Hæstiréttur íslands

Mál nr. 667/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
  • Nauðungarsala


Mánudaginn 28. október 2013.

Nr. 667/2013.

Gljúfrasel ehf.

(Hannes Ragnarsson fyrirsvarsmaður)

gegn

Fagfólki ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging. Nauðungarsala.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem G ehf. var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli félagsins á hendur F ehf. um gildi nauðungarsölu á tveimur eignarhlutum G ehf. í nánar tilgreindri fasteign. Kröfu sinni til stuðnings vísaði F ehf. til þess G ehf. hefði vanrækt að greiða ýmsar tilgreindar smáskuldir og á þær hafi bæst dráttarvextir og kostnaður. Eina eign félagsins hafi verið þeir tveir eignarhlutar sem seldir hafi verið nauðungarsölu. Hæstiréttur féllst á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að heimilt væri að setja fram kröfu um málskostnaðartryggingu í málum af þessum toga. Fram kom í niðurstöðu Hæstaréttar að G hf. hefði lagt fram gögn til réttarins þar sem fram kæmi að félagið hafi skilað ársreikningi fyrir árið 2012. Þá lægi ekki fyrir að gerð hafi verið árangurslaus aðför á hendur G ehf. Ekki yrðu dregnar þær ályktanir af þeim röksemdum sem F ehf. hafi sett fram fyrir kröfu sinni að nægar líkur væru til þess að G ehf. væri ófær um greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var kröfu E hf. hafnað. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2013, þar sem sóknaraðila var gert skylt innan tveggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðila til ógildingar á nauðungarsölu tveggja eignarhluta sóknaraðila í nánar tilgreindri fasteign. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallist er á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að heimilt sé að setja fram kröfu um málskostnaðartryggingu í málum af þeim toga, sem hér um ræðir.

Krafa varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er reist á b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því lagaákvæði getur varnaraðili krafist þess við þingfestingu máls að sóknaraðili setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu kostnaðarins. Rök varnaraðila lúta að því að málið varði kröfu sóknaraðila um ógildingu nauðungarsölu. Sóknaraðili hafi vanrækt að greiða ýmsar tilgreindar smáskuldir og á þær hafi bæst dráttarvextir og kostnaður. Eina eign sóknaraðila hafi verið þeir tveir eignarhlutar í húsinu að Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, sem seldir hafi verið nauðungarsölu. Þá kemur fram í hinum kærða úrskurði að sóknaraðili hafi ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2012.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlit frá ríkisskattstjóra 4. október 2013 þar sem fram kemur að hann hafi skilað ársreikningi fyrir árið 2012 til embættisins 3. október 2013.

Ekki liggur fyrir að gerð hafi verið árangurslaus aðför á hendur sóknaraðila.

Af þeim röksemdum sem varnaraðili hefur sett fram fyrir kröfu sinni um málskostnaðartryggingu verða ekki dregnar þær ályktanir að nægar líkur séu til þess að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sem á hann kynni að vera felldur í máli þessu. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verður kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Fagfólk ehf., greiði sóknaraðila, Gljúfraseli ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2013.

                Með beiðni, dags. 12. júlí 2013, móttekinni sama dag, leitaði sóknaraðili, Gljúfrasel ehf., úrlausnar dómsins vegna uppboðs á fasteignum að Hvaleyrarbraut 22 í Hafnarfirði, fastanr. 230-1248 og 230-1249, með vísan til 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í téðri beiðni krefst sóknaraðili „ógildingar á uppboðsbeiðni“ varnaraðila, Fagfólks ehf., og „ómerkingu og ógildingar uppboðs“ á eignunum hinn 14. júní 2013. Máli þessu var úthlutað dómara 7. september 2013 og það var þingfest 12. s.m., en þá setti varnaraðili fram kröfu um málskostnaðartryggingu, sbr. b-lið 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu sóknaraðila var kröfunni mótmælt og var málið tekið til úrskurðar 23. september sl. um þennan ágreining aðila, en áður reifuðu lögmenn aðila sjónarmið sín um hann.

                Varnaraðili byggir kröfu sína um málskostnaðartryggingu á því að sóknaraðili hafi ekki getu til að greiða málskostnaðartryggingu, en fram komi í gögnum málsins að hann hafi verið í vanskilum með lítil og óveruleg útgjöld vegna umræddra fasteigna og að hann eigi engar aðrar eignir en um ræðir í máli þessu. Mótmæli sóknaraðila við kröfu varnaraðila um málskostnaðar­tryggingu eru reist á því að ekki sé um að ræða hefðbundið einkamál og 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölur væri þýðingar­laus ef ákvæði 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ætti við. Jafnframt segir sóknaraðili að ekki hafi verið lögð fram gögn um meint vanskil hans.

                 Í XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölur eru sérreglur um það hvernig hægt er að leita til dómstóla til að fá úrlausn um gildi nauðungarsölu en almennum reglum um meðferð einkamála í héraði verður beitt að öðru leyti við meðferð mála samkvæmt þessum kafla, eftir því sem þær geta átt við, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Að þessu virtu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 224/2012 er því hafnað að varnaraðili geti ekki sett fram kröfu um málskostnaðar­tryggingu í máli sem þessu. Fyrir liggur að sóknaraðili hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2012. Nauðungarsölur þær sem mál þetta er risið af benda óneitanlega til þess að líkur séu á því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu máls­kostnaðar, verði sá kostnaður á hann felldur. Sóknaraðili hefur á engan hátt leitast við að hnekkja þessum líkum, með framlagningu gagna um að fjárhagur hans sé betri en ástæða er til að ætla af fyrirliggjandi nauðungarsölum. Samkvæmt framansögðu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður fallist á kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu að fjárhæð 500.000 krónur. Ber sóknaraðila að setja hana á þann hátt og innan þess frests sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Sóknaraðila, Gljúfraseli ehf., er skylt innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila, Fagfólki ehf.