Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2000


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Riftun
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 15. júní 2000.

Nr. 53/2000.

Ísaró ehf.

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

gegn

Rósari Aðalsteinssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

                                                

Lausafjárkaup. Galli. Riftun. Gjafsókn.

Fjármögnunarleigufyrirtækið L keypti rúllubindivél, moksturstæki og fleiri vélar af Í sumarið 1997 og leigði R. R kvartaði yfir því við Í að bindivélin reyndist illa og óskaði eftir að skila henni um haustið. Í janúar 1998 rifti L kaupunum á bindivélinni og krafðist skaðabóta. Jafnframt krafðist L þess að stjórntæki fyrir moksturstækið yrðu afhent innan tiltekins tíma, en þau höfðu ekki fylgt með. R fékk kröfur L á hendur Í framseldar og höfðaði mál gegn Í til riftunar á kaupunum á bindivélinni auk þess sem hann krafðist skaðabóta vegna galla á moksturtækinu. Lagt var til grundvallar að bindivélin hefði ekki verið nothæf sumarið 1997 og væri ekki komið fram að Í hefði sinnt kvörtunum R eða boðist til að bæta úr gallanum. Yrði því að telja að kaupanda hefði verið heimilt að rifta kaupunum. Hins vegar lá fyrir að R hafði tekið bindivélina aftur í notkun eftir að lýst var yfir riftun, en vélin hafði verið lagfærð í júní 1999 og reynst vel eftir það. Þóttu þessar gerðir R ekki samrýmast því að hann héldi til streitu kröfum á grundvelli riftunaryfirlýsingarinnar og var Í því sýknað af þeim kröfum hans, sem rætur áttu að rekja til kaupa á bindivélinni. Talið var að R hefði ekki sýnt fram á að samið hefði verið um að stjórntæki ættu að fylgja moksturstækinu eða venja stæði til þess að svo væri. Var ekki fallist á að tækið hefði verið gallað. Var Í því sýknaður af öllum kröfum R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2000. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

I.

Vorið 1997 leitaði stefndi, sem var að hefja búskap að Efri Brúnavöllum I á Skeiðum, eftir kaupum á heyvinnuvélum hjá Búvélum ehf. í Reykjavík, en félagið er nú rekið undir nafni áfrýjanda. Til þess að standa straum af kaupverði sneri stefndi sér til Lýsingar hf. og gerði við félagið 11. júní 1997 samning um að hann tæki hjá því á fjármögnunarleigu til fimm ára rúllubindivél, moksturstæki, diskasláttuvél og rúllugreip. Vélar þessar keypti Lýsing hf. hjá Búvélum ehf. og greiddi sama dag kaupverðið, samtals 2.104.050 krónur. Voru vélarnar síðan afhentar stefnda.

Mál þetta varðar einungis rúllubindivélina og moksturstækið. Eru kröfur stefnda reistar á því að Búvélar ehf. hafi vanefnt kaupsamninginn að því er varðar þessi tæki, en Lýsing hf. framseldi stefnda 27. maí 1998 „allar kröfur á hendur Búvélum“ vegna kaupsamningsins.

Stefndi krefst svo sem áður segir staðfestingar héraðsdóms, þar á meðal ákvæðis hans um greiðslu úr hendi áfrýjanda á grundvelli riftunar. Með hinum áfrýjaða dómi var stefnda dæmd endurgreiðsla á samtals 1.232.550 krónum vegna riftunar kaupa á rúllubindivélinni, en sú fjárhæð sundurliðast þannig að kaupverð vélarinnar var 990.000 krónur og virðisaukaskattur af kaupverði 242.550 krónur. Þá voru stefnda dæmdar 63.495 krónur vegna galla á moksturstæki, sem nánar er getið síðar.

II.

Eftir að Búvélar ehf. höfðu afhent stefnda hið selda tók hann bindivélina í notkun og kvað hana hafa reynst illa. Þegar stefndi kvartaði við seljanda sumarið 1997 bað starfsmaður hans bónda að Hvítárholti í Hrunamannahreppi, Björn Björnsson, að fara til stefnda, leiðbeina honum og aðstoða við að ná tökum á vélinni, en Björn mun hafa haft mikla reynslu af vinnu við bindivélar sem þessa. Stefndi kveður heimsókn Björns ekki hafa borið árangur og kveðst stefndi hafa ítrekað kvartanir sínar við Búvélar ehf., sem ekki hafi sinnt þeim. Hann hefur einnig borið að í ágúst 1997 hafi hann hringt til Búvéla ehf. og ætlað að skila bindivélinni, en starfsmaður félagsins hafi óskað eftir að vélin yrði flutt til áðurnefnds Björns Björnssonar. Fór stefndi með vélina þangað og stóð hún þar úti allan næsta vetur. Stefndi kveðst hafa keypt aðra bindivél og notað hana sumarið 1998, þar sem hann hefði ekki getað hugsað sér að reyna að heyja með hinni vélinni.

Lögmaður stefnda ritaði 27. janúar 1998 bréf til Búvéla ehf. og lýsti yfir fyrir hönd kaupandans, Lýsingar hf., að kaupunum á bindivélinni væri rift. Jafnframt krafðist hann skaðabóta. Mun stefndi hafa sótt vélina til Björns síðla árs 1998 og hefur hún verið í vörslum stefnda síðan.

