Hæstiréttur íslands
Mál nr. 517/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfuskrá
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 29. ágúst 2012. |
|
Nr. 517/2012:
|
Tómas Ottó Hansson og Anna Brynja Ísaksdóttir (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn SPB hf. (Berglind Svarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfuskrá. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Talið var að T og A hefðu ekki lögvarða hagsmuni af því að krefjast afhendingar hlutafjár í SM ehf. sem tekið hafði verið til gjaldþrotaskipta. Þá hafði skiptastjóri þrotabús SM ehf. ekki tekið afstöðu til þeirra krafna sem T og A höfðu lýst í búið líkt og honum bar að gera samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, né hafði hann leitast við að jafna ágreining um kröfurnar, sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um afhendingu hlutafjár í SevenMiles ehf., að fjárhæð 90.000 krónur vegna sóknaraðilans Tómasar Ottós og að fjárhæð 410.000 krónur vegna sóknaraðilans Önnu Brynju, og að bú félagsins verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða og vísað frá dómi kröfum sem þau lýstu í búið vegna „innleystra ábyrgða.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreindar kröfur þeirra teknar til greina. Til vara krefjast sóknaraðilar þess „að kröfur þeirra vegna innleystra ábyrgða vegna skulda SevenMiles ehf., að fjárhæð kr. 248.005.964, vegna Önnu Brynju Ísaksdóttur, en að fjárhæð kr. 55.185.745 vegna Tómasar Ottós Hanssonar, verði samþykktar sem almennar kröfur í bú SevenMiles ehf.“ Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en að því frágengnu að málskostnaður falli niður á báðum dómsstigum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Það athugist að varakröfu sína fyrir Hæstarétti höfðu sóknaraðilar uppi í héraði við hlið kröfunnar um afhendingu hlutafjár í SevenMiles ehf. sem fyrir Hæstarétti er höfð uppi sem aðalkrafa þeirra.
Ekki verður talið að sóknaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af því að krefjast „afhendingar hlutafjár“ í einkahlutafélagi sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta. Verður fyrri kröfu vísað frá héraðsdómi þegar af þessari ástæðu.
Á skiptafundi í þrotabúi SevenMiles ehf. 12. nóvember 2010 lagði skiptastjóri fram kröfuskrá svo sem honum bar samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Í skránni kom fram að skiptastjóri hefði ekki tekið afstöðu til nokkurra krafna í búið, þar á meðal þeirra fjárkrafna sem sóknaraðilar höfðu lýst og þau hafa uppi í þessu máli. Kom fram í skránni að þessi háttur væri hafður á þar sem vitað væri fyrirfram að ágreiningur yrði vegna þessara krafna.
Í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 segir að skiptastjóri skuli í kröfuskrá sinni láta í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Undantekning frá þessari skyldu skiptastjóra, sem er að finna í niðurlagsákvæði 1. mgr. 119. gr., á ekki við hér. Í 1. mgr. 120. gr. laganna kemur síðan fram að sá, sem ekki vill una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sinnar á hendur þrotabúinu eða sá, sem vill mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert, skuli lýsa mótmælum á skiptafundi. Síðan er gert ráð fyrir í 2. mgr. 120. gr. að skiptastjóri reyni að jafna ágreining sem upp er kominn. Verði hann ekki leystur skuli skiptastjóri beina málinu til héraðsdóms eftir 171. gr. laganna.
Samkvæmt þessum lagareglum er það skilyrði fyrir því að héraðsdómur taki til úrlausnar ágreining um kröfur sem lýst er í þrotabú, að skiptastjóri hafi tekið afstöðu til þeirra og leitast við að jafna ágreininginn. Þessu skilyrði var ekki fullnægt að því er snertir þann ágreining sem um er fjallað í málinu.
Samkvæmt framansögðu verður málinu vísað frá héraðsdómi. Rétt þykir að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, fimmtudaginn 5. júlí 2012.
Þetta mál, sem barst dóminum 6. desember 2011 með bréfi skiptastjóra þrotabús SevenMiles ehf., var þingfest 20. janúar 2012 og tekið til úrskurðar 21. maí 2012.
Sóknaraðilar, Anna Brynja Ísaksdóttir, kt. 161065-3829, Lindarbraut 28, Seltjarnarnesi og Tómas Ottó Hansson, kt. 270365-3459, Sandakri 6, Garðabæ, krefjast þess að kröfur þeirra í bú SevenMiles ehf. um afhendingu hlutafjár í einkahlutafélaginu SevenMiles ehf., að fjárhæð 410.000 kr. vegna Önnu Brynju, en að fjárhæð 90.000 kr. vegna Tómasar Ottós og að bú félagsins verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða, verði samþykktar.
Sóknaraðilar krefjast þess enn fremur að kröfur þeirra vegna innleystra ábyrgða vegna skulda SevenMiles ehf., að fjárhæð 248.005.964 kr. vegna Önnu Brynju, en að fjárhæð 55.185.745 kr. vegna Tómasar Ottós, verði samþykktar sem almennar kröfur í bú SevenMiles ehf.
Að auki krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Varnaraðili, SPB hf., (áður Sparisjóðabanki Íslands hf.), kt. 681086-1379, Borgartúni 25, Reykjavík, krefst þess að kröfum sóknaraðila í þrotabú SevenMiles ehf. verði hafnað.
Að auki krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málskostnað.
