Hæstiréttur íslands
Mál nr. 134/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 1999. |
|
Nr. 134/1999. |
Svavar Jónsson (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Samvinnusjóði Íslands hf. (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
SJ mótmælti því að bifreið í hans eigu yrði seld nauðungarsölu að kröfu S og lýsti því yfir að hann bæri málið undir héraðsdóm. Héraðsdómari vísaði kröfu SJ frá dómi þar sem S hefði ekki samþykkt að málið yrði lagt fyrir dóm. Með hliðsjón af því, að S hafði hvorki gert athugasemd við yfirlýsingu SJ um að hann leitaði úrlausnar héraðsdóms, né mótmælt ákvörðun sýslumanns um að stöðva frekari aðgerðir meðan á meðferð dómsmálsins stæði, þótti verða að líta svo á að S hefði í reynd samþykkt að málið yrði borið undir dóm, eins og áskilið væri í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Var hinum kærða úrskurði því hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 1999, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. janúar sl. um að nauðungarsala fari fram á nánar tiltekinni bifreið hans. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði ákvað sýslumaður 26. janúar 1999, þegar hann tók fyrir beiðni varnaraðila um nauðungarsölu, að gerðinni skyldi fram haldið gegn andmælum sóknaraðila. Sóknaraðili lýsti þá yfir að ákvörðun sýslumanns yrði skotið til héraðsdóms og stöðvaði sýslumaður frekari aðgerðir við nauðungarsöluna meðan leyst yrði úr ágreiningi aðilanna fyrir dómi. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi látið uppi berum orðum afstöðu til þess hvort hann væri því samþykkur að sóknaraðili leiti úrlausnar héraðsdóms um ágreining þeirra, sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðili gerði hins vegar hvorki athugasemd við yfirlýsingu sóknaraðila um að hann hygðist bera ágreininginn undir dómstóla né mótmælti varnaraðili þeirri ákvörðun sýslumanns að stöðva frekari gerðir við nauðungarsöluna meðan á meðferð dómsmáls stæði. Að þessu virtu verður að líta svo á að varnaraðili hafi í reynd samþykkt að sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns, eins og áskilið er í fyrrgreindu lagaákvæði. Samkvæmt þessu verður hinum kærða úrskurði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 1999.
Þann 1. október 1998 barst sýslumanninum í Reykjavík krafa gerðarbeiðanda, Samvinnusjóðs Íslands, kt. 691282-0829, Sigtúni 42, Reykjavík, þess efnis að bifreiðin UZ 437, Grand Cherokee Ltd árgerð 1995 yrði seld nauðungarsölu, en nauðungarsöluheimild kvað gerðarbeiðandi vera veðskuldabréf í vanskilum og hefði greiðsluáskorun eigi verið sinnt.
Þann 26. janúar sl. var umrædd nauðungarsala tekin fyrir hjá sýslumanni vegna mótmæla gerðarþola, Svavars Jónssonar, og var þá mætt af hálfu beggja aðila nauðungarsölunnar. Var aðilum gefinn kostur á að tjá sig um framkomin mótmæli og mótmælti lögmaður gerðarbeiðanda framkomnum mótmælum og krafðist þess að nauðungarsalan færi fram þar sem mótmæli gerðarþola ættu ekki við rök að styðjast. Þessu mótmælti lögmaður gerðarþola og krafðist þess að sýslumaður stöðvaði frekari meðferð beiðninnar og vísaði henni frá.
Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík 26. janúar 1999 segir m.a.: „Deildarstjóri sýslumanns ákveður að mótmæli lögmanns gerðarþola stöðvi ekki nauðungarsölu á bifreiðinni UZ-437. Lögmaður gerðarþola lýsir því yfir að ákvörðun sýslumanns verði skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur. Kveðst hann gera þá kröfu fyrir hönd gerðarþola að ákvörðun sýslumanns verði hnekkt og synjað verði um nauðungarsölu á framangreindri bifreið. Deildarstjóri sýslumanns stöðvar nauðungarsölumeðferð á meðan ágreiningsmál er rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Mættum er kynnt efni bókunar sem engar athugasemdir eru gerðar við. Þannig fram farið “
Með bréfi dagsettu 5. febrúar sl., sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. febrúar sl., gerir gerðarþoli þær kröfur að framangreind ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík verði ómerkt og tekin verði til greina krafa gerðarþola þess efnis að synjað verði um nauðungarsölu bifreiðarinnar UZ-437 og að varnaraðila verði gert að greiða gerðarþola málskostnað að skaðlausu eða að mati dómsins.
Gerðarþoli kveðst hafa eignast bifreiðina UZ-437 með ódagsettu afsali í ágúst 1997 frá Hyrju hf. og hafi bifreiðin átt að vera veðbandalaus. Hins vegar hafi síðar komið í ljós að á henni hvíldi skuld við Samvinnusjóð Íslands hf. sem þinglýst hafði verið á bifreiðina 14. október 1996. Hafi komið í ljós að skuldabréfið hjá sýslumanni var óútgefið og einnig að annar vottanna, Þór Lúðvíksson, var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri IMPEX ehf. sem átti að vera skuldari skuldabréfsins. Samkvæmt Hlutafélagaskrá heiti votturinn og stjórnarmaðurinn Sigfinnur Þór Lúðvíksson. Það eintak skuldabréfsins sem varnaraðili byggi kröfur sínar á sé hins vegar með útgáfudeginum 7. október 1996 og undirritað af Sigfinni Lúðvíkssyni en augljóslega með allt annarri rithönd en er á nafni hans sem votts.
Gerðarþoli byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 39/1978 skuli sá sem beiðist þinglýsingar afhenda þinglýsingarstjóra skjal í tvíriti og felist í því að samræmi eigi að vera milli frumrits og samrits ella skuli vísa skjali frá þinglýsingu sbr. 2. mgr. 7. gr. sömu laga. Fyrst skjalinu hafi verið þinglýst megi álykta þannig að samræmi hafi verið milli frumrits og samrits þess.
Gerðarþoli bendir einnig á að galli hafi verið á vottun skuldabréfsins þar sem annar vottanna sé væntanlega að votta eigin undirskrift en einnig sé vottunin markleysa þar sem verið sé að votta undirskrift sem ekki sé til staðar.
Með vísan til þessa kveður gerðarþoli slíkan vafa á gildi skuldabréfsins sem uppboðsheimildar að synja beri um nauðungarsölu á bifreið hans. Skuldabréfið eins og það liggi fyrir í þinglýsingunni sé óútgefið og því ekki gilt sem bein heimild til nauðungarsölu bifreiðarinnar.
Niðurstaða.
Samkvæmt 73. gr. laga nr. 90/1991 má leita úrlausnar héraðsdómara samkvæmt nánari fyrirmælum laganna um tiltekinn ágreining, sem rís við nauðungarsölu. Í 4. mgr. 22. gr. laganna segir að aðrir en gerðarbeiðendur geti leitað úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns eftir ákvæðum XIII. kafla laganna, ef gerðarbeiðandi lýsir sig samþykkan því. Samkvæmt því sem fram kemur í endurriti úr gerðarbók sýslumanns 26. janúar 1999 liggur ekkert slíkt samþykki fyrir af hálfu gerðarbeiðanda og ber því skv. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 að vísa máli þessu frá dómi.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.