Hæstiréttur íslands

Mál nr. 295/2008


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2009.

Nr. 295/2008.

Sverrir Guðjónsson

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

þrotabúi Tækja, tóla og byggingavara ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

Niðurfelling máls. Málskostnaður. Gjafsókn.

Mál S gegn þrotabúi T ehf. var fellt niður eftir samkomulagi aðila að öðru leyti en því að hvor aðili krafðist málskostnaðar úr hendi hins. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður, en gjafsóknarkostnaður S greiddist úr ríkissjóði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2008. Með bréfi 23. janúar 2009 lýstu aðilarnir því yfir að samkomulag hefði tekist um að fella málið niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað. Þeir krefjast hvor um sig málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi hins, en áfrýjandi gerir þá kröfu fyrir sitt leyti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Með vísan c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum er málið fellt niður.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sverris Guðjónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sverri Guðjónssyni, kt. 280973-5649, Hraunbæ 118, Reykjavík, gegn Mest ehf., (áður Steypustöðin ehf.) kt. 620269-7439, Malarhöfða 10, Reykjavík, og til réttargæslu, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 27. mars 2007.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð 2.628.861 kr., ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, frá upphafsdegi metinnar örorku 15. október 2004 til 6. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að samtals frádregnum 611.382 kr., sem stefndi eftir uppgjör hefur greitt inn á tjón stefnanda sem hér segir:

þann 13.02.2007

kr. 318.122                                                                     (dskj. 30, bls.1)

Þann 16.02.2007

kr. 37.370                                                                     (dskj. 30, bls.1)

Þann 14.11.2007

kr. 255.890                                                                     (dskj. 37)¹

 

kr. 611.382

¹Greiðsla 14.11.2007 kr. 47.042 var til lögmanns stefnanda vegna innheimtukostnaðar.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu, enda eru engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Helstu málavextir eru að stefnandi varð fyrir slysi á verkstæði hjá vinnuveitanda sínum, Steypustöðinni ehf., að Malarhöfða 10 í Reykjavík, hinn 14. október 2003.  Í umsögn Helga A. Nielsen, eftirlitsmanns hjá Vinnueftirliti ríkisins, segir m.a. að vinnueftirlitinu hafi borist tilkynning um slysið klukkan 11:05 þennan sama dag.  Hann hafi farið strax á staðinn ásamt Hafdísi Sverrisdóttur eftirlitsmanni.  Þá hafi lögreglan verið kvödd á staðinn og sjúkrabifreið.  Árni Már Ragnarsson verkstjóri og Ásgeir Eiríksson, er var sjónarvottur að slysinu, hefðu sýnt þeim aðstæður og lýst aðdraganda slyssins, en hinn slasaði verið fluttur á slysamóttöku

Í umsögninni segir að tildrög slyssins hafi verið þau að stefnandi og Ásgeir hafi verið að flytja tóman 400 lítra olíutank úr steypubíl milli svæða á verkstæðinu.  Þeir hafi haldið tankinum á milli sín þannig að Ásgeir hafi farið á undan en stefnandi á eftir.  Tankurinn hafi takmarkað útsýni stefnanda.  Þá segir að stefnandi hafi flækt buxnaskálm í stút, sem stóð neðarlega út úr loftpressu, er þeir fóru fram hjá henni.  Stefnandi hafi misst við það jafnvægið og dottið fram fyrir sig.  Þeir hefðu misst tankinn, en stefnandi náð að bera fyrir sig hendurnar og þungi líkamans lent á þeim.

Greint er frá því að lýsing á verkstæðinu hafi verið fullnægjandi; gólfið verið sæmilega hreint og ekki hált.  Orsök slyssins hafi verið að loftpressan hefði verið flutt inn á verkstæðið og sett það innarlega á gólfið að hún þrengdi gönguleiðina talsvert, jafnfram því sem tankurinn hafi byrgt stefnanda sýn á stút loftpressunnar.

Í læknisvottorði Svavars Haraldssonar, bæklunarskurðlæknis á Landspítala- háskólasjúkrahúsi, dagsettu 2. júlí 2004, er m.a. greint frá því að stefnandi hafi slasast 14. október 2003.  Hann hafi verið að mála olíutank, dottið niður á gólf og borið fyrir sig vinstri olnboga.  Þennan sama dag tjáist Svavar hafa séð stefnanda og greinir frá því að stefnandi hafa samdægurs verið vistaður á sjúkrahúsinu vegna slyssins.  Í vottorðinu segir m.a. að stefnandi sé í stöðugri sjúkraþjálfun á spítalanum, en hann sé enn óvinnufær með öllu.  Sjúkdómsgreiningin er: Mjög slæmt olnbogabrot vinstra megin og taugaáverkar.