Málavextir
Sóknaraðilar lýsa málavöxtum þannig að SevenMiles ehf. hafi verið eignarhaldsfélag sem hafi átt 38% hlut í einkahlutafélögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Þau félög höfðu með höndum rekstur skóverslana og innflutning í tengslum við hann. Með tveimur lánssamningum dagsettum annars vegar 30. ágúst 2004 og hins vegar 11. febrúar 2005 lánaði Sparisjóðabanki Íslands hf. (nú SPB hf.) SevenMiles ehf. (þá T.O.H. ehf.) jafnvirði 83.500.000 íslenskra króna svo og 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadali og 12.633.000 japönsk jen, allt í íslenskum krónum. Til tryggingar skilvísum greiðslum SevenMiles á öllum skuldum þess við Sparisjóðabankann á hverjum tíma voru bankanum settir að veði allir hlutir í félaginu með tveimur handveðsyfirlýsingum, dags. 11. febrúar 2005, útgefnum af eigendum hlutanna, sóknaraðilum þessa máls. Þá voru bankanum einnig settir að veði allir hlutir SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til tryggingar skilvísum greiðslum á öllum skuldum félaganna þriggja við bankann á hverjum tíma, með tveimur handveðsyfirlýsingum dags. 2. febrúar 2009, en bankinn hafði lánað Spori ehf. og Sporbaugi ehf. töluverðar fjárhæðir fyrir þann tíma.
Að mati sóknaraðila voru höfuðstóll og endurgreiðsla beggja lánssamninganna tengd við gengi erlendra mynta. Telja þeir að af þeim sökum hafi uppreiknuð fjárhæð skulda SevenMiles ehf. við Sparisjóðabankann hækkað svo miklu munaði á árinu 2008 og í byrjun árs 2009, samfara því að gengi krónunnar veiktist. Um mitt ár 2009 hafi svo verið komið að félögin öll stóðu illa undir endurgreiðslubyrði hinna stökkbreyttu lána. Hafi eigendur og fyrirsvarsmenn þeirra því leitað til bankans í þeirri viðleitni að semja um sanngjarna endurgreiðslu lánanna til að tryggja rekstrarhæfi Spors og Sporbaugs. Eftir að samningsumleitanir höfðu staðið yfir í um níu mánuði hafi sóknaraðilum orðið ljóst að varnaraðili væri ekki tilbúinn að ganga til samninga og tryggja rekstrarhæfi félaganna til framtíðar, og þar með fulla endurgreiðslu skulda allra félaganna. Þá hafi aðfarir Sparisjóðabankans að eignum félaganna þriggja og hlutafjáreign eigenda þeirra hafist. Aðferðir bankans við þær aðfarir standist ekki skoðun út frá lagalegum og fjárhagslegum sjónarmiðum, en ekki síður út frá sanngirnissjónarmiðum.
Aðfarir bankans hafi hafist með því að Sparisjóðabankinn sendi SevenMiles yfirlýsingu, 7. október 2009, þar sem félaginu var tilkynnt að bankinn hafi tæpum mánuði fyrr, 9. september 2009, gengið að veði í hlutum félagsins í einkahlutafélögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf. og leyst þá til sín, til niðurgreiðslu skuldar SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf. við bankann. Samkvæmt tilkynningunni hafi bankinn leyst bréfin til sín miðað við verðmat þar sem 32% eignarhlutur var metinn á 420.280.000 kr. Samkvæmt útreikningum sóknaraðila svari verðmatið til þess að allur eignarhluturinn sem var tekinn af SevenMiles ehf. með innlausn, eða 38% af öllu hlutafé í hvoru félagi Spori ehf. og Sporbaugi ehf., hafi verið metinn á 499.082.500 kr.
Með þremur yfirlýsingum, dags. 7. október 2009, hafi Sparisjóðabankinn tilkynnt sóknaraðilum, Önnu Brynju og Tómasi Ottó, svo og stjórn SevenMiles ehf. að bankinn hafi þann dag leyst til sín eignarhluti Önnu Brynju og Tómasar Ottós, í SevenMiles. Sóknaraðilar telja þessa aðgerð afar umdeilda og ólögmæta. Eigendur SevenMiles ehf. séu þeirrar skoðunar að lán félagsins við Sparisjóðabankann hf. hafi á þeim tíma er innlausnin fór fram verið gerð upp að fullu með fullnustu bankans á veði sínu í hlutum SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. sem áður hefur verið lýst. Allt að einu hafi bankinn tilkynnt fyrirtækjaskrá breytingar á eignarhaldi, breytta stjórn og samþykktir vegna SevenMiles ehf. Í kjölfarið hafi hin nýja stjórn óskað eftir því að félagið yrði úrskurðað gjaldþrota, en þetta hafi allt verið gert án vitneskju löglega kosinnar stjórnar félagsins og réttmætra eigenda þess.
Eins og áður segir telja sóknaraðilar framangreindar aðgerðir vegna fullnustu á veði í hlutum í SevenMiles ehf. og uppgjör skuldbindinga félagsins við Sparisjóðabankann ólögmætar enda hafi skuldir félagsins við bankann verið gerðar upp þegar gengið var að veðunum. Þegar litið sé til þess að skuldbindingar félaganna þriggja, SevenMiles, Spors og Sporbaugs gagnvart Sparisjóðabankanum hafi verið tengdar gengi erlendra gjaldmiðla á ólögmætan hátt og í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 sem fjalli um vaxtaútreikning lána sem séu bundin gengi erlendra gjaldmiðla, sé enn fremur ljóst að SevenMiles hafi verið gjaldfært á þeim tíma sem varnaraðili innleysti hluti sóknaraðila í félaginu.
Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila sem og öllum þeirra málatilbúnaði. Greinargerð sóknaraðila byggi einkum og aðallega á því að innlausn veða í eignarhlutum SevenMiles ehf. hafi farið fram á ólögmætan hátt og skuldir félagsins við varnaraðila hafi verið gerðar upp þegar gengið var að veðunum. Ágreiningur þessa máls sé því í raun sá sami og í máli nr. X-463/2011 sem sé rekið samhliða fyrir héraðsdómi á milli sömu aðila.
