Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Húsaleiga
- Aðför
- Útburðargerð
|
|
Miðvikudaginn 17. desember 2003. |
|
Nr. 468/2003. |
Flugmálastjórn Íslands (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf. (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Húsaleiga. Aðför. Útburðargerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu FÍ um að heimilað yrði með beinni aðfarargerð að fá H og F ehf. borna út úr nánar tilteknu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og verkstæðisrými í viðbyggingu þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. desember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að heimilað yrði með beinni aðfarargerð að fá varnaraðila borna út úr nánar tilteknu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og verkstæðisrými í viðbyggingu þess. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að honum verði veitt heimild til fyrrgreindrar aðfarargerðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þeim verði dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur máls þessa að afnotum varnaraðila af tilteknu flugskýli, sem stendur á Reykjavíkurflugvelli, auk verkstæðisrýmis í viðbyggingu við skýlið. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi gert munnlegan leigusamning við varnaraðila um þessi afnot gegn tiltekinni mánaðarlegri leigugreiðslu sem varnaraðilar hafi ekki staðið skil á. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 hafi honum verið heimilt að rifta samningnum og leita eftir heimild héraðsdóms til að fá varnaraðila borna út úr húsnæðinu með beinni aðfarargerð.
Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt reikninga fyrir árin 1996 og 1997 ásamt hreyfingarlistum úr bókhaldi sínu vegna sömu ára. Samkvæmt kæru sóknaraðila er þessum gögnum ætlað að „sanna að með greiðslu á níu reikningum á árunum 1996-1997 hafi varnaraðilar viðurkennt að þeir leiði afnotarétt sinn af flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli frá leigusamningi við sóknaraðila.“
II.
Eins og áður greinir reisir sóknaraðili kröfu sína á því að sökum vanefnda varnaraðila hafi honum verið heimilt að rifta samningi aðila, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 36/1994. Samkvæmt ákvæðinu er leigusala rétt að rifta leigusamningi ef leigjandi greiðir ekki leiguna og sinnir ekki áskorun leigusala þar um. Hinn almenna regla 2. mgr. ákvæðisins um að réttur til riftunar falli niður sé hans ekki neytt innan tveggja mánaða á ekki við þegar ástæða riftunar er vanefnd á greiðslu leigu. Í skýringum með 2. mgr. 61. gr. í frumvarpi til laganna er tekið fram að leigusali geti samt sem áður glatað riftunarrétti sínum fyrir athafnaleysi í lengri tíma en sanngjarnt og eðlilegt má telja.
Í málinu liggur fyrir að aðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning um afnot varnaraðila af umræddu flugskýli. Þá hafa varnaraðilar andmælt þeim fullyrðingum sóknaraðila að þeir hafi gert með sér munnlegan leigusamning á árinu 1996. Af gögnum málsins má ráða að varnaraðilar hafa um nokkurra ára skeið verið með aðstöðu í skýlinu vegna starfsemi sinnar. Liggur ekki annað fyrir en að þeir hafi annast allt viðhald á skýlinu á eigin kostnað. Hefur sóknaraðili ekki skýrt með viðhlítandi hætti hvers vegna sá kostnaður eigi ekki að ganga upp í greiðslu leigu. Gegn andmælum varnaraðila verður ekki heldur séð að sóknaraðili hafi gert reka að því að krefjast greiðslu úr hendi varnaraðila fyrir þessi not þeirra á nefndu skýli. Nægir í þessu sambandi ekki að vísa til gamalla reikninga og hreyfingarlista úr bókhaldi sóknaraðila. Hvað sem líður eignarhaldi sóknaraðila að umræddu flugskýli liggur ekkert fyrir í málinu um réttindi hans að verkstæðisrými í umræddri viðbyggingu. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar. Samkvæmt öllu framanröktu verður úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Flugmálastjórn Íslands, greiði varnaraðilum, Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf., samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2003.
Með aðfararbeiðni, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. ágúst 2003, krefst Flugmálastjórn Íslands, kt. 550169-6819, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, dómsúrskurðar um að Helgi Jónsson, kt. 110238-2239, Bauganesi 44, Reykjavík, og Flugskóli Helga Jónssonar ehf., kt. 650995-2289, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, verði, ásamt öllu sem gerðarþolum tilheyrir, með beinni aðfarargerð bornir út úr: „Flugskýli nr. 7 (Flugskýli Helga Jóns í skrám fasteignamats ríkisins sbr. dómskjal nr. 66) á Reykjavíkurflugvelli auk verkstæðisrýmis í viðbyggingu þess." Gerðarbeiðanda verði fengin umráð eignarinnar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola að mati dómsins.
