Hæstiréttur íslands

Mál nr. 575/2013


Lykilorð

  • Ökutæki
  • Búfé
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. desember 2013.

Nr. 575/2013.

Sæmundur Jónsson

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Símoni Bergi Sigurgeirssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Skaðabætur. Ökutæki. Búfé.

S krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda SJ vegna fjártjóns sem hann varð fyrir er hross, sem SJ var umsjónarmaður að, hlupu í veg fyrir bifreið S á Suðurlandsvegi. Óumdeilt var að lausaganga búfjár var óheimil við Suðurlandsveg á grundvelli 50. gr. vegalaga nr. 80/2007 og var girt beggja vegna vegarins. Komust hrossin upp á veginn yfir ristarhlið við heimreið að bæ SJ, en nokkur snjór var er atvik gerðust. Talið var að þar sem SJ hefði ekki sinnt þeirri skyldu sinni að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hestarnir ættu greiða leið af landi hans upp á fjölfarinn þjóðveg þar sem í gildi var bann við lausagöngu búfjár mætti rekja atburðinn til gáleysis hans, en honum hefði verið ljóst, kvöldið fyrir slysið, að ristarhliðið þjónaði ekki tilgangi sínum sem gripaheld vörslulína samkvæmt 13. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. Á hinn bóginn var ekki fallist á að S hefði sýnt af sér gáleysi við aksturinn umrætt sinn. Var því viðurkennd skaðabótaskylda SJ, enda var talið að S hefði fært nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna saknæmrar háttsemi þess fyrrnefnda.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sæmundur Jónsson, greiði stefnda, Símoni Bergi Sigurgeirssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. júní 2013.

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. maí sl., er höfðað af Símoni Bergi Sigurgeirssyni, kt. [...], til heimilis að Hlíð, 861 Hvolsvelli, með stefnu birtri þann 8. febrúar 2013, gegn Sæmundi Jónssyni, kt. [...], til heimilis að Reiðholti, Rangárþingi ytra.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna munatjóns þess sem varð í kjölfar umferðarslyss sem stefnandi varð fyrir þann 5. janúar 2012 þegar hross, sem stefndi var umsjónarmaður að, hlupu í veg fyrir bíl stefnanda.

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem lagt verði fram komi til aðalmeðferðar málsins.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt  síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.

Málavextir.

             Atvik í máli þessu eru þau að hrossahópur á vegum stefnda var við þjóðveg nr. 1, Suðurlandsveg skammt austan við Landvegamót í Rangárþingi ytra snemma morguns þann 5. janúar 2012. Fyrir liggur að Suðurlandsvegur er svokallaður stofnvegur og að Vegagerðin hafði girt af land meðfram veginum, m.a. land stefnda, Reiðholt, og sett upp ristarhlið að heimreið að bæ hans sunnan Suðurlandsvegar. Ágreiningslaust er að hrossin hafi komist upp á Suðurlandsveg með því að fara yfir áðurnefnt ristarhlið, sem var fullt af snjó, með þeim afleiðingum að eitt hrossanna lenti á bifreið stefnanda sem ekið var austur Suðurlandsveg. Að öðru leyti greinir aðila á um atvik máls.

             Stefnandi lýsir atvikum þannig í stefnu að bifreiðinni, sem faðir stefnanda ók í umrætt sinn, hafi verið ekið austur Suðurlandsveg með 70-80 km hraða á klukkustund þegar ökumaður hafi orðið var við hrossahóp, líklega beggja vegna vegar. Þegar hann hafi átt um tvo metra ófarna að hópnum hafi hross skyndilega, og án þess að möguleiki væri fyrir ökumann að bregðast við, farið inn á veginn og í veg fyrir bifreið stefnanda sem á þeim tíma hafi verið ekið á 65 km hraða á klukkustund. Hrossið hafi hlaupið utan í bifreiðina og kastast upp á vélarhlíf bifreiðarinnar. Þá kunni annað hross að hafa lent á bifreið stefnanda áður en ökumaðurinn hafi náð að stöðva hana. Við þetta hafi bifreið stefnanda skemmst og vísar stefnandi í því sambandi til skoðunar sem fram hafi farið á bifreiðinni á löggiltri tjónaskoðunarstöð. Hrossahópurinn hafi verið frá Reiðholti og hafi umsjónarmaður þeirra komið á vettvang og fjarlægt hrossin af veginum.