Varnaraðili vísar til ítarlegrar greinargerðar sinnar í máli nr. X-463/2011 en telur sig þó knúinn til að mótmæla þeim vísvitandi rangfærslum sem fram koma í greinargerð sóknaraðila. Því er hafnað að um „aðfarir bankans“ hafi verið að ræða. Í ljósi þeirrar staðreyndar að félögin SevenMiles ehf., Spor ehf. og Sporbaugur ehf. hafi verið í miklum vanskilum og eigendur uppvísir að „kennitöluflakki“ hafi varnaraðili orðið að leita allra leiða til að tryggja hagsmuni sína, þar á meðal að ganga að veðum samkvæmt heimild í þeim handveðsyfirlýsingum sem sóknaraðilar höfðu sjálfir undirritað. Varnaraðili mótmælir einnig hinni sérkennilegu túlkun sóknaraðila á efni og áhrifum tilkynninga varnaraðila til sóknaraðila og félagsins SevenMiles ehf., dags. 7. október 2009, og telur fráleitt að halda því fram að með þeim tilkynningum hafi allar skuldir félagsins þurrkast út. Þá mótmælir varnaraðili öllum þeim tilefnislausu aðdróttunum sóknaraðila sem lúti að ákvörðunum réttkjörinnar stjórnar félagsins um að óska eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu og vísar til dóms Hæstaréttar Íslands, 26. ágúst 2010, í máli nr. 424/2010.
Sóknaraðilar þessa máls hafi lýst kröfu í þrotabú SevenMiles ehf. sem varnaraðili hafi frá upphafi mótmælt sem staðlausri og án fullnægjandi gagna. Á sáttafundi, 23. nóvember 2011, var ekki leyst úr þessum ágreiningi aðilanna og vísaði skiptastjóri þrotabúsins því ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 2. desember 2011.
Eins og fram er komið eru, fyrir héraðsdómi, rekin tvö ágreiningsmál milli sömu málsaðila. Málsaðilar töldu niðurstöðu í því sem fékk númerið X-463/2011 forsendu fyrir niðurstöðu þessa máls. Af þeirri ástæðu eru málsatvik og málsástæður aðila raktar mun ítarlegar í því sem fyrr var leyst úr og verður til hægðarauka að vísa til þess sem þar kemur fram til hliðsjónar.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðilar styðja þá kröfu að þeir fái afhent hlutafé sitt í SevenMiles ehf. þeim rökum að á þeim tíma þegar varnaraðili innleysti hlutafé þeirra á ólögmætan hátt og ný stjórn gaf félagið í kjölfarið upp til gjaldþrotaskipta, hafi félagið í raun verið gjaldfært og gott betur.
Sóknaraðilar fullyrða að allar aðrar kröfur en þær sem sóknar- og varnaraðili lýstu í bú SevenMiles ehf. hafi verið afturkallaðar. Eftir standi einungis kröfur sóknaraðila, sem þetta mál fjallar um, og krafa varnaraðila að fjárhæð 194.793.339 kr. um endurgreiðslu lána félagsins hjá varnaraðila, sem sóknaraðilar telja að hafi verið gerð upp með fullnustu veða í hlutafé SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Eftir endurútreikning lánsins vegna ólögmætrar gengistengingar þess sé þessi fjárhæð jafnframt talsvert lægri, svo sem rakið verði síðar. Þar að auki viti sóknaraðilar að á þeim tíma, sem félagið var gefið upp til gjaldþrotaskipta, hafi innstæður á bankareikningum þess numið ríflega 60.000.000 kr. og eigið fé félagsins því jákvætt svo að talsverðu nemi.
Í aðförum sínum hafi varnaraðili hvorki litið til fullnustu veða í eignum SevenMiles ehf. né gert grein fyrir ráðstöfun þeirra inn á lán félagsins hjá SevenMiles ehf., þrátt fyrir óskir sóknaraðila þar um, í bréfi sínu til bankans 26. október 2010. Í svarbréfi varnaraðila, 8. nóvember 2010, sé því hins vegar borið við að þau gögn sem bankinn hafi haft til hliðsjónar því mati sem lagt var til grundvallar tilkynningu um innlausn, 7. október 2009, hafi ekki gefið rétta mynd af raunverulegri stöðu félaganna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. þegar þau voru yfirtekin samkvæmt heimildum í veðsamningum. Verðmatið hafi verið unnið af VBS fjárfestingarbanka hf., sem Sparisjóðabakinn lýsi sem „viðurkenndum fagaðila“ í umræddu bréfi. Þegar ný stjórn hafi tekið við SevenMiles hafi „ástand félaganna“ verið þannig að stjórninni hafi verið skylt að gefa félögin umsvifalaust upp til gjaldþrotaskipta. Þær upplýsingar sem bankinn hafi getað aflað sér, eftir að hafa yfirtekið hluti í Spori og Sporbaugi, bendi til þess að verðmatið hafi „í senn verið rangt og villandi“. Af því leiði að forsendur verðmatsins hafi verið brostnar. Þá gefi varnaraðili í skyn í bréfinu að Pétur Halldórsson eiginmaður Önnu Brynju, annars sóknaraðila þessa máls, hafi haft áhrif á niðurstöðu verðmatsins með því að veita matsmönnum upplýsingar um stöðu félaganna og framtíðarhorfur. Hið rétta sé að Pétur Halldórsson hafi ekki komið nálægt umræddu verðmati, heldur hafi matið alfarið verið unnið af VBS fjárfestingarbanka, út frá tölulegum gögnum. Það sé staðföst trú sóknaraðila að verðmatið, sem varnaraðili hafi kosið að fara eftir við innlausn hlutafjár í Spori og Sporbaugi, hafi gefið raunhæfa mynd af virði félaganna á þeim tíma sem um ræðir.