Dómkröfur gerðarþola eru:
1. Að hafnað verði kröfu gerðarbeiðanda um að gerðarþolar verði með beinni aðfarargerð bornir úr úr húsnæðinu: Flugskýli nr. 7 (Flugskýli Helga Jónssonar í skrám fasteignamats ríkisins) á Reykjavíkurflugvelli auk verkstæðisrýmis í viðbyggingu þess.
2. Að gerðarbeiðandi verði dæmdur til að greiða gerðarþolum málskostnað að skaðlausu eða að mati dómsins.
Helstu málavextir eru að með bréfi, sem birt var gerðarþolum með lögmætum hætti 8. júlí 2003, skoraði gerðarbeiðandi á gerðarþola að gera full skil á vangreiddri leigu samkvæmt munnlegum húsaleigusamningi um leiguafnot af flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli auk verkstæðisrýmis í viðbyggingu eigi síðar en sjö sólarhringum frá móttöku bréfsins. Í bréfinu er tekið fram að hér sé um vangreidda leigu að ræða, sem fallið hafi í gjalddaga á árunum 1999 til og með 2003, samtals að fjárhæð 2.014.133 kr., og áréttað, að yrðu ekki gerð full skil innan þess tíma sem tilgreindur var í bréfinu, yrði leigusamningnum rift án frekari fyrirvara. Og með bréfi, sem birt var gerðarþola, Helga Jónssyni, 16. júlí 2003, lýsti gerðarbeiðandi því yfir að leigusamningi væri rift.
Af hálfu gerðarþola er málavöxtum lýst svo að þeir hafi á árinu 1969 keypt af Björgvin Hermannssyni, sem nú sé látinn, viðbyggingu (verkstæði) svo og aðstöðu til flugkennslu á Reykjavíkurflugvelli. Þeir hafi síðan rekið þar flugskóla og haft m.a. til afnota flugskýli nr. 7. Um eignarhald á þessu flugskýli liggi ekki fyrir nein gögn, en samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Reykjavík sé flugskýlið talið tilheyra Flugskóla Helga Jónssonar.
Gerðarbeiðandi byggir á því að hafa rift leigusamningi við gerðarþola vegna vanskila á húsaleigu og óskað eftir afhendingu eignarinnar, m.a. með bréfi dagsettu 16. júlí 2003, þar eð gerðarbeiðanda sé nauðsynlegt að fá umráð eignarinnar. Gerðarþolar hafa ekki orðið við beiðni gerðarbeiðanda um að afhenda eignina og sé gerðarbeið-anda því nauðsynlegt að krefjast útburðar á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Útburðarkrafan sé byggð á 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, en fyrir liggi að gerðarþolar hafa stórlega vanefnt greiðslu á húsaleigu. Þá byggir gerðarbeiðandi á því sem hann kallar ótvíræðan og kvaðalausan eignar- og umráðarétt íslenska ríkisins á húsnæðinu og umsýslu gerðarbeiðanda fyrir þess hönd, enda hafi leiguréttindum gerðarþola verið réttilega rift.
Gerðarþolar byggja á því að hafa frá upphafi séð alfarið um viðhald flugskýlisins, er hér um ræðir, og sé þar um að ræða verulegar fjárhæðir. Frá árinu 1999 sé kostnaðurinn með vinnu og efni samtals 4.402.000 kr. Á milli gerðarbeiðanda og gerðarþola sé enginn skriflegur leigusamningur og allt það, sem fram hafi farið á milli aðila, hafi verið munnlegt. Aldrei hafi verið samið um neitt leigugjald, en ljóst, að gerðarbeiðandi geti ekki einhliða ákveðið leigugjald. Gerðarbeiðandi sé bundinn af gjaldskrá fyrir afnot flugvalla nr. 544/1998 og nr. 536/2000. Sérstakt ákvæði sé þar að finna um leigugjald flugskýla. Um sé að ræða heimildarákvæði, en upphæð leigugjalds skuli almennt við það miðað, að þau standi straum af tilkostnaði gerðarbeiðanda við umrædd mannvirki. Það sé ljóst að hafi gerðarbeiðandi engan tilkostnað haft sé heldur ekki um að ræða neitt leigugjald. Gerðarbeiðandi hafi engan tilkostnað haft af Flugskýli nr. 7 og því síður af viðbyggingunni, en viðbyggingin sé raunar eign gerðarþola. Gerðarþolar hafi alfarið séð um viðhald flugskýlisins og greitt af því öll opinber gjöld, s.s. fasteignagjöld.
Þá er byggt á því að gerðarbeiðandi geti ekki með einhliða ákvörðun krafið gerðarþola um leigugjald. Gerðarbeiðandi verður í því sambandi að sýna fram á hver tilkostnaður hans sé af flugskýlinu og leggja fyrir gerðarþola, sem síðan eiga rétt á andmælum samkvæmt stjórnsýslulögum. Gerðarbeiðandi hafi með engum hætti gætt þess að fara eflir stjórnsýslulögum í þessu sambandi.