             Stefndi, sem mótmælir lýsingu stefnanda á aðdraganda slyssins í greinargerð, segir að kvöldið fyrir slysið hafi ekki snjóað. Ristarhliðið hafi þá ekki verið fullt af snjó, engar horfur hafi verið á snjókomu um nóttina og því ekki fyrirsjáanleg hætta á að hliðið myndi fyllast. Hins vegar hafi vindur snúist um nóttina og m.a. skafið í hliðið og hrossin því komist yfir ristarhliðið og upp á þjóðveg. Kaðall hafi legið við ristarhliðið en væntanlega hafi sá sem síðastur fór um heimreiðina kvöldið fyrir slysið metið aðstæður svo að ekki væri þörf á að strengja kaðalinn fyrir hliðið. 

Í greinargerð stefnda segir að hann hafi komið akandi á vettvang á leið sinni til vinnu og hitt starfsmenn Landgræðslunnar sem tilkynntu honum um hrossin. Þrátt fyrir að á þessum tíma hafi tvær bifreiðar, bifreið stefnda og bifreið frá Landgræðslunni, verið kyrrstæðar með kveikt ljós, þar af önnur með blikkandi ljós, við heimreiðina að bæ stefnda, og vegfarendum um Suðurlandsveg því mátt vera ljóst að eitthvað væri um að vera, hafi bifreið stefnanda verið ekið á eitt hrossanna í umsjá stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

         Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að staðfest sé að hann hafi orðið fyrir munatjóni þann 5. janúar 2012 og að á því tjóni beri stefndi ábyrgð. Dómkrafan sé byggð á sakarreglunni og beri stefndi fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á eignatjóni sem stefnandi varð fyrir í umrætt sinn við það að hrossahópur slapp úr gæslu hjá stefnda, úr girðingu og yfir ristarhlið, og hljóp í veg fyrir bifreið stefnanda.

         Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 50. gr. vegalaga nr. 80/2007 sé lausaganga búfjár bönnuð á stofnvegum þar sem girt sé báðum megin vega eins og hagað hafi til á Suðurlandsvegi í umrætt sinn. Þá skuli einnig á stofnvegum lokað fyrir ágang búfjár, til dæmis með ristarhliði. Í 47. gr. vegalaga segir að óheimilt sé að raska umferðaröryggi, t.d. með lausagöngu búfjár. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum og með því fellt á sig skaðabótaskyldu í máli þessu.

         Þá vísar stefnandi til þess að lögregluskýrslur, sem liggi fyrir í málinu, beri með sér að sök liggi hjá stefnda. Í fyrsta lagi hafi stefndi vitað af hrossunum á veginum og hefði hann að ósekju átt að bregðast við í þeim tilgangi að tryggja umferðaröryggi sem hefði verið létt verk fyrir tvo menn. Í öðru lagi hafi stefndi mátt vita að ristarhlið á heimreið að bæ hans væri fullt af snjó þannig að skepnur hefðu getað komist óhindrað yfir það. Þannig þjóni ristarhliðið ekki tilgangi sínum og því ljóst að stefnda hefði verið það í lófa lagið að bregðast við því í tæka tíð. Í þriðja lagi hafi kaðalspotti sá sem stefndi notaði til að strengja yfir heimreiðina ekki verið nægileg vörn gegn ágangi búfjár á stofnveg, sérlega þar sem stefndi hafi vanrækt að strengja kaðalinn yfir hliðið. Um þetta hafi stefnda verið kunnugt og því hafi ristarhliðið í raun verið opið fyrir hrossin. Hafi stefndi notað umræddan kaðal hafi hann verið lauslega festur og því engin hindrun fyrir hrossin að komast leiðar sinnar.

         Um umfang tjóns vísar stefnandi til CABAS matsgerðar frá Bílaverkstæði Jóhanns á bifreið sinni YX-532. Vísar stefnandi til þess að viðkomandi mat sé nægjanleg heimild um að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem hann leiti viðurkenningardóms um.

         Stefndi vísar til tveggja dóma sem séu fordæmisgefandi í máli þessu. Annars vegar til óáfrýjaðs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3400/1998 frá 6. maí 1999, og hins vegar til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 482/2006 frá 31. maí 2007.