Hvað sem líði gildi verðmats VBS fjárfestingarbanka byggi sóknaraðilar á því að varnaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni um umrædda innlausn á hlutafé í Spori ehf. og Sporbaugi ehf., þar með talið af innlausnarverðinu, enda sé yfirlýsing ákvöð sem bindi viðtakanda hennar, sem og sendanda, frá þeim tíma sem ákvöðin er komin til vitundar viðtakanda hennar. Varnaraðili geti ekki borið fyrir sig brostnar forsendur fyrir verðmati félaganna, enda hafi hann ákveðið upp á sitt eindæmi að fara eftir matinu við innlausn hlutafjárins. Hafi matið ekki staðist skoðun eftir á, að mati varnaraðila, sé það mál sem varnaraðili eigi gagnvart hinum „viðurkennda fagaðila“ sem VBS fjárfestingarbanki hafi verið á þessum tíma. Sóknaraðilar telji ekki til of mikils ætlast að varnaraðili sem fjármálafyrirtæki vandi þannig til vinnu og skjalagerðar að hún standist skoðun, enda hafi hún ríkt skuldbindingargildi fyrir bankann sem geranda og geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir viðskiptavini hans. Þegar einstaklingar í fyrirtækjarekstri geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér vegna þess offors sem fjármálastofnun beiti í krafti aflsmunar, hljóti fjármálastofnunin að þurfa að bera hallann af því, komi í ljós að vinnubrögð hennar hafi ekki verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti.
Sóknaraðilar telja jafnframt að lánssamningar félaganna þriggja við varnaraðila, eins og þeim var breytt með skilmálabreytingum og viðaukum, feli í sér ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum sem sé ólögmæt, samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og þau hafi verið túlkuð af Hæstarétti í fjölmörgum nýlegum dómum, til dæmis í máli nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax ehf.
Sóknaraðilar telja, með vísan til alls ofangreinds, að skuldir SevenMiles hafi verið greiddar upp með innlausn á hlutafé í Spori og Sporbaugi þar sem andvirði hinna innleystu trygginga hafi átt að ráðstafa inn á lán SevenMiles við Sparisjóðabankann. SevenMiles ehf. hafi því verið skuldlaust við bankann þegar hlutafé hluthafa félagsins hafi verið innleyst. Í öllu falli hafi krafa varnaraðila á hendur SevenMiles ehf. verið miklum mun lægri en bankinn krefst þegar tekið hafi verið tillit til ólögmætis gengistryggingar skuldbindingarinnar. Ljóst sé að aðeins hluti af virði hinna innleystu hluta í Spori og Sporbaugi hefði nægt til að greiða upp allar skuldir SevenMiles við bankann.
Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að einnig hafi átt að ráðstafa andvirðinu inn á önnur lán félaga í samstæðunni verði aldrei hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að ráðstafa hafi átt hlutfallslega jafnt inn á öll lánin. Samkvæmt lauslegum útreikningi frá varnaraðila, án skuldbindingar, sé uppreiknuð staða á lánum félaganna þriggja miðað við ólögmæta gengistengingu, en vaxtareiknuð samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 svona:
|
Hlutfall af heildarskuldum |
||||
|
Seven Miles ehf. |
127.475.880 kr. |
22,70% |
||
|
Spor ehf. |
279.951.590 kr. |
49,87% |
||
|
Sporbaugur ehf. |
154.029.618 kr. |
27,43% |
||
|
561.457.088 kr. |
||||
Miðað við ofangreind hlutföll hefði átt að ráðstafa minnst 95.403.560 kr. inn á lán SevenMiles. Þegar þeirri fjárhæð, sem vitað sé að félagið eigi til reiðu á bankareikningi, sé bætt við liggi fyrir að félagið hafi ekki verið og sé ekki gjaldþrota. Ofangreindur útreikningur miðist sem fyrr segir við endurútreikning á grundvelli laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 151/2010, en samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 séu ofangreindar fjárhæðir mögulega talsvert lægri.
Þá kröfu verði að gera til varnaraðila að hann geri grein fyrir áhrifum þessarar ólögmætu gengistryggingar og réttum útreikningi vaxta af lánunum. Fjallað sé um fjárhæð kröfu varnaraðila í bú SevenMiles í máli nr. X-463/2011 sem einnig sé til meðferðar Héraðsdóms Reykjavíkur.
Ofangreint sýni að í búi SevenMiles muni standa eftir eignir þegar allar aðrar kröfur, en krafa varnaraðila, hafi verið afturkallaðar og kröfu varnaraðila hafnað með vísan til framangreinds rökstuðnings fyrir því að krafan hafi þegar verið greidd. Þess vegna krefjist sóknaraðilar þess að fá afhent hlutafé sitt í SevenMiles ehf. og fá aftur umráð búsins með vísan til 2. og 3. mgr. 154. gr., en ella fá greitt út hlutafé sitt í félaginu á grundvelli 80. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Sóknaraðilar byggja seinni kröfu sína á því að þeir hafi með hlutafjáreign sinni í SevenMiles, sem varnaraðili innleysti til greiðslu skuldbindinga SevenMiles við bankann, en voru þó á þeim tíma að fullu upp gerðar eins og að ofan var rakið, greitt skuldbindingu fyrir hönd SevenMiles, og eigi þar með almenna kröfu í bú SevenMiles, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðilar hafi innleyst hlutafé sóknaraðila til tryggingar skuldum SevenMiles ehf. á genginu 0 með vísan til þess að allar eignir SevenMiles ehf. hafi verið innleystar og félagið því eignalaust. Sú ályktun varnaraðila standist enga skoðun, enda hafi eignir búsins verið þó nokkrar. Hversu miklar eignir félagsins voru á þessum tíma liggi hins vegar ekki fyrir, þar sem verðmæti þeirra hluta sem innleystir voru velti á niðurstöðu endurútreiknings lána félagsins og niðurstöðu um lögmæti þeirra aðfara sem varnaraðili gerði að eignum einkahlutafélaganna SevenMiles, Spors og Sporbaugs. Þannig velti verðmæti hlutafjárins í SevenMiles ehf. á því hvort félagið eigi inni fjármuni hjá varnaraðila, eða eftir atvikum hjá Spori ehf. og Sporbaugi ehf., þar sem verðmæti innleystra veða hafi verið hærra en sem nemi þeirri skuld sem innlausnin skyldi tryggja. Því áskilji sóknaraðilar sér rétt til að koma að gögnum sem sýni fram á virði þeirra hluta sem innleystir voru á síðari stigum.
