Hæstiréttur íslands
Mál nr. 139/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Kærumál
|
|
Mánudaginn 2. mars 2015. |
|
Nr. 139/2015. |
Sunshine Press Productions ehf. og Datacell ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Valitor hf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S ehf. og D ehf. um að bú V
hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hæstiréttur hafði í máli nr. 612/2012
komist að þeirri niðurstöðu að V hf. hefði brostið heimild til að rifta
samstarfssamningi við D ehf. um greiðsluþjónustu. Byggðu S ehf. og D ehf. kröfu
sína á að með fyrrgreindum dómi hefði verið staðfest að um samningsbrot væri að
ræða og bótaskylda háttsemi sem V hf. bæri ábyrgð á. Í niðurstöðu dómsins kom
fram að frumskilyrði þess að bú væri tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri að sá, sem slíka
kröfu gerði, ætti lögvarða kröfu á hendur þeim sem krafan beindist að. Í
fyrrgreindum dómi hefði ekki verið kveðið á um bótaskyldu V hf. vegna
riftunarinnar, enda ekki verið gerð krafa um viðurkenningu á henni. Þá hefðu S
ehf. og D ehf. lagt fram máli sínu til stuðnings óundirrita greinargerð sem
þeir hefðu aflað utan réttar en talið var að gegn andmælum V hf. hefði hún ekki
sönnunargildi í málinu. Var því ekki talið að S ehf. og D ehf. hefðu sýnt fram
á að þeir ættu, að svo komnu máli, lögvarða kröfu á hendur V hf.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar
með kæru 16. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2015 þar sem hafnað var
kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild
er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að bú
varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er frumskilyrði þess að bú verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að sá, sem slíka kröfu gerir, eigi lögvarða kröfu á hendur þeim, sem krafan beinist að, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 23. janúar 2014 í máli nr. 771/2013 og 7. mars 2014 í máli nr. 95/2014. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sunshine Press
Productions ehf. og Datacell
ehf., greiði varnaraðila, Valitor hf., óskipt 350.000
krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3.
febrúar 2015.
I.
Með
beiðni, dags. 15. janúar sl., sem barst dóminum 19. janúar sl., kröfðust
sóknaraðilar, Sunshine Press
Productions ehf, kt. [...], Klapparhlíð 10, Mosfellsbæ, og Datacell ehf., kt. [...], Síðumúla
28, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Valitor hf., kt. [...], Dalshrauni 3, Hafnarfirði, yrði tekið til
gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 20. janúar sl. var sótt þing af
hálfu beggja sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var
þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum
málflutningi 29. janúar sl.
Sóknaraðilar
krefjast þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist
málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili
krefst þess að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta
verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila og
lögmanns þeirra in solidum.
II.
Sóknaraðili
kveður atvik máls þessa mega rekja aftur til 1. október 2010, en þá hafi
sóknaraðilar gert með sér samkomulag um að Datacell ehf.
myndi annast rekstur greiðslugáttar fyrir Sunshine Press Productions ehf. til að
taka á móti styrktargreiðslum frá velunnurum uppljóstrunarsíðu WikiLeaks. Þann 15. júní 2011 hafi sóknaraðili Datacell ehf. og varnaraðili gert með sér samning um þjónustu
hins síðarnefnda um greiðslumiðlun og hafi greiðslugátt Datacell
ehf. orðið virk þann 7. júlí 2011. Hafi styrktargreiðslur tekið að flæða inn
alls staðar að úr heiminum. Daginn eftir eða þann 8. júlí hafi varnaraðili
lokað greiðslugáttinni fyrirvaralaust. Datacell ehf. hafi
mótmælt þessari lokun og stefnt varnaraðila með þeirri kröfu að gegn dagsektum
yrði félaginu gert að opna gáttina aftur. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr.
612/2012 hafi riftun varnaraðila á samningi við skiptabeiðandann Datacell ehf. og lokun greiðslugáttarinnar verið talin
ólögmæt.
Almenn
greiðsluáskorun hafi verið send varnaraðila 18. júní 2013 án þess að nokkur
viðbrögð hafi borist vegna hennar. Hinn 15. desember 2014 hafi greiðsluáskorun
samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga verið send
varnaraðila, sem birt hafi verið með stefnuvotti. Í seinni greiðsluáskoruninni
hafi verið skorað á félagið að greiða kröfuna innan þriggja vikna frá birtingu
bréfsins. Jafnframt hafi verið skorað á félagið að lýsa því yfir innan sama
frests að félagið væri fært um að greiða kröfuna, en að öðrum kosti mætti búast
við að krafist yrði gjaldþrotaskipta á búi félagsins, sbr. 5.tölulið 2.mgr. 65.
gr. gjaldþrotaskiptalaga. Svör hafi komið frá lögmanni varnaraðila 2. janúar
2015 í bréfi, dags. 30. desember 2014. Svarbréf hafi verið sent lögmanni
varnaraðila 5. janúar 2015 þar sem þeirri afstöðu sóknaraðila hafi verið lýst
að svör hans fyrir hönd skiptaþola uppfylltu ekki skilyrði 5. töluliðar 2. mgr.
65.gr. gjaldþrotaskiptalaga. Svör við því bréfi hafi borist 10. janúar 2015.
Í
beiðni sóknaraðila segir að matsmál sé nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og
að þingfest verði stefna fyrir þeim dómi á hendur varnaraðila 22. janúar 2015.
Um málsatvik að öðru leyti sé vísað til framlagðrar stefnu og annarra
málsgagna.
Um
bótagrundvöllinn, fjárhæð skaðabótakröfu, samaðild sóknaraðila og fleiri
málsástæður kveðast sóknaraðilar vísa til áðurnefndrar stefnu.
