili segi ósatt um kynni sín af manni þeim sem handtekinn var 2. september 2008 og segir að varnaraðili hafi sótt sig til Seyðisfjarðar í apríl 2008. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn lagt fyrir Hæstarétt nýjar vitnaskýrslur um að varnaraðili þekki bæði handtekna manninn og þann mann sem sagður er búa með móður varnaraðila. Með þessum gögnum þykir sóknaraðili hafa leitt líkur að því að varnaraðili segi ósatt um þetta.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er það skilyrði gæsluvarðhalds að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Af gögnum málsins, og þá einkum nefndum framburðarskýrslum sem lagðar hafa verið fyrir Hæstarétt, verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur í skilningi lagaákvæðisins um aðild varnaraðila að innflutningi fíkniefnanna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður  Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2008, þriðjudaginn 30. september,

            Ár 2008, þriðjudaginn 30. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allan V. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði að X, kt. […], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 7. október 2008, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 2. september sl. hafi þýski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Íslands, Seyðisfjarðar, með farþegaskipinu Norrænu.  Í bifreið sem kærði hafi verið með í Norrænu hafi fundist mikið magn fíkniefna, bæði amfetamín og hass, sbr. nánar í hjálögðum gögnum.  Hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verið falin rannsókn málsins. 

Við handtöku hafi fundist í fórum Y, símanúmer sem reynist vera heimasímanúmer X.  Einnig hafi fundist í fórum Y símanúmer móður X, sem býr í Þýskalandi og símanúmer Z, sem einnig býr í Þýskalandi og talið sé að búi með móður X.  Þá hafi Y borið um að hafa áður komið til Íslands í apríl á þessu ári og hafi X þá sótt hann við komuna til landsins, til Seyðisfjarðar. Við leit á heimili X í gær hafi fundist pappírar þar sem hvoru tveggja sé að finna nöfn Z og móður X.

X bar svo um í skýrslutöku hjá lögreglu að hann kannaðist ekkert við Y og kannaðist ekkert við ferð austur á land til að sækja hann í apríl á þessu ári.  Þá kvaðst hann ekki kannast við áðurgreindan Z.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá voru Y og áðurgreindur Z saman í fangelsi í Ultsen í Þýskalandi og kynntust þar. 

Rannsókn lögreglu miðar að, að upplýsa um hver/hverjir eigi þau fíkniefni sem haldlögð hafi verið, hverjir stóðu að innflutningnum, fjármögnun og skipulagningu.  Hafi við rannsóknina meðal annars verið leitað atbeina erlendra lögregluyfirvalda.  Talið sé að X tengist innflutningi á greindum fíkniefnum með einhverjum hætti, en kanna þarf nánar ætlaða aðild hans.

Rökstuddur grunur sé um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnabroti.  Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem ganga lausir og/eða þeir sett sig í samband við hann og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafi ekki verið haldlagðir. Þykir þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi.  

Rannsókn málsins sé umfangsmikil. Frekari gagnaöflun þarf að fara fram varðandi aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun.  Mikilvægt sé að lögregla geti nálgast þær upplýsingar á meðan kærði sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. 

Til rannsóknar sé ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu broti gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda skilyrðum a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt.

Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og áðurnefds a- liðar 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 7. október 2008, kl. 16.00.