Stefndi heldur fram að bindivélin hafi verið alveg ónothæf þar til í júní 1999, en þá hafi hún verið lagfærð af bandarískum viðgerðarmönnum á vegum framleiðanda hennar. Ágreiningslaust er að þessi lagfæring vélarinnar hafi verið einföld og tekið skamma stund. Stefndi skýrði svo frá fyrir dómi að eftir lagfæringuna hafi vélin reynst mjög vel. Hann hafi notað hana sumarið 1999 við flestar heytegundir, sem hún hefði ekki ráðið við áður, þar á meðal mjög blautt og fíngert hey.

III.

Með vísun til forsendna héraðsdóms er fallist á að leggja verði til grundvallar að bindivélin hafi verið ekki verið nothæf sumarið 1997. Áfrýjandi hefur viðurkennt að stefndi hafi haft samband við seljanda haustið 1997 og óskað eftir að fá að skila vélinni. Ekki er komið fram að seljandi hafi sinnt kvörtunum stefnda frekar eða boðist til að bæta úr gallanum. Verður því að telja að kaupanda hafi verið rétt að rifta kaupunum. Hins vegar liggur fyrir að stefndi tók bindivélina aftur í notkun eftir að lýst var yfir riftun og notaði hana við heyskap sumarið 1999. Þessar gerðir stefnda samrýmast því ekki að hann haldi til streitu kröfum á grundvelli riftunaryfirlýsingarinnar 27. janúar 1998. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeim kröfum stefnda, sem eiga rætur að rekja til kaupa á bindivélinni.

IV.

Krafa stefnda vegna vanefnda varðandi kaupin á moksturstækinu er studd þeim rökum að hann eigi rétt á skaðabótum eða afslætti sökum þess að vantað hafi nauðsynlegan búnað til að stjórna tækinu þegar seljandi afhenti það.

Ágreiningslaust er að þegar stefndi skoðaði moksturstækið var það ekki búið sérstökum stjórntækjum. Að þessu gættu hvílir á stefnda sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um að slík stjórntæki hafi átt að fylgja moksturstækinu eða að venja stæði til þess að svo væri. Hvorugt þetta hefur stefndi sannað. Er því ekki fallist á að moksturstækið hafi verið gallað.

Samkvæmt ofangreindu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

Eftir atvikum er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ísaró ehf., er sýkn af kröfum stefnda, Rósars Aðalsteinssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 9. júní 1998.

Stefnandi er Rósar Aðalsteinsson, kt. 171067-4059, Efri-Brúnvöllum 1, Skeiðum.

Stefndi er Ísaró ehf., kt. 521087-1459, Brekkuseli 29, Reykjavík.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

Krafist er staðfestingar á riftun Lýsingar hf. frá 27. janúar 1998 á kaupum félagsins á rúllubindivél, vörunúmer 50418-005, af gerðinni Vermeer, sem fram fóru þann 6. júní 1997 og stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.462.500 kr. auk vanskilavaxta p.a., skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga frá 6. júní 1997 til greiðsludags. Til vara er krafist vanskilavaxta frá síðara tímamarki.

Krafist er málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Dómkröfur stefnda:

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

 

Gangur málsins

Upphaflegur stefndi er Búvélar ehf., kt. 521087-1459, Síðumúla 27, Reykjavík. Við fyrirtöku málsins 8. sept. sl. upplýsti lögmaður stefnda að rekstur Búvéla ehf. hafi verið seldur ásamt nafni. Fyrirtæki stefnda sé nú rekið undir nafninu Ísaró ehf., kt. 521087-1459. Það fyrirtæki heldur áfram vörnum í málinu.

Við fyrirtöku málsins 11. janúar 1999 var því frestað til 8. sept. sl. til þess að fá álit bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á eftirtöldum atriðum: 

1.          Hvort rúllubindivél af gerðinni Vermeer 504 IS, sem seld var Lýsingu hf. 6. júní 1997, vörunúmer 50418-005, hafi þá kosti sem lýst er í bæklingi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem lagt hefur verið fram sem dskj. nr. 11.

2.          Jafnframt skyldi óskað eftir áliti á því hversu vel framangreind rúllubindivél henti til þess að rúlla upp heyi á túnum á Íslandi.

Við fyrirtöku málsins 8. sept. sl. lýsti lögmaður stefnanda því yfir að stefnandi telji ástæðulaust að fá álit Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Í sumar hafi tveir starfsmenn Vermeer verksmiðjanna í Bandaríkjunum komið hingað til lands og gert við vélina.  Vélina sagði lögmaðurinn vera í vörslu stefnanda. Við þessa fyrirtöku málsins óskaði lögmaður stefnanda eftir frestun málsins til þess að leggja fram upplýsingar frá mönnunum sem önnuðust viðgerð þessa.  

