Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-52
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Orsakatengsl
- Matsgerð
- Yfirmatsgerð
- Sérfróður meðdómandi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 4. apríl 2024 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars 2024 í máli nr. 768/2022: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og B gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfur gagnaðila um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðenda vegna líkamstjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir þegar bifreið leyfisbeiðanda B, sem var vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., rann aftan á bifreið hennar í janúar 2017. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðili hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við áreksturinn. Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir og álitsgerð örorkunefndar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfur gagnaðila um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðenda. Landsréttur taldi gagnaðila hafa rennt nægilegum stoðum undir að hún hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við umferðarslysið og vísaði þar að mestu til forsendna héraðsdóms. Í héraðsdómi kom fram að tilteknir annmarkar væru á rökstuðningi yfirmatsgerðar og að forsendur og rökstuðningur í álitsgerð örorkunefndar, þó einkum í matsgerð dómkvaddra matsmanna, í mun betra samræmi við sjúkrasögu gagnaðila og þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir lágu. Þá þóttu upplýsingar um breytingar á starfsgetu gagnaðila eftir umferðarslysið styðja það að hún hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því í fyrsta lagi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda sé hann ekki í samræmi við gögn málsins auk þess sem hann gangi gegn fjölmörgum dómafordæmum Hæstaréttar um sönnunargildi yfirmats. Í öðru lagi byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði málið verulega hagsmuni þeirra þar sem vátryggingafélög greiði árlega verulegar fjárhæðir í bætur vegna svokallaðra lágorkuárekstra og óhætt sé að fullyrða að mikill fjöldi þeirra mála hafi afgerandi áhrif á iðgjöld lögbundinna ábyrgðartrygginga ökutækja. Í þriðja lagi hafi úrlausn málsins verulegt almennt gildi um mat á sönnunargildi yfirmatsgerða óháð matsandlagi. Þá hafi úrlausn málsins verulegt almennt gildi fyrir skaðabótamál þar sem reyni á sönnun orsakatengsla þegar krafist er bóta fyrir varanlegt líkamstjón vegna vægra árekstra. Mál af þessu tagi séu mjög algeng og mat á bótaskyldu í málaflokknum stór þáttur í daglegri starfsemi vátryggingafélaga. Því telja leyfisbeiðendur mikilvægt að Hæstiréttur Íslands taki málið fyrir og gefi skýrt fordæmi um þær lágmarkskröfur sem gera verði til sönnunar um orsakatengsl í málum af þessu tagi líkt og dómstólar í nágrannaríkjum Íslands hafi gert.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.