Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-129

Auður Helga Ólafsdóttir (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Veiðifélagi Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár (Grímur Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Jörð
  • Sameign
  • Fyrirsvar
  • Veiðifélag
  • Málamyndagerningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 3. nóvember 2022 leitar Auður Helga Ólafsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. október sama ár í máli nr. 347/2021: Auður Helga Ólafsdóttir gegn Veiðifélagi Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu arðs fyrir árin 2015 og 2017 vegna eignarhluta hennar að jörðinni Rauðamýri en jörðinni fylgdi meðal annars veiðiréttur í Hvannadalsá.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að sameigendur Rauðamýrar hefðu gert með sér samkomulag árið 2000 þar sem öll fjármál sameignarinnar hefðu verið falin fjárhaldsmanni. Á aðalfundi sameigenda á árinu 2015 hefði arðgreiðsla þess árs verið greidd til hans og með því hefði gagnaðili uppfyllt skyldu sína til útgreiðslu arðs það árið. Árið 2017 var engum fjárhaldsmanni fyrir að fara en Landsréttur taldi gagnaðila einnig hafa uppfyllt skyldu sína til útgreiðslu arðs með því að inna greiðslur af hendi til hvers og eins sameigendanna. Leyfisbeiðandi var ekki talinn geta byggt rétt sinn um aukinn eignarhluta á grundvelli málamyndagernings sem leyfisbeiðandi gerði við einn sameigandann um að þinglýsa eignarhlut hans á nafn leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hún til þess að í málinu reyni á hlutverk og skyldur deilda innan veiðifélaga og ábyrgð veiðifélags á stjórnarháttum stjórnarmanna innan deilda, einkum í ljósi skylduaðildar að veiðifélagi, en á þessi atriði hafi ekki áður reynt fyrir Hæstarétti. Jafnframt byggir hún á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem að hún hafi borið athugasemdalaust fram ósk á fundi eigenda jarðarinnar að arður fyrir árið 2015 yrði greiddur beint til hennar en ekki til fjárhaldsmanns. Auk þess hafi það greiðslufyrirkomulag verið viðhaft í annarri deild gagnaðila. Þá hafi hvorki sameigandinn né gagnaðili getað byggt á ólögmætri ráðstöfun til hagsbóta fyrir sameigandann og því hafi átt að greiða leyfisbeiðanda arð fyrir árið 2017 í samræmi við þinglýstar heimildir.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.