Varnaraðili
kveður málsatvik vera þau að sóknaraðilar hafi krafið varnaraðila um greiðslu skaðabóta
með bréfi, dagsettu 18. júní 2013, vegna ólögmætrar riftunar á samningi
varnaraðila við sóknaraðilann Datacell ehf. Í bréfinu
hafi verið tekið fram að krafa sóknaraðila væri á bilinu 1,5 til 9 milljarðar
króna samkvæmt útreikningum Veritas Ráðgjafar slf. og hafi hún verið sett fram í einu lagi fyrir hönd
beggja. Í bréfinu hafi krafan verið sundurliðuð þannig:
Töpuð stuðningsframlög
til WikiLeaks 7.698.931.792
krónur
Töpuð þóknun Datacell vegna stuðningsframlaga 405.206.936 krónur
Tjón á rekstri Datacell 400.000.000
krónur
Samningsvextir skv. 8.
gr. vaxtalaga nr. 38/2001 358.039.202
krónur
Samtals 8.862.177.950
krónur
Í
bréfinu sagði einnig að líta bæri á það sem formlega kröfugerð og greiðsluáskorun
og að öllu óbreyttu bættist við innan mánaðar frá dagsetningu þess
lögmannsþóknun samkvæmt gjaldskrá Lögfræðistofu Reykjavíkur að fjárhæð
177.612.759 krónur. Krafan væri þá samtals að fjárhæð 9.039.790.709 krónur.
Þá
hafi komið fram í bréfinu að yrði ekki orðið við kröfu sóknaraðila eða sátt
gerð um uppgjör á tjóni þeirra yrði farið fram á dómkvaðningu matsmanns til
þess að leggja mat á tjón sóknaraðila og í kjölfarið yrði varnaraðila stefnt
fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Varnaraðili
hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi, dags. 28. júní sama ár, enda væri hún bæði
röng og órökstudd með öllu. Þá benti varnaraðili á að í bréfi sóknaraðila væri
sagt að krafan gæti allt eins verið 1,5 milljarðar.
Varnaraðili
kveður hæpið að Sunshine Press
Productions ehf. og WikiLeaks
hafi orðið fyrir einhverju tjóni þótt félagið hafi ekki getað safnað framlögum
fyrir WikiLeaks hér á landi frá júlí 2011. Megi í því
sambandi benda á, að samkvæmt opinberum gögnum sem stafi frá WikiLeaks hafi ekki verið skortur á leiðum til að styðja
fjárhagslega við WikiLeaks. Því til sönnunar sé m.a.
vísað til fréttatilkynningar WikiLeaks frá 18. júlí
2012. Í fréttatilkynningunni séu allir sem vilji styðja samtökin fjárhagslega
hvattir til að nota franska greiðslukortakerfið, Carte
Bleue. Í tilkynningunni komi einnig fram að WikiLeaks þurfi þegar í stað að safna ekki minna en einni
milljón evra þar sem gengið hafi á sjóði samtakanna. Hafi þeir lækkað úr 800
þúsund evrum miðað við árslok 2010 í 100 þúsund evrur í lok júní 2012.
Varnaraðili
kveður Sunshine Press Productions ehf. vera íslenskt fyrirtæki, sem safni
gjaldeyri hjá erlendum aðilum og þurfi félagið að skila honum til Íslands og
skipta honum fyrir krónur. Lokun fyrir móttöku framlaga til WikiLeaks
í gegnum Sunshine Press Productions ehf. hafi því vart skaðað samtökin nokkuð þar
sem íslenska krónan sé ekki notuð í viðskiptum nema hér á landi og verði ekki
skipt í erlendan gjaldeyri nema að mjög takmörkuðu leyti, ef frá séu talin
viðskipti með vöru og þjónustu.
Varnaraðili
kveðst hafna því að bréfið frá 18. júní hafi að geyma greiðsluáskorun, sem
marki upphaf dráttarvaxta á meinta kröfu Datacell
ehf. og Sunshine Press Productions ehf. samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu
nr. 38/2001. Bréf sem geymi kröfufjárhæð sem ekki sé fótur fyrir, og sé auk
þess sögð geta verið á bilinu 1,5 til 9 milljarðar króna, sé ekki kröfubréf í
neinum skilningi þess orðs. Bréfið hafi því að lögum engin réttaráhrif.
Ekkert
hafi heyrst í sóknaraðilum fyrr en í apríl 2014 þegar þeir hafi lagt fram
beiðni í Héraðsdómi Reykjavíkur um dómkvaðningu matsmanns með vísan til 3. mgr.
61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sóknaraðilar höfðu þá ekki
höfðað dómsmál og því hafi matsbeiðnin lotið öðrum ákvæðum laga um meðferð
einkamála en þeirra sem tilgreind hafi verið í beiðninni.
Matsbeiðnin
hafi að stærstum hluta verið endursögn á forsendum og útreikningum Veritas Ráðgjafar slf. Í lið 32 í
matsbeiðninni komi eftirfarandi fram:
„Af
þessu má sjá að tjón matsbeiðenda vegna aðgerða Valitor
er ekki einhlítt og í raun erfitt að segja til um hvernig tekjur matsbeiðenda í
gegnum gáttina hefðu þróast ef ekki hefði verið lokað fyrir nánast allt
fjárflæði til samtakanna með framangreindri lokun. Þess vegna meta
matsbeiðendur það nauðsynlegt að óska dómkvaðningar matsmanna.“
Varnaraðili
máls þessa kveðst hafa tekið til varnar í matsmálinu og með úrskurði uppkveðnum
12. nóvember 2014 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur hafnað kröfu sóknaraðila um
dómkvaðningu matsmanna þar sem beiðnin samrýmdist ekki lögum um meðferð
einkamála. Sóknaraðilar hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar, sem hafi vísað málinu
frá með dómi 2. desember 2014, sbr. dóm í máli nr. 753/2014, þar sem kæra
sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við lög um meðferð einkamála.
Hinn
8. desember 2014 hafi sóknaraðilar sent inn nýja matsbeiðni til Héraðsdóms
Reykjavíkur, sem enn hafi ekki verið tekin fyrir.
Hinn
15. desember 2014 hafi sóknaraðilar látið birta fyrir varnaraðila áskorun
samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Samkvæmt
áskoruninni telji sóknaraðilar sig eiga skaðabótakröfu á hendur varnaraðila
samtals að höfuðstól 8.104.138.728 auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar.
Höfuðstóll kröfunnar sé sundurliðaður þannig að Sunshine
Press Productions ehf.
telji sig eiga kröfu að fjárhæð 7.698.931.792 krónur og Datacell
ehf. kröfu að fjárhæð 405.206.936 krónur. Datacell
ehf. hafi því lækkað kröfu sína að um 400 milljónir króna frá því sem verið
hafi 18. júní 2013.