Með úrskurði uppkveðnum 10. sept. sl. var stefnanda veittur frestur til gagnaöflunar til 22. okt. sl. Við fyrirtöku málsins þann dag lagði lögmaður stefnanda fram bréf sín til Vermeer verksmiðjunnar þar sem óskað var upplýsinga um það hvað starfsmenn verksmiðjunnar hafi gert til þess að lagfæra rúllubindivélinu og hvað hafi verið að vélinni. Jafnframt lagði lögmaðurinn fram bréf frá Vermeer verksmiðjunni þar sem segir að starfsmenn AG þjónustunnar, sem hlut áttu að máli, hafi einungis stillt  hægri hlið keflisins upp og sagt stefnanda að snúa aðrekstrarhjólunum við og fylgja leiðbeiningunum fyrir innsetningu heys í handbók eiganda til að draga úr því að reimarnar fari út af og snúist. Í bréfinu var því neitað að veita frekari upplýsingar.Við aðalmeðferð málsins var kröfum stefnanda breytt verulega frá því sem greinir í stefnu.

Við aðalmeðferðina gáfu skýrslu fyrir dómi stefnandi, Ólöf Hjartardóttir, sambýliskona stefnanda, Theódór Skúli Halldórsson, fyrirsvarsmaður stefnda, vitnin Jón Vigfússon bóndi, Þorgeir Vigfússon bóndi, Guðjón Vigfússon bóndi, Bogi Melsteð bóndi, Björn Björnsson bóndi, Guðmundur Valdimarsson bifreiðastjóri, Guðmundur Arnarson bifvélavirki og Össur Björnsson vélstjóri.

 

Málavextir

Þann 6. júní 1997 keypti Lýsing hf. af Búvélum ehf. rúllubindivél, moksturstæki, diskasláttuvél og rúllugreip. Kaupverð varanna var 2.104.050 kr., skv. reikningi nr. 1467, dags. 6. júní 1997. Reikningurinn sundurliðast þannig:

Vermeer rúllubindivél

990.000 kr.

Moksturstæki

300.000 kr.

Diskasláttuvél SM 220-540 u/mi

311.000 kr.

P.J.P. rúllugreip  

89.000 kr.

 

1.690.000 kr.

Virðisaukaskattur

414.050 kr.

Samtals        

2.104.050 kr.

 

Lýsing hf. gerði fjármögnunarleigusamning við stefnanda vegna kaupa þessara.Í fjármögnunarleigusamningnum segir m.a. að Lýsing hf. sé eigandi hins leigða. Jafnframt segir í samningnum að séu vanefndir seljanda svo verulegar að rifta megi kaupunum skuli Lýsing hf. taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda hana. Leigutaki skal greiða kostnað við kröfugerð á hendur seljanda vegna vanefnda af hans hálfu, hvort sem sú kröfugerð er í nafni Lýsingar hf. eða leigutaka í umboði félagsins.

Með bréfi, dags. 27. janúar 1998, var f.h. Lýsingar hf. lýst yfir riftun á  kaupum á rúllubindivélinni og skrafist skaðabóta. Ástæður riftunar voru sagðar þær að rúllubindivélin hafi verið stórlega gölluð og engan veginn uppfyllt þá kosti sem upp voru gefnir við söluna. Stefnandi hafi ítrekað kvartað vegna þessa. Í ágúst 1997 hafi rúllubindivélinni verið komið fyrir í vörslu Búvéla hf. Tilraunir Búvéla hf. til viðgerða hafi engan árangur borið enda sé ekki um bilun að ræða heldur skort á áskildum kostum. Í bréfinu segir enn fremur að moksturstækin hafi einnig verið gölluð og hafi gallinn falist í því að vantað hafi stjórntækin. Með bréfinu er krafist afhendingar stjórntækja innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins en ella verði krafist skaðabóta. Jafnframt er áskilinn réttur til að krefjast skaðabóta vegna alls þess kostnaðar sem rekja megi til ofangreindra galla, svo sem fjármagnskostnaðar, aukinnar vinnu, leigu tækja og greiðslu aukinna vinnulauna til starfsmanna.

Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 10. febrúar 1998, var efni ofangreinds bréfs mótmælt og tekið fram að ekki hafi verið gerð grein fyrir því í hverju gallar rúllubindivélarinnar séu fólgnir. Því var jafnframt mótmælt að stefndi hafi tekið vélina í sína vörslu og reynt að gera við hana. Varðandi moksturstækin er tekið fram að stjórntæki hafi ekki fylgt með í kaupunum og hafi þau aldrei komið til tals.

Hinn 27. maí 1998 framseldi Lýsing hf. stefnanda allar kröfur á hendur Búvélum, umboðs- og heildverslun, kt. 521087-1469, vegna viðskipta sem áttu sér stað skv. reikningi nr. 1489, dags. 6. júní 1997. Með yfirlýsingu, dags. 11. des. 1998, var tekið fram að í yfirlýsingunni 27. maí 1998 hafi reikningur ranglega verið sagður nr. 1489, hið rétta sé aða reikningurinn sé nr. 1467.