Hinn 6. ágúst 2004 sendir Gunnar Pétursson hdl., deildarstjóri tjónasviðs hjá réttargæslustefnda, lögmanna stefnanda bréfi.  Þar segir m.a.:

Af hálfu félagsins hafa gögn málsins verið yfirfarin og er það álit félagsins að nægilega sé fram komið að slysið verði að hluta rakið til atvika, sem vátryggingartaki beri skaðabótaábyrgð á.  Á hinn bóginn telur félagið að tjónþoli hafi sjálfur ekki sýnt af sér nægilega aðgæslu í umrætt sinn og því sé rétt að hann beri þriðjung tjóns síns sjálfur.  Starfsmenn og aðrir sem eiga leið um vélaverkstæði mega almennt búast við ýmsum búnaði sem hindrað getur för manna og ber að sýna aðgæslu við ferð um slík verkstæði.  Tjónþoli mun hafa verið til aðstoðar á verkstæðinu nokkra daga og mátti hann því gera sér grein fyrir hættu á slíku, m.a. staðsetningar loftpressunnar, sem hefði átt að vera vel sýnileg við eðlilega aðgæslu.  Telur félagið að hann hefði átt að varast stút loftpressunnar þrátt fyrir byrði sína, enda ekki annað komið fram en að lýsing hafi verið góð á verkstæðinu.  Samkvæmt ofansögðu verður fallist á greiðsluskyldu að fullu úr slysatryggingu launþega og að 2/3 hlutum úr ábyrgðartryggingu Steypustöðvarinnar hf.

Með matsbeiðnum hinn 10. júní 2005 óskuðu Vátryggingafélag Íslands hf., Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Helgi Birgisson hrl. eftir mati Jónasar Hallgrímssonar læknis og Guðmundar Björnssonar læknis á afleiðingum tveggja slysa er stefnandi varð fyrir.  Því fyrra umferðarslysi 11. janúar 2002 er sneri að Vátryggingafélag Íslands hf. og því seinna vinnuslysi 14. október 2003 er hér um ræðir.  Matsgerðin er dagsett 19. júlí 2006.  Þar segir undir fyrirsögninni Almenn niðurstaða:

Í umferðarslysinu 11.01 2002 fékk Sverrir einkenni sem aðallega voru vegna vægrar hálstognunar.  Hann hefur enn einkenni frá þessu svæði með leiðslu út í herðar og í ofanvert brjóstbak og þykir líklegt að þau einkenni komi til með að geta skert vinnugetu hans lítillega.

Í vinnuslysi 14.10 2003 fékk hann slæmt og kurlað brot neðst í vinstri upphandlegg og náði það inn í liðinn.  Þar er nú skekkja og skertur hreyfiferill og kraftur og væg einkenni eru um áverka á ulnaris taug.  Miski vegna þessa er talinn vera nokkur.  Einkenni eru þess eðlis að þau munu geta haft talsverð áhrif á vinnugetu og þar með tekjur.

Matsmenn telja þó að meirihluti af núverandi óvinnufærni Sverris sé rekjanlegur til geðsjúkdóms sem hann hefur haft lengi og sömuleiðis langvarandi neyslu vímuefna og áfengis eins og kemur fram í vottorði geðlæknis hans.

Matsmenn telja ekki að geðraskanir Sverris sem komið hafa fram í kjölfar slysanna og einkum því seinna hafi haft áhrif á matsatriði skv. skaðabótalögum.

Mat samkvæmt skaðabótalögum:

Umferðarslys 11.01 2002(VÍS):

Tímabundið atvinnutjón:

Tímabundið atvinnutjón er ein vika að eigin sögn:

Þjáningar:

Þjáningatímabilið er talið vera einn mánuður án rúmlegu.

Batahvörf er sett 11.02 2002.

Varanlegur miski:

Varanlegur miski er metinn 5 stig, sbr. kaflann almenn niðurstaða.

Varanleg örorka:

Varanleg örorka er metin 5%, sbr. kaflann almenn niðurstaða.

Vinnuslys 14.10. 2003 (SJAL):

Tímabundið atvinnutjón:

Tímabundið atvinnutjón er talið vera 100% frá slysdegi 14.10.2003 til batahvarfa sem eru sett einum mánuði eftir að festingar voru fjarlægðar úr broti og losað var um taug eða 15.10 2004.

Þjáningar:

Tímabil þjáninga er talið vera frá 14.10.2003 til 15.10.2004 en þá var einn mánuður liðinn frá því að festingar voru fjarlægðar úr broti og losað var um taug.  tímabilið er nokkuð langt en ferill er þess eðlis að það er réttlætanlegt.  Á þessum tíma var Sverrir rúmliggjandi á sjúkrahúsi fyrst í sjö daga og síðan í tvo daga eð samtals í 9 daga.  Dvöl á Reykjalundi árið 2005 fellur utan tímabil fram að batahvörfum.

