Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2010


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 18/2010.

X

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.

X var handtekinn síðdegis 4. nóvember 2008 og síðar um kvöldið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rökstudds gruns um að hafa í félagi við þrjá aðra menn nauðgað 17 ára gamalli stúlku. Tveimur dögum síðar var X  látinn laus og með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2009 var honum tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt þar sem ekki þætti lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn þess. X höfðaði í kjölfarið mál og krafðist skaðabóta þar sem hann taldi sig hafa setið í gæsluvarðhaldi að ósekju. Talið var að nægjanlegt tilefni hafi verið fyrir hendi til að krefjast gæsluvarðhalds yfir X eins og atvik voru vaxin. Hins vegar var talið að vísbendingar hafi komið fram þann 5. nóvember um að ætlaður brotaþoli í málinu hafi ekki verið þvinguð til kynlífsathafna, en þetta hafi ekki verið rannsakað frekar fyrr en degi síðar þótt X hafi sérstaklega bent á að upptaka samtala með farsíma hans umrætt kvöld sannaði að hann segði rétt frá atvikum umrætt sinn. X hafi því verið gert að sæta gæsluvarðahaldi lengur en tilefni var til og ætti hann rétt til bóta úr hendi Í af þeim sökum. Voru bætur til X hæfilegar ákveðnar 150.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um bætur vegna gæsluvarðhalds, sem hann telur sig hafa sætt að ósekju. Hann var handtekinn 4. nóvember 2008 um kl. 17 og eftir skýrslutöku og réttarlæknisfræðilega skoðun var hann í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 22.30 sama kvöld úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til 11. nóvember 2008 kl. 16. Ástæða gæsluvarðhaldsins var sú að hann lá undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við þrjá aðra menn aðfaranótt 4. sama mánaðar nauðgað 17 ára stúlku í kjallaraíbúð við [..] Reykjavík. Áfrýjandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, en áður en dómur yrði felldur í málinu var gæsluvarðhaldinu aflétt og áfrýjandi látinn laus síðdegis 6. nóvember 2008. Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 30. janúar 2009 var áfrýjanda síðan tilkynnt að rannsókn málsins hafi verið hætt þar sem ekki þætti lengur vera grundvöllur fyrir frekari rannsókn þess.

Þegar skýrsla var tekin af áfrýjanda fyrir lögreglu síðla dags eftir að hann var handtekinn hafði lögregla þegar lagt hald á tvo farsíma í hans eigu og að auki einn, sem fannst í kjallaraíbúðinni sem um ræðir og var í eigu eins hinna mannanna þriggja sem voru handteknir fyrr þann sama dag. Áfrýjandi neitaði sök og lýsti atvikum svo að kynmök hans við stúlkuna hefðu verið með fullum vilja og samþykki hennar. Eftir að samræðinu lauk hafi hann rætt við vinkonu hennar, sem kom ásamt henni og hinum mönnunum þrem á staðinn áður en áfrýjandi kom þangað sjálfur. Hann hafi þá ákveðið að taka með farsíma sínum upp samtal þeirra, þar sem fleiri viðstaddir tóku þátt og báðar stúlkurnar í lokin. Aðspurður um ástæðu þess að hann tók upp samtalið svaraði hann að „þessi æsingur í vinkonunni sem, sem sagt, gerir mig smá smeykan um að nákvæmlega eitthvað svona rugl mundi gerast þannig að mér fannst ég geta tryggt mig aðeins með því að taka þetta upp.“ Við skýrslutökuna gat áfrýjandi þess ítrekað að upptakan leiddi í ljós að grunsemdir á hendur honum væru ekki á rökum reistar og heimilaði að báðir símar hans yrðu rannsakaðir. Fram er komið að lögregla hlýddi ekki á upptökuna fyrr en um miðjan dag 6. nóvember 2008. Í kjölfar þess var gæsluvarðhaldi yfir áfrýjanda aflétt.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn einkum á því að gæsluvarðhald yfir honum hafi verið tilefnislaust, en hvað sem öðru líði hafi það staðið lengur en nokkur efni stóðu til. Málavextir og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