Í
samræmi við 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti hafi
varnaraðili svarað áskorun sóknaraðila 30. desember 2014 og lýst því yfir að
hann myndi standa við allar greiðsluskuldbindingar sínar gagnvart lánadrottnum
sínum og öðrum kröfuhöfum, sem kynnu að eiga eða eignast lögvarðar kröfur á
hendur honum. Gilti það einnig um sóknaraðila, ef þeir kynnu einhvern tímann í
framtíðinni að eignast óumdeilda skaðabótakröfu á hendur varnaraðila. Tekið
hafi verið fram í bréfinu að varnaraðili væri greiðslufær og með traustan
fjárhag. Það staðfesti árshlutauppgjör varnaraðila sem lagt hafi verið fram með
mótmælum þessum. Í árshlutauppgjörinu fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2014 sé
eigið fé varnaraðila um 8 milljarðar króna og hagnaður liðlega 367 milljónir
króna.
Sóknaraðilar
hafi ekki talið þetta svar fullnægjandi því að með bréfi, dagsettu 5. janúar
2015, hafi þeir krafist þess að varnaraðili lýsti því hvernig félagið hygðist
greiða ítrustu kröfu þeirra, sem stæði í 10,2
milljörðum króna með vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði. Í bréfi
sóknaraðila hafi þó verið tekið fram að krafa þeirra gæti allt eins verið
einhvers staðar á bilinu 1,5 til 8 milljarðar króna. Krafa sóknaraðila hafi því
lækkað um einn milljarð frá því sem byggt hafi verið á í bréfi sóknaraðila frá
18. júní 2013.
Varnaraðili
kveðst hafa svarað með bréfi 10. janúar 2015. Í bréfi varnaraðila hafi verið
tekið fram að varnaraðili gæti ekki gert nákvæma grein fyrir „greiðsluformi“
meintrar kröfu sóknaraðila meðan ekki lægi fyrir nein vissa um fjárhæð hennar.
Hinn
15. janúar 2015 hafi sóknaraðilar gefið út stefnu á hendur varnaraðila, sem
birt hafi verið fyrir varnaraðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 hinn 16. janúar
2015. Áður hafi henni þó verið komið á framfæri við fjölmiðla. Hafi hún verið
þingfest 22. janúar 2015 á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur. Í stefnunni séu
hafðar upp fjórar dómkröfur af hálfu sóknaraðila máls þessa. Í fyrsta lagi
krafa um að varnaraðila máls þess verði gert að greiða Datacell
ehf. og Sunshine Press Productions ehf. óskipt 8.104.138.728 krónur, auk vaxta,
dráttarvaxta og kostnaðar. Í öðru lagi að dæmd verði önnur og lægri fjárhæð
samkvæmt niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns eða manna með sömu vöxtum og
tilgreindir væru í fyrstu kröfu. Í þriðja lagi að dæmdar verði bætur að fjárhæð
1.334.553.527 krónur með sömu vöxtum og tilgreindir séu í fyrstu kröfu og í
fjórða lagi að dómurinn dæmi bætur að álitum með sömu vöxtum og tilgreindir
væru í fyrstu kröfu.
Hinn
16. janúar 2015 hafi sóknaraðilar lagt fram beiðni um gjaldþrotaskipti á hendur
varnaraðila í Héraðsdómi Reykjaness. Eins og áður hafi beiðni þessari strax
verið komið á framfæri við fjölmiðla.
III.
Sóknaraðilar
kveðast telja að í máli þessu komið fyrst og fremst til skoðunar hvort svör
varnaraðila við greiðsluáskorun sóknaraðila uppfylli skilyrði 5. töluliðar 2.
mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga þannig að komist verði hjá skiptum.
Sóknaraðilar
telji að svör skiptaþola við greiðsluáskorun skiptabeiðenda uppfylli ekki
skilyrði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Fram komi í svörum
varnaraðila við greiðsluáskoruninni að félagið geti staðið við skuldbindingar
sínar og greitt öllum kröfuhöfum, sem kunni að eiga eða eignast lögvarða kröfu
á hendur félaginu. Gildi það einnig um sóknaraðila. Kröfugerð
greiðsluáskorunarinnar sem birt hafi verið 15. desember 2014 hafi tekið mið af
útreikningum Veritas Ráðgjafar slf.
þar sem tjón vegna lokunar greiðslugáttar Datacell
hafi verið talið vera á bilinu 1,5 til 8,0 milljarðar króna. Miðað við efri
mörk tjónsmatsins hljóði kröfugerð sóknaraðila með vöxtum og kostnaði samtals
upp á 10,2 milljarða króna. Þegar fullyrt sé að varnaraðili geti gert upp
lögvarðar kröfur sóknaraðila, sem þeir kunni að eiga, nái það einnig til hinna ítrustu krafna samkvæmt þeirri greiðsluáskorun sem birt
hafi verið, sbr. aðalkröfu í framlagðri stefnu. Í svarbréfi varnaraðila frá 2.
janúar 2015 sé hins vegar ekki útskýrt hvernig varnaraðili verði fær um eða
muni greiða kröfu skiptabeiðenda samkvæmt greiðsluáskoruninni.
Í
bréfi lögmanns varnaraðila sé fullyrt að kröfugerð sóknaraðila uppfylli ekki
skilyrði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga, enda geti
„ósannaðar skaðabótakröfur“ aldrei orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta eða
annarra þvingunarúrræða. Síst af öllu verði ákvæði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr.
gjaldþrotaskiptalaga beitt í slíkum tilvikum, enda séu sóknaraðilar ekki
lánardrottnar varnaraðila í skilningi 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga og „ekki
einu sinni kröfuhafar“ á hendur félaginu.
Sóknaraðilar
kveða þessar lögskýringar ekki standast nánari skoðun. Fyrir það fyrsta sé
skýrt tekið fram í ákvæðinu sjálfu að því megi beita hvort sem krafa er
gjaldfallin eður ei. Skiptabeiðendur séu kröfuhafar í skilningi 65. gr.
gjaldþrotaskiptalaga aukinheldur sem krafa sóknaraðila sé að hluta til fallin í
gjalddaga, enda liggi fyrir samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 612/2012 að
lokun skiptaþola á greiðslugáttinni hafi verið ólögmæt, að um samningsbrot hafi
verið að ræða og bótaskylt atvik sem varnaraðili beri vitaskuld ábyrgð á. Sé
því um að ræða lögvarða kröfu á hendur skiptaþola í skilningi 65. gr.
gjaldþrotaskiptalaga. Megi um þetta m.a. vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 95/2014.