Fram er komið að stefnanda gekk mjög illa að vinna með rúllubindivélinni. Hann kvartaði við starfsmenn Búvéla ehf., þá Júlíus, sem nú er látinn og Theódór Halldórsson. Eftir kvartanir stefnanda bað Júlíus kunningja sinn, Björn Björnsson, bónda að Hvítárholti, að líta á vélina hjá stefnanda og aðstoða hann. Björn leit á vélina, reitti úr henni hey og hreinsaði hana. Svo kvað hann þá stefnanda hafa farið út á tún og prófað vélina, rúllað eitthvað þrjár eða fjórar rúllur. Þetta hafi virst ganga svona nokkurn veginn. Eftir þetta reyndist vélin stefnanda jafnerfið. Þá kvartaði hann að nýju. Við því voru engin viðbrögð af hálfu seljanda. Í ágúst 1997 kvaðst stefnandi hafa hringt í Júlíus í Búvélum og sagt honum að hann væri á leið í bæinn á dráttarvél með rúllubindivélina til þess að afhenda seljanda vélina. Stefnandi kvaðst hafa sagt að hann vildi ekki fá vélina til baka nema í lagi. Stefnandi segir Júlíus hafa beðið sig um að fara með vélina til Björns Björnssonar í Hvítárholti.

Fram kom hjá Theódór Skúla Halldórssyni, fyrirsvarsmanni stefnda, að stefnandi hafi átt meiri samskipti við Júlíus. Þegar í ljós kom að stefnandi átti í erfiðleikum með vélina hafi Björn Björnsson, bóndi í Hvítárholti, verið fenginn til þess að fara til stefnanda og leiðbeina honum. Theódór kvaðst halda, að þá er stefnandi fór með vélina til Björns Björnssonar, hafi hann verið nánast búinn með sinn heyskap og hafi þess vegna farið með vélina til Björns Björnssonar til þess að Björn gæti leiðbeint stefnanda og hugsanlega stillt vélina.

Björn Björnsson sagði Júlíus í Búvélum hafa hringt í sig aftur. Björn sagði sig minna að stefnandi hafi beðið sig um að prófa vélina í rólegheitum heima og það kvaðst Björn hafa ætlað að gera en af því hafi ekki orðið. Ekki gat Björn fullyrt hvort Júlíus í Búvélum hafi beðið sig að prófa vélina eða ekki. Björn sagði að það eina sem hann sá öðruvísi á vélinni en sinni vél hafi verið lítil gúmmíhjól sem snéru öfugt. Vélin stóð úti heima hjá Birni í einn vetur. Ekki taldi Björn að vélin hefði skemmst neitt við það.

Að fyrirmælum lögmanns síns sótti stefnandi síðan vélina til Björns bónda og flutti heim til sín. Þar var vélin geymd inni. Sumarið 1998 keypti stefnandi aðra vél.

Í júní 1999 komu starfsmenn Vermeer verksmiðjunnar, framleiðanda vélarinnar, heim til stefnanda og skoðuðu vélina. Það mun hafa verið að tilhlutan nýrra umboðsaðila Vermeer verksmiðjunnar. Þá kom í ljós að kefli í vélinni var vitlaust stillt. Vélin var keyrð í smástund og  keflið stillt. Ekki var hægt á þessum tíma að prófa vélina í heyi. Sumarið 1999, eftir lagfæringuna, prófaði stefnandi vélina við ýmsar aðstæður og reyndist hún vel.

Fram kom hjá Össuri Björnssyni vélstjóra, starfsmanni núverandi umboðsaðila Vermeer verksmiðjunnar, sem var viðstaddur skoðun starfsmanna Vermeer verksmiðjunnar sumarið 1999, að í ljós hafi komið að kefli í vélinni var vitlaust stillt. Össur sagði að maður með sérþekkingu hefði getað séð hvað að var á augabragði. Hann taldi að meðalmaður hefði ekki áttað sig á þessu. Afleiðingar þess að keflið var vitlaust stillt væru að vélin verði erfiðari í vinnu. Meiri hætta sé á að upp á reimar snúist og reimarnar rekist utan í og skemmist.

Fram kom hjá Jóni Vigfússyni bónda að mjög illa hafi gengið hjá stefnanda að nota rúllubindivélina. Reimarnar hafi viljað snúast upp á og það hafi verið mjög erfitt að snúa þeim til baka. Hann taldi ófaglærðan mann hvorki geta lagfært né fundið út hvað að rúllubindivélinni var. Jón var viðstaddur þegar starfsmenn Vermeer verksmiðjunnar lagfærðu vélina 1999. Hann sagði þá hafa stillt reimarnar og einhver skekkja hefði verið á kefli. Þorgeir Vigfússon lýsti annmörkum þeim sem voru á notkun vélarinnar mjög á sama veg og Jón Vigfússon. Fram kom hjá Guðjóni Vigfússyni að erfiðleikar hafi verið með rúllubindivélina. Hann kvaðst ekki hafa séð af hverju vélin reyndist ekki vel. Hann kvaðst ekki hafa þekkingu til þess að sjá það. Guðjón rúllaði hey fyrir stefnanda. Fram kom hjá Boga Melsteð að rúllubindivélin hafi unnið ákaflega lítið. Mjög illa hafi gengið að fá úr henni bagga. Stefnandi hafi ekkert getað rúllað. Fram kom hjá Guðmundi Valdimarssyni að hann hafi séð rúllubindivélina í vinnu 1997 og það hafi virst vera miklir erfiðleikar með hana. Guðmundur var viðstaddur þegar menn frá Vermeer verksmiðjunni komu til stefnanda 1999. Hann sagði þá hafa fært stillingar beggja vegna á hliðum á vélinni. Guðmundur kvaðst ekki hafa treyst sér til þess að lagfæra þetta.