Batahvörf eru sett 15.10.2004.

Varanlegur miski:

Varanlegur miski er metinn 20 stig, sbr. kaflann almenn niðurstaða.

Varanleg örorka:

Varanleg örorka er metinn 20%, sbr. kaflann almenn niðurstaða.

Með bréfi til réttargæslustefnda, hinn 2. ágúst 2006, fór lögmaður stefnanda fram á bætur með vísun til matsgerðarinnar, en þar segir m.a.:

Tímabundið atvinnutjón, sjá yfirlit

1.703.998 kr.

Þjáningabætur

 

346 dagar fótaferð x 1.100

391.600 kr.

9 dagar rúmliggjandi x 2.060

18.540 kr.

Varanlegur miski 20% af 6.331.500

1.266.300 kr.

Varanleg örorka (kr. 1.701.000 x 12,59 x 20%)

4.283.118 kr.

Annað fjártjón, áætlun

100.000 kr.

Samtals

7.763.556 kr.

Við bætast vextir og innheimtuþóknun lögmanns.

Með hliðsjón af tekjusögu umbj. míns þrjú síðustu ár fyrir slys miða ég við lágmarksárslaun, sbr. 2. mgr. 7. gr. skbl.

Um annað fjártón vísast til þess að umbj. minn hefur þurft að sæta langtíma læknismeðferð vegna afleiðinga slyssins.

Í stefnu er greiðslum frá réttargæslustefnda og afstöðu stefnanda varðandi þær lýst með eftirfarandi hætti:

Hinn 6. september 2006 greiddi réttargæslustefndi stefnanda bætur, annars vegar úr slysatryggingu launþega kr. 762.733, og hins vegar kr. 3.180.306 úr ábyrgðartryggingu stefnda, en þar af voru kr. 272.529 kr. þóknun til lögmanns stefnanda.  Áður hafði réttargæslustefndi greitt stefnanda dagpeninga úr launþegatryggingu, samtals kr. 288.487 og samtals kr. 800.299 úr ábyrgðartryggingu uppí væntanlegar bætur.  Stefnandi tók við bótagreiðslum með fyrirvara um frekari kröfur.  Við uppgjör 6. september 2006 hélt stefnandi eftir kr. 326.970 vegna ætlaðs réttar stefnanda til dagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins og kr. 1.000.000 vegna áætlaðrar eingreiðslu frá sömu stofnun.  Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13 september 2006 var beiðni um slysaörorkumati synjað þar sem stefnandi væri á almennum örorkulífeyri (vegna andlegra veikinda).  Með bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 25. október 2006, var krafist leiðréttingar á uppgjöri stefnanda þar sem hann fengi ekki greiðslur frá almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins.  Með tölvupósti, dags. 4. desember 2006, hélt réttargæslustefndi því fram að frá bótum stefnanda bæri að draga ímyndaðan rétt hans til dagpeninga og eingreiðslu úr slysatryggingu almennatrygginga.  Því hafnar stefnandi, enda á hann ekki rétt til bóta úr slysatryggingu almannatrygginga á meðan hann nýtur almenns örorkulífeyris.

Í greinargerð stefnda er greiðslum frá réttargæslustefnda og afstöðu stefnda varðandi þær lýst með eftirfarandi hætti:

Þann 11. september 2006 greiddi réttargæslustefndi kr. 3.180.306,- úr ábyrgðartryggingu vegna slyssins og kr. 762.733,- í bætur vegna örorku úr slysatryggingu launþega.  Þann 15. september greiddi réttargæslustefndi síðan eftirstöðvar af bótum vegna tímabundins atvinnutjóns til stefnanda, kr. 128.765,-.  Samtals hafði réttargæslustefndi því greitt stefnanda kr. 4.71.804, sbr. dskj. 18.  Til viðbótar við framangreindar greiðslur innti réttargæslustefndi af hendi til stefnanda greiðslu að fjárhæð kr. 281.991 vegna leiðréttingar á greiðslu fyrir varanlega örorku ásamt greiðslu að fjárhæð kr. 36.131,- vegna vaxta af greiðslu úr ábyrgðartryggingu, samtals kr. 318.122.  Þessa greiðslu innti réttargæslustefndi af hendi þann 13. febrúar 2007.  Þá greiddust jafnframt þann 16. febrúar 2007 kr. 37.370,- vegna tímabundins atvinnutjóns.  vísast til tölvubréfs réttargæslustefnda til lögmanns stefnanda, dags. 4. desember 2006 á dskj. nr. 27, varðandi nánari útskýringar á þessum leiðréttingum sem og greiðsluyfirlitsbablaðs á dskj. nr. 30.