Um lagarök vísar stefnandi til sakarreglunnar og framangreindra ákvæða vegalaga nr. 80/2007, laga um búfjárhald nr. 103/2002 og reglugerðar um vörslu búfjár nr. 59/2000. Um viðurkenningarkröfuna er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðjist við 129. gr. og 130. gr. áðurnefndra laga. 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi hafnar því að hann beri skaðabótaábyrgð á ætluðu munatjóni stefnanda. Hið ætlaða tjón verði hvorki rakið til sakar stefnda sem umráðamanns hrossins né saknæms aðbúnaðar girðinga eða ristarhliðs á heimreið stefnda. Þá sé hér um að ræða svonefnt force majeure tilvik sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Það sé stefnanda að sanna að tjón hafi orðið sem og umfang þess. Stefnanda hafi ekki tekist að sanna að stefndi beri ábyrgð á orsök tjónsins og þá sé umfang tjónsins ósannað.

Stefndi rökstyður sýknukröfu sína með eftirfarandi hætti.

Í fyrsta lagi hafi stefnandi átt að beina kröfum sínum að Vegagerðinni en ekki stefnda.  Vegagerðin sé veghaldari Suðurlandsvegar, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. vegalaga nr. 80/2007, og hafi  sem slíkur, samkvæmt 50. gr. vegalaga, girt báðum megin við Suðurlandsveg og sett upp ristarhlið á heimreið að bæ stefnda. Samkvæmt 56. gr. laga  nr. 80/2007, beri veghaldari ábyrgð á tjóni sem hljótist af slysi á vegum þegar tjón megi rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað sé að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni. Með vísan til þessa geti sá veikleiki sem við ákveðnar aðstæður fylgi búnaði eins og ristarhliði ekki leitt til þess að ábyrgð verði felld á eigendur eða umsjónarmenn búfjár vegna tjóns á ökutækjum sem um viðkomandi veg fara, enda standi það veghaldara næst að grípa til ráðstafana sem tryggi vörslugildi búnaðar veghaldara. Því beri að sýkna stefnda í máli þessu vegna aðildarskorts.

Í öðru lagi styður stefndi sýknukröfu sína með vísan til þess að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á meintu munatjóni stefnanda enda verði það hvorki rakið til sakar stefnda sem umráðamanns hrossins né saknæms aðbúnaðar girðinga eða ristarhliðs á heimreið stefnda. Umrætt ristarhlið sé hluti af hinu opinbera vegakerfi sem Vegagerðin sem veghaldari beri ábyrgð á. Þá sé ristarhlið lögum samkvæmt fullnægjandi hliðbúnaður og því Vegargerðarinnar að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta úr annmörkum á þeim búnaði. Þær aðstæður geti komið upp að hross komist yfir ristarhlið, t.d. vegna snjóalaga. Í stefnu sé á því byggt að ristarhliðinu hafi verið lokað með kaðli vegna snjós sem safnast hafi í ristarhliðið en stefndi sé ekki viss um hvort kaðallinn hafi verið strengdur yfir hliðið í umrætt sinn. Stefndi loki hliðinu með kaðli ef hann meti aðstæður slíkar að þess sé þörf og það sama eigi líklega við um aðra sem fari um veginn. Kvöldið fyrir óhappið hafi hvorki snjóað né verið líkur á snjókomu. Hins vegar hafi vindátt snúist um nóttina og virðist sem m.a. hafi skafið í ristarhliðið, en á því geti stefndi ekki borið ábyrgð. Það að stefndi hafi reynt að gæta þess að hross í hans vörslu færu ekki yfir ristarhliðið við sérstakar veðuraðstæður geti ekki fellt á hann ábyrgð á tjóni vegfarenda sem fara um þjóðveginn, enda uppfylli ristarhliðið að öllu leyti kröfur vegalaga og á því beri Vegagerðin, sem veghaldari, ábyrgð.

Stefndi vísar til þess að búnaður ristarhliðsins hafi verið í samræmi við fyrirmæli vegalaga og ljóst sé að óviðráðanleg ytri atvik hafi orðið þess valdandi að hrossin komust yfir ristarhliðið og upp á þjóðveg, en á því geti stefndi ekki borið ábyrgð. Þá verði að hafa í huga þegar sakarábyrgð stefnda sé metin að hann hafi hlutast til um að hrossin yrðu fjarlægð af veginum jafnskjótt og honum var kunnugt um staðsetningu þeirra. Með vísan til þess verði viðbrögð hans því ekki metin honum til sakar.

Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til laga um búfjárhald nr. 103/2002 og reglugerðar um vörslu búfjár nr. 59/2000, enda rökstyðji stefnandi ekki nánar framangreinda tilvísun eða grundvöll ábyrgðar stefnda samkvæmt þeim. Þá vekur stefndi athygli á að sveitarstjórn Rangárþings ytra hafi ekki lagt bann við lausagöngu búfjár með sérstakri samþykkt, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 103/2002.

