Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2003
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Umboð
- Sakarefni
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 2004. |
|
Nr. 413/2003. |
Halldór Salomon Eggertsson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn þrotabúi Húsvangs ehf. og Þóroddi Steini Skaptasyni (Valgeir Pálsson hrl.) |
Fasteignakaup. Umboð. Sakarefni. Gjafsókn.
H seldi fasteign sína fyrir milligöngu fasteignasölunnar H ehf., þar sem Þ starfaði sem löggiltur fasteignasali, en G var þar framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Lokagreiðsla vegna viðskiptanna var greidd á fasteignasölunni að H fjarstöddum en skilaði sér ekki til hans og krafðist hann greiðslu fjárins að óskiptu úr hendi H ehf., Þ og G. Hafði H veitt G umboð til að annast viðskiptin fyrir sig. Í héraði varð útivist af hálfu G og var krafa H á hendur honum tekin til greina en H ehf. og Þ sýknuð. Fyrir héraðsómi byggði H á því að á milli hans og G hafi verið sérstakt trúnaðarsamband og umboðið hafi verið veitt honum persónulega. Talið var að H hefði með þessum málatilbúnaði ráðstafað sakarefninu þannig að ekki yrðu aðrir en G látnir sæta ábyrgð á vanefndum þeim er H hafði orðið fyrir og voru þrotabú H ehf. og Þ sýknuð af kröfu H, en þáttur G var ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein
Héraðsdómi var áfrýjað 22. október 2003. Áfrýjandi krefst þess, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér 972.123 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. nóvember 2000 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál hér fyrir dómi.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að fjárhæð dómkröfu áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Verði dómkrafan að einhverju leyti tekin til greina er þess krafist, að vextir verði reiknaðir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. maí 2002 gagnvart stefnda þrotabúi Húsvangs ehf. en frá 18. júní sama ár gagnvart stefnda Þóroddi Steini.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.
Auk stefndu hér fyrir dómi var héraðsdómi áfrýjað á hendur dómfellda í héraði, Guðmundi Jónasi McCann Tómassyni, og krafist staðfestingar dómsins gagnvart honum auk málskostnaðar úr hans hendi sameiginlega með öðrum stefndu. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu gagnvart Guðmundi Jónasi, sem ekki hafði látið málið til sín taka.
Eins og greinir í málavaxtalýsingu héraðsdóms veitti áfrýjandi Guðmundi Jónasi, framkvæmdastjóra og stjórnarmanni fasteignasölunnar Húsvangs ehf., 2. október 2000 „fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita kaupsamning, fasteignaveðbréf, afsal og öll önnur skjöl er varða sölu á íbúð minni að Grandavegi 5, Reykjavík.“ Í þessu umboði, sem gefið var út eftir undirritun kaupsamnings um íbúðina 19. september 2000, var hvorki minnst á heimild Guðmundar Jónasar til móttöku og ráðstöfunar á kaupsamningsgreiðslu né atbeina fasteignasölunnar Húsvangs ehf. Fyrir liggur í málinu handrituð en ódagsett yfirlýsing áfrýjanda, þar sem fram kemur, að hann hafi gefið Guðmundi Jónasi „umboð til að ganga frá síðustu greiðslu og sjá um afhendingu afsals, vegna þess að ég var erlendis.“
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð lögregluskýrsla frá 28. mars 2003 um yfirheyrslu yfir Guðmundi Jónasi, sem ekki kom fyrir héraðsdóm. Þar kvað hann áfrýjanda hafa verið náinn vin sinn og hafi hann komið sölu íbúðarinnar nr. 5 við Grandaveg í kring og að öllu leyti séð um mál áfrýjanda tengd sölu hennar. Hann hafi fengið skriflegt og víðtækt umboð til að sinna málum áfrýjanda vegna sölunnar og telji hann það hafa falið í sér heimild til að taka við fjármunum fyrir hönd hans. Hann hafi greitt áfrýjanda af sérreikningi í vörslu fasteignasölunnar 1.500.000 krónur 17. ágúst 2001. Sama dag hafi hann eyðilagt bókina og fengið eftirstöðvarnar að láni með vitund og samþykki áfrýjanda. Hann ítrekaði, að umrætt umboð hefði verið „útbúið persónulega þeirra í milli en ekki á vegum Húsvangs.“ Í lok skýrslutökunnar kvaðst Guðmundur Jónas samþykkja bótakröfuna.