Á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993 hélt réttargæslustefndi eftir greiðslum að fjárhæð samtals kr. 1.270.918,- þegar stefnanda voru greiddar fullnaðarbætur vegna slyssins.  Greiðslunni hélt réttargæslustefndi eftir vegna þess að samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar á stefnandi skýlausan rétt til greiðslna örorkubóta og sjúkradagpeninga vegna slyssins.  Þar sem stefnandi hefur ekki verið metinn til örorku af Tryggingastofnun ríkisins vegna slyssins, hélt stefnandi eftir kr. 1.000.000,- vegna örorkubóta en um matskennda fjárhæð er að ræða.  Réttur stefnanda til greiðslu sjúkradagpeninga nemur hins vegar kr. 270.918,-, sbr. 38. gr. laga um almannatryggingar.  Stefnandi tók á móti framangreindum bótagreiðslum frá réttargæslustefnda með fyrirvara bæði sakarskiptingu og rétt réttargæslustefnda til að halda eftir greiðslum vegna réttar stefnanda til greiðslna frá Tryggingastofnun.

Hinn 7. febrúar 2007 skaut lögmaður stefnanda þeirri ákvörðun réttargæslustefnda, að bæta aðeins tjón stefnanda að 2/3 hlutum vegna ætlaðrar eigin sakar hans, til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.  Úrskurður nefndarinnar er dagsettur 16. mars 2007.  Þar segir undir fyrirsögninni Álit:

Vátryggingafélagið hefur fallist á greiðsluskyldu sína sem nemur 2/3 hlutum.  Álitaefni máls þessa er hvort M skuli bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.  Starfsmenn geta ekki reiknað með því að gönguleiðir séu án hindrana.  Á verkstæði má gera ráð fyrir hlutum sem lagðir hafa verið til hliðar t.d. verkfærri og tækjabúnaður líkt og var í þessu tilviki.  Starfsmenn verða að gæta aukinnar aðgæslu vegna þessa og ganga úr skugga um hvort leiðin sé greið.  Á því varð misbrestur.  Þegar tekið er mið af framanrituðu og fyrirliggjandi gögnum ber M hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.  Hann hefði þurft að gæta aukinnar aðgæslu því útsýni hans var takmarkað.  Þessa gætti hann ekki nægilega.  Með hliðsjón af framanrituðu og fyrirliggjandi gögnum ber M 1/3 hluta tjóns síns sjálfur vegna eigni sakar.

Niðurstaða.

Vátryggingafélagið er greiðsluskylt sem nemur 2/3 hlutum, M ber 1/3 sjálfur vegna eigin sakar.

Stefnandi vísar til þess að ágreiningslaust sé að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Hann byggir á því að slysið verði eingöngu rakið til óforsvaranlegra aðstæðna á vinnustað.  Stefnda hefði borið að tryggja að vinnustaðurinn væri þannig að gætt væri fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.  Ef reglum hefði verið fylgt hefði slysið ekki orðið.  Ljóst væri að slysið sé alfarið sök stefnda eða aðila sem stefndi beri ábyrgð á.  Útilokað sé að líta svo á að stefnandi eigi sjálfur sök á slysinu.  Í öllu falli væri sök stefnda svo yfirgnæfandi í samanburði við ætlað aðgæsluleysi stefnanda að engin rök séu til þess að leggja hluta sakar á hann.

Stefnandi sundurliðar tölulega endanlegar dómkröfur sínar þannig:

Stefnukrafan sundurliðast nánar þannig:

 

Tímabundið atvinnutjón

1.703.998 kr.

Þjáningabætur

356 dagar fótaferð x 1.110

 

395.160 kr.

9 dagar rúmliggjandi x 2.060

18.500 kr.

Varanlegur miski af 6.353.500

1.270.700 kr.

Varanleg örorka

4.281.077 kr.

Samtals

7.663.556 kr.

Innborganir réttargæslustefnda inná tjónið

sundurliðast þannig (dskj. 30):

 

Vegna tímab. tekjutaps 10. sept. 2004

363.278 kr.

Vegna tímab. tekjutaps 26. nóv. 2004

237.021 kr.

Aðrar innborganir fyrir 6. sept 2006

200.000 kr.

Vextir af innborgunum m.v. 6. sept. 2006

10.394 kr.

Greitt úr ábyrgðartryggingu 6. sept. 2006

2.907.777 kr.²

Greitt úr slysatryggingu launþ. 6. sept. 2006

762.733 kr.

Greiddir dagpeningar úr slysatryggingu

288.487 kr.

Dagpeningar frá TR (dskj. 33)

265.005 kr.

 

5.034.695 kr.

Samtals stefnukrafan

2.628.861 kr.

²Samtals var greitt kr. 3.180.306, en þar af var til lögmanns stefnanda innheimtukostnaður kr. 272.529 m. vsk. (2.909.777+272.529=3.180.306).