Guðmundur Arnarson, bifvélavirki og starfsmaður nýrra umboðsaðila Vermeer verksmiðjunnar, sem var viðstaddur þegar menn frá Vermeer verksmiðjunni komu heim til stefnanda og litu á rúllubindivélina, sagði mennina hafa stillt beltin í vélinni. Þau hafi legið utan í sjálfum skrokknum. Eftir stillingu hafi vélin virst virka mikið betur. Fyrir stillingu  hafi vélin ekki virkað eðlilega. Guðmundur taldi lagfæringu þessa vera verkefni fagmanns.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Varðandi aðild málsins er tekið fram af hálfu stefnanda að Lýsing hf., sem var formlegur kaupandi vöru þeirrar sem málið er af risið, hafi lýst yfir riftun kaupanna og síðar framselt stefnanda allar hugsanlegar kröfur á hendur stefnda, sem rekja megi til framangreindra viðskipta og fjármögnuð voru með fjármögnunarleigusamningi við stefnanda.

Krafa um staðfestingu á riftun er á því byggð að rúllubindivélin hafi verið stórlega gölluð og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir viðgerðarmanna stefnda til að bæta þar úr hafi það ekki skilað tilskyldum árangri. Vélin hafi flækt reimarnar mikið og þær leitað út á hlið á snúningsásnum. Vélin hafi reynst ónothæf og sé því um verulegan galla að ræða. Krafist er riftunar sbr. 42. gr. laga nr. 39/1922. Við mat á því hvort um verulega galla sé að ræða er á það bent að til þess beri að líta að stefndi hafi gefið rangar upplýsingar við samningsgerð með saknæmum hætti, en þær upplýsingar hafi orðið til þess að kaup tókust. Við kaupin hafi verið bent á könnun frá Bændaskólanum á Hvanneyri og stefnanda tjáð að vélin ætti að afkasta um 40 rúllum á klukkustund auk þess sem pressan hafi átt að vera stillanleg en það hafi stefnandi talið mjög mikilvægt. Hafi þannig verið um að ræða áskilda kosti og beri stefndi hlutlæga ábyrgð á að slíkur áskilnaður standist. Stefnandi hafi leitað til stefnda sem sérfræðings en ekki einvörðungu sem söluaðila. Stefnandi hafi gefið stefnda upp hvað hann vantaði til heyskapar og jafnframt upplýst um allar aðstæður hjá sér, þ.m.t. hvernig dráttarvél hann hefði. Hafi stefnda því verið fulljóst um væntingar stefnanda þegar salan fór fram.

Stefnandi byggir á því aðallega að stefnandi eigi rétt á að krefjast uppgjörs á eftirfarandi grundvelli:

Innborgun á fjámögnunarleigusamningi vegna rúllubindivélar  

94.104 kr.

24,5% vsk. af  94.104

kr.   23.055 kr.

Uppgjör milli stefnenda miðað við febrúar 1998 

979.437 kr.

14,5% vsk. af 979.437

239.962 kr.

Uppgjör vegna riftunar kaupa rúllubindivélar

1.336.558 kr.

Skaðabætur vegna skorts á stjórntækjum, sbr.  dskj. 15   

63.495 kr.

Krafa vegna greiddra vinnulauna og aukins vinnuframlags stefnanda

  50.000 kr.

Samtals       

  1.450.053 kr.

         

          Verði ekki fallist á framangreint er á því byggt að stefnandi megi a.m.k. krefjast endurgreiðslu á eftirfarandi:

Rúllubindivél skv. reikningi nr. 001467        

990.000 kr.

24,5% vsk. af kr. 990.000        

242.550 kr.

Skaðabætur vegna skorts á stjórntækjum, sbr. dskj. 15          

63.495 kr.

Krafa vegna greiddra vinnulauna  og aukins vinnuframlags stefnanda

     50.000 kr.

Samtals     

 1.345.045 kr.

 

Þar sem kaupin voru raunverulega fjármögnuð með fjármögnunarleigusamningi þurfi uppgjör að fara fram á framangreindan hátt svo stefnandi geti verið eins settur  og  samningur hefði aldrei verið gerður.  Til nánari útlistunar á kröfu er vísað til sundurliðunar Lýsingar hf. í bréfi, dags. 24. febrúar 1998.

Stefndi hafi haft fulla vitneskju um það að kaupin yrðu fjármögnuð með fjármögnunarleigusamningi enda hafði hann bent stefnanda á þennan fjármögnunarmöguleika.  Sé því um að ræða bein orsakatengsl og sennilega afleiðingu milli gallans á rúllubindivélinni og þess tjóns sem krafist er að verði bætt.  Það sé meginregla við uppgjör vegna riftunar að krafa stofnist til þess að krefjast vangildisbóta sem feli það í sér að aðili eigi að vera eins settur fjárhagslega og ef samningur hefði eigi verið gerður. Framangreint uppgjör sé byggt á vangildisbótasjónarmiðum og ætti að gera stefnanda eins settan fjárhagslega og samningur hefði aldrei verið gerður.