Áfrýjandi lagði mál sitt þannig fyrir dómstóla með stefnu til héraðsdóms, að Guðmundur Jónas hefði verið í „sérstöku trúnaðarsambandi“ við sig og hefði ábyrgð hans verið „persónuleg“, þar sem honum hefði verið veitt „persónulegt umboð“ til að ganga frá öllum skjölum vegna sölu íbúðarinnar. Á það verður fallist með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi með þessu ráðstafað sakarefninu á þann veg, að hann hafi talið Guðmund Jónas bera persónulega ábyrgð á þeim vanefndum, sem mál þetta er sprottið af, sbr. 45. gr. og 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er það í samræmi við framangreinda lýsingu Guðmundar Jónasar fyrir lögreglu. Af þessu leiðir, eins og nánar greinir í forsendum héraðsdóms, að stefndu verða sýknaðir af kröfu áfrýjanda, og þarf þá ekki að taka afstöðu til annarra málsástæðna hans.
Eftir atvikum verður málskostnaður í héraði milli aðila þessa hæstaréttarmáls látinn falla niður. Rétt er, að áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, en gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði. Um hvorttveggja er nánar mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, þrotabú Húsvangs ehf. og Þóroddur Steinn Skaptason, eru sýknir af kröfu áfrýjanda, Halldórs Salomons Eggertssonar.
Málskostnaður í héraði milli aðila þessa hæstaréttarmáls fellur niður.
Áfrýjandi greiði stefndu hvorum um sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. þessa mánaðar, er höfðað 14. júní 2002 af Halldóri Salomon Eggertssyni, Lindargötu 66, Reykjavík, gegn Guðmundi Jónasi McCann Tómassyni, Selbrekku 24, Kópavogi „persónulega og fyrir hönd Húsvangs ehf.”, Þóroddi Skaptasyni, Miðvangi 3, Hafnarfirði „persónulega og öllum in solidum til greiðslu kr. 972.123.” Þá er Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, stefnt til réttargæslu, en engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Stefnandi krefst greiðslu 972.123 króna með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987, sbr. breytingarlög nr. 38/2001, frá 20. nóvember 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostaðar.
Af hálfu stefndu, Þórodds Steins Skaptasonar og þrotabús Húsvangs ehf., er þess aðallega krafist, að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað.
I.
Fasteignasalan Húsvangur ehf. tók að sér á árinu 2000, að annast sölu á þriggja herbergja íbúð stefnanda að Grandavegi 5, Reykjavík. Gerði nafngreindur maður tilboð í eignina 30. ágúst 2000 að fjárhæð 14.300.000 krónur. Aðilar gerðu með sér kaupsamning um eignina 19. september 2000, sem byggður var á tilboðinu. Skyldi kaupverð greiðast þannig, að yfirteknar veðskuldir námu 7.127.877 krónum, og þá skyldi gefið út fasteignaveðbréf að upphæð 2.167.123 krónur. Að lokum skyldi kaupandi greiða í peningum samtals 5.005.000 krónur, sem hér segir: Við undirritun kaupsamnings 2.532.877 krónur og 2.472.123 krónur 20. nóvember 2000, en þann dag skyldi afsal einnig gefið út. Eignin skyldi afhent 2. október 2000. Ekki er annað komið fram í málinu en að eignin hafi verið afhent á umsömdum degi og að kaupandi hafi efnt samningsskyldur sínar. Hins vegar fór svo, að stefnandi fékk ekki greiddar nema 1.500.000 krónur af síðari peningagreiðslunni og standa því 972.123 krónur eftir, sem stefnandi gerir í máli þessu kröfu til, að sér verði greiddar.
Þann 26. nóvember 2002 kærði stefnandi stefnda, Þórodd Stein, til lögreglu fyrir að hafa dregið sér umrætt fé. Kemur fram í kæruskýrslu, að ekki hafi verið innifalið í umboðinu til stefnda, Guðmundar Jónasar, að taka við fjármunum vegna sölu umræddrar fasteignar fyrir hönd stefnanda.
Bú stefnda, Húsvangs ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 30. desember 2002, og hefur þrotabúið því tekið við aðild félagsins að málinu, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
II.