Sóknaraðilar geri þessa kröfu til þess að verja hagsmuni sína sem séu sem stendur undir forsjá skiptastjóra þrotabús SevenMiles ehf. en ekki sé ljóst hvort þess hafi verið gætt að sótt verði krafa um endurgreiðslu þessara ofgreiðslna til bankans vegna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Sóknaraðilar telja allt að einu að þau eigi kröfu til fjárhæðarinnar á hendur SevenMiles ehf. og hvetja þrotabúið til að halda henni einnig til streitu gagnvart varnaraðila og/eða Spori ehf. og Sporbaugi ehf.
Sóknaraðilar byggja kröfur sínar einkum á meginreglum samninga- og kröfuréttar, þar með talið um skuldbindingargildi ákvaða. Þá byggja sóknaraðilar á ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 80. gr. Til stuðnings beggja krafna, þar sem fjallað er um ólögmæti gengistryggingar, er vísað til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 14. gr. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar krefjist annars vegar afhendingar hlutafjár í SevenMiles og hins vegar greiðslu úr því sama félagi. Að mati varnaraðila komi viðurkenning annarrar dómkröfunnar í veg fyrir viðurkenningu hinnar. Þær séu því ósamrýmanlegar í raun.
Sóknaraðilar krefjist afhendingar hlutafjár í einkahlutafélaginu SevenMiles ehf., að fjárhæð 410.000 kr. vegna Önnu Brynju en að fjárhæð 90.000 kr. vegna Tómasar Ottós og að bú félagsins verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða. Varnaraðili telur að skiptastjóra sé ómögulegt að verða við ofangreindri kröfu sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu að við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðarins hafi það verið varnaraðili en ekki sóknaraðili sem hafði lögformlegan rétt yfir félaginu sbr. dóm Hæstaréttar, 26. ágúst 2010, í máli nr. 424/2010. Varnaraðili bendir á að kröfugerð sóknaraðila samkvæmt greinargerð gangi lengra og sé umfram kröfugerð sóknaraðila í kröfulýsingu, dags. 2. nóv. 2010. Þar af leiðandi sé hún of seint fram komin, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og að sínu leyti 1. mgr. 171. gr. og 1. mgr. 177. gr. sömu laga.
Í kröfulýsingum í þrotabú SevenMiles krefjist sóknaraðilar þess að fá hlutafé sitt greitt út úr félaginu og nemi krafan 410.000 kr. vegna Önnu Brynju og 90.000 kr. vegna Tómasar Ottós. Þeirra krafna sé hins vegar ekki getið með beinum hætti í kröfugerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi heldur séu settar fram, að því er virðist, nýjar kröfur er lúti að afhendingu hlutafjárins og að búið verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða. Telja verði að með slíkum kröfum hljóti sóknaraðilar að eiga við „pro forma“ afhendingu en að öðrum kosti væri verið að krefjast fjárgreiðslu út úr búinu auk umráða búsins sjálfs. Enda virðist sóknaraðilar byggja á því í reifun málsástæðna að fái þeir ekki umráð búsins þá eigi þeir rétt til að fá hlutafé sitt greitt út úr félaginu. Sú málsástæða sóknaraðila, sbr. og tilvísun til 80. gr. laga nr. 138/1994, eigi hins vegar ekki við.
Varnaraðili mótmælir sem röngu og ósönnuðu að eigið fé félagsins SevenMiles ehf. hafi verið jákvætt við uppkvaðningu úrskurðar um töku þess til gjaldþrotaskipta og að félagið hafi þá verið gjaldfært. Vandséð sé hvernig sóknaraðilar geti haldið slíku fram á sama tíma og þeir sjálfir lýsi á fjórða hundrað milljóna króna kröfu í búið. Þá hafi sóknaraðilar ekki lagt fram nein gögn er styðji framangreindar staðhæfingar þeirra og ekkert það fram komið í málinu er renni stoðum undir fullyrðingar sóknaraðila. Sóknaraðilar verði að bera hallann af því. Að mati þáverandi stjórnar félagsins hafi félagið verið ógjaldfært og þar af leiðandi hafi stjórninni borið að gefa það upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 1. og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Engu breyti þar um þótt félagið hafi átt einhverjar eignir við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskiptin. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi kveðið upp þann úrskurð, 16. nóvember 2009, að félagið SevenMiles ehf. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta og þrátt fyrir fjölmargar tilraunir af hálfu fyrri stjórnar félagsins hafi þeim úrskurði ekki verið hnekkt. Þá hafi ekkert verið lagt fram er staðfesti þá fullyrðingu sóknaraðila að allar aðrar kröfur í búið hafi verið afturkallaðar. Jafnvel þótt svo væri þá breytti það ekki því að við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðarins hafi skuldastaða félagsins verið sú sem kröfuskrá þrotabúsins sýni.
Samkvæmt ákvörðun löglega kjörinnar stjórnar í félaginu hafi verið óskað eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Sú ákvörðun hafi verið tekin á lögformlegan hátt af til þess bærum aðilum eins og Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt í máli nr. 424/2010. Jafnframt hafi kröfu um endurupptöku gjaldþrotaskipta verið hafnað. Sá dómur gildi, jafnvel þótt hann sé þvert á vilja sóknaraðila.