II

Þær sakargiftir, sem bornar voru á áfrýjanda og þrjá aðra menn, voru mjög alvarlegar. Skýrslutökur leiddu meðal annars í ljós að hinir mennirnir höfðu aðfaranótt 4. nóvember 2008 sagt stúlkunum rangt til nafns og framburður þeirra var um margt misvísandi. Við húsleit höfðu fíkniefni fundist í kjallaraíbúðinni en stúlkan, sem kærði mennina, var undir miklum áhrifum fíkniefna þessa nótt. Rannsókn málsins var á frumstigi í dagslok 4. nóvember 2008 og all umfangsmikil. Verður samkvæmt því ekki fallist á að tilefni hafi á því stigi ekki verið nægilegt til að krefjast gæsluvarðhalds yfir áfrýjanda eins og atvik voru vaxin.

Lögregla óskaði eftir því 5. nóvember 2008 að símar áfrýjanda og eins hinna mannanna yrðu rannsakaðir, en ekki liggur fyrir hvenær dagsins það var gert. Upptökur á síma þess síðarnefnda voru kannaðar sama dag, en nokkrum tæknilegum örðugleikum var háð að hlýða á upptöku samtals úr samkvæminu umrædda nótt, en tókst þó að einhverju leyti. Ummæli stúlkunnar, sem kærði mennina, í því samtalsbroti voru með þeim hætti að grunur hlaut að vakna um að hún hafi ekki verið þvinguð til kynlífsathafna. Sími áfrýjanda var þrátt fyrir það ekki rannsakaður fyrr en degi síðar. Engin skýring er fram komin á því hvers vegna það var ekki gert fyrr og ekki er borið við að tæknilegir örðugleikar hafi tafið að unnt yrði að hlýða á upptökuna. Að því loknu var það mat lögreglu, eins og fram er komið, að ekki væri ástæða til að hafa áfrýjanda lengur í haldi. Fallist er á með áfrýjanda að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en tilefni var til og eigi rétt til bóta úr hendi stefnda af þeim sökum.

Krafa áfrýjanda er reist á 175. gr. og 176. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann var samvinnufús við rannsókn málsins og framburður hans hjá lögreglu gefur ekki tilefni til að fella niður eða lækka bætur af þeim sökum, sem greinir í síðari málslið 1. mgr. 175. gr. laganna. Að öllu virtu eru bætur til áfrýjanda hæfilega ákveðnar 150.000 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarlaun verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Áfrýjandi nýtur gjafsóknar fyrir Hæstarétti og verður þóknun lögmanns hans ákveðin eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, X, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir  Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2009.

I.

Mál þetta, sem var dómtekið þann 2. nóvember 2009, var höfðað með birtingu stefnu þann 1. apríl 2009. Stefnandi er X, kt. [...], [...], Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 700.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 2. maí 2009 til greiðsludags.

Auk þess krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.  Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.

II.

Málavextir eru þeir að stefnandi var handtekinn á heimili sínu síðdegis þann 4. nóvember 2008.  Í kjölfar handtöku gekkst hann undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Hann var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sama kvöld úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. nóvember s.á. Hann var grunaður um að hafa nóttina áður, ásamt þremur öðrum mönnum, nauðgað 17 ára gamalli stúlku. Meint brot varðaði allt að 16 ára fangelsi og var talið mega heimfæra undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.  Stefnanda var sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir tvo daga, þ.e. þann 6. nóvember 2008.  Með bréfi, dags. 30. janúar 2009, tilkynnti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stefnanda að lögreglan hefði hætt rannsókn málsins þar sem ekki þætti lengur grundvöllur til að halda rannsókninni áfram, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Aðdragandi ofangreindrar handtöku og gæsluvarðahalds var eftirfarandi: Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt þriðjudagsins 4. nóvember 2008 barst lögreglu tilkynning kl. 3:37 um að 17 ára stúlku hefði verið nauðgað. Hefði henni verið „hent út úr“ bifreið á bifreiðastæði við verslanamiðstöð við [...] í Reykjavík en gerendur, sem væru þrír talsins, væru í bifreiðinni á leið brott úr [...]hverfinu. Örskömmu síðar var bifreiðin stöðvuð á [...] og voru mennirnir handteknir og færðir á lögreglustöð. Fóru lögreglumenn að [...] og hittu stúlkuna sem þar stóð á bifreiðastæðinu. Var hún mjög ölvuð að sjá. Hún var ekki grátandi, en í nokkru uppnámi, talaði viðstöðulaust og fór úr einu í annað. Var erfitt að fá framburð hennar, en hún sagði fjóra menn hafa nauðgað sér í húsi sem væri í hverfinu ofan við [...].