Endanleg
fjárhæð kröfunnar hafi vissulega ekki enn verið ákveðin með dómi, en
útreikningar sem liggi til grundvallar kröfugerð séu vel rökstuddir og engin
minnsta tilraun gerð af hálfu varnaraðila til að hnekkja þeim. Matsmál sé rekið
fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og stefna hafi verið þingfest fyrir sama dómi 22.
janúar 2015, þannig að óvissu um fjárhæðina verði eytt innan tíðar. Varnaraðili
hafi haft fjölmörg tækifæri til þess að færa rök fyrir því að kröfugerð
sóknaraðila standist ekki, en hvorki í svarbréfum sem hann hafi sent frá sér,
né á öðrum tíma, hafi hann á nokkurn hátt náð að varpa rýrð á þá útreikninga
sem skiptabeiðendur leggi til grundvallar. Megi um sambærilegt atriði vísa til
dóms Hæstaréttar í máli nr. 601/2011.
Hér
skipti og höfuðmáli að Hæstiréttur hafi í dómum sínum staðfest að ekki beri að
túlka téð ákvæði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga með þeim
hætti að það eigi ekki við þegar fjárhæð kröfunnar er óviss. Í úrskurði
Héraðsdóms Reykjaness frá 4. mars 2013 segi um þetta atriði: „...slík túlkun
verður hvorki dregin af orðalagi ákvæðisins né ummælum í greinargerð með lögum
nr. 95/2010...“. Héraðsdómur hafi reyndar hafnað kröfu um gjaldþrotaskipti í
málinu, en Hæstiréttur hafi snúið því við með dómi sínum í máli nr. 189/2013.
Hér megi einnig benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 262/2012, en þar hafi
varnaraðili byggt andmæli sín m.a. á því að áskorun samkvæmt 5. tölulið 2. mgr.
65. gr. gjaldþrotaskiptalaga yrði að miða við ákveðna fjárhæð sem væri
raunveruleg og skuld óumdeild. Ekki væri unnt að taka bú til gjaldþrotaskipta
þar sem óvissa ríkti um það hvaða fjárkröfu skiptabeiðandi ætti. Þessari
lögskýringu hafi Hæstiréttur hafnað.
Með
hliðsjón af því sem rakið hafi verið sé ljóst að lagalega séð sé ekkert því til
fyrirstöðu að sóknaraðilar beini greiðsluáskorun til skiptaþola á grundvelli
margumrædds ákvæðis 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga vegna
kröfu sinnar. Tvennt komi því til skoðunar; annars vegar hvort kröfugerðin sé
nægjanlega vel rökstudd í skilningi téðs ákvæðis og hins vegar hvort svör
varnaraðila uppfylli skilyrði ákvæðisins til að ekki verði fallist á kröfu um
gjaldþrotaskipti.
Fullyrt
sé í bréfi lögmanns varnaraðila að ekkert í efnahag varnaraðila hafi nokkurn
tíma gefið tilefni til að efast um greiðsluhæfi hans. Sóknaraðilar bendi hins
vegar á að ekki sé hægt að líta fram hjá því að varnaraðili hafi orðið fyrir
ýmsum skakkaföllum að undanförnu. Þannig hafi félagið undirgengist stórfelldar
stjórnvaldssektir vegna samkeppnislagabrota, auk þess sem Kortaþjónustan hafi
höfðað tvö dómsmál á hendur félaginu vegna samkeppnislagabrota. Varnaraðili
hafi einnig orðið fyrir tekjutapi við það að missa tekjur af kortagreiðslum
vegna fjárhættuspila og kláms á netinu yfir til Borgunar og þurft að þola háar fjárkröfur
vegna þeirrar greiðslumiðlunar.
Varðandi
meintan traustan efnahag varnaraðila skipti samt mestu máli að félli krafa
samkvæmt greiðsluáskoruninni á varnaraðila að öllu leyti eða að stórum hluta
væri eigið fé félagsins orðið neikvætt. Það sé því ljóst að blikur séu á lofti
varðandi greiðsluhæfi varnaraðila. Megi um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í
máli 601/2011 þar sem Hæstiréttur hafi byggt dóm sinn, þar sem greiðsluáskorun
samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi verið lögð til
grundvallar gjaldþrotaúrskurði, á því að miðað við útreikninga kröfuhafa væri
krafa hans hærri en verðmæti eigna skuldarans.
Vegna
áskorunar sóknaraðila í bréfi, dags. 5. janúar 2015, um að varnaraðili gerði
grein fyrir því hvernig félagið myndi og gæti greitt kröfu sóknaraðila sé bent
á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 106/2014 þar sem skuldari hafi verið talinn hafa
brugðist með fullnægjandi hætti við greiðsluáskorun samkvæmt 5. tölulið 2. mgr.
65. gr. gjaldþrotaskiptalaga með því að hafa lýst því yfir að félagið yrði fært
innan skamms tíma til að greiða allar skuldir sínar við kröfuhafa, en það yrði
gert með sölu eigna. Frekari grein yrði gerð fyrir greiðsluforminu í sérstakri
greinargerð ef eftir því yrði kallað. Fram komi í dómi Hæstaréttar að skiptabeiðandi
þessa máls hafi hins vegar ekki kallað eftir þessari greinargerð. Í bréfi
sóknaraðila 5. janúar sl. komi aftur á móti fram að vegna þeirrar háu
kröfugerðar sem uppi sé í málinu og eignastöðu varnaraðila ættu sóknaraðilar
tilkall til þess að varnaraðili svaraði því með hvaða hætti greiðsluformið yrði
áður en hægt væri að kveða upp úr með það hvort félagið hefði brugðist við
greiðsluáskorun sóknaraðila með fullnægjandi hætti.
