Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Res Judicata
|
|
Föstudaginn 14. desember 2001. |
|
Nr. 442/2001. |
Björn Erlendsson (Sigurður Georgsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Res judicata.
Talið var að B hefði með yfirlýsingum sínum og athöfnum í fyrri málum vegna sömu atvika firrt sig rétti til að hafa uppi frekari kröfur gagnvart Í á grundvelli þess að ráðningarsamningi hans hefði verið slitið með ólögmætum hætti. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember 2001. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2001, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði með dómi að uppsögn hans úr starfi hjá Orkustofnun 29. september 1987 hafi verið ólögmæt og ekki í samræmi við ráðningarsamning hans. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila, en til vara að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdóms hefur sóknaraðili nú í þriðja sinn höfðað mál á hendur varnaraðila vegna uppsagnar hans úr starfi á árinu 1987. Fyrsta málið höfðaði sóknaraðili í október 1988 til heimtu biðlauna og vegna ótekins orlofs. Lauk því máli með sátt 29. apríl 1992, þar sem aðilar lýstu því yfir að þeir væru sammála um að ljúka málinu ,,og öllum kröfum stefnanda vegna starfsloka hans hjá Orkustofnun” með því að varnaraðili greiddi sóknaraðila nánar tilgreindar fjárhæðir. Af hálfu sóknaraðila voru engir fyrirvarar gerðir við þessi málalok og sáttin undirrituð án athugasemda af lögmanni hans.
Öðru máli sóknaraðila gegn varnaraðila lauk með dómi Hæstaréttar 18. desember 1997, sem birtur er á bls. 3786 í dómasafni þess árs. Við úrlausn þess máls tók Hæstiréttur eftirfarandi afstöðu til framangreindrar sáttar og réttaráhrifa hennar: ,,Óumdeilt er að áfrýjandi tók við úr hendi stefnda greiðslum, sem samið var um með dómsáttinni 29. apríl 1992. Þótt hann teldi sig þegar á árinu 1990 hafa upplýsingar þess efnis að starfslok hans yrðu rakin til ólögmætrar háttsemi af hálfu stefnda, tók hann fyrirvaralaust við greiðslu samkvæmt sáttinni 1992. Þegar af þeirri ástæðu þykir hann ekki geta gert frekari kröfur á grundvelli þess að ráðningarsamningi hafi verið slitið með ólögmætum hætti.” Var varnaraðili með þessum rökstuðningi sýknaður af kröfu sóknaraðila um skaðabætur vegna saknæmrar og ólögmætrar uppsagnar.
Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á, að sóknaraðili hafi með yfirlýsingum sínum og athöfnum í fyrri málum vegna sömu atvika firrt sig rétti til að hafa uppi frekari kröfur gagnvart sóknaraðila á grundvelli þess að ráðningarsamningi hans hafi verið slitið með ólögmætum hætti. Með vísan til meginreglu 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins frá héraðsdómi og um málskostnað.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Björn Erlendsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2001.
Mál þetta var höfðað 10. apríl 2001 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 31. f.m.
Stefnandi er Björn Erlendsson, kt. 210545-3529, Aðallandi 15, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Kröfur stefnanda eru þær, samkvæmt stefnu, að viðurkennt verði með dómi “að uppsögn hans úr starfi hjá Orkustofnun 29. september 1987 hafi verið ólögmæt og ekki í samræmi við samning sem stefnandi gerði skriflega og löglega við þrjá samningsaðila íslenska ríkisins”. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum stefnanda og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi hans.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að sér verði úrskurðaður málskostnaður en til vara að ákvörðun um málskostnað bíði dóms.
Stefnandi, sem er tæknifræðingur, réðst til starfa hjá Orkustofnun 5. febrúar 1970. Þann 1. apríl 1971 var gerður við hann tímabundinn ráðningarsamningur með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samningur þessi var framlengdur 20. janúar 1972 og aftur 4. janúar 1973. Þann 18. janúar 1974 var á ný gerður tímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda og þá með gildistíma til 31. janúar 1975. Í stefnu segir að stefnandi hafi síðan starfað áfram í tvö ár án þess að skriflegur samningur væri fyrir hendi og að því leyti eins og á tímabilinu 1970-1971.
Stefndi hefur lagt fram ráðningarsamning þar sem Orkustofnun er tilgreind sem vinnuveitandi og stefnandi sem launþegi og er hann undirritaður 6. janúar 1977 af stefnanda og Jakobi Björnssyni. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest en jafnframt að ákvæði hans um uppsagnarfrest gildi þó ekki um þá starfsmenn ríkisins sem hófu störf fyrir 1. janúar 1975 án þess að samið hafi verið um sérstakan uppsagnarfrest og starfað hafi hjá ríkinu samfellt síðan. Í niðurlagi samningsins segir að hann öðlist ekki gildi fyrr en hann hafi hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 97/1974. Neðst á skjalinu eru áritanir, dagsettar 20. janúar 1977, af hálfu fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis.