Krafa stefnanda vegna greiddra vinnulauna og aukins vinnuframlags er rökstudd með því að þar sem stefnanda hafi verið ómögulegt að nota umrædda rúllubindivél hafi hann þurft að fá aðstoð utanaðkomandi manna til þess að vinna fyrir sig verkin. Vegna þess er krafist skaðabóta að fjárhæð 50.000 krónur auk dráttarvaxta frá 27. janúar 1998. 

Raunverulegt afleitt tjón stefnanda nemi mun hærri fjárhæð þar sem hann hafi lagt í ómælda aukavinnu sökum þessa galla á rúllubindivélinni.

Stefnandi styður kröfur sínar við kaupalögin nr. 39/1922, sérstaklega 42. gr. laganna og samningalögin nr. 7/1936.  Jafnframt styður stefnandi kröfur sínar við almennar reglur kröfuréttar og reglur um rangar og brostnar forsendur.  Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.

Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.

 

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Af hálfu stefnda er því haldið fram að krafa um riftun eigi ekki við rök að styðjast enda séu skilyrði riftunar ekki fyrir hendi.

Engin gögn hafi verið lögð fram í málinu til staðfestingar þess að rúllubindivélin sé gölluð. Ekki hafi farið fram mat sérfróðra aðila hér að lútandi. Engin tilraun hafi verið gerð til að leiða í ljós hvort vélin sé gölluð og ef svo sé í hverju gallarnir séu fólgnir og hvað sé til úrbóta. Að því er stefndi best viti hafi vélin ekki verið send til viðgerðar hjá fagaðila.  Hins vegar hafi kunnugur maður litið á vélina, bóndi á næsta bæ, án  þess að sjá nokkuð athugavert við hana, ef marka megi lýsingu stefnanda sjálfs á málavöxtum.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að rúllubindivélin sé haldin nokkrum galla og þó svo væri að gallinn sé svo verulegur að hann réttlæti riftun kaupanna gegn mótmælum stefnda með stoð í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922.

Fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi við kaupin áskilið kosti sem ekki hafi reynst vera fyrir hendi eða gefið rangar og villandi upplýsingar er mótmælt. Stefndi hafi verslunarrekstur að atvinnu. Í viðskiptum þeim sem málið er af risið hafi hann haldið vöru sinni fram með eðlilegum hætti og veitt um hana allar umbeðnar upplýsingar. Í kjölfar kaupanna hafi hann reynt að leysa úr vanda stefnanda varðandi meðferð tækjanna, m.a. með því að koma upplýsingum og leiðbeiningum um notkun á framfæri við hann.

Enn fremur er á því byggt af hálfu stefnda að riftun hafi ekki farið fram með réttum hætti lögum samkvæmt. Viðsemjandi stefnda sé í raun Lýsing hf. Riftun hafi verið lýst yfir með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 27. janúar 1998. Þá liggi ekki fyrir umboð frá Lýsingu hf. um framsal allra réttinda og skyldna samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum. Þegar af þessari ástæðu hafi riftun ekki farið fram með réttum hætti. Hvorki stefnandi né Lýsing hf. hafi í tilefni riftunar og í kjölfar hennar boðið fram eða afhent rúllubindivélina sem riftunin lúti að. Ekkert liggi heldur fyrir um ástand vélarinnar, en ljóst sé að eigandi hennar og vörslumaður, stefnandi eða Lýsing hf., beri ábyrgð á því að henni sé vel við haldið og í lagi. Að vélin sé í lagi en stefnda boðnar bætur ella séu m.a. forsendur riftunar.

 Krafist er sýknu af kröfum um skaðabætur og/eða afslátt vegna þess að stjórntæki vanti á ámoksturstæki og kröfu um vinnulaun.  Sýknukrafan byggist í fyrsta lagi á því að þessar kröfur rúmist ekki innan dómkrafna stefnanda.

Varðandi hvaða vöru stefnandi keypti vísar stefndi til fyrirliggjandi reiknings. Það hafi ekki verið umsamið að stjórntæki fylgdu ámoksturstækjunum enda séu þau tæki ekki til. Tækin hafi verið seld stefnanda með verulegum afslætti m.a. vegna þess að stefndi hafi ætlað að mixa tækin á vél sína.

Því er mótmælt að stefndi beri nokkra ábyrgð á meintu afleiddu tjóni stefnanda sökum þess að hann réð þriðja mann til vinnu. Orsakasamband sé ekki á milli viðskipta stefnanda við stefnda og þess að stefnandi hafi ráðið menn í vinnu til sín. Stefndi hafi ekki ábyrgst einhver tiltekin afköst tækjanna enda fari það eftir notkun þeirra og verklagi hver afköstin séu. Fullyrðingu stefnda um að vélin hafi legið meira og minna ónotuð vegna bilana er mótmælt. Vankunnátta stefnanda á notkun vélarinnar sé jafnlíkleg ástæða.

Sérstaklega er mótmælt kröfu stefnanda um laun fyrir meinta aukavinnu vegna galla á rúllubindivélinni. Þessi krafa sé engum gögnum studd. Fullyrðingu stefnanda hér að lútandi er mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Þá er kröfufjárhæð, bæði að því er varðar skaðabætur vegna stjórntækja og vegna vinnulauna, mótmælt sem órökstuddri og alltof hárri.

