Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2000
Lykilorð
- Ríkisstarfsmenn
- Stjórnsýsla
- Áminning
- Andmælaréttur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 72/2000. |
Menntaskólinn í Kópavogi (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Allan Rettedal (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Ríkisstarfsmenn. Stjórnsýsla. Áminning. Andmælaréttur. Sératkvæði.
Framhaldsskólakennaranum A var veitt skrifleg áminning í framhaldi af fundi hjá skólameistara. Að mati Hæstaréttar var meðferð skólameistara á málinu haldin verulegum annmörkum, þar sem A hafði verið boðaður til fundar um málið án hæfilegs fyrirvara og án þess að honum hefði verið tilkynnt um efni fundarins. Þá hafði A ekki verið gefinn kostur á afriti af kvörtunarbréfi frá nemendum, sem var orsök að boðun fundarins, og honum ekki kynnt gögn um fyrri atvik, sem skólameistari skírskotaði til. Ennfremur varð ekki séð, að A hefði verið tjáð með óyggjandi hætti, að áminning í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 gæti fylgt í kjölfar fundarins. Að auki var efni áminningarinnar talið ófullkomið í ýmsu tilliti. Af atvikum mátti ráða, að skólameistari hafi talið sér fært að fara með málið sem framhald fyrri kvartana og umræðna um kennslustörf A, í stað þess að miða andmælarétt hans og aðra stöðu við hinn beina aðdraganda þess. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms, að áminningin til A hefði ekki fullnægt skilyrðum 21. gr. laga nr. 70/1996, meðal annars vegna þess, að á honum hafi verið brotinn lögvarinn andmælaréttur samkvæmt þeim lögum og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 23. febrúar 2000. Hann krefst þess, að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið, að hann verði sýknaður af kröfum stefnda og stefnda gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Mál þetta varðar starf stefnda við Menntaskólann í Kópavogi, þar sem hann hefur stundað kennslu allt frá árinu 1982. Snýst málið um gildi áminningar á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er skólameistari veitti honum með bréfi 27. nóvember 1998, sem rakið er í héraðsdómi ásamt greinargerð, er því fylgdi. Bréf þetta var gefið út í framhaldi af fundi hjá skólameistara 23. sama mánaðar, sem stefndi sótti samkvæmt munnlegri boðun að morgni þess dags, og að undangenginni öflun skólameistara á tilteknum upplýsingum vegna skriflegrar áskorunar stefnda að fundinum loknum. Hafði skýrsla um þær verið afhent stefnda daginn eftir, en ekki rædd við hann, og til frekari viðræðu kom ekki milli hans og skólameistara, áður en áminningin var veitt.
Auk skólameistara og stefnda voru það aðstoðarskólameistari og trúnaðarmaður Hins íslenska kennarafélags við skólann, sem sátu umræddan fund. Tilefni hans var kvörtunarbréf, sem fimmtán nemendur úr hópi þýskunema stefndu höfðu undirritað og afhent aðstoðarskólameistara 10 dögum fyrr. Hafði skólameistari fengið það í hendur hinn 19. nóvember, en ekki rætt efni þess við nemendurna, áður en fundurinn var haldinn. Er bréf þetta einnig rakið í heild í héraðsdómi. Á fundinum var það lesið upp og rætt við stefnda, en honum ekki afhent afrit. Kveðst skólameistari hafa gert honum grein fyrir því, að hún liti efni þess mjög alvarlegum augum. Hún kvaðst einnig hafa rifjað það upp við stefnda í lok fundarins, að málið ætti sér alllanga forsögu, þar sem stjórnendur skólans hefðu áður þurft að eiga fundi með honum um sams konar málefni. Af hans hálfu er það staðfest, að skólameistari hafi tjáð honum, að hún væri að íhuga að veita honum áminningu. Hins vegar hafi hún ekki útskýrt nánar, hvað í því fælist. Um fund þennan liggur ekki fyrir staðfest fundargerð, en skólameistari ritaði um hann minnisblað, sem ekki var borið undir aðra.
Um fyrri samskipti stefnda og stjórnenda skólans er þess einkum að geta, að skólameistara höfðu einnig borist kvartanir frá nokkrum nemendum stefnda rúmu ári fyrr, í október 1997. Var hinn 15. þess mánaðar haldinn fundur sömu aðila, þar sem farið var yfir þær kvartanir, og samkvæmt minnisblaði skólameistara um hann varð það að samkomulagi milli þeirra, að stefndi og trúnaðarmaður kennara fengju að skoða málið, áður en til áminningar kæmi. Kveðst skólameistari hafa ritað áminningarbréf ásamt greinargerð nokkrum dögum eftir fundinn, en ekki afhent það stefnda vegna þess, að hann hafi tilkynnt veikindaforföll með læknisvottorði hinn 22. október. Óumdeilt er, að því máli var ekki fylgt eftir að svo stöddu, en stefndi virðist hafa mætt aftur til starfa rúmum tveimur vikum síðar. Að sögn skólameistara vísaði hún til þessara skjala á fundinum 23. nóvember 1998, en óumdeilt er, að þau voru ekki sýnd stefnda þá né fyrr. Fyrir liggur hins vegar, að þau eru nær orðrétt samhljóða áminningarskjölunum frá 27. nóvember 1998.
II.
Nánari atvikum málsins og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi telur það þó missagt í VIII. kafla dómsins, að því hafi ekki verið haldið fram af hans hálfu, að stefnda hafi verið kynnt fyrir fundinn 23. nóvember 1998, að skólameistari hefði í hyggju að veita honum áminningu vegna kennslustarfa hans. Af greinargerð áfrýjanda í héraði verður ekki séð, hvort þessi athugasemd er réttmæt eða ekki, en hvað sem því líður verður hún ekki talin raska gildi dómsins, þar sem í honum segir skýrum stöfum, að héraðsdómari telji ósannað, að stefnda hafi verið tilkynnt fyrirfram um tilefni fundarins.
Áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 er alvarleg ráðstöfun, sem til þarf að vanda bæði að formi og efni, enda eru við hana bundin þau sérstöku réttaráhrif, að hún geti verið nauðsynlegur undanfari brottvikningar úr starfi, sbr. 44. gr. laganna. Á það verður að fallast með héraðsdómara, að meðferð skólameistara á máli stefnda hafi verið haldin verulegum annmörkum. Þannig var stefndi boðaður til fundar um málið án hæfilegs fyrirvara og án þess að séð verði, að honum hafi verið kynnt tilefni fundarins. Honum var ekki afhent kvörtunarbréfið, sem var orsökin að boðun fundarins, og honum ekki kynnt gögn um þau fyrri atvik, sem skólameistari skírskotaði til í umræðu á fundinum. Þá verður ekki séð, að stefnda hafi verið tjáð með óyggjandi hætti, að áminning í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 gæti fylgt í kjölfar fundarins, en minnisblað skólameistara um fundinn verður ekki lagt til grundvallar sem fundargerð nema að því marki, sem efni þess hefur verið staðfest af hálfu stefnda og trúnaðarmanns. Erindi þeirra til skólameistara eftir fundinn var ritað þegar að honum loknum og varðaði eingöngu öflun tiltekinna upplýsinga. Eigi að síður verður ekki séð, að skólameistari hafi ætlað stefnda svigrúm til andsvara að þeim fengnum. Álykta verður af öllu þessu, að brýn nauðsyn hafi verið að boða til annars fundar á hæfilegum fresti, þar sem kostur væri að ræða málið til hlítar, áður en áminning yrði afráðin.
Jafnframt þessu verður efni áminningarinnar að teljast ófullkomið í ýmsu tilliti. Þannig er áminningarbréfið sjálft ekki markvisst, þar sem staðhæfingar þess um óvandvirkni stefnda og ófullnægjandi árangur hans í starfi eru einungis settar fram með almennu orðalagi 21. gr. laganna. Hinar einstöku ávirðingar, sem um getur í meðfylgjandi greinargerð, hafa ekki verið studdar sannfærandi gögnum að öllu leyti. Í henni er að auki ekki fjallað um árangurinn af kennslu stefnda nema með óbeinum hætti, og sú staðhæfing, að hann hafi verið ófullnægjandi, er í raun ósönnuð í málinu.