Í þriðja lagi hafi ökumaður bifreiðar stefnanda ekki sýnt nægjanlega varkárni við akstur í umrætt sinn. Stefnanda, sem beri ábyrgð á ökutækinu, beri að bæta tjón sem það valdi, sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ökumönnum beri að sýna nauðsynlega varkárni við akstur miðað við aðstæður samkvæmt hinni almennu varúðarreglu umferðarlaga. Ökumaður bifreiðarinnar YX-532, faðir stefnanda Sigurgeir Líndal Ingólfsson, sé þaulkunnugur búfjárhaldi og staðháttum til sveita, þ.á m. þeim vanda sem geti fylgt notkun ristarhliða við ákveðnar veðuraðstæður. Ökumaðurinn þekki vel aðstæður við Suðurlandsveg bæði vegna búsetu og tíðra ferða um veginn. Honum, sem ökumanni, hafi því borið skylda til að sýna varkárni þegar hann ók um Suðurlandsveg í umrætt sinn þar sem honum hafi mátt vera ljóst, miðað við veðuraðstæður og snjóalög, að það kynni að vera hætta á því að ristarhlið á aðliggjandi vegum að Suðurlandsvegi veittu ekki fullnægjandi vörn gegn ágangi búfjár.

Stefndi vísar til þess sem haft sé eftir ökumanninum Sigurgeiri í lögregluskýrslu um að „hrossahópur hafi verið á vegarkanti beggja vegna vegar og hafi hesturinn hlaupið inn á veginn þegar ökumaður hafi átt ca. tvo metra ófarna að þeim“. Af þessu sé ljóst að ökumaður hafi gert sér grein fyrir því að laus hross voru við veginn og því hafi hvílt á honum sérstök varúðarskylda. Þessu breyti síðari athugasemdir ökumannsins hjá lögreglu sem fram komi á dskj. nr. 6 engu um. Þá mótmælir stefndi frásögn ökumannsins um ökuhraða bifreiðarinnar í umrætt sinn. Af aðstæðum á vettvangi hafi mátt ráða að frá þeim stað þar sem bifreiðin lenti á hrossinu og þar til hún stöðvaðist voru um 200 til 250 metrar. Það sé því ekki trúverðugt, þrátt fyrir að hálka hafi verið á veginum, að bifreiðinni hafi verið ekið á 65 km hraða í umrætt sinn enda bendi ummerki til þess að ökumaður hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, sbr. 1. mgr. og l-lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndi bendir á að menn sem fyrstir urðu varir við hrossin og létu stefnda vita af þeim hafi komist klakklaust í gegnum hrossahópinn og því væntanlega ekið á eðlilegum hraða miðað við aðstæður. Þessir menn geti borið um ökuhraða bifreiðar stefnanda, áður en óhappið varð, enda bifreið stefnanda auðþekkjanleg vegna blárra framljósa. Ökumaður bifreiðar stefnanda hafi ekki sýnt af sér sambærilega og nægilega gætni við aksturinn miðað við aðstæður, en hálka hafi verið á veginum. Á því beri stefnandi sjálfur ábyrgð sem skráður eigandi bifreiðarinnar YX-532 og því verði hann alfarið að bera sitt tjón sjálfur.

Í fjórða lagi mótmælir stefndi því að dómur Hæstaréttar frá 31. maí 2007 í máli nr. 482/2006, sem stefnandi vísar til, eigi við miðað við aðstæður í máli þessu enda hafi hlið það sem hross í framangreindum dómi fór um ekki uppfyllt kröfur vegalaga um ristarhlið/hliðgrind, en þar hafi verið um að ræða hlið sem ábúandi jarðarinnar hafi sett upp á túni sínu og því þjónað hagsmunum hans.

Í fimmta lagi styður stefndi sýknukröfu sína því að umfang meints tjóns stefnanda sé ósannað. Stefnandi vísi eingöngu til svonefndrar CABAS matsgerðar en henni mótmæli stefndi að öllu leyti. Stefndi hafi aldrei verið boðaður til matsfundar eða gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við matið. Það hafi verið stefnanda að dómkveða matsmenn til að meta fjárhæð hins meinta tjóns, teldi hann slíkt tjón af einhverjum ástæðum hafa verið fyrir hendi. Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert og á því verði hann að bera alla ábyrgð og áhættu. Vísar stefndi til þess að framangreindur annmarki á málatilbúnaði stefnanda kunni að leiða til frávísunar málsins án kröfu, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda fullnægi hvorki stefna né málatilbúnaður stefnanda áskilnaði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 við þingfestingu málsins. Vísar stefndi í þessu sambandi einnig til dóma Hæstaréttar frá 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009, frá 15. júní 2010 í máli nr. 307/2010 og 30. janúar 2012 í máli nr. 27/2012. 