Sóknaraðilar
kveðast telja að fallast eigi á kröfu þeirra um gjaldþrotaskipti á búi
varnaraðila, enda liggi fyrir að félagið hafi ekki lýst því yfir með
fullnægjandi hætti að það sé fært um að greiða kröfu skiptabeiðenda, sbr. 5.
tölulið 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þrátt fyrir áskorun þar að
lútandi, sem birt hafi verið fyrir fyrirsvarsmanni félagsins. Í greiðsluáskorun
sóknaraðila sé ekki aðeins skorað á varnaraðila að greiða kröfuna heldur sé í
samræmi við títtnefnt ákvæði óskað eftir yfirlýsingu skuldara þar sem því sé
annars vegar lýst yfir að félagið sé greiðslufært og hins vegar að
fjárhagsstaða þess sé með þeim hætti að félagið geti greitt umrædda skuld við
kröfueiganda innan skamms frá móttöku yfirlýsingar þessarar. Með áskorun þeirri
sem send hafi verið 5. janúar sl. hafi varnaraðila aftur verið gefinn kostur á
því að gera grein fyrir því hvernig hann sæi það fyrir sér að krafa
skiptabeiðenda yrði greidd upp, en í bréfi varnaraðila 10. janúar sl. sé aðeins
með óljósum hætti útlistað hvernig félagið hafi fram til þessa mætt skuldbindingum
sínum. Sóknaraðilar hafi lagt fram mjög vel rökstudda kröfu á hendur
varnaraðila, sem ekki hafi verið reynt að hnekkja og samkvæmt ákvæði 5.
töluliðar 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga geti sóknaraðilar krafist þess
að varnaraðili sýni fram á að hann geti greitt hana að fullu, burtséð frá
ágreiningi um fjárhæð.
Sóknaraðilar
kveðast byggja á því að gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila séu óumflýjanleg,
enda sé ljóst að varnaraðili geti ekki miðað við fyrirliggjandi gögn greitt
skuld sína við sóknaraðila þegar að því komi. Í þessu sambandi kveðast
sóknaraðilar vísa til ársreiknings varnaraðila fyrir rekstrarárið 2013, sem og
annarra stórra greiðsluskuldbindinga sem dunið hafi á félaginu og muni gera í
næstu framtíð.
Kröfuhafar
ábyrgist greiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og gjaldþrotaskiptum
þegar til þeirra komi.
IV.
Varnaraðili
kveðst byggja kröfu sína í málinu í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að
sóknaraðilar hafi hvorki þann 18. júní 2013 né nokkru sinni síðar átt eða
eignast lögvarða og óskipta skaðabótakröfu á hendur honum að fjárhæð
8.862.177.950 krónur, eins og byggt hafi verið á í bréfi sóknaraðila til
varnaraðila 18. júní 2013.
Varnaraðili
hafi bæði hafnað því að greiða þessa kröfu og hafnað bótaskyldu, sbr. bréf þar
um frá 28. júní 2013. Það sé því rangt sem komi fram í gjaldþrotabeiðni að
bréfinu frá 18. júní 2013 hafi ekki verið svarað af hálfu varnaraðila.
Varnaraðili
bendir á að í bréfi sóknaraðila frá 18. júní 2013 sé sérstaklega tekið fram að
ef varnaraðili verði ekki við kröfum sóknaraðila og greiði umkrafða fjárhæð eða
semji um greiðslu hennar þá muni sóknaraðilar fara fram á dómkvaðningu
matsmanns til að leggja mat á tjón þeirra og í kjölfarið stefna varnaraðila
fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Sóknaraðilar
hafi án árangurs reynt að fá dómkvaddan matsmann í málinu og nú liggi fyrir hjá
Héraðsdómi Reykjavíkur önnur beiðni þeirra um dómkvaðningu matsmanns og bíði
meðferðar.
Sóknaraðilar
hafa með stefnu birtri 16. janúar 2015 höfðað mál á hendur varnaraðila. Eins og
fyrr sé rakið hafi sóknaraðilar uppi fjórar kröfur í því máli. Sú hæsta sé að
fjárhæð liðlega 8 milljarðar, en sem lágmark sætti sóknaraðilar sig við þær
bætur sem þeim kunna að verða dæmdar að álitum.
Fjárhæð
kröfu sóknaraðila sé því með öllu óþekkt stærð, enda hafi lögmaður sóknaraðila
ítrekað talið hana geta verið á bilinu 1,3 til 8 eða 9 milljarðar króna. Af
þeirri fjárhæð virðist Datacell ehf. geta átt kröfu
allt frá nokkrum tugum milljóna upp í liðlega fjögur hundruð milljónir króna
samkvæmt gjaldþrotaskiptabeiðninni. Í beiðninni sé þó sérstaklega tekið fram að
endanleg fjárhæð kröfu sóknaraðila hafi „vissulega ekki enn verið ákveðin með
dómi.“
Af
framangreindum málatilbúnaði sóknaraðila sé ljóst að þeir telji sig enn ekki
vita hvort og þá hvaða kröfu þeir kunni að eiga á hendur varnaraðila.
Í
gjaldþrotaskiptabeiðninni og bréfi sóknaraðila til varnaraðila frá 5. janúar
2015 sé látið að því liggja að á varnaraðila hvíli sönnunarbyrði um að meint
tjón sóknaraðila sé minna en 8.104.138.728 krónur að höfuðstól. Þetta sé rangt.
Sá
sem krefjist skaðabóta verði ávallt að sanna fjárhæð tjóns síns og að
orsakatengsl séu milli þess og hins meinta tjónsatburðar. Sóknaraðilar hafi
ekki sannað neitt tjón. Útreikningar Veritas
Ráðgjafar slf. sé ekki sönnunargagn í skilningi laga
um meðferð einkamála, sem eigi við um meðferð gjaldþrotaskiptamála.
Útreikningar Veritas Ráðgjafar slf.
hafi því enga þýðingu, hvorki fyrir mál þetta né það einkamál sem sóknaraðilar
hafi höfðað, nema varnaraðili fallist á þá. Engu breyti þótt höfundur
útreikninganna verði leiddur fyrir dóm eins og boðað sé í stefnunni til
héraðsdóms, sem þingfest hafi verið 22. janúar 2015.
Varnaraðili
kveðst aldrei hafa fallist á eða samþykkt útreikninga Veritas
Ráðgjafar slf. Þvert á móti hafi varnaraðili bent á
að í útreikningum Veritas Ráðgjafar slf. sé ekkert tillit tekið til þess að engar hömlur hafi
verið á því að WikiLeaks gæti tekið við fjárframlögum
þótt ekkert fé kæmi í gegnum gáttir sóknaraðilans Datacell
ehf. hjá varnaraðila.