Varnaraðili mótmælir öllum fullyrðingum sóknaraðila er lúta að því að innlausn veða hafi farið fram á ólögmætan hátt og að kröfur varnaraðila séu að fullu uppgerðar með því að hann hafi fullnustað veðin er lágu í hlutabréfaeign SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Í greinargerð sóknaraðila í máli nr. X-463/2011 sé afstaða varnaraðila þar að lútandi ítarlega rakin og rökstudd. Vísast um nánari útlistun og rökstuðning til þeirrar greinargerðar. Að gefnu tilefni áréttar varnaraðili sérstaklega að hann telji sóknaraðila ekki geta byggt rétt á tilvísun varnaraðila til þess verðmats sem tilgreint var í bréfi varnaraðila, 7. október 2009, þar sem fyrir liggi að heimildin í tilgreindum handveðssamningum taki meðal annars til þess að leysa til sín hina veðsettu hluti og koma þeim í verð. Hinum veðsettu hlutum hafi aldrei verið komið í neitt verð þegar af þeirri ástæðu að þeir voru verðlausir. Sú staðreynd að félögin hafi öll verið úrskurðuð gjaldþrota staðfesti enn fremur að hlutirnir hafi í reynd verið verðlausir.
Sóknaraðilar byggi á því að varnaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni um umrædda innlausn á hlutafé í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. þar sem slík yfirlýsing sé ákvöð er bindi bæði sendanda og viðtakanda. Varnaraðili mótmælir slíkri staðhæfingu, sem telja verði staðlausa í ljósi málsatvika. Varnaraðili telur einsýnt að meint yfirlýsing um innlausn veða á nánar tilgreindu verði til „niðurgreiðslu skulda“ hafi ekki verið og geti ekki verið skuldbindandi fyrir varnaraðila, sbr. 32. gr. samningalaga nr. 7/1936, svo og að sínu leyti 33. gr. sömu laga. Sóknaraðilar hafi vitað að félögin, Spor ehf. og Sporbaugur ehf., væru gjaldþrota í raun og hlutabréfin þar af leiðandi algjörlega verðlaus eins og framlögð skjöl staðfesti á óyggjandi hátt. Eftir gerð verðmats VBS fjárfestingarbanka hf. í maí 2009 hafi rekstur félaganna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. verið seldur yfir í nýtt félag haustið 2009, að varnaraðila forspurðum, en skuldirnar skildar eftir þannig að þess þá heldur hafi verið útilokað að meta virði félaganna með þeim hætti er varnaraðilar réðu af tilkynningunni 7. október 2009. Varnaraðili áréttar, að þrátt fyrir vitneskju sína um sölu reksturs Sporbaugs ehf. hafi hann ekki mátt eiga von á að bæði félögin hefðu verið algjörlega tæmd af öllu öðru en skuldum. Í öllu falli hafi forsendur hans verið brostnar.
Varnaraðili mótmælir harðlega þeirri staðhæfingu sóknaraðila að nefnt verðmat hafi gefið raunhæfa mynd af virði félaganna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Sóknaraðilar geti ekki, gegn betri vitund, haldið því fram að miða eigi við tiltekið innlausnarverð eins og eignir væru enn í félaginu þegar eignir búsins hafi verið fjarlægðar að þeirra eigin tilhlutan, þannig að eftir hafi staðið tvö eignalaus og verðlaus félög. Varnaraðili áréttar að hann hafi aldrei fengið neina raunverulega greiðslu í sinn hlut. Heildarskuld félaganna þriggja hafi á gjaldfellingardegi numið jafnvirði 698.654.639 íslenskra króna og 729.201.300 íslenskra króna samkvæmt kröfulýsingum í þrotabú félaganna. Jafnvel þótt litið yrði svo á að varnaraðili væri bundinn við tilvísun til „niðurgreiðslu skulda“ að fjárhæð 420.280.000 kr. sé það óvefengjanleg staðreynd að verulegur hluti þeirra skulda hafi enn verið ógreiddur. Sóknaraðilar geti því ekki haldið því fram að skuld félagsins SevenMiles sé gerð upp.
Varnaraðili vísar því á bug að honum hafi borið að ráðstafa „andvirði hinna innleystu trygginga“ inn á lán SevenMiles við varnaraðila. Þeir handveðssamningar, sem tilgreini veðrétt sóknaraðila í framangreindum hlutum í Spori ehf. og Sporbaugi ehf., tiltaki skilmerkilega að hlutirnir séu veðsettir til tryggingar skuldum allra þriggja félaganna, það er SevenMiles ehf. (veðsala sjálfs), Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Varnaraðili hafi þar af leiðandi lýst öllum kröfum sínum í öll þrjú þrotabúin, þ.e. SevenMiles, Spor og Sporbaug, enda hafi engar greiðslur eða verðmæti fengist upp í kröfur hans, að frátöldum gömlum skólager sem var metinn á 3.900.000 kr.
Þá bendir varnaraðili á að með vísan til handveðssamninganna hefði hann haft fullt val um það hvaða kröfur félaganna þriggja væru greiddar niður með „andvirði innleystra veða“. Það sé einnig í samræmi við 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Varnaraðili hafnar því að hann hafi verið skuldbundinn því að nýta „verðmæti veðanna“ til að greiða fyrst niður skuld SevenMiles, áður en farið yrði í að greiða niður skuldir Spors og Sporbaugs, eins og sóknaraðili haldi fram. Þá mótmælir varnaraðili því sömuleiðis að honum hefði borið að ráðstafa „andvirði innleystra veða“ hlutfallslega inn á öll lánin. Engar slíkar skuldbindingar séu í bréfum eða tilkynningum sem gengið hafi milli aðila og almennar reglur kröfuréttarins styðji ekki heldur slíka túlkun, sbr. einnig áðurgreindan dóm Hæstaréttar frá 26. ágúst 2010 þar sem framangreint hafi jafnframt verið staðfest vegna lögskipta aðila.