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar, ákvæða vegalaga nr. 80/2007, einkum 5. gr., 50. gr., 51. gr. og 56. gr. laganna, ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, m.a. 36. og 90. gr. og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr., 80. gr., 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðjist 130. gr. áðurnefndra laga.

Niðurstaða.

            Við upphaf aðalmeðferðar var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar við heimreið að bæ stefnda, Reiðholti í Rangárþingi ytra, sem er skammt austan við Landvegamót. M.a. var ristarhlið á heimreiðinni og girðingar meðfram Suðurlandsvegi skoðaðar. Einnig var ekið upp að bænum. Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefndi, Sigurgeir Líndal Ingólfsson ökumaður bifreiðar stefnanda, Þórarinn Jóhannsson bifvélavirki og Vigfús Ægir Vigfússon og Örn Ingi Ingvason starfsmenn Landgræðslu ríkisins.

            Óumdeilt er að snemma morguns þann 5. janúar 2012 fór hópur hrossa í umsjá stefnda yfir ristarhlið á heimreið við bæ stefnda og þaðan upp á þjóðveg nr. 1, Suðurlandsveg. Einnig er óumdeilt að umræddan morgun ók vitnið Sigurgeir Líndal Ingólfsson, faðir stefnanda, bifreið stefnanda austur Suðurlandsveg og lenti hross á bifreiðinni skammt austan við Landvegamót með þeim afleiðingum að hrossið drapst.           

            Þjóðvegur 1, Suðurlandsvegur, telst til svokallaðra stofnvega, sbr. a- lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samkvæmt 50. gr. vegalaga nr. 80/2007 er lausaganga búfjár bönnuð á stofnvegum og tengivegum þar sem girt er báðum megin vegar og lokað er fyrir ágangi búfjár, t.d. með ristarhliði. Þá er veghaldara heimilt að fjarlægja búfé af vegum þar sem þannig háttar til. Tilgangur með banni við lausagöngu búfjár, sem fyrst kom inn í vegalög nr. 45/1994, var að koma sem víðast á banni við lausagöngu búfjár á vegsvæðum fjölfarinna þjóðvega. Segir í athugasemdum við frumvarp sem varð að vegalögum nr. 45/1994, að ljóst þyki að erfitt yrði að framfylgja slíku banni á þjóðvegum, nema girt sé báðum megin vegar. Með 50. gr. vegalaga nr. 80/2007, voru gerðar tvær breytingar á banni við lausagöngu búfjár á stofn- og tengivegum. Annars vegar var lausagöngubann ótvírætt bundið við vegsvæði sem lokuð eru fyrir ágangi búfjár, t.d. með ristarhliði. Hins vegar var öðrum veghöldurum en Vegagerðinni veitt heimild til að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum.

            Ágreiningslaust er að girt var beggja vegna Suðurlandsvegar á umræddu svæði og einnig hafði veghaldari, Vegagerð ríkisins, sett upp ristarhlið á heimreið að bæ stefnda í þeim tilgangi að loka veginum fyrir ágangi búfjár frá landi stefnda. Liggur því fyrir að lausaganga búfjár var bönnuð á vegarkafla þeim þar sem slysið varð. 

            Stefndi, sem hafnar öllum kröfum stefnanda, krefst sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísar stefndi í því sambandi til bótaábyrgðar Vegagerðarinnar, sbr. 56. gr. vegalaga nr. 80/2007, og bendir á að fyrir liggi að girðingar og búnaður ristarhliðsins hafi verið í samræmi við lög og því sé ekki hægt að fella ábyrgð á veikleikum slíks búnaðar, t.d. við ákveðnar veðuraðstæður, á stefnda. Þessu hafnaði stefnandi í munnlegum málflutningi. 