Stúlkan sem um ræðir var ákærð fyrir rangar sakargiftir. Hún var sýknuð af þeim kröfum ákæruvaldsins með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009.  Fyrir dómi í því máli lýsti stúlkan atburðunum sem urðu tilefni handtöku og gæsluvarðhaldsúrskurðar stefnanda svo: Hún hafi verið með vinkonu sinni, á veitingastað í [...] kvöldið sem um ræðir og hitt þar fyrir utan þrjá stráka sem kynntu sig sem Þ, Æ og Ö. Hefðu þær farið með strákunum heim til eins þeirra. Þegar þangað kom hefðu þau farið að spjalla. Hundur sem Þ átti hefði verið þarna í íbúðinni og hefði hundurinn farið að naga skó hennar. Stúlkan sagðist hafa skammað hundinn vegna þessa, en Þ tekið því illa, tekið í hana og hrist hana.  Sagðist hún hafa verið smeyk við Þ eftir þetta. Skömmu eftir þetta atvik hefði fjórði maðurinn, X, komið í íbúðina. Ö hefði beðið hana að koma með sér inn í herbergi og hefði hún fylgt honum þangað.  Hefði Þ komið inn í herbergið til þeirra. Þ hefði hjálpað henni úr fötunum og sagt henni að hafa munnmök við Ö. Hann hefði rifið í hár hennar, látið hana hafa munnmök við Ö og sett fingurna í leggöng hennar. Hún hefði ekki þorað annað en að gera þetta. Þegar það var afstaðið hefði Ö farið að klæða sig og hún ætlað að gera það sama, en Þ stöðvað hana og sagt að þetta væri ekki búið. Þá hefði X komið inn, afklæðst og lagst niður. Hefði Þ sagt henni að hafa munnmök við X en hún neitað því. Þ hefði þá rifið í hár hennar og síðan hefði allt gengið fyrir sig eins og í fyrra skiptið. Þegar þessu lauk hefði Æ komið inn í herbergið og lagst upp í rúmið. Í því hefði vinkona hennar opnað hurðina á herberginu og hefði Þ þá rokið út. Eftir smástund hefði Æ staðið á fætur og hefðu þau klætt sig og farið fram. Stúlkan sagði að á meðan á þessu stóð inni í herberginu hefði Þ „mokað“ í hana amfetamíni. Hún hefði jafnframt verið búin að neyta áfengis, hefði hún drukkið um það bil fjóra bjóra fyrr um kvöldið. Hún sagðist ekki hafa orðið þess vör að verið væri að taka samskipti hennar við mennina upp á síma. Hún sagðist ekki vefengja þær upptökur sem lægju fyrir í málinu, en gæti lítið um þær sagt þar sem hún myndi ekki eftir þessu. Minni sitt hafi verið orðið lélegt undir lokin en upptökurnar sem um ræðir séu frá því eftir að kynferðisathöfnunum lauk, þegar hún hélt að allt væri yfirstaðið.  Fram kom í sakamálinu að atburðirnir höfðu mikil og vond áhrif á líf stúlkunnar sem átti í hlut.

Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 10. desember sl., þar sem fram kemur að í blóðsýni sem tekið var úr stúlkunni við læknisskoðun á Neyðarmóttöku mældist magn alkóhóls 0,99 ‰. Þá mældust 700 ng/ml af amfetamíni í blóði ákærðu. Magn alkóhóls í þvagsýni mældist 1,40 ‰. Fram kom að eitrunarmörk séu miðuð við 200 til 400 ng/ml og í öllum tilvikum sé talið um eitrun að ræða ef magnið fer yfir 400 ng/ml. Þá kom fram að ef meira en 1.000 ng/ml mælist í blóði látins manns er talið að amfetamíneitrun skýri andlát. Amfetamín hafi bæði líkamleg áhrif og áhrif á miðtaugakerfið, svo sem hækkaðan blóðþrýsting, aukinn hjartslátt o.fl. Sá sem þess neytti yrði gjarnan mjög ör, hugsanir væru ekki í góðu samhengi og líkur væru á ofskynjunum og ofsjónum.  Einnig gæti amfetamín haft þau áhrif að auka kynhvöt. Áhrifin yrðu almennt enn sterkari hjá 17 ára stúlku sem hefði ekki myndað þol gegn amfetamíni.