Með bréfi Orkustofnunar til stefnanda, dags. 29. september 1987, undirrituðu af Jakobi Björnssyni orkumálastjóra og Gunnari Björnssyni starfsmannastjóra, var stefnanda sagt upp störfum frá og með næstu mánaðamótum og lét hann af störfum 31. desember s.á. Í bréfinu er uppsögnin skýrð með fyrirsjáanlegum og verulegum samdrætti í fjárveitingum til Orkustofnunar og þar af leiðandi samdrætti í verkefnum en samtímis var fleiri fastráðnum starfsmönnum stofnunarinnar sagt upp starfi.
Með bréfi Orkustofnunar til stefnanda, dags. 8. janúar 1988, var honum tilkynnt að honum og öðrum starfsmönnum, sem hafi verið ráðnir ótímabundið en með uppsagnarfresti, yrðu greidd biðlaun. Stefnandi höfðaði mál gegn stefnda í október 1988 og gerði annars vegar kröfu vegna ótekins orlofs og hins vegar vegna biðlauna þannig að hann fengi greitt fyrir fasta yfirvinnu á tólf mánaða biðlaunatíma ásamt orlofsfé af henni. Því máli lauk með sátt 29. apríl 1992 þar sem segir m.a. að aðilar séu sammála um að ljúka málinu “og öllum kröfum stefnanda vegna starfsloka hans hjá Orkustofnun” með tilgreindum greiðslum.
Stefnandi höfðaði að nýju mál á hendur stefnda í máli þessu 1. september 1994 til heimtu skaðabóta, aðallega vegna ólögmætrar uppsagnar þar sem staða hans hefði ekki verið lögð niður heldur hefði annar starfsmaður, áður lausráðinn, verið ráðinn í stöðuna og varakrafa var reist á því að hann hefði, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, átt að fá einhverja þá stöðu sem hann hefði sótt um eftir að hann lét af störfum hjá Orkustofnun. Dómur uppkveðinn í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. maí 1996 sætti áfrýjun og var stefndi sýknaður af kröfum stefnanda með dómi Hæstaréttar 18. desember 1997. Um aðalkröfu stefnanda segir í þeim dómi að óumdeilt sé að hann hafi tekið við úr hendi stefnda greiðslum sem samið hafi verið um með dómsáttinni 29. apríl 1992. Þótt hann teldi sig þegar á árinu 1990 hafa upplýsingar þess efnis að starfslok hans yrðu rakin til ólögmætrar háttsemi af hálfu stefnda hafi hann tekið fyrirvaralaust við greiðslu samkvæmt sáttinni. Þegar af þeirri ástæðu þyki hann ekki geta gert frekari kröfur á grundvelli þess að ráðningarsamningi hafi verið slitið með ólögmætum hætti.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að sömu aðilar og stóðu að ráðningu og gerð starfssamnings verði að standa að uppsögn hans til þess að uppsögnin teljist lögleg og gild gagnvart sér. Á þessu hafi orðið misbrestur og sé uppsögnin ekki í samræmi við þær reglur sem gildi um vinnusamninga eða samninga almennt og því ólögmæt. Um lagarök segir að vísað sé til lagaákvæða sem við geti átt, þ.á m. laga um opinbera starfsmenn nr. 38/1954 svo og þeirrar meginreglu að sami aðili, í þessu tilfelli sömu aðilar, hafi vald og rétt til þess að gera vinnusamning og segja honum upp nema annað sé ákveðið í lögum eða samningi. Auk þess er vísað til jafnræðisreglu íslensks réttar, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Af hálfu stefnda er frávísunarkrafan studd við það að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfu sína og hafi þegar verið dæmt um réttarstöðu hans vegna uppsagnarinnar. Það fái ekki samrýmst 1. mgr. 25. gr., 5. mgr. 101. gr. eða 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að aðilar máls taki sig til eftir að dómur sé genginn og höfði nýtt mál og afli lögfræðilegrar álitsgerðar dómstóla um einstakar málsástæður og lagarök sem þeir hafi haft eða getað haft uppi. Þá séu formannmarkar á málatilbúnaði stefnanda sem varði frávísun málsins sbr. d. g. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Um það er m.a. vísað til þess að ekki sé í dómkröfunni sjálfri afmarkað hvaða samning stefndi hafi gert skriflega eða hvaða þrír samningsaðilar ríkisins hafi staðið að honum og að framlagning málsskjala hæstaréttarmáls í heild brjóti í bága við meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.
Í 294 síðna ágripi framangreinds hæstaréttarmáls (nr. 326/1996), sem stefnandi lagði fram, er m.a. að finna ráðningarsamning stefnanda frá 6. janúar 1977 og uppsagnarbréf.
Eins og að framan greinir hefur Hæstiréttur dæmt að stefnandi geti ekki gert frekari kröfur á grundvelli þess að ráðningarsamningi þeim, sem um ræðir í málinu, hafi verið slitið með ólögmætum hætti. Samkvæmt því hefur stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um þá kröfu sem hann hefur uppi í máli þessu og reist er á málsástæðu sem hafa mátti uppi í umræddu máli. Þegar af þeirri ástæðu ber, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að fallast á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt þessum úrslitum ber, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að úrskurða að stefnandi skuli greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 50.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Björn Erlendsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 50.000 krónur í málskostnað.