            Veghald er skilgreint í 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 sem  forræði yfir vegi og vegsvæði, þ.m.t. vegagerð, þjónusta og viðhald vega. Samkvæmt 6. tölulið sömu greinar er veghald í höndum veghaldara, sem í máli þessu er Vegagerð ríkisins. Í 1. mgr. 51. gr. laganna er lögð sú skylda á veghaldara að girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland eða leggja ristarhlið ásamt grindarhliði telji hann það hentugra. Segir í 2. mgr. sömu greinar að veghaldara sé heimilt að girða meðfram vegum sínum, m.a. til að tryggja öryggi umferðar. Þá er í 52. gr. vegalaga kveðið á um framkvæmd viðhalds og kostnaðarskiptingu. Ljóst er af 1. mgr. umræddrar greinar að það er landeigandi sem annast skal viðhald girðinga með vegum í landi sínu, en viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Í framburði stefnda fyrir dómi kom fram að Vegagerðin hafi alfarið séð um viðhald á umræddu ristarhliði og liggur ekki annað fyrir af gögnum málsins en að ristarhliðið hafi uppfyllt kröfur 1. mgr. 51. gr. vegalaga nr. 80/2007. Í 56. gr. vegalaga er kveðið á um bótaábyrgð veghaldara. Samkvæmt greininni er veghaldari ábyrgur vegna slysa á vegi þegar tjón verði rakið til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni. Með vísan til þess sem að framan er rakið er ekki fallist á það með stefnda að veikleika í búnaði ristarhliðsins vegna ákveðinna veðuraðstæðna umræddan morgun megi rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið eins og það er skilgreint í vegalögum. Með vísan til þessa, laga um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002, reglugerðar um vörslu búfjár nr. 59/2000, sem kveður á um vörsluskyldu umráðamanna búfjár, sbr. og reglugerðar um girðinga nr. 748/2002, beinir stefnandi kröfu í máli þessu réttilega að stefnda sem vörslumanni hrossins.    

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar sem vörslumaður hrossins er lenti á bifreið hans í umrætt sinn. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið kunnugt um að ristarhliðið hafi verið fullt af snjó og því ekki þjónað tilgangi sínum. Stefndi hafi þrátt fyrir það ekki gripið til viðeigandi aðgerða með þeim afleiðingum að hestar hafi átt greiða leið af landi stefnda yfir ristarhliðið og upp á Suðurlandsveg. Stefndi beri því samkvæmt almennu sakarreglunni ábyrgð á tjóni því sem varð á bifreið stefnanda í umrætt sinn. Þessu hafnar stefndi, vísar til force majeure og þess að búnaður ristarhliðsins hafi verið fullnægjandi og í samræmi við fyrirmæli vegalaga. Þá hafi stefndi gripið til viðeigandi aðgerða um leið og honum varð ljóst að hestarnir höfðu farið upp á þjóðveg.  

            Í framburði stefnda fyrir dómi kom fram að umræddan morgun, og reyndar allan þann vetur, hafi 24-25 hross í hans umsjá verið í girtu hólfi skammt fyrir vestan íbúðarhúsið og heimreiðina að bænum og þar hafi stefndi gefið hestunum hey. Hlið á hólfinu hafi hins vegar verið opið til að hestarnir kæmust í vatn skammt austan við heimreiðina. Stefndi greindi frá því að hann hafi stundum notað kaðal, sem sjá mátti við ristarhliðið í vettvangsgöngunni, til að loka ristarhliðinu þegar snjóaði. Einnig kom fram hjá stefnda að eftir umrætt slys hafi hann haft hliðið á hestahófinu lokað og vatnað hrossunum þar. Stefndi lýsti ástandi ristarhliðsins kvöldið fyrir slysið fyrir dómi þannig að pípurnar í gólfi hliðsins hafi staðið upp úr en slétt hefði verið yfir enda hafi hann troðið snjónum niður á milli pípanna. Sérstaklega aðspurður sagði stefndi að kvöldið fyrir umræddan atburð hefðu hestar getað komist yfir ristarhliðið. Umræddan morgun þegar stefndi ók norður heimreiðina í átt að þjóðveginum hafi hann séð ummerki þess að hrossin hefðu farið úr hólfinu og upp á heimreiðina sem á þeim tíma hafi verið snjótraðir einar allt frá íbúðarhúsi stefnda að ristarhliðinu. Stefndi lýsti því að engar ristar hafi verið sýnilegar í gólfi hliðsins enda hafi 10-12 cm þykkt snjólag verið ofan á ristunum, þjappað niður eftir bílaumferð næturinnar, en skafið hafi um nóttina. Aðspurður um umferð bifreiða yfir ristarhliðið nóttina fyrir slysið  kom fram hjá stefnda að á bænum væru tvö íbúðarhús og búi dóttir stefnda og fjölskylda hennar í öðru húsinu og kunni þær að hafa farið um heimreiðina um nóttina. Vitnin Vigfús Ægir Vigfússon og Örn Ingi Ingvason, sem komu að slysstað og sáu um að reka hestahópinn inn á land stefnda, báru með svipuðum hætti um ástand ristarhliðsins umræddan morgun. 