Varðandi tölulegar forsendur kröfugerðar stefnda er því haldið fram af hálfu stefnda að fjárkrafa stefnanda sé reist á röngum forsendum. Til grundvallar útreikningi á endurkröfu sé lagður fjármögnunarsamningur stefnanda við Lýsingu hf. Það sé rangt enda komi sá samningur viðskiptum aðila ekki við. Það sé alfarið mál stefnanda með hvaða hætti hann fjármagnar kaup sín á umræddum búvélum. Fjármögnun með kaupleigusamningi sé dýr kostur og alfarið á ábyrgð stefnanda. Gangi kaupin til baka verði ekki lagt annað verð til grundvallar uppgjöri en raunverulegt kaupverð hins selda.

Bréfi Lýsingar hf. til lögmanns stefnanda, dags. 24. febrúar 1998, er sérstaklega mótmælt sem málinu óviðkomandi.

Varakröfu stefnanda er mótmælt með eftirfarandi rökum. Það sé forsenda riftunar að hvor aðili um sig verði því sem næst eins settur og kaupin hefðu aldrei átt sér stað. Riftun eigi ekki að ná fram að ganga í þessu máli þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi aldrei skilað eða boðið fram skil  á hinu selda og einnig þar sem ekkert liggi fyrir um ástand vélarinnar.

Af hálfu stefnda er vísað til laga nr. 39/1922, laga nr. 7/1936 og meginreglna samninga- og kröfuréttar. Varðandi málskostnað er af hálfu stefnda vísað til laga nr. 91/1991, sérstaklega XXI. kafla.

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt framlögðum reikningi, dags. 6. júní 1997, vegna kaupa þeirra sem málið er af risið var Lýsing hf. kaupandi vörunnar og verð vörunnar, þ.e. Vermeer rúllubindivélar, moksturstækis, diskasláttuvélar og rúllugreipar, samtals 2.104.050 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Með samningi, dags. 11. júní 1997, sömdu stefnandi og Lýsing hf. um fjármögnunarleigu á framangreindum tækjum. Umsaminn grunnleigutími var frá 11. sept. 1997 til 10. sept. 2002. Leigugrunnur var að sömu fjárhæð og reikningurinn frá 6. júní 1997, eða 2.104.050 kr. Í fjármögnunarleigusamningi segir m.a.: “Séu vanefndir seljanda svo verulegar, að rifta megi kaupunum, skal Lýsing hf. taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda hana……………. Leigutaki greiðir kostnað við kröfugerð á hendur seljanda, vegna vanefnda af  hans hálfu, hvort sem sú kröfugerð er í nafni Lýsingar hf. eða leigutaka í umboði félagsins.“

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 27. janúar 1998, var lýst yfir f.h. Lýsingar hf. riftun á kaupum á rúllubindivélinni jafnframt því sem krafist er skaðabóta. Í bréfi þessu segir enn fremur að moksturstækin hafi einnig verið gölluð. Gallinn hafi falist í því að það vantaði stjórntækin. Þegar rætt sé um moksturstæki sé ávallt átt við tæki ásamt stjóntækjum og sé því um augljósan galla að ræða. Í bréfinu er krafist afhendingar stjórntækja innan 10 daga en ella verði krafist skaðabóta. Jafnframt er í bréfinu áskilinn réttur til að krefjast skaðabóta vegna alls þess kostnaðar er rekja megi til ofangreindra galla, s.s. fjármagnskostnaðar, aukinnar vinnu, leigu tækja og greiðslu aukinna vinnulauna til starfsmanna.

Með yfirlýsingu, dags. 27. maí 1998, framseldi Lýsing hf. stefnanda allar kröfur á hendur stefnda vegna viðskipta sem áttu sér stað skv. reikningi nr. 1489, dags. 6. júní 1997. Með yfirlýsingu, dags. 11. des. 1998, leiðrétti Lýsing hf. fyrrgreinda yfirlýsingu og er þar tekið fram að í yfirlýsingunni, dags. 27. maí 1998, hafi ekki átt að standa “skv. reikningi nr. 1489” heldur “skv. reikningi nr. 1467”.

Með vísan til framanritaðs verður að telja að stefnandi sé réttur aðili máls þessa.

Fullyrðingar af hálfu stefnanda um að við kaupin hafi stefnanda verið tjáð að rúllubindivélin ætti að afkasta um 40 rúllum á klst. og vélin væri með stillanlegri pressu eru ósannaðar.

Fram kom við skýrslugjöf stefnanda og vitna hér fyrir dómi að ekki var hægt að nota rúllubindivélina með eðlilegum hætti. Einu viðbrögð seljanda voru þau að Júlíus, starfsmaður seljanda, sem nú er látinn, fékk Björn Björnsson bónda til þess að líta á vélina og leiðbeina stefnanda um notkun. Björn Björnsson bar að hann hefði bundið 3 til 4 bagga með vélinni og hefði það gengið þokkalega. Eftir heimsókn Björns gekk stefnanda jafnilla að nota vélina. Þegar stefnandi tilkynnti Júlíusi, starfsmanni seljanda, í ágúst 1997 að hann ætlaði að koma með vélina til seljanda í Reykjavík, segir stefnandi að Júlíus hafi sagt sér að fara heldur með vélina til Björns Björnssonar, bónda í Hvítárholti. Eins og áður segir er Júlíus látinn svo ekki er hægt að fá hans frásögn af þessu samtali. Þegar litið er til framburðar Björns Björnssonar, sem kvaðst ekki þora að fullyrða hvort Júlíus hefði beðið um að vélin væri hjá honum, svo og framburðar Theódórs Skúla Halldórssonar, þá þykir bera að leggja til grundvallar að það hafi verið að ósk starfsmanns seljanda að stefnandi flutti vélina til Björns Björnssonar en ekki til seljanda. Vélina sótti stefnandi nokkrum mánuðum síðar og hefur eftir það haft vélina inni.