Vísað er til þess að stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda 1. ágúst 2003, en slasast 14. október 2003.  Laun hans á þessum tíma hafi verið sem hér segir:

1.-14. ágúst 2003

74.273 kr.

15.-28. ágúst 2003

110.656 kr.

29. ágúst-11. sept. 2003

78.038 kr.

12.-25. september 2003

97.294 kr.

26. sept.-9. okt. 2003

93.375 kr.

10.-23. október 2003

99.019 kr.

Samtals

552.655 kr.

Bent er á að meðalvikulaun stefnanda hjá stefnda hafi verið 46.054 kr.  Hafi hann haldið launum hjá stefnda til 1. febrúar 2004.  Tekjutap hans frá 1. febrúar 2004 til 16. október 2004 svari til 1.703.998 kr. (37 vikur x 46.054).  Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé horft til lágmarks árslaunaviðmiðunar 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og um kröfu um bætur vegna þjáningar og varanlegs miska sé vísað til 3. og 4. gr. skaðabótalaga.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi verði sjálfur að bera „eftirstandandi“ tjón sitt að fullu vegna eigin sakar.  Stefnandi hefði ekki gætt sín svo sem ætlast mátti til í umrætt sinn.

Stefndi vísar til þess að slysið hafi orðið á verkstæði stefnda.  Loftpressan, sem stefnandi féll um, hafi verið á gólfi verkstæðisins og af ljósmyndum af staðnum, dskj. nr. 23, verði glögglega ráðið að vinnuvél var á verkstæðisgólfinu nálægt loftpressunni, en vinnuvélin hafi verið færð inn á verkstæðið til viðgerðar.  Engin sérstök gönguleið hafi því milli loftpressunnar og vinnuvélarinnar sem hefði verið aðþrengd.  Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að bera olíutankinn þessa leið án þess að hún væri sérstaklega ætluð sem útgönguleið.  Engin sérstök hætta hefði stafað af loftpressunni á þessum stað fremur en öðrum.  Stútur loftpressunnar hefði staðið út fyrir hana, hvar sem hún hefði staðið, og þannig skert gönguleið þess sem ákvað að ganga fram hjá henni.  Óhjákvæmilegt hefði verið að þröngt væri á vissum stöðum á verkstæðisgólfinu.

Stefndi byggir á því að starfsmenn verkstæðisins hefðu ekki getað gengið út frá því sem vísu að gönguleiðir á verkstæðisgólfinu væru alfarið án hindrana, enda væri ljóst að á slíkum stöðum væru verkfæri og ýmis tækjabúnaður mikið í notkun.  Stefnandi hefði unnið á verkstæðinu fyrir slysið og þekkt aðstæður.  Hann hefði því fyrir fram átt að ganga úr skugga um hvort leiðin væri greið, ekki síst vegna þess að tankurinn, sem hann bar, byrgði honum sýn.  Hafi hann þannig sýnt verulegt aðgæsluleysi þegar hann ákvað að velja þessa gönguleið án þess að kynna sér fyrir fram hvort hún væri greið.

Vísað er til umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um vinnuslysið þar sem greint er frá því, að lýsing á verkstæðinu hafi verið fullnægjandi og gólfið sæmilega hreint og ekki hált.  Í því sambandi er staðhæft af hálfu stefnda, að stefnandi hefði mátt gera sér grein fyrir stútnum áður en hann fór af stað með olíutakinn í höndunum.

Bent er á að stefnandi hafi verið 30 ára gamall þegar slysið varð og hefði unnið hjá stefnda sem vörubifreiðarstjóri og jafnframt á verkstæðinu af og til.  Í ljósi aldurs hans, þekkingar og reynslu, hafi honum mátt vera fullkunnugt um aðstæður og þörf aðgæslu við vinnuna.

Stefndi hafnar því að stefnandi eigi rétt á að fá greidda þá fjárhæð, sem réttargæslustefndi hélt eftir við uppgjör á bótum vegna slyssins.  Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi greiðslur, sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, að dragast frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns.  Taki þetta bæði til örorkubóta og slysadagpeninga.  Réttur stefnanda til greiðslu örorkubóta frá tryggingastofnun sé skýr og skipti þá engu þótt stefnanda hafi verið synjað um greiðslu bótanna með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. september 2006, sbr. dskj. nr. 14.  Synjun tryggingastofnunarinnar sé alfarið byggð á því að stefnandi hafi verið metinn til örorku og matið gildi til 30. júní 2010, en á þeim tíma eigi stefnandi rétt á greiðslu örorkulífeyris vegna andlegra veikinda.  Ljóst sé að stefnandi eigi rétt á örorkubótum vegna slyssins eftir 30. júní 2010 og af þeim sökum beri að draga þessar greiðslur frá bótum vegna slyssins.  Réttargæslustefndi hafi áætlað að rétturinn til þessara greiðslna sé að fjárhæð 1.000.000 kr. og verði að telja hann hóflega áætlaðan.  Réttur stefnanda til að fá greidda sjúkradagpeninga sé augljós, enda hafi stefnanda ekki verið synjað um þá.  Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 13. september 2006, hafi stefnandi eingöngu sótt um greiðslu vegna örorku sinnar.  Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi sótt um sjúkradagpeninga, en ljóst sé að réttur stefnanda til örorkulífeyris á tímabilinu 27. júní 2005 til 30. júní 2010 hafi ekki áhrif á rétt stefnanda til sjúkradagpeninga, þar sem stefnandi átti rétt á þeim greiðslum áður en hann hóf að þiggja örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.  Réttur stefnanda til sjúkradagpeninga sé að fjárhæð 270.918 kr.  Réttargæslustefndi haldi því eftir samtals 1.270.918 kr.