Vísað er til þess að gerðarþolar hafi reynt að ná samkomulagi við gerðarbeiðanda varðandi flugskýlið á árinu 2002 og legið hafi fyrir uppkast að samkomulagi, dags. 28. janúar 2002. Þar hafi m.a. verið gert ráð fyrir því, að við uppgjör vegna afnota af flugskýli 7 yrðu endurbætur og viðhald metið. Af þessu hafi þó ekki orðið. Gerðarþolar mótmæli því alfarið að skulda gerðarbeiðanda vegna flugskýlis nr. 7. Á móti meintu leigugjaldi eigi gerðarþolar skuldajafnaðarkröfu vegna endurbóta og viðhalds, sem sé langt umfram meinta leiguskuld. Gerðarbeiðandi hafi alls ekki sýnt fram á réttmæti kröfu sinnar. Eignarhald ríkisins á flugskýlinu sé vafa undirorpið og hafi gerðarbeiðandi engin gögn lagt fram um eignarhald sitt á þessu flugskýli né viðbyggingunni.
Samkvæmt framangreindu telja gerðarþolar ljóst að skilyrði fyrir beinni aðfarargerð sé ekki fyrir hendi. Ekki sé um að ræða skýlausan rétt gerðarbeiðanda, sem öldungis megi jafna til þess að dómur hafi gengið um hann, hvorki til flugskýlis nr. 7 og því síður viðbyggingarinnar.
Niðurstaða: Af hálfu gerðarþola er byggt á því að vafasamt sé að ríkið eigi mannvirkið á Reykjavíkurflugvelli er hér um ræðir og nefnt er Flugskýli Helga Jóns, þar sem skjali í þá veru hafi ekki verið þinglýst. Þá er dregið í efa að Flugmálastjórn Íslands geti sem gerðarbeiðandi átt aðild að þessu máli.
Hafnað er þessum málsástæðum gerðarþola. Samkvæmt framlögðum gögnum í málinu fer gerðarbeiðandi með umsýslu á umræddu húsnæði í umboði ríkisins. Og jafnframt hefur gerðarþoli ekki vísað á nokkurn annan aðila, sem mögulega gæti átt ríkari rétt til að teljast eigandinn, en íslenska ríkið.
Þá byggir gerðarþoli á því að hann skuldi ekki húsaleigu fyrir flugskýlið, en hvorki hafi verið samið um leigugjald né það ákveðið með þeim hætti sem opinber gjaldskrá fyrir afnot flugskýla eða lóða á vegum gerðarbeiðanda mæli fyrir um. Því hafi ekki verið lögmætt að rifta leigumála á þeim forsendum að um vanefndir á húsaleigu væri að ræða.
Gerðarbeiðandi byggir hins vegar á því að hafa skorað á gerðarþola með bréfi 8. júlí sl. að gera full skil á vangreiddri leigu fyrir árin 1999 til og með 2003, samtals að fjárhæð 2.014.133 kr., og með bréfi til gerðarþola 16. júlí sl. rift leigusamningi, er greiðsluáskorun var ekki sinnt. En jafnframt upplýsir gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi aðeins greitt reikninga gerðarbeiðanda fyrir „skýlisleigu" í ágúst 1996 að fjárhæð 31.831 kr. og í október sama ár einnig sömu fjárhæð.
Víst er að gerðarþoli hefur haft óslitin umráð eignarinnar í mörg ár án þess að greiða húsaleigu - nema fyrir framangreinda tvo mánuði á árinu 1996. Þá liggur fyrir að gerðarþoli greiddi ekki leigu á árum áður, enda þótt hann hefði þá árum saman haft afnot af húsnæðinu með vitund og vilja gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi hefur á hinn bóginn ekki nýtt sér rétt sinn til að segja upp leigusamningi aðila, sbr. XI. kafla laga nr. 36/1994, heldur farið þá leið að lýsa riftun leigusamnings á grundvelli þess að umdeild leigugreiðsla hafi ekki verið innt af hendi; en naumast verður talið að gerðarþoli hafi ótvírætt viðurkennt skyldu til að greiða húsaleigu, svo sem gerðarbeiðandi hefur krafið hann um, einungis með því að greiða leigu fyrir tvo mánuði á árinu 1996.
Samkvæmt framangreindu verður því ekki talið að gerðarbeiðandi eigi ótvíræðan og skýlausan rétt til að fá kröfu sinni framfylgt með beinni aðfarargerð.
Rétt er að gerðarbeiðandi greiði gerðarþolum óskipt 50.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfum gerðarbeiðanda, Flugmálastjórnar Íslands, í máli þessu.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþolum, Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf., óskipt samtals 50.000 kr. í málskostnað.