Stefnandi reisir málsóknina á því, að aðstandendum fasteignasölunnar Húsvangs ehf. hafi borið að skila lokagreiðslunni til stefnanda á réttum tíma, en stefndi, Guðmundur Jónas McCann Tómasson, hafi tekið við greiðslunni. Stefndi, Guðmundur Jónas, hafi verið stjórnarmaður Húsvangs ehf., og hafi hann fengið sérstakt umboð frá stefnanda til að taka á móti peningum, þar sem stefnandi hafi verið staddur í útlöndum á sama tíma. Hafi stefndi, Guðmundur Jónas, því verið í sérstöku trúnaðarsambandi við stefnanda, þar sem honum hafi verið gefið fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita kaupsamning og öll önnur skjöl varðandi sölu á íbúð stefnanda, Grandavegi 5, Reykjavík. Sé ábyrgð stefnda, Guðmundar Jónasar, því persónuleg, þar sem honum hafi verið veitt persónulegt umboð til að ganga frá öllum skjölum, þ.m.t. afsali, vegna eignarinnar. Sé jafnframt ljóst, að „hegðun stefndu varðar við ákvæði 247. gr. laga nr. 19/1940 um fjárdrátt.”
Stefndi, Þóroddur Steinn, hafi á þeim tíma, er samningur komst á, verið ábyrgðarmaður fasteignasölunnar hjá réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., samkvæmt starfsábyrgðartryggingu réttargæslustefnda. Sé þessi stefndi krafinn persónulega um greiðslu stefnufjárhæðar á grundvelli starfsábyrgðartryggingarinnar og culpa- reglunnar.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu sé kveðið á um ábyrgðartryggingu fasteignasala vegna fjártjóns, sem leitt er af gáleysi í störfum fasteignasala og rekja má til sakar þeirra á skaðabótagrundvelli. Hafi stefndi, Þóroddur Steinn, verið tryggður sem ábyrgðaraðili f.h. Húsvangs ehf. og þeirra, sem þar starfa, svo sem meðstefnda, Guðmundar Jónasar. Eigi stefnandi kröfu til þess, að báðir stefndu, Guðmundur Jónas og Þóroddur Steinn, standi honum persónulega og f.h. félagsins skil á þeim fjármunum, sem þeim hafi verið trúað fyrir samkvæmt meginreglum fjármuna- og kröfuréttarins.
Telja verði eðlilegt að stefna Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu samkvæmt 21. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, vegna sakar starfsmanna Húsvangs ehf. Gildi þar einu, hvort sök framangreindra aðila sé til komin vegna gáleysis, ásetnings eða á kröfuréttarlegum grunni. Sé ábyrgð þeirra sú sama og beri réttargæslustefndi ábyrgð á gerðum þeirra samkvæmt ábyrgðarskilmálum, en þar segi m.a., að vátrygging gildi gegn bótaskyldu, er falli á fasteignasala, þegar þriðji maður (stefnandi) verður fyrir almennu fjártjóni, sem rakið verði til fasteignasala sjálfs eða starfsmanns hans.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna fjármuna- og kröfuréttarins um loforð og efndir samninga, þar sem stefndu hafi lofað að selja fyrir stefnanda eign hans gegn því að standa honum skil á söluandvirði eignarinnar. Þá er byggt á culpa-reglu skaðabótaréttarins, þar sem sök stefndu liggi fyrir í málinu. Einnig er byggt á því, að stefndu hafi gerst sekir um refsiverðan verknað og dregið sér fjármuni, sem þeir ekki eiga skv. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Af hálfu stefndu, þrotabús Húsvangs ehf. og Þórodds Steins, er á því byggt, að engum vafa sé undirorpið, að stefnandi hafi falið stefnda, Guðmundi Jónasi, persónulega að undirrita afsal fyrir sína hönd, ásamt því að veita þá viðtöku lokagreiðslu kaupverðsins. Gjörðir stefnda, Guðmundar Jónasar, í þessu sambandi hafi því ekki verið á vegum Húsvangs ehf. Starfstengsl stefnda, Guðmundar Jónasar, við Húsvang ehf. hafi því ekkert með það að gera, hvernig hann ráðstafaði þeim fjármunum, sem honum hafi persónulega verið trúað fyrir. Geti Húsvangur ehf. af þeim sökum ekki borið húsbóndaábyrgð á því, hvernig stefndi, Guðmundur Jónas, fór með það fé, sem stefnandi hafi falið honum persónulega að taka við. Vilji stefnandi nú halda því fram, að stefndi, Guðmundur Jónas, hafi farið öðruvísi með féð en um hafði verið samið þeirra í milli, geti hann ekki krafið stefnda, Húsvang ehf., um greiðslu eftirstöðvanna á grundvelli skaðabótareglna. Eins og hinu persónulega samningssambandi stefnanda og stefnda, Guðmundar Jónasar, hafi verið háttað varðandi hina umdeildu peningagreiðslu, verði heldur ekki séð, að stefnandi eigi kröfu á hendur Húsvangi ehf. samkvæmt reglum kröfuréttarins.