            Með vísan til þess sem að framan er rakið er ljóst að stefnda var kunnugt um að hross þau sem hann hafði umsjón með áttu greiða leið úr framangreindu hólfi, upp að ristarhliðinu við Suðurlandsveg og þaðan upp á þjóðveginn. Þá var stefnda, kvöldið fyrir slysið, einnig ljóst að ristarhliðið þjónaði ekki tilgangi sínum sem gripaheld vörslulína, sbr. 13. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o. fl. Við þessar aðstæður bar stefnda sem vörslumanni hestanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hestarnir ættu greiða leið af landi hans upp á fjölfarinn þjóðveg þar sem í gildi var bann við lausagöngu búfjár samkvæmt vegalögum. Það gerði stefndi hins vegar ekki og verður því að leggja til grundvallar að för hestanna af landi hans upp á Suðurlandsveg umræddan morgun megi rekja til gáleysis hans. 

Kemur þá til skoðunar hvort slysið megi rekja til þess að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki sýnt nægjanlega varkárni við akstur í umrætt sinn eins og stefndi heldur fram en stefnandi hafnar.

Í frumskýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli er nokkuð ítarlega rakið það sem haft var eftir ökumanni um aðdraganda slyssins og slysið sjálft. Enginn uppdráttur eða myndir fylgja skýrslunni og liggja því ekki fyrir upplýsingar um áætlaða hemlunarvegalengd bifreiðarinnar, sem var að gerðinni Mitsubishi Pajero, eða hvar hrossið hafnaði eftir áreksturinn. Þá liggja ekki fyrir gögn um dekkjabúnað bifreiðarinnar að öðru leyti en því að í lögregluskýrslu er merkt við að bifreiðin hafi verið á heilsársdekkjum, sem vitnið Sigurgeir bar fyrir dómi að hafi verið mikroskorin og um 30% slitin. Í lögregluskýrslu er akstursskilyrðum þannig lýst að myrkur hafi verið, þurrt veður og yfirborð vegar óslétt olíumöl. Merkt er við að hálka hafi verið á veginum. Hámarkshraði á vegi hafi verið 90 km á klukkustund. Segir um tjón að það hafi verið mikið og sjáanlegt og merkt var við ákomur framan á bifreiðinni og á toppi. Einnig kemur fram að bifreiðin hafi verið óökufær. 

Vitnið Sigurgeir Líndal Ingólfsson kvaðst umræddan morgun hafa ekið frá Hveragerði austur Suðurlandsveg á 70-80 km hraða. Stjörnubjart hafi verið, mikið frost og ísing á veginum. Þegar hann hafi verið kominn upp úr Mjóasundi, vestan Landvegamóta, hafi hann séð vel yfir enda nokkur hæð þar í landinu. Á móts við Landvegamót hafi hann orðið var við bifreið sem ekið hafi verið 500-600 metrum fyrir framan hann. Af bremsuljósum bifreiðarinnar hafi mátt sjá að ökumaður hafi tiplað á bremsunni en vitnið kvaðst ekki hafa séð önnur blikkandi ljós á bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa hægt ferð bifreiðarinnar niður í 55-65 km hraða, haldið jöfnu bili milli bifreiðanna og lækkað ljósin enda talið að háuljósin væru hinum ökumanninum til ama. Þegar hann var kominn skammt austur fyrir Landvegamót hafi hann orðið var við að hrossahópur  hafi komið stökkvandi fram með bifreiðinni hægra megin. Hann hafi þá strax dregið úr hraða bifreiðarinnar og sveigt til vinstri til að forðast hestana. Skyndilega hafi einn hestanna hlaupið í veg fyrir bifreiðina og lent á hægra horni hennar. Vitnið kvað 10-15 sekúndur hafa liðið frá því hann varð hestanna var þar til hesturinn lenti á bifreiðinni og hann hafi náð að bremsa. Vitnið, sem er bifreiðastjóri að atvinnu og fyrrverandi bóndi, sagði óalgengt í seinni tíð að stórgripir væru á Suðurlandsvegi. Vitnið Vigfús Ægir Vigfússon, sem var ásamt nokkrum vinnufélögum sínum á leið austur Suðurlandsveg, bar fyrir dómi að hann hafi ekið á milli 70 og 80 km hraða þegar hann kom að hópi hesta austan Landvegamóta. Hann kvaðst hafa bremsað og ekið hægar í gegnum hrossahópinn og kveikt á öllum stefnuljósum bifreiðarinnar stuttu eftir að hann var kominn fram hjá hópnum. Vitnið kvaðst hafa séð bifreið í baksýnisspeglinum og fullyrti vitnið að þar hefði verið á ferðinni bifreið stefnanda. Vitnið treysti sér ekki til segja til um aksturshraða bifreiðarinnar, en kvaðst hafa séð þegar bifreiðin varð eineygð. Vitnið, sem ekur daglega þarna um, kvaðst ekki áður hafa orðið var við laus hross á veginum.