Varakröfu um verulega lækkun byggir stefndi í fyrsta lagi á því að verði ekki fallist á að stefnandi beri þriðjung tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar, þá verði honum samt gert að bera einhvern hluta tjóns síns sjálfur að mati dómsins.  Í því sambandi er vísað til áður greindra röksemda stefnda um eigin sök stefnanda.  Í öðru lagi er vísað til þess að réttargæslustefndi hafi greitt samtals 4.154.767 kr. inn á tjón stefnanda að frátalinni lögmannsþóknun og frátöldum virðisaukaskatti, sbr. dskj. nr. 30.  Upptalning í stefnu á innborgunum réttargæslustefnda inn á tjón stefnanda sé því röng.  Byggt sé á því að við útreikninga á bótakröfu stefnanda beri að taka fullt tillit til þeirra greiðslna sem réttargæslustefndi hefur innt af hendi til stefnanda.  Í þriðja lagi er mótmælt vaxtakröfu stefnanda skv. 16. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993.  Ljóst sé að stefnandi eigi ekki rétt á vöxtum skv. 16. gr. nema af þeirri fjárhæð sem ógreiddar bætur nema.  Stefnandi hafi fengið vexti greidda skv. 16. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 305.201 kr. í september 2006, auk þess sem hann hafði áður fengið greiddar 10.394 kr. í vexti.  Þá hafi hann jafnframt fengið vaxtagreiðslu að fjárhæð 36.131 kr. hinn 13. febrúar, sbr. dskj. nr. 30.  Samtals nemi því vaxtagreiðslur til stefnanda 351.726 kr.  Stefnandi hafi þar með fengið vexti greidda að fullu í samræmi við greiðsluskyldu stefnda.

Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda að því leyti að ekki sé tekið tillit til greiðslu réttargæslustefnda úr slysatryggingu launþega.  Stefnandi geti ekki krafist vaxta ofan á skaðabótakröfu sína að meðtalinni fjárhæð bóta úr slysatryggingu launþega, en stefnanda beri að draga hana frá höfuðstól skaðabótakröfunnar áður en vextir séu reiknaðir þar sem greiðsla úr slysatryggingu teljist til frádráttarbærrar greiðslu samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði starfað sem steypubílstjóri hjá stefnda.  Hann hafi verið að vinna á verkstæði steypustöðvarinnar hinn 14. október 2003 er hann slasaðist.  Hann hafi verið beðinn um að vinna með Ásgeiri Eiríkssyni við að skipta um tank í bifreið.  Stefnandi kvaðst vera ómenntaður, einungis með grunnskólapróf og að hluta vélvirkja, en Ásgeir væri bifvélavirki.

Stefnandi sagði að þeir hefði lokið við að rífa tank úr bifreiðinni, sem þeir voru að gera við, og hafi verið að ná í nýjan tank, sem var hinum megin á verkstæðinu.  Á leiðinni til baka með nýja tankinn hefði hann flækt löppina í og hrasað.  Til að sækja tankinn hefðu þeir farið hefðbundna gönguleið.  Aðstæður á staðnum hefðu verið þannig að bil voru þarna og hafi þeir verið í ysta bilinu og tankurinn lengst hinum megin.  Hafi þeir gengið þangað og tekið tankinn upp og gengið með hann til baka og þá hafi hann lent í þessu á leiðinni.  Ekki hafi verið um aðra leið að fara með tankinn nema að fara með hann út á plan út um aðrar dyr þarna og fram fyrir bilin og inn aftur hinum megin.

Stefnandi sagði að hann og Ásgeir hefðu haldið á tanknum milli sín.  Ásgeir hafi gengið á undan en hann á eftir og því haft skerta sýn á loftpressuna sem hann datt um.  Hann hefði ekki verið varaður við að stútur stæði út úr pressunni.  Loftpressan hafi verið færanleg vinnuloftpressa.  Hann kvaðst ekki vita hvers vegna pressan var staðsett á þessum stað á þessum tíma.  Þeir hefðu ekki verið að nota hana.