Stefndi, Guðmundur Jónas, hafi tekið við peningagreiðslunni og varðveitt í eigin nafni. Stefndi, Þóroddur Steinn, hafi gegnt starfi löggilts fasteignasala hjá Húsvangi ehf., þegar sala á íbúð stefnanda fór fram á árinu 2000 og borið sem slíkur skyldur, m.a. samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1997. Þrátt fyrir þessa stöðu hjá fasteignasölunni hafi hann engan rétt haft til íhlutunar í það, hvernig stefndi, Guðmundur Jónas, fór með fé það, sem hann hafi persónulega tekið við og varðveitt í eigin nafni fyrir stefnanda. Hafi stefndi, Þóroddur Steinn, því engu um það ráðið, hvernig meðstefndi, Guðmundur Jónas, hagaði skilum gagnvart stefnanda. Sé því ekki um að ræða, að stefndi, Þóroddur Steinn, hafi á einhvern hátt gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 54/1997, enda sé slíku ekki haldið fram af stefnanda hálfu. Fráleitt sé, að stefndi, Þóroddur Steinn, hafi með saknæmum hætti á einhvern hátt verið valdur að því að meðstefndi, Guðmundur Jónas, hafi ekki staðið skil á öllu fénu, sem hann hafi tekið við úr hendi kaupanda eignarinnar. Krafa stefnanda á hendur stefnda, Þóroddi Steini, geti því með engu móti byggst á sakarreglunni.
Þótt starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi hjá réttargæslustefnda, þar sem stefndi, Þóroddur Steinn, hafi stöðu vátryggðs, þá sé af og frá, að það veiti stefnanda einhvern rétt til að krefja hann persónulega. Rík áhersla sé á það lögð, að stefnda, Þóroddi Steini, hafi ekki, hvorki persónulega né í nafni stefnda Húsvangs ehf., verið trúað fyrir hinum umdeildu fjármunum, sem stefndi, Guðmundur Jónas, hafi tekið við fyrir hönd stefnanda. Sé gagnstæðum fullyrðingum af hálfu stefnanda alfarið vísað á bug sem röngum og ósönnuðum. Verði stefnda, Þóroddi Steini, því ekki gert að standa skil á fjármunum þessum til stefnanda.
Þá eigi óljósar vangaveltur stefnanda um hugsanlega bótaábyrgð stefndu á grundvelli þess, að starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi, ekki við nokkur rök að styðjast.
Stefnandi haldi því fram, að réttargæslustefndi beri ábyrgð á gerðum stefndu samkvæmt ábyrgðarskilmálum. Vátryggingarsamningur milli réttargæslustefnda og stefnda Húsvangs ehf. sé ekki til skoðunar í máli þessu. Þá sé ábyrgð réttargæslustefnda heldur ekki til skoðunar í málinu.