Þar sem ekkert hefur komið fram í málinu sem hrekur framburði vitnisins Sigurgeirs um aðdraganda slyssins og sjálfan áreksturinn verður hann lagður til grundvallar en framburður vitnisins Sigurgeirs fær nokkra stoð í framburði vitnisins Vigfúsar. Verður því að miða við að vitnið Sigurgeir, hafi, þegar hann varð var við bifreið á undan á móts við Landvegamót, hægt ferðina, lækkað ökuljósin og ekið bifreið stefnanda á 55-65 km hraða þegar hann varð hestanna var og að nánast um leið hafi eitt hrossið stokkið fyrirvaralaust í veg fyrir bifreiðina. Er því ekki fallist á það með stefnda að ökumaður bifreiðar stefnanda hafi sýnt af sér gáleysi við aksturinn í umrætt sinn.

Stefndi hafnar því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni auk þess sem umfang þess sé með öllu ósannað. Stefndi hafnar því einnig að svokölluð „cabas tjónaskýrsla“, sem Þórarinn Jóhannsson bifvélavirki gerði, verði lögð til grundvallar í málinu. Áðurnefndur Þórarinn, sem gaf skýrslu fyrir dómi, staðfesti tjónaskýrsluna og að um hafi verið að ræða bifreið í eigu stefnanda en sagðist ekki hafa séð bílnúmerið. Vitnið Sigurgeir, ökumaður bifreiðarinnar, bar fyrir dómi að bifreiðin hafi verið óökufær eftir slysið en hrossið hafi lent á hægra frambretti bifreiðarinnar, kastast upp á húdd og síðan upp á topp bifreiðarinnar og hafnað utan vegar. Stefndi bar fyrir dómi að hægra frambretti, toppur og húdd bifreiðarinnar hafi verið „splundrað“ og enginn vafi hafi leikið á að bifreiðin hafi skemmst við slysið. Fær framburður þeirra stoð í merkingum um ákomur á bifreiðinni í lögregluskýrslu. Af framansögðu virtu telst því sannað að bifreið stefnanda hafi skemmst umrætt sinn. 

            Með málsókn þessari hefur stefnandi neytt heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita að svo stöddu dóms eingöngu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda. Í þeim tilgangi hefur stefnandi lagt fram tjónaskýrslu sem vitnið Þórarinn Jóhannsson bifvélavirki staðfesti fyrir dómi að hafa unnið, en í skýrslunni lagði vitnið mat á kostnað við viðgerð og kaup varahluta. Samkvæmt áðurgreindri lagagrein er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá sem höfðar mál samkvæmt áðurgreindri lagagrein verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, þ.m.t. um ástand bifreiðar stefnanda eftir slysið er það mat dómsins að stefnandi hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess að stefndi hafi með saknæmum hætti brugðist skyldum sínum sem vörslumaður hrossanna með þeim afleiðingum að hestur í hans umsjá átti greiða leið upp á fjölfarinn þjóðveg þar sem í gildi var bann við lausagöngu búfjár. Stendur 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi fyrir því að taka megi kröfu stefnanda til greina. Með vísan til þess sem að framan er rakið um aksturslag vitnisins Sigurgeirs er það mat dómsins að sök verði ekki skipt í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðin 1.000.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Sæmundar Jónssonar, á munatjóni stefnanda, Símonar Bergs Sigurgeirssonar, af völdum umferðarslyss þegar hross, sem stefndi var umráðamaður að, hlupu í veg fyrir bifreið í eigu stefnanda þann 5. janúar 2012.  

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.