Af atvikum málsins og málflutningi áfrýjanda verður helst ráðið, að skólameistari hafi litið á kvörtunarbréf nemendanna sem framhald þeirrar umræðu um kennslustörf stefnda, er átt hafði sér stað í október 1997, og talið sér fært að haga meðferð málsins eftir því. Á það verður ekki fallist, að tækt hafi verið að tengja fyrri atburðinn við hinn síðari með slíkum hætti, meðal annars þar sem ósannað er, að stefndi hafi þá verið skilinn eftir í þeirri trú, að hann ætti áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 yfir höfði sér. Bar skólameistara ótvírætt að miða andmælarétt stefnda og aðra stöðu hans í nóvember 1998 við hinn beina aðdraganda málsins á þeim tíma.
Að athuguðu því, sem hér hefur verið rakið, ber að fallast á það með héraðsdómara, að áminningin til stefnda 27. nóvember 1998 hafi ekki fullnægt skilyrðum 21. gr. laga nr. 70/1996, meðal annars þar sem á honum hafi verið brotinn lögvarinn andmælaréttur samkvæmt þeim lögum og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hinn áfrýjaði dómur þannig staðfestur með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjandi, Menntaskólinn í Kópavogi, greiði stefnda, Allan Rettedal, 180.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen
Í héraðsdómi er tekið upp orðrétt bréf skólameistara áfrýjanda til stefnda 27. nóvember 1998, þar sem honum var veitt áminning fyrir „að ná ekki fullnægjandi árangri í starfi og óvandvirkni í starfi sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ Með áminningunni fylgdi sérstök greinargerð, sem einnig er tekin upp í héraðsdómi, þar sem nákvæmari grein var gerð fyrir þeim atriðum í störfum stefnda, sem úrskeiðis fóru, og leiddu til þess að áminning var veitt.
Fram er komið að hópur fimmtán nemenda stefnda sendi skólayfirvöldum bréf í nóvember 1998, þar sem tíunduð voru margs konar umkvörtunarefni við störf stefnda. Annar nemendahópur hafði ári áður borið upp kvartanir vegna stefnda, sem voru í meginatriðum sama efnis og þær, sem fram komu í nóvember 1998. Bæði skólameistari og aðstoðarskólameistari áfrýjanda gáfu skýrslu fyrir dómi, þar sem brotalamir í störfum stefnda voru nánar skýrðar. Kom meðal annars fram hjá aðstoðarskólameistara að mikið hafi verið kvartað undan störfum stefnda og að bæði nemendur og foreldrar þeirra hafi átt þar hlut að máli. Hins vegar hafi mjög sjaldan verið kvartað undan öðrum kennurum skólans. Teldu foreldrar að nemendur fengju ekki þá kennslu hjá stefnda, sem þeir þyrftu að fá, og að hann kæmi að hluta til illa fram við nemendur og niðurlægði þá. Kvaðst aðstoðarskólameistari hafa nokkrum sinnum rætt þetta við stefnda í kjölfar þess að slík mál komu upp, en viðbrögðin jafnan orðið þau að hann teldi óskiljanlegt hvers vegna þessar kvartanir væru hafðar uppi. Fleiri starfsmenn skólans gáfu skýrslu fyrir dómi og báru um margítrekaðar kvartanir nemenda undan stefnda.
Skólameistari lagði það mat á störf stefnda að tilefni væri til að áminna hann fyrir þær ávirðingar, sem tilgreindar eru í áminningarbréfi og greinargerð með því. Eins og málið liggur fyrir eru engin efni til að vefengja það mat skólameistarans eða komast að þeirri niðurstöðu að of langt hafi verið gengið með því að áminna hann fyrir háttsemina, sem telst sönnuð í málinu.
Áður en til áminningar kom var haldinn fundur að tilhlutan skólameistara 23. nóvember 1998, en auk skólameistarans sátu hann aðstoðarskólameistari, stefndi og trúnaðarmaður Hins íslenska kennarafélags hjá áfrýjanda. Er meðal málsskjala minnisblað skólameistara um fundinn, sem haldinn var í tilefni áðurnefnds kvörtunarbréfs nemenda fyrr í sama mánuði. Staðfest er með framburði allra fundarmanna fyrir dómi að bréfið hafi verið ítarlega rætt á þessum fundi, sem hafi staðið lengi yfir, og auk þess fyrri kvartanir af sama toga. Er óumdeilt að farið hafi verið yfir bréfið lið fyrir lið og leitað eftir afstöðu stefnda til þeirra atriða, sem þar komu fram. Stefndi ber að bréfið hafi verið lesið upp, en hann hafi ekki fengið að lesa það sjálfur. Aðstoðarskólameistari og trúnaðarmaður HÍK bera hins vegar að bæði hinn síðastnefndi og stefndi hafi fengið það eða afrit þess í hendur til yfirlestrar, en þó þannig að nöfn nemenda á bréfinu fylgdu ekki með. Því er ekki haldið fram að stefndi hafi óskað eftir að fá afrit þess til umráða. Eftir að fundinum lauk rituðu trúnaðarmaðurinn og stefndi skólameistara bréf, þar sem óskað var ýmissa upplýsinga um nemendurna, sem kvartað höfðu undan stefnda í nóvember 1998. Svör voru þegar veitt og fyrir dómi lýsti trúnaðarmaðurinn yfir að þau hafi ekki gefið tilefni til neinna sérstakra viðbragða. Áminning var síðan veitt fjórum dögum eftir að fundurinn var haldinn.
Fram er komið að stefndi var munnlega kvaddur til fundarins og án þess að fundarefnið væri sérstaklega tilgreint. Það getur hins vegar engum úrslitum ráðið um niðurstöðu málsins, enda átti hann þess kost að tjá sig ítarlega um efni þess áður en ákvörðun um áminningu var tekin og naut auk þess aðstoðar trúnaðarmanns stéttarfélags síns.
Við skýrslugjöf fyrir dómi kannaðist stefndi við að skólameistari hafi í lok áðurnefnds fundar viðhaft þau orð að hann væri alvarlega að hugsa um að veita honum áminningu. Stefndi viðurkennir hins vegar ekki að honum hafi verið ljóst að um væri að ræða áminningu í merkingu starfsmannalaga. Aðrir, sem hafa tjáð sig um þetta, bera á annan veg. Kvaðst skólameistari hafa á fundi árið áður, sem haldinn var vegna kvartana nemenda þá, lesið þá grein starfsmannalaga fyrir stefnda, sem um þetta fjallar, en til áminningar hafi ekki komið í það sinn vegna veikinda stefnda. Trúnaðarmaðurinn bar að þessu leyti á sama veg og að jafnframt hafi verið útskýrt fyrir þeim í hverju það fælist að veita skriflega áminningu og að síðar gæti komið til uppsagnar, ef starfsmaður bætti ekki ráð sitt. Þá er fram komið að stefndi var sjálfur trúnaðarmaður HÍK hjá áfrýjanda 1993 til 1996. Í ljósi þess, sem að framan er rakið, tel ég ókleift að fallast á þá staðhæfingu stefnda að honum hafi ekki verið ljóst hvers konar áminning það var, sem til greina kæmi að veita honum.
Að virtu því, sem að framan er rakið, og gögnum málsins að öðru leyti tel ég enga þá annmarka við málsmeðferðina vera í ljós leidda, sem valdið geti því að fella eigi úr gildi þá áminningu, sem stefnda var veitt. Samkvæmt því beri að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda í málinu.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. nóvember 1999.
Málið höfðaði Allan Rettedal, kt. 250148-8019, Hávallagötu 5, Reykjavík, með stefnu birtri 30. mars 1999 á hendur Menntaskólanum í Kópavogi, kt. 631173-0399, Digranesvegi, Kópavogi. Málið var þingfest 7. apríl og dómtekið 1. nóvember síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi áminning sem skólameistari Menntaskólans í Kópavogi veitti honum 27. nóvember 1998 á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að auki krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins og verði þar tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþjónustu.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins.