Í tilefni af umfjöllun í stefnu um hugsanlega ábyrgð réttargæslustefnda sé rétt að geta þess, að ábyrgð hans fari eftir því því, sem segi í lögum nr. 54/1997, reglugerð nr. 613/1997, um tryggingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala, svo og vátryggingarskilmálum hans um starfsábyrgðartryggingu fasteignasala. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1997 segi, að fasteignasala sé skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns, sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans. Samhljóða ákvæði sé að finna í 1. mgr. l. gr. reglugerðar nr. 613/1997. Í 2. gr. vátryggingarskilmálanna sé fjallað um gildissvið vátryggingarinnar. Þar segi, að vátryggt sé gegn þeirri vátryggingarskyldu, er fellur á vátryggingartaka sem fasteignasala, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni, sem rakið verður til vátryggingartaka sjálfs eða starfsmanna hans. Í 3. gr. skilmálanna séu tilgreindar þær áhættur, sem undanskildar eru í vátryggingunni. Samkvæmt grein 3.2 taki vátryggingin ekki til ábyrgðar, sem rakin verði til ásetnings vátryggingartaka eða starfsmanna hans. Eigi krafa stefnanda við rök að styðjast, og eins og tilurð hennar sé lýst af hálfu stefnanda, sé klárt, að stefndi, Guðmundur Jónas, hafi af ásetningi haldið fénu eftir og að líkindum nýtt það í eigin þágu. Í ljósi tilvitnaðra ákvæða í lögum nr. 54/1997, reglugerð nr. 613/1997 og vátryggingarskilmálum þurfi vart um það að deila, að tjón stefnanda verði ekki bætt úr starfsábyrgðartryggingunni.
Fari svo ólíklega, að ekki verði fallist á sýknukröfur stefndu sé kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta eindregið mótmælt. Húsvangur ehf. hafi fyrst verið krafinn um þær bætur, sem mál þetta snýst um, með bréfi, dagsettu 17. apríl 2002. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geti krafa á hendur honum því fyrst borið dráttarvexti frá 17. maí 2002. Stefndi, Þóroddur Steinn, hafi fyrst krafinn um greiðslu við höfðun þessa dómsmáls. Verði hann því ekki krafinn verið krafinn um greiðslu dráttarvaxta, fyrr en i fyrsta lagi frá þeim degi, sem mál þetta telst höfðað á hendur honum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
III.
Vörnum er ekki haldið uppi í málinu af hálfu stefnda, Guðmundar Jónasar, þrátt fyrir lögmæta stefnubirtingu, og verður málið því dæmt, hvað hann varðar, eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda, að því leyti, sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991.
Í málinu liggur fyrir umboð, dagsett 2. október 2000, frá stefnanda til stefnda, Guðmundar Jónasar, þar sem stefnda er veitt fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita kaupsamning, fasteignaveðbréf, afsal og öll önnur skjöl, er varða sölu á umræddri íbúð stefnanda. Var umboðið útbúið af stefnda, Þóroddi Steini, í tilefni af því, að stefnandi var á förum til útlanda og fyrirsjáanlegt, að hann yrði þar, er síðasta kaupsamningsgreiðsla skyldi innt af hendi. Í ódagsettri yfirlýsingu stefnanda kemur fram, að hann hafi gefið starfsmanni Húsvangs ehf., Guðmundi Jónasi, umboð til að „... ganga frá síðustu greiðslu og sjá um afhendingu afsals ...”
Fram er komið í málinu, að stefndi, Guðmundur Jónas, var stjórnarmaður Húsvangs ehf., framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Fyrir dómi hefur stefnandi kannast við, að kunningsskapur hafi verið með honum og stefnda, Guðmundi Jónasi, en borið, að ekki hafi verið um vinskap að ræða.
Upplýst er í málinu og ómótmælt af stefnanda hálfu, að stefndi, Þóroddur Steinn, hafi verið á föstum launum hjá Húsvangi ehf. og ekki tekið hlutfallslega þóknun af sölu eigna. Þá hafi hann ekki átt eignaraðild að félaginu eða haft prókúruumboð fyrir það. Verður að telja nægjanlega fram komið í málinu, að stefndi, Guðmundur Jónas, hafi, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins, séð um fjármálaumsýslu þess.
Í stefnu segir svo: „Guðmundur [Jónas McCann Tómasson] er stjórnarmaður Húsvangs ehf og fékk sérstakt umboð frá stefnanda til að taka á móti peningum, þar sem hann var staddur í útlöndum á sama tíma. Guðmundur var því í sérstöku trúnaðarsambandi við stefnanda, þar sem honum var gefið fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita kaupsamning og öll önnur skjöl varðandi sölu á íbúð stefnanda [...] Ábyrgð stefnda, Guðmundar, er því persónuleg, þar sem honum var veitt persónulegt umboð til að ganga frá öllum skjölum þ.m.t. afsali vegna eignarinnar.”
Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að umrædd kaupsamningsgreiðsla, að fjárhæð 2.472.123, hafi verið innt af hendi á tilskildum tíma, eða 20. nóvember 2000. Svo sem áður greinir, var einungis hluta hennar, 1.500.000 krónum, skilað til stefnanda. Var greiðslan ekki innt af hendi fyrr en 17. ágúst 2001, eða um 9 mánuðum eftir að kaupandi áðurnefndrar fasteignar efndi kaupsamninginn af sinni hálfu. Þá var Húsvangur ekki krafinn um eftirstöðvar greiðslunnar fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 17. apríl 2002, eða um einu og hálfu ári eftir að greiðslan var innt af hendi. Hefur stefnandi ekki gefið neinar skýringar á því, að hann sýndi þessa biðlund vegna dráttar á greiðslunni og hvers vegna svo langur tími leið frá því kaupandi innti hana af hendi, þar til stefnandi beindi kröfunni að Húsvangi ehf. Þykir framangreint því renna stoðum undir þá málsástæðu stefnanda, að hann hafi gefið stefnda, Guðmundi Jónasi, persónulegt umboð til að taka við greiðslunni.
Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á. Stefnandi hefur ráðstafað sakarefninu svo sem að ofan greinir. Af hálfu stefndu, Þórodds Steins og þrotabús Húsvangs ehf., er fallist á þá lýsingu á aðkomu stefnda, Guðmundar Jónasar, að málinu, sem byggt er á samkvæmt framansögðu í stefnu. Er hér því um bindandi málflutningsyfirlýsingu að ræða af hálfu stefnanda, sbr. 45. gr. og 1. mgr. 50. gr. nefndra laga. Verður því að telja, að stefndi, Guðmundur Jónas, beri persónulega ábyrgð gagnvart stefnanda á vanefndum þeim, er mál þetta er sprottið af. Af því leiðir jafnframt óhjákvæmilega, að fallast verður á með stefnda, þrotabúi Húsvangs ehf., að starfstengsl stefnda, Guðmundar Jónasar, við Húsvang ehf. hafi ekki haft með það að gera, hvernig hinn fyrrnefndi ráðstafaði þeim fjármunum, sem honum var persónulega trúað fyrir, svo sem byggt er á af hálfu stefnanda. Ber þrotabúið þar af leiðandi ekki húsbóndaábyrgð á því, hvernig stefndi, Guðmundur Jónas, fór með það fé, sem stefnandi fól honum persónulega að taka við.
Stefnandi byggir bótaábyrgð stefnda, Þórodds Steins, á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu og „meginreglum fjármuna- og kröfuréttarins.” Í umræddri lagagrein er kveðið á um, að fasteignasala sé skylt að hafa í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns, sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans. Samhljóða ákvæði er að finna í 1. mgr. 1. gr. reglugerð nr. 613/1997, sem sett er með stoð í nefndum lögum.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu dómsins eru engin efni til að fallast á með stefnanda, að stefndi, Þóroddur Steinn, hafi sýnt af sér gáleysi í störfum sínum vegna sölu umræddrar fasteignar stefnanda, heldur verður, með vísan til framanritaðs, að miða við, að stefnandi hafi falið stefnda, Guðmundi Jónasi, persónulega að taka við þeirri greiðslu, sem mál þetta snýst um. Hafði stefndi, Þóroddur Steinn, því ekkert með ráðstöfun fjárins að gera og getur því ekki borið húsbóndaábyrgð á ráðstöfun meðstefnda, Guðmundar Jónasar, á fénu.
Að virtu öllu framansögðu ber að sýkna stefndu, þrotabú Húsvangs ehf. og Þórodd Stein, af kröfum stefnanda í máli þessu, en dæma stefnda, Guðmund Jónas McCann Tómasson, til greiðslu stefnukröfu, ásamt vöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. maí 2002 til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda, Þóroddi Steini, 200.000 krónur í málskostnað, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli stefnanda og þrotabús Húsvangs ehf., falli niður. Þá verður stefndi, Guðmundur Jónas, dæmdur til að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, þrotabú Húsvangs ehf. og Þóroddur Steinn Skaptason, eru sýknir af kröfum stefnanda, Halldórs Salomons Eggertssonar, í máli þessu.
Stefndi, Guðmundur Jónas McCann Tómasson, greiði stefnanda 972.123 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. maí 2002 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, Þóroddi Steini, 200.000 krónur í málskostnað, en málskostnaður milli stefnanda og þrotabús Húsvangs ehf., fellur niður.