Stefnandi kvaðst á þessum tíma hafa verið búinn að vinna hjá stefnda frá því um verslunarmannahelgina.  Hann hefði á tímabilinu unnið í nokkur skipti á verkstæðinu.  Frágangur á verkstæðinu hafi verið eins þar er, fullt af varhlutum og bifreiðum og dóti út um allt.  Hann hafi ekki vitað til þess að hlutum væri komið fyrir eftir einhverju kerfi.  Hann sagði að leiðin sem hann og Ásgeri fóru hafi verið aðalgönguleiðin.

Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 23, sem er skýrsla lögreglunnar í Reykjavík um slysið 14. október 2003 ásamt ljósmyndum á tveimur blöðum.  Vísað var til efri myndar á blaði eitt og spurt hvort þetta hafi ekki verið leiðin, sem hann og Ásgeir völdu, á milli loftpressunnar og vélar vinstra megin við hana.  Stefnandi kvað það vera rétt.  Þá var spurt hvort þetta hafi verið algengasta leiðin í gegnum verkstæðið.  Stefnandi kvað svo vera.  Hann kvaðst oft áður hafa gengið þarna á leið sinni um verkstæðið.  Þá var spurt hvort hann hefði gengið þessa leið áður en slysið varð þennan sama dag.  Kvaðst stefnandi halda að hann hafi gert það.  Hann kvaðst ekki muna hvort loftpressan hefði þá verið á sama stað og hún var þegar hann slasaðist.  Hann kvaðst ekki munu hvað lengi hún hafði verið þarna.  Hann kvaðst ekki hafa kannað leiðina áður en hann og Ásgeir tóku til við að flytja tankinn.  Hann kvaðst ekki muna hvort kostur hefði verið á greiðri leið.  Hann kvaðst ekki hafa séð vel fram fyrir sig er hann bar tankinn.  Hann kvaðst halda að þeir hefðu farið þessa sömu leið þegar þeir fóru að ná í tankinn.

Vísað var til þess að fram kæmi málinu að hann nyti svokallaðs almenns örorkulífeyris hjá Tryggingarstofnun ríkisins og spurt var frá hvaða tíma hann nyti hans og hvenær hann hefði verið metinn örorkulífeyrisþegi.  Stefnandi sagði að það hefði verið 2005 og væri hann metinn til ársins 2010.  Þá fari fram endurmat á örorku.

Ásgeir Eiríksson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði verið að vinna við bíl, olíutankur hefði skemmst, hráolíutankur.  Stykkið væri u.þ.b. 60 x 1.60 á stærð.  Hann kvað stefnanda hafa aðstoðað sig við að rétta undirstöður undir tankinn.  Síðan hafi þeir tekið tankinn á milli sín, sem væri u.þ.b. 23-27 kg, og gengið af stað.  Á leiðinni hafi verið dót, eins og gengur á verkstæðum.  Í þessu tilviki hafi verið tekið inn dót úr starfstöð upp í Kollafirði, sem lögð hafði verið niður.  Þar á meðal hafi verið loftpressa, ein og þrjátíu á hæð.  Um sívalan kút væri að ræða sem væri u.þ.b. tveir metrar að lengd.  Út úr honum hafi staðið rörbútur, sem stefnandi datt um.

Ásgeir sagði að hann og stefnandi hefðu borið tankinn á milli sín.  Sjálfur hefði hann gengið á undan og haldið undir tankinn aftur fyrir sig.

Lagt var fyrir Ásgeir dskj. nr. 23, sem áður var getið.  Vísað var til ljósmyndar, sem er hluti af skjalinu, og bent á loftpressu sem þar sést.  Spurt var hvaða vél væri á myndinni vinstra megin við loftpressuna.  Ásgeir sagði að þetta væri gamall krani sem notaður hafi verið til að létta störf á verkstæðinu.

Ásgeir sagði að loftpressan hefði komið úr starfstöð, sem lögð hefði verið niður.  Til hafði staðið að yfirfara hana áður en hún væri látin fara.  Pressan hafi ekki verið notuð á verkstæðinu.  Ásgeir sagði að gólfflötur verkstæðisins hafi verið u.þ.b. 20 x 50 metrar.  Heilmörg tæki hafi verið þarna eins og óhjákvæmilega fylgi svona rekstri.  Engin regla hefði verið um hvernig tækjunum var komið fyrir á gólfinu en yfirleitt hafi þau verið sett þannig að vinnupláss væri í kringum þau.

Spurt var hvort hann og stefnandi hefðu farið áður umrædda leið þennan dag áður enn þeir fóru með tankinn.  Ásgeir sagði að svo hefði verið.

Þegar þeir báru tankinn áleiðis að bifreiðinni, sem var til viðgerðar, kvaðst Ásgeir hafa valið leiðina.  Þetta hefði verið stysta leiðin.  Ásgeir kvaðst hafa vitað af stútnum á dælunni.