Varnaraðili hafnar þeirri málsástæðu sóknaraðila að lánssamningar aðila hafi innihaldið ólögmæt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum og sé öllum staðhæfingum varnaraðila þar að lútandi mótmælt. Jafnvel þótt talið yrði að samningarnir hafi haft ólögmæt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum þá sé það óvefengjanleg staðreynd að eftir sem áður sé skuld SevenMiles ehf. við varnaraðila ógreidd. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um afhendingu hlutafjár í félaginu.
Vegna áskorunar sóknaraðila í greinargerð taki varnaraðili fram að útreikningur lána SevenMiles ehf. hafi þegar verið lagður fram. Sóknaraðilar hafi hins vegar hvorki lögvarðan rétt né hagsmuni af að fá útreikninga vegna lánasamninga annarra félaga en krafa þeirra lúti að sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili fellst ekki á að samþykkja beri kröfur sóknaraðila „vegna innleystra ábyrgða vegna skulda SevenMiles ehf.“ sem almennar kröfur í þrotabú SevenMiles ehf. Að frátalinni þeirri staðreynd að þær gangi þvert á kröfu sóknaraðila sjálfra um afhendingu hlutafjár séu þessar kröfur aukinheldur svo vanreifaðar og órökstuddar að dómari ætti í raun að vísa þeim frá án kröfu. Þær fjárhæðir sem sé krafist séu annars vegar 248.005.964 kr. vegna Önnu Brynju og hins vegar 55.185.745 kr. vegna Tómasar Ottós. Ekki liggi fyrir neinar skýringar á tilurð þeirra fjárhæða, hvað þá rökstuðningur þar að lútandi.
Samkvæmt kröfulýsingum sóknaraðila, dagsettum 2. nóvember 2010, sé höfuðstóllinn reiknaður út frá mati sóknaraðila á verðmæti félagsins á innlausnardegi eins og það er orðað í kröfulýsingunum, og sé sérstaklega tekið fram að sóknaraðilar áskilji sér rétt til að leggja fram nánari útreikninga til rökstuðnings kröfunni og/eða afla mats um verðmæti félagsins. Í lok mars 2012 hafi nánari rökstuðningur ekki enn verið lagður fram og varnaraðila sé, sem fyrr, gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig höfuðstóll kröfu sóknaraðila sé fundinn. Þá sé kröfu um dráttarvexti alfarið hafnað enda sé hún ekki rökstudd, eins og lög bjóði. Auk þess telji varnaraðili ósannað að sóknaraðili eigi nokkra kröfu á hendur félaginu SevenMiles ehf. Sama gildi einnig um innheimtuþóknun sóknaraðila sem sé allt of há og ekki í nokkru samræmi við kröfufjárhæð, en í öllu falli geti slík innheimtuþóknun aldrei raðast framar í réttindaröð en sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Helst megi draga þá ályktun af málatilbúnaði sóknaraðila að þar sem félagið SevenMiles ehf. og jafnvel Spor ehf. og Sporbaugur ehf., kunni að eiga inni fjármuni hjá varnaraðila, þá réttlæti það kröfu sóknaraðila. Engin tilraun sé gerð til að færa sönnur á þær fullyrðingar eða skýra út hvernig þær fjárhæðir séu fundnar né hver hugsanleg endurgreiðslukrafa félagsins gæti mögulega verið. Varnaraðili vísar því á bug, sem órökstuddu og ósönnuðu að hið gjaldþrota félag, SevenMiles ehf., eða Spor og Sporbaugur fyrir sitt leyti, kunni að eiga endurgreiðslukröfu á hendur varnaraðila, auk þess sem sóknaraðilar eigi enga aðild að slíkum kröfum sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þvert á móti eigi varnaraðili gilda og lögformlega kröfu á það félag eins og nánar sé rakið og rökstutt í greinargerð í máli nr. X-463/2011.
Öllum fullyrðingum sóknaraðila um skuld félagsins við þá sé mótmælt sem ósönnuðum og órökstuddum. Sóknaraðilar hafi hvorki lagt fram nein gögn er styðji það mat sem krafa þeirra byggist á né teflt fram fullnægjandi málsástæðum því til stuðnings. Af því beri sóknaraðilar allan halla.
Með vísan til alls framanritaðs telur varnaraðili að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum. Að öðrum kosti beri að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar án kröfu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 91/1991 um meðferð einkamála, nr. 138/1994 um hlutafélög, III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð svo og meginreglna samninga-, veð- og kröfuréttarins. Málskostnaðarkröfu sína styður varnaraðili við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Sóknaraðilar krefjast þess að fá afhent úr þrotabúi SevenMiles ehf. hlutafé í einkahlutafélaginu SevenMiles ehf., að fjárhæð 410.000 kr. vegna Önnu Brynju, en að fjárhæð 90.000 kr. vegna Tómasar Ottós og að bú félagsins verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða. Skilja verður kröfu sóknaraðila þannig að þau krefjist þess að fá hlutabréfin í félaginu afhent.
Skiptastjóri þrotabús SevenMiles sendi héraðsdómi tvö ágreiningsmál til úrlausnar. Annað, sem fékk númerið X-463/2011, varðaði kröfur SPB hf. í bú SevenMiles og hitt, það sem hér er til úrlausnar, kröfur sóknaraðila þessa máls. Í þessu máli er það forsenda sóknaraðila fyrir fyrri kröfunni að félagið SevenMiles hafi verið skuldlaust við Sparisjóðabankann eftir að því barst sú tilkynning bankans, 7. október 2009, að hann tæki yfir hlutabréf félagsins í Spori og Sporbaugi að verðmæti samtals 420.280.000 kr.