Þá eru meðal gagna málsins tvær hljóðupptökur sem fundust í tveimur öðrum farsímum. Á upptökunni í öðrum farsímanum heyrist kona segja eftirfarandi: „Ég ætla að fucking fá það, einhvern bónus skilurðu. Annars fæ ég fyrir málið og segi algjör nauðgun skilurðu.“

                Í sakamálinu báru vitni sálfræðingar og læknir sem annaðist stúlkuna á Neyðarmóttöku. Bar þeim ásamt móður stúlkunnar öllum saman um að hún hafi sýnt einkenni áfallastreituröskunar eða þess að hafa mátt þola kynferðislegt ofbeldi. Slík einkenni kæmu yfirleitt fram í kjölfar eins atviks sem hefði áhrif á einstakling þannig að hann yrði hræddur, upplifði mikla ógn eða skelfingu. Þessi einkenni hefðu komið fram strax daginn eftir og verið viðvarandi eftir það.

III.

Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á því að þegar við handtöku þann 4. nóvember 2008 hafi hann greint frá því að unnt væri að sýna fram á sakleysi hans með því að skoða farsíma í hans eigu. Hann kveðst hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar en áður en Hæstiréttur felldi dóm í málinu hafi hann verið leystur úr haldi, þ.e. tveimur dögum eftir úrskurð um gæsluvarðhald.  Hann kveður lögregluna ekki hafa kannað efni farsímans fyrr en 6. nóvember og þá hafi komið í ljós að frásögn hans hafi verið á rökum reist sem leiddi til þess að ekki hafi verið frekari skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi.

Stefnandi telur að hann hafi verið látinn sæta ólögmætu gæsluvarðhaldi. Lögreglu hafi verið í lófa lagið að kanna þau gögn sem síðar urðu til þess að sýna fram á sakleysi hans, áður en farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum. Stefnandi kveðst telja að könnun á farsíma hans sé mjög einföld aðgerð sem eigi ekki að taka nema nokkrar mínútur.

Stefnandi leggur áherslu á að hann hafi frá upphafi verið mjög samvinnufús. Hann hafi strax látið lögreglu vita um farsímann og þær upplýsingar sem hann hefði að geyma. Hann kveður vinnubrögð lögreglu óafsakanleg að þessu leyti, sérstaklega þegar haft sé í huga að háttsemi sú sem hann hafi verið sakaður um sé mjög alvarleg og valdi gríðarlegum álitshnekki. Stefnandi kveðst hafa þurft að dvelja í fangaklefa í tvo sólarhringa og allan þann tíma verið í mikilli óvissu um framtíð sína og frelsi auk þess að vera þjakaður af áhyggjum og vanlíðan yfir að vera ranglega sakaður um svo alvarlegan glæp gegn stúlku undir lögaldri. Hefði lögreglan kannað farsíma hans strax hefði verið unnt að komast hjá þessu og fella málið niður strax.

Þá finnur stefnandi að því að hafa haft réttarstöðu sakbornings á meðan á rannsókn málsins stóð og allt til 30. janúar 2009 þegar lögreglan tilkynnti með bréfi að málið væri niður fallið.

Kröfu sína um miskabætur vegna handtöku og gæsluvarðhalds rökstyður stefnandi með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Hann bendir á að jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að nægt tilefni hafi verið til þeirra þvingunarráðstafana sem hann hafi sætt komi b. liður 176. gr. laganna ekki í veg fyrir að hann eigi rétt til bóta þar sem sá réttur sé verndaður í 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Hann kveður að túlka beri 2. málslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 þröngt, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefnandi kveðst ekki hafa framið þau brot sem honum hafi verið gefin að sök. Ekkert sé fram komið í málinu sem geti réttlætt að bætur til hans verði felldar niður að hluta til eða að öllu leyti.