Þá
sé líka athyglisvert að báðir sóknaraðilar séu í raun gjaldþrota þar sem eigið
fé þeirra sé neikvætt. Eigið fé Datacell ehf. sé
neikvætt um 123 milljónir króna í árslok 2013. Það ár hafi tap á rekstri
félagsins numið 74,8 milljónum króna.
Sunshine Press Productions
ehf. hafi aðeins skilað tveimur ársreikningum frá því að félagið var stofnað,
annars vegar fyrir árið 2010 og hins vegar fyrir árið 2011. Þá hafi eigið fé
félagsins verið neikvætt um 155 þúsund krónur.
Sunshine Press Productions
ehf. hafi engar tekjur fært af reglulegri starfsemi og engin gjöld. Félagið
hafi örlitlar fjármagnstekjur og greiði bankakostnað, sem sé hærri en
fjármagnstekjurnar. Eini vöxturinn hjá félaginu sé á skuldahlið
efnahagsreikningsins. Samkvæmt henni hækki skuldir við erlenda aðila úr liðlega
18 milljónum króna árið 2010 í tæplega 32 milljónir árið 2011.
Sunshine Press Productions
ehf. hafi samkvæmt þessu aldrei fært neinar tekjur eða gjöld í bækur sínar
vegna rekstrar á WikiLeaks eða vegna söfnunar
framlaga til þess rekstrar. Engu að síður telji félagið sig eiga skaðabótakröfu
að höfuðstól 7.698.931.792 krónur á hendur varnaraðila. Sú krafa sé röng og með
öllu haldlaus. Þegar rangar og haldlausar kröfur séu hafðar uppi og sakir séu
miklar, eins og reyndin sé í þessu máli, megi dæma aðila til greiðslu
málskostnaðar með álagi ásamt lögmanni sínum, sbr. 131. gr. laga um meðferð
einkamála.
Sóknaraðilar
geti ekki fundið neinn stuðning fyrir kröfum um gjaldþrotaskipti á búi
varnaraðila í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 601/2011: BFB ehf. gegn Byr sparisjóði,
sem kveðinn hafi verið upp 18. nóvember 2011, eins og þó virðist byggt á í
gjaldþrotaskiptabeiðninni. Í því máli hafi verið deilt um sjö lánasamninga og
það álitamál hvort þeir væru í erlendri mynt eða gengistryggðir. Af því hafi
leitt að fjárhæð þeirra hafi verið talin að hámarki 1,6 milljarðar, en að
lágmarki um 860 milljónir króna. Skuldarinn hafi ekki getað sannað að hann
hefði svarað greiðsluáskorun lánardrottins samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr.
laga um gjaldþrotaskipti. Skuldaranum hafi heldur ekki tekist að sýna fram á að
krafa sóknaraðila gæti verið lægri en 860 milljónir króna, og þar sem sú
fjárhæð hafi verið umfram verðmæti veðtrygginga lánardrottins hafi bú
skuldarans verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Til
samanburðar sé rétt að hafa það hugfast að eigið fé varnaraðila máls þessa hafi
hinn 30. júní 2014 verið 7,8 milljarðar króna og hagnaður fyrstu sex mánuðina
liðlega 367 milljónir króna, eins og framlagt árshlutauppgjör beri með sér.
Varnaraðili sé ekki í neinum vanskilum og hafi ávallt mætt öllum kröfum sínum
þegar þær hafi gjaldfallið.
Í
annan stað sé á því byggt að varnaraðili verði ekki knúinn í gjaldþrot á
grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti, þar sem
varnaraðili hafi svarað greiðsluáskorun sóknaraðila frá 15. desember 2014 innan
þess frests sem ákvæðið kveði á um.
Í
svari varnaraðila komi fram að hann myndi hér eftir sem hingað til standa við
allar greiðsluskuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og öðrum kröfuhöfum,
sem kynnu að eiga eða eignast lögvarðar kröfur á hendur honum. Gilti það einnig
um sóknaraðila, ef þeir kynnu að eignast óumdeilda skaðabótakörfu á hendur
varnaraðila einhvern tímann í framtíðinni. Sérstaklega hafi verið tekið fram í
bréfinu að varnaraðili væri greiðslufær.
Sóknaraðilar
hafi ekki talið svar þetta fullnægjandi þar sem ekki hafi komið fram í því
hvernig varnaraðili ætlaði að greiða kröfuna. Sóknaraðilar hafi því beint þeim
tilmælum til varnaraðila með bréfi 5. janúar 2015 að hann upplýsti hvert yrði
formið á greiðslunni. Hafi sóknaraðilar talið að þeir hefðu stoð fyrir þessari
kröfu í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 106/2014: Guðmundur Kristinsson ehf. gegn
Hildu ehf. sem kveðinn hafi verið upp 20. febrúar 2014. Svo sé ekki.
Í
framangreindu hæstaréttarmáli hafi það eitt legið fyrir að Guðmundur
Kristinsson ehf. hefði lýst því yfir skriflega innan þriggja vikna frestsins að
hann yrði innan skamms tíma fær um að greiða skuldir sínar við Hildu ehf. Af
þeim sökum hafi ekki verið hægt að byggja kröfu um gjaldþrotaskipti á búi
Guðmundar Kristinssonar ehf. á 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga um
gjaldþrotaskipti.
Varnaraðili
hafi engu að síður svarað fyrirspurn sóknaraðila frá 5. janúar 2015 með bréfi
10. janúar 2015. Í bréfinu hafi verið tekið fram að varnaraðili greiddi kröfur
sínar af rekstrarfé hverju sinni. Varnaraðili hafi tíundað helstu uppsprettur
rekstrarfjár síns. Í hvaða uppsprettur rekstrarfjár skuldari leitaði hverju
sinni færi eðli máls samkvæmt eftir því hver fjárhæð kröfunnar yrði.
Þegar
engin fjárkrafa lægi fyrir, sem byggð væri á samningum um endurgreiðslu peninga
eða greiðslu kaupverðs, heldur aðeins á útreikningum á meintu tjóni tveggja
aðila, annars innan samninga og hins utan samninga, verði skuldari aldrei
knúinn til þess á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga um
gjaldþrotaskipti að lýsa því með hvaða hætti hann ætli að greiða hugsanlega
kröfu.
