Hæstiréttur íslands

Mál nr. 624/2013


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Þjónustukaup
  • Upplýsingaskylda


Dómsatkvæði

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 624/2013.

Victor Björgvin Victorsson

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

gegn

E.T. ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Verksamningur. Þjónustukaup. Upplýsingaskylda.

Ágreiningur var með aðilum um uppgjör reikninga vegna flutnings E ehf. á hesthúsi fyrir V. Hélt V því fram að samningur hefði tekist um heildarverð fyrir flutning á húsinu og með greiðslum til E ehf. hefði hann að fullu efnt þann samning. E ehf. hélt því aftur á móti fram að það hefði einungis látið V í té verðáætlun um flutning hesthússins, en ekki um aðra þætti verksins eins og flutning ballesta. Félagið hefði þannig ekki tekið að sér þá verkþætti þar sem atbeina krana og kranamanns þurfti til. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ósannað væri að gerður hafi verið samningur milli aðila um að E ehf. tæki að sér verkið í heild og að samningur hafi komist á um endurgjald á tiltekinni fjárhæð fyrir þau verk sem E ehf. hafði með höndum við flutning á hesthúsinu. V bæri því samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup að greiða það verð sem E ehf. hefði krafist enda yrði það talið sanngjarnt með hliðsjón af því hversu vinnan var mikil og hvers eðlis hún var. Í ljósi 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. laganna yrði E ehf. að bera hallann af því aðgerðarleysi sínu að hafa ekki tilkynnt V um verkþátt er laut að flutningi ballesta og með vísan til 7. gr. þeirra var ekki talið sanngjarnt að E ehf. gæti haft uppi kröfur á hendur V vegna kostnaðar við þann verkþátt. Var V því gert að greiða E ehf. eftirstöðvar vegna verksins en hann sýknaður af þeim kröfulið er laut að greiðslu vegna flutnings á ballestum.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningur aðila snýst um uppgjör reikninga vegna flutnings stefnda á hesthúsi fyrir áfrýjanda. Áfrýjandi heldur því fram að samningur hafi tekist milli aðila um heildarverð fyrir flutning á húsinu, en stefndi að hann hafi einungis látið áfrýjanda í té lauslega hugmynd um verð á flutningi þess, að undanskilinni kranavinnu. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda, Jóhanns Tryggva Aðalsteinssonar, fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði í samtali við áfrýjanda áætlað verð fyrir flutninginn á bilinu 700.000 til 900.000 krónur. Spurður um hvað hefði orðið til þess að sú verðáætlun stóðst ekki kvað hann að flutningur á svokölluðum ballestum hefði hleypt upp verðinu, en reikningur vegna þess verkþáttar nam 689.965 krónum. Hann kvað að í þeirri verðhugmynd sem hann hefði gefið áfrýjanda áður en verkið hófst, hefði ekki falist áætlun vegna flutnings ballesta.  Hann kvaðst hafa flutt þær að beiðni kranamanns hjá Á.B. lyftingu ehf., en það fyrirtæki sá um þá þætti verksins þar sem atbeina krana og kranamanns þurfti til. Má af gögnum málsins ráða að áfrýjanda var um það kunnugt, en hann undirritaði vinnuskýrslur vegna þess verkþáttar.

Áfrýjandi aflaði matsgerðar undir rekstri málsins um hvað teldist eðlilegur og sanngjarn kostnaður vegna heildarverksins og var niðurstaða matsgerðar að sá kostnaður væri 3.073.295 krónur, að meðtalinni svokallaðri kranavinnu. Eftir héraðsdóm aflaði áfrýjandi yfirmatsgerðar um það sem metið hafði verið með undirmati, en einnig var þar lagt mat á önnur atriði sem ekki höfðu verið metin áður. Samkvæmt yfirmatsgerð var sanngjarn og eðlilegur kostnaður vegna þeirra þátta sem beiðst hafði verið yfirmats á 2.745.600 krónur, að meðtalinni kranavinnu.

Yfirmatsmenn staðfestu matsgerð sína fyrir héraðsdómi. Var annar þeirra, Hjalti Sigmundsson, spurður um hvort ballestaflutningar væru í einhverjum tilvikum innifaldir í kranavinnu. Kvað hann ,,ballestarnar þurfa að vera með krananum þannig að ... í rauninni tilheyrir það ... kranavinnunni þ.e.a.s flutningur á ballestunum.“

II

Óumdeilt er með aðilum að stefndi veitti áfrýjanda þjónustu sem fellur undir lög nr. 42/2000 um þjónustukaup. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ósannað sé að gerður hafi verið samningur með aðilum um að stefndi tæki að sér alla verkþætti er fólust í flutningi hesthússins. Einnig þá niðurstöðu héraðsdóms að ósannað sé að samningur hafi komist á milli aðila um endurgjald að tiltekinni fjárhæð fyrir þau verk sem stefndi hafði með höndum við flutninginn. Ber áfrýjanda þá samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 að greiða það verð sem stefndi hefur krafist, enda verði það talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var.