Þá vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð gegn æru um að réttur til miskabóta hafi stofnast vegna aðgerða stefnda. Hann telur að stefndi hafi brotið gróflega gegn sér og sé því krafa hans um 700.000 króna miskabætur hófleg.

Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III.og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

IV.

Sýknukröfu sína rökstyður stefndi svo að upphaflegar rannsóknaraðgerðir lögreglu, m.a. handtaka og gæsluvarðhald stefnanda, hafi verið lögmætar og eðlilegar aðgerðir. Þær hafi verið í fullu samræmi við sakarefni, lýsingar meints brotaþola á málsatvikum í frumskýrslum lögreglu og nauðsynlegar í ljósi fjölda þeirra einstaklinga sem kunnu að eiga aðild að málinu. Málið hafi verið á frumstigi og fyrir hafi legið að taka skýrslu af meintum brotaþola, sem sé ólögráða, fyrir dómi og framkvæma nauðsynlega tæknivinnu. Því hafi skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna, verið í einu og öllu fullnægt.  Fyrir liggi að stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald kl. 22:30 hinn 4. nóvember og að gæsluvarðhaldi var aflétt síðdegis hinn 6. nóvember þegar ekki þótti lengur tilefni til að hafa hann í gæsluvarðhaldi.

Stefndi leggur áherslu á að rannsóknartíminn hafi verið vel nýttur  en taka hefði þurft framburðarskýrslur og annast nauðsynlega tæknivinnu, þar á meðal að fara yfir hljóð- og myndupptökur sem teknar hafi verið á vettvangi í gsm-síma. Í tilfelli stefnanda hafi verið um að ræða hljóð­upptöku sem hann hafi tekið eftir að hafa haft kynferðismök við meintan brotaþola inni í herbergi þegar hann átti samtal við vinkonu meints brotaþola frammi á gangi. Fyrir hafi legið að vinkonan hafi verið ósátt við framgang mála.  Ljóst hafi verið að lögregla hafi orðið að rýna betur í framburði allra hlutaðeigandi, ásamt því að framkvæma tækni­rannsóknir. Mikið hafi borið á milli í framburðum sakborninga innbyrðis m.a. um þátt stefnanda.  Rökstuddur grunur um aðild stefnanda að málinu hafi verið fyrir hendi þann tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi. Bótaskilyrðum 175. gr., sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991, sé þannig ekki fullnægt í máli þessu.  Þá fái á engan hátt staðist staðhæfingar stefnanda um saknæma og ólögmæta háttsemi lögreglu og beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda í málinu. 

                Stefndi gerir þá varakröfu að miskabótakrafa stefnanda verði stórkostlega lækkuð, enda telur hann kröfuna í engu samræmi við dómvenju. Þá kveður stefndi að það beri að virða til lækkunar að þegar stefnandi var handtekinn vegna málsins hafi þegar legið fyrir handtökubeiðni á hann vegna afplánunar vararefsingar sem hafi tekið við er gæsluvarðhaldi var aflétt. Því hafi verið ljóst að stefnanda hafi ekki beðið frelsi í kjölfar handtökunnar.

Niðurstaða

Í stefnu kvaðst stefnandi byggja bótakröfu sína á 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í munnlegum málflutningi féll hann frá þeim lagagrunni og byggði kröfur sínar á 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sem í gildi voru þegar atburðir þeir gerðust sem eru tilefni málssóknarinnar.  Í VI. gr. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 88/2008 eru tekin af öll tvímæli um að beita skuli reglum eldri laga um bætur fyrir það sem gerst hefur fyrir gildistöku laganna. Verður leyst úr máli þessu á þeim grundvelli.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem honum var gert að sæta frá 4. til 6. nóvember 2008. Stóð þá yfir lögreglurannsókn vegna nauðgunarkæru móður ólögráða stúlku sem kærði fjóra menn fyrir að hafa nauðgað stúlkunni aðfaranótt 4. nóvember s.á.  Af því tilefni voru mennirnir handteknir, yfirheyrðir og í framhaldi úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Rannsókn málsins var hætt og mönnunum, þ.á m. stefnanda tilkynnt 30. janúar 2009 um niðurfellingu málsins.