Í
máli þessu sé aðalatriðið það að varnaraðili hafi lýst því yfir að hann myndi hér
eftir sem hingað til greiða allar skuldir sínar á gjalddaga þeirra, þar á meðal
kröfur sóknaraðila. Þetta hafi varnaraðili gert þótt hann telji að sóknaraðilar
eigi ekki gjaldfallna og óskipta kröfu á hendur honum enn sem komið væri. Auk
þess sé vandséð að Sunshine Press
Productions ehf. eigi lögvarða kröfu á hendur
varnaraðila.
Sóknaraðilar
geti því ekki í máli þessu sótt neinn stuðning í hæstaréttarmálið nr. 95/2014:
Byggingahúsið ehf. gegn Landsbankanum hf. sem kveðinn hafi verið upp 7. mars
2014. Þar hafi verið deilt um svokallaðan myntveltureikning sem skuldari hafði
stofnað til við Landsbanka Íslands hf. Reikningur þessi hafi verið fluttur til
Landsbankans hf. eftir að Fjármálaeftirlitið hafði stofnað þann banka fyrir
ríkissjóð í byrjun október 2008. Landsbankinn hf., sem nýr eigandi kröfunnar,
hafi beint greiðsluáskorun til Byggingahússins ehf. á grundvelli 5. töluliðar
2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Skuldari hafi því aldrei lýst yfir að
hann gæti greitt kröfuna, heldur aðeins dregið tilvist hennar í efa. Bæði
héraðsdómur og Hæstiréttur hafi ekki talið vafa leika á um að krafan væri til
og þar sem ekki hefði borist svar sem fullnægði ákvæðum 5. töluliðar 2. mgr.
65. gr. laga um gjaldþrotaskipti og ekki hefði verið sýnt fram á það að
skuldari væri gjaldfær.
Meðan
ekkert liggi fyrir um bótaskyldu varnaraðila, hvað þá fjárhæð bótakröfu
sóknaraðila innan og utan samninga, verði meintur skuldari, þ.e. tjónvaldur, ekki
knúinn til að gefa önnur svör en þau sem varnaraðili hafi gefið, þ.e. að hann
muni hér eftir sem hingað til greiða allar kröfur sem á hann falli og að hann
sé greiðslufært félag með traustan fjárhag. Svar varnaraðila hafi þannig fullnægt
reglu 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
Varnaraðili
kveðst benda á að 5. töluliður 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti hafi
verið leiddur í lög til að flýta fyrir því að bú væru tekin til skipta sem óumflýjanlegt
væri að taka til skipta. Í VI. kafla í almennum athugasemdum við frumvarpið segði
m.a. um framangreinda breytingu á 65. gr. að lagt væri til að greitt yrði fyrir
því að bú væru tekin til skipta ef skiptin væru á annað borð óhjákvæmileg. Með
hinu nýja úrræði væri girt fyrir að skuldari gæti tafið skipti með því einu að
halda að sér höndum og aðhafast ekkert, en slík viðbrögð væru þekkt þegar í
óefni væri komið.
Í
athugasemdum með 17. gr. laga nr. 95/2010 segi m.a. að í hinu nýja úrræði
felist að skuldari þurfi að lýsa því yfir að efnahag hans sé ekki þannig komið
að hann sé ógreiðslufær. Með þessu sé leitast við að koma í veg fyrir að
skuldari geti tafið gjaldþrotaskipti sem skilyrði séu fyrir með því einu að
halda að sér höndum. Þetta komi þó ekki í veg fyrir að skuldari geti varist
kröfu um gjaldþrotaskipti þegar skilyrði til þeirra séu ekki fyrir hendi.
Þannig yrði bú skuldarans ekki tekið til gjaldþrotaskipta ef hann sýndi fram á
að hann væri fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í
gjalddaga eða verði það innan skamms tíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna.
Af
framangreindum lögskýringargögnum sé ljóst að stefnt hafi verið að því við
setningu laga nr. 21/1991 að þrengja möguleika kröfuhafa til að setja skuldara
í þá stöðu að þurfa að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti, en jafnframt að
tryggja að til gjaldþrots kæmi sem fyrst, ef þau væru óumflýjanleg.
Með
lögfestingu reglunnar í 17. gr. laga nr. 95/2010 hafi staða lánadrottna í raun
aðeins verið styrkt gagnvart skuldurum sem væru illa staddir fjárhagslega, en hefðu
haldið að sér höndum og ekki gefið bú sín upp til skipta.
Tilgangurinn
með 17. gr. hafi því ekki verið sá að opna nýja og almenna leið fyrir kröfuhafa
til að setja aðila í þá stöðu að þurfa að verjast gjaldþroti á grundvelli
óljósra og einhliða krafna, eins og reyndin sé með þær kröfur sem sóknaraðilar
hafi haft uppi á hendur varnaraðila frá því í júní 2013 og ætli nú að fá dóm
fyrir samkvæmt stefnu sem þingfest hafi verið 22. janúar 2015.
Fjárkröfur
sóknaraðila samkvæmt áskoruninni frá 15. desember 2014 séu hreinn tilbúningur
sem byggist ekki á neinum gögnum sem teljist til sönnunargagna í skilningi VI.
kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Staðfestingu þessa megi finna í
bréfinu frá 5. janúar sl., en þar sé tekið fram að krafa sóknaraðila sé á
bilinu 1,5 til 8 milljarðar. Krafan sé sögð vera skaðabótakrafa byggð á dómi í
hæstaréttarmáli nr. 612/2012: Valitor hf. gegn Datacell ehf. Í því máli hafi ekkert verið fjallað um
bótaskyldu varnaraðila gagnvart sóknaraðilum. Auk þess sem Sunshine
Press Productions ehf. hafi
enga aðild átt að því máli.
Varnaraðili
kveðst vera vera með starfsemi bæði hér á landi og erlendis, fjárhagur
varnaraðila sé traustur og reksturinn skili hagnaði. Hjá varnaraðila starfi
tæplega tvö hundruð manns og öll starfsemi hans sé bundin ströngum skilyrðum,
m.a. um eigið fé sem aldrei megi vera lægra en 770 milljónir króna eða
jafnvirði 5 milljóna evra. Eigið fé varnaraðila hafi í lok júní 2014 verið tæpir
7,9 milljarðar eða sem samsvari 51 milljón evra. Við mat á eiginfjárþörf sinni
miði varnaraðili við ákvæði laga um eiginfjárhlutföll, sem kveði á um 8% lágmarks
eiginfjárhlutfall. Hlutfall eiginfjár varnaraðila sé samkvæmt árshlutauppgjöri og
miðað við þessar forsendur 29,9%. Varnaraðili sé því gríðarlega sterkt félag sem
ekki verði tekið til gjaldþrotaskipta af þeirri ástæðu einni að eigendur
óvissra krafna vilji það.