Í II. kafla laga nr. 42/2000 er meðal annars kveðið á um upplýsingaskyldu seljanda þjónustu í viðskiptum hans við neytanda. Þannig er samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skylt að veita allar upplýsingar um vinnu verks með hagsmuni neytanda fyrir augum. Ennfremur er kveðið á um í 2. mgr. 6. gr. að verði seljanda ekki ljóst að fyrirhuguð kaup á þjónustu séu óhagkvæm fyrr en vinna sé hafin eða að verð þjónustunnar muni verða verulega hærra en neytandi hafi mátt gera ráð fyrir skuli seljandi tilkynna neytanda um það og óska eftir fyrirmælum um hvort frekari vinna skuli af hendi leyst. Hafi seljandi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, ekki óskað eftir fyrirmælum og ætla megi að neytandi hefði hætt við samninginn að fengnum upplýsingum skuli greiðslur fyrir verkið miðast við að neytandi hefði dregið sig út úr samningnum á því stigi. Eftir 7. gr. getur seljandi þrátt fyrir ákvæði 6. gr. krafist greiðslu vegna vinnu og útlagðs kostnaðar að svo miklu leyti sem það getur talist sanngjarnt. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði að markmiðið með ákvæðum 6. gr. væri að koma í veg fyrir óvænt og ófyrirséð útgjöld. Þá var þar tekið fram við skýringu á 7. gr. að samkvæmt henni bæri seljanda greiðsla fyrir vinnu og útlagðan kostnað og skyldi tillit tekið til hvort notagildi, til dæmis viðgerðs hlutar, hafi aukist.

Áfrýjandi hefur ásamt öðru haldið því fram til stuðnings sýknukröfu sinni að stefnda hafi borið að tilkynna sér um að ákveðið hafi verið að nota tvo krana við flutning á húsinu og að nota þyrfti fyrir vikið meiri ballest en ella. Hefur áfrýjandi sérstaklega mótmælt reikningi stefnda fyrir flutning á ballestum við framkvæmd verksins, meðal annars með vísan til þess að um hafi verið að ræða viðbótarverk og stefndi ekki tilkynnt sér um það á þann hátt sem mælt sé fyrir um í 8. gr. laga nr. 42/2000. Stefndi hefur byggt á því að hann hafi ekki tekið að sér þá verkþætti þar sem atbeina krana þurfi til og hefur ekki gert áfrýjanda reikning vegna þess. Engu að síður flutti hann ballestar í þágu þess fyrirtækis sem sá um kranavinnuna. Þótt sá verkþáttur tilheyrði í raun svokallaðri kranavinnu og verðhugmynd stefnda hafi því ekki tekið til hans gerði stefndi áfrýjanda hvorki viðvart um að þann þátt ætlaði hann að taka að sér né að kostnaður vegna hans yrði svo verulegur sem raun bar vitni. Verður stefndi að bera hallann af því aðgerðaleysi sínu í ljósi 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 42/2000. Með vísan til 7. gr. laganna og þess hvernig atvikum var háttað verður ekki talið að hann geti krafist greiðslu vegna kostnaðar við umræddan verkþátt úr hendi áfrýjanda. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda vegna flutnings ballesta.

Þar sem ekki er verulegur munur á niðurstöðum undir- og yfirmatsgerðar um hvað telst eðlilegur og sanngjarn kostnaður vegna heildarverksins verður niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, staðfest að öðru leyti en því sem lýtur að flutningi ballesta. Áfrýjandi verður því dæmdur til að greiða stefnda eftirstöðvar verklauna að fjárhæð 993.295 krónur, að frádregnum reikningi vegna flutnings ballesta 28. október 2011 að fjárhæð 689.965 krónur eða samtals 303.330 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi. Við ákvörðun hans hefur verið höfð hliðsjón af því að áfrýjandi aflaði tveggja matsgerða undir rekstri málsins.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Victor Björgvin Victorsson, greiði stefnda, E.T. ehf., 303.330 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2013.

                Mál þetta var höfðað 21. mars 2012 og dómtekið 30. f.m.

                Stefnandi er E.T. ehf., Klettagörðum 11 í Reykjavík.

                Stefndi er Victor Björgvin Victorsson, Álfkonuhvarfi 19 í Kópavogi.

                Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefnda verði gert að greiða honum 993.295 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags, en að frádreginni innborgun 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar. 

I

                Helstu málavextir eru þeir að 13. og 14. september 2011 annaðist stefnandi flutning á hesthúsi á milli hesthúsahverfa í Kópavogi að beiðni stefnda. Hefur stefnandi krafið stefnda um 1.693.295 krónur í endurgjald fyrir verkið samkvæmt fjórum reikningnum útgefnum 28. október 2011. Er ágreiningslaust að það fólst nánar tiltekið í flutningi á hesthúsinu frá Funaholti 10 að Markavegi 6 í Kópavogi, völtun á kranastæðum og jarðvinnu vegna göngustíga og flutningi á stálbitum og ballest til notkunar við kranavinnu á báðum stöðum. Greiðslur frá stefnda nema samtals 1.000.000 króna, en þar af greiddi hann 700.000 krónur fyrir gjalddaga reikninganna 18. nóvember 2011. Hefur stefnandi höfðað málið til heimtu þess hluta kröfunnar sem eftir stendur ásamt dráttarvöxtum, en að frádreginni greiðslu frá stefnda 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur.

                Fyrir liggur að stefndi hefur verið krafinn um greiðslu að fjárhæð 1.630.634 krónur vegna kranavinnu í tengslum við framangreindan flutning. Stafar sú krafa frá ÁB-lyftingu ehf. sem hafði þá vinnu með höndum og notaði til þess tvo krana. Heildarkrafa á hendur stefnda vegna þeirra verkþátta sem hér um ræðir nemur þannig 3.323.929 krónum. Er krafa stefnda um sýknu aðallega á því byggð að með framangreindri greiðslu til stefnanda hafi hann að fullu staðið skil á réttmætu endurgjaldi fyrir það, enda hafi komist á samningur milli málsaðila þess efnis áður en í verkið var ráðist.

II

                 Í stefnu segir það eitt um kröfu stefnanda að hún sé byggð á þremur reikningum vegna seldrar þjónustu við flutning og fleira. Þessu næst er greint frá útgáfudegi, gjalddaga og fjárhæð hvers reiknings og tekið fram að stefnufjárhæð nemi samtölu þeirra að frádregnum innborgunum. Er útgáfudagur þeirra 28. október 2011 og gjalddagi 18. nóvember sama ár. Er sá fyrsti að fjárhæð 689.965 krónur, annar hljóðar upp á 182.643 krónur og fjárhæð þess þriðja er 366.823 krónur. Frekari grein er ekki gerð fyrir málsatvikum og málsástæðum. Þá er um lagarök vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sem fái meðal annars stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Fullnægir stefnan samkvæmt þessu ekki skilyrðum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran málsgrundvöll. Stefndi tók til efnisvarna og verður ekki séð að annmarkar á málatilbúnaði stefnanda samkvæmt framansögðu hafi gert honum erfitt um vik í þeim efnum, enda hefur frávísunarkrafa ekki verið gerð. Er málatilbúnaður stefnanda samkvæmt framansögðu aðfinnsluverður, en stendur að svo komnu ekki í vegi fyrir því að málið sæti efnislegri úrlausn. 

III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að með málsaðilum hafi tekist samningur um verð fyrir flutning á umræddu hesthúsi. Þegar stefndi hafði samband við fyrirsvarsmann stefnanda vorið 2011 hafi hann fullyrt að verkið myndi kosta á bilinu 700.000 til 900.000 krónur, allt eftir því hvernig gengi. Hafi stefnandi skömmu áður annast flutning á sambærilegu húsi sömu leið og því þekkt vel til aðstæðna. Verkið hafi síðan gengið eins og í sögu og ekkert komið upp á sem réttlætt gæti hækkun frá því verði sem um hafi verið samið, hvað þá þreföldun á því. Í aðeins eitt skipti hafi komið til tals að kostnaður gæti orðið meiri, en þá hafi fyrirsvarsmaður stefnanda hringt í stefnda vegna vinnu kranamanns og tjáð honum að þar myndi falla til viðbótarkostnaður sem þó yrði innan við 300.000 krónur. Hafi stefndi fallist á að greiða þann kostnað, en með semingi þó. Leggur stefndi áherslu á það að kranafyrirtækið sem að verkinu kom, ÁB-lyfting ehf., hafi verið undirverktaki stefnanda við framkvæmd þess og ekkert samningssamband hafi komist á milli þess félags og stefnda. Reikningsgerð félagsins á hendur stefnda sé því í algerri andstöðu við meginreglur samningalaga og laga um þjónustukaup.