Ásgeir kvaðst vera lærður bifreiðasmiður.  Hann kvað stefnanda hafa verið steypubifreiðarstjóra hjá stefnda, en hann hefði unnið þennan dag við að aðstoða sig.  Hann hafi ekki vakið athygli stefnanda á stútnum.  Hann kvað þá, sem vinna að jafnaði í svona umhverfi, finnast allt í þá veru eðlilegt.  Ásgeir kvaðst halda að leiðin sem þeir ætluðu að fara með tankinn hafi verið u.þ.b. 30 metrar.

Ásgeir kvað loftpressuna hafa verið þarna í nokkra daga áður en slysið varð.

Árni Már Ragnarsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann væri verkstjóri á bílaverkstæði stefnda.  Hann kvaðst ekki hafa séð þegar stefnandi slasaðist.  Þegar hann kom fyrst að stefnanda eftir slysið, kvað Árni Már stefnanda hafa verið komið fyrir inni á lager verkstæðisins.  Hann hafi strax séð að mikið var að því að önnur hönd stefnanda, framhandleggur, var ekki í réttum skorðum.  Strax hafi verið hringt á sjúkrabíl.

Lagt var fyrir Árna Má dskj. nr. 23, sem áður er getið.  Vakin var athygli hans á ljósmyndum er þar fylgja og bent á loftpressu, sem stefnandi hrasaði um, og spurt var hvaða vél væri við hliðinni á henni.  Árni Már sagði að það væri færanlegur rafmagnskrani sem hefði verið á ýmsum stöðum í húsinu eftir verkefnum.  Loftpressan hafi verið þarna vegna þess að þeir hefðu verið að leggja niður starfstöð á Kjalarnesi.  Staðið hafi til að lagfæra hana.  Pressan hafi síðan verið seld.  Hún hafi ekki verið í notkun á verkstæðinu.

Árni Már sagði að verkstæðið hefði verið u.þ.b. 1.000 fm að gólffleti.  Slysið hafi orðið í 400 fm sal á verkstæðinu.  Pressan hafi verið staðsett þarna vegna þess að á þessum stað hafi bifreiðar ekki verið teknar inn til viðgerðar.  Hann sagði að leiðin, sem stefnandi og Ásgeir fóru með tankinn, hafi ekki verið sérstök gönguleið um verkstæðið.  Á verkstæðum væri alltaf verið að ganga á milli tækja.  Loftpressan hafi verið búin að vera þarna í nokkra daga áður en stefnandi slasaðist.

Árni Már sagði að unnt hefði verið að fjarlægja stútinn á pressunni, sem stefnandi féll um.  Eftir slysið hefði pressan verið fjarlægð.

Ályktunarorð:  Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins um slys stefnanda er m.a. greint frá því að vinnueftirlitinu hafi borist tilkynning um slysið á verkstæði stefnda klukkan 11:05 sama dag og slysið varð hinn 14. október 2003.  Eftirlitsmenn fóru strax á staðinn og skoðuðu aðstæður og töluðu við Ásgeir Eiríksson, sem varð vitni að slysinu, og Árna Má Ragnarsson verkstjóra.  Þeir sýndu eftirlitsmönnunum aðstæður og lýstu aðdraganda slyssins eins og nánar greinir í umsögninni.

Upplýst er að stefnandi var að aðstoða Ásgeir Eiríksson bifreiðasmið við að skipta um olíutank í bifreið umræddan dag.  Nýja tankinn sóttu þeir á annan stað í verkstæðinu og voru að bera hann á milli sín til baka að bifreiðinni þegar slysið varð.

Í umsögn vinnueftirlitsins um aðstæður á slysstað segir að lýsing á verkstæðinu hafi verið fullnægjandi, gólfið sæmilega hreint og ekki hált.  Af ljósmyndum af aðstæðum á slysstað, er liggja fyrir í málinu, verður ekki ráðið að stútur, er stóð út úr loftpressu, er sést á myndunum, hefði átt að leynast fyrir mönnum er þar fóru um, en það var þessi stútur, sem varð stefnanda að falli, þegar hann gekk ásamt Ásgeiri til baka með tankinn.  Hafi stefnandi ekki séð stútinn á loftpressunni, er hann bar tankinn með Ásgeiri, verður samt að ætla að hann hafi ekki dulist honum áður, t.a.m. þegar hann fór frá bifreiðinni, sem hann var að vinna við þennan morgun, til að sækja tankinn.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á með stefnda að stefnandi beri þriðjung tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila yfir að ekki væri tölulegur ágreiningur í málinu.

Rétt þykir, með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að málskostnaður milli aðila falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Helga Birgissonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Mest ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sverris Guðjónssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.