I.
Stefnandi Allan Rettedal er af erlendum uppruna, en talar góða íslensku miðað við mann sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Hann er fæddur í Bandaríkjunum, en flutti til Kanada 1971. Þar lauk hann BA prófi í ensku og þýsku og MA prófi í þýsku og kenndi um skeið. Hann flutti til Íslands 1980 og hóf kennslu á Sauðárkróki, en hefur verið tungumálakennari í fullu starfi við Menntaskólann í Kópavogi frá haustönn 1982. Hann er nú íslenskur ríkisborgari og fastráðinn kennari við skólann.
Haustið 1998 hafði stefnandi umsjón með fjórum áföngum í þýsku og kenndi yfir eitt hundrað nemendum í sex hópum. Hinn 30. október 1998 tóku fimmtán af átján nemendum í þýskuáfanga 302 sig saman og undirrituðu kvörtunarbréf vegna stefnanda, sem einn nemendanna hafði ritað. Efni bréfsins er svohljóðandi:
,,Ágæti skólameistari og aðstoðar skólameistari
Við undirrituð viljum koma á framfæri kvörtun vegna eins kennara hér við skólann, sá sem um ræðir er Allan Retterdal (sic) þýskukennari.
Því miður verðum við að segja að okkur finnst kennslan engan vegin (sic) vera fullnægjandi. Skoðun okkar er sú að við gætum allt eins verið að taka p-áfanga þar sem að við fáum enga hjálp. Hann segjir (sic) okkur að spyrja ef það sé eitthvað sem við ekki skiljum, en þegar við spyrjum er svarið ávalt (sic) “þið eigið að kunna þetta”, “þetta stendur í bókinni” eða “lít ég út fyrir að vera orðabók?” Yfirleitt fylgir svarinu svipur sem gefur til kynna að hans raunverulega meining sé “hvað ert þú að spyrja mig að svona fáránlegum hlutum, þar sem að þú ert nú bara hálfviti sem ert að eyða mínum dýrmæta tíma”. Sem í raun skilur okkur á nákvæmlega sama stað og fyrr.
Okkar meining er sú að þegar þetta er alltaf svarið sem við fáum í stað þess að hlutirnir séu útskýrði (sic) einu sinni, en áfram er haldið með námsefnið á sama hraða og áður hlýtur það að koma niður á okkur fyrr eða síðar. Það liggur í augum uppi að ef við gætum kennt okkur þetta sjálf þá værum við ekki í skóla.
Frímínútur eru eftir hans höfði en ekki eftir bjöllu skólans, sem hefur leitt til þess að nemendur hafa fengið seinnt (sic) fyrir það eitt að fara eftir henni. Ástandið er orðið það slæmt að nemendur eru farnir að taka tíman (sic) á skeiðklukkum til þess að mæta alveg örugglega ekki of seint, eða fara bara ekki í frímínútur yfir höfuð af sömu ástæðu. S.s. nemendur eru hættir að taka mark á bjöllu skólans sem ætti ekki að gerast þar sem að hún ætti einmitt að vera samtenging milli allra nemenda og kennara.
Nafnakall fer fram á meðan fólk er enþá (sic) að setjast niður og því ekki nokkur leið fyrir þá sem eru fremstir í stafrófinu að heyra þegar þeir eru kallaðir upp. Auk þess sem flest öll kennsla fer fram í muldri upp við töflu sem fólk sem situr aftast heyrir ekki, sem aftur á móti leiðir til þess að þeir geta ekki fylgst með því sem er í gangi. Sömu sögu er að segja ef maðurinn er beðin (sic) kurteislega um að hækka röddina aðeins svo að heyrirst (sic) í honum. Svarið við því er: hlusta og þegja þó svo að þögnin sé svo mikil að hægt er að heyra manninn á fremsta borði skrifa.
Annað er að þegar komið er inn í stofuna hvort sem er í byrjun tímans eða eftir frímínútur er tilfinningin ávalt (sic) sú sama “hvað er ég að gera hérna ég er hvort sem er aðeins að eyða hans dýrmæta tíma. Enda er viðmótið það að hann vildi helst vera einhversstaðar (sic) annars staðar.
Í byrjun höfðum við ekki yfir neinu að kvarta en þegar líða tók á önnina breytist ástandið eins og gerist á hverri einustu önn.
Við höfum mun meira sem við myndum vilja koma á framfæri enda er þetta bara toppurinn á ísjakanum. Það er okkar ósk að þetta mál verði skoðað og einhverjar bætur gerðar, enda erum við ekki tilbúin til þess að greiða full skólagjöld fyrir eitthvað sem við fáum ekki og neyðumst fá okkur aukakennslu til þess að falla ekki á prófunum.”
II.
Bréfritari afhenti Erni Sigurbergssyni aðstoðarskólameistara kvörtunarbréfið 13. nóvember 1998, en skólameistari, Margrét Friðriksdóttir, fékk það í hendur 19. sama mánaðar þegar hún kom til starfa eftir orlof. Daginn eftir ræddi hún við Þórdísi Magnúsdóttur trúnaðarmann kennara innan Hins íslenska kennarafélags (H.Í.K.) og boðaði hana á fund með sér og aðstoðarskólameistara 23. nóvember þar sem ræða ætti kvörtunarbréf frá nemendum stefnanda. Stefnandi fékk munnlega boðun til fundarins 23. nóvember. Að hans sögn tilkynnti aðstoðarskólameistari honum um fundinn, líklega eftir hádegi þann dag, og sagði það eitt að skólameistari vildi ræða við hann á skrifstofu sinni. Er þeim framburði ekki mótmælt af hálfu Arnar Sigurbergssonar, sem kvaðst þó ekki muna hvort hann hefði tilkynnt stefnanda um fundinn. Að sögn Margrétar Friðriksdóttur boðaði hún stefnanda til fundarins og kvaðst hún hafa tjáð honum að ræða ætti kvörtunarbréf nemendanna, án þess að hún hefði minnst á fyrirhugaða áminningu.
Engin fundargerð var rituð á fundinum, sem hófst síðdegis 23. nóvember og stóð hátt á þriðju klukkustund samkvæmt vitnisburði Þórdísar trúnaðarmanns. Fyrir fundinum lá umrætt kvörtunarbréf. Er upplýst að skólameistari hafi lesið efni þess í heyranda hljóði og gefið stefnanda kost á að tjá sig um málið. Samkvæmt bókun sem skólameistari gerði eftir fundinn og ekki var lesin upp eða kynnt öðrum viðstöddum segir svo um viðbrögð stefnanda:
,,Hann áleit þessa kvörtun ekki sanngjarna og taldi nemendur vera að segja hluti sem þeim væri ekki alvara með. Hann sagðist hafa verið veikur á síðasta ári og því hefði ekki allt gengið sem skildi þá en svo væri ekki nú og því væru hlutirnir miklu betri. Hann taldi vera erfiða einstaklinga í hópnum [þýskuáfanga 302] en hópurinn væri þó í heild ekki slæmur og því skildi hann ekki þessa gagnrýni. Allan og trúnaðarmaður skoðuðu bréfið og málið var rætt ítarlegar.
Allan fullyrti að nemendur kvörtuðu almennt mikið og að öðruvísi væri tekið á kvörtunum vegna hans en annarra kennara. Skólameistari greindi frá því að mjög sjaldan eða nær aldrei væri kvartað undan kennurum skólans til skólameistara eða aðstoðarskólameistara og á sl. önnum hefðu einungis borist kvartanir vegna Allans.
Í lok fundar útskýrði skólameistari fyrir Allan að efni bréfsins væri af mjög alvarlegum toga og minnti hann á að stjórnendur skólans hefðu, í gegnum árin, átt marga fundi með honum um samskonar mál og því mundi þetta væntanlega leiða til skriflegrar áminningar.”