                Stefndi mótmælir því að stefnandi geti byggt kröfu sína á tímavinnu, enda megi ljóst vera samkvæmt framansögðu að það eigi einfaldlega ekki við að ákvarða endurgjald til hans á þeim grunni. Umsamið verð hafi tekið til kostnaðar við að lyfta húsinu með krana og koma því með flutningabíl á nýjan stað þar sem það yrði sett niður með krana. Einnig falli hér undir öll undirbúningsvinna og flutningur á tækjum og tólum. Hafi stefndi ekki átt von á því að honum bærust reikningar eða kröfur fyrir aukaverk umfram það sem áður er getið vegna kranamanns, enda aldrei á það minnst. 

                Verði ekki á það fallist að málsaðilar hafi samið um fast verð fyrir verkið er byggt á því að krafa stefnanda sé óeðlileg og ósanngjörn. Ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að nota tvo krana til að lyfta húsinu. Þegar sambærilegt hús var flutt hafi því verið lyft með einum krana. Stefnandi hafi sérfræðinga á sínum snærum þegar kemur að flutningi af þeim toga sem hér um ræðir og hann hafi ráðið kranamann til að annast verkið. Báðum þessum aðilum hafi verið í lófa lagið að afla fullnægjandi upplýsinga um þyngd hesthússins. Í ljósi þess að það sé um það bil 53 tonn að þyngd og hvor krani geti lyft að minnsta kosti 200 tonnum sé í raun óskiljanlegt hvers vegna ákveðið var að nota báða kranana. Fyrirsvarsmanni stefnanda hafi í öllu falli borið skylda til að tilkynna stefnda um svo mikla breytingu. Þar sem notaðir voru tveir kranar hafi þurft meiri ballest en ella. Reikningur stefnanda að fjárhæð 689.965 krónur taki alfarið til flutnings á ballest dagana 13. og 14. september 2011. Innifalinn í þessum flutningum sé kostnaður við að koma tækjum til og frá vinnusvæði sem stefndi geti engan veginn fallist á að hann beri ábyrgð á eða verði að greiða fyrir. Þá er reikningi að fjárhæð 182.643 krónur einnig mótmælt. Hann sé annars vegar byggður á kostnaði vegna völtunar á kranastæðum og jarðvinnu vegna göngustíga hins vegar. Að mati stefnda hefði verið óþarft að valta kranastæði ef aðeins hefði verið notaður einn krani. Þá kveðst stefndi minnast þess að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi minnst á það tveimur eða þremur dögum fyrir flutning að hann óttaðist að dekkin á flutningabílnum myndu skemmast vegna kants sem búið var að steypa við göngustíg í nágrenninu. Ekki hafi verið minnst á þetta frekar og þegar flutningurinn fór fram hafi stefndi staðið í þeirri trú að starfsmenn stefnanda hefðu leyst málið á annan hátt.

                Um lagarök fyrir sýknukröfu sinni hefur stefndi vísað til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, aðallega 28., 29. og 31. gr. þeirra, og almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar.

IV.

                Stefndi fékk 17. október 2012 dómkvaddan mann til að meta kostnað við flutning á 56,7 tonna hesthúsi frá Funaholti 10 yfir á Markaveg 6 í Kópavogi. Var óskað eftir því að matið yrði sundurliðað miðað við „kostnað við krana í lyftingu á húsinu að Funaholti 10 úr grunni yfir á pall og af palli og ofan í grunn að Markavegi 6, flutning hússins á palli flutningabíls frá Funaholti 10 yfir að Markavegi 6, flutning á balllestum vegna annars vegar eins krana og hins vegar tveggja krana frá Hafnarfjarðarhöfn að Funaholti 10, frá Funaholti 10 að Markavegi 6 og frá Markavegi 6 að Hafnarfjarðarhöfn“. Þá tóku matsbeiðni og dómkvaðning einnig til þess hvort þörf hafi verið á því að nota tvo krana við að lyfta húsinu eða hvort unnt hefði verið að nota einn krana til að sinna því verki. Við það mat skyldi tekið mið af því hvaða kranar voru notaðir við verkið, þ.e. Grove GMK 5200 og Grove GMK 6300.