Þegar litið er til þess sem fram kom hjá bændunum Jóni, Þorgeiri og Guðjóni Vigfússonum og Boga Melsted, svo og Guðmundi Valdimarssyni bifreiðastjóra, þykir ljóst að rúllubindivélin hafi ekki verið notkunarhæf sumarið 1997. Þetta ástand vélarinnar varð til mikilla erfiðleika hjá stefnanda við heyskap sumarið 1997 og árið eftir varð hann að kaupa aðra vél. Ástand vélarinnar og það að seljandi gerði ekkert til úrbóta, sendi hvorki viðgerðarmann né sótti vélina til viðgerðar, heimilaði stefnanda að rifta kaupunum, sbr 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922.

Ekki skiptir máli í þessu sambandi að í ljós kom, þegar viðgerðarmenn Vermeer verksmiðjunnar litu á vélina í júní 1999, að það var smávægilegt sem að var og lítinn tíma tók að lagfæra það. Framburðir þeirra Össurar Björnssonar, Guðmundar Valdimarssonar, Jóns Vigfússonar og Guðjóns Vigfússonar, gefa til kynna að ekki var við því að búast að stefnandi gerði sér grein fyrir því hvað að var.

Með vísan til framanritaðs er riftunarkrafa stefnanda tekin til greina. Ekki skiptir máli í þessu sambandi að rúllubindivélin er enn í vörslu stefnanda,  sbr. 57. gr. laga nr. 39/1922.

Fallast ber á það með stefnda að fjármögnunarleigusamningur stefnanda og Lýsingar hf. sé stefnda óviðkomandi. Við uppgjör vegna riftunarinnar ber að miða við reikning stefnda nr. 1467 frá 6. júní 1997.

Því er ómótmælt að stjórntæki fylgdu ekki moksturstækjum sem keypt voru um leið og rúllubindivélin. Á reikningi yfir viðskipti þau sem málið er af risið eru tilgreind BAAS Frontlader moksturstæki á kr. 300.000 fyrir utan vsk. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki hafi verið umsamið milli aðila að stjórntæki fylgdu. Jafnframt er því haldið fram að tækin hafi verið seld með verulegum afslætti.

Stjórntæki eru eðlilegur fylgihlutur moksturstækja. Þar sem ekki er tekið fram á reikningnum að stjórntæki fylgi ekki moksturstækjunum og stefndi hefur ekki sýnt fram á að tilgreint verð á reikningi sé óeðlilega lágt fyrir moksturstæki með stjórntækjum þykir bera að leggja til grundvallar fullyrðingar stefnanda um að stjórntæki hafi átt að fylgja moksturstækjunum. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um skaðabætur vegna þessa, sbr. 2. mgr. 42.  gr. laga nr. 39/1922. Við ákvörðun fjárhæðar skaðabótanna er rétt að miða við fjárhæð reiknings frá Glóbus vélaveri hf., stíluðum á stefnanda, dags. 20. apríl 1998, að fjárhæð 63.495 kr.

Ljóst þykir að ástand rúllubindivélarinnar hafi valdið stefnanda auknum útgjöldum og vinnuframlagi, en réttur stefnanda í máli þessu er leiddur af réttindum Lýsingar hf. á hendur stefnda. Lýsing hf. á ekki rétt á greiðslu úr hendi stefnda vegna vinnulauna og aukins vinnuframlags stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnda af kröfu vegna þessa að fjárhæð 50.000 kr.

Niðurstaða málsins verður því sú að krafa stefnanda um staðfestingu riftunar  Lýsingar hf. frá 27. janúar 1998 á kaupum Lýsingar hf. á rúllubindivél, vörunúmer 50418-005, af gerðinni Vermeer, sem fram fóru þann 6. júní 1997, er tekin til greina.

Stefndi greiði stefnanda 1.296.045 kr., þ.e. 1.232.550 vegna rúllubindi-vélarinnar og 63.495 kr. vegna  þess að stjórntæki vantaði á moksturstæki. Fjárhæð þessa greiði stefndi með vöxtum eins og segir í dómsorði.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 295.000 kr. Við ákvörðun málskostnaðar var litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Uppsaga hans hefur dregist vegna mikilla anna dómarans.

 

D ó m s o r ð:

Staðfest er riftun  Lýsingar hf. frá 27. janúar 1998 á kaupum Lýsingar hf. á rúllubindivél, vörunúmer 50418-005, af gerðinni Vermeer, sem fram fóru þann 6. júní 1997.

Stefndi, Ísaró ehf., greiði stefnanda, Rósari Aðalsteinssyni, 1.296.045 kr. með vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. febrúar 1998 til greiðsludags og  295.000 kr. í málskostnað.