Margrét Friðriksdóttir, Örn Sigurbergsson og Þórdís Magnúsdóttir staðfestu fyrir dómi að umræddur fundur hefði farið fram á þann veg sem lýst er í bókun skólameistara. Þó kvaðst Þórdís ekki muna hvort hún og stefnandi hefðu fengið kvörtunarbréfið í hendur. Stefnandi kvað Margréti skólameistara hafa sagt í upphafi fundarins að meðal nemenda hans væri mikil og almenn óánægja með kennsluhætti hans, en síðan hefði hún dregið úr og sagt að sér hefði borist kvörtunarbréf frá nemendum í þýskuáfanga 302. Hún hefði í framhaldi af því lesið bréfið upphátt á fundinum og kannaðist stefnandi við að umkvörtunarefnin hefðu verið rædd lið fyrir lið og að hann hefði þá þegar veitt nokkur andsvör. Samkvæmt dómsframburði stefnanda hefði hann lýst því yfir á fundinum að hann væri ósáttur við gagnrýni nemendanna á kennsluhætti hans og að hann teldi ávirðingar í bréfinu í sinn garð vera rangar og ósannar. Stefnandi kvaðst ekki hafa fengið að sjá bréfið á fundinum. Varðandi niðurlagsorð hinnar tilvitnuðu bókunar (minnisblað skólameistara) staðfesti stefnandi að skólameistari hefði í lok fundarins minnst á fyrri fundi þar sem kvartanir sama efnis hefðu verið ræddar án þess að tilteknir fundir hefðu verið nefndir í því sambandi. Hann kvað skólameistara ekki hafa tilgreint sérstakar ástæður til áminningar í skilningi 21. gr. starfsmannalaga og sagði um lokaorð skólameistara samkvæmt bókun hennar eftir fundinn: ,,Ef ég man rétt þá sagði hún að hún væri alvarlega að hugsa um að veita mér áminningu.”
Ágreiningslaust er að stefnandi fékk hvorki afhent ljósrit af kvörtunarbréfinu né öðrum gögnum sem skólameistari studdist við á fundinum. Stefnandi kvaðst ekki hafa vitað að önnur gögn hefðu verið þar til umfjöllunar.
Að fundi loknum rituðu stefnandi og Þórdís Magnúsdóttir trúnaðarmaður samdægurs bréf til skólameistara þar sem óskað var eftir að skoðaðir yrðu eftirfarandi þættir vegna kvörtunarbréfs nemendanna fimmtán:
,,1. Samsetning hópsins sem skrifaði bréfið
Hversu margir nemendur eru í árekstrum í töflu
Veikindi nemenda
Fjarvera vegna barns
Tungumálakunnátta nemenda í íslensku vegna búsetu erlendis
Námsstaða hópsins almennt
Annar hugsanlegur vandi nemenda óháður skóla
Þessi atriði gætu hugsanlega skýrt að nemendur telji sig ekki fá viðeigandi kennslu, sem þá gæti verið byggt á misskilningi þeirra.
2. Seinkomur og fjarvistir nemenda í þessum ákveðna hópi verði bornar saman við mætingar þeirra almennt og svo aftur við aðra óskilda hópa.
Slík skoðun gæti leitt í ljós að um misskilning væri að ræða hjá nemendum að þeir söfnuðu frekar seinkomum og fjarvistum hjá viðkomandi kennara en hjá öðrum kennurum skólans.”
Skólameistari og aðstoðarskólameistari hófu þegar athugun á framangreindum atriðum og luku henni samdægurs með skýrslu til stefnanda og trúnaðarmanns, sem Margrét skólameistari kvaðst hafa afhent þeim daginn eftir, 24. nóvember. Skýrslan er í formi bréfs og er þess ekki getið að stefnanda sé veittur frestur til þess að koma að frekari andmælum. Þórdís trúnaðarmaður kvaðst fyrir dómi ekki vita hvenær hún hefði fengið vitneskju um niðurstöður könnunarinnar og kvaðst ekki hafa vitað fyrr en eftir á að stefnandi hefði hlotið áminningu þremur dögum síðar. Stefnandi kvað skýrsluna hafa verið setta í hólf hans á kennarastofu og hefði Margrét ekki rætt málið frekar áður en til áminningar hefði komið. Örn Sigurbergsson kvaðst halda að skólameistari hefði afhent skýrsluna með því að setja hana í hólf stefnanda.
Samkvæmt vitnisburði Arnar og Þórdísar töldu þau bæði að gengið hefði verið út frá því í lok fundarins 23. nóvember að stefnandi og trúnaðarmaðurinn fengju tækifæri til að afla gagna og tjá sig frekar um fram komnar ávirðingar áður en ákvörðun yrði tekin um skriflega áminningu. Kom þetta sérstaklega skýrt fram í vætti Þórdísar, sem taldi að skólameistari hefði veitt þeim frest í ,,viku eða eitthvað slíkt”. Margrét skólameistari kvaðst hafa litið svo á að eftir fundinn hefðu stefnandi og trúnaðarmaðurinn fengið ákveðið svigrúm til að koma að frekari athugasemdum og gögnum. Hún taldi að þau hefðu fullnýtt sér þann rétt með ritun bréfsins 23. nóvember, sem svarað hefði verið samdægurs.
III.
Hinn 27. nóvember 1998 kallaði skólameistari stefnanda á sinn fund og afhenti honum í viðurvist aðstoðarskólameistara áminningarbréf svohljóðandi:
,,Sem skólameistari Menntaskólans í Kópavogi og yfirboðari þinn tel ég mig knúna til að veita þér áminningu fyrir að ná ekki fullnægjandi árangri í starfi og fyrir óvandvirkni í starfi sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eins og þér var kynnt á fundi með undirritaðri ásamt aðstoðarskólameistara Erni Sigurbergssyni og trúnaðarmanni Þórdísi Magnúsdóttur, þann 23. nóvember sl., lýsir það sér í síendurteknum kvörtunum nemenda og forráðamanna, sjá meðfylgjandi greinargerð.
Á framangreindum fundi var þér kynnt efni fyrirhugaðrar áminningar og þér gefinn kostur á að tala máli þínu, í samræmi við 21. gr. laga nr. 70/1996.
Framangreind háttsemi telst vera af þeim toga að varði áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996. Með áminningarbréfi þessu er þér gefinn kostur á að bæta ráð þitt, en verði ekki breyting þar á, leiðir það til uppsagnar á ráðningarsamningi, án frekari fyrirvara.”
Hin tilvitnaða greinargerð sem fylgdi áminningunni hljóðar svo:
,,Allan Rettedal hefur verið tungumálakennari við Menntaskólann í Kópavogi frá haustönn 1982. Á undangengnum árum eða a.m.k. frá hausti 1987 hafa borist endurteknar kvartanir vegna kennslu Allans Rettedal í þýsku og samskiptaörðugleika við nemendur. Kvartanir hafa borist frá einstaka nemendum, nemendahópum og foreldrum/forráðamönnum. Stjórnendur skólans hafa ítrekað rætt þessar kvartanir við Allan án sýnilegs árangurs til frambúðar. Þá var settur leiðsagnarkennari honum til stuðnings skólaárið 1996-1997. Á haustönn 1997 bárust kvartanir frá nemendum Allans úr þremur áföngum til skólameistara. Einnig frá fulltrúum nemenda í skólaráði á skólaráðsfundi. Á haustönn 1998 hefur borist skrifleg kvörtun í sex liðum frá nemendahópi í þýsku. Kvartanir nú og áður felast einkum í:
Kennslan þykir ófullnægjandi; þegar þörf er nánari skýringa á kennsluefninu t.d. hvað varðar málfræði þá er kennarinn ekki tilbúinn til frekari útskýra. Ennfremur neitar kennarinn að aðstoða nemendur í kennslustundum. Þá þykir nemendum þörf á útskýringum með íslenskum dæmum sem þeir telja kennarann ekki hafa á valdi sínu. Nemendur telja kennslustundir ekki skila árangri þar sem litla sem enga leiðsögn er að fá. Nemendur tekja (sic) sig eins geta tekið P-áfanga eins og að sitja í kennslu.