Stefnandi telur sig hafa sætt gæsluvarðhaldi að ósekju. Hann hafi ávallt haldið fram sakleysi sínu og verið samvinnufús við lögreglu við rannsókn málsins. Einkum leggur stefnandi áherslu á að lögreglu hafi borið að hlusta á upptöku í síma hans þegar í stað er hann hafi greint frá að upptakan sannaði sakleysi sitt. Því hafi skilyrði 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, um að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að hann hafi framið refsivert brot, ekki verið fyrir hendi. Stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dómi í máli þessu.

Stefndi leggur áherslu á að lögregla hafi rannsakað brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Stefnandi hafi legið undir grun um að hafa ásamt þremur öðrum mönnum nauðgað 17 ára stúlku. Því beri að virða aðgerðir lögreglu í ljósi vitneskju sem lá fyrir á hverjum tíma og séu skilyrði 175. gr. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ekki uppfyllt.

Í ljós hefur verið leitt fyrir lögreglu, og í sakamáli sem rekið var vegna sömu atburða, að mennirnir fjórir viðurkenndu að hafa hver eftir annan átt kynferðismök við stúlkuna umrætt kvöld.  Stúlkan þekkti ekki mennina fyrir atburðinn og sögðu þrír þeirra henni rangt til nafns, þó ekki stefnandi máls þessa. Stúlkan var undir miklum áhrifum amfetamíns og áfengis og mælist amfetamínið langt fyrir ofan eitrunarmörk. Hún bar fyrir rétti að einn mannanna hefði ,,dælt í sig amfetamíni“, en ólögleg fíkniefni fundust í húsakynnum þar sem atburðurinn átti sér stað.

Stúlkan var ákærð fyrir rangar sakargiftir samkvæmt 142. gr. og 148. gr. almennra hegningarlaga en var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009  sýknuð af þeim sakargiftum.

Í 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem í gildi voru þegar atburðir þeir sem hér er fjallað um áttu sér stað, er mælt fyrir um að taka megi til greina kröfu um bætur ef rannsókn hefur verið hætt og ákæra ekki verið gefin út. Í 2. málslið 175. gr. segir að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Hæstiréttur hefur túlkað þetta ákvæði, með hliðsjón af 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, svo að þeir sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið njóti bótaréttar, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði eða felli hann niður. Réttur stefnanda til bóta fyrir gæsluvarðhald það sem honum var gert að sæta frá 4. til 6. nóvember 2008 ræðst því annars vegar af hvort talið verði að hann hafi sjálfur átt þátt í að skapa þær aðstæður sem réttlættu gæsluvarðhaldið og hins vegar hvort það hafi staðið lengur en efni stóðu til.

Óumdeilt er að stefnandi tók þátt í kynlífsathöfnum með ókunnugri 17 ára stúlku, að kvöldi þess 3. nóvember 2008, sem var undir miklum áhrifum áfengis og amfetamíns. Einnig að honum var kunnugt um að þrír aðrir menn gerðu slíkt hið sama en þeir sögðu allir stúlkunni rangt til nafns.  Rannsakað var brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi. Grunur hlaut að falla á stefnanda máls þessa, enda upplýst að hann var viðstaddur umrætt kvöld og viðurkenndi þátttöku sína í kynlífsathöfnum er þar fóru fram. Yfirheyra þurfti nokkurn fjölda meintra gerenda og vitna, auk meints brotaþola. Rannsaka þurfti símaupptökur og lífsýni.  Lagaskilyrði eru talin hafa verið fyrir hendi til að handtaka stefnanda af þessu tilefni og úrskurða hann í gæsluvarðhald á grundvelli 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Stefnandi var úrskurðaður í 7 daga gæsluvarðhald en hann var látinn laus að tveimur dögum liðnum þegar ekki var lengur talið að rannsóknarhagsmunir krefðust gæsluvarðhalds.

Þegar þetta er virt heildstætt þykja ekki lagaskilyrði til að dæma stefnanda bætur vegna gæsluvarðhaldsvistarinnar og er stefndi sýknaður af dómkröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns stefnanda Erlends Þórs Gunnarssonar, hdl. sem ákveðin eru 420.000 krónur. Við ákvörðun málflutningsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Mál þetta dæmir Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda X.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 420.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.