Í málinu X-463/2011 var það niðurstaða dómsins að SPB ætti kröfur í búið og að félagið SevenMiles hafi ekki verið skuldlaust við Sparisjóðabankann eftir að því barst tilkynning bankans, 7. október 2009. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fyrir hendi sú forsenda sóknaraðila, að SevenMiles hafi ekki skuldað Sparisjóðabankanum neitt þegar bankinn tók yfir hlutabréf sóknaraðila í SevenMiles. Í báðum málunum kveðast sóknaraðilar hafa vitað að SevenMiles hafi átt 60.000.000 kr. á bankareikningum þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt hafi aðrir kröfuhafar fallið frá kröfum sínum í búið. Sóknaraðilar hafa hins vegar ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessum fullyrðingum og verða þær því ekki taldar hafa neina þýðingu.
Í XXII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er fjallað um úthlutun og lok gjaldþrotaskipta. Þar segir í 154. gr. að gjaldþrotaskiptum skuli þegar lokið komist nauðasamningur á samkvæmt fyrirmælum XXI. kafla. Í 2. mgr. segir að skiptum skuli lokið leggi þrotamaðurinn fram, eftir lok kröfulýsingarfrests, yfirlýsingar allra þeirra sem hafi lýst kröfum um að þeir afturkalli þær eða þrotamaðurinn sannar að þær séu fallnar niður. Ljúki skiptum skv. 1. eða 2. mgr. er mælt svo fyrir í 3. mgr. að skiptastjóri skuli afhenda þrotamanninum þær eignir þrotabúsins sem hann hefur undir höndum, enda sé kostnaður af skiptunum áður greiddur. Skiptastjóri skal gera skriflegt yfirlit um þær greiðslur sem hann hefur tekið við og innt af hendi vegna þrotabúsins og láta það þrotamanninum í té ef hann leitar eftir því. Rísi ágreiningur um heimild til að ljúka skiptum skv. 2. mgr. skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr.
Færi svo að skilyrði 2. mgr. 154. gr. yrðu uppfyllt og skiptastjóra bæri að afhenda þrotamanni búið aftur til frjálsra umráða þá ætti skiptastjóri að afhenda búið þeim sem hafði formlega heimild yfir hlutabréfum félagsins þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta, það er Sparisjóðabankanum ehf. sem heitir nú SPB ehf.
Hvort SPB ehf. bæri, fengi hann búið til frjálsra umráða, að afhenda hlutabréfin sóknaraðilum þar sem ekki hafi verið skilyrði fyrir því að Sparisjóðabankinn tæki yfir hluti sóknaraðila í SevenMiles er ágreiningur sem ekki heyrir undir skiptastjóra að leysa úr. Af þessari ástæðu verður hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að bú SevenMiles verði afhent þeim til frjálsra umráða.
Í málsástæðum orða sóknaraðilar fyrri lið kröfu sinnar þannig að þeir krefjist þess að fá afhent hlutafé sitt í SevenMiles ehf. og fá aftur umráð búsins með vísan til 2. og 3. mgr. 154. gr., en ella fá greitt út hlutafé sitt í félaginu á grundvelli 80. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Í XIII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er fjallað um félagsslit. Þar segir í 80. gr. að stjórn félags sé skylt að afhenda bú félags til gjaldþrotaskipta eftir því sem mælt er fyrir í ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 2. mgr. segir að standi eignir eftir við gjaldþrotaskipti, að greiddum kröfum lánardrottna, skuli skipta þeim milli hluthafa í hlutfalli við hlutafjáreign þeirra nema samþykktir félags kveði á um aðra skipan. Lögmætur hluthafafundur getur þó ákveðið að halda starfsemi félagsins áfram að fullnægðum lögmæltum skilyrðum til þess.
Þetta ákvæði verður ekki skilið á annan veg en þann að færi svo að eignir stæðu eftir, að greiddum öllum kröfum lánardrottna í bú SevenMiles, þá bæri skiptastjóra að skipta eignunum milli þeirra sem áttu hlut í félaginu, þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta, í hlutfalli við hlutafjáreign þeirra. Eins og áður er komið fram átti Sparisjóðabankinn allt hlutafé í félaginu þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta. Því verður ekki séð að sóknaraðilar geti átt aðild að kröfu sem byggist á 80. gr. laga nr. 138/1994.
Sóknaraðilar krefjast þess enn fremur að kröfur þeirra vegna innleystra ábyrgða vegna skulda SevenMiles ehf., að fjárhæð 248.005.964 kr. vegna Önnu Brynju, en að fjárhæð 55.185.745 kr. vegna Tómasar Ottós, verði samþykktar sem almennar kröfur í bú SevenMiles ehf.
Sóknaraðilar byggja seinni kröfu sína á því að þeir hafi með hlutafjáreign sinni í SevenMiles, greitt skuldbindingu fyrir hönd félagsins, og eigi þar með almenna kröfu í bú SevenMiles, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Eins og sóknaraðilar gera sjálfir grein fyrir er fjárhæð kröfunnar úr lausu lofti gripin og veltur á ótal þáttum sem voru óvissir þegar sóknaraðilar lögðu fram greinargerð sína og eru óvissir enn. Í greinargerð áskilja sóknaraðilar sér rétt til að koma að gögnum til að sýna fram á virði þeirra hluta sem Sparisjóðabankinn tók til sín með tilkynningu 7. október 2009. Þau gögn voru ekki lögð fram áður en málið var tekið til úrskurðar. Hafi þessi krafa yfirhöfuð stofnast hefur ekki verið gerð nein grein fyrir því hvernig ætti að reikna hana út. Vegna vanreifunar þykir verða að vísa kröfu sóknaraðila vegna innleystra ábyrgða frá dómi án kröfu.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila óskipt 500.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Önnu Brynju Ísaksdóttur og Tómasar Ottós Hanssonar, um afhendingu hlutafjár í einkahlutafélaginu SevenMiles ehf. og að bú félagsins verði í kjölfarið afhent sóknaraðilum til umráða.
Kröfum sóknaraðila vegna innleystra ábyrgða vegna skulda SevenMiles ehf. er vísað frá dómi án kröfu.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila, SPB hf., óskipt 500.000 kr. í málskostnað.