Samskiptaörðugleikar; kvartað er undan óbilgirni af hálfu kennarans þegar nemendur þurfa að leita til hans með ýmis mál s.s. spurningar varðandi verkefni og aðra vinnu í áföngum. Kvartað er undan ósanngirni og að kennarinn niðurlægi nemendur í kennslustundum. Dæmi eru um að nemendur treysta sér ekki til að mæta í kennslustundir ef þeir hafa ekki náð að skilja heimaverkefni til hlítar sökum þeirrar niðurlægingar sem bíði þeirra af hálfu kennarans, á það jafnt við um duglega nemendur sem aðra. Nemendur telja sig ekki geta einbeitt sér í kennslustundum sökum neikvæðs aga sem leiðir til mikillar vanlíðunar.
Viðvistarskráning; kvartað er undan ranglátri meðferð fjarvistarskráningar þar sem aðrar reglur gildi hjá Allan Rettedal en almennt í skólanum t.d. þegar um seinkomur er að ræða.
Próf; kvartanir berast frá nemendum Allans og foreldrum þeirra þar sem efast er um réttlátt mat á prófum og verkefnum nemenda. Kvartað er yfir að kennarinn hafi fyrirfram mótaðar skoðanir á námsgetu einstakra nemenda og erfitt sé að breyta þeirri ímynd. Skólameistari hefur sent prófúrlausnir í endurmat utan skólans.
Úrsögn úr þýsku; nemendur hafa óskað eftir að segja sig úr áföngum af ofantöldum ástæðum og hafa þeir gengið svo langt að sækja þýsku í öðrum skólum af þeim sökum.”
Margrét Friðriksdóttir skólameistari kvaðst fyrir dómi ekki muna hvort hún hefði kynnt stefnanda inntak og réttaráhrif áminningar í skilningi 21. gr. starfsmannalaga áður eða þegar til áminningar hefði komið í nóvember 1998. Hún kvaðst halda að svo hefði ekki verið og bætti því við að ef ekki, þá hefði hún kynnt honum þau atriði í október 1997 þegar staðið hefði til að veita honum áminningu. Örn Sigurbergsson aðstoðarskólameistari kvaðst ekki muna hvort Margrét hefði kynnt stefnanda hvað fælist í slíkri áminningu. Þórdís Magnúsdóttir trúnaðarmaður bar að Margrét hefði kynnt þetta fyrir stefnanda, annað hvort á fundi í október 1997 eða á fundinum 23. nóvember 1998. Hún kvað skólameistara einnig hafa þurft að útskýra þetta fyrir sér þar sem hún hefði ekki vitað hvað fælist í slíkri áminningu.
IV.
Með bréfi lögmanns stefnanda 17. desember 1998 var þess óskað að skólameistari sendi ljósrit ,,af öllum þeim gögnum sem umrædd áminning byggðist á.” Jafnframt tilkynnti lögmaðurinn að stefnandi áskildi sér allan rétt til hvers kyns réttarúrræða í tilefni af áminningunni. Svarbréf skólameistara frá 30. desember hljóðar svo: ,,Sem svar við bréfi þínu frá 17. desember sl. sendast umbeðin gögn.”
Gögnin sem fylgdu svarbréfinu voru þessi:
1. Minnisblað Margrétar Friðriksdóttur frá nóvember 1989, að mestu leyti sama efnis og greinargerðin sem fylgdi áminningarbréfi 27. nóvember 1998. Margrét kom þá að málinu sem aðstoðarskólameistari.
2. Bókun Margrétar eða minnisblað eftir fund hennar og skólameistara með stefnanda 19. júní 1991. Þar er bókað að skólameistari hafi gert stefnanda grein fyrir því að vegna endurtekinna kvartana sl. ár geti skólameistari ekki mælt með honum til kennslu við skólann til frambúðar nema þessu linnti og jafnframt að skólameistari hafi sagst myndu gefa stefnanda tækifæri næsta vetur. Samkvæmt greindri bókun mun stefnandi hafa svarað gagnrýninni með svipuðum hætti og fram kemur í bókun Margrétar skólameistara eftir fundinn 23. nóvember 1998.
3. Bókun eða minnisblað Margrétar skólameistara eftir fund með stefnanda, Erni Sigurbergssyni aðstoðarskólameistara og Þórdísi Magnúsdóttur trúnaðarmanni 15. október 1997. Þar segir að fulltrúar nemenda í þýskuáföngum 302 og 402, þrír aðskildir hópar nemenda, hefðu komið á fund skólameistara og aðstoðarskólameistara og borið fram formlegar kvartanir vegna þýskukennslu stefnanda. Kvartanirnar hefðu verið þessar:
,,Kennari svarar ekki spurningum nemenda eða snýr út úr þeim. Dæmi: “Ég er ekki með orðabók”, nemendur telja hann ekki skilja spurningarnar vegna lélegrar íslenskukunnáttu.
Niðurlægir nemendur, sérstaklega lögðu stelpurnar áherslu á það. Þær treysta sér ekki til að mæta í tíma hjá honum ef það hefur verið eitthvað í heimaverkefnum sem þær skildu ekki vegna þess hve Allan gerir þá lítið úr þeim.
Ósanngjarn í mati á verkefnum.
Fjarvistarskáning (sic) en (sic) ekki eins hjá honum og öllum öðrum kennurum skólans.
Nemeendur (sic) lögðu áherslu á það að fá annan kennara á vorönn annars töldu þau sig verða að kosta til dýrra aukatíma.”
Fram kemur í bókuninni að skólameistari og aðstoðarskólameistari hafi gert stefnanda grein fyrir framangreindum athugasemdum og að hann hafi sagst ekki skilja þær. Kennslan hefði verið með venjulegu sniði, en hins vegar hefði heilsa hans ekki verið upp á það besta. Hann hefði sagt að hann teldi marga mjög lélega nemendur vera í umræddum hópum og að þeir nemendur sinntu ekki námi.
Í niðurlagi bókunarinnar segir orðrétt svo:
,,Skólameistari greindi Allan frá því að þar sem kvartanir hefðu borist undan kennslu hans á nær hverri önn og að sl. skólaár hefði hann verið undir handleiðslu leiðsagnarkennara sæi skólameistari sér ekki annað fært en að veita honum skriflega áminningu. Það varð að samkomulagi milli skólameistara, Allans og trúnaðarmanns að Allan ásamt trúnaðarmanni fengju að skoða málið áður en til áminningar kæmi.”
4. Læknisvottorð dagsett 22. október 1997, en þar segir að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms frá 20. október sama ár og að óvíst sé hve lengi svo verði.
5. Óundirritað áminningarbréf Margrétar Friðriksdóttur skólameistara, dagsett 20. október 1997, ásamt meðfylgjandi greinargerð. Að frátöldum dagsetningum eru skjöl þessi nánast orðrétt samhljóða áminningarbréfi því og greinargerð sem stefnanda var afhent rúmlega ári síðar og deilt er um í máli þessu. Á spássíu eldra áminningarbréfsins er handskrifað: ,,Þessi áminning var ekki afhent vegna vottorðs um veikindi dagsett 22/10 1997. M.F.”
6. Kvörtunarbréf nemendanna fimmtán frá 30. október 1998.
7. Bréf stefnanda og trúnaðarmanns dagsett 23. nóvember 1998.
8. Svarbréf skólameistara dagsett sama dag.
9. Minnisblað skólameistara, sem hún ritaði eftir fundinn 23. nóvember 1998.
Aðspurður fyrir dómi kannaðist stefnandi við að hafa setið fundi með skólastjórnendum í nóvember 1989, 19. júní 1991 og 15. október 1997, sbr. liðir 1., 2. og 3. að framan og bar ekki brigður á að bókanir eða minnisblöð skólameistara eftir þá fundi gæfu rétta mynd af þeim umkvörtunarefnum sem þar hefðu verið til umfjöllunar hverju sinni. Stefnandi hefði þó ekki verið sammála efni þeirra kvartana sem þar koma fram og kannaðist ekki við að sér hefði verið settur leiðsagnarkennari [Guðrún Helgadóttir] á skólaárinu 1996-1997. Slíkt hefði heldur ekki borið á góma á fundi 15. október 1997. Um niðurlag bókunar Margrétar skólameistara eftir þann fund sagði stefnandi að hún hefði sagt: ,,Ég er alvarlega að hugsa um að veita þér áminningu.” Stefnandi kvað umræddar bókanir hvorki hafa legið frammi á fundinum 23. nóvember 1998 né hafa verið ræddar eða yfirfarnar sem slíkar á þeim fundi. Hann hefði fyrst vitað um þær og átt kost á að kynna sér efni þeirra eftir að lögmaður hans hefði aflað gagnanna í árslok 1998. Hið sama gilti um uppkast að áminningarbréfi, sbr. lið 5. að framan. Varðandi læknisvottorð, sbr. lið 4., kvaðst stefnandi hafa verið frá vinnu vegna veikinda í rúmar tvær vikur frá og með 20. október 1997.