Varnaraðili
kveðst ávallt hafa gert grein fyrir kröfubréfi sóknaraðila í ársreikningum
sínum og árshlutauppgjörum frá því að það hafi komið fram 18. júní 2013.
Í
árshlutauppgjöri varnaraðila komi fram að hann hafi þurft að sæta sekt
Samkeppniseftirlitsins að fjárhæð 500.000.000 króna. Þá kröfu hafi varnaraðili greitt
10. maí 2013. Sýni það betur en annað hver fjárhagslegur styrkleiki varnaraðila
sé þegar á hann falli óvæntar kröfur.
Krafan
um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila sé sett fram af meinfýsi einni saman og
til að reyna að knýja varnaraðila til að semja um skaðabætur. Sjáist það best á
því að kröfunni um gjaldþrotaskipti hafi verið dreift til fjölmiðla og þeir
látnir kynna hana fyrir forsvarsmönnum varnaraðila í fréttum sínum. Tilhæfulaus
krafa um gjaldþrotaskipti, eins og reyndin sé með kröfur sóknaraðila, geti bæði
valdið þeim sem fyrir verður fjártjóni og miska. Á slíku beri sá aðili ábyrgð
sem stýri för og sé lögmaður sá sem leiði aðförina ekki þar undanskilinn, enda
geti lögmenn með störfum sínum bakað sér bótaábyrgð líkt og hver annar.
Í
ljósi þess hvernig lögmaður sóknaraðila hefur staðið að máli þessu og haft uppi
rangar og haldlausar kröfur sé gerð krafa um að hann verði ásamt skjólstæðingum
sínum dæmdur til greiðslu málskostnaðar með álagi.
V.
Eins
og fram hefur komið komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dómi 24. apríl
2013 í máli varnaraðila og sóknaraðilans Datacell ehf.
nr. 612/2012 að varnaraðila hefði brostið heimild til að rifta hinn 8. júlí
2011 samstarfssamningi við Datacell ehf. frá 15. júní
sama ár um greiðsluþjónustu. Var varnaraðila jafnframt gert skylt að opna að
nýju greiðslugátt Datacell ehf. samkvæmt
samstarfssamningnum.
Byggja
sóknaraðilar á því að staðfest hafi verið með áðurgreindum dómi Hæstaréttar að
lokun varnaraðila á greiðslugátt Datacell ehf. hafi
verið ólögmæt, þ.e. að um samningsbrot hafi verið að ræða og bótaskylda
háttsemi sem varnaraðili beri ábyrgð á gagnvart sóknaraðilum.
Samkvæmt
2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú
skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilteknum skilyrðum fullnægðum.
Frumskilyrði er að sá sem krefst gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur
skuldara.
Í
áðurgreindum dómi Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli nr. 612/2012 var eins og
áður greinir kveðið á um að riftun varnaraðila á samstarfssamningi hans við sóknaraðilann
Datacell ehf. hefði verið óheimil og að varnaraðila
bæri að opna greiðslugáttina að nýju að viðlögðum dagsektum. Í dóminum var hins
vegar ekki kveðið á um bótaskyldu varnaraðila vegna riftunarinnar, enda ekki
gerð krafa um viðurkenningu á henni í málinu. Þá hefur varnaraðili ítrekað
hafnað bótaskyldu gagnvart sóknaraðilum vegna málsins. Bótaskylda varnaraðila
er því umdeild.
Sóknaraðilar
halda því fram að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar varnaraðila á
áðurgreindum samstarfssamningi varnaraðila og Datacell
ehf. Því til stuðnings hafa þeir lagt fram í málinu óundirritaða greinargerð Veritas Ráðgjafar slf., sem sóknaraðilar
öfluðu utan réttar, þar sem lagt er mat á tjón Datacell
ehf. og WikiLeaks vegna lokunar varnaraðila á
greiðslugátt hins fyrrnefnda. Ljóst þykir að umrædd greinargerð hefur, gegn andmælum
varnaraðila, ekkert sönnunargildi í dómsmáli um ætlað tjón sóknaraðila og fjárkröfu
þeirra á hendur varnaraðila af því tilefni.
Þá
liggur fyrir að sóknaraðilar hafa stefnt varnaraðila til greiðslu bóta vegna
ætlaðs tjóns, en það mál mun hafa verið þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 22.
janúar sl. Samkvæmt framlögðu ljósriti af stefnu í því máli byggjast dómkröfur sóknaraðila
á áðurgreindri greinargerð Veritas Ráðgjafar slf. Einnig hafa sóknaraðilar tvívegis óskað eftir
dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á fjárhagslegt tjón sitt vegna
framangreinds, fyrst í apríl sl., en þeirri beiðni sóknaraðila var hafnað með
úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember sl., og nú síðast með matsbeiðni
8. desember sl. Mun sú beiðni hafa verið send Héraðsdómi Reykjavíkur og bíði
þar afgreiðslu. Með framangreindri málshöfðun og ósk um dómkvaðningu matsmanns er
ljóst að sóknaraðilar hafa afráðið að leita úrlausnar dómstóla um bótaskyldu
varnaraðila og leitast við að sanna tjón sitt með þeim aðferðum sem lög um meðferð
einkamála nr. 91/1991 gera ráð fyrir. Samkvæmt framangreindu liggur niðurstaða
dómstóla um bótaskyldu varnaraðila og fjárkröfu sóknaraðila ekki fyrir.
Með
hliðsjón af öllu framangreindu þykja sóknaraðilar ekki hafa sýnt fram á að þeir
eigi, að svo komnu máli, lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Ber því þegar af
þeirri ástæðu að hafna beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi
varnaraðila.
Í
ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991,
sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, er sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila
málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Ekki
þykja efni til að verða við þeirri kröfu varnaraðila að dæma lögmann
sóknaraðila til greiðslu málskostnaðar in solidum með umbjóðendum sínum.
Ragnheiður
Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað
er kröfu sóknaraðila, Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf., um að bú varnaraðila, Valitors
ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðilar
greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.