                Í matsgerð Björns Gústafssonar byggingarverkfræðings 27. febrúar 2013 er komist að þeirri niðurstöðu að sá kostnaður sem stefnandi krefur stefnda um fyrir það verk sem óumdeilt er að hann vann sé eðlilegur, eða 1.693.295 krónur. Þá metur matsmaður heildarkostnað við flutning á hesthúsinu 3.073.295 krónur. Aftur á móti segir svo í matsgerðinni: „Það sem matsmanni finnst hins vegar athugavert er hversu matsbeiðandi var grunlaus um heildarkostnað vegna framkvæmdarinnar, þar sem svo virðist sem matsþola hafi láðst að skýra fyrir honum hvaða tól og tæki þyrfti til flutnings þessa. Matsmaður hefur lengi starfað á hinum frjálsa markaði  og veit að hann var í mikilli lægð þegar þetta umrædda hesthús var flutt. Með hliðsjón af öllum málavöxtum telur matsmaður sanngjarnt að matsbeiðanda verði ekki gert að greiða meira en reikna hefði mátt með í tilboði í allt verkið.“ Á grundvelli þessara forsendna lækkar matsmaður framangreint kostnaðarmat um 35%, eða úr 1.693.295 krónum í 1.100.640 krónur að því er varðar vinnu stefnanda. Þá er það niðurstaða matsmanns að nauðsynlegt hafi verið að nota tvo öfluga krana til að lyfta húsinu.

V

                Dómkrafa stefnanda í málinu tekur svo sem fram er komið til flutnings á hesthúsi á milli hesthúsahverfa í Kópavogi, flutnings á stálbitum og ballest til notkunar við kranavinnu á báðum stöðum, völtunar á kranastæðum og jarðvinnu vegna göngustíga. Fyrir liggur að annað fyrirtæki hafði kranavinnuna með höndum og hefur það gert stefnda reikning vegna hennar. Heldur stefndi því fram að málsaðilar hafi samið um endurgjald fyrir verkið í heild sinni og að með greiðslu til stefnanda að fjárhæð 1.000.000 króna hafi hann að fullu efnt þann samning. Af hálfu stefnanda er þessu alfarið hafnað. Kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns félagsins, Jóhanns Tryggva Aðalsteinssonar, fyrir dómi að hann hafi að beiðni stefnda áætlað kostnað vegna flutnings á húsinu. Hafi sú áætlun hljóðað upp á 700.000 til 900.000 krónur og verið einskorðuð við sjálfan flutninginn, en stefnandi hafi síðar tekið að sér önnur þau verk sem dómkrafa hans í málinu tekur til samkvæmt framansögðu. Ekki hafi verið gerð sérstök kostnaðaráætlun fyrir flutning á stálbitum og ballest áður en í þá vinnu var ráðist, en annar viðbótarkostnaður rúmist aftur á móti fyllilega innan þeirrar áætlunar sem upphaflega var gerð. Stefnandi hafi ekki yfir að ráða krana og því hafi stefndi þurft að leita annað varðandi þá vinnu. Það hafi hann gert.

                Ekki hafa verið færðar fyrir því sönnur að tekist hafi samningur með aðilum um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í endurgjald fyrir þau verk sem óumdeilt er að stefnandi hafði með höndum við flutning á hesthúsinu og dómkrafa hans í málinu tekur til, en henni er réttilega beint að stefnda. Þá er einnig ósannað að stefnandi hafi tekið að sér gagnvart stefnda að annast verkið í heild, þar með talda kranavinnuna sem slíka. Loks og þá einkum í ljósi þess sem hér að framan er rakið hefur ekki verið sýnt fram á að atvik séu með þeim hætti að ákvæði 29. og 31. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup hafi þýðingu við úrlausn málsins. Við þessar aðstæður og í samræmi við 28. gr. laganna ber stefnda að greiða það verð sem stefnandi krefst, enda verði það talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var. Hvílir á stefnda sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að krafa stefnanda er í fullu samræmi við kostnaðarmat samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, þar sem meðal annars er komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt hafi verið að nota tvo krana til að lyfta húsinu. Hefur ekki heldur verið sýnt fram á að verkið hafi með öðrum hætti orðið umfangsmeira í framkvæmd en efni stóðu til. Þá standa ekki haldbær rök til lækkunar á grundvelli þeirra sjónarmiða sem matsmaður styðst við þar að lútandi í matsgerð sinni og áður er gerð grein fyrir. Er að þessu sögðu ekki sannað að þau verklaun sem stefnandi krefur um séu hærri en það sem sanngjarnt má telja.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður fallist á kröfu stefnanda um greiðslu eftirstöðva verklauna að fjárhæð 993.295 krónur auk dráttarvaxta svo sem krafist er, en að frádreginni innborgun 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur.

                Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

                Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni byggingar-tæknifræðingi.

Dómsorð

Stefndi, Victor Björgvin Victorsson, greiði stefnanda, E.T. ehf., 993.295 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. nóvember 2011 til greiðsludags, en að frádreginni innborgun 25. janúar 2012 að fjárhæð 300.000 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.