V.
Stefnandi byggir á því að hann sé ríkisstarfsmaður í þjónustu stefnda og að um réttindi hans og skyldur fari eftir lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hann bendir á að samkvæmt 44. gr. þeirra laga sé áminning á grundvelli 21. gr. laganna undanfari uppsagnar, ef hún eigi rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Ákvörðun um slíka áminningu sé stjórnvaldsákvörðun sem Margrét Friðriksdóttir skólameistari stefnda hafi verið bær til að taka. Samkvæmt 49. gr. sömu laga geti stefnandi ekki skotið þeirri ákvörðun til æðra stjórnvalds og því hafi verið óhjákvæmilegt að stefna menntastofnuninni til að fá áminninguna ógilta með dómi.
Stefnandi telur að áminning í skilningi 21. gr. starfsmannalaga verði að byggjast á traustum grunni og að sá sem hana veiti verði að fara í einu og öllu eftir ákvæðum laganna, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og öðrum viðurkenndum meginreglum stjórnsýsluréttar þegar hann tekur ákvörðun um slíka aðgerð. Stefnandi telur verulega galla á málsmeðferð skólameistara í þessu tilviki valda því að ógilda beri áminninguna, en byggir ógildingarkröfu sína einnig á því að ekkert tilefni hafi verið til að veita honum áminningu. Málsástæður og lagarök stefnanda eru sem hér segir:
Skólameistari hafi augljóslega metið kvörtunarbréf nemendanna fimmtán sem fullgilda sönnun þeirra ávirðinga sem þar séu bornar fram. Stefnanda hafi ekki verið kynnt efni bréfsins og honum gefinn kostur á að tjá sig um það með neinum fyrirvara áður en skólameistari hafi tekið ákvörðun um að veita honum greinda áminningu. Þá hafi stefnanda ekki verið gefið til kynna að önnur gögn lægju til grundvallar þeirri ákvörðun skólameistara. Í ljós hafi komið að ýmis önnur gögn, sum hver margra ára gömul, hafi verið lögð til grundvallar ákvörðuninni. Er að áliti stefnanda dagljóst að með þessari málsmeðferð hafi verið freklega brotið gegn andmælarétti, sem honum sé tryggður í 21. gr. starfsmannalaga og í 13. gr. stjórnsýslulaga.
Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína einnig á því að ákvörðun skólameistara hafi byggst á ófullnægjandi gögnum og að engin tilhlýðileg athugun hafi farið fram á þeim ávirðingum sem nemendurnir fimmtán hafi borið honum á brýn. Sú fátæklega athugun sem fram hafi farið í framhaldi af ábendingu stefnanda og trúnaðarmanns H.Í.K. 23. nóvember 1998 hafi verið framkvæmd eftir að ákvörðun hafi verið tekin um áminningu, en að svo miklu leyti sem niðurstöður þeirrar athugunar séu skiljanlegar gefi þær ekkert tilefni til aðgerðar eins og áminningar. Er ógildingarkrafan í þessu sambandi byggð á því að skólameistari hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga áður en tekin hafi verið ákvörðun um að veita stefnanda áminningu.
Stefnandi byggir ógildingarkröfuna enn fremur á því að ólögmætt hafi verið að veita honum áminningu í nóvember 1998 á grundvelli gagna og vangaveltna frá næsta skólaári á undan, þar sem þær hafi þá ekki verið taldar veita ástæðu til áminningar. Upplýst sé að skólameistari hafi á árinu 1997 velt því alvarlega fyrir sér að veita stefnanda áminningu og sett upp drög að greinargerð með áminningarbréfi, en ekki látið verða af áminningu. Þau gögn sem þá hafi legið á borði skólameistara séu nú notuð sem áminningargrundvöllur. Þetta telur stefnandi ólögmæta stjórnsýsluhætti.
Loks byggir stefnandi ógildingarkröfu sína á því að áminning sé miklu harkalegri aðgerð gagnvart honum en ástæða hafi borið til í þessu tilviki. Skólameistari hafi því farið offari gagnvart stefnanda og þannig brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.
Auk framangreindra lagaraka vísaði lögmaður stefnanda í málflutningsræðu sinni fyrir dómi til 14., 15. og 18. gr. stjórnsýslulaga framangreindum málsástæðum til stuðnings og rökstuddi kröfu stefnanda um málskostnað með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
VI.
Af hálfu stefnda er á því byggt að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni ranglega byggður á því að ákvörðun skólameistara um að veita honum áminningu hafi verið tekin 23. nóvember 1998. Þessi ranga staðhæfing sé sem rauður þráður í öllum málatilbúnaði stefnanda og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, enda sé krafa hans um ógildingu á áminningu, sem veitt hafi verið 27. nóvember 1998, við þessar aðstæður rökstudd á algerlega röngum grundvelli. Við munnlegan flutning málsins lagði lögmaður stefnda þunga áherslu á þessa málsástæðu og taldi jafnvel rök fyrir frávísun málsins frá dómi án kröfu á grundvelli 80. gr., sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá mótmælti lögmaðurinn sem of seint fram komnum málsástæðum lögmanns stefnanda sem styðjist við 14., 15. og 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda finndi þeirra hvergi stað í umfjöllun um málsástæður í stefnu.
Auk framangreindra málsástæðna byggir stefndi á því að andmælareglu 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996 og 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið vendilega gætt. Stefnanda hafi verið gerð ítarlega grein fyrir því á fundi 23. nóvember 1998 að til stæði að veita honum áminningu í skilningi starfsmannalaga vegna þeirra ávirðinga sem getið sé um í kvörtunarbréfi nemendanna fimmtán. Bréfið, sem verið hafi hið sérstaka tilefni áminningar, hafi verið lesið upp og rætt lið fyrir lið. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um öll efnisatriði fram kominna ávirðinga og hafi hann fært fram munnlegar varnir á fundinum og óskað eftir því skriflega að fundi loknum að tiltekin atriði yrðu könnuð nánar. Þau atriði hafi verið rannsökuð gaumgæfilega og stefnanda verið svarað samdægurs. Athugasemdir hans hafi þó ekki verið þess efnis að ástæða þætti til að hverfa frá fyrirhugaðri áminningu. Engu að síður hafi mál hans verið rannsakað og ítarlega upplýst samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Áminningin frá 27. nóvember 1998 byggði þannig á traustum grunni og var að áliti stefnda rétt og skylt að veita hana á grundvelli 21. gr. starfsmannalaga, þar sem stefnandi hefði sýnt af sér óvandvirkni og ófullnægjandi árangur í starfi.
Af hálfu stefnda er því eindregið mótmælt að ólögmætt hafi verið að veita stefnanda áminningu á grundvelli gagna frá árinu áður. Stefnanda hafi margoft á undangengnum árum, meðal annars á fundum í október 1997 og 23. nóvember 1998, verið gert ljóst að óánægja væri með störf hans. Grundvöllur áminningarinnar 27. nóvember 1998 hafi verið kvörtunarbréf nemendanna fimmtán, sem verið hafi í samræmi við fyrri kvartanir sama efnis. Um allt þetta og forsögu málsins hafi stefnandi fengið að tjá sig, sem hann og hafi gert.
Því er og mótmælt að áminningin sem veitt var hafi verið of harkaleg aðgerð. Samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996 hafi verið rétt og skylt að veita hana og það í raun verið eina úrræðið, svo sem komið var, til að knýja á um að stefnandi bætti ráð sitt. Skólameistari hafi í engu farið offari gagnvart stefnanda. Verði hér að líta til þess lögboðna hlutverks skólameistara að kappkosta vandaða kennslu í þágu nemenda skólans, sbr. einnig vilja löggjafans í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 70/1996, varðandi tilgang áminninga. Vísar stefndi einnig til laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og til markmiða skólans. Er því mótmælt að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin, enda hafi ekkert annað úrræði verið tiltækt en að veita stefnanda áminningu í von um að úrbætur yrðu á kennsluháttum hans. Kvartanir hafi stigmagnast ár frá ári og ekki orðið úrbætur, þótt oft hefði verið fundað með stefnanda og hann fengið leiðsagnarkennara sér til aðstoðar. Áminning hafi því verið gefin til að ná fram lögmætu markmiði og stefnanda gefinn kostur á að bæta ráð sitt.
Af framangreindum ástæðum telur stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda í málinu þar sem veitt áminning sé gild að efni og formi og að ekkert tilefni sé til að ógilda hana með dómi. Jafnframt beri að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar samkvæmt XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
VII.
Stefnandi og Margrét Friðriksdóttir skólameistari Menntaskólans í Kópavogi gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi. Er áður rakið það helsta úr framburði þeirra og vitnisburði Arnar Sigurbergssonar aðstoðarskólameistara og Þórdísar Magnúsdóttur trúnaðarmanns kennara innan H.Í.K. Því er við að bæta að Margréti og Erni bar saman um að kvartað hefði verið undan stefnanda og kennsluháttum hans á nánast hverri einustu önn og að lítið hefði borið á kvörtunum nemenda og foreldra undan öðrum kennurum skólans. Margrét hóf störf við skólann haustið 1982, hún varð aðstoðarskólameistari 1987 og hefur verið skólameistari frá áramótum 1993/1994. Örn hóf störf við skólann haustið 1988.
Einnig komu fyrir dóm sem vitni Jónína Ingunn Jónsdóttir Blandon fyrrum kennari í M.K., Ingibjörg Haraldsdóttir áfangastjóri hjá M.K., námsráðgjafarnir Magnea Guðrún Ingólfsdóttir og Guðrún (Sigríður) Helgadóttir og loks tólf af þeim fimmtán nemendum sem stóðu að baki kvörtunarbréfinu frá 30. október 1998. Er skemmst frá því að segja að nemendurnir staðfestu efni bréfsins og undirskrift sína, en flestir drógu þó úr einstökum fullyrðingum og alhæfingum sem þar koma fram. Telur dómurinn ekki efni til að rekja framburð einstakra nemenda eða nafngreina þá hér, en aðeins einn þeirra hefur lokið námi við skólann. Þó skal nefnt að átta af nemendunum tólf sem báru vitni náðu þýskuáfanga 302 hjá stefnanda. Verður nú rakið það helsta úr framburði annarra vitna sem stefndi leiddi til að sýna fram á að áminningin frá 27. nóvember 1998 hefði verið byggð á málefnalegum ástæðum.
Vitnið Jónína Ingunn Jónsdóttir Blandon bar að hún hefði verið tungumálakennari við menntaskólann í 32 ár og tæki enn nemendur heim í aukatíma. Hún kvað nemendur stefnanda hafa leitað til sín í fjöldamörg ár. Þau væru kunnáttulítil í þýsku og væru stundum afar sár út í stefnanda. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið marga nemendur frá öðrum þýskukennurum við skólann. Hún kvaðst stundum hafa kennt nemendum endurgjaldslaust, en í öðrum tilvikum hefði skólinn greitt fyrir aukakennsluna.
Ingibjörg Haraldsdóttir kvaðst hafa kennt í menntaskólanum frá árinu 1981 og hafa verið áfangastjóri frá 1994. Vitnið bar að frá þeim tíma (1994) hefði hún tekið við kvörtunum frá nemendum stefnanda á nánast hverri önn, einkum frá stúlkum sem hefðu kvartað undan óbilgirni stefnanda, því að hann vildi ekki aðstoða í kennslustundum og að hann niðurlægði þær í tímum. Jafnframt hefði talsvert borið á því að nemendur segðu sig úr þýskuáföngum hjá stefnanda vegna kennsluhátta hans. Þeir nemendur hefðu ýmist beðið um annan kennara eða óskað eftir að taka viðkomandi áfanga í öðrum skóla, en slíkt sé mögulegt í skólum er byggja á áfangakerfi, svo framarlega sem nemendur séu reiðubúnir að greiða skólagjöld í öðrum skóla.
Magnea Guðrún Ingólfsdóttir kvaðst hafa verið námsráðgjafi við menntaskólann frá hausti 1992. Vitnið bar að frá þeim tíma, vetrinum 1992, hefðu borist kvartanir frá nemendum stefnanda á hverri einustu önn. Á sama tímabili hefði aðeins einstaka sinnum verið kvartað undan öðrum kennurum skólans. Kvartanir á hendur stefnanda hefðu einkum lotið að því að hann væri ókurteis, niðurlægði nemendur í kennslustundum og væri ósanngjarn er kæmi að viðvistarskráningu. Vitnið kvað jafnt nemendur frá stefnanda sem öðrum kennurum hafa sótt aukatíma utan skólans.
Guðrún Helgadóttir bar að hún hefði verið stefnanda innan handar í nokkur skipti varðandi ákveðin vandamál í kennslu veturinn 1996-1997 og hefði það tengst störfum hennar þann vetur sem umsjónarkennari nýnema við skólann. Hún kvaðst hafa óskað eftir því við skólameistara að fá að hjálpa stefnanda og hefði hún síðan þá aðstoðað aðra kennara með sama hætti. Vitnið kvað hugtakið ,,leiðsagnarkennari” ekki eiga við um aðstoð sína við stefnanda. Sú hugtakanotkun væri frá skólameistara komin.
VIII.
Samkvæmt lögum nr. 80/1996 um framhaldsskóla ber skólameistara að stjórna daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæta þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hlutverk framhaldsskóla er samkvæmt lögunum að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir störf í atvinnulífinu og frekara nám. Framhaldsskólinn skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Á þessu ber skólameistari framhaldsskóla ábyrgð sem forstöðumaður stofnunar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en um skyldur hans er nánar mælt fyrir um í reglugerð nr. 371/1998 um starfslið framhaldsskóla. Segir og þar í 5. gr. að skólameistari ráði aðstoðarskólameistara og sé hann staðgengill skólameistara og vinni með honum við daglega stjórn skólans og rekstur.
Samkvæmt auglýsingu nr. 453/1997 var Margréti Friðriksdóttur sett erindisbréf skólameistara Menntaskólans í Kópavogi, stefnda í máli þessu, frá 1. júlí 1997 með vísan til 38. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996.
Markmiðum þeim sem að framan er lýst verður því aðeins náð í framhaldsskóla að gerðar séu kröfur til starfsliðs skólans, þar á meðal kennara, um að rækja hver sitt starf með alúð og samviskusemi í hvívetna og þannig að gætt sé kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi. Jafnframt verður að gera þær kröfur til starfsmanna að þeir geti unnið saman að umræddum markmiðum. Fer um skyldur framhaldsskólakennara í þessu sambandi eftir ákvæðum IV. kafla starfsmannalaga. Segir þar í 21. gr. að hafi starfsmaður sýnt í starfi sínu óvandvirkni, hafi hann ekki náð fullnægjandi árangri í starfi eða hann brotið gegn skyldum sínum með öðrum þeim hætti sem þar er lýst skuli forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skuli þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.
Áminning samkvæmt 21. gr. starfsmannalaganna er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og fer um hana eftir almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar auk þeirra málsmeðferðarreglna sem fram koma í lögunum, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga og bein fyrirmæli 21. gr. starfsmannalaga ber að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og einstaka efnisþætti hennar, ef það er unnt. Að öðrum kosti getur starfsmaður ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna. Er einkum brýnt að starfsmanni sé kynnt með óyggjandi hætti að fyrirhuguð stjórnvaldsákvörðun sé áminning í skilningi starfsmannalaga, enda getur hún verið undanfari brottvikningar úr starfi, sbr. 44. gr. laganna.
Andmælarétturinn er þó ekki skilyrðislaus. Í ákveðnum tilfellum verður talið að óskylt sé að gefa starfsmanni kost á að tjá sig, til dæmis ef öll gögn og upplýsingar liggja fyrir í máli eða ef afstaða starfsmanns liggur þegar fyrir. Í vafatilfellum ber þó að gefa starfsmanni kost á að tjá sig, enda er meginreglan sú að andmælaréttar skuli gætt. Er þetta sérstaklega áréttað í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til 21. gr. starfsmannalaga á sínum tíma og styðst jafnframt við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga.
Ágreiningslaust er í því máli, sem hér er til umfjöllunar, að aðstoðarskólameistari stefnda tók hinn 13. nóvember 1998 við bréfi fimmtán nemenda stefnanda í þýskuáfanga 302, þar sem kvartað var í sex liðum undan kennsluháttum stefnanda og ósæmilegri framkomu í garð nemenda og jafnframt gefið í skyn að umkvörtunarefnin væru mun fleiri. Upplýst er að Margrét Friðriksdóttir skólameistari stefnda fékk umrætt bréf í hendur fimmtudaginn 19. nóvember og að hún boðaði strax daginn eftir Þórdísi Magnúsdóttur trúnaðarmann H.Í.K. til fundar um efni bréfsins á mánudegi 23. nóvember. Engin tilraun var gerð til að boða stefnanda á fundinn fyrr en á mánudegi. Fundarboðun þann dag var munnleg. Ósannað er að stefnanda hafi verið tilkynnt fyrirfram hvert tilefni fundarins væri. Er meðferð málsins að því leyti sem nú hefur verið rakið andstæð 14. gr. stjórnsýslulaga.
Því er ekki haldið fram í málinu að stefnanda hafi verið kynnt fyrirfram að til stæði að veita honum áminningu á fundinum 23. nóvember og hverjar ástæður gætu legið til áminningar.
Af gögnum málsins verður ekki séð að rannsókn hafi farið fram á þessu stigi málsmeðferðar skólameistara að öðru leyti en því að svo virðist sem hún hafi viðað að sér ýmsum gögnum sem til voru í skólanum og vörðuðu afgreiðslu skólastjórnenda á eldri kvörtunarmálum vegna stefnanda, allt frá árinu 1989. Gögn þessi eru talin upp í liðum 1., 2., 3. og 5. í kafla IV að framan. Vísast til þess sem þar segir um efni þeirra. Upplýsingar sem þar koma fram lúta sumar hverjar að sömu atriðum og talin eru upp í bréfi nemendanna fimmtán, en í margumræddu kvörtunarbréfi er þó ekki fundið að mati stefnanda á verkefnum og prófum nemenda og ekki getið um úrsagnir nemenda úr þýskuáföngum vegna framkomu og kennsluhátta stefnanda.
Skólameistari las umrætt kvörtunarbréf upphátt á fundinum 23. nóvember og gaf stefnanda kost á að tjá sig um einstaka liði þess á fundinum. Er óumdeilt að hann hafi verið ósáttur við gagnrýni nemendanna á kennsluhætti hans og að hann hafi talið ávirðingar í bréfinu vera rangar og ósannar. Þrátt fyrir þá afstöðu stefnanda voru ekki lögð fyrir hann önnur gögn sem skólameistari hafði undir höndum og lauk fundinum án þess að stefnanda væri gerð grein fyrir að önnur gögn en bréfið gætu orðið grundvöllur yfirvofandi áminningar. Ber að líta á bréf það sem stefnandi og trúnaðarmaður rituðu eftir fundinn í þessu ljósi, en þar kemur glöggt fram að óskað var eftir að ákveðin atriði yrðu skoðuð ,,vegna bréfs nemenda” eins og orðrétt segir í fyrrnefnda bréfinu.
Fundargerð var ekki rituð á fundinum 23. nóvember. Hefði þó verið full ástæða til, eins og máli þessu er farið, einkum í ljósi viðbragða stefnanda. Í minnispunktum sem skólameistari ritaði eftir fundinn er þess ekki getið að stefnanda hafi verið kynnt að til stæði að veita honum áminningu í skilningi 21. gr. starfsmannalaga og hverjar nánari ástæður væru fyrir hendi að mati skólameistara sem féllu undir efnislýsingu téðrar lagagreinar. Er ósannað og reyndar ósennilegt með hliðsjón af framburði Margrétar Friðriksdóttur og vitnisburði Arnar Sigurbergssonar aðstoðarskólameistara og Þórdísar Magnúsdóttur trúnaðarmanns, sem sátu fundinn, að ákvæði starfsmannalaga hafi verið rædd á þeim fundi. Allan vafa þar að lútandi, sem og vafa um andmæli stefnanda og efni áminningar verður að skýra stefnanda í hag, enda stóð það stefnda nær að tryggja sér sönnun um þessi atriði, til dæmis með ritun fundargerðar. Telur dómurinn að málsmeðferð skólameistara að þessu leyti hafi farið í bága við góða stjórnsýsluhætti og brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.
Stefnandi fékk ekki afhent afrit af kvörtunarbréfi nemendanna fimmtán, en samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga gat hann fengið í hendur afrit eða ljósrit af því skjali hefði hann óskað þess. Jafnframt átti hann rétt á því að fá að kynna sér skjöl og önnur gögn er vörðuðu málið og tjá sig um efni máls og fram komnar upplýsingar, áður en skólameistari tæki ákvörðun um hvort veita bæri honum skriflega áminningu. Var þetta sérstaklega brýnt þegar litið er til þess, að upplýsingar í þeim gögnum sem haldið var frá stefnanda voru honum í óhag, að þær voru umdeildar að hans mati og að skólameistari byggði á þeim við úrlausn sína í málinu. Hafa verður í huga í þessu sambandi, að ekki hefur þýðingu þótt talið yrði að stefnanda hafi mátt vera ljóst að umræddar upplýsingar hefðu verið til staðar í skjalasafni skólans, enda var honum ókunnugt um að gögnin væru komin fram í nýju máls hans og að til greina kæmi að byggt yrði á þeim í því máli.
Eins og áður er rakið óskuðu stefnandi og trúnaðarmaður H.Í.K. eftir því við skólameistara, strax að loknum fundi 23. nóvember, að rannsakaðir yrðu tilteknir þættir vegna kvörtunarbréfs nemendanna fimmtán. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær stefnandi fékk niðurstöður skólameistara í hendur, en því er ekki mótmælt að svarbréf hafi borist daginn eftir. Telja verður að skólameistara hafi borið, í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, meginreglu andmælaréttar og góða stjórnsýsluhætti, að tilkynna stefnanda formlega um hin nýju gögn og veita honum skamman frest til að kynna sér þau og tjá sig um niðurstöðurnar áður en ákvörðun væri tekin um skriflega áminningu, en svo fór að skólameistari byggði áminningu meðal annars á þeim niðurstöðum.
Samkvæmt framansögðu voru verulegir annmarkar á málsmeðferð skólameistara stefnda. Vegur þar þyngst að stefnanda var ekki gefinn kostur á að kynna sér þýðingarmikil gögn, sem stefndi byggði á, og tjá sig um þau áður en mál hans var til lykta leitt á stjórnsýslustigi. Var þannig brotinn á stefnanda lögvarinn andmælaréttur samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Áminning sú sem honum var veitt 27. nóvember 1998 fullnægði því ekki formskilyrðum 21. gr. starfsmannalaga og ber að ógilda hana þegar af þeim sökum.
Eftir þessum málsúrslitum ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir með hliðsjón af eðli og umfangi máls hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun lögmanns síns.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Felld er úr gildi áminning, sem skólameistari stefnda, Menntaskólans í Kópavogi, veitti stefnanda, Allan Rettedal, með bréfi 